"Hættu að vera svona fúll maður." Smá pæling um staksteina Moggans og fall Dags á mætingu.

Eins og gengur kemur það fyrir einstaka sinnum að ég fer fram úr rúminu öfugu megin. Ég hef þó ekki fengið að komast upp með það mjög lengi því börnin mín hnippa í mig samstunds og þau átta sig á því og segja "hættu að vera svona fúll maður". Það er ekki þægilegt að fá svona fyrirskipun "hættu að vera svona fúll maður". Það er ekki laust við að maður skammist sínu pínkulítið fyrir það að vera svona fúll og oftar en ekki reyni ég að skríða upp í rúmið aftur til þess eins að fara nú réttum megin fram úr.

Nema hvað, einn er sá höfundur sem þyrfti á aðstoð barnanna minna að halda og það er höfundur eða höfundar Staksteina Moggans. "Hættu að vera svona fúll maður" þyrfti sá ágæti höfundur að fá að heyra en fýlan er það sem helst einkennir skrifin. Ég veit að viðkomandi veit það sjálfur enda skrifar hann ávallt nafnlaust sem merkir hugsanlega að viðkomandi skammast sín fyrir sjálfan sig og eigin skrif. Það er slæmt og ber ekki merki um góða sjálfsmynd. Staksteinahöfundur þyrfti, fyrir utan það að komast í kynni við börnin mín að tileinka sér speki stóumanna sem m.a. sögðu "Ekki eru það atburðirnir sjálfir, sem áhyggjum valda, heldur horf manna við þeim." (Epiktet)

Í dag sunnudag er ekkert lát á fýlunni, nema hvað ég held bara að ég sé í fyrsta sinn á ævinni sammála höfundi Staksteina. Og er ég ekki með hita, undarlegt nokk.

Höfundur Staksteina ræðir forföll borgarfulltrúans Dags B. Eggertssonar á fundi á vegum boragrinnar sem hann þiggur samt  laun fyrir. Þetta er ekki gott mál, að greiða fyrir fundarsetu sem ekki er setin. Ég held að margir sem starfa í nefndum og ráðum á vegum borgarinnar hafi þegið laun fyrir fundi sem þeir hafa ekki setið. Ástæðurnar fyrir forföllum geta verið ýmsar og sumar ef ekki flestar eðlilegar. Sjálfur hef ég á þessu kjörtímabili setið í barnaverndarnefnd fyrri hluta kjörtímabils og þann seinni í mannréttindaráði og vissulega hafa komið upp þau tilvik að ég hef ekki getað mætt, en fengið greitt engu að síður. Þessu þarf að breyta. Ég trúi ekki öðru en að flokkarnir allir ættu að geta sameinast um það að breyta fyrirkomulaginu þannig að laun fyrir nefndarstörf lækki í samræmi við minni fundarsetu. Hafa ber þó í huga að það að starfa í nefnd á að fela í sér annað og meira heldur en aðeins að mæta á fundi, maður þarf líka að vinna á öðrum vettvandi heldur en á fundum að málaflokknum og ekkert óeðlilegt að fyrir það sé greitt, en forföll á fundi ætti að hafa þau áhrif að launin lækki að einhverju leiti.  

Nú er einmitt tækifæri til að breyta þessu fyrirkomulagi enda full þörf fyrir borgina að spara aurinn. Ég trúi ekki öðru en að flokkarnir geti náð samkomulagi um málið. Hvernig stígum við næsta skref í málinu? Hver ætlar að taka það upp innan borgarkerfisins?

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Orð í tíma töluð. Það er sannfæring mín að þessum smörrebrödsfundum megi fækka til muna og að greiðslur skuli fara eftir mætingu.  Þetta er oftast æði gott tímakaup og ekki í nokkru samræmi við annað, fyrir utan hvað þetta skilar oft litlu.

Mæli með að ódýrari leiðin sé farin og tæknin tekin í sínar hendur.

Viðkvæmt efbu sem barnaverndunarmál eru, skulu þó njóta sérstakrar meðferðar

Ingibjörg Friðriksdóttir, 24.5.2009 kl. 13:36

2 identicon

Sæll Jóhann.

Ég heyrði nýlega kunningja minn segja frá því að hann,eins og hann lýsti því vaknaði stundum rauður innra með sér. Það orsakaði það að hann var úrillur og neikvæður. Nú segist hann ekki fara fram úr rúminu á morgnana, þau skipti sem hann vaknar rauður, fyrr en hann er orðinn grænn. Með æfingunni taki það tiltölulega skamman tíma og dagurinn verði góður og jákvæður, eins og hann segir.

Þakka þér afnot af síðunni þinni til að eiga orðastað við Ingibjörgu.

Kv. JAT

Jón Tynes (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 14:56

3 Smámynd: Ár & síð

Ég tók líka eftir því að Agnes sagði í hinni greininni sinni á þessari sömu blaðsíðu að sér sýndust fylgjendur ESB aðildar vera ósvífnari í tali á blogginu en þeir sem andsnúnir eru. Þar held ég að henni skjátlist. Menn í báðum skotgröfum virðast einskis svífast í tilraunum sínum til að koma höggi á hina og eru oft orðljótir með afbrigðum.
Matthías

Ár & síð, 24.5.2009 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband