Hægjum á okkur

 

Það er mér minnistætt þegar fjölmiðlar töluðu um íslandsmet í innkaupum á árunum 2006 og 2007.  23. desember var sérstaklega nefndur í þessu samhengi og allir þóttust vera glaðir. Samfélag okkar einkenndist á þeim tíma og í raun allt fram að bankahruni af óheyrilegri græðgi, hraða, sóun, streitu, tímaskorti og gríðarlegum leiðindum, fyrir utan alla sýndarmennskuna.

Ný þykjast sumir sjá möguleika á breyttu gildismati og því lag að rifja upp hugmyndafræði hreyfingar sem rutt hefur sér til rúms úti í heimi og gengur undir nafninu Hæglætishreyfingin (Slow movement). Hæglætishreyfingin verður til sem andóf gegn hraðadýrkun vesturlanda sem hefur verið ríkjandi á flestum ef ekki öllum sviðum samfélagsins, einkum í borgum.  Einkenni hraðadýrkunarinnar er að við eigum að komast á sem skemmstum tíma á milli staða, við eigum að geta gleypt í okkur matinn á sem skemmstun tíma, við eigum að gerast þrælar klukkunnar (samanber nýinnleidd stimpilklukka hjá reykvískum grunnskólakennurum), börnin okkar eiga að streða við námsefnið í stað þess að hugsa, upplifa og njóta, hávaðinn er talinn smart og grænu svæðin púkó, fyrir utan það að í þessu streitufulla samfélagi kæmi það bara ekki til greina að loka heilu götunum fyrir snjósleðum eða gangandi fólki. Fyrir utan langa vinnudaga og opnunartíma verslana sem eru endalausir.

Er sú lýsing sem hér fór á undan hluti af eftirsóknarverðurm lífsstíl? Nei. Hugmyndafræði Hæglætishreyfingarinnar andæfir slíkum lífsstíl sem því miður hefur í raun verið einkennandi fyrir reykvískt borgarlíf á undanförnum árum og áratugum. Í stað hraða, hávaða- og streitulífsins er spurt um lífsgæði. Auka ákvarðanir stjórnmálamannana lífsgæði, eða stuðla þær að auknum hávaða, hraða og streitu? Er ánægjan á undan hraðanum? Eru manneskjur teknar fram yfir steinsteypu? Er hæglæti tekið fram yfir hraðann? Á þessum nótum spyrja fylgismenn Hæglætishreyfingarinnar. Í ýmsum borgum heims hefur hugmyndafræði Hæglætishreyfingarinnar verið  tekin upp. Yfirleitt er miðað við borgir sem ekki hafa fleiri íbúa en 50.000 sem geta flokkast sem „hæglætisborgir", en það er ekkert því til fyrirstöðu að stærri borgir eins og Reykjavík taki mið af þessari hugmyndafræði og notfæri sér á sinn hátt þær góðu hugmyndir sem þar koma fram.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband