Færsluflokkur: Heimspeki

Er hægt að kenna umburðarlyndi?

Sveitarfélagið Garður hélt mjög áhugavert málþing um fjölmenningu og fræðslu gegn fordómu s.l. föstudag. Þar hélt ég erindi um reynslu mína af kennslu fjölmenningarlegrar færni með unglingum. Erindið kallaði ég "Er hægt að kenna umburðarlyndi?" Hér birti ég byrjunina á  þessu erindi en ekki er ólíklegt að það muni birtast í heild sinni síðar:

 

Áskorunin

Fyrir nokkrum árum las ég grein í dagblaði þar sem kona nokkur var að ræða siðferðisbresti stjórnmálamanna. Í lok umfjöllunarinnar sagði hún að stjórnmálmenn þyrftu að fara á námskeið í siðfræði. Það var eiginlega hennar niðurstaða og lausn við siðferðisvanda í stjórnmálum. Allar götur síðan hafa þessi ummæli rifjast upp fyrir mér og ég velt því fyrir mér hvort hægt sé að kenna fólki að breyta siðferðilega rétt? Er hægt að kenna fólki að breyta siðferðilega rétt ef það sér ekkert athugavert við hegðun sína og lífsviðhorf? Er hægt að kenna fólki að breyta öðruvísi ef það sér enga ástæðu til þess eða jafnvel ef það hreinlega  vill það ekki? Er nóg að skylda fólk til þess að fara á siðfræðinámskeið til þess að það taki að breyta á siðferðilega lofsverðan hátt? Og virka siðræðinámskeið?

Páll Skúlason spurði sambærilegrar spurningar í bók sinni Pælingum þar sem hann spurði hvort hægt væri að kenna gagnrýna hugsun. Framhaldsskólanemi varð fyrir svörum og sagði: "Já, það er eflaust hægt að kenna gagnrýna hugsun..." ... "...ef maður finnur einhvern sem hefur áhuga á að læra hana." (Pælingar 1987)

Hér hefur framhaldsskólaneminn nokkuð til síns máls. Ef einhver vill læra eitthvað eru býsna miklar líkur á að það takist.  Áskorunin sem ég hef hinsvegar ætlað mér að ræða hér felst fyrst og fremst í því hvort hægt sé að fá þá sem ekki eru umburðarlyndir til þess að verða umburðarlynda. Með öðrum orðum hvernig fær maður þá sem eru haldnir útlendingafælni, þá sem eru fordómafullir, þá sem eru þjóðhverfir og þá sem hafa tileinkað sér rasískan hugsunarhátt til þess að verða umburðarlyndir? Er mögulegt fá slíka einstaklinga til að tileikna sér fjölmenningarlega færni af fúsum og frjálsum vilja?  Það er stóra spurningin.

Reynsla mín af ungu fólki er sú að yfirgnæfandi meirihluti þess er umburðarlyndur gagnvart fólki af erlendum uppruna. Síðastliðið sumar hitti ég milli 600 og 700 14 ára ungmenni í Vinnuskóla Reykjavíkur í um þrjár klukkustundir í senn, ég hitti á Akranesi alla nemendur Brekkubæjarskóla í 6.-10 bekk og var með 80 mínútna stundir sem miðuðu að því að efla umburðarlyndi og fjölmenningarlega færni þar sem í skólann voru að koma flóttamenn frá Palestínu. Og eins og áður segir kom yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda fram sem afskaplega umburðarlyndur hópur þegar koma að málefnum fólks af erlendum uppruna. Það var aðeins einn einstaklingur sem hafði í frammi rasískar athugasemdir af þessum tæplega 1000 manns sem ég hitti.

En talandi um umburðarlyndi. Getur umburðarlyndi ekki verið mismunandi mikið eða lítið? Jú óhætt er að fullyrða að umburðarlyndi getur verið mismunandi mikið og kann að vera mismunandi eftir aðstæðum hverju sinni og gagnvart mismunandi hópum.

Af og til hafa borist fregnir af ungu fólki sem er afskaplega umburðarlaust gagnvart útlendingum sem hér búa. Dæmin eru umhugsunarverð og áskorunin mikil í ljósi spurningarinnar sem hér er lögð til grundvallar. Skoðum nokkur þeirra:

Frá árinu 2001:

"....Það þarf engan snilling eða erfðavísindamann til aðsýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi. Vestrænar þjóðir vorkenna Afríkubúum mjög mikið en þeir búa þarna í gróðusælustu álfu heims og gætu framleitt sex sinnum meira af mat en þeir þurfa ef þeir nenntu því. Við búum hér á grjóthnullungi, höfum ekkert nema fiskinn og klakann og höfum það bara stórfínt á meðan þeir nenna ekki að berja af sér flugurnar...." (DV 17. febrúar 2001)

Fyrir þessi ummæli var viðkomandi dæmdur til að greiða sekt eða sitja í fangelsi í 6 daga.

Og önnur ummæli frá árinu 2008:

"Pólverjar og Ítalir koma hingað og hirða alla byggingarvinnu frá okkur og fólk kemur hingað og hirðir alla fiskvinnu. Síðan er það svarta fólkið sem vinnur ekki einu sinni, það kemur bara hingað og týnist einhversstaðar á vappinu, þetta er ógeðslegt. Síðan dirfist þetta fólk að ráðast á okkur. Hér segi ég stopp og ekki lengra, nú er nóg komið,"...."Við erum nú þegar í vandræðum með okkar eigin þjóð og því alls ekki gáfulegt að fara að bæta við vandamálum annarra þjóða. Við höfum ekki efni á því." (DV 11. janúar 2008 bls. 14)

Og unglingar stofnuðu síðan félag gegn Pólverjum  í ársbyrjun 2008 og var vefsíða jafnframt sett upp þar sem einn forsparkki félagsins, fjórtán ára unglingur sagði að Íslendingar þyrftu að losna við Póvlerja áður en það væri um seinan. Hann sagði þá skemma hluti og þykjast eiga Ísland. (Fréttablaðið feb.2008)

Útlensku starfsfólki í verslun og þjónustu hefur orðið fyrir dónaskap og hafði austurrísk afgreiðslustúlka í bakaríi í Reykjavík þetta um reynslu sína að segja árið 2007:

"Ég hef orðið fyrir dónaskap frá viðskiptavinum fyrir að tala ekki íslensku hér í bakaríinu,",...."Tvisvar hefur það komið fyrir að fólk hefur gegnið út út þegar það kemst að því að ég tala ekki íslensku. Mér leið mjög illa yfir því og fannst það niðurlægjandi." (Fréttablaðið 25. september 2007)

 

Þetta var í stuttu máli lýsing á þeirri áskorun sem staðið er frammi fyrir í fræðslu um umburðarlyndi. Síðan ræddi ég markmið þjálfunar í fjölmenningarlegri færni og lýsti þeim aðferðum sem ég nota í kennslustundum og gengið hafa vel. Mjög góðar og áhugaverða umræður urðu og þakka ég þátttakendum fyrir þær.

JB

 

 

 


Siðfræði handa Gunnari - siðfræðinámskeið fyrir forystufólk verkalýðshreyfingarinnar

Hér birtist auglýsing um siðfræðinámseiðið Siðfræði handa Gunnari - siðfræðinámskeið fyrir forystufólk verkalýðshreyfingarinnar sem haldið verður síðar í nóvember. Endilega látið berast til verkalýðsforingjanna þið sem þá þekkið en athugið að forysta VR gengur fyrir að þessu sinni, en ekki er útilokað að fleiri námskeið verði haldin.

Fimmtudaginn 20. nóvember n.k. kl. 19.30-22.00 mun forystufólki verkalýðshreyfingarinnar standa til boða siðfræðinámskeiðið Siðfræði handa Gunnari — um réttlæti og samfélagslega ábyrgð.Forystufólk verkalýðsheyfingarinnar þarf að takast á við margvísleg siðferðileg álitamál í störfum sínum. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um grundvallarhugmyndir og kenningar ýmissa siðfræðinga og  fá verkalýðsforingjarnir tækifæri til þess að rökræða lífsgildi sín, traust og trúverðugleika, siðferðilegar spurningar hve varðar lífsgæði og lífsstíl, samfélagslega ábyrgð, launamun, fátækt og ríkidæmi, þarfir og gerviþarfir og hvað sé siðferðilega rétt og siðferðilega rangt í heimi þar sem veraldleg gæði eru takmörkuð. Á meðal fjölmargra spurninga sem leitað verður svara við eru:Er eitthvað rangt við það að duglegir verkalýðsforingjar séu á “ofurlaunum”?Hversu mikill launamunur á að vera á milli verkalýðsforystunnar og almennra félagsmanna?Hvað felst í réttlæti og samfélagslegri ábyrgð?Hvað einkennir trúverðugan verkalýðsleiðtoga?Félagar í VR hafa forgang á námskeiðið að þessu sinni en hámarksfjöldi þátttakenda er 25 og lágmarksfjöldi 8.Leiðbeinandi á námskeiðinu er Jóhann Björnsson MA í heimspeki sem hefur áralanga reynslu af kennslu í siðfræði. Hefur hann kennt ýmsum starfsstéttum siðfræði eins og starfsfólki á  leikskólum og geðdeildum á vegum Mímis símenntunar. Vorið 2007 bauð hann upp á siðfræðinámskeiðið Hversu mikið er nóg? - siðfræði handa forystufólki í bönkum og fjármálafyrirtækjum.Nánari upplýsingar og skráning í síma 8449211 og með tölvupósti johannbjo@gmail.com eigi síðar en 18. nóvember. Þátttökugjald er kr. 1000-

 


Aðdáendaklúbbur Eltons Johns fékk tækifæri til að læra siðfræði

Í byrjun maí 2007 þegar mér var farið að blöskra græðgi forystumanna bankanna á Íslandi eða aðdáendaklúbbs Eltons Johns eins og hópurinn kallast stundum bauð ég þeim öllum á siðfræðinámskeið. Margir héldu annaðhvort að ég væri að grínast eða galinn. Ég var alla vega ekki að grínast en hvort ég var galinn ætla ég ekki að leggja mat á. Þetta var á þeim tíma þar sem allir vildu taka þátt í gullgreftrinum og engar siðferðisspurningar þóttu fínar. Ég var bara álitinn púkó. Enda fór svo að enginn skráði sig á námskeiðið. En til að rifja upp þá var bréf mitt til bankamannana svohljóðandi:

"Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að ýmsar starfsstéttir hafi sótt námskeið í siðfræði til þess að efla hæfni sína til að takast á við álitamál í starfi. Heilbrigðis- og uppeldisstéttir hafa þar verið í farabroddi.

Fimmtudaginn 10. maí 2007 kl. 20.00-22.00 mun bankastjórum og öðrum forystumönnum fjármálafyrirtækja standa til boða siðfræðinámskeiðið Hversu mikið er nóg? 

Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um grundvallarhugmyndir siðfræðinga um hið góða líf og  fá bankamennirnir tækifæri til þess að rökræða siðferðilegar spurningar hve varðar lífsgæði og lífsstíl, samfélagslega ábyrgð, launamun í landinu, fátækt og ríkidæmi, þarfir og gerviþarfir og hvað sé siðferðilega rétt og siðferðilega rangt í heimi þar sem veraldleg gæði eru takmörkuð.

Þátttakendur á námskeiðinu fá jafnframt tækifæri til þess að tengja hugmyndir sínar um lífstíl og lífsgæði við hamingjuna og tilgang lífsins.

 

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Jóhann Björnsson sem lokið hefur BA prófi í heimspeki frá HÍ og MA prófi í sömu grein frá Katholieke Universiteit Leuven í Belgíu.

 

Skráningar á námskeiðið skuli berast í tölvupósti á netfangið johannbj@hotmail.com og rennur skráningarfrestur út miðvikudaginn 9. maí næstkomandi.

 

Námskeiðið er forystumönnum banka og fjármálafyritækja ókeypis."

 Því miður sá enginn bankamaður ástæðu til þess að mæta, en ég held að það hefði ekki gert þeim neitt verra að koma á námskeiðið. Þeir hefðu þá kannski öðlast pínulítinn skilning á því að það er eitthvað rangt við það að ræna ævisparnaði almennings eins og eldra fólks og einstæðra foreldra.

Þetta var svona smá söguleg upprifjun um tilboð sem bankamenn fengu og gátu svo sannarlega auðveldlega hafnað.

JB

 

 

 

 


Hvort er betra að drekka litla kók eða stóra kók?

Ég var í strætó í dag, leið 11 frá Bústöðum niður á Hverfisgötu þegar ég sá auglýsingu í vagninum frá Glitni. Auglýsingin var um eitthvað námsmannagreiðslukort og sagði frá því að í einhverjum kvikmyndahúsum gætu námsmenn fengið stóra kók á verði litlu kókarinnar með því að nota umrætt kort. Telja forsvarsmenn Glitnis sig væntanlega vera að gera námsmönnum einhvern rosa flottann greiða en er það svo? Nú spyr ég: Í ljós þess að vesturlandabúar og þar með íslendingar eru að þyngjast og offita að aukast og í ljósi aukinna tannskemmda ungs fólks er þá tilboð Glitnis unga fólkinu í hag eða ekki?

JB


Stjörnukort fjöldamorðingjans

Ég hef verið að lesa skemmtilega bók eftir heimspekinginn Stephen Law sem heitir The outer limits, more mysteries from the philosophy files (2003). Þetta er bók fyrir ungt fólk og byrjendur í heimspeki þar sem ýmis viðfangsefni eru rökrædd. Einn kaflinn fjallar um ýmislegt sem flokka má sem dularfullt eins og geimverur, drauga, galdra osfrv.

Stjörnukort og áreiðanleiki þeirra er eitt af því sem Stephen Law ræðir. Segir hann sögu af manni sem ákvað að rannsaka stjörnukort og viðbrögð fólks við þeim. Umræddur maður auglýsti árið 1979 ókeypis stjörnukort í blaði og lét hann alla þá sem óskuðu eftir slíku fá eintak. Auk kortanna fylgdi könnun um það hvað fólki fyndist um "sitt" stjörnukort. Málið var það að allir fengu sama kortið án þess að vita af því en hann notaði kort sem gert hafði verið af stjörnuspekingi fyrir fjöldamorðingjann Dr. Petiot sem tekinn var af lífi 1947 fyrir að hafa viðurkennt að myrða alls 63 einstaklinga. Þetta var því alvöru stjörnukort en ekki gert fyrir þá sem fengu það sent.

Fólkið sem fékk umrætt stjörnukortin stóð í þeirri trú að það hefði verið gerð fyrir hvert og eitt þeirra og af þeim 150 fyrstu sem svöruðu könnuninni þá sögðu 94% að kortið sem þau fengu passaði vel við þeirra persónuleika og 90% vina þeirra og fjölskyldumeðlima voru á sömu skoðun.

Hvernig stendur á þessu?

JB


Ef einhver hefur rænt úr búð er ég þá í fullum rétti til að ræna líka?

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur ráðið miðborgarstjóra á hæstu mögulegu launum með mestu mögulega yfirvinnu eins og fram hefur komið. Réttlætir hann kjörin með því einu að vísa til þess að miðborgarstjóri R listans hafi verið á sömu kjörum á sínum tíma. Nú spyr ég:

Ef einhver hefur gert einhverja vitleysu, réttlætir það þá að sömu vitleysunni skuli haldið áfram endalaust? Er þá ekki ráð að snúa til betri vegar af þeirri villu sem einhvern tíman tíðkaðist?

Bætum siðferðið í pólitíkinni.

JB

 

 


Páskapælingin

Ekki er það ónýtt að hafa góða páskapælingu til að rökræða í fríinu og ég tala nú ekki um yfir lambasteikinni og páskaegginu

Nemendur mínir í heimspeki sem margir eru í 8. bekk hafa fengið að semja sínar eigin heimspekilegu pælingar í vetur. Og þar sem flestir þeirra eru að fermast í Bústaðakirkju um þessar mundir eru sumar pælingar þeirra trúarlegs eðlis. Hér kemur ein pæling eftir nemanda í 8. bekk sem þið ágætu lesendur getið tekist á við og endilega leyfið mér að sjá niðurstöður ykkar í athugasemdum:

"Af hverju á maður að fara eftir boðorðunum 10? Guð fyrirgefur manni hvort sem er alltaf."

JB


Og þá er það jólaheimspekin í ár: Er það siðferðilega rétt að telja börnunum trú um að Jesús hafi fæðst á jólunum ef ekki er fullvíst að svo sé?

Fátt er betra á jólunum eftir að maður er búinn að gæða sér á jólasteikinni og er að fá sér kaffi og konfekt en að hafa einhverja heimspeki til að spá í með vinum og vandamönnum. Á vísindavef Háskólans er t.d. ein ansi góð jólaheimspekispurning sem er eitthvað á þessa leið: "Er það siðferðilega rétt að telja bönum trú um að jólasveinar séu til?"

En margir fara eflaust létt með þá spurningu og því er ráð að koma með aðra jólaheimspekispurningu. Mér datt sú spurning sem hér fer á eftir í hug eftir að hafa lesið í bókinni Saga daganna eftir Árna Björnsson en þar segir m.a.:

"Í heilagri ritningu er þess hvergi getið hvaða mánaðardag Jesús Kristur er fæddur. Biblíunnar vegna gæti hann eins verið borinn á miðju sumri. Kristin kirkja taldi lengi vel blátt áfram ástæðulaust að halda hátíðlegt upphaf hins jarðneska holdlega lífs."

Stuttu síðar segir Árni ennfremur: "Það var því engin furða þótt kristnir menn tækju snemma að velta fyrir sér hver væri fæðingardagur Jesú Krists. Allar götur frá byrjun 3. aldar eru spurnir af því að menn hafi reynt að tímasetja fæðingu Jesú og sjást tilnefndir 6. janúar, 23. mars, 28. mars, 9. apríl, 20. apríl, 20. maí, 17. nóvember og 25. desember.

Í ljósi þessa felst því jólaheimspeki þessara jóla í eftirfarandi spurningu:

Er það siðferðilega rétt að telja börnunum trú um að Jesús hafið fæðst á jólunum ef ekki er fullvíst að svo sé?

Svo segi ég bara gangi ykkur vel með spurninguna (ég vek samt athygli á að sjálfur hef ég ekki svarið við henni og bið ykkur því að skrá svörin í athugasemdir) og óska öllum gleðilegra jóla.

JB


Ólívuolía er búin til úr ólívum, en úr hverju er barnaolía búin til?

Nemandi minn einn kom til mín í gær og sagði: "Heyrðu Jóhann" "Já" svaraði ég. "Ólívuolía er búin til úr ólívum, en barnaolía úr hverju er hún búin til?" "Ja þú segir nokkuð".

Ekki gat ég svarað þessum unga manni og því leita ég til ykkar lesendur góðir með þessa spurningu.

JB


Þurfa mömmur aldrei að hugsa neitt?

Ég hef nýlokið við að kenna starfsfólki á leikskólum heimspekilega siðfræði. Mjög skemmtilegir tímar þar sem umræður um ýmis álitamál sem tengjast leikskólum og uppeldi voru rædd útfrá sjónarhorni heimspekilegrar siðfræði. Eitt af því sem við gáfum okkur góðan tíma til að skoða og ræða voru barnabækur, bæði gamlar og nýjar. Það er nefnilega líka mjög athyglisvert að skoða það sem einu sinni var lesið fyrir börnin ekki síður en það sem nýtt er.

Ein er sú bók sem við ræddum og vakti miklar umræður var Mús og kisa eftir Örn Snorrason sem prentsmiðjan Leiftur gaf út árið 1968. Það voru ekki margir þátttakendur sem könnuðust við bókina, en þó var það ekkert útilokað að hún kynni að vera til í einhverjum bókahillum.

Bókin fjallar um músafjölskyldu sem kemst ekki út úr holunni sinni þar sem köttur bíður eftir þeim fyrir utan. Ungarnir eru orðnir svangir og vilja fara að komast út og fara að þrýsta á foreldra sína sem bregðast við með athyglisverðum hætti. Það sem við ræddum í tengslum við bókina voru þau viðhorf til kynjanna sem þar koma fram, verkaskiptingu á heimilum og samskipti almennt. Hér koma nokkrar glefsur úr bókinni og samskiptunum sem þar fara fram:

Ungarnir vilja að mamma reki kisu burt en mamma svarar "...ég get það ekki." þá spyrja ungarnir: "Getur pabbi allt?"  "...það segir hann, sagði músin."  Svo fara ungarnir að leita að pabba og spyrja hvar hann sé og þá kemur í ljós að hann liggur innst í holunni og þegar þeir spyrja mömmuna hvað hann sé að gera segir mamman að hann sé líklega að hugsa og þá kemur þessi sena hér: "Þurfa allir að hugsa? spurðu ungarnir. Nei það held ég ekki, sagði músin. Hugsar þú mamma? spurðu þeir. Nei, ég hugsa aldrei neitt, sagði hún. Hversvegna ekki, mamma? spurðu ungarnir. Mömmur þurfa aldrei að hugsa neitt sagði músin."

Ungarnir gefast ekki upp enda orðnir mjög svangir og á endanum fara þeir til músapabba sem var í sjálfu sér ekkert að hugsa (mín túlkun) heldur lá hann annaðhvort í leti eða var þunglyndur. Ungarnir fara að pikka í karlinn og þá kemur ekki síður athyglisverð sena:

"Þú verður að gefa okkur að borða. Ég! Það er ekki mitt verk að sjá um matinn. Segið mömmu að ég hafi sagt að hún eigi að gefa ykkur að borða. Það er hennar starf ekki mitt. Segið henni að færa mér mat hingað. Ég er líka orðinn svangur. En látið mig í friði. Ég gæti svo sem náð í fæðu hand aykkur, en ég hef engan tíma til þess. Ég hef svo mikið að gera. Hvað ertu að gera? spurði minnsti unginn. Þegi þú litli karl...."

Umræður þátttakenda á námskeiðinu voru fjörugar, frjóar og skemmtilegar. Tókum við fyrir ýmsar aðrar bækur einnig s.s. Láka, Tralla, Gleðigjafann, Grimms ævintýri, Negrastrákana, Palla sem var einn í heiminum og Tinna svo fátt eitt sé nefnt. Barna og unglingabækur eru nefnilega mikil uppspretta heimspekilegra rannsókna og á því sviði er mikið verk óunnið hér á landi.

JB

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband