1.6.2009 | 10:46
Hvað varð um upprisu holdsins?
Ég er svona típa sem fæ ýmsa hluti á heilann þegar minnst varir. Um daginn var ég á nemendatónleikum í Nýa tónlistarskólanum þar sem frábærir krakkar sýndu listir sýnar á hin ýmsu hljóðfæri. Allt gekk vel þangað til cellóleikari nokkur steig á sviðið. Cellóleikarinn stóð sig vel það vantaði ekki, en einhvern veginn fékk ég þá flugu í hausinn að fara að spyrja sjálfan mig að því hvort celló væri stór fiðla eða hvort celló væri lítill kontrabassi. Ég losnaði ekki við þessa spurningu og þegar fjölskyldan var að keyra heim stóðst ég ekki mátið og spurði upphátt hvort celló væri stór fiðla eða lítill kontrabassi? Konan mín sagði að stór fiðla héti víóla. Þetta bjargaði mér ekki því án þess að hugsa breyttist þá spurningin í það að fyrst að víóla væri stór fiðla er þá celló stór víóla eða lítill kontrabassi? Það var eins og við mannin mælt að málið var rökrætt alla leiðina heim og ekki laust við að pirrings gætti í minn garð af einum fjölskyldumeðliminum.
Nema hvað ég losnaði nokkrum dögum síðar við þessa spurningu úr hausnum á mér þegar vinkona dóttur minnar sagði mér að líklega væri celló bara stór fiðla. Við skyldum ganga út frá því að svo stöddu. Mér var létt, en það stóð ekki lengi.
Ég var staddur í fermingarmessu í dómkirkjunni á hvítasunnudag þegar önnur spurning kom upp og situr nú föst í höfðinu á mér.
Þetta var prýðileg messa, þarna þjónuðu tveir prestar sem fóru með rútínuna sína að mestu stóráfallalaust (rugluðust bara einu sinni á nöfnum fermingarbarna) en voru að öðru leita svona svipaðir í fasi og framkomu og Glámur og Skrámur ef einhver man eftir þeim og töluðu svona soldið við fermingarbörnin eins og umsjónarmenn Stundarinnar okkar hafa gert við börnin undanfarna áratugi. En þetta var samt bara fínt hjá þeim.
En svo kom að því. Söfnuðurinn fór með trúarjátninguna og svo kom að setningunni "upprisa mannsins og eilíft líf" og þá kom spurningin sem ég losna ekki við: Hvað varð um upprisu holdsins og eilíft líf?
Þegar ég var að berjast við að reyna að vera kristinn í sunnudagaskólanum í Keflavík forðum daga var sagt í trúarjátningunni "upprisa holdsins og eilíft líf." Hvað varð eiginlega um þetta holdris sem við krakkarnir lærðum um. Er einhver sem getur svarað því?
JB
30.5.2009 | 17:34
Ögmundur Jónasson tjaldar í Central Park
Það er ekki hægt annað en dást að hugsjónaeldi Ögmundar Jónassonar. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því sem maður vissi nú reyndar að hann þiggur ekki ráðherralaun á þessu ári þar sem hann hefur sagt að þingfararkaupið sé alveg prýðilegt. Hvenær hefur maður heyrt fólk tala af slíkri nægjusemi þegar laun eru annarsvegar. Þetta brenglaða pakk sem þáði miljónir á mánuði í fjármálastofnunum var næstum því búið að koma því að hjá þjóðinni að það væri bara sjálfsagt og eðlilegt að launamunurinn í samfélaginu væri svo mikill að enginn hefði ímyndunarafl til að skilja muninn.
En nú er semsagt Ögmundur einn af örfáum ef ekki sá eini sem vinnur markvisst í því að rétta af þessa skekkju, þessa röngu hugmynd um launakjör og lífsstíl sem blómstraði árið 2007. Fréttablaðið greinir líka frá því að hann lætur sér ekki nægjusemina í launamálum duga heldur "pakkar" hann sér saman eins og liðugur jógi á meðal almennings þegar hann ferðast með flugvélum. Það er ekkert saga class kjaftæði í gangi.
Í framahaldi af þessum Ögmundartíðindum Fréttablaðsins hvarflar hugurinn óneitanlega til "barnanna sem tóku völdin" í Havana 1958 (athugið að þetta er orðalag sem Jean-Paul Sartre notaði um nýju valdhafana á Kúbu á þeim tíma sökum ungs aldurs þeirra) og heimtuðu afnám misskiptingar og sérhagsmunagæslu. 1960 hótaði hópurinn því að slá upp tjaldbúðum í Central Park þegar þing Sameinuðu þjóðanna var sótt í stað þess að gista á hóteli. Ögmundur tæki sig vel út með grasrótinni í tjaldi í Central Park ef hann þyrfti til New York að fara.
Burtséð frá öllum tjaldpælingum þá ættu samráðherrar hans í ríkisstjórn að taka hann sér til fyrirmyndar. Ef það eru ekki nákvæmlega frábærar aðstæður í samfélaginu núna fyrir ráðherra ríkisstjónarinnar að láta af stofukommúnismanum og fara í Che Guevara stælinn þá veit ég ekki hvenær það ætti að gerast. (athugið að lesa má skilgreiningu á stofukommúnisma í orðabók um slangur eftir Mörð, Svavar og Örnölf sem út kom 1982)
Lifi byltingin.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.5.2009 kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.5.2009 | 15:02
Menntamálaráðherra, fjölmiðlalæsið og gagnrýnin hugsun
Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag var viðtal við menntamálaráðherra um gagnrýna hugsun ungs fólks og mikilvægi fjölmiðlalæsis. Fram kom að ráðherra telur að almennt skorti á að kenna ungu fólki að rýna í fjölmiðla með gagnrýnu hugarfari og vel komi til greina að úrbætur verði gerðar.
Þetta eru vissulega gleðileg tíðindi og orðið löngu þarft að efla gagnrýna hugsun með unga fólkinu, en þar hafa íslenskir grunnskólar brugðist með örfáum undantekningum þó.
En það er ekki úr vegi að upplýsa ráðherrann og aðra um það að Siðmennt hefur a.m.k. s.l. 12 ár ef ekki lengur séð til þess að ungt fólk sem sækir undirbúningsnámskeið vegna borgaralegra ferminga hefur fengið kennslu í gagnrýnni hugsun og hvernig henni má beita við lestur fjölmiðla.
Nú er bara að yfirvöld menntamála hafi samband við Siðmennt og læri af þeirri reynslu sem fyrir er.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2009 | 12:09
"Hættu að vera svona fúll maður." Smá pæling um staksteina Moggans og fall Dags á mætingu.
Eins og gengur kemur það fyrir einstaka sinnum að ég fer fram úr rúminu öfugu megin. Ég hef þó ekki fengið að komast upp með það mjög lengi því börnin mín hnippa í mig samstunds og þau átta sig á því og segja "hættu að vera svona fúll maður". Það er ekki þægilegt að fá svona fyrirskipun "hættu að vera svona fúll maður". Það er ekki laust við að maður skammist sínu pínkulítið fyrir það að vera svona fúll og oftar en ekki reyni ég að skríða upp í rúmið aftur til þess eins að fara nú réttum megin fram úr.
Nema hvað, einn er sá höfundur sem þyrfti á aðstoð barnanna minna að halda og það er höfundur eða höfundar Staksteina Moggans. "Hættu að vera svona fúll maður" þyrfti sá ágæti höfundur að fá að heyra en fýlan er það sem helst einkennir skrifin. Ég veit að viðkomandi veit það sjálfur enda skrifar hann ávallt nafnlaust sem merkir hugsanlega að viðkomandi skammast sín fyrir sjálfan sig og eigin skrif. Það er slæmt og ber ekki merki um góða sjálfsmynd. Staksteinahöfundur þyrfti, fyrir utan það að komast í kynni við börnin mín að tileinka sér speki stóumanna sem m.a. sögðu "Ekki eru það atburðirnir sjálfir, sem áhyggjum valda, heldur horf manna við þeim." (Epiktet)
Í dag sunnudag er ekkert lát á fýlunni, nema hvað ég held bara að ég sé í fyrsta sinn á ævinni sammála höfundi Staksteina. Og er ég ekki með hita, undarlegt nokk.
Höfundur Staksteina ræðir forföll borgarfulltrúans Dags B. Eggertssonar á fundi á vegum boragrinnar sem hann þiggur samt laun fyrir. Þetta er ekki gott mál, að greiða fyrir fundarsetu sem ekki er setin. Ég held að margir sem starfa í nefndum og ráðum á vegum borgarinnar hafi þegið laun fyrir fundi sem þeir hafa ekki setið. Ástæðurnar fyrir forföllum geta verið ýmsar og sumar ef ekki flestar eðlilegar. Sjálfur hef ég á þessu kjörtímabili setið í barnaverndarnefnd fyrri hluta kjörtímabils og þann seinni í mannréttindaráði og vissulega hafa komið upp þau tilvik að ég hef ekki getað mætt, en fengið greitt engu að síður. Þessu þarf að breyta. Ég trúi ekki öðru en að flokkarnir allir ættu að geta sameinast um það að breyta fyrirkomulaginu þannig að laun fyrir nefndarstörf lækki í samræmi við minni fundarsetu. Hafa ber þó í huga að það að starfa í nefnd á að fela í sér annað og meira heldur en aðeins að mæta á fundi, maður þarf líka að vinna á öðrum vettvandi heldur en á fundum að málaflokknum og ekkert óeðlilegt að fyrir það sé greitt, en forföll á fundi ætti að hafa þau áhrif að launin lækki að einhverju leiti.
Nú er einmitt tækifæri til að breyta þessu fyrirkomulagi enda full þörf fyrir borgina að spara aurinn. Ég trúi ekki öðru en að flokkarnir geti náð samkomulagi um málið. Hvernig stígum við næsta skref í málinu? Hver ætlar að taka það upp innan borgarkerfisins?
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.5.2009 | 12:00
Framlag framsóknarmanna til vanda heimila og fyrirtækja
Þá vitum við hvert framlag Framsóknarflokksins til vanda heimila og fyrirtækja í landinu er. Lausnin felst í því að berjast fyrir herbergi flokksins á Alþingi til margra ára. Mikið getur alþýða landsins nú verið framsókn þakklát fyrir framlagið til betra samfélags.
Kærar þakkir Framsóknarflokkur fyrir að leggja ykkar að mörkum til betra samfélags.
JB
Þeir sitja sem fastast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Í fréttum sjónvarpsins í gær var greint frá tillögu ungmennaráðs borgarinnar þar sem lagt er til að ungmenni í grunnskólum borgarinnar fái fjármálafræðslu. Í grundvallaratriðum þarf fjármálafræðsla fyrir ungt fólk fyrst og fremst að felast í því að efla með sér gagnrýna hugsun og heilbrigt verðmætamat, þ.e.a.s. átta sig á þörfum og gerviþörfum og skaðsemi velmegunar. Svo þegar það er komið er svosem allt í lagi að segja þeim hvað debet er og kredit og vextir og lán og allt það, en semsagt gagnrýnin hugsun er lykilatriðið.
Í því samhengi er sagan um úlfinn og kiðlingana sjö mjög gagnlegt námsefni. Mín reynsla af bönkunum er sambærileg og reynsla kiðlinganna af úlfinum nema ólíkt þeim þá hef ég aldrei verið étinn þó bankinn minn hafi margoft gert tilraunir til þess með fáránlegum tilboðum. Tökum dæmi:
Úr sögunni: Úlfurinn er búinn að gera ítrekaðar tilraunir til að komast inn og í einni þeirra segir hann: "Þetta er mamma ykkar, kæru börn, ég er komin aftur. Lítið þið bara á alllt góðgætið sem ég færi ykkur!"
Úr veruleika bankanna: Ég fékk oft upphringingar frá bankanum mínum SPRON sem nú er týndur og tröllum gefinn og þar voru samskiptin nákvæmlega eins og hjá úlfinum: "Góðan dag við erum að hringja í okkar betri viðskiptavini (mjög smeðjulega sagt og greinilegt að búið er að mýkja röddina eins og úlfurinn gerði) við erum með svo hagstæð lánatilboð má ekki bjóða þér." Og ég segi (og var álitinn kjánalegur í viðskiptum fyrir vikið): "Ha ertu að meina að þið séuð að bjóða mér skuldir?" Og bankinn: "Nei við erum að bjóða þér mjög gott tilboð sem óvíst er að bjóðist aftur, þú getur farið til útlanda, keypt þér nýjan bíl, endurnýjað allt innbú og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur." Ég: "Nei takk bæ."
Og bankinn (úlfurinn) gafst ekki upp og svo leið að jólum: ""Góðan dag við erum að hringja í okkar betri viðskiptavini "mjög smeðjulega sagt og greinilegt að búið er að mýkja röddina eins og úlfurinn gerði) nú bjóðum við þér að hafa engar áhyggjur af jólainnkaupunum . Þú getur greitt jólaverslunina með afborgunum næstu þrjú árin." (ég er ekki að plata ég fékk svona tilboð frá SPRON).
Og svona hefur þetta verið og ég sem "betri viðskiptavinur" hef ekki fengið frið fyrir tilboðum um að skulda. Ég hef hinsvegar aðeins tekið lán tvisvar sinnum á ævinni, annað skiptið var vegna húsnæðiskaupa til 25 ára og verður það uppgreitt eftir um 13 ár og hitt lánið var tekið til tveggja mánaða vegn bifreiðakaupa, en ég mæli ekki með að taka lán til að kaupa bíla. Ég átti inni laun og voru tveir mánuðir þar til ég fengi þau greidd og gamli bíllinn var orðinn 17 ára og búinn að fara rúmlega 200.000 km og brann út þannig að ég ákvað að taka lánið fyrst ég átti inni pening fyrir því og greiða það upp um leið og ég fengi launin sem ég átti inni.
Það eru tvær meginreglur í samskiptum mínum við fjármálastofnanir sem ég get miðlað til unga fólksins og hafa reynst mér mjög vel og þær eru:
1) Bankanum þínum er sama um þig og vill helst að þú skuldir sem mest til að græða á þér og 2) Ekki gera bankanum sem er sama um þig þann greiða að taka lán sem hækkar síðan og hækkar þannig að þú verður að fjárhagslegum aumingja, það er þá betra að neyta sér um hlutina þar til maður hefur safnað sér fyrir þeim.
Semsagt eflum gagnrýna hugsun sem lykilatriði í fjármálafræðslu unga fólksins.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2009 | 23:31
Kannski eignumst við okkar Ryugyong hótel
Norður Kóreumenn hófu að byggja gríðarlega stórt hótel fyrir mörgum árum síðan sem heitir Ryugyong hotel. Ég tók þátt í byggingarframkvæmdum í nokkrar klukkustundir þegar ég var staddur í landinu fyrir nákvæmlega tuttugu árum síðan. Ég fékk nú ekki mikið kaup, þetta var svona sjálfboðavinna en ég fékk frítt fæði og húsnæði. En hvað gerði maður ekki á þeim tíma fyrir sósíalismann, enda komst ég í Staksteina Moggans fyrir uppátækið en það er önnur saga.
Nema hvað, einhverju eftir að ég sagði upp störfum við hótelið hættu þeir framkvæmdum á þessu stóra hóteli sem mig minnir að sé vel yfir 100 hæða hátt. Það er nú frekar erfitt að fá fréttir frá félaga KIm Jong en mér skilst að ekkert hafi gerst í hótelinu síðan ég hætti og það sé búið að standa hálfklárað í öll þessi ár.
Og nú eru kannski líkur á því að við íslendingar séum að komast í klúbbinn þ.e.a.s. hálfbyggðaklúbbinn þar sem kóreubúarnir fara fremsti í flokki með Ryugyong hótel en við munum kannski fylgja fast á eftir með okkar æðislega tónlistarhús.
Ég læt fylgja með mynd af þessu flotta hóteli, felstir vita hvernig tónlistarhúsið lítur út:
Deilt um tónlistarhús á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2009 | 20:30
Norðmenn skrifa um þingmannaævintýrið á Hótel Borg fyrir þingsetningu
Norska vefritið Fritanke.no fjallar um uppákomu Siðmenntar á Hótel Borg fyrir þingsetningu. Sjá eftirfarandi vefslóð:
http://fritanke.no/NYHETER/2009/Alternativ_apning_for_islandske_politikere/
JB
Boð Siðmenntar til þingmanna um að mæta á Hótel Borg og spá í gott siðferði í þágu þjóðar í stað þess að fara í kirkju fyrir þingsetningu hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Hefur félagið fengið skilaboð frá ýmsum löndum. Hér birtast nokkur þeirra. Ég birti ekki með nöfn þeirra sem sendu skilaboðin en þeim er engu að síður haldið til haga:
Frá Bretlandi:
Well done. Come here to the UK. We need you. We actually have Bishops
in our Upper House (the House of Lords its called, believe it or not)
and they have voting powers. They are sometimes able to block reformist
legislation.
We are trapped in the past. Help............
Frá Póllandi:
I would like to publish an article about your recent initiative in some
Polish media. I contacted them and some are interested.
Do you have any English language press release about the event? And if
not, could you let me know, how many of those 20 people who appeared
were MPs? It seems that just four of them. Am I right? And if this is
so, do you have any knowledge, why so few. Are all the others religious,
or perhaps there are other reasons.
I would very much appreciate any information and comments on this event!
Frá Ítalíu:
Congratulations from ITALY!!!
Frá Noregi:
Excellent work!
Now you must try to get more prolonged support for this issue, -
politicians, lawyers, sociologists, philosophers etc who can follow up
on your action with articles, letters and comments. Then you will get a
very good basis for an even more impressive demonstration next year!
Again: congratulations!
Frá Belgíu:
This type of courageous act is inspirational for us all
Frá Bandaríkjunum:
Congratulations on the success of this event. I envy you, for here in
the USA we have seen Barack Obama
1) expand Bush's atrocious "faith-based initiative",
2) renege on his commitment to ensure that no church accepting
government aid could discriminate in hiring based on religious belief,
3) cut back federal spending on embryonic stem cell research,
4) endorse the blatantly unconstitutional "National Day of Prayer",
urging Americans to pray,
5) inject God talk into almost all of his speeches a la G. W. Bush, and
6) hold a conference on ethics in the White House with invitations
extended almost exclusively to fundamentalist clergy, with no
representation whatever from the freethought community. All Obama has
provided to date to the freethought community have been platitudes. And
that is all we can expect over the next four years.
As for the Congress and our state and local governments, the less said
the better.
Af þessum skilaboðum er að sjá að alveg er ástæðulaust fyrir þingmenn sem ekki vilja fara í guðsþjónustu fyrir þingsetningu að fela sig einhversstaðar í djúpun kjallara þinghússins með öll ljós slökkt og dregið fyrir glugga eins og talað er um að til hafi verið ætlast fram að þessu.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2009 | 16:41
Um mikilvægi góðs siðferðis fyrir þjóðina. Hugvekja fyrir þingsetningu haldin á Hótel Borg
Um mikilvægi góðs siðferðis fyrir þjóðina
Hugvekja flutt fyrir alþingsmenn fyrir þingsetningu 15. maí 2009 eftir Jóhann Björnsson
Í spjalli sem Þorsteinn Gylfason fyrrverandi prófessor í heimspeki tók saman í minningu fyrrverandi kennara síns og flutti árið 1977, hélt hann því fram að samfélag stjórnmálamanna sé siðlaust samfélag eða eins og hann orðar það sjálfur: "Samfélag eintómra nytjastefnumanna, eintómra stjórnmálamanna, er siðlaust samfélag. Eina vonin um siðferði samfélagsins er sú að meðal þegna þess séu margir menn sem ekki eru stjórnmálamenn."[1]
Ekki er það ætlun mín hér að bera alfarið á móti þessum orðum Þorsteins enda fela þau vissulega í sér heilmikinn sannleika. En ekki vil ég heldur halda því fram að eina von siðferðisins í samfélaginu sé sú að margir menn séu ekki stjórnmálamenn. Hinsvegar er freystandi að draga þá ályktun af orðum Þorsteins að tími sé kominn til að siðferðilega heilir einstaklingar taki við völdum. Það skiptir meginmáli fyrir þjóðina sem kýs sér fulltrúa að þessir fulltrúar vilji vera siðferðilega heilir einstaklingar. Það er ykkar verkefni á komandi tímum að sína fólkinu í landinu að orð Þorsteinns hér á undan séu röng.
Til þess að ykkur megi takast það er ykkur hollt að ígrunda eftirfarandi spurningar reglulega:
- - Hversvegna tek ég þátt í stjórnmálum?
- - Hvað er það sem ræður ákvarðanatökum mínum?
- - Fyrir hverja er ég í stjórnmálum?
- - Hver eru lífsgildi mín og hugsjónir?
- - Hvað er það sem ræður því hvernig ég tjái mig þegar ágreiningur er annarsvegar? Bregst ég við ágreiningi af heilindum með rökræðuna að vopni eða með aðferðum kappræðunnar þar sem ætlun mín er að sigra andmælanda minn burtséð frá því hvað er satt og rétt og almenningi til heilla?
- - Er ég reiðubúinn að skipta um skoðun ef ég sé að ég hef haft rangt fyrir mér?
Stundum er fólk spurt að því hvort það geti ímyndað sér á á dánarbeðinu hvort það eigi eftir að sjá eftir því að hafa ekki eitt meiri tíma í vinnunni. Á sambærilegan hátt er það hollt hverjum stjórnmálamanni að skoða hið pólitíska líf sitt útfrá eftirfarandi sjónarhorni:
Ef mannkynið allt ætti aðeins eftir að lifa í eitt ár til viðbótar hvaða lífsgildi vildi ég þá að stýrðu gjörðum mínum? Hvað væri þess vert að lifa fyrir? Væri það einhvers virði að raka að sér auðæfum til þess eins að deyja frá þeim? Væri það einhvers virði að ná eins miklum völdum og mögulegt er ef maður á síðan eftir að deyja frá þeim ári síðar?
Eða yrði ákvarðanataka ykkar og breytni meira virði fyrir ykkar eigin sálarheill og hamingju ef þið gæfuð af ykkur sjálfum til þeirra sem á þurfa að halda?
Þessi aðstaða sem ég hef sett upp hér fær ykkur vonandi til að velta því fyrir ykkur hvort sé meira virði, ykkar eigin persónlegi ávinningur og stundarhagsmunir eða sameiginlegur ávinningur sem flestra? Er einhvers virði að vera hamingjusamur ef allir í kringum mann eru óhamingjusamir? Er einhvers virði að vera ríkur ef allir í kringum mann eru fátækir? Er einhvers virði að vera valdamikill ef maður þarf að kúga aðra til þess að halda völdum? Er einhvers virði að taka þátt í samræðum ef maður þarf að ljúga til að vera með?
Hverjar svo sem ástæður fólks til stjórnmálaþáttöku eru er ljóst að metnaður margra á þessu sviði er mikill. Metnaður stjórnmálamanna fer ekki alltaf saman við heildarhagsmuni þjóðarinnar. Metnaðurinn birtist oft eins og tilfinningaþrungin viðbrögð barna að leik þar sem mikið er í húfi. Metnaður stjórnmálamanna til frama er því miður of oft metnaður metnaðarins vegna. Kannski er drifkrafturinn þó dulinn kunni að vera sá að í minningargreinunum í ókominni framtíð líti lífsferill manns betur út ef maður hefur sprengt alla skala pólitísks frama framans vegna? Ég skal ekki um það segja hér. En hætt er við að slíkum metnaði fylgi eigingjörn sjálfsupphafning sem er engum til góðs.
Það vakti sérstaklega athygli mína að rekast á andstæðu slíkrar persónulegrar sjálfsupphafningar í stjórnmálum þegar ég las ritgerð eftir einn af ástsælustu heimspekingum þjóðarinnar, Brynjólf Bjarnason, fyrrverandi alþingismann og ráðherra sem var að mig grunar reyndar miklu miklu betri heimspekingur heldur en stjórnmálamaður. Hann lét athyglisverð orð falla um stjórnmálaþáttöku sína þegar hann hafði stigið niður af hinu pólitíska sviði. Hann sagði:
"Stjórnmál voru mér ekki að skapi, en ég fann að ég gat ekki skorizt úr leik, það var heilög skylda mín, að leggja mitt litla lóð á vogarskálina."[2]
Samkvæmt honum var metnaður hans ekki fólginn í persónulegum einkaávinningum heldur hugsjóninni um að gera lífið hér á jörðinni betra og hann var að eigin sögn reiðubúinn til að "leggja allt í sölurnar, ef því væri að skipta."[3] Ef einhver annar hefði getað gert sömu hluti þá var það alveg eins gott. Við getum deilt um það hvort pólitískar hugsjónir hans hafi verið góðar eða slæmar, réttar eða rangar. En það sem skiptir máli í þessu samhengi er að hafa góðan vilja.
Það vekur athygli að hann notaði orðið "skylda" um þátttöku sína í stjórnmálum. Hann taldi það skyldu sína að vera með. Hvers eðlis er þessi skylda sem rak hann til þátttöku í því sem ekki var honum að skapi? Afstaða Brynjólfs er tekin í ljósi þess að engin kemst hjá því að taka afstöðu: "það var lífsnauðsyn að taka ákvörðun"[4] segir Brynjólfur.
Hugsun Brynjólfs hér er ekki óskyld þeirri sem franski rithöfundurinn og heimspekingurinn Jean-Paul Sartre setti fram um að engin maður komist hjá því að taka afstöðu og breyta á einhvern hátt. Ef ég segist ekki taka afstöðu eða segist ekki ætla að breyta þá er slíkt engu að síður afstaða og breytni segir Sartre.[5]
Ef gengið er út frá því að ekki verði komist hjá því að taka afstöðu og velja á einhvern hátt er eðlilegt að í beinu framhaldi sé spurt hvernig þessu vali sé háttað. Sumir fljóta áfram í gegnum lífið í einhverskonar "þægilegu" afskiptaleysi, sumir vilja kalla þetta hlutleysi en má líklega oftar kalla þetta skeytingarleysi. Skeytingarleysi sem getur bitnað á rétti þeirra sjálfra sem og samborgara þeirra. Aðrir eiga fullt í fangi með að koma sjálfum sér og sínum á góðan og öruggan stall og svo eru það þeir sem telja það skyldu sína að breyta af siðferðilegum heilindum þ.e.a.s. að hygla sjálfum sér ekki á kostnað almannaheilla heldur breyta í þágu góðra gilda. Síðast nefnda afstaðan er sú afstaða sem ber merki siðferðilegs þroska.
Heimspekingurinn Immanúel Kant hélt því fram að ekkert gott væri til í þessum heimi án skilyrða nema hinn góði vilji. Hinn góði vilji sem ekki stjórnast af utanaðkomandi duttlungum eða skammsýnum einkaávinningum er það sem hefur siðferðilegt gildi. Þetta er sá vilji sem lýtur hinu svokallaða siðferðilega skylduboði sem hljóðar svo: "Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur á sama tíma viljað að verði að almennu lögmáli."[6]
Þegar þið takið ákvarðanir ykkar getið þið byrjað á því að spyrja sjálf ykkur að því í anda Kants hvort þið gætuð viljað að breytni ykkar verði að almennu lögmáli. Vil ég að breytni mín verði tekin til fyrirmyndar? Vil ég að aðrir breyti eins og ég? Það ætti að vera grundvallarspurning ykkar. Sá sem breytir siðferðilega rétt vill að breytnin verði öðrum fyrirmynd, þ.e.a.s. hann getur óskað sér þess að allir aðrir menn breyti eins og hann.
Kant skrifaði meðal annars um siðferði stjórnmálamannsins og gerir hann greinarmun á tveimur megin gerðum stjórnmálamanna hve varðar siðferðilega breytni og afstöðu til siðferðis.[7] Annarsvegar er um að ræða stjórnmálamann sem tekið hefur rétta siðferðilega afstöðu. Sá breytir í samræmi við siðaboðið og getur viljað að breytni sín sé tekin til fyrirmyndar og verði að almennu lögmáli í samfélaginu. Hinsvegar er það sá sem ekki hefur tekið slíka afstöðu heldur þvert á móti gerir allt sem í hans valdi stendur til þess að halda völdum burtséð frá því hvort breytni hans telst siðferðilega rétt eða röng.5 Sá síðarnefndi leggur mest upp úr völdunum og skeytir ekki um það hvort leiðin á toppin brjóti í bága við siðferðileg gildi í mannlegum samskiptum. Að vísu þarf sá að gæta þess að styggja ekki fjöldann því þar verður hann að geta treyst á fylgi til þess að komast þangað sem hann vill komast. Þessvegna verður hann að vera eins og Machiavelli segir "slægur sem refur".[8]
Það er ekki flókið að draga þá ályktun af því sem hér hefur verið sagt að miklar kröfur beri að gera til andlegs og siðferðilegs heilbrigðis þeirra sem leggja fyrir sig stjórnmál. Ég veit að það reynist mörgum stjórnmálamanninum ofraun að koma til dyranna eins og hann er klæddur, að hafa ekkert að fela og geta staðið heils hugar á bakvið hugsjónir sínar og skoðanir. En það er mikilvægt að stjórnmálamenn geti sett sig í spor annarra og spyrji sjálfa sig:
Hvað ef ég væri í sporum hins? Hvað ef ég ætti eftir að ganga í gegnum sambærilega hluti? Hvernig myndi þá vilja að komið yrði fram við mig? Þessa einföldu reglu getið þið haft í huga á degi hverjum í ykkar störfum? Hún er einföld og krefst ekki mikils og þið getið beitt henni í hvaða málaflokki sem er:
Hvað ef ég væri barn í skóla? Hvað ef ég væri hælisleitandi? hvernig myndi ég vilja láta taka á mínum málum? Hvað ef ég væri sjúkur, fatlaður, fátækur, atvinnulaus og svona mætti áfram telja.
Ágætu alþingismenn.
Eins og ég sagði í upphafi þá er mikilvægasta verkefnið sem þið standið frammi fyrir núna að sýna fram á að orð Þorsteins sem ég vitnaði til í upphafi um að "samfélag stjórnmálamannanna sé siðlaust samfélag" séu röng.
Ef ykkur tekst að sýna ykkur sjálfum og þjóðinni fram á það að Þorsteinn hafi haft rangt fyrir sér. Að þið séuð þegar upp er staðið siðferðilega góðar manneskjur þá þurfið þið engu að kvíða sama hversu erfið viðfangsefni ykkar að öðru leyti verða.
Fylgið samvisku ykkar og látið ekki sveigja ykkur af braut góðra siða. Hjarðmennskan er hættuleg siðferðinu. ég hvet ykkur til að hafa í huga einkunnarorð Siðmenntar ef á móti blæs: "Það er í lagi að vera öðruvísi"
Ég óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gæfu og góðs gengið í störfum ykkar og þakka ykkur kærlega fyrir komuna.
[1]Þorsteinn Gylfason, "Að gera og að vera eða skyldu stjórnmál hljóta að vera siðlaus?" í Hug tímariti um heimspeki 1993-1994 s.77.
[2] Brynjólfur Bjarnason "Svar við spurningu um lífsskoðun" Lögmál og frelsi, Heimskringa 1970, s. 153.
[3] Sama rit s. 153.
[4] Sama rit s. 153.
[5] Jean-Paul Sartre Tilverustefnan er mannhygga, Þýðandi Páll Skúlason. Hið Íslenzka bókmenntafélag 2007.
[6] Immanuel Kant Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni, þýðani Guðmundur Heiðar Frímannsso., Hið Íslenzka bókmenntafélag 2003 s.140
[7] Immanuel Kant "Perpetual Peace A Philosophical Sketch" Political writings. Þýðandi H.B. Nisbet. Camridge University Press 1991.
[8] Niccolo Machiavelli "The prince" The prince and other political writings. Þýðandi Stephen J. Milner. Everymen 1995.