Færsluflokkur: Heimspeki

Er allt leyfilegt í skólum sem ekki er beinlínis skaðlegt eða hættulegt?

Í þeirri umræðu sem fram hefur farið að undanförnu varðandi trúboð og skólastarf hafa ýmsir haldið því fram að trúboð sé nú í lagi þar sem enginn skaðist af slíku. Athyglisvert. Þessi röksemd leiðir hugann að almennari spurningu sem er all heimspekileg og gaman væri að fá viðbrögð við og er þessi:

Er allt leyfilegt í skólum og leikskólum sem ekki er beinlínis skaðlegt eða hættulegt?

Vinsamlegast skráið niðurstöður heilabrota ykkar í athugasemdir.

JB

 


Er hægt að lifa það af í einn dag að fara ekki í búð? Gerið athyglisverða lífstilraun.

Ég man haustið 1993 þegar ég var nýfluttur til Belgíu hvað mér fannst skrítið hversu illa belgar fóru með laugardagana. Hér á landi höfðu laugardagar verið nokkuð rólegir dagar og almennt var búðarmenningin ekki búin að hertaka þá. Belgarnir hinsvegar vildu verja laugardögunum í búðum. Allar verslanir voru opnar til klukkan sex og voru yfirfullar af fólki. Hvað er að þessu fólki hugsaði ég á þeim tíma. Þvílík sóun á góðum degi. Reyndar komst ég fljótt að því að flestir verslunareigendur þar í landi höfðu búðir sínar lokaðar í staðinn á öðrum degi, ýmist mánudegi eða miðvikudegi. Jú það var svo sem glóra í því. Dögum vikunnar var því bara víxlað.

Ekki löngu síðar uppgötvuðu íslendingar "dásemd" þess að verja laugardögunum í búðum. En ekki hefur það tíðkast hér á landi að loka á öðrum degi í staðinn. Nei hér skal búðarápið stundað helst 7 daga vikunnar af miklu kappi. Maður veltir fyrir sér tilgangi þess að hafa þennan langa opnunartíma verslana alla daga vikunnar.

En í dag er tækifærið til að brjóta upp þann lífsstíl sem litast af daglegum verslunarferðum því í dag er alþjóðlegi "kaupum ekkert dagurinn". Hvatt er til þess að fólk geri lífstilraun á sjálfu sér og brjóti upp þann vana að fara umhugsunarlaust í búð hvenær sem er. Neytendasamtökin hvetja fólk til að kaupa ekkert í dag en þess í stað ígrunda hvaða áhrif innkaup hafa á líf okkar og umhverfi.

Ef ég þekki okkar fólk rétt þá eiga ekki margir eftir að taka þessari hvatningu en ég vil hinsvegar hvetja Neytendasamtökin til þess að gera meira úr þessum degi næst, fá fleiri í lið með sér og kynna uppátækið sem víðast og fá samstarfsaðila, halda málþing um málið sama dag og jafnvel eitthvað fleira.

Þessi áskorun um að kaupa ekkert er of skemmtileg til þess að við höfum efni á að hún fái aðeins örfáar línur í Fréttablaðinu sem sína kynningu.

Nánar má lesa um uppátækið á vef Neytendasamtakanna.:

http://www.ns.is/ns/frettir/?cat_id=6413&ew_0_a_id=294368

JB

 


Þar sem nemendurnir þjást af frumspekilegu hjálparleysi. Heimspeki í skólum annar hluti

Heimspeki skyldufag (nokkur atriði úr erindi mínu á málþingi heimspekistofnunar um heimspeki og skóla).

Það gerðist nú í haust að ákveðið var að heimspeki yrði skyldufag í 8. bekk við Réttarholtsskóla. Og það sem meira er að það var jafnframt ákveðið að hálfur bekkur yrði í hverjum tíma eða ýmist 14 eða 15 nemendur. Hver nemandi í 8. bekk við skólann sækir semsagt tíma í heimspeki í 40 mínútur í viku hálfan veturinn.

Það er óhætt að fullyrða að þessir tímar eru af minni hálfu tilraunastarfsemi í vetur, enda að vissu leyti ólíkt að hafa nemendur sem eru í skyldunámi eða að hafa nemendur sem sækja heimspeki sem valgrein. Í kaffihlénu á málþinginu var spjallað um það hvort það yrði heimspekinni til góðs að gera hana að skyldufagi og reyndust menn allsammála um að ekki væri það víst. En mér finnst vert að gefa þessari tilraun tækifæri og sjá hver útkoman verður í lok skólaárs.

Það sem af er vetrar hefur þetta gengið alveg prýðilega þó ég sjái það fyrir mér að þessir tímar eigi eftir að ganga enn betur þegar ég hef áttað mig á því hvar áhugasvið unglinga liggja og rúmast geta innan heimspekinnar.

Það sem ég er fyrst og fremst að leitast við að gera í þessum hópi er heimspekileg samræða þar sem gagnrýnin, frjó og  skapandi hugsun er ætlað að leika ákveðið lykilhlutverk. Vissulega hefur það gengið misjafnlega enda um byrjendur í faginu að ræða, en þessir tíma lofa bara nokkuð góðu.

Í vetur höfum við m.a. tekið fyrir spurningar af vísindavef H.Í. Nemendurnir hafa fengið að búa til sínar eigin spurningar, við ræðum ýmis mál s.s. hvort rangt sé að borða ketti, hvort draugar séu til, hvað má finna heimspekilegt í ýmsum teiknimyndasögum og hvað einkenni þá sem teljast fallegir, hvernig maður fer að við að taka erfiðar ákvarðanir, hvort maður megi smakka vínber í matvöruverslunum og ef svo er hversu mörg þá (hvenær verður smökkun að þjófnaði var spurt), svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.

Ég hef tekið eftir því að varðandi viðbrögð nemendanna í kennslustundum þá má skipta þeim í þrennt í öllum bekkjum (en um er að ræða fjóra bekki)

Í fyrsta lagi eru það áhugasömu nemendurnir sem lyftast upp í sætunum og eru greinilega að finna sig í einhverju spennandi. Þetta eru ekki endilega nemendur sem eru áhugasamir eða til fyrirmyndar í öllum greinum, þetta eru nemendur sem heimspeki höfðar til.

Í öðru lagi eru það óþolinmóðu nemendurnir. "Viltu hætta þessum umræðum og segja okkur hvað svarið er?, Má maður borða ketti eða ekki? Eru draugar til eða ekki? Hvernig varð heimurinn til?" Hér eru nemendur sem óska sér þess að heimspeki sé bara eins og landafræði, að allar spurningar eigi sér svör sem má sannreyna rétt eins og mæla má dýpt stöðuvatna.

Svo í þriðja lagi eru það þeir sem örmagnast í kennslustundum. Þetta eru nemendur sem finnst það mjög yfirþyrmandi að takast á við svona erfiðar spurningar en flokkast ekki sem óþolinmóðir. Heimspekilegar spurningar verða þeim oft um megn og þeir falla fram á borðin og gefast upp. Og yfirleitt leyfi ég þeim bara að falla fram á borðin og þjást undir þessum skelfilegu heimspekilegu samræðum. Stundum getur þjáningin haft gildi, ekki síst þegar hún felur í sér frumspekilegt hjálparleysi eins og heimspekingarnir á meginlandinu kölluðu ástandið einu sinni.

En það er gaman að þessu.

JB

 


Að vera í námi þar sem blýantur er aldrei tekinn upp. Vel heppnað málþing um heimspeki í skólum

Málþing heimspekistofnunar sem haldið var í gær heppnaðist mjög vel. Fróðlegt var að hlusta á sjónarmið heimspekinga um skólastarf og hlutverk heimspekinnar í skólum landsins, bæði í erindum málþingsins og ekki síður í óformlegu spjalli í kaffihléum. Margt í íslensku skólastarfi var rætt á gagnrýnin hátt og þar á meðal sú tilhneiging í íslensku skólastarfi að líta á að magn námsefnis sé mikilvægara heldur en gæði þess. En það er eitthvað sem ég hef svo sannarlega orðið var við.

Sjálfur ræddi ég um heimspeki og siðfræðiástundun í Réttarholtsskóla en nú er málum þannig háttað þar að allir nemendur í 8. bekk sækja tíma í heimspeki í eina önn, allir nemendur í 9. bekk sækja tíma í siðfræði í eina önn og þar að auki er 9. og 10. bekk boðið upp á heimspeki sem valgrein.

Allnokkra athygli fékk ég fyrir lýsingu mína á heimspekivalinu sem ég býð upp á við skólann og þótti það allróttækt að hafa hvorki námsmat né verkefnaskil og var ekki laust við að sumir málþingsþátttakendur hefðu af því áhyggjur hvort að ég hefði fengið leyfi skólayfirvalda til að skipuleggja námið þannig en ég hef aldrei fundið fyrir öðru en fullu trausti til að skipuleggja heimspekinámið á þann hátt sem ég tel að gagnist nemendum sem best. 

Hér á eftir fer brot úr erindi mínu á málþinginu þar sem ég útskýri heimspekivalið: 

"Undanfarin sex ár hefur heimspeki verið kennd sem valgrein í 9. og 10. bekk. Hver hópur sækir tíma í 80. mín á viku í eina önn. Í fyrstu var um tiltölulega fámenna hópa að ræða. Þessi valgrein hefur hinsvegar orðið vinsælli og núna er 28 nemenda heimspekihópur og eftir áramót verður annar álíka fjölmennur ef ekki aðeins fjölmennari. Í þessa tíma eru allir velkomnir svo lengi sem húsrúm leyfir.

Það segir sig sjálft að eiginlegar heimspekilegar samræður eru ekki ástundað í svo stórum hópi svo að einhverju gagni megi verða. Þó eigum við til með að taka oft nokkuð góða spretti í skoðanaskiptum og er það fyrst og fremst vegna þess að hér er um valgrein að ræða og því sjaldan sem nemdur velja fagið sem ekki sýna því neinn áhuga. Agavandamál hafa því yfirleitt ekki verið fyrir hendi.

Eftir að fjöldinn í þessu fagi fór að verða þetta mikill þá hefur fyrirkomulagið verið á þá leið hér sé um að ræða vettvang þar sem varpað er fram fróðleik og pælingum um heimspeki í sinni víðustu merkinu, heimspekisöguna, persónur heimspekinnar og viðfangsefni auk tengina við hversdagslegt líf nemenda og annars almennings. Þetta er fyrst og fremst vettvangur til þess að velta vöngum, upplifa, njóta og fræðast í afslöppuðu andrúsmlofti.

Það þýðir að allar mælingar hafa verið aflagðar. Það eru engin próf, það eru engin heimaverkefni, blýntur er mjög sjaldan tekinn upp í þessum tímum.

Þetta hefur orðið til þess að sá hópur nemenda (ekki síst drengir) sem eiga erfitt með að fóta sig í hefbundu námi þar sem mikið er lesið og skrifað og mikið prófað og mælt hafa verið að koma í heimspeki, fundið sig þar og staðið sig nokkuð vel.

Ekki er heldur óalgengt að aðrir nemendur en þeir sem valið hafa heimspeki óski eftir að fá að koma í einn og einn tíma sem gestir t.d. ef einhver önnur kennslustund í skólanum fellur niður. Einnig er til í myndinni að þeir nemendur sem eru mikið fjarverandi í ýmsum kennslustundum t.d. vegna þess að þeir standast ekki þær kröfur sem gerðar eru, þola ekki kennarann sinn eða af einhverjum öðrum ástæðum koma og óska eftir því að vera gestir í heimspeki í stað þess að þvælast einir um ganga skólans. Þeir óska semsagt eftir tímabundnu athvarfi frá "illsku" skólalífsins.

Sú reynsla hefur verið mér enn frekari hvatning um að það sé réttlætanlegt að í skólum sé hægt að læra og þroskast án þess að allt sé mælt og án þess að allt sé njörvað niður í streð, stress og "heimavinnuþrældóm." Það má kannski segja sem svo að yfirmarkmiðið í þessum tímum sé sú að í tímunum ríki hamingjan ein.

Þegar ég hóf að bjóða upp á heimspeki sem valgrein lagði ég fyrir skrifleg verkefni og gaf einkunnir en mér fannst það ekki skila þeim áhuga og þeirri gleði af því að stunda heimspeki sem ég finn núna. Nemendur voru of uppteknir af því að standa sig, of uppteknir af því að fá einkunnir og urðu fyrir vikið alveg hundleiðinlegir.  Og þeir urðu mjög uppteknir að frammistöðumati og  aðalspurningarnar voru eitthvað á þessa leið: "af hverju fékk ég þessa einkunn en hinn fékk hina einkunina?" Í dag þegar við erum laus við frammistöðumatið getum við einbeitt okkur að heimspekinni og ef einhver nemandi spyr mig einhvers eru spurningarnar undantekningarlaust heimspekilegs eðlis.

Skólinn er nefnilega fyrir fleiri heldur en þá sem passa inn í þennan hefðbundna ramma sem flestir grunnskólar starfa eftir og heimspekin getur að mínu mati tekið við öllum sem á annað borð geta hugsað. Það er eina skilyrðið sem ég set til þess að fá að sitja tímana og það er að geta hugsað.

Ég mæli oft með heimspekibókum sem ég segi nemendum að þeir geti fengið lánaðar eða keypt og lesið sér til skemmtunar og ég veit, sumir hafa sagt mér það að þeir hafi farið og útvegað sér þær bækur sem ég mæli með. Slíkt frumkvæði nemenda, þó ekki sé það mjög oft er mjög ánægjulegt."

Margt fleira ræddi ég á málþingi sem ég set e.t.v. síðar á síðuna.

JB

 


Svartstakkarnir mega þakka guði sínum

Það hefur ekki farið framhjá neinum hasarinn í kringum réttmæta kröfu samkynhneigðra um giftingar. Svartstakkarnir svonefndu hafa farið þar fremstir í flokki gegn samkynhneigðum. Mér varð hugsað til þess hversu þakklátir guði sínum þeir svörtu  mega vera að þurfa ekki að takast á við giftingarmálið sem 24 stundir greindu frá í dag. Þar segir frá indverja nokkrum sem gerði sér lítið fyrir og giftist hundi. Athöfnin átti sér stað í hindúahofi og var hundurinn klæddur appelsínugulum sari og blómsveig og fékk brauðsnúð að éta til að halda upp á giftinguna.

Giftingarmál samkynhneigðra er einhvernveginn bara barnaleikur í samanburði við giftingarmálið indverska.

JB


Heimspeki í skólum

Ég vek athygli á málþingi um heimspeki í skólum sem verður haldið á laugardaginn. Allir velkomnir.

Heimspekistofnun stendur fyrir málþingi um heimspeki í skólum laugardaginn 17. nóvember kl. 10-16 í stofu 101 í Lögbergi. Á málþinginu verður rætt um heimspekilegt samræðusamfélag, heimspeki í leik- og grunnskóla og heimspekikennslu í framhaldsskólum.

Dagskrá

10:00 Hreinn Pálsson, Hvernig myndast heimspekilegt samræðufélag á meðal nemenda og hver eru helstu einkenni þess?

10:40 Geir Sigurðsson, Samfélags- eða samkeppnishæfni? Erindi barna-heimspekinnar við íslenskan samtíma.

11:20 Ólafur Páll Jónsson, Skóli og menntastefna

12:00 Hlé

13:00 Brynhildur Sigurðardóttir, Heimspekival í unglingaskóla

13:40 Jóhann Björnsson, Siðferðilegt sjálfræði - Þróunarverkefni í Réttarholtsskóla

14:20 Róbert Jack, Heimspekitilraunir í framhaldsskólanum

15:00 Hlé

15:20 Ármann Halldórsson, Heimspeki og framsækin kennslufræði: Aðferðir úr heimspekipraktík og efling lýðræðislegs framhaldsskóla

16:00 Kristín H. Sætran, Tími heimspekinnar í framhaldsskólanum.

Staður: Lögberg 101


Kettir eru þá matreiddir eftir allt saman

Þegar ég skrifaði um síðustu helgi pistil um ímyndaða fjölskyldu sem át köttinn sinn hvarflaði ekki að mér að aðeins örfáum dögum síðar ætti ég eftir að lesa leiðbeiningar um hvernig matreiða skuli ketti. Þetta gerðist samt í gær þegar ég fletti Blaðinu, en á bls. tvö er sagt frá því að í tímaritinu INN eru leiðbeiningar um það hvernig skuli verka og matreiða ketti.

Verkunin og eldamennskan sem slík vekur ekkert sérstakan áhuga minn enda færi ég seint að borða hana Doppu mína sem grunlaus um skrif mín núna sefur í sófanum á móti mér. Það sem hinsvegar vekur sérstakan áhuga minn á þessari kattaáts og kattaeldamennskuumræðu eru viðbrögð fólks. Fyrir okkur sem höfum áhuga á manneskjunni sem slíkri eru pælingar í viðbrögðum fólks afar skemmtilegt viðfangsefni. Um síðustu helgi mátti lesa í athugasemdum við færslu mína mjög mörg og áhugaverð viðbrögð, þar mátti finna sannar geðshræringar og þar mátti finna kaldhæðni og nánast allt þar á milli. Þar mátti meðal annars finna efasemdir um að ég gæti talist hæfur kennari unglinga.

Í Frétt Blaðsins um eldamennskuna mátti einnig finna athyglisverð viðbrögð fólks sem Blaðið leitaði til um álit á málinu. Rætt var við Áslaugu Jónsdóttur og Sigurborgu Daðadóttur. Viðbrögð  Áslaugar voru á þessa leið:

"Þetta er algjör viðbjóður. Ég er með þrjá hunda og ég hélt að ég myndi alveg brjálast þegar ég las þetta. Þetta er bara ofbeldi gegn dýrum. Kannski á þetta að vera eitthvað grín, en mér finnst þetta ekki grín."

Síðan er tekið fram að Áslaug hefur sérstakar áhyggjur af því ef börn komist yfir þessar leiðbeiningar um verkun og eldun katta "því þeim getur dottið allt í hug þessum börnum."

Þessi viðbrögð Áslaugar eru einstaklega áhugaverð og sýna okkur klárlega hvernig umhverfi okkar og annað fólk hefur áhrif á líf okkar, tilfinningar og líðan sbr. orð hennar "ég hélt ég myndi brjálast". Og ekki síst hvernig hún óttast áhrifin af uppskirftinni í blaðinu INN á börn, en hún hefur af því sérstakar áhyggjur að börn geti komist í uppskriftina "því þeim getur dottið allt í hug þessum börnum." Ef börn með sérstakan áhuga á eldamennsku færu að matreiða sína eigin heimilisketti þá bæri það án efa vott um mikla áhrifagirni en að sama skapi gríðarlegan frumleika. Uppskriftin hefði þá áhrif og hvetti til eldamennsku og frumleikinn fælist í því að hér á landi hefur það aldrei tíðkast að elda ketti og því væri um eitthvað nýtt að ræða.

En í ljósi þessara orða Áslaugar um börnin þá geta lesendur velt því fyrir sér hvort ástæða sé til að banna þetta hefti tímaritsins INN börnum vegna hættu á að heimiliskettirnir enduðu inni í ofni? Það væri gaman að fá viðbrögð við þeirri pælingu.

Svo eru einnig fengin viðbrögð frá Sigurborgu Daðadóttur dýralækni sem hélt að umrædd uppskrift væri spaug. Þau viðbrögð fá mann til þess að velta fyrir sér eftirfarandi spurningu: Hvernig veit maður hvenær verið er að grínast og hvenær ekki?

Ég man sjálfur eftir því að hafa lengi fylgst með gríni sem ég hélt að væri alvara. Ég var nýfluttur til landsins frá Belgíu og hafði ekki hugmynd um hverjir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson voru. Þeir félagar voru með stutta grínþætti sem fjölluðu um hegðun, atferli og framkomu í sjónvarpinu. Í allnokkurn tíma hélt í alvöru að þeir væru sálfræðingar að ræða í alvöru um hegðun og atferli. Mér þótti þeir nokkuð undarlegir sálfræðingar en um tíma hvarflaði ekki  að mér að um grín væri að ræða.

En Sigurborg ræðir kattamatseldina ekki lengi á forsendum grínsins heldur skellir sér í blákalda alvöruna og minnir á að ef það er ekki til þess bær maður sem aflífir köttin þá er um lögbrot að ræða. Þannig að hún minnir okkur á að fá þó allavega mann með tilskilin réttindi til að aflífa dýrið ef við ætlum okkur að taka mataruppskriftina í tímaritinu INN alvarlega.

JB

 


Að borða hund. Óbeint framhald af kattaátinu frá því í gær

Það er virkilega ánægjulegt hversu margar skemmtilegar athugasemdir komu við pælingunni um kattaátið sem ég skrifaði í gær. Margt af því sem kom fram varpaði nýju sjónarhorni á málið og ef það gerist þá er markmiði mínu með svona "helgarheimspeki" náð.

Ég hef frá því í sumar verið að lesa bækur eftir breska alþýðuheimspekinga sem eru að varpa fram allskyns pælingum í þeim anda sem birtist í gær og segja þeir að ákveðinn hópur fólks taki svona pælingar með sér á mannamót og í sumarfríið rétt eins og aðrir taka með sér krossgátur, spil og Sudoku þrautir. Kannski kem ég með fleira til umhugsunar um næstu helgi.

En í kjölfar umræðunnar um kattaátið þá rifjaðist upp nokkuð athyglisvert sem ég upplifði 1989 í Pyongyang í Norður Kóreu. Ég var þar staddur ásamt nokkrum öðrum íslendingum í boði þarlendra stjórnvalda. Vorum við í fæði á vegum infæddra og borðuðum af hlaðborði í mötuneyti. Var þetta allt saman afskaplega huggulegt og fínt, en við vissum í sjálfu sér ekki nákvæmlega hvað var í matinn hverju sinni. Maturinn hinsvegar bragðaðist mjög vel í alla staði.

Síðan þegar fer að líða að lokum dvalarinnar í Kóreu ákváðum við að fara á veitingastað til þess að fá nú að bragða á hundakjöti sem við vissum að var vinsæll matur þar í landi. Hundakjötið kom með beini og hndakjötsúpa með. Þetta var smekklega fram borið með víni og grænmeti og bragðaðist alveg prýðilega.

En þegar maturinn var kominn á borðið uppgötvuðum við það að við hefðum í sjálfu sér alveg geta sleppt því að gera okkur sér ferð til þess að bragða á hundinum góða, því við höfðum verið að borða hundakjöt af hlaðborðinu án þess að hafa haft hugmynd um það allan tímann á meðan á dvöl okkar stóð.

En hvað sem því leið nutum við flest matarins á veitingastaðnum þó maður hafi líka heyrt þá setningu að maður ætti ekki að borða vini sína. Blush

JB


Að borða kött

Hér kemur smá heimspeki til þess að takast á við um helgina. Nemendur mínir veltu eftirfarandi sögu fyrir sér í gær í umfjöllun okkar um rétt og rangt:

Lítill krúttlegur heimilisköttur varð svo ólánsamur að verða fyrir bíl og deyja. Eigendur kattarins tóku þetta að sjálfsögðu nærri sér en fengu af einhverjum ástæðum þá hugmynd hvort ekki væri í lagi fyrst svona fór fyrir kisa að hafa hann í kvöldmat. Vitandi þess að kisi væri þegar dáinn og enginn yrði fyrir skaða töldu fjölskyldumeðlimir þetta í lagi. Þeir elduðu því kisa og borðuðu.

Og nú felst helgarheimspekin í því að svara eftirfarandi spurningum:

1) Hvort er það rétt eða rangt að borða köttinn? Og hversvegna?

2) Ef þér yrði boðið í kvöldmat til fjölskyldu sem væri að elda umræddan kisa hvernig myndir þú bregðast við?

JB

 

 

 


Hversvegna ekki að færa úrið?

Nú er komið að hinni árlegu fjallaferð. Því verður ekki mikið að lesa á þessari síðu næstu daga en í stað þess að gera ekki neitt er ég með tillögu fyrir ykkur lesendur góðir sem þið getið tekið misalvarlega eftir smekk hvers og eins. En tillagan felst í því að gera nokkrar hversdagslegar heimspekitilraunir.

Þegar ég var í Brussel fyrr í mánuðinum keypti ég mér bók sem heitir 101 experiments in philosophy of everyday life. Þar eru settar fram tillögur að einföldum heimspekilegum tilraunum sem hafa það að markmiði að upplifa heiminn undarlega og hafa gaman af. Hér hef ég valið nokkrar þeirra sem þið getið tekist á við á meðan ég geng á fjöll:

Tilraun númer 38: Reyndu að hugsa ekkert.

Tilraun númer 13: Þegar þú þarft að pissa skaltu hafa með þér stórt vatsnglas og um leið og þú pissar skaltu drekka allt vatnið úr glasinu. (Höfundur bókarinnar segir þetta merkilega reynslu, sjálfur á ég eftir að prófa þessa tilraun).

Tilraun númer 22: Teldu upp á 1000.

Tilraun númer 59: Borðaðu einhvern mat sem þér hefur aldrei fundist góður.

Tilraun númer 72: Brostu til ókunnugrar manneskju.

Tilraun númer 40: Farðu í sturtu með augun lokuð allan tímann.

Tilraun númer 98: Færðu úrið á hina hendina.

Þetta eru aðeins örfáar hversdagslegar heimspekitilarunir af þessum 101 sem finna má í bókinni. Þið getið einnig fundið upp á ykkar eigin.

Látið mig endilega vita hvernig gengur. Góða skemmtun.

JB

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband