Enn og aftur um stimpilklukkur í grunnskólum

 

Færsla mín hér á undan þar sem fjallað er um upplifun mína af nýtilkomnu stimpilklukkukerfi í grunnskólum borgarinnar hefur vakið mikla athygli. Langflestir sem haft hafa samband við mig eru mér algjörlega sammála, öðrum finnst ég hafa margt til málanna að leggja en hafa ekki vandað orðalag mitt sem skyldi og eru sárir þess vegna. Ef einhver er sár þá þykir mér það leitt og biðst afsökunar á því. Engu að síður lýsir þessi  nýja stefna í garð grunnskólanna sorglegri afstöðu til þeirra og þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Mikilvægt er að hafa eftirfarandi þætti í huga í þessu máli:

  • 1) „Flækjum ekki líf okkar að óþörfu." : Í einu af geðorðunum 10 er lögð áhersla á að fólk hugi að eigin heilbrigði með því að flækja líf sitt ekki að óþörfu. Upptaka stimpilklukku í grunnskólum borgarinnar nú eftir öll þessi ár og áratugi í skólastarfi í Reykjavík er viðleitni til þess að fólk flæki líf sitt meira en ástæða er til. Nú er sífellt háværari krafa uppi í samfélaginu um mildara og manneskjulegra samfélag en verið hefur, og með upptöku stimpilklukku í skólum borgarinnar ekki beinlínis verið að stuðla að mildara, sveigjanlegra og manneskjulegra starfsumhverfi.
  • 2) „Lykt af vantrausti": Ekki hafa fundist rök fyrir ótvíræðum ávinningi þess að innleiða stimpilklukkur í grunnskóla borgarinnar. Á kynningarfundi með starfsmönnum nýverið var því haldið fram að ávinningurinn fælist fyrst og fremst í því að starfsfólk hefði betri yfirsýn yfir eigin vinnu. Hér þurfa þeir sem vilja innleiða stimpilklukkur að svara því til að hvaða leiti höfum við starfsmenn ekki haft yfirsýn yfir störf okkar.
  • 3) Verksmiðjuvæðing grunnskólans": Störf kennara í grunnskólum er ekki eins klippt og skorið og störf fólks sem vinnur t.d. í verksmiðjum. Vinnutíminn er í raun mun sveigjanlegri og oft sveigjanlegri heldur en kennarar í raun óska sér. Kennarar eru þekktir fyrir að sinna nemendum sínum og fjölskyldum þeirra eftir bestu getu hvenær sem leitað er til þeirra, hvort sem er innan eða utan hefðbundins vinnutíma, hvort sem það er á götu úti, símleiðis eða með tölvupóstsamskiptum, enda kemur margt upp á í margbreytilegu starfi. Sjálfur hef ég aldrei séð eftir því að sinna nemendum mínum og fjölskyldum þeirra þegar til mín hefur verið leitað utan vinnutíma og mun ekki verða breyting þar á. Ég efast samt um að ég muni muni stimpla mig inn þegar leitað verður til mín utan hefðbundins vinnutíma.
  • 4) Er fjármunum vel varið? Eins og aðrir hafa skólarnir þurft að grípa til sparnaðaraðgerða og í ljósi þeirra veltur maður því fyrir sér hver kostnaðurinn við innleiðingu stimpilklukku sé og hvort það sé þess virði að verja fjármunum til slíks í ljósi eftirfarandi staðreynda: A) Í fréttum hefur komið fram að kennslustundum yngstu barnanna verður fækkað frá því sem verið hefur. B) Dregið verður úr fjölbreyttum kennsluháttum, á ég þá einkum við um vettvangsferðir ýmiskonar og skólaferðalög sem hafa haft ótvírætt gildi fyrir nemendur, ekki síst félagslega stöðu þeirra. C) Þar sem ég þekki til er óhætt að fullyrða að tími sé kominn á viðhald skólahúsnæðis og skólalóða. D) Ekki væri verra að geta niðurgreitt enn frekar skólamáltíðir nemenda, einkum þeirra fjölskyldna sem illa hafa orðið úti í núverandi efnahagsástandi.
  • 5) Eyða verður óvissu sem upp kann að koma um möguleg hagsmunatengsl kaupenda og seljenda þjónustunnar: Á undanförnum mánuðum hefur komið æ betur í ljós að siðferðilega vafasamir viðskiptahættir hafa tíðkast víða í samfélaginu. Ekki er ég að fullyrða að um slíkt sé að ræða í þessu tilviki en þar sem aukinnar tortryggni hefur gætt varðandi viðskiptahætti og í ljósi sparnaðaraðgerða þá ber kaupendum umræddrar þjónustu að eyða allri óvissu sem slíkar bollaleggingar kunna að valda.

Að lokum þetta: Er einhver hissa á að hvasst orðalag hafi verið notað í fyrri færslu minni í ljósi þess sem ég hef nú greint frá? Sem kennari hef ég á tilfinningunni að mér sé vantreyst og sem skattborgara er manni ekki sama um almannafé, allra síst um þessar mundir.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég legg til að það verði einnig sett stimpilklukka í Alþingi

Ingólfur (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 14:44

2 identicon

Gott hjá þér Jóhann B. Ekki veitir af að gagnrýna slæman rekstur og þetta kemur mér í gott skap bara.

Ég segi "fuck the sytem".

bestu kveðjur

sandkassi (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 15:30

3 identicon

Jóhann, hvaða tuð er þetta í þér. Stimpilklukka er viðurkennd leið til að sjá hvað starfsmaðurinn er að vinna mikið (hversu mikið hann er í vinnunni)

Að vera í vinnunni, getur líka verið þannig að þú sért heima að vinna að verkefnum, undirbúa kennslu, ræða við foreldra og svo framv.

Þegar þú vinnur heima, þá getur þú stimplað þig inn í gegnum tölvuna. Ég sé ekki hvað er að því.

Svo þegar þú stimplar þig inn þá er oft þannig að þú getur sett athugasemd, t.d. hvað var gert. Ég veit ekki hvað þú tókst vel eftir, en það er jú víst hægt að leiðrétta innstimplun ef hún er röng eða hefur gleymst.

Þegar þú skoðar svo árið, þá getur þú listað upp ég vann svona mikið við gerð verkefna, svona mikið í undirbúning.

Ég sé þetta sem tækifæri fyrir kennara til að sína og sanna hvað þeir vinna mikið. Í breytingum felast tækifæri. Hættu þessu kennaratuði og sjáðu bara hvaða tækifæri felast í þessu.

Kannski var fullmikið að senda fjóra til að kenna ykkur, en ég veit það að sumir kennarar eru með tæknifóbíu. Þeim fer þó fækkandi, en af hverju lítur þú ekki á þetta sem góða þjónustu frekar en tímaeyðslu? Hvað hefðir þú getað tuðað mikið ef það hefði bara einn komið til ykkar.

Jóhann mundu svo eitt, eftir árið þá sést hvað þú hefur verið andsk. duglegur. Það gerir þig að verðmætari starfsmanni. Í því felst tækifæri.

Foreldri (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 15:51

4 Smámynd: Jóhann Björnsson

Fyrirgefðu ágæta foreldri en ég hef hvorki þörf né löngun til þess að sýna öðrum hvað ég vinn mikið eða lítið. Ég hef bara alls engar áhyggur af því.

Jóhann Björnsson, 21.8.2009 kl. 16:19

5 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Ætli vinnuveitandinn og launagreiðandinn hafi ekki áhuga á því Jóhann.. ég átta mig ekki á af hverju kennarar ættu að vera yfir það hafnir að nota stimipilklukku frekar en aðrir launamenn.

Jón Ingi Cæsarsson, 21.8.2009 kl. 16:21

6 identicon

Þetta er nú alveg furðulegt að lesa athugasemdir frá "Foreldri" sem og Jóni Inga.

Jóhann er að setja út á rangar áherslur í rekstri en hvort ykkur varðar eitthvað um þann niðurkurð sem er að bitna á Jóhanni og starfsfélögum hans, tja ekki virðist mér það.

Látum vera.

Hvernig væri þá að þið tækuð til greina gagnrýni Jóhanns á sóun á fé til þessarar aðgerðar;

"Er fjármunum vel varið? Eins og aðrir hafa skólarnir þurft að grípa til sparnaðaraðgerða og í ljósi þeirra veltur maður því fyrir sér hver kostnaðurinn við innleiðingu stimpilklukku sé og hvort það sé þess virði að verja fjármunum til slíks í ljósi eftirfarandi staðreynda: A) Í fréttum hefur komið fram að kennslustundum yngstu barnanna verður fækkað frá því sem verið hefur. B) Dregið verður úr fjölbreyttum kennsluháttum, á ég þá einkum við um vettvangsferðir ýmiskonar og skólaferðalög sem hafa haft ótvírætt gildi fyrir nemendur, ekki síst félagslega stöðu þeirra. C) Þar sem ég þekki til er óhætt að fullyrða að tími sé kominn á viðhald skólahúsnæðis og skólalóða. D) Ekki væri verra að geta niðurgreitt enn frekar skólamáltíðir nemenda, einkum þeirra fjölskyldna sem illa hafa orðið úti í núverandi efnahagsástandi."

sandkassi (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 18:47

7 identicon

Stimpilklukka er versta mögulega aðferð til að mæla vinnuframlag. Það er enginn vandi að mæta í vinnuna, stimpla sig inn, gera ekki rassgat allan daginn og fara svo heim. Að sama skapi þarf að hafa í huga - eins og Jóhann hefur réttilega bent á - að umtalsverður hluti vinnu kennarans fer fram utan þess tímabils sem hann eða hún er stimpluð inn í tölvukerfi borgarinnar. Og það er ekki rétt að hægt sé að stimpla sig inn og út hvar sem er eftir þörfum á netinu - það er einungis hægt að gera í tölvum sem eru tengdar á innranet skólans.

Sem kennari hvet ég alla kollega mína til að hunsa þetta Orwellska bull.

Feitibjörn (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 22:16

8 identicon

Mér þótti það frábært að sjá þig mótmæla þessu. En ég hugsa að ef kennarar gætu stimplað sig inn hvar sem er og hvenar sem er þegar þeir færu að sinna vinnunni. Þá held ég að þessar stimpil klukkur hengu ekki lengi í skólanum.

Því ef þú ert kennari sem hefur áhuga á vinnunni þá ertu mjög oft með hugan við vinnuna og hvernig hægt er að skipulegja þessa og þessa kennslustund. Þú ert einnig heima hjá þér og færð hugmyndir þar og hleypur jafnvel til til þess að vinna úr þeim hugmyndum.

Þannig að ég héld að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að kennarar séu að skila vinnuni sinni.

 Kveðja Ingó

Ingó (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 22:42

9 identicon

Sæll Jóhann og þakka þér fyrir þessa góðu færslu.

Ég held þú mælir fyrir munn margra kennara og skólastjórnenda. Mér virðist almennt að fólk átti sig ekki á kennarastarfinu og hvað í því felst. Kennari getur verið að vinna á laugardags- eða sunnudagseftirmiðdegi þó hann sé úti að labba. Hann getur verið að hugleiða hvernig best sé að taka á málum þessa eða hins nemandans, hann getur verið að velta því fyrir sér hvernig best sé að kynna nýtt efni fyrir bekknum í heild eða einstökum nemendum. Allt tal um að halda utan um vinnutíma kennara er af fyrrgreindum ástæðum því mjög erfitt. Svo er það þannig að jafnvel þó kennari skrái 50 tíma á viku í vinnu og sé í 100% starfi án nokkurrar yfirvinnu fær hann mismuninn ekki greiddan. Til hvers þá að skrá? Aðrar stéttir fá það kannski en ekki kennarar. Gerir þetta kerfi vinnu kennara sýnilega? Nei, það gerir það alls ekki. Stimpilklukka hentar án efa vel á sumum vinnustöðum til að halda utan um vinnu starfsmanna en á öðrum stöðum gerir hún það ekki eins og gefur að skilja. Ekki get ég ímyndað mér að Alþingismenn vinni eftir stimpilklukku þegar þeir ferðast um sitt kjördæmi.

Bretar fengu þá snilldarhugmynd fyrir nokkrum árum að árangurstengja laun kennara, þ.e. að tengja laun þeirra við árangur nemenda sinna. Auðvitað varð massíft gengisfall á einkunnum og eftir fáein ár var þetta kerfi aflagt enda sáu margir fyrir hvernig þetta myndi enda. Kerfi sem virkar vel í einum kringumstæðum virkar ekki endilega vel við aðrar. Vel má vera að það sé gott að borga fólki sem verkar fisk hratt og vel meira en öðrum sem geta ekki unnið eins hratt og vel en þetta sama kerfi virkar ekki í menntakerfinu. Á læknir sem kemst yfir að sinna 10 sjúklingum á sinni vakt að fá meira en læknir sem sinnir 7?

Svo langar mig að nefna annað atriði sem ég hef aldrei heyrt nefnt: Skólar og leikskólar hafa plumað sig alveg ágætlega undanfarin ár og áratugi án stimpilklukku. Hvaða framför er í þessu fyrir skólastarfið? Hvernig bætir þetta skólastarfið? Því hefur enginn svarað. Þangað til fram koma haldgóð svör við þessari spurningu virðist þetta því vera breyting breytinganna vegna.

Ég hef heldur ekki heyrt hvað þetta kerfi kostaði í innleiðingu en ákvörðun um innleiðingu þess var tekin fyrir nokkru síðan. Hvað kostaði að koma því á og hvað kostar rekstur þess á mánuði?

Í dag er einnig í tísku að tala um að auka þurfi sjálfstæði skóla og kennara. Hvernig gerir þetta miðlæga kerfi það? Þessu er skellt á skóla og kennara án þess að skólar hafi nokkuð með það að segja.  Reykjavíkurborg ákveður þetta miðlægt fyrir alla sína starfsmenn.

Ég ætla rétt að vona að önnur sveitarfélög geri ekki sömu mistök heldur komi betur fram við sína kennara og ákveði að nýta sína takmörkuðu fjármuni á hagstæðri hátt íbúum sínum til góðs í stað þess að moka fjármunum í tölvukerfi sem bætir skólastarf ekki neitt.

Jon (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 09:03

10 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Ég er aldeilis hlessa, manni dettur ýmislegt í hug, þegar maður les þetta !

Mig langar samt til að skilja þetta betur, og er því með nokkrar spurningar til þín Jóhann:

1) Er hægt að stimpla sig inn og út hvar sem er,

(á internetinu T.d.) eða aðeins í skólabyggingunni ?, eins og Feitibjörn helsdur fram ?

2) Er mikil heimavinna hjá kennurum?, T.d. við yfirferð stíla, og prófa?, eða vegna undirbúnings kennslu?, og eru allar hugsanir um vinnuna sína launaskyldar ?, eins og Jon skrifar um ?

3) Er heimavinna (ef hún er) nauðsynleg vegna aðstöðuleysis í skólunum ?

4) Myndi svona stimpilklukka ekki nýtast í kjarabaráttu kennara, til að sanna mikla vinnu viðveru ?

5) Myndi svona stimpilklukka ekki auðvelda allann launaútreikning ?

6) Myndi svona stimpilklukka ekki gera skólastjórnendum auðveldara um vik, að sjá hvort viðkomandi kennari væri mættur ?

7) Lítur þú almennt svo á, að þar sem stimpilklukku kerfi hefur verið tekið upp, að verið sé að vantreysta fólki ?

8) Er ætlast til að kennarar í skólanum þínum mæti í skólann á ákveðnum tímum, jafnvel þótt viðkomandi kennari eigi ekki kennslustund fyrr en seinna að deginum ?

9) Er ætlast til að þið verjið ákveðnum lágmarkstíma í skólabyggingunni ?

10) Finnst þér eitthvað athugavert við að vinnuveitendur geti á markvissan hátt, fylgst með vinnuframlagi starfsmanna sinna ?

Er það algengt, að kenarar mæti ekki í skólann fyrr en þeir þurfa að mæta í kennslustund, og að þeir yfirgefi skólann um leið og þeirra kennslu er lokið ?

11) Er undirbúningur skóla árs ekki byrjaður hjá þér, eða varstu bara í fríi í gær ?

Og að lokum:

Finnst þér að almennt ætti fólk að komast upp með að ,,hafa hvorki þörf, né löngun til að sýna öðrum hvað það vinnur mikið" ?, T.d. vinnuveitendum, eða ert þú að einhverju leyti hafinn yfir það ?

Ég vildi gjarnan að þú svaraðir þessum spurningum heiðarlega, og án útúrsnúninga. Það gæti hjálpað mér að skilja þessa andstöðu þína gagnvart stimpilklukkunni.

Börkur.

P.s.

Er þetta ekki bara vitleysa með ,,tæknifóbíu" kennara ?

Sami.

Börkur Hrólfsson, 22.8.2009 kl. 10:17

11 identicon

Ég gæti svarað þessari spurningu þinni Börkur að hluta til. Nú þekki ég ekkert til þessara kerfa hjá Grunnskólum, en til hliðsjónar þá eru vinnustundir tónlistarkennara sem þyggja sín laun hjá hinu opinbera metnar út frá áætlaðu vinnuframlagi.

Ef ég man rétt, enda komin mörg ár síðan ég starfaði við almenna tónlistarskóla, þá var vinnuvika á grunnstigi 19.5 klst. Þá er reynt að slá á undirbúning þann sem muni þurfa fyrir þá kennsluna.

Á háskólastigi minnir mig að þetta sé komið niður í 12 klst á viku. Allt er þetta þó með algjörum fyrirvara um mitt ryðgaða minni í þessum efnum sökum algjörs áhugaleysis um fyrirbærið.

Mér sýnist á máli þínu Börkur að þú gerir fremur lítið úr undirbúningi kennara ef marka má spurningu þína; "og eru allar hugsanir um vinnuna sína launaskyldar ?, ".

Mér þykir þetta nú ekki lýsa sérstökum áhuga þínum á störfum kennara almennt eða áhuga á menntunarmálum svo ég taki nú ekki dýpra í árina þó mér væri það ljúft.

sandkassi (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 12:30

12 identicon

Sælt veri fólkið.

Ég er sonur kennara bóklegra sem verklegra faga.

Stimpilklukkukerfið er peninga- og tímasóun af Dilbertískum stærðum.

Ég hef reynslu af skólastarfi og ýmsu öðru starfi.

Áður en ég ávann mér reynslu mína fannst mér Dilbert teiknimyndaröðin fyndin vegna súrrealisma hennar og afbrigðilegrar hegðunar og tilsvara söguhetjanna.

Eftir því sem ég vann á fleiri stöðum og kynntist betur mannlegu eðli, varð mér sífellt meira og betur ljóst að fátt var nær réttri lýsingu á samskiptum fólks og rekstri fyrirtækja hvers konar (t.d ríkisstjórnir og bensínstöðvar svo eitthvað sé nefnt), en einmitt lýsing Scott Adams, höfundar Dilberts, í teikningum sínum.

 Ein röðin lýsti því hvernig skilafrestur verkefnis vinnuhóps Dilberts nálgaðist, en mikið verk var enn eftir. Stjórnin hafði, eðlilega, áhuga og rétt á að vita hvernig gengi, svo hún bað um vinnuskýrslur.

 Eftir því sem nær dró skilafresti, krafðist stjórnin svo fleiri og fleiri vinnuskýrslna, þar til ekki var lengur neinn tími til að sinna starfinu. 

Þeir sem voru hlýðnir í hópnum, fylltu út vinnuskýrslur allan daginn. Þeir sem vildu halda fyrirtækinu í gangi unnu óskráða yfirvinnu og skýrðu rétt nógu mikið frá vinnu sinni til að halda stjórninni góðri.

En þeir sem höfðu áhugamál og markmið utan vinnustaðarins, köstuðu nægu ryki í augu allra til að virðast vera að vinna, á meðan þeir sinntu öðru.

Stimpilklukka sem býður upp á að kjaftaskar geti bullað í stjórnendum til að fá meiri pening en þeir sem koma hlutum í verk (hvort sem hægt er að stimpla sig inn hvar og hvenær sem er, eða ekki), ætti að vera augljós valkostur fólki með einhverja stjórnendareynslu að viti, en er það greinilega ekki, þar sem manneskjur eru ekki eins rökrænar og við höldum.

P.S. Ég hef sjálfur unnið í hóp sem var plagaður af ónýtri vinnuskýrslugerð. Ég prísaði mig sælan að þurfa ekki að sinna þeim.

Á öðrum vinnustað eyddi ég og vinnufélagi minn heilum degi í vinnuskýrslugerð og hangs, með smá kryddi af raunverulegri vinnu, á meðan stjórinn var erlendis. Skýrslurnar voru fullar af vinnulegum orðum sem við þýddum beint úr Dilbert. En skömmu eftir að ég hafði sannfært stjórann um ágæti afkasta okkar og þá alúð og ákafa sem við lögðum í vinnuna, fylltist ég samviskubiti og viðurkenndi allt saman. Stjórinn vildi ekki heyra það. Hann var svo upprifinn yfir framlagi okkar (SEM VAR HAUGALYGI) að hann vildi borga yfirvinnuna sem við höfðum skáldað upp. Ég reyndi að telja honum hughvarf, en Scott Adams hefur rétt fyrir sér. Stjórnendur eru skrýtnar skepnur.

"Kerfi sem verðlaunar vel unnin störf með stöðuhækkun, endar fullt af fólki í a.m.k einni stöðu fyrir ofan þá sem það getur sinnt ad einhverju viti" -Ekki Tilvitnunarson- (1986)

 Kveðja frá Danaveldi.

Kjarri Dani er á spani eins og illur hani.

Kjartan Sveinsson (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 20:14

13 identicon

Ég get ekki svarað spurningum Barkar fyrir Jóhann en svara þeim hér fyri mig:

1) Nei

2) Já

3) Sums staðar. E.t.v. ekki alls staðar.

4) Nei. Sbr. spurningu 3.

5) Nei.

6) E.t.v. Hæfur stjórnandi ætti þó að hafa yfirsýn yfir mætingar starfsmanna sinna.

7) Já.

8) Já.

9) Já.

10) Nei. Stimpilklukka aftur á móti segir ekkert til um vinnuframlag heldur einvörðungu um viðveru.

10 b) Nei.

11) Já/Nei.

Björn (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 03:28

14 identicon

Er þetta að fyrst núna að koma í grunnskólana! 2 ár síðan þetta kom í leikskóla. Í raun fannst mér það mjög gott því sumir starfsmenn skruppu mikið frá áður! ég stimpla mig inn og út og svara börnum og foreldrum þótt ég sé "ekki" í vinnunni með glöðu. Þar að auki sem betur kemur fram ef unnið er 10 -15 mín lengur.

Jóna (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 04:45

15 identicon

,,Fyrirgefðu ágæta foreldri en ég hef hvorki þörf né löngun til þess að sýna öðrum hvað ég vinn mikið eða lítið. Ég hef bara alls engar áhyggur af því''

Hvort þú hafir þörf eða löngun skiptir litlu máli. Þú ert launþegi og yfirmenn hafa allan rétt til að fylgjast með sínum undirmönnum.

Ert þú ekki heimspekingur? Eða er ég að misskilja umræðuna?

Þú hefur ekki löngun til að sína hvað þú vinnur mikið. En liggur ekki ljóst fyrir að ef þú vinnur mikið og vel, þá sjá það allir. Nemendur finna það, foreldrar líka, sem og yfirmenn?

Þú ert kominn í nöldurgírinn Jóhann minn. Komdu þér úr skotgröfunum og það eru mun fleiri vinir kennarans en þið kennarar haldið.

Ég myndi líta á þetta sem tækifæri til að sína það og sanna hvað þú vinnur mikið. Stimpilklukka er ekki mælieining á hversu vel þú vinnur, en sú mæling er væntanlega til ekki satt? Eru nemendur ánægðir með þig? Eru foreldrar ánægðir með þín störf? Ertu vel liðinn af yfirmanni og samstarfsmönnum? Það er vel hægt að nota þetta sem mælieiningu á hversu vel þú vinnur.

Hver er þá staðan?

Jú það er hægt að mæla hversu vel þú vinnur. Það hefur verið gert hingað til. Nú er stimpilklukkan að koma og þar með getur þú ,,sannað'' hversu mikið þú vinnur. Þá ertu kominn með tvær mælingar, hversu vel þú vinnur og hversu mikið þú vinnur.

Þetta getur þú notað í kjarabaráttunni.

Það sem mér finnst vanta hjá ykkur kennurum er að koma fram með ykkar lífsýn á hvernig skóli framtíðarins á að vera. Mér finnst kennarar detta í of mikið, aumingja ég baráttu. Launin eru helv. léleg umræðu. Launin eru ekki há hjá ykkur og ég hef samúð með ykkur þar.

Þess vegna átt þú að fagna þessu tækifæri til að sína það og sanna hvað þú vinnur lengi.

Ekki líta á alla gagnrýni sem árás! Jóhann, ég legg til að þú sýnir aðra hlið á þér og komir nú með pistill á bloggið þitt, hvernig þú sjáir skóla framtíðarinnar fyrir þér.

Að lokum legg ég til að þú svarir spurningum Barkar. Þetta eru ágætis spurningar sýnist mér.

Foreldri (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 16:23

16 identicon

Ég er kennari og skal fyrir mína hönd svara þessum spurningum frá Berki, og reyna jafnframt að færa rök fyrir svörunum. Ég hvet hann, sem og aðra að kynna sér vinnutíma og starf kennara áður en farið er að kalla okkur letingja sem nennum ekki að vinna, ekki það að Börkur hafi gert það, þetta viðhorf heyrir maður oft.

1) Er hægt að stimpla sig inn og út hvar sem er

(á internetinu T.d.) eða aðeins í skólabyggingunni ?, eins og Feitibjörn helsdur fram ?

Nei, skráning fer fram í ákveðnum stað skólunum.  Það er ekki hlægt að vakna kl. 8.00, fara á netið og skrá sig inn og fara aftur að sofa.

2) Er mikil heimavinna hjá kennurum?, T.d. við yfirferð stíla, og prófa?, eða vegna undirbúnings kennslu?, og eru allar hugsanir um vinnuna sína launaskyldar ?, eins og Jon skrifar um ?

Já, hjá langflestum kennurum, bara það að búa til 1 stykki próf eða verkefni og fara yfir það hjá 25 nemendum getur tekið 2-3 tíma, stundum minna, stundum meira eftir stærð og umfangi prófsins. Þessi verkefni geta skipt tugum yfir skólaári.

3) Er heimavinna (ef hún er) nauðsynleg vegna aðstöðuleysis í skólunum ?

Ehhh, já. Tölvukostur flestra skóla er fyrir margt löngu úr sér genginn, og má frekar þakka tölvuumsjónarmönnum skólanna sem eru sífellt að "strauja" þær að ekki sé aðstaðan enn verri.

4) Myndi svona stimpilklukka ekki nýtast í kjarabaráttu kennara, til að sanna mikla vinnu viðveru ?

Hugsanlega, en það hefur samt verið almenn vitneskja í áratugi að kennarar vinni langt umfram það sem þeir fá borgað, en samt hefur það ekki verið metið. Þannig að ég held að svarið halli frekar að Nei

5) Myndi svona stimpilklukka ekki auðvelda allann launaútreikning ?

Nei, kennarar fá borgað samkvæmt taxta (hámarkslaun miðuð við hlutverk hvers kennara og ekkert hægt að hækka þá kennara sem eru sérstaklega "góðir" starfmenn né að lækka þá slöku), og önnur forfallakennsla er skráð sér. Það er því enginn launaútreikningur í sjálfu sér, alltaf sömu launin allt árið, sama hversu vinnutíminn er langur. Allir borgaðir aukatímar falla innan ramma skólatímans þannig að ekki nýtist þetta þar, maður stimplar sig ekki inn í hvern tíma....

6) Myndi svona stimpilklukka ekki gera skólastjórnendum auðveldara um vik, að sjá hvort viðkomandi kennari væri mættur ?

Nei, það ætti að vera nóg að sjá hvort einhver hópur nemenda er hlaupandi um ganganna til að sjá hvort viðkomandi kennari sé mættur eða sofandi heima. Nemendur hafa þann leiða ávana að geta ekki setið kyrr ef þau þurfa að bíða, þetta eru jú börn :>

7) Lítur þú almennt svo á, að þar sem stimpilklukku kerfi hefur verið tekið upp, að verið sé að vantreysta fólki ?

Ekki almennt, nei, oft er þetta nauðsynlegt, t.d. þar sem fólk fær borgað eftir tímakaupi, sem er ekki reyndin hjá kennurum. Á "venjulegum" skrifstofum er frekar auðvelt að missa sjónar á því hvenær fólk mætir, ef það er með t.d. lokaðar skrifstofur. Lítið mál þar að koma alltaf korterinu og seint og fara korterinu fyrr. Því er þetta nauðsynlegt þar. Á öðrum vinnustöðum á þetta bara ekki heima. Persónulega finnst mér þetta eiga nánast hvergi heima, nema þar sem þetta er nauðsyn vegna launaútreikninga, og þar sem yfirmaður treystir ekki sínu fólki til að vinna sína vinnu.

8) Er ætlast til að kennarar í skólanum þínum mæti í skólann á ákveðnum tímum, jafnvel þótt viðkomandi kennari eigi ekki kennslustund fyrr en seinna að deginum ?

Þetta er afar misjafnt eftir skólum, fer eftir hversu vel skólastjóri treysir sínu starfsfólki að það vinni sína vinnu. Enda sé ég ekkert að því að ef tími hjá mér byrji ekki fyrr en kl 8.40 að þá sé ég mættur um kl 8.30 í skólann, í stað þess að mæta kl 8.00. "Sorrý, mér finnst þetta bara", eins og krakkarnir orða það.
Það er settur fram vinnutímarammi á vinnuskýrslu hvers kennara en misjafnt hvort skólastjórar séu að elta fólk á röndum innan þess ramma, enda eru flestir að vinna langt umfram þennan ramma.

 9) Er ætlast til að þið verjið ákveðnum lágmarkstíma í skólabyggingunni ?

Sama svar og að ofan að mestu. Ef síðasti tími hjá mér er kl 14.30 þá vill ég frekar fara og ná í strákinn minn á leikskólann snemma, fara með honum í sund eða fótbolta, og vinna undirbúining, verkefnayfirferð og fleira eftir að hann er sofnaður. Ég reyni eins og ég get að vera eins mikið með mínu barni og ég mögulega get. Ég í raun vorkenni þeim sem geta ekki unnið heima eftir að börnin eru sofnuð. Þetta eru forréttindi sem ég er að missa, og um leið missi ég marga tíma með mínum syni í hverri viku. Þetta er eitt að því sem maður réttlætir lág laun með, það að þetta sé allavega fjölskylduvæn vinna. Ekki mikið lengur.

10) Finnst þér eitthvað athugavert við að vinnuveitendur geti á markvissan hátt, fylgst með vinnuframlagi starfsmanna sinna ?

Nei, alls ekki. Stimpilklukka mælir þetta bara alls ekki. Hún mælir aðeins viðveru, ekki framlag. Þeir starfsmenn sem svíkjast undan koma til með að gera það áfram óháð stimpilklukkunni. Þetta vita allir þeir sem vinna á skrifstofu og eyða 2-3 tímum á dag á Facebook, mbl.is og eru jafnvel að lesa þetta blog í þessum töluðu orðum :> Vinnuframlag kennara mælist helst á því hvernig nemendum þeirra gengur og hvernig nemendur tala um þá, þessi er skemmtilegur, þessi er strangur . Kennari sem hleypir alltaf of snemma út og er aldrei með neitt í tímum er fínn í 2 vikur, svo fara nemendur að fá leið á honum og slíkt berst strax í skólastjórann. Staðreyndin er líka sú að kennarar sem eru vel liðnir eiga mun auðveldar með að fá nemendur sína til að vinna betur, hver nennir að vinna vel ef yfirmaðurinn er alltaf með skítkast í mann...

Er það algengt, að kenarar mæti ekki í skólann fyrr en þeir þurfa að mæta í kennslustund, og að þeir yfirgefi skólann um leið og þeirra kennslu er lokið ?

Eins og i spurningum 8-9 þá er þetta misjafnt eftir skólum og ekki síst eftir kennurum sjálfum. Sumir vilja alls ekki taka með sér vinnu heim og klára hana þá í skólanum á meðan aðrir vilja frekar vinna heima hjá sér á kvöldin.Ég vill frekar vinna mína vinnu heima, þú eða aðrir þurfa ekki að hafa áhyggjur, ég skila mínu alltaf. Ég hef metnað fyrir mínu starfi og vinn eins vel og ég get.

11) Er undirbúningur skóla árs ekki byrjaður hjá þér, eða varstu bara í fríi í gær ?

Smá skætingur þarna, ég svara til baka, ert þú alltaf í vinnunni þegar vinnutíminn er? Notaru facebook, spjalla við konuna...
Ef þú vinnur við tölvu eða hefur gert það skal ég veðja að þú hefur einhverntíma gert eitthvað annað á vinnutíma en bara að vinna. Mér er í raun sama, svo lengi sem þú klárar þín verkefni á réttum tíma og þau séu vel unnin. Sammála?

Og að lokum:

Finnst þér að almennt ætti fólk að komast upp með að ,,hafa hvorki þörf, né löngun til að sýna öðrum hvað það vinnur mikið" ?, T.d. vinnuveitendum, eða ert þú að einhverju leyti hafinn yfir það ?

Mér kemur ekkert við hvernig þú eyðir þínum vinnutíma, ég treysti því að þinn yfirmaður geti gert það, hvort sem hann þarf að nota til þess stimpilklukku eða ekki. Að sama skapi þarf ég að sýna mínum yfirmanni hversu mikið ég vinn eða öllu heldur hversu vel ég vinn. Og ég geri það með því að mæta alltaf í tíma og skila frá með nemendum sem (flestir) ná vel þeim markmiðum sem aðalnámskrá vill að þeir nái.  

Og bara til að það komi fram, af því þetta er nú skrifað á mánudagsmorgni, þá er ég ekki að svíkjast um í vinnunni, ég skrifaði þetta í mínum kaffitíma, sem ég hlýt að ráða sjálfur :>

Doddi (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 11:05

17 identicon

merkilegt með kennara að þeir halda alltaf að lífið sé svona; Þeir á móti öllum hinum.

Ég hvet hann, sem og aðra að kynna sér vinnutíma og starf kennara áður en farið er að kalla okkur letingja sem nennum ekki að vinna, ekki það að Börkur hafi gert það, þetta viðhorf heyrir maður oft.

Þetta er ótrúlegt upphaf á innleggi.  Hér gefur Doddi strax tóninn, já einhverjir kalla kennara letingja.  Innleggið hefst strax á allir á móti kennurum.

ok, Doddi kemur inn á að það sé bara hægt að skrá sig í skólanum, ekki heima.  Svo kemur annað alveg ótrúlegt comment ,, Það er ekki hlægt að vakna kl. 8.00, fara á netið og skrá sig inn og fara aftur að sofa. ''  Hvað á Doddi við með þessu?  Er hér um vanþekkingu að ræða hjá öðrum starfsstéttum?  Gætir hér hroka?

Ég trúi því ekki að það sé algengt að menn stimpli sig inn og fari svo að sofa.  Ekki í neinni starfsstétt.  Hann Doddi er eitthvað úrillur í dag.

Vissulega er ekki gott að geta stimplað sig heima, en allt í lagi það er auðleysanlegt.  Kennarinn skráir niður tímana t.d. í excel sem er hentugt vegna dálkanna.  Hægt er að skrá til og frá, hvað er gert, fyrir hvaða árgang.  Svo er hægt að fara með þessa skrá til skólastjórans vikulega og sýna fram á að það þurfi að laga stimpilklukkuna.

 Varðandi undirbúning kennara, þá hef ég heyrt að talað sé um að kennarinn þurfi eina klst til að undirbúa einn tíma.  Förum ekki í hártoganir hvort þetta sé nákvæmlega rétt.  En er það ekki kostur kennaranna að þetta skuli þá mælast nú?   Í stað þess að það sé almennt vitað að kennarinn vinni meira, þá mun nú vera til mælingar um vinnuna.  Aðstöðuleysi er sjálfsagt algengt í skólum og eftir ár eða svo þegar búið er að mæla vinnu kennarans, þá geta kennarar bent á þá miklu vinnu sem er utan skólans.  Þá geta kennarar og skólayfirvöld tekið saman á málinu ef þess þarf.  Kennarar geta líka bent á móti að ef þeir eiga að vinna á staðnum, þá þarf meiri tækjabúnað og svo framvegis.  Þeir hafa svosem farið fram á þetta en staða kennarans er betri þegar menn sjá það svart á hvítu að 30%, 50%, 70% af vinnu kennarans fer í annað en í kennslustund.  Munurinn er að nú verða til tölulegar upplýsingar en ekki bara að það hafi samt verið almenn vitneskja í áratugi að kennarar vinni langt umfram það sem þeir fá borgað, en samt hefur það ekki verið metið.  Hver ætli sé ástæða þess að þetta hafi ekki verið metið hingað til?  Getur verið að menn hafi verið að tala um huglæga hluti?  Eru til mælingar sem sýna hvað kennarinn vinnur mikið?  Nær stimpilklukkan ekki því að mæla hversu lengi kennarinn vinnur?

Ég er ánægður með að Doddi lítur ekki á að það sé almennt verið að vantreysta fólki með því að hafa stimpilklukku.  Það er gott, en stundum þarf yfirmaðurinn mælingu á hlutunum.  Af hverju ætti stimpilklukka að vera vantraust á kennara?  Ég legg til að þið kennarar lítið á þetta sem tækifæri til að snúa málum ykkur í hag.  Doddi getur sótt barnið á leikskólann á miðjum degi, hann kallar það forréttindi.  Það er líka rétt, ég get þetta ekki í minni vinnu.  Doddi getur líka unnið á kvöldin ef hann vill en hann þarf þess ekki.  Doddi fær kaffi og hlé oft á dag, en ég hef sjaldan kynnst morgunkaffi eða síðdegiskaffi.  En svona eru störfin misjöfn það eru kostir og gallar í öllum störfum. 

Ég legg til að kennarar hætti þessu stimpilklukkuvæli og einbeiti sér frekar í því hvernig þeir vilja hafa skólann í framtíðinni.  Hvenær ætlar kennarasambandið að koma með massívar tillögur um framtíðarskólann?

Foreldri (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband