Nú hafa alþingsimenn val

Þingsetning Alþingis hefur iðulega hafist á guðsþjónustu. Svo verður einnig á morgun þegar þing verður sett en ólíkt fyrri árum stendur alþingismönnum til boða að í stað guðsþjónustunnar geta þeir komið á Hótel Borg og hlýtt á hugleiðingu um siðferði í þágu þjóðar.

Og nú er bara að velja ágætu alþingismenn.

JB


mbl.is Alþingi sett á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Story of stuff

Story of stuff er rúmlega 20 mínútna þáttur um umhverfismál og neyslumenningu sem vert er að skoða. Þáttinn má finna á síðunni http://www.storyofstuff.com

JB


Eru skógarbirnirnir hjá A.S.Í. nývaknaðir af vetrardvala?

 Á vef Alþýðusambands Íslands (sumir kalla klúbbinn Auðjöfrasamband Íslands vegna launa gæðinganna sem þar fara fremstir í flokki) má sjá eftirfarandi frétt:

Í dag klukkan 13 verður efnt til mótmæla fyrir framan Alþingishúsið vegna aðgerðarleysis stjórnvalda í málefnum heimilanna.  Frá Austurvelli verður síðan gengið að Stjórnarráðinu.  ASÍ hvetur almenning til að taka þátt enda þolinmæðin gagnvart aðgerðarleysi stjórnvalda þrotin.

Í tilkynningu frá samtökunum Nýir tímar segir m.a.:  "Við viljum minna stjórnvöld á að heimili landsmanna eru að brenna upp í skuldum og að sú “Skjaldborg” sem slá átti um hemilin sé hvergi sjáanleg.

Almenningur í landinu hefur þurft að sýna ótakmarkaða þolinmæði gagnvart stjórnvöldum sem á móti sýna landsmönnum enga vægð þegar að innheimtuaðgerðir eru annars vegar."

Hmm, sumir eru pínulítið seinir að fatta, það var mótmælt ég veit ekki hvað marga laugardaga í vetur, það var gerð búsáhaldabylting, stjórnin fór frá og það er nýbúið að kjósa. Eru skógarbirnir í A.S.Í. nývaknaðir af vetrardvala og halda að Geir Haarde sé enn forstætisráðherra og Davíð enn í seðlabankanaum?

Svona áfram nú A.S.Í. allir á fætur, betra að mótmæla seint en aldrei. Sleeping

JB 


Að fara með það sem áður var talið ónýtt í viðgerð

Haustið 2004 tók ég þátt í 7 vikna verkfalli grunnskólakennara. Ég ákvað að nýta tímann í eitthvað í stað þess að hanga einn með sjálfum mér og því datt mér það snjallræði í hug að taka rykfallinn og bilaðan plötuspilara upp úr kjallaranum og athuga hvort ekki væri einhver sem gæti hugsað sér að gera við hann. Ég fór víða og hver vísaði á annan þar til að lokum á einu verkstæðinu var mér sagt að það væri bara glatað að fara að gera við svona hlut. "Maður gerir ekki við svona, maður kaupir bara nýtt" fékk ég að heyra.

Þetta var þá en nú eru breyttir tímar. (þess má þó geta að handlaginn fjölskyldumeðlimur gerði að lokum við plötuspilarann sem enn er í fullri notkun)

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem margir eiga í vegna samdráttar í efnahgsmálum þjóðarinnar, en mig langar til að vekja athygli á því sem ég tel að sé jákvæður fylgifiskur "ástandsins" í landinu. Ég tel mig nefnilega sjá landann tilbúnari til að nýta það sem fyrir stuttu hefði verið álitið ónýtt drasl og sorpumat. Ég fór um daginn í reiðhjólaverkstæðið Hjólið, en ég hef verið að koma 8 ára gömlu hjóli í lag og sjá þar var bara flott stemmning, fullt af fólki með allskyns "draslhjól" sem það var reiðubúið að gefa séns og fá gert við. Ég mætti með mitt gamla sem ég get gert við að hluta til sjálfur en þarf smá aðstoð við annað. Ég get ekki neitað því að stemmningin var nokkuð í anda þess sem ég þekkti frá námsárunum í Belgíu þar sem best var að vera á mestu og ódýrustu hjóladruslunni (dýrum hjólum var bara stolið) svo fremi sem maður komst leiðar sinnar. Þetta kallaði maður að nýta hlutina og fara vel með verðmæti.

Og svo í dag mátti lesa í Fréttablaðinu að búið er að opna reiðhjólaverkstæði á Hólmaslóð 4 og segir eigandinn að hann geti breytt druslu í gæðagrip og að hann taki að sér hjól sem önnur verkstæði myndu ekki snerta, fyrir utan það að reyna að vera ódýr.

Er ekki eitthvað meira svona jákvætt að gerast í "kreppunni"? Það væri upplífgandi ef aðrir gætu nefnt dæmi.

JB


Það væri ömurlegt ef maður þyrfti að fara að standa í því að bjarga mannslífi

Mansrí nokkur frá Alsír sem vill ólmur búa á Íslandi hefur verið í hungurverkfalli að undanförnu. Í Morgunblaðinu á föstudaginn kom  fram að drifið var í því að láta karlinn skrifa undir plagg þar sem hann lýsir því yfir að hann vilji ekki neina aðstoð missi hann meðvitund. Rætt var við Hauk nokkur forstjóra Útlendingastofnunar í blaðinu um málefni Mansrí. Haukur þessi virðist vera nokkuð svalur náungi sem kallar ekki allt ömmu sína. í vðtalinu segir Haukur hinn ofursvali m.a.:

"En ef menn ætla að svelta sig í hel og vilja ekki aðstoð er eins gott að það sé alveg á hreinu."

Djöfull er hann kúl karlinn. Já það er kannski bara alveg rétt hjá honum að gefa það svona sterklega í skyn að maður lætur ekki þau mistök henda sig að fara að bjarga einhverjum útlendingum frá því að svelta sig í hel. Ef Haukur okkar myndi nú klikka á undirskriftunum hjá mannskapnum sem er á þessu mótþróaskeiði og er alltaf að svelta sig þá þyrfti að fara að kalla til lækni og kannski sjúkrabíl og það yrði bara bölvað vesen. Er nokkuð hægt að standa í einhverjum svona skáta eða miskunasamasamverjaleik. Við höfum jú alveg nóg með okkur svo vitnað sé í annan snilling ofan af Akranesi (nefni engin nöfn).

JB


Auðvitað er það forgangsatriði að hækka laun forseta ASÍ

Ég las í frétt á Eyjunni áðan að Gylfi nokkur Arnbjörnsson er nú bara með "þokkaleg laun" eins og það var orðað. Þokkaleg laun er nú ekki nema eins og ein milla á mánuði. Þetta er náttúrulega algjör skandall og alveg skammarlega lág laun. Jú ég meina það karlinn er nú einu sinni forseti, þó það sé forseti ASÍ.

Það hefur líka komið fram að hann vinnur alveg ógeðslega mikið og hann ber alveg geðveikislega mikla ábyrgð og hann vaknar örugglega snemma á morgnana og fer örugglega seint að sofa á kvöldinn af því að  hann er alltaf að hugsa um verkalýðinn. Ég veit bara ekki hvar launafólk væri statt ef hann væri ekki til. Og ég veit að þetta er alveg rosalega erfitt starf. Hann þarf t.d. að halda ræðu fyrir fólk sem er með hávaða, og púar á hann  þegar hann er að reyna að segja því hvað hann og samtökin hans ASÍ eru æðisleg. Svo þarf hann líka að bjóðast til að fresta launahækkunum umsamdra kjarasamninga sem launafólk ætti bara að sjá að er algjör snilld í verkalýðsbaráttu.

Það er náttúrulega ekki hver sem er sem getur unnið svona starf. Og auðvitað þarf hann hærri laun fyrir þetta álag, elsku karlinn á "þokkalegu laununum".

Þannig að auðvitað ættum við að hefja söfnun fyrir svona duglegan mann. Við gætum kannski byrjað strax á mánudaginn fyrir utan húsnæði Vinnumálastofnunar. Þessir atvinnleysingjar hafa ekkert með allan þennan pening að gera sem þeir fá í bætur.

JB


Hvaða máli skiptir hamingjan í nútímasamfélagi?

Það hefur komið í ljós undafarnar vikur og mánuði að sífellt fleiri velta fyrir sér hver hlutur hamingjunnar sé i því samfélagsástandi sem við búum við um þessar mundir. Í góðærinu voru svo margir uppteknir við að "meika það" og "græða" fyrir utan það að hálfdrepa sig í vinnu, innkaupum, utanlandsferðum og húsbyggingum að enginn mátti vera að því að staldra við og spá i hver hlutur hamingjunnar væri í þessu öllu saman.

En nú eru breyttir tímar. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim vanda sem margir eiga í en það jákvæða sem fylgir nútímanum er að æ fleiri hafa farið að sýna því áhuga að hugsa um og rökræða hlut hamingjunnar í lífi sínu. Þannig hef ég haldið tvö erindi um hamingjuna undanfarið. Annar var um hamingju barna og hlut skóla í að stuðla að hamingju nemenda sinna og hinn var haldinn á fundi aðstandenda geðsjúkra.

Næstkomandi mánudag, 20. apríl ræði ég hamingjuna hjá Vinstrihreyfingunni grænu framboði á Suðurnesjum í Keflavík og leita svara við þeirri spurningu hvaða máli hamingjna skipti í nútímasamfélagi.

Allir sem áhuga hafa á hamingjunni eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir en fundurinn verður haldin að Hafnargötu 36a og hefst kl. 20.

JB


Hringjarinn frá Bústöðum í miklu stuði

Ég verð að byrja á að viðurkenna það að í gærkvöldi gerði ég hörmuleg mistök. Mistökin uppgötvaði ég þó ekki fyrr en snemma í morgun. Ég nefnilega steingleymdi að setja eyrnatappa í eyrun áður en ég fór að sofa í gærkvöldi vegna þess að ég hafði steinglymt að í dag er páskadagur. Dýrkeypt mistök en svona er sagan:

Ég svaf ágætlega í nótt og ég hélt að ég væri í miðjum draumi á ævintýrinu um hringjarann frá Notre Dame þegar mér fannst þessi draumur vera full raunverulegur til þess að vera venjulegur draumur. Hringjarinn í Notre Dame ætlaði bara alls ekki að hætta að hringja bjöllunum þegar ég áttaði mig á því að mig var ekki lengur að dreyma, þessi klukknahávaði var raunverulegur og mér fannst eins og ég lægi undir bjöllu. Ég leit á klukkuna sem var .07.30 "æ helv." hugsaði ég það hlaut að vera einhver svona Jesúdagur í dag, fyrst Pálmi skíðapresturinn í Bústöðum var farinn að hringja bjöllum sem eru bara örfáa metra frá rúminu mínu. Hvað skyldi Jesú hafa verið að bralla prakkarinn sá fyrir 2000 árum fyrst að Pálmi sá ástæðu til að rífa sig á lappir og fara að hringja bjöllum rétt eins og heimsstyrjöld væri skollin á? Jú var prakkarinn ekki í einhverjum sjónhverfingum á þessum degi eða hvað, aflraunum, lyfta einhverjum steini eða æ ég man það ekki. Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að séra Pálmi var í ægilegu stuði og glumdu bjöllurnar í um 5 mín.

Jæja ég var að festa svefn aftur þegar bjöllurnar fóru aftur af stað. Ha og nú voru bara 10 mínútur liðnar síðan Pálmi slökkti á þeim og klukkan orðin 07.45. Ég neitaði að láta rífa mig upp úr rúminu með þessum hætti. Ég hafði ætlað að sofa til kl. 10, en séran Pálmi var greinilega á öðru máli.

Og enn og aftur jæja ég var aftur að festa svefn þegar bjöllurnar fóru aftur í gang og nú í þriðja sinn á sama hálftímanum og nú var klukkan 08.00. Og ég var ansi krumpaður í framan þar sem ég reyndi að setja kodda yfir eyrun. Djöfull er karlinn ofvirkur á þessum kirkjuklukkum.

Eftir fimm mínútna djöfulgang í viðbót fékk ég næstum því klukkustundar hvíld, en var samt orðinn ansi kvekktur á þessu og átti alltaf von á að einhver bjallan færi af stað. Ég reyndi að telja mér trú um að nú væri þessu lokið og ég gæti tekið það  rólega. Viti menn klukkan var að verða 09.00 og þá byrjar þetta aftur. Hvað nú? Jú auðvitað það þarf að hringja bjöllunum líka þegar messan er búin til að fólk viti að allt sé búið og nú megi það drífa sig heim.

"Ég held að sérann sé búinn að takast ætlunarverk sitt með að koma mér á fætur" hugsaði ég með mér enda þorði ég ekki að loka augunum aftur orðinn skíthræddur um að Pálmi væri með njósnamyndavél í svefnherberginu mínu og léti klukkurnar í gang þegar hann sæi að ég væri að festa svefn, prakkarinn sá.

Og ég hef ekkert sofið meira í dag, en hinsvegar hef ég verið að velta vöngum yfir því hvort séra Pálmi sem á kirkjubjöllur við hliðina á rúminu mínu svo að segja hafi einhvern tíma haldið kristilega hugvekju um tillitsemi?

JB


Margur verður af aurum api. Siðfræðinámskeið fyrir sjálfstæðismenn.

Rætt hefur verið um það við mig í dag hvort ekki sé  kominn tími til að bjóða upp á siðfræðinámskeiðið Margur verður af aurum api, siðfræðinámskeið fyrir sjálfstæðismenn. Ég hef nefnilega verið að kenna starfstengda siðfræði undanfarin ár, s.s. siðfræði fyrir starfsfólk á leikskólum og á geðsviði Landspítalans. Svo má náttúrulega ekki gleyma því að árið 2007 bauð ég upp á námskeiðið Hversu mikið er nóg, siðfræðinámskeið fyrir bankastjóra og í vetur bauð ég upp á siðfræðinámskeiðið Siðfræði handa Gunnari, siðfræði fyrir forystufólk í stéttarfélögum.

Starfsfólk á leikskólum og á geðsviði hefur verið duglegt við að mæta en því miður skráði sig enginn bankastjóri árið 2007 og enginn frá stéttarfélögunum í vetur. Ég veit því ekki hvort ég nenni að halda svona námskeið núna, en ef ykkur ágætu sjálfstæðismenn langar ógeðslega mikið að taka námskeiðið Margur verður af aurum api, siðfræðinámskeið fyrir sjálfstæðismenn þá gæti ég svo sem látið til leiðast.

Endilega sendið mér línu ef ykkur langar mjög. Wink

JB


mbl.is Framhaldið í höndum formannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þannig mismuna borgaryfirvöld þegnum sínum

Í Velvakanda Morgunblaðsins í dag á bls. 41 er grein þar sem m.a. er sagt frá þvi hvernig borgaryfivöld láta sig ekki muna um að fella niður 17 milljóna skuld eins félags í borginni á meðan annað sem sótti um 200.000 kr styrk eða svo fær kr. 0. Kíkjum á brot úr greininni:

" Svo finnst mér hneykslanlegt að þau börn sem ætla að láta ferma sig á borgaralegan hátt fái engan styrk í ár. Samtökin Siðmennt, sem sjá um þessa athöfn og halda frábær námskeið, hafa fengið styrk undafarin ár en fá hann ekki í ár. Í þessum skrifuðu orðum er verið að fella niður skuld hjá ágætri kirkju um 17 milljónir, á meðan er Siðmennt hafnað um styrk. Hvar er jafnræði gagnvart börnum? Í lokin ætla ég að vekja athygli á því að sum þessara fermingarbarna eiga litla sem enga fjölskyldu og koma frá efnalitlum fjölskyldum."

En þess má geta að sá styrkur sem um ræðir til Siðmenntar hefur verið veittur árin 2006-2008 til þess að greiða niður húsaleigu vegna undirbúningsnámskeiða og athafna borgaralegrar fermingar. Þessi styrkur borgarinnar hefur því runnið beint til fjölskyldna þátttakenda til að lækka þann kostnað sem í fermingarstússinu felst.

En núverandi borgaryfirvöld hafa semsagt ekki efni á að styðja við þær rúmlegu 100 fjölskyldur sem taka þátt í borgaralegum femingum með um 1500-2000 króna framlagi á fjölskyldu til þess að lækka húsaleigu á aðstöðu fyrir námskeið og athafnir, en hafa efni á að punga 17 millum í ríkiskirkjuna sem fær endalausa peninga frá ríki og borg og kann greinilega ekki að fara með þá.

Ef þetta er ekki bruðl þá veit ég ekki hvað.

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband