Er hægt að kenna umburðarlyndi?

Sveitarfélagið Garður hélt mjög áhugavert málþing um fjölmenningu og fræðslu gegn fordómu s.l. föstudag. Þar hélt ég erindi um reynslu mína af kennslu fjölmenningarlegrar færni með unglingum. Erindið kallaði ég "Er hægt að kenna umburðarlyndi?" Hér birti ég byrjunina á  þessu erindi en ekki er ólíklegt að það muni birtast í heild sinni síðar:

 

Áskorunin

Fyrir nokkrum árum las ég grein í dagblaði þar sem kona nokkur var að ræða siðferðisbresti stjórnmálamanna. Í lok umfjöllunarinnar sagði hún að stjórnmálmenn þyrftu að fara á námskeið í siðfræði. Það var eiginlega hennar niðurstaða og lausn við siðferðisvanda í stjórnmálum. Allar götur síðan hafa þessi ummæli rifjast upp fyrir mér og ég velt því fyrir mér hvort hægt sé að kenna fólki að breyta siðferðilega rétt? Er hægt að kenna fólki að breyta siðferðilega rétt ef það sér ekkert athugavert við hegðun sína og lífsviðhorf? Er hægt að kenna fólki að breyta öðruvísi ef það sér enga ástæðu til þess eða jafnvel ef það hreinlega  vill það ekki? Er nóg að skylda fólk til þess að fara á siðfræðinámskeið til þess að það taki að breyta á siðferðilega lofsverðan hátt? Og virka siðræðinámskeið?

Páll Skúlason spurði sambærilegrar spurningar í bók sinni Pælingum þar sem hann spurði hvort hægt væri að kenna gagnrýna hugsun. Framhaldsskólanemi varð fyrir svörum og sagði: "Já, það er eflaust hægt að kenna gagnrýna hugsun..." ... "...ef maður finnur einhvern sem hefur áhuga á að læra hana." (Pælingar 1987)

Hér hefur framhaldsskólaneminn nokkuð til síns máls. Ef einhver vill læra eitthvað eru býsna miklar líkur á að það takist.  Áskorunin sem ég hef hinsvegar ætlað mér að ræða hér felst fyrst og fremst í því hvort hægt sé að fá þá sem ekki eru umburðarlyndir til þess að verða umburðarlynda. Með öðrum orðum hvernig fær maður þá sem eru haldnir útlendingafælni, þá sem eru fordómafullir, þá sem eru þjóðhverfir og þá sem hafa tileinkað sér rasískan hugsunarhátt til þess að verða umburðarlyndir? Er mögulegt fá slíka einstaklinga til að tileikna sér fjölmenningarlega færni af fúsum og frjálsum vilja?  Það er stóra spurningin.

Reynsla mín af ungu fólki er sú að yfirgnæfandi meirihluti þess er umburðarlyndur gagnvart fólki af erlendum uppruna. Síðastliðið sumar hitti ég milli 600 og 700 14 ára ungmenni í Vinnuskóla Reykjavíkur í um þrjár klukkustundir í senn, ég hitti á Akranesi alla nemendur Brekkubæjarskóla í 6.-10 bekk og var með 80 mínútna stundir sem miðuðu að því að efla umburðarlyndi og fjölmenningarlega færni þar sem í skólann voru að koma flóttamenn frá Palestínu. Og eins og áður segir kom yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda fram sem afskaplega umburðarlyndur hópur þegar koma að málefnum fólks af erlendum uppruna. Það var aðeins einn einstaklingur sem hafði í frammi rasískar athugasemdir af þessum tæplega 1000 manns sem ég hitti.

En talandi um umburðarlyndi. Getur umburðarlyndi ekki verið mismunandi mikið eða lítið? Jú óhætt er að fullyrða að umburðarlyndi getur verið mismunandi mikið og kann að vera mismunandi eftir aðstæðum hverju sinni og gagnvart mismunandi hópum.

Af og til hafa borist fregnir af ungu fólki sem er afskaplega umburðarlaust gagnvart útlendingum sem hér búa. Dæmin eru umhugsunarverð og áskorunin mikil í ljósi spurningarinnar sem hér er lögð til grundvallar. Skoðum nokkur þeirra:

Frá árinu 2001:

"....Það þarf engan snilling eða erfðavísindamann til aðsýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi. Vestrænar þjóðir vorkenna Afríkubúum mjög mikið en þeir búa þarna í gróðusælustu álfu heims og gætu framleitt sex sinnum meira af mat en þeir þurfa ef þeir nenntu því. Við búum hér á grjóthnullungi, höfum ekkert nema fiskinn og klakann og höfum það bara stórfínt á meðan þeir nenna ekki að berja af sér flugurnar...." (DV 17. febrúar 2001)

Fyrir þessi ummæli var viðkomandi dæmdur til að greiða sekt eða sitja í fangelsi í 6 daga.

Og önnur ummæli frá árinu 2008:

"Pólverjar og Ítalir koma hingað og hirða alla byggingarvinnu frá okkur og fólk kemur hingað og hirðir alla fiskvinnu. Síðan er það svarta fólkið sem vinnur ekki einu sinni, það kemur bara hingað og týnist einhversstaðar á vappinu, þetta er ógeðslegt. Síðan dirfist þetta fólk að ráðast á okkur. Hér segi ég stopp og ekki lengra, nú er nóg komið,"...."Við erum nú þegar í vandræðum með okkar eigin þjóð og því alls ekki gáfulegt að fara að bæta við vandamálum annarra þjóða. Við höfum ekki efni á því." (DV 11. janúar 2008 bls. 14)

Og unglingar stofnuðu síðan félag gegn Pólverjum  í ársbyrjun 2008 og var vefsíða jafnframt sett upp þar sem einn forsparkki félagsins, fjórtán ára unglingur sagði að Íslendingar þyrftu að losna við Póvlerja áður en það væri um seinan. Hann sagði þá skemma hluti og þykjast eiga Ísland. (Fréttablaðið feb.2008)

Útlensku starfsfólki í verslun og þjónustu hefur orðið fyrir dónaskap og hafði austurrísk afgreiðslustúlka í bakaríi í Reykjavík þetta um reynslu sína að segja árið 2007:

"Ég hef orðið fyrir dónaskap frá viðskiptavinum fyrir að tala ekki íslensku hér í bakaríinu,",...."Tvisvar hefur það komið fyrir að fólk hefur gegnið út út þegar það kemst að því að ég tala ekki íslensku. Mér leið mjög illa yfir því og fannst það niðurlægjandi." (Fréttablaðið 25. september 2007)

 

Þetta var í stuttu máli lýsing á þeirri áskorun sem staðið er frammi fyrir í fræðslu um umburðarlyndi. Síðan ræddi ég markmið þjálfunar í fjölmenningarlegri færni og lýsti þeim aðferðum sem ég nota í kennslustundum og gengið hafa vel. Mjög góðar og áhugaverða umræður urðu og þakka ég þátttakendum fyrir þær.

JB

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Númer 1 er að koma erlendu fólki í skilning um að virða hér vissar samfélagslegar hefðir og tungumál . Það er gríðarstór hópur hér á landi sem ætlar sér ekkert að læra málið !

Fordómar gegn lettum og pólverjum eru til komnir vegna slagsmála þeirra og innbrota . Það þarf að byrja hér á landi á sérnámskeiðum fyrir þessa menn, sem miða að því að fækka afbrotum þeirra . Ef það er hægt að kenna umburðalyndi og fordómaleysi, er þá alveg eins hægt að kenna heiðarleika og friðsamlegt næturlíf . Og ætti sú kennsla að vera forgangsverkefni Íslenskra fjölvæðingasinna !

Júrí (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 08:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband