Og þá er það jólaheimspekin í ár: Er það siðferðilega rétt að telja börnunum trú um að Jesús hafi fæðst á jólunum ef ekki er fullvíst að svo sé?

Fátt er betra á jólunum eftir að maður er búinn að gæða sér á jólasteikinni og er að fá sér kaffi og konfekt en að hafa einhverja heimspeki til að spá í með vinum og vandamönnum. Á vísindavef Háskólans er t.d. ein ansi góð jólaheimspekispurning sem er eitthvað á þessa leið: "Er það siðferðilega rétt að telja bönum trú um að jólasveinar séu til?"

En margir fara eflaust létt með þá spurningu og því er ráð að koma með aðra jólaheimspekispurningu. Mér datt sú spurning sem hér fer á eftir í hug eftir að hafa lesið í bókinni Saga daganna eftir Árna Björnsson en þar segir m.a.:

"Í heilagri ritningu er þess hvergi getið hvaða mánaðardag Jesús Kristur er fæddur. Biblíunnar vegna gæti hann eins verið borinn á miðju sumri. Kristin kirkja taldi lengi vel blátt áfram ástæðulaust að halda hátíðlegt upphaf hins jarðneska holdlega lífs."

Stuttu síðar segir Árni ennfremur: "Það var því engin furða þótt kristnir menn tækju snemma að velta fyrir sér hver væri fæðingardagur Jesú Krists. Allar götur frá byrjun 3. aldar eru spurnir af því að menn hafi reynt að tímasetja fæðingu Jesú og sjást tilnefndir 6. janúar, 23. mars, 28. mars, 9. apríl, 20. apríl, 20. maí, 17. nóvember og 25. desember.

Í ljósi þessa felst því jólaheimspeki þessara jóla í eftirfarandi spurningu:

Er það siðferðilega rétt að telja börnunum trú um að Jesús hafið fæðst á jólunum ef ekki er fullvíst að svo sé?

Svo segi ég bara gangi ykkur vel með spurninguna (ég vek samt athygli á að sjálfur hef ég ekki svarið við henni og bið ykkur því að skrá svörin í athugasemdir) og óska öllum gleðilegra jóla.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég tel ekki rétt að ljúga að barni mínu, enda skiptir það boðskapinn um kærleika og umburðarlyndi engu máli hvort jesús hafi fæðst eða ekki!

GLEÐILEG JÓL

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 24.12.2007 kl. 11:03

2 identicon

Sæll Jóhann. Svarið virðist einfalt: Það er í grundallaratriðum siðferðilega rangt að ljúga að börnum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst miklu alvarlegri siðferðisbrestur að telja börnum trú um að Jesú hafi fæðst á jólunum en að telja þeim trú um tilveru jólasveinsins þar til þau sjá í gegn um þau ósannindi og þá venjulega á aldrinum 6-8 ára.

Gleðilega hátíð ljóssins og ósk um frið.

Steinar Harðarson (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 11:33

3 identicon

Sæll Jói, langt síðan við hittumst síðast í Kebbblavíkinni. Ég hef minn afmælisdag í lok október árlega, en samkvæmt biblíukenningum gæti ég alveg sagt börnunum mínum að ég sé fæddur á jóladag. Ég mundi rökstyðja það með tímatals-ónákvæmni, svo er tíminn líka afstæður eins og nafni minn sannaði áður fyrr (nefni engar dagsetningar). Hátíðarkveðja, Albert Sig.

Albert Sig. (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 11:45

4 identicon

Það er ágætt að spyrða saman jólasveinana, og skilja yngsta sveininn ekki útundan, þennan í jötunni. Mér finnst allt í lagi að börn upplifi ævintýri, jafnvel með hjálp hinna fullorðnu, sem teygir sig inn í daglegt líf þeirra. Það er nefnilega mjög holl lexía fyrir börn og fullorðna að átta sig á að þau höfðu rangt fyrir sér um tilveruna. Sú blauta tuska hvetur þau síðar til að vera á varðbergi. Um leið og börn átta sig á tilvistarleysi jólasveina ætti tilvistarleysi guðdómsins að vera jafnljóst.

Það er nefnilega ekki hægt að afsanna tilvist jólasveinanna. Goðsögnin um þá er falleg, með hryllilegu ívafi. Ekki skortir vísanir í tilvist þeirra í sögum, ljóðum, myndum og öðru sem við blasir. Enginn verður verri maður fyrir að trúa á jólasveininn o.s.frv. Allt þetta má heimfæra upp á guðdóminn og jólasveininn í jötunni.

Gleðileg jól.

Reynir Harðarson (IP-tala skráð) 24.12.2007 kl. 11:55

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er haldið upp á fæðingu Jesú á jólunum – ekki upp á afmælið hans! Þegar börn eru orðin nógu skýr til að skilja þetta, ber að segja þeim frá því. Aðalatriðið er koma Guðssonarins, að hann hafi fæðzt til að búa með okkur mönnum. Að það sé gert um þetta leyti árs, er ágætlega viðeigandi, enda er engin nákvæm upplýsing um fæðingardag hans í guðspjöllunum. – Gleðileg jól!

Jón Valur Jensson, 24.12.2007 kl. 13:59

6 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

"enda er engin nákvæm upplýsing um fæðingardag hans í guðspjöllunum. "  Það er af því að Guðspjöllin eru skáldskaparmál að mestu.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 24.12.2007 kl. 14:16

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Eitt get ég sagt þér.

Mér þykir þú ekki skemmtilegur með þínar fáfengilegu hugleiðingar og þráhyggju.

Gleðileg jól og til hamingju með fæðingu Frelsarans fyrir u.þ.b. 2000 árum.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 24.12.2007 kl. 17:09

8 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Steinar Harðarson :  Þakka þér fyrir að óska okkur til hamingju með fæðingu Friðarhöfðingjans, ljós þessa heims.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 25.12.2007 kl. 00:28

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Aðalatriðið er að sagan er góð en hvort Jesú hafi fæðst á jólunum eða ekki, er aukaatriði. Margt bendir reyndar til þessa að Jesú eigi sér fyrirmynd í goðsagnarpersónum sem eiga sér dýpri og eldri rætur í fornum menningarsamfélögum. Ásatrúinn t.d. tengist einnig sömu rótum en þar eiga menn sinn frjósemisguð, Frey - ljós heimsins, sem fæðist meyjarfæðingu við vetrarólhvörf. Að halda upp á fæðingu frelsarans á jólunum þarf því ekki að vera svo fráleitt. Síðan má spyrja hvaðan eru hugmyndir um jólasveininn og jólasveinana komnar?

Emil Hannes Valgeirsson, 25.12.2007 kl. 00:44

10 Smámynd: Kristján Magnús Arason

Það er algerlega óþarft að halda því fram að Jesús hafi fæðst undir lok desember, rétt eins og það er alveg óþarft að halda því fram að heimurinn hafi orðið til (eða tímatal fundið upp) þann 1. janúar.  Það er samt ekkert að því að fagna því á hverju ári. 

Kristján Magnús Arason, 25.12.2007 kl. 01:11

11 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

"That´s the Christmas Spirit for you Mr. Scrooge " ..

Gleðileg jól annars, á hinu ástkæra ylhýra!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.12.2007 kl. 08:27

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Fínn punktur hjá Jóni Val.  Það er ótrúlegt að ég sé loksins sammála honum í einhverju.  Það er verið að halda uppá fæðingu Jesú en það er mikilvægt að það komi fram að réttur afmælisdagur sé ekki vitaður.  Það væri siðleysi að sleppa þeirri fræðslu.

Ég lærði aldrei um slíka óvissu þegar ég var barn eða unglingur.  Það kom aldrei fram annað en að 25.des væri fæðingardagurinn.  Hvað ætli standi í kennslubókunum í dag?

Svanur Sigurbjörnsson, 2.1.2008 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband