Hvað varð um upprisu holdsins?

Ég er svona típa sem fæ ýmsa hluti á heilann þegar minnst varir. Um daginn var ég á nemendatónleikum í Nýa tónlistarskólanum þar sem frábærir krakkar sýndu listir sýnar á hin ýmsu hljóðfæri. Allt gekk vel þangað til cellóleikari nokkur steig á sviðið. Cellóleikarinn stóð sig vel það vantaði ekki, en einhvern veginn fékk ég þá flugu í hausinn að fara að spyrja sjálfan mig að því hvort celló væri stór fiðla eða hvort celló væri lítill kontrabassi. Ég losnaði ekki við þessa spurningu og þegar fjölskyldan var að keyra heim stóðst ég ekki mátið og spurði upphátt hvort celló væri stór fiðla eða lítill kontrabassi? Konan mín sagði að stór fiðla héti víóla. Þetta bjargaði mér ekki því án þess að hugsa breyttist þá spurningin í það að fyrst að víóla væri stór fiðla er þá celló stór víóla eða lítill kontrabassi? Það var eins og við mannin mælt að málið var rökrætt alla leiðina heim og ekki laust við að pirrings gætti í minn garð af einum fjölskyldumeðliminum.

Nema hvað ég losnaði nokkrum dögum síðar við þessa spurningu úr hausnum á mér þegar vinkona dóttur minnar sagði mér að líklega væri celló bara stór fiðla. Við skyldum ganga út frá því að svo stöddu. Mér var létt, en það stóð ekki lengi.

Ég var staddur í fermingarmessu í dómkirkjunni á hvítasunnudag þegar önnur spurning kom upp og situr nú föst í höfðinu á mér.

Þetta var prýðileg messa, þarna þjónuðu tveir prestar sem fóru með rútínuna sína að mestu stóráfallalaust (rugluðust bara einu sinni á nöfnum fermingarbarna) en voru að öðru leita svona svipaðir í fasi og framkomu og Glámur og Skrámur ef einhver man eftir þeim og töluðu svona soldið við fermingarbörnin eins og umsjónarmenn Stundarinnar okkar hafa gert við börnin undanfarna áratugi. En þetta var samt bara fínt hjá þeim.

En svo kom að því. Söfnuðurinn fór með trúarjátninguna og svo kom að setningunni "upprisa mannsins og eilíft líf" og þá kom spurningin sem ég losna ekki við: Hvað varð um upprisu holdsins og eilíft líf?

Þegar ég var að berjast við að reyna að vera kristinn í sunnudagaskólanum í Keflavík forðum daga var sagt í trúarjátningunni "upprisa holdsins og eilíft líf." Hvað varð eiginlega um þetta holdris sem við krakkarnir lærðum um. Er einhver sem getur svarað því?

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki þekki ég rökin fyrir breyttri trúarjátningu. Þetta er samt ekkert nýtt. Séra Björn á Húsavík hafði mann í holds stað þegar ég fermdist 1981. Á latínunni er þetta "carnis resurrectionem" sem er nokkuð afdráttarlaust, er það ekki?

http://en.wikipedia.org/wiki/Apostles%27_Creed

Um ætterni Sellósins er einhugur að það er af fiðluætt. Meiri vafi leikur á ætterni kontrabassans. Hann er örlítið frábrugðinn fiðlunum í vextinum (siginaxla og hlutfallslega þykkari) og auk þess stilltur í ferundum en ekki fimmundum eins og fiðlurnar. Þetta þykir benda til þess að hann sé af annarri fjölskyldu, gömbunum. En aðrir segja að hann tilheyri fiðlunum þrátt fyrir þetta.

Þorgeir Tryggvason (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 11:32

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kannski eru prelátarnir eitthvað feimnir við holdris. Skiljanlegt eftir ásakanir um veikleika kirkjunnar manna á þeim sviðum.

Annars er verið að vitna í upprisuna en ekki uprisu manna almennt, svo þetta er jú út í hött samkvæmt dogmanu. Svosem ekkert einsdæmi þar.  Í mínum fermingarundirbúningi vildi ég skýringu á þríeinum guði og gaf mig ekki. Presturinn gat ekki svarað því og skildi greinilega fátt af því, sem hann bar á borð fyrir börnin. Hann greip því til ráðs, sem kirkjunnar mönnum hefur ætið reynst vel.

Hann henti mér út.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.6.2009 kl. 18:33

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það væri verðugt framtak að spyrja fermingarbörnin hvort þau skildu trúarjátninguna og gætu útskýrt innihaldið, hugtökin og tilganginn. Ég er handviss um að ekki einn gæti það. 

Að ganga til prestsins eða ganga til spurninga er hreinlega athöfn sem krefst þess af börnunum að læra utan að óskiljanlegar þulur og munnmæli.  Það er ekki ætlast til að þau spyrji.

Það er kominn tími til að stoppa þetta andlega barnaníð og halda heldur einhverskonar blómgunarhátíð til staðfestingar því að ungmenni hafi náð fullum blóma.  Þar mætti líka gera að hefð að leggja peninga inn á sjóð til að létta þeim námsbrautina og hjálpa þeim við að eignast fyrstu íbúðina.  Svona nesti út á veginn. Hitt er gersamlega tilgangslaust og í grunninn mannskemmandi.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.6.2009 kl. 18:48

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það er söknuður "upprisu holdsins" því þarna gátu fermingarbörnin og önnur sóknarbörn a.m.k. séð einhvern smá raunsæjan tilgang í upprisunni.

Svanur Sigurbjörnsson, 1.6.2009 kl. 20:52

5 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Ég hélt að kaþólikkar segðu holdsins en mótmælendur mannsins...?

Kristján Hrannar Pálsson, 1.6.2009 kl. 22:08

6 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Þú ert nú svo unglegur og reffilegur Jóhann að ég hefði giskað á að óreyndi að viðlíka spurningar sæktu ekki á þig - enn!

Ólafur Eiríksson, 1.6.2009 kl. 22:52

7 identicon

Þetta er bara pempíuskapur femínista sem kom þessu af staðþetta er allt önnur trúarjátning sem ég lærði,ég er fæddur  1952 femínistarnir eyðilögðu líka giftingu mína,þegar systir mín gifti sig 1968 þá sagði presturinn að hún ætti að vera undirgefin manni sínu,mín kona slapp við að heyra þetta,enda ekkert annað en yfirgangurinn við mig,svo voru menn kynvilltir í Biblíunni núna eru þeir samkynhneygðir svo botna ég ekkert í faðirvorinu,eigi leið oss í freistni er guð að dunda sér við í tölvuleik þarna uppi að láta Jón og Jónu verandi halda framhjá sér til sjálfum sér gamans

Ég er alvarlega að  hugsa um taka bara Ásatrú þessi kristni er orðin eins og stjórnmálamenn sem stjórnast af skoðunarkönnunum

Hørður Þorsteinsson (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 09:58

8 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Ég er með svarið. Kirkjan og hennar menn eru orðnir vita náttúrulausir og því passaði þessi setning ekki inn í trúarjátninguna.  Þessu var breytt þegar ónefndur biskup tók við stólnum á sínum tíma.

Semsagt, það er náttúruleysi um að kenna og engin von til þess að það eigi eftir að breytast í framtíðinni.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 2.6.2009 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband