Er hægt að lifa það af í einn dag að fara ekki í búð? Gerið athyglisverða lífstilraun.

Ég man haustið 1993 þegar ég var nýfluttur til Belgíu hvað mér fannst skrítið hversu illa belgar fóru með laugardagana. Hér á landi höfðu laugardagar verið nokkuð rólegir dagar og almennt var búðarmenningin ekki búin að hertaka þá. Belgarnir hinsvegar vildu verja laugardögunum í búðum. Allar verslanir voru opnar til klukkan sex og voru yfirfullar af fólki. Hvað er að þessu fólki hugsaði ég á þeim tíma. Þvílík sóun á góðum degi. Reyndar komst ég fljótt að því að flestir verslunareigendur þar í landi höfðu búðir sínar lokaðar í staðinn á öðrum degi, ýmist mánudegi eða miðvikudegi. Jú það var svo sem glóra í því. Dögum vikunnar var því bara víxlað.

Ekki löngu síðar uppgötvuðu íslendingar "dásemd" þess að verja laugardögunum í búðum. En ekki hefur það tíðkast hér á landi að loka á öðrum degi í staðinn. Nei hér skal búðarápið stundað helst 7 daga vikunnar af miklu kappi. Maður veltir fyrir sér tilgangi þess að hafa þennan langa opnunartíma verslana alla daga vikunnar.

En í dag er tækifærið til að brjóta upp þann lífsstíl sem litast af daglegum verslunarferðum því í dag er alþjóðlegi "kaupum ekkert dagurinn". Hvatt er til þess að fólk geri lífstilraun á sjálfu sér og brjóti upp þann vana að fara umhugsunarlaust í búð hvenær sem er. Neytendasamtökin hvetja fólk til að kaupa ekkert í dag en þess í stað ígrunda hvaða áhrif innkaup hafa á líf okkar og umhverfi.

Ef ég þekki okkar fólk rétt þá eiga ekki margir eftir að taka þessari hvatningu en ég vil hinsvegar hvetja Neytendasamtökin til þess að gera meira úr þessum degi næst, fá fleiri í lið með sér og kynna uppátækið sem víðast og fá samstarfsaðila, halda málþing um málið sama dag og jafnvel eitthvað fleira.

Þessi áskorun um að kaupa ekkert er of skemmtileg til þess að við höfum efni á að hún fái aðeins örfáar línur í Fréttablaðinu sem sína kynningu.

Nánar má lesa um uppátækið á vef Neytendasamtakanna.:

http://www.ns.is/ns/frettir/?cat_id=6413&ew_0_a_id=294368

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Björnsson

Þetta er nefnilega málið sem Eyja Margrét bendir á. Þegar einhverjir svona andspyrnudagar eru haldnir þá er alltof algengt að kynningin á þeim er annaðhvort engin eða heppnast ekki og því verður ekkert úr hlutunum nema vandræðagangurinn einn. Ég man vel eftir einum bíllausum degi sem enginn vissi af. Bílaumferðin hafði sjaldan verið jafnmikil og svo í kvöldfréttum var sagt frá þessum bíllausa degi sem var ekkert bíllaus. Ég hefði svo sannarlega tekið þátt í bíllausa deginum en vissi ekki af honum fyrr en dagurinn var liðinn. Við þurfum að taka okkur á í þessu með myndarlegum undirbúningi.

Jóhann Björnsson, 24.11.2007 kl. 17:28

2 identicon

ah... missti af þessu, fór í Fjarðarkaup og keypti banana... frá Ekvador (ekki auðvelt að finna eitthvað annað en Síhvíta hér á okkar einsleita markaði).

Þurfum að tromma þetta upp á næsta ári, eða halda annan svona atburð, t.d. íslenskan "enginn bónus í viku", eða "enginn króna í viku".  það myndi kanski kynda undir gersamlega útdauðri samkeppni milli þessara fákeppniskónga. 

Gullvagninn (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 19:05

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það líða oft nokkri dagar á milli þess ég ég fari út í búð. Ekkert mál. Þarf ekki að hugsa um það einu sinni. Kaupa í matinn fyrir þrjá daga. Búið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.11.2007 kl. 22:41

4 identicon

Ég vissi af deginum í gær, sem er alltaf "buy nothing day" í Bandaríkjunum og hætti við að kaupa mér nýjan gsm síma eftir að ég labbaði inn í búð í þeim erindum í gær. Asnaðist svo til að kaupa mér sushi-bakka í kvöldmat í dag, annars hefði ég komist í gegnum tvo kauplausa daga. En er alveg sammála, það þarf að kynna þetta betur, ég vissi ekki að innkaupalausi dagurinn væri haldinn á Íslandi fyrr en ég sá fréttir í gærkvöldi og það er bara of seint ef fólk (eins og Eyja) á að eiga í matinn!

Silja (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband