Á ég að panta tíma hjá sænsku ríkisstjórninni? Eða læstur inni á hótelherbergi og kastað öfugum út úr lest (þó ekki á fullri ferð). Fyrri hluti.

Sumarið er tími ævintýra og skemmtilegra upplifana og af þeim hefur heldur betur verið nóg í sumar.

Ég fór til suður Svíþjóðar fyrr í sumar sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi, nema hvað ferðin var einstaklega ánægjuleg og viðburðarrík. Ég flaug til Kaupmannahafnar og keypti lestarmiða á flugvellinum til Svíþjóðar og afgreiðslustúlkan spurði hvenær ég hygðist koma til baka. Sagði ég henni það og fékk farmiða með lestinni fram og til baka og fannst mér þetta bara snjallt að vera búinn að ganga frá þessum farmiðamálum. Ferðin til Halmstad var öll hin ánægjulegasta, nema hvað heldur kalt var í lestinni og ekki bar á öðru en að svíarnir hefðu misst tökin á loftkælingunni sem þótti þó ekki nógu alvarleg bilun til að kyrrsetja lestina.

En allt í góðu með það, ekki tók það mann langan tíma að þiðna þegar út úr þessum frystiklefa sem maður ferðaðist með var komið enda heitt í veðri og sólin skein. Hótelið sem við gistumi á var allt hið huggulegasta og þegar viðg vorum búinn að koma okkur fyrir og ætluðum að fara út úr herberginu þá opnaðist ekki hurðin. Hvað er í gangi hugsaði ég með mér. Ég reyndi aftur og aftur og reyndi að breyta "opnunartækninni" með því að vera yfirvegaður og "laginn" eða tæknilegur á hurðinni, ég reyndi að vera hörkulegur eins og slökkviliðsmaður sem þar að brjótast áfram til að bjarga mannslífum en allt kom fyrir ekki. Hurðin opnaðist bara ekki.

Ég hringdi niður í afgreiðslu og sagði farir mínar ekki sléttar. "Nú ertu læstur inni í herbergi?" var spurt. Jú það fór víst ekki á milli mála. "Við sendum einhvern til að hleypa þér út." Síðan var okkur herbergisfélögunum hleypt út og lífið hélt áfram.....þangað til....við þurftum að komast út aftur og aftur og aftur og aftur.

Alls fimm sinnum þurftum við að komast inn og út úr herberginu þennan dag og í öllum tilvikum kom starfsmaður hlaupandi til að opna fyrir okkur, að vísu voru þeir misjafnlega léttir á sér og biðin eftir að komast út var ekki alltaf sú sama.

Ætli maður hafi ekki fengið smá innsýn inn í það hverngi stofufangelsi er eða réttara sagt hótelfangelsi ef það er til.

Morguninn eftir var eldsnemma barið að dyrum og var þar mættur sænskur lásasmiður sem ætlaði að sjá til þess að framvegis væri hægt að ganga um eins og til er ætlast. Mér fannst ég varla vera sofnaður þegar hann reif mig upp enda farið mjög seint að sofa, en ég mat það svo að betra væri að vera ósofinn um tíma heldur en að komast ekki út úr herberginu nema með aðstoð í marga daga.

Málið leystist farsællega. "En hvað hefðir þú gert ef kviknað hefði í hótelinu og þið læst inni á herbergi" spurði kunningi sem er sérstaklega umhugað um allskyns heimsendi og hrakfarir. Ætli við heðum ekki bara stokkið út um gluggann" svaraði ég. "Já og fótbrotnað eða kannski drepið ykkur" svaraði heimsendamaðurinn. "Ætli maður hefði nokkuð drepið sig á því að stökkva út á jarðhæð" svaraði ég.

Framhald síðar þegar lestarverðinum var ekki skemmt á bakaleiðinni og vísaði okkur ferðafélögunum á dyr í Malmö.

JB

 

 


Hversvegna að hjálpa öðrum?

Ég vek athygli á málstofu sem haldin verður í kvöld, sjá eftirfarandi fréttatilkynningu:

Hvers vegna ættum við að hjálpa öðrum? Málstofa Múltikúlti haldin í kjallara Alþjóðahúss, Laugavegi 37 (gengið inn bakatil) Á krepputímum eins og við lifum í dag finnst mörgum einstaklingum eflaust að þeir eigi nóg með sjálfa sig og sína og séu þ.a.l. ekki aflögufærir. Sem samfélag erum við að draga úr þróunarhjálp auk þess sem velferðarkerfið er skorið niður. Þá sýna tölur að fjöldi þeirra sem leita til hjálparsamtaka innanlands hefur margfaldast. Við slíkar aðstæður verður spurningin: „Af hverju ættum við að hjálpa öðrum,“ kannski enn mikilvægari en hún er að öllu jöfnu. Á málstofu Múltikúlti, fimmtudaginn 25. júní, kl. 20.00, verður velt upp ýmsum hliðum spurningarinnar og mismunandi svör skoðuð og rædd. Eftir stuttar framsögur verða almennar umræður. Framsögu flytja: Ármann Gunnarsson, djákni Sigríður Víðis Jónsdóttir, blaðamaður Kjartan Jónsson, þýðandi (Vinir Kenía og Vinir Indlands)Deepa Iyengar – Tsewang Nangyal, frá Vinum Tíbet 

Aðgangur ókeypis – allir velkomir meðan húsrúm leyfir

 


Hvað finnst ykkur um að almenningur greiði meira vegna viðgerða á Hallgrímskirkju?

Á mánudag birtist frétt um að skemmdirnar á Hallgrímskirkju séu mun meiri en gert var ráð fyrir og að kostnaðaráætlun við viðgerðirnar hafi tvöfaldast. Talað er um að ríkinu og Reykjavíkurborg sé ætlað að greiða 322 milljónir fyrir viðgerðarinnar. Í fréttinnis segir m.a.:

"Reykjavíkurborg ákvað á árinu 2007 að greiða 12,4 milljónir á ári fram til ársins 2013 til viðgerðanna á turni Hallgrímskirkju. Ríkið leggur fyrir sitt leyti fram jafn háa upphæð. Nú leggur borgarstjóri til að framlengja þessar greiðslur allt til ársins 2019 að því tilskildu að ríkið geri slíkt hið sama. Þannig muni greiðslur frá ríki og borg á endanum nema 322 milljónum."

Ég er bara forvitinn að vita hvað fólki finnst um þetta. Það eru greinilega engin takmörk fyrir því hvað hægt er að ausa fé í kirkjuna. Langholtskirkja fékk fyrir ekki löngu síðan 17 millur til að helluleggja fyrir utan hjá sér og áfram má nefna endalaus dæmi um það hvernig trúsöfnuðirnir fá af almannafé.

Þess má því geta í framhaldi af þessu að félagið Siðmennt sem þjónar fyrst og fremst fólki sem stendur utan trúfélaga sótti fyrr á árinu um 250.000 kr styrk til að standa straum af húsaleigu vegna æskulýðsstarfs, en borgaryfirvöld áttu ekki pening að þessu sinni. Semsagt börn og steinsteypa er ekki það sama þegar borgaryfirvöld úthluta fjármunum.

JB


Mér er alveg skítsama þó þetta sé "bara hundraðkall á ári"

Ég var að fá reikning frá Vodafone (fyrirtækinu sem beitir unglinga vísvitandi blekkingum í auglýsingamennsku sinni og greint var frá hér á síðunni fyrir einhverju síðan). Þetta var nú bara lítill reikningur þannig séð sem á rætur sínar að rekja frá símaskránni "Já" þar sem rukkað var fyrir aukanafn í símaskrá. Reikningurinn hljóðaði upp á kr. 626,51 og seðilgjald upp á 80.32 og virðisaukaskatt upp á 173,17 samtals 880 kr.

Allt í góðu enn sem komið er. Ég fæ þennan reikning á pappír sem útskýrir væntanlega seðilgjaldið. Nema hvað, ég fæ sama reikninginn sendan rafrænt í heimabankann og greiði hann þar. Ef reikningurinn hefði aðeins  verið sendur rafrænt þá hefði ég væntanlega sloppið við þetta seðilgjald enda enginn seðill í gangi. Svo ég hringi (enda verð ég einstaklega geðstirður þegar ég heyri orðin "símafyrirtæki", "banki" og "tryggingafélag") og spyr hvernig standi á því að mér sé send tvennslags rukkun fyrir sama hlutinn. Stúlkan sem varð fyrir svörum sagði að þetta væri bara svona. Og ég spurði frekar hversvegna það væri verið að senda þetta rafrænt ef það væri sendur bréflegur reikningur. Og svarið var að fyrirtækið "Já" vildi þetta. Og þá spurði ég hvort ekki væri mögulegt að fá reikninga framvegis aðeins rafrænt og sleppa seðilgjaldinu. Nei það er ekki hægt af því að þeir (það er að segja "Já" fyrirtækið) vilja að þetta sé sent bæði rafrænt og bréflega. Ha segi ég, get ég þá alls ekki losnað undan þessu seðilgjaldi? Nei þetta er nú bara hundraðkall á ári sagði stúlkan. Og þá sagði ég að þetta væri tæplega hundraðkall og mér væri bara skítsama þó þetta væri bara hundraðkall, ég væri gjarnan til í að nota þennan hundraðkall í eitthvað annað heldur en símafyrirtæki.

Þannig eru svona fyrirtæki endalaust að kroppa í budduna hjá manni. Er ekki hægt að stoppa þetta smáaurakropp vitandi það að margt smátt gerir á endanum eitt stórt þó stúlkan á símanum hjá Vodafone hafi verið þjálfuð í að láta viðskiptavinina trúa því að þetta sé "nú bara ógeðslega lítið"?

JB

 

 


Ætli forseti Íslands næli orðu í útrásarvíking í dag?

Í dag 17. júní fá einhverjir einstaklingar orðu frá forsetanum fyrir eitthvað alveg geggjað. Eitthvað sem maðalmaðurinn getur ekki státað sig af.

Af því tilefni skulum við hafa í huga orðuveitinguna árið 2007 þegar forsetinn nældi orðu í Sigurð nokkurn Einarsson fyrir, eins og stendur á vef forsetaembættisins: "riddarakross fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi."

Ekki slæmt að fá orðu fyrir það eitt að eiga hlut í því að innleiða græðgina í íslenskt samfélag og koma öllu á hausinn.

Trúðslætin í kringum þessar orðuveitingar eru bara eitt allsherjar djók og það er sorglegt að fólk skuli nenna að spila með í þessu rugli.

JB


Á ekki bara að drífa í að hækka afnotagjöldin?

Jú Jesús minn við verðum að drífa í að hækka afnotagjöldin. Það gengur náttúrulega ekki að Palli sé á eigin bíl og ekki dugar að hann sé á gömlum bíl, litlum eða fólksbíl og því síður á hjóli eða í strætó.  Hér endurspeglast faglegt metnaðarleysi ríkisútvarpsins algjörlega, fjármunum eitt í kjaftæði undir rassgatið á stjóranum í stað þess að bjóða upp á eitthvað af viti í kassanum / skjánum, nú eða bara lækka afnotagjöldin.

Skyldi fréttastofa Rúv segja frá þessum tíðindum?

JB


mbl.is Afborganir af jeppa útvarpsstjóra tvöfölduðust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég grét yfir að vera ekki guð"

Á vef Íslensku óperunnar er að finna stutta grein sem ég skrifaði um söguna Hel eftir Sigurð Nordal í tilefni af því að ákveðið var að sagan yrði færð í búning óperu. Óperan var síðan flutt núna í vor.

Greinin var upphaflega samin til flutnings við undirrituna samstarfssamnings við óperugerðina og má finn hana á eftirfarandi slóð:

http://www.opera.is/category.asp?catID=441

Ég hef lítillega lagfært hana og birtist nýjasta útgáfa hennar hér:

 

"Ég grét yfir að vera ekki guð"

Um tilvistarvanda Álfs frá Vindhæli í sögunni Hel eftir Sigurð Nordal[1]

 

"Hafið þið tekið eftir því, að það virðist vera einhver sérstök áhætta að vera manneskja?" Sigurður Nordal spyr svo í Lífi og dauða sem voru sex útvarpserindi og gefin voru út á bók árið 1966. Sigurður heldur áfram og segir síðan: "En hvað er svo um mannkindurnar? Sumar þeirra eru þegar frá fæðingu vanskapaðar eða fávitar........Meðal þess eru sumir afmyndaðir af óheilbrigðu líferni, sumir sjúklingar á bezta aldri, drykkjumenn, glæpamenn, brjálaðir menn. Þar er fullt af fólki, sem er markað af óláni og óánægju, þótt það hafi allt, sem það vill hendinni rétta."[2]

 

Mér varð hugsað til þessara tilvitnana þegar ég las söguna Hel eftir Sigurð Nordal sem nú hefur verið færð í búning Óperu; fullt af fólki er markað óláni og óánægju þótt það hafi allt sem það vill hendinni rétta, eins og Sigurður sagði. Hér hefur verið dreginn fram einn meginvandinn sem felst í því að vera manneskja.

Söguhetjan í Hel Álfur frá Vindhæli er ein af þeim "mannkindum" svo notað sé orðalag Sigurðar, sem þarf að takast á við þann vanda  sem fylgir því að vera til. Hann fyllist óánægju  yfir hlutskipti sínu og hann vill vera eitthvað annað en hann er og vill fá eitthvað annað en hann hefur. "...er hér ekki nægilegt rúm til alls þess, sem er nokkurs virði, að unnast og biðja, eldast saman og deyja saman?"[3] spyr Una Álf unnusta sinn sem vill hverfa burt úr sveit sinni á vit ævintýranna til þess að freista þess að finna gæfuna.

Álfur skeytir í engu um bón Unu og heldur af stað í leit að gæfunni. Hann hittir marga og í brjósti hans bærast fjölmargar tilfinningar. Hann verður glaður eins og nýfæddur guð, hann verður oft ástfanginn og svo ástfanginn að ekkert skiptir hann meira máli á augnabliki ástarinnar en stúlkan sem á hug hans í það skiptið.

Á slíkum stundum er ekki að undra að Álfur spyrji sjálfan sig að því hversvegna slíkar gleðistundir verði ekki að eilífð.  Líkt og á við allar manneskjur getur Álfur síður en svo verið alltaf í hamingjuástandi þrátt fyrir að hlaupa á eftir gæfunni eins og "...veðhlaupahestur sem hleypur eirðarlaust að marki, sem honum er aldrei ætlað að ná" svo vitnað sé í Sigurð "...marki, sem ef til vill hefur aldrei verið nema hugarburður."[4]

Álfur verður leiður, verður þreyttur, ævintýrin eru skammvinn og hann dylur ekki vonbrigði sín: "Þú ert heimsk eins og indverskt skurðgoð."[5] Segir hann við Dísu sem hann eitt sinn varð svo ástfanginn af.

Og Álfur grét yfir því að vera ekki guð. Hann grét yfir því að geta ekki verið elskhugi tíu þúsund kvenna. Hann grét vegna þess að lífi hans voru takmörk sett af frelsinu sjálfu. Valkostirnir voru of margir. Hann gat ekki valið allt sem hugann girntist. Hann varð að velja á milli kosta. Frelsið leggur þær skyldur á herðar okkar að enginn kemst undan því að velja. Lífið er sífellt val og enginn getur valið allt. Álfur þurfti að horfast í augum við það.

 

Sagan Hel kom út í bókinni Fornar ástir árið 1919. Sigurður Nordal hóf að skrifa söguna árið 1913 og lauk hann við að skrifa síðasta hluta hennar árið 1917. Með þessari sögu birtist ný hugsun í íslenskum bókmenntum. Hér er klárlega um heimspekilega sögu að ræða sem grundvallast á svokallaðri tilvistarhugsun eða eins og sagt er á erlendum málum existensíalískri hugsun. Tilvistarhugsun er hugsun sem fyrst og fremst snýst um manninn og hvað það merki að vera manneskja, hvað einkenni hina mannlegu tilveru.

Löngu síðar eða í útvarpserindum sínum Líf og dauði átti Sigurður eftir að ræða stöðu mannsins á heimspekilegan hátt grundvallaðri á tilvistarhugsun.

Hvað segir Sigurður um það hvað það er að vera manneskja í Lífi og dauða?

Jú það er að hugsa. Hann orðar þetta skemmtilega á eftirfarandi hátt:

 

Við erum og verðum það, sem við hugsum. Við smækkum á því að hugsa um tóma smámuni, verðum flysjungar á hégómlegum hugsunum, nærsýnar skepnur á því að horfa aldrei lengra frá okkur en til þess, sem við rekum nefið í. En við vöxum á hinu, að glíma við vandamál lífsins og tilverunnar, þótt við aldrei getum ráðið þau til neinnar hlítar. Munurinn á vitrum manni og heimskingja er oft alls ekki fólginn í ásköpuðu gáfnafari, heldur í því, að annar stefnir á brattann í hugsunum sínum, en hinn vafrar um í þoku sinnuleysis og verður vinglaður á því að elta skottið á sjálfum sér. Við prettum okkur um mesta ævintýri tilverunnar, ef við látum annir og þys daglegs lífs sífellt skyggja á hin eilífu grundvallaratriði mannlegrar þekkingar og vanþekkingar. Og meira er það hugsun er máttur. Á einni stuttri stundu, sem við horfum berum augum á undur mannlegra örlaga, geta sprottið upp fólgnar lindir í hug og hjarta - og ýmiss konar þekking, sem áður var visin og dauð, orðið lifandi og starfandi þáttur í vilja okkar og breytni. Listin að lifa, hin erfiðasta, nauðsynlegasta og æðsta list allra lista, er framar öllu listin að hugsa, að hugsa frjálslega, af einlægni, djörfung og alvöru.[6]

 

Að vera manneskja er ekki bara að vera hugsandi vera að mati Sigurðar eins og svo vel kemur fram í Hel. Að vera manneskja er að vera frjáls, hafa marga lífskosti sem velja verður úr á degi hverjum. Að vera manneskja er að vera haldinn þránni að vilja vera eitthvað annað en maður er. Að vera manneskja er að hafa tilhneigingu til þess að eltast við gæfuna hvar sem maður telur hana að finna. Og að vera manneskja er að gleyma sér í dagsins önn og uppátækjum lífsins.

Allt reyndist þetta vera hlutskipti Álfs frá Vindhæli. Hann hafði úr mörgum kostum að velja, hann var frjáls. Hann eltist við hamingjuna hvar sem hann taldi hana að finna, hann gleymdi sér í faðmi fríðra kvenna og hann þráði eitthvað annað en hann hafði.

Sigurður segir jafnframt í fyrirlestrum sínum Einlyndi og marglyndi að ef við eltumst við hamingjuna þá flýr hún okkur og því meir sem við eltumst við hana því síður náum við að höndla hana.[7]

 

Vel fyrir 1920 setur Sigurður þessi grunnatriði tilvistarhugsunarinnar á prent. Og vissulega var Sigurður undir áhrifum tilvistarsinnaðra heimspekinga eins og Sören Kierkegaard hins danska og hins þýska Friedrich Nietzsche. En það er athyglisvert að  löngu síðar koma heimspekingar til sögunnar í Evrópu sem eru að tala um sömu hluti og Sigurður hafði gert allnokkru áður. Franski rithöfundurinn Jean Paul Sartre[8] sagði að frelsið og valkostirnir væru það sem einkenndi manninn auk þess sem Sartre sagði það sterkt einkenni mannsins að þrá að vera guð rétt eins og Álfur frá Vindhæli sem grét yfir því að vera ekki guð. Álfur þráði eins og maðurinn í skilningi Sartre að vera hvorttveggja frjáls vitundarvera sem þarf að gefa eigin tilveru merkingu annarsvegar og hinsvegar að vera gæddur fastmótuðum eiginleikum hlutverunar.

 "Maðurinn er það sem hann gerir" var í sem stystu máli skilgreining Sartres á manninum og er hún harla lík skilgreiningu Sigurðar "Maðurinn er það sem hann hugsar".

"Ég er dæmdur til þess að þrá[9]... segir Álfur og annar rithöfundur Albert Camus gerði þá löngun sem birtist í þrá Álfs  frá Vindhæli að  vilja vera eitthvað annað en hann er að umtalsefni í einni af bókum sínum þar sem hann segir mannin vera einu skepnuna sem neiti að vera það sem hún er.[10] 

Enn einn heimspekingurinn Viktor Frankl sagði löngu síðar rétt eins og Sigurður hafði sagt áður að ef maður eltist við hamingjuna þá sleppur hún svo sannarlega frá manni[11] og Martin Heidegger gerði að umtalsefni hvernig maður gleymir sér í dagsins önn, rétt eins og Álfur gerði m.a. í faðmi fríðra kvenna.[12]

Þessir fjórir heimspekingar, Heidegger, Sartre, Camus og Frankl svo aðeins fáir séu nefndir vöktu mikla athygli í hugmyndasögu tuttugustu aldarinnar meðal annars með hugmyndum sem fram höfðu komið hjá Sigurði í sögunni Hel og í fyrirlestrunum Einlyndi og marglyndi allnokkru fyrr eða fyrir 1920.

 

Sigurður hefur öðlast sess í íslenskri heimspekisögu og það verður ekki annað sagt en að heimspeki Sigurðar sé hvetjandi þar sem hann brýnir fyrir mönnum að leggja á brattann í hugsunum sínum, hefja sig upp úr hjarðmennskunni og hann minnir okkur á að lifa: "Lífið er allt, sem þú átt, það hefur þú í hendi þér, gerðu sem mest úr því, hvað sem við tekur."[13] segir Sigurður.

 

Það er mikið fagnaðarefni að með gerð óperu skuli sagan Hel  nú vera komin í sviðsljósið að nýju í íslensku menningarlífi. Svo brýnn er boðskapur hennar til nútímafólks.

Nútímamaðurinn á það til að gleyma sér of oft í hraða samfélagsins og vekur sagan mann óneitanlega til umhugsunar um ýmsar grundvallarspurningar lífsins sjálfs sem öllum er hollt að takast á við: Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu öllu saman? Hvernig lífi er best að lifa? Í hverju felst hið hamingjuríka líf?

Álfur frá Vindhæli er ekkert öðruvísi en hver önnur manneskja nútímans. Hann þráir að vera hamingjusamur eins og við öll. Honum, eins og okkur ferst það misvel úr hendi frá einum tíma til annars. Hamingjuna er erfitt að höndla og hún vill oft sleppa úr greipum okkar. Hann kemst að því að lífið sjálft er ekki með öllu laust við átök og togstreitu.  Hann kemst einnig að því að það er vissulega nokkur áhætta fólgin í því að vera manneskja. En þann lærdóm má draga af skrifum Sigurðar að ef rétt er á málum haldið þá er lífið svo sannarlega áhættunar virði.

 

 

Jóhann Björnsson

 

 

 

[1] Grein þessi er byggð á erindi sem samið var í tilefni af óperugerð sögunnar Hel eftir Sigurð Nordal. Óperuna gerði Sigurður Sævarsson og var hún sýnd í Íslensku óperunni dagana 23. og 24. maí 2009.

[2] Sigurður Nordal, Líf og dauði. Sex útvarpserindi með eftirmála. (Almenna bókafélagið 1966).  S. 17.

[3] Sigurður Nordal, "Hel" í Fornar ástir. (Helgafell 1949, önnur útgáfa) s.98.

[4] Sigurður Nordal, Hel s. 121.

[5] Sama rit s. 106.

[6] Sigurður Nordal, Hel. S. 18.

[7] Sigurður Nordal Einlyndi og marglyndi (Hið íslenzka bókmenntafélag 1986) s. 240.

[8] Sjá í ritum Jean-Paul Sartre, Being and Nothingness, þýð. Hazel E. Barnes (Washington Square Press 1956) og Tilvistarstefnan er mannhyggja, þýð. Páll Skúlason (Hið íslenzka bókmenntafélag 2006).

[9] Sigurður Nordal, Hel, s. 112.

[10] Albert Camus, The Rebel, þýð. Anthony Bower (Penguin books in association with Hamish Hamilton 1953) s. 17.

[11] Viktor Frankl, Leitin að tilgangi lífsins, þýð. Hólmfríður Gunnarsdóttir (Háskólaútgáfan - Siðfræðistofnun 1996).

[12] Martin Heidegger, Being and Time. Þýð. John Macquarrie og Edward Robinson (Harper San Francisco A Division of Harper Collins Publishers 1962).

[13] Sigurður Nordal, Líf og dauði, s. 21.

 


hmm

Ef maður setur þetta fyrirbæri sem ég fann á youtube í tilvistargreiningu (á ensku existential analysis) hvað skyldi þá koma út?

JB


Alþingismenn, Lama og messan góða

Ja nú er aldeilis viðfangsefni fyrir ykkur að skoða ágætu lesendur. Í viðtali Frétablaðisins við Stefán nokkur Einar Stefánsson í morgun segir:

"Jafnframt segir Stefán að það kaldhæðnislegasta við þetta sé að Birgitta Jónsdóttir skuli skamma ráðherra fyrir að vilja ekki hitta Dalai Lama. Hún sem ekki vildi mæta í messu við þingsetninguna."

Og nú er spurt hvað er svona kaldhæðnislegt við þessa afstöðu Birgittu? Hver er munurinn á Karli Sigurbjörnssyni biskupi Íslands og séra Helgu Soffíu Konráðsdóttur sem þjónaði fyrir altari í messunni frægu annarsvegar og Dalai Lama hinsvegar? Getur verið að munurinn felist í því að Dalai Lama er ekki eingöngu trúarleiðtogi heldur líka þjóðhöfðingi þjóðar sem býr í útlegð og er í stöðugri baráttu við frekt stórveldi? Eða eru þeir séra Karl og Lama bara alveg af nákvæmlega sömu tegund? Hvað segið þið ágætu lesendur?

JB

 


Má ekki segja að í Rúnari hafi blundað ofurlítill Kim Jong il?

Það var snjallt hjá honum fyrst hann hafði tækifæri til að tilnefna sjálfan sig og eigið verk til íslensku leiklistarverðlaunanna. Hvað hefði ekki Kim Jong Il gert hefði hann bæði átt leikverk og verið í valnefnd verðlaunanna?

JB 


mbl.is Hættir í valnefnd Grímunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband