Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
14.3.2009 | 12:02
Hvað ef allir starfsmenn leikskóla myndu slá börnin?
Fréttin um starfsmanninn á leikskólanum sem uppvís hefur orðið að því að slá barn vekur mann til umhugsunar um það fyrir hverja leikskólar eru. Barninu hefur verið boðin vist á öðrum leikskóla en ómögulegt þykir að vísa umræddum starfsmanni frá.
Þetta mál vekur upp eftirfarandi spurningu: Hvað ef allir starfsmenn á tilteknum leikskóla yrðu uppvísir að því að slá börnin? Yrðu þá öllum börnum boðin vist á öðrum leikskólum og eftir sætu starfsmennirnir einir með sjálfum sér? Eða hvað?
Það gleymist of oft þegar upp koma siðferðileg álitamál að spyrja "hvað ef allir...."
JB
![]() |
Sló barn utan undir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2009 | 21:50
Er einhver sem skilur hvað er verið að meina?
Í desember s.l. kom fram reglugerð frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt. En eins og margir vita er núna nýjasta tískan sú að áður en fólk fær íslenskan ríkisborgararétt þarf það að taka próf í íslensku.
Gott og vel. Þar með er ekki öll sagan sögð. Í umræddri reglugerð um prófin er málsgrein í 5. grein sem ég bara botna ekkert í, og hef ég nú ekki fengið greininguna seinfær og því síður tregur eða þroskaheftur þó ég sé kannski ekki sá "sleipasti" í heimi heldur. Ég held að ég sé bara svona meðalmaður. Nema hvað málsgreinin sem ég skil ekki er undir kafla sem fjallar um aðstoð við próftöku og hljómar svo:
"Ekki er gert ráð fyrir sérstakri aðstoð í próftökunni við þá sem eru óskrifandi eða ólæsir á latneskt letur ef ætla má að þeir gætu náð þeirri færni með hefðbundnu lestrar- og skriftarnámi."
Og nú spyr ég: A) Hvað er verið að meina með þessu? Og B) Ef þú ágæti lesandi setur þig í spor þess sem er hvorki læs né skrifandi á latneskt letur hvert er þá þitt hlutskipti varðandi umrætt próf og hvað tekur við að prófi loknu?
Hvet ég sem flesta til að skrifa svör sín niður í athugasemdir hér á síðunni.
JB
21.2.2009 | 16:30
En hvað um hamingju barna?
Fyrir viku síðan var ég með erindi á fundi sem bar heitið "En hvað um hamingju barna? Þar var rætt um stöðu barna í nútímasamfélagi með tilliti til hamingjunnar. Erindi þetta mun ég væntanlega birta síðar en í kjölfar fundarins var rætt við mig um málið í útvarpsþættinum Stjörnukíki. Hlusta má á þáttinn á meðfylgjandi slóð:
http://dagskra.ruv.is/ras1/4417985/2009/02/21/
JB
1.12.2008 | 17:43
Þvílíkur draumur, nú lætur maður vekjaraklukkuna hringja kl. 3 að nóttu og skellir sér í Hagkaup
Forsvarsmenn Hagkaupa haga sér eins og þeir hafi himnasendingu handa almenningi. Jú nú geta allir komið í Hagkaup í náttfötunum alla nóttina og keypt skyr og brauð og nammi í poka. þvílíkur lúxus, þvílík velmegun.
En hafa þeir svarað því hvað lengri opnunartími kostar og hver muni borga hann? Nei ég á ekki von á því enda hef ég grun um að það séu neytendurnir sem munu þurfa að borga fyrir lúxusinn með hærra verðlagi.
Ekki fer maður ótilneyddur að borga fyrir óþarfalega langan opnunartíma með hærra verðlagi. Ætli maður fari þá ekki bara sjaldnar í Hagkaup? Jú ég hugsa að ég reyni svona eins og hægt er að gera það.
JB
30.11.2008 | 13:45
"Er hægt að mótmæla án þess að hafa lausn?" Fréttamaður rúv mætir á Austurvöll með spurningalista frá Davíð og ríkisstjórninni
"Er hægt að mótmæla án þess að hafa lausn?" spurði fréttakona ríkisútvarpsins þátttakendur á mótmælafundinum á Austuvelli í gær. Klárlega hefur hún leitað til þeirra um spurnarefni sem óttast orðið um sinn hag en stýra landinu, enn að minnsta kosti.
En hvað heldur fréttakonan? Má maður ekki láta í ljós afstöðu sína, má maður ekki tjá óánægju sína með bullið sem viðgengst hefur í mörg ár án þess að maður setjist niður og ákveði í smæstu smáatriðum hver "eina sanna lausnin er"? Mótmæli er ekki endilega fundur um lausnir, fólk mótmælir því sem það er ekki sátt með, með mótmælum lætur maður í ljós þá skoðun að maður er ekki sammála því sem reynt hefur verið að troða ofan í kokið á manni. Ég mæti í mótmælin á Austurvelli til að sýna það í verki að sú stefna sem viðgengst hefur í mörg ár, að auðmannadekrið, að einkavæðing bankanna var rangt og ég mæti líka til að mótmæla því að bankastjórar nýju bankanna séu með tæpar tvær milljónir í laun á mánuði, það er of mikið.
Það er því einhver misskilningur, eða réttara sagt það er ríkisstjórnarundirlægjuháttur ríkjandi hjá umræddri fréttakonu þegar hún gengur á mannskapinn á Austurvelli og heimtar að fólki hristi lausnir upp úr vasanum eða sitji að öðrum kosti heima.
Ágæta fréttakona, bíddu bara það kemur kannski að því að þér verði sagt upp líka, en ef svo fer þá ertu bara velkomin í hóp okkar mótmælenda án þess að vera með lausnir í 10 liðum.
Með mótmælum bendum við á það sem er rangt og illa gert. Það má gera það.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
29.11.2008 | 20:09
Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður 29. nóvember 1930. Fátt breyst í 78 ár og erindið enn brýnt
Það var rifjað upp í dag í Fréttablaðinu að þennan dag, 29. nóvember 1930 hafi Kommúnistaflokkur Íslands (KFÍ) verið stofnaður. Ég á stefnuskrá flokksins sem samþykkt var á stofnþinginu og heitir Hvað vill Kommúnistaflokkur Íslands. Til íslenzkrar alþýðu frá stofnþingi K.F.Í. Var stefnuskráin gefin út í lítilli bók árið 1931 í 2000 eintökum sem voru prentuð í prentsmiðjunni Bergstaðasrtæti 19. Brynjólfur Bjarnason var formaður flokksins en Brynjólfur hefur ávallt verið talinn með fremstu heimspekingum landsins.
Það er vel við hæfi að kíkja í stefnuskrána sem að mörgu leiti á enn erindi við íslenska alþýðu sem nú 78 árum síðar þarf að takast á við kreppuna í okkar spillta kapítalíska þjóðfélagi. Kíkjum á boðskap flokksins frá 1930 og könnum hvað kann að eiga við í dag:
"Íslenzka borgarastéttin hefir komið á sérstakri verkaskiftingu í stjórnmálastarfsemi sinni. Hún beitir þessari aðferð með fullum stuðningi og samhjálp sósíaldemókrata, sem eru gegnsýrðir af pólitískri spillingu og hreinræktaðir borgarar." (bls. 17)
Minnir þetta ekki á gamla Alþýðuflokkinn, hækju íhaldsins, siglingu Jóns Baldvins og Davíðs út í Viðey (já það var nefnilega Jón Baldvin sem kom Davíð til valda) og svo hlutverki Samfylkingarinnar í dag sem heldur íhaldinu við völd og jafnframt Davíð Oddssyni í Seðlabankanum. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Stöðugt færist arðrán íslenzkra og erlendra auðmanna í vöxt," (bls. 38)
Bíðið nú við, er þetta að gerast 1930 eða er þetta það sem hefur verið að gerast árið 2008? - Ekkert breyst í 78 ár.
"Vinna verður ötullega að því, að stjórnir verkalýðssamtakann séu skipaðar sönnum verkamönnum og að allir auðmenn, atvinnurekendur og umboðsmenn þeirra séu útilokaðir frá verkalýðsfélögunum." (bls.41).
Einhvernveginn dettur mér formaður VR í hug þegar ég les þetta. Hálaunamaðurinn sem heldur að stéttarfélagið sé bara svo hann einn geti makað krókinn. Auðmannadaðrarinn sem ekki veit hvað orðin virðing og réttlæti þýða. - Ekkert breyst í 78 ár.
"...enda er það ekki hlutverk alþýðunnar, að viðhalda ríkisvaldi auðdrottnanna, heldur hitt, að ráða niðurlögum þess.........
.......Kommúnistar berjast gegn sköttum, eignaskatti, tekjuskatti og útsvörum á verkamenn og efnalitla bændur." (bls. 47-48)
Jú jú minnir á skattamál yfirvalda í nútímanum, ekki má leggja á almennilegan hátekjuskatt heldur skal fólk með lágar- og meðaltekjur borga og halda ríkinu gangandi. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Flokkurinn... berst gegn öllum skólagjöldum í skólum fyrir almenning..." (bls.49)
Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn sem vill skólagjöld er í menntamálaráðuneytinu (neitar skólagjöldum kannski opinberlega en við þekkjum öll úlfinn í sauðagærunni). - Ekkert breyst í 78 ár.
Kommúnistaflokkur Íslands var án efa með framsæknustu stefnu í trúmálum sem fram hefur komið í íslenskum stjórnmálum fyrr og síðar:
"Flokkurinn berst fyrir afnámi allrar trúarbragðafræðslu í skólum og aðskilnaði ríkis og kirkju. Í fræðslustarfi sínu leggur flokkurinn áherzlu á, að uppræta alla trúarhleypidóma úr hugum alþýðu og gera henni ljóst, að trúarbrögðin eru notuð í þjónustu ríkjandi stéttar." (bls. 50)
Sýnt hefur verið að þó öll fræðsla sé af hinu góða einnig trúarbragaðfræðsla þá hafa of margir skólar ekki skilið út að hvað fræðsla gengur og hafa verið alveg á fullu í hörku trúboði og innrætingu. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Flokkurinn safnar alþýðunni til baráttu gegn erlendu auðvaldi og erlendri yfirdrottnunarstefnu og innlendum erindrekum hennar." (bls. 50-51)
Vorum við ekki að fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og því verður ríkisstjórnin að vera eins og hlýðinn hvolpur sem þarf að sitja og standa eins og sjóðurinn vill. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Kommúnistar munu safna verkalýðnum um allt land...til baráttu fyrir hærri launum og betri kjörum undir kjörorðinu: Sömu laun fyrir sömu vinnu. Kommúnistaflokkurinn mun standa í broddi fylkingar í baráttu vinnandi kvenna....(bls. 60).
Enn er langt í land árið 2008 að jafnrétti náist í kjara-og launamálum kvenna og karla. - Ekkert breyst í 78 ár.
Það verður ekki annað sagt en að þetta er bara allrar athygli vert árið 2008.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.11.2008 | 14:55
Ótrúverðugur kjölturakki í fangi dómsmálaráðherra
Hann er undarlegt eintak í flóru mannlífsins þessi Stefán. Hér í eina tíð gekk hann borðum skrýddur upp að öxlum í nýpressuðum buxum um Laugarveginn að næturlagi og handtók og sektaði þá sem migu og skitu utan í ljósastaura og húsgafla. Það var flott hjá honum, þar var hann á réttri hillu. Svo nennti hann því ekki meir og fór í önnur verkefni. Það var að eltast við unglinga sem stela bónusfánum, rétt eins og hann væri öryggisvörður í matvöruverslun. Og þar er hann að fara illa að ráði sínu.
Í kjölfar uppákomunnar sem átti sér stað í gær kom umræddur Stefán fram á einstaklega ótrúverðugan hátt. Einhvernveginn held ég að maðurinn sem ég hef grunaðan um að vilja verða Pinochet Íslands sé að kippa í spotta á bakvið Stefán, því umræddur Stefán virkar svona á mig eins og ótrúverðugur kjölturakki í fangi dómsmálaráðherra sem mjög er farinn að óttast um sinn hag sem ráðherra í óvinsælli ríkisstjórn.
Tímasetningin á handtöku unga "Bónufánamannsins" var útpæld af dómsmálaráðherra og kjölturakkanum hans, hinum ótrúverðuga Stefáni til þess eins að ögra mótmælendum og sýna valdið. Ef Stefán þessi hefði eitthvert sjálfstæði í starfi og ég tala nú ekki um ef hann hefði einhverja þekkingu í siðfræði Aristótelesar þá hefði hann ekki handtekið unga manninn daginn fyrir fjölmenn mótmæli. í Siðfræði Aristótelesar er nefnilega lykilatriði að beita dómgreind sinni og hafa innsýn inn í aðstæðurnar. Ef Stefán hefði haft innsýn í aðstæðurnar hefði hann handtekið unga manninn á sunnudagsmorgni, degi þar sem allir sofa út og enginn mótmælir. Þá hefðu engin læti orðið. En þar sem farið er að bera á fasískum viðbrögðum hjá laganna vörðum þá varð að sjálfsögðu að skvetta sem mestri olíu á eldinn og handtaka manninn þegar vitað var að allt færi í bál og brand.
Þetta var alveg svakalega klaufalegt hjá Stefáni og félögum og stórt skref í þá átt að Stefán á eftir að missa tökin á mótmælendum ef hann heldur svona áfram. Best væri fyrir hann að snúa sér aftur að störfum í "þvagdeildinni" sem áður var getið, þar er hann flottur. Hann þarf að átta sig á sínu hlutverki, hann sem og aðrir lögregluþjónar eiga að vera þjónar fólksins en ekki kjölturakkar stjórnmálamanna sem eru á útleið.
JB
![]() |
Fráleitt ólögmæt handtaka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.11.2008 | 17:12
Hvernig væri að beina athyglinni að alvöru glæpamönnum?
Ég varð á sínum tíma vitni að Bónusfánaævintýrinu á Alþingishúsinu, þessum "skelfilega glæp" sem þar átti sér stað. Ég hef heyrt að verri glæpir hafi verið framdir í landinu og ég spyr yfirvöld löggæslumála hvernig væri að beina athyglinni að alvöru glæpamönnum í stað þess að eltast við góða húmorista?
JB
![]() |
Mótmæli við lögreglustöðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.11.2008 | 17:33
kynningarfundur vegna borgaralegrar fermingar
Eftirfarandi tilkynningu um kynningarfund vegna borgaralegrar fermingar má finna á vef Siðmenntar www.sidmennt.is
Kynningarfundur fyrir unglinga sem áhuga hafa á borgaralegri fermingu 2009 og aðstandendur þeirra verður haldinn Laugardaginn 15. nóvember 2008 kl. 11:00 - 12:00 í Háskólabíói sal 1.
Á kynningarfundinum verður næsta námskeið Siðmenntar til undirbúnings Borgaralegri fermingu kynnt, gerð grein fyrir einstökum efnisþáttum og umsjónarmönnum þeirra. Skráningarblöðum verður dreift og fólk velur hvaða námskeið hentar því best. Munið að koma með penna.
Ennfremur verður greint frá tilhögun væntanlegrar athafnar næsta vor og sýnt verður kynningarmyndband frá athöfnunum sem haldnar voru vorið 2008.
Það er þegar búið að manna nefnd foreldra og forráðamanna til að hafa umsjón með athöfninni.
Mikilvægt er að flestir mæti sem ætla að taka þátt í Borgaralegri fermingu 2009, a.m.k. þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Landsbyggðarfólk og aðrir sem komast ekki á kynningarfundinn eiga að hafa samband við Hope. hope@sidmennt.is
9.11.2008 | 11:42
Lögreglan er hættulegasta "púðurtunnan"
Ég var staddur á Austuvelli í gær og tók þátt í mótmælunum sem fóru bara vel fram þrátt fyrir einstaka óþekktarorma sem þó voru þegar öllu er á botninn hvolft frekar húmoristar en nokkuð annað. Ég fór að hugsa það eftirá að það sem varð til þess mótmælin fóru þetta vel fram var án efa vegna þess hversu lögreglumenn á vakt voru fáir. Einn mótmælendanna sem hafði húmorinn í lagi dró Bónusfánann að húni á Alþingishúsinu sem er afskaplega saklaust en það munaði ekki miklu að lögreglunni tækist að klúðra deginum fyrir 4000 manns með viðbrögðum sínum. Jú það varð að hlaupa á eftir honum, handtaka, refsa, sína valdið vera með læti hávaða og ofbeldi ef tækifæri gæfist. Þetta eru kolröng viðbrögð lögreglunnar við því sem er saklaust í þeim skilningi að ekki er um skemmdarverk að ræða né lífi og limum fólks stefnt í hættu.
Ég segi þetta vegna þess að í mörg ár kenndi ég unglingum sem áttu í hegðunar- og tilfinningavanda. Og drottinn mínn dýri (ef hann er til) uppákomurnar sem maður þurfti að takast á við voru oft ansi skrautlegar. En maður hefði líka geta klúðrað margoft skólastarfi ef maður hefði alltaf brugðist við eins og lögrelgan brást við fánamanninum í gær. Það sem reyndist okkur í skólanum best þegar erfiðar uppákomur áttu sér stað var að meta þau tilvik þar sem möguelgt var að hundsa hegðunina. Með því að hundsa óæskilega hegðun sem ekki er beinlínis skaðleg leysast málin mun fyrr og betur og allir verða bara nokkuð ánægðir með sig (nema kannski kennarinn sem lætur sem hann hafi ekki tekið eftir þessu). Ef lögreglan hefði nú bara hundsað fánamanninn þá hefði ekki komið til þessarar spennu sem fór af stað og hefði getað ollið miklum skaða og skemmdum.
Lögreglan hefði átt að hundsa hegðunina, starfsmaður þingsins tekur niður fánann og fánamaðurinn sjálfur fer niður og kannski í mesta lagi hefði lögreglan getað aðstoðað hann við að komast niður en þá bara undir því yfirskyni að halda að fánamaðurinn hafi verið iðnaðarmaður að störfum.
Semsagt áskorun til lögreglunnar: Ekki stefna fjölda fólks í hættu næsta laugardag með testósteroni og töffarastælum. Verið mjúkir menn, upp með húmorinn og hundsið það sem hvorki skaðar né eyðileggur.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)