Heimspeki heima í stofu

Á föstudagskvöldið var ég með svokallað "heimspeki heima í stofu kvöld "ásamt góðum vinum. En "heimspeki heima í stofu" felst í því að maður mætir og varpar fram ýmsum heimspekilegum hversdagsklípum sem allir geta haft skoðanir á. Svo fer umræðan út um víðan völl og enginn veit hvernig endar. Þegar eitt umræðuefni er tæmt þá varpar maður fram því næsta. Þetta er í anda þess sem Sókrates gerði og felst í því að færa heimspekina til almennings. Á meðal þess sem rætt var á þessu kvöldi var:

* Má maður smakka vínber í matvörubúðum? Ef svo er hversu mörg og þarf maður nauðsynlega að vera í þeim hugleiðingum að kaupa þau?

* Ef maður fær of mikið gefið til baka þegar maður fer út í sjoppu, leiðréttir maður þá afgreiðslufólkið? En ef maður fær of lítið?

Margt fleira var skoðað og einnig var varpað fram ýmsum hugmyndum að góðum heimspekitilraunum sem sumir kalla lífstilraunir og er ætlað að fá okkur til að undrast og sjá heiminn í öðru ljósi.

JB


Hægjum á okkur

 

Það er mér minnistætt þegar fjölmiðlar töluðu um íslandsmet í innkaupum á árunum 2006 og 2007.  23. desember var sérstaklega nefndur í þessu samhengi og allir þóttust vera glaðir. Samfélag okkar einkenndist á þeim tíma og í raun allt fram að bankahruni af óheyrilegri græðgi, hraða, sóun, streitu, tímaskorti og gríðarlegum leiðindum, fyrir utan alla sýndarmennskuna.

Ný þykjast sumir sjá möguleika á breyttu gildismati og því lag að rifja upp hugmyndafræði hreyfingar sem rutt hefur sér til rúms úti í heimi og gengur undir nafninu Hæglætishreyfingin (Slow movement). Hæglætishreyfingin verður til sem andóf gegn hraðadýrkun vesturlanda sem hefur verið ríkjandi á flestum ef ekki öllum sviðum samfélagsins, einkum í borgum.  Einkenni hraðadýrkunarinnar er að við eigum að komast á sem skemmstum tíma á milli staða, við eigum að geta gleypt í okkur matinn á sem skemmstun tíma, við eigum að gerast þrælar klukkunnar (samanber nýinnleidd stimpilklukka hjá reykvískum grunnskólakennurum), börnin okkar eiga að streða við námsefnið í stað þess að hugsa, upplifa og njóta, hávaðinn er talinn smart og grænu svæðin púkó, fyrir utan það að í þessu streitufulla samfélagi kæmi það bara ekki til greina að loka heilu götunum fyrir snjósleðum eða gangandi fólki. Fyrir utan langa vinnudaga og opnunartíma verslana sem eru endalausir.

Er sú lýsing sem hér fór á undan hluti af eftirsóknarverðurm lífsstíl? Nei. Hugmyndafræði Hæglætishreyfingarinnar andæfir slíkum lífsstíl sem því miður hefur í raun verið einkennandi fyrir reykvískt borgarlíf á undanförnum árum og áratugum. Í stað hraða, hávaða- og streitulífsins er spurt um lífsgæði. Auka ákvarðanir stjórnmálamannana lífsgæði, eða stuðla þær að auknum hávaða, hraða og streitu? Er ánægjan á undan hraðanum? Eru manneskjur teknar fram yfir steinsteypu? Er hæglæti tekið fram yfir hraðann? Á þessum nótum spyrja fylgismenn Hæglætishreyfingarinnar. Í ýmsum borgum heims hefur hugmyndafræði Hæglætishreyfingarinnar verið  tekin upp. Yfirleitt er miðað við borgir sem ekki hafa fleiri íbúa en 50.000 sem geta flokkast sem „hæglætisborgir", en það er ekkert því til fyrirstöðu að stærri borgir eins og Reykjavík taki mið af þessari hugmyndafræði og notfæri sér á sinn hátt þær góðu hugmyndir sem þar koma fram.

JB


Já já stjórnarformennskan í bankanum leggst bara vel í hann þó hann hafi lítið vit á bankamálum.

Ætli sagan sé að byrja að endurtaka sig með bullið í bönkunum, jú jú hann Friðrik Sóphusson er bara nýráðinn stjórnarformaður Íslandsbanka þrátt fyrir að segja það beint framan í þjóina í fréttum Stöðvar 2 að hann hafi ekkert vit á bankamálum.

Jú þakka þér fyrir djobbið, ég er bara alveg æðislegur trukkabílstjóri þrátt fyrir að vera ekki með meirapróf ;-þ

JB

 


Útvaldir þurfa ekki að greiða fyrir afnot af sumarhúsi borgarinnar

Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi VG vekur athygli á því að útvaldir einstaklingar þurfi ekki að greiða fyrir afnot af sumarhúsi borgarinnar. Þeir ættu svo sem alveg að geta lagt eitthvað af mörkum enda margir þeirra með áttahundruð þúsund til milljón á mánuði.

Fréttina má lesa á Vísi

http://visir.is/article/20100120/FRETTIR01/655436564

Flott hjá Þorleifi að vekja á þessu athygli á tímum þar sem sumir vilja telja almenningi trú um að borgarmálin snúist eingöngu um það hvort flugvöllurinn eiga að vera eða fara.

JB


Þegar tvær konur mætast í alveg eins kjólum og fleiri heimspekilegar hversdagsklípur

Á morgun laugardag verður haldinn örnámskeiðadagur í Réttarholtsskóla kl. 11.00-13.30. Fjöldi námskeiða verður í boði sem ekki eru lengri en 30 mín. þátttaka á hverju námskeiði kostar kr. 300.

Ég mun bjóða upp á námskeiðið: Þegar tvær konur mætast í alveg eins kjólum og fleiri heimspekilegar hversdagsklípur.

Námskeiðið verður haldið kl. 13.00-13.30 og verða þar skoðað ýmislegt í hversdagslífi okkar út frá heimspekilegu sjónarhorni.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Og svo verður kaffihúsið opið.

JB


Hvernig get ég annað en trúað á spádóma?

Í tilefni frétta dagsins af honum Gunnari karlinum sem komin er til starfa á Biskupsstofu í sérverkefni þá verð ég að segja að ég er afskaplega ánægður með spádómshæfileika mína, en þann 20. mars s.l. spáði ég því að hann fengi djobb á þeim kontór og viti menn. Ég hef spádómshæfileika. Sjá færsluna frá 20. mars hér að neðan:

"Ég hef aldrei verið mikið fyrir spádóma og aldrei talið mig hafa spádómsgáfu. En einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að ég gæti kannski orðið ágætur spámaður og gaman gæti verið að spá fyrir fólki og atburðum. Ég ætla því að skella mér í spádómsmálin og fyrsti spádómur minn á vonandi löngum spádómsferli er sá að innan ekki svo margra vikna mun sóknarpresturinn Gunnar sem verið hefur í fréttum að undanförnu hætta að stýra söfnuði sínum á suðurlandi og taka til við störf að ýmsum "sérverkefnum" á biskupsstofu. Mér sýnist líka þegar ég rýni betur í spádóminn að þetta starf að "sérverkefnum" verði í boði íslenskra skattgreiðenda þrátt fyrir kreppuna."

 


mbl.is Gunnar til Biskupsstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær hefur maður nóg með sig og hvenær er maður aflögufær? Erindi um málefni flóttamanna frá sjónarhóli siðfræði

Fimmtudaginn 15. október n.k. mun Jóhann Björnsson flytja erindi á vegum Félags áhugamanna um heimspeki og Heimspekistofnunar sem kallast „Hvenær hefur maður nóg með sig og hvenær er maður aflögufær? Um málefni flóttamanna frá sjónarhóli siðfræði.“

Málefni flóttamanna og innflytjenda almennt eru klárlega að einum þræði siðferðileg og full ástæða til að sú hlið fái frekara vægi í samfélagsumræðunni.

Í erindi þessu verða ýmis sjónarmið sem birtust opinberlega í umræðunni um komu palestínskra flóttamanna árið 2008 skoðuð út frá sjónarhorni siðfræðinnar. Leitað verður svara við því hvert siðferðilegt inntak þessara sjónarmiða er og hver séu einkenni siðferðilega lofsverðrar flóttamannastefnu.

Erindið verður haldið í stofu HT 101 í Háskóla íslands (Háskólatorgi) og hefst kl. 20.15.


Enn og aftur um stimpilklukkur í grunnskólum

 

Færsla mín hér á undan þar sem fjallað er um upplifun mína af nýtilkomnu stimpilklukkukerfi í grunnskólum borgarinnar hefur vakið mikla athygli. Langflestir sem haft hafa samband við mig eru mér algjörlega sammála, öðrum finnst ég hafa margt til málanna að leggja en hafa ekki vandað orðalag mitt sem skyldi og eru sárir þess vegna. Ef einhver er sár þá þykir mér það leitt og biðst afsökunar á því. Engu að síður lýsir þessi  nýja stefna í garð grunnskólanna sorglegri afstöðu til þeirra og þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Mikilvægt er að hafa eftirfarandi þætti í huga í þessu máli:

  • 1) „Flækjum ekki líf okkar að óþörfu." : Í einu af geðorðunum 10 er lögð áhersla á að fólk hugi að eigin heilbrigði með því að flækja líf sitt ekki að óþörfu. Upptaka stimpilklukku í grunnskólum borgarinnar nú eftir öll þessi ár og áratugi í skólastarfi í Reykjavík er viðleitni til þess að fólk flæki líf sitt meira en ástæða er til. Nú er sífellt háværari krafa uppi í samfélaginu um mildara og manneskjulegra samfélag en verið hefur, og með upptöku stimpilklukku í skólum borgarinnar ekki beinlínis verið að stuðla að mildara, sveigjanlegra og manneskjulegra starfsumhverfi.
  • 2) „Lykt af vantrausti": Ekki hafa fundist rök fyrir ótvíræðum ávinningi þess að innleiða stimpilklukkur í grunnskóla borgarinnar. Á kynningarfundi með starfsmönnum nýverið var því haldið fram að ávinningurinn fælist fyrst og fremst í því að starfsfólk hefði betri yfirsýn yfir eigin vinnu. Hér þurfa þeir sem vilja innleiða stimpilklukkur að svara því til að hvaða leiti höfum við starfsmenn ekki haft yfirsýn yfir störf okkar.
  • 3) Verksmiðjuvæðing grunnskólans": Störf kennara í grunnskólum er ekki eins klippt og skorið og störf fólks sem vinnur t.d. í verksmiðjum. Vinnutíminn er í raun mun sveigjanlegri og oft sveigjanlegri heldur en kennarar í raun óska sér. Kennarar eru þekktir fyrir að sinna nemendum sínum og fjölskyldum þeirra eftir bestu getu hvenær sem leitað er til þeirra, hvort sem er innan eða utan hefðbundins vinnutíma, hvort sem það er á götu úti, símleiðis eða með tölvupóstsamskiptum, enda kemur margt upp á í margbreytilegu starfi. Sjálfur hef ég aldrei séð eftir því að sinna nemendum mínum og fjölskyldum þeirra þegar til mín hefur verið leitað utan vinnutíma og mun ekki verða breyting þar á. Ég efast samt um að ég muni muni stimpla mig inn þegar leitað verður til mín utan hefðbundins vinnutíma.
  • 4) Er fjármunum vel varið? Eins og aðrir hafa skólarnir þurft að grípa til sparnaðaraðgerða og í ljósi þeirra veltur maður því fyrir sér hver kostnaðurinn við innleiðingu stimpilklukku sé og hvort það sé þess virði að verja fjármunum til slíks í ljósi eftirfarandi staðreynda: A) Í fréttum hefur komið fram að kennslustundum yngstu barnanna verður fækkað frá því sem verið hefur. B) Dregið verður úr fjölbreyttum kennsluháttum, á ég þá einkum við um vettvangsferðir ýmiskonar og skólaferðalög sem hafa haft ótvírætt gildi fyrir nemendur, ekki síst félagslega stöðu þeirra. C) Þar sem ég þekki til er óhætt að fullyrða að tími sé kominn á viðhald skólahúsnæðis og skólalóða. D) Ekki væri verra að geta niðurgreitt enn frekar skólamáltíðir nemenda, einkum þeirra fjölskyldna sem illa hafa orðið úti í núverandi efnahagsástandi.
  • 5) Eyða verður óvissu sem upp kann að koma um möguleg hagsmunatengsl kaupenda og seljenda þjónustunnar: Á undanförnum mánuðum hefur komið æ betur í ljós að siðferðilega vafasamir viðskiptahættir hafa tíðkast víða í samfélaginu. Ekki er ég að fullyrða að um slíkt sé að ræða í þessu tilviki en þar sem aukinnar tortryggni hefur gætt varðandi viðskiptahætti og í ljósi sparnaðaraðgerða þá ber kaupendum umræddrar þjónustu að eyða allri óvissu sem slíkar bollaleggingar kunna að valda.

Að lokum þetta: Er einhver hissa á að hvasst orðalag hafi verið notað í fyrri færslu minni í ljósi þess sem ég hef nú greint frá? Sem kennari hef ég á tilfinningunni að mér sé vantreyst og sem skattborgara er manni ekki sama um almannafé, allra síst um þessar mundir.

JB


Mikið andsk. saknaði ég vinnunnar minnar. Eða hafa yfirvöld menntamála í Reykjavík ekkert annað að gera en vantreysta kennurum?

Reynsla mín undanfarin ár af yfirvöldum menntamála í borginni og annarsstaðar er sú að helst af öllu vilja þau að kennarar geri allt annað í vinnunni en að kenna unga fólkinu.

Þetta kom svo sannarlega á daginn í dag þegar alls fjórir, já ég endurtek fjórir fulltrúar frá borginni komu til okkar í Réttarholtsskóla og stálu frá okkur einni klukkustund í vinnu til að segja okkur það að framvegis verðum við að stimpla okkur inn og út í tíma og ótíma. Og þetta er víst ekki svona stimpilklukka eins og var í Hraðfrystihúsi Keflavíkur þegar ég var að alast upp þar sem fólk smellti svona pappír í klukku og fékk stimpil. Nei þetta er svona stimpilklukka þannig að maður getur stimplað sig inn og út hvar sem er og hvenær sem er í gegnum tölvu og síma og ég veit ekki hvað.

Í vetur er ég svo lánsamur að fá að kenna alls 8 kennslustundir í heimspeki, en heimspekin er mitt helsta áhugamál. Réttarholtsskóli er eini skólinn sem hefur heimspeki sem skyldufag í 8. bekk og svo eru tveir hópar í 10. bekk sem hafa valið greinina, þannig að það verður mikið fjör í heimspekinni í vetur. Á meðan þessi fjórir, já ég endurtek fjórir fulltrúar frá Reykjavíkurborg (já ég endurtek fjórir þvílíkt bruðl) voru að predika fagnaðarerindið þá var ég með hugann við heimspekikennsluna sem fram undan er. Þetta er bara gjörsamlega óþolandi þegar pólitíkusar í menntaráði og embættishvuttarnir þeirra vantreysta okkkur kennurum svo mikið að þeir geta ekki séð okkur í friði til að vinna vinnuna okkar. Og svo hótuðu þessir fjórir fulltrúar, já ég endurtek fjórir að koma aftur og taka hvern og einn starfsmann í einkakennslu til að stimpla sig inn og út. Hvað er að þessu liði?

Við menntaráð Reykjavíkur segi ég bara "fokk jú" leyfið okkur að vinna vinnuna okkar í friði og í stað þess að vera að flækja okkur í einhverju bulli ættuð þið fulltrúar ráðsins að hætta að vantreysta okkur kennurum og koma ykkur hingað í skólann og sjá að við erum að vinna.

Ykkur menntaráðsfulltrúum er því hér með boðið að koma og sitja hjá mér í tímum þegar kennsla er hafin svo þið fáið nú smá hugmynd um hvað er að gerast í skólunum.

Við þurfum ekkert meira bull frá stjórnmálamönnum, við þurfum frið til að vinna vinnuna okkar.

JB


Á ég að panta tíma hjá sænsku ríkisstjórninni? Eða læstur inni á hótelherbergi og kastað öfugum út úr lest (þó ekki á fullri ferð). Seinni hluti.

Þá er komið að seinni hluta ævintýrisins frá Svíþjóð (fyrri hlutann má lesa í  næstu færslu á undan).

Eftir að mér tókst að komast hindrunarlaust inn og út úr herberginu á hótelinu var dvölin öll hin ánægjulegasta. Líður síðan að því að dvölinni lýkur og er tími kominn til að koma sér niður á lestarstöð til að taka lestina til Kaupmannahafnar. Eins og segir frá í fyrri hlutanum höfðum við keypt miða báðar leiðir og taldi ég það bara ansi snjallt að þurfa ekki að hanga í miðasölu til að kaupa miða. Þannig var bara hægt að koma sér út á brautarpall og bíða eftir að lestin kæmi. Ekki leið langur tími þar til hún kom og fengum við ferðafélagarnir okkur sæti og svo rann hún af stað.

Eftir dágóða stund kemur lestarvörðurinn, stór og stæðileg kona sem hefur væntanlega reynt ýmislegt í lestarbransanum, biður um miðana og setur upp leiðinlegan svip (ef kalla má svip leiðinlegan). Kona þessi kom mér fyrir sjónir sem manneskja sem lengi hefur unnið í miðatékkinu og hefur kynnst öllum lélegustu bröndurum farþeganna sem hugsast getur, öllum svikahröppunum og brögðum þeirra og var ekki skemmt yfir nokkrum einasta farþega. Hér var alvarleikinn mættur holdi klæddur. 

"Af hverju var manneskjan svona alvarleg" hugsaði ég. "Þið eruð ekki í réttri lest" sagði hún. "Er þetta ekki lestin sem er að fara til Kaupmannahafnar?" "Jú", "já við erum að fara þangað, hvernig getur þetta ekki verið rétt lest?" "Þetta er bara ekki rétta lestin" sagði hún. "Ja nú skil ég ekki" svaraði ég, "ég er að fara til Kaupmannahafnar og þessi lest er að fara þangað líka, málið getur ekki verið einfaldara." "Þið keyptuð miða með annarri lest þangað" svaraði hún. "Og hvað eigum við að gera?" spurði ég. "Þið verðið að fara út", "ha fara út, eigum við að fara út hérna?" spurði ég og benti á þéttann skóginn fyrir utan. Ég sá hana fyrir mér stöðva lestina og vísa okkur út í skóg en þá sagði hún hvasst "þið farið út í Malmö". "En þá erum við næstum því komin til Kaupmannahafnar" sagði ég og var ekki alveg búinn að gefast upp. "Þið farið út í Malmö" endurtók hún og svo rukkaði hún okkur um fargjald frá Halmstad til Malmö. Að sjálfsögðu byrjaði ég að tuða yfir því hvað þetta væri allt saman ömurlegt og óréttlátt og ótúristavænt. En þá sagði mín kona bara: "Ef þú ert eitthvað óánægður þá skaltu bara tala við ríkisstjórnina."

Þar með var ég mát og endaði á að fara út í Malmö.

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband