Að vera í námi þar sem blýantur er aldrei tekinn upp. Vel heppnað málþing um heimspeki í skólum

Málþing heimspekistofnunar sem haldið var í gær heppnaðist mjög vel. Fróðlegt var að hlusta á sjónarmið heimspekinga um skólastarf og hlutverk heimspekinnar í skólum landsins, bæði í erindum málþingsins og ekki síður í óformlegu spjalli í kaffihléum. Margt í íslensku skólastarfi var rætt á gagnrýnin hátt og þar á meðal sú tilhneiging í íslensku skólastarfi að líta á að magn námsefnis sé mikilvægara heldur en gæði þess. En það er eitthvað sem ég hef svo sannarlega orðið var við.

Sjálfur ræddi ég um heimspeki og siðfræðiástundun í Réttarholtsskóla en nú er málum þannig háttað þar að allir nemendur í 8. bekk sækja tíma í heimspeki í eina önn, allir nemendur í 9. bekk sækja tíma í siðfræði í eina önn og þar að auki er 9. og 10. bekk boðið upp á heimspeki sem valgrein.

Allnokkra athygli fékk ég fyrir lýsingu mína á heimspekivalinu sem ég býð upp á við skólann og þótti það allróttækt að hafa hvorki námsmat né verkefnaskil og var ekki laust við að sumir málþingsþátttakendur hefðu af því áhyggjur hvort að ég hefði fengið leyfi skólayfirvalda til að skipuleggja námið þannig en ég hef aldrei fundið fyrir öðru en fullu trausti til að skipuleggja heimspekinámið á þann hátt sem ég tel að gagnist nemendum sem best. 

Hér á eftir fer brot úr erindi mínu á málþinginu þar sem ég útskýri heimspekivalið: 

"Undanfarin sex ár hefur heimspeki verið kennd sem valgrein í 9. og 10. bekk. Hver hópur sækir tíma í 80. mín á viku í eina önn. Í fyrstu var um tiltölulega fámenna hópa að ræða. Þessi valgrein hefur hinsvegar orðið vinsælli og núna er 28 nemenda heimspekihópur og eftir áramót verður annar álíka fjölmennur ef ekki aðeins fjölmennari. Í þessa tíma eru allir velkomnir svo lengi sem húsrúm leyfir.

Það segir sig sjálft að eiginlegar heimspekilegar samræður eru ekki ástundað í svo stórum hópi svo að einhverju gagni megi verða. Þó eigum við til með að taka oft nokkuð góða spretti í skoðanaskiptum og er það fyrst og fremst vegna þess að hér er um valgrein að ræða og því sjaldan sem nemdur velja fagið sem ekki sýna því neinn áhuga. Agavandamál hafa því yfirleitt ekki verið fyrir hendi.

Eftir að fjöldinn í þessu fagi fór að verða þetta mikill þá hefur fyrirkomulagið verið á þá leið hér sé um að ræða vettvang þar sem varpað er fram fróðleik og pælingum um heimspeki í sinni víðustu merkinu, heimspekisöguna, persónur heimspekinnar og viðfangsefni auk tengina við hversdagslegt líf nemenda og annars almennings. Þetta er fyrst og fremst vettvangur til þess að velta vöngum, upplifa, njóta og fræðast í afslöppuðu andrúsmlofti.

Það þýðir að allar mælingar hafa verið aflagðar. Það eru engin próf, það eru engin heimaverkefni, blýntur er mjög sjaldan tekinn upp í þessum tímum.

Þetta hefur orðið til þess að sá hópur nemenda (ekki síst drengir) sem eiga erfitt með að fóta sig í hefbundu námi þar sem mikið er lesið og skrifað og mikið prófað og mælt hafa verið að koma í heimspeki, fundið sig þar og staðið sig nokkuð vel.

Ekki er heldur óalgengt að aðrir nemendur en þeir sem valið hafa heimspeki óski eftir að fá að koma í einn og einn tíma sem gestir t.d. ef einhver önnur kennslustund í skólanum fellur niður. Einnig er til í myndinni að þeir nemendur sem eru mikið fjarverandi í ýmsum kennslustundum t.d. vegna þess að þeir standast ekki þær kröfur sem gerðar eru, þola ekki kennarann sinn eða af einhverjum öðrum ástæðum koma og óska eftir því að vera gestir í heimspeki í stað þess að þvælast einir um ganga skólans. Þeir óska semsagt eftir tímabundnu athvarfi frá "illsku" skólalífsins.

Sú reynsla hefur verið mér enn frekari hvatning um að það sé réttlætanlegt að í skólum sé hægt að læra og þroskast án þess að allt sé mælt og án þess að allt sé njörvað niður í streð, stress og "heimavinnuþrældóm." Það má kannski segja sem svo að yfirmarkmiðið í þessum tímum sé sú að í tímunum ríki hamingjan ein.

Þegar ég hóf að bjóða upp á heimspeki sem valgrein lagði ég fyrir skrifleg verkefni og gaf einkunnir en mér fannst það ekki skila þeim áhuga og þeirri gleði af því að stunda heimspeki sem ég finn núna. Nemendur voru of uppteknir af því að standa sig, of uppteknir af því að fá einkunnir og urðu fyrir vikið alveg hundleiðinlegir.  Og þeir urðu mjög uppteknir að frammistöðumati og  aðalspurningarnar voru eitthvað á þessa leið: "af hverju fékk ég þessa einkunn en hinn fékk hina einkunina?" Í dag þegar við erum laus við frammistöðumatið getum við einbeitt okkur að heimspekinni og ef einhver nemandi spyr mig einhvers eru spurningarnar undantekningarlaust heimspekilegs eðlis.

Skólinn er nefnilega fyrir fleiri heldur en þá sem passa inn í þennan hefðbundna ramma sem flestir grunnskólar starfa eftir og heimspekin getur að mínu mati tekið við öllum sem á annað borð geta hugsað. Það er eina skilyrðið sem ég set til þess að fá að sitja tímana og það er að geta hugsað.

Ég mæli oft með heimspekibókum sem ég segi nemendum að þeir geti fengið lánaðar eða keypt og lesið sér til skemmtunar og ég veit, sumir hafa sagt mér það að þeir hafi farið og útvegað sér þær bækur sem ég mæli með. Slíkt frumkvæði nemenda, þó ekki sé það mjög oft er mjög ánægjulegt."

Margt fleira ræddi ég á málþingi sem ég set e.t.v. síðar á síðuna.

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir þetta. Þetta er mjög áhugavert og athyglisverð fannst mér athugasemdin um að magn sé ekki endilega vísbending um gæði.

Skólinn er því miður mjög upptekinn af námsmati en hefðbundið námsmat hentar nemendum misvel.

Ég á tvö börn sem bæði voru hjá þér í borgaralegri fermingarfræðslu og voru þau mjög ánægð með þá fræðslu, einkum það sem sneri að gagnrýnni hugsun, hagnýtum notum hennar í nútíma þjóðfélagi og einnig áherslu á leyfið til að vera öðruvísi. Þetta og fleira sem snýr að heimspeki og rökhugsun gleymist oft í öllum utanbókarlærdómnum í grunnskóla dagsins í dag.

Bíð spennt eftir áframhaldi.

Kristjana Bjarnadóttir, 18.11.2007 kl. 21:48

2 identicon

Sæll Jóhann!

Einkar gaman að lesa bloggið þitt.
Langaði einnig að benda þér á skemmtilega heimasíðu, þ.e. ef þú vissir ekki af henni fyrir. www.ted.com og þá sérstaklega eftirfarandi fyrirlestur http://www.ted.com/index.php/talks/view/id/66

Kveðja

Kristján

Kristján Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 01:03

3 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Þessi fyrirlestur sem gefinn er upp í slóð hér í athugasemdinni að ofan er mjög fróðlegur og skemmtilegur, virkilega fínn fyrirlesari Robinson, með áhugaverða vinkla í menntamálum.

Jón Þór Bjarnason, 21.11.2007 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband