Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Það bar helst til tíðinda úr pólitíkinni að þingmenn grenjuðu hátt í vikunni. Nú var grenjað yfir verkefnaskorti. Þingmenn sögðust ekki fá neitt að gera niðri á þingi. Í þessari sömu viku fengum við líka frétt af því að enn einn þingmaðurinn var að ráða til sín aðstoðarmann.
Það er því kannski ekkert skrítið að maður spyrji: Hversvegna eru alþingismenn með aðstoðarmenn ef ekkert er að gera hjá þeim?
JB
15.10.2008 | 22:04
Duo
Ég fór í kvöld og sá sýningu Íslenska dansflokksins Duo í Borgarleikhúsinu. Frábær sýning sem samanstendur af fjórum verkum þar sem tveir dansa í hverju verki. Þarna sá maður metnaðarfulla sýningu ólíkra verka þar sem dansararnir sýndu hreyfingar sem maður hreinlega vissi ekki að væru til. Þar að auki var þónokkuð af óvæntum uppákomum sem svo sannarlega juku á gæði sýningarinnar. Verkin fjögur eru eftir þau Gunnlaug Egilsson, Láru Stefánsdóttur, Peter Anderson og Sveinbjörgu Þórhallsdóttur. Mér finnst það samt miður að hvergi finn ég í kynningu Borgarleikhússins nöfn dansaranna sem áttu frábært kvöld (ég vona samt að nafnanna sé getið einhversstaðar, ég þarf kannski bara að athuga betur).
Kærar þakkir á Íslenski dansflokkurinn fyrir þetta.
JB
13.10.2008 | 22:01
Um fyrsta og eina skiptið sem ég hef reynt að múta....eða kannski fer maður að geta farið með gömlu rafmagnstækin í viðgerð
Ég tók þátt í 7 vikna verkfalli grunnskólakennara haustið 2004. Þetta var mjög athyglisverður tími og á vissan hátt afskaplega góður tími. Sumir sem tóku þátt í verkfallinu létu örvæntingu, angist, reiði, pirring og allsherjar svekkelsi ná tökum á sér á meðan aðrir voru ákveðnir í að nota þennan tíma til þess að endurmeta lífsgildi og viðhorf. Ég var einn af þeim sem ákvað að nýta tímann í stað þess að sofa fram yfir hádegi og vakna fúll og fara seint að sofa og sofna fúll og svekktur. Það hlaut að vera hægt að gera eitthvað uppbyggilegt í ástandi sem verkfall er.
Eitt af því sem ég gerði í verkfallinu var að fara niður í kjallara og hugsa, pæla, skoða og gramsa í gömlu dóti (sem kannski hefði mátt vera búið að henda) og leyfa því að gefa lífi mínu jákvæða merkingu. Eitt af því sem var í kjallaranum var plötuspilari og allgóður slatti af vínilplötum. "Því ekki að koma þessum græjum í gang fyrst ég hef tíma" hugsaði ég. Nálin var ónýt og ekki snérist plötuspilarinn. En hvað um það þarna var komið skemmtilegt verkefni. Það var ekki svo flókið að fá nýja nál, að vísu þurfti ég að kaupa aðeins meira en nálina en ég lét mig hafa það. Og þegar nálin var komin á sinn stað var að reyna að fá tækið til að snúast og þá fóru nú ævintýrin að gerast.
Ég fór inn á fyrsta raftækjaverkstæðið með plötuspilarann undir hendinni. Nei Nei við gerum ekki við svona þú verður að fara á hinn staðinn og ég fór á hinn staðinn og nei nei við gerum ekki við svona þú getur prófað á einhvern annan stað. Og áfram hélt sagan þar til á einu verkstæðinu var mér hreinlega sagt að það geri enginn við plötuspilara, það bara borgar sig ekki eins og maðurinn sagði. Hva, borgar það sig ekki sagði ég. Nei það borgar sig ekki. En ef mér tekst að spila allar gömlu plöturnar með Utangarðsmönnum, Þey, Baraflokknum osfrv ertu þá að halda því fram að það sé ekki eitthvað sem borgi sig? Nei vinur það borgar sig ekki að gera við gömul rafmagnstæki, þú bara kaupir þér nýtt. Já en svona plötuspilarar fást bara ekki hvar sem er. Þú bara kaupir þér geislaspilara. Já en ég vil hlusta á vínilinn, ég get ekki farið að kaupa allt upp á nýtt á cd og þar fyrir utan hefur ekki allt verið gefið út á diskum. Já en samt þetta bara borgar sig ekki sagði rafmagnstækjamaðurinn.
En þá datt mér snjallræði í hug. Best að reyna að múta honum. Fyrsta og eina skiptið á ævinni sem ég hef reynt að múta einhverjum og takið eftir að ég var í verkfalli. Ég sagði við hann nefndu einhverja upphæð fyrir að gera við plötuspilarann og ég skal borga þér hvað sem það kostaði. Nei nei viðskiptavitið var akkúrat ekkert. Því miður við bara gerum ekki við svona tæki. ok þú um það bless.
Ég var nú ekki alveg að baki dottinn og mér tókst að fá fjölskyldumeðlim til að kíkja á spilarann og viti menn hann komst í lag á eldhúsborðinu hér heima á Tunguveginum. Og það sem meira er að hann er í þónokkurri notkun og var hann bara notaður síðast núna á laugardaginn þegar við spiluðu Leonard Cohen á vínil og líka Stevie Ray Vaughan.
Þannig vorum við íslendingar á þeim tíma niðursokkin í samfélagi sóunar og neysluhyggju. Nú er sá tími í samfélaginu að við ættum að koma okkur upp úr neysluhyggju og sóun og vonandi mun "kreppan" verða til þess að við getum farið að láta gera við gömlu rafmagnstækin. Það fer betur með auðlindir og umhverfi og svo sparar það líka innflutninginn.
Og að lokum. Er einhver þarna úti sem á gamalt vasadiskó sem ég gæti fengið fyrir ekkert. Ég á nefnilega örfáar snældur sem ég væri alveg til í að hlusta á (ein er meira að segja frá Norður Kóreu).
JB
JB
12.10.2008 | 19:10
Ég er svo glaður yfir að hafa lagt mitt af mörkum til að styrkja Glitni (aðeins meiri upprifjun)
Haustið 2007 þegar bankapartíið stóð sem hæst og Glitnir átti Reykjavíkurmaraþonið þá bauð bankinn hlaupurunum það að velja sér eitthvað góðgerðarfélag sem bankinn myndi síðan styrkja fjárhagslega. Ég er ekki flinkur í efnahagsmálum en þá strax sá ég að ekki var allt með felldu í bankanum svo ég ákvað að láta bankann ekki greiða mín vegna í eitthvað góðgerðarfélag heldur bara greiða sjálfum sér. Ég semsagt studdi Glitni í Reykjavíkurmaraþoninu. Sumum fannst þetta vera rugluð ákvörðun en nú í dag hefur það komið í ljós að hún var rétt. Glitnir þurfti á öllum mínum stuðningi að halda og reyndar miklu meira en það. En til að halda áfram með upprifjunina um afstöðu mína til bankapartísins skulum við kíkja á færsluna sem skrifuð var í lok ágúst 2007. Fyrirsögn hennar var: "Ég hleyp til góðs í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Ég styrki Glitni með stolti."
Og svona skrifaði ég um bankann "góða":
Ég hef ákveðið að hlaupa hálft maraþon á í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Í fyrra hljóp ég 10 km og nú er komið að því að bæta aðeins við vegalengdina.
Þegar ég frétti að mögulegt væri að hlaupa til styrktar einhverjum góðum aðilum þá var það aldrei spurning í mínum huga að velja ekkert góðgerðarfélag af listanum sem var í boði heldur styrkja bara Glitni sjálfan. Ég styrki því Glitni með því að Glitnir þarf ekki að borga neitt fyrir mitt hlaup heldur getur átt peninginn sjálfur.
Ástæðan er einföld. Glitnir sem og aðrir bankar landsins eru bara alls ekkert of feitir og þurfa svo sannarlega á stuðningi að halda. Það er nú ekki tekið út með sældinni að vera banki á Íslandi. Bankarnir hafa nú ekki getað borgað stjórnendum sínum neitt sérstök laun, bankarnir hafa gengið alltof langt í að viðhafa lág þjónustugjöld, bankarnir rukka sama sem engann fit kostnað (mig minnir að það heiti fit kostnaður ef maður fer óvart eða vísvitandi umfram á tékkareikningnum), lágir sem engir vextir eru ef maður fær lán í banka, bankarnir fara mjög sparlega með fjármuni þegar auglýsingakostnaður er annarsvegar og síðast en ekki síst hafa bankarnir þurft að leggja til heilmikið fjármagn til að berjast gegnt innrás græðgisvæðingarinnar í landið.
Svona mætti eflaust lengi telja upp ástæðu þess að íslenskir bankar eru æðislegir og fara rosalega vel með peninga og eru ekkert að græða of mikið. Þeir gera svo margt geggjað fyrir viðskiptavini sína. Það dapurlega í bankamálunum er hversu margir ljótir anarkistar reyna sí og æ að sverta þessar frábæru stofnanir. Eitt dæmi heryði ég um mann sem kom í útvarpið og sagist hafa þurft að borga 2700 kr fyrir að láta bankann sinn telja peninga barns nokkur úr sparibauk. Ég segi bara "kommon" þú þarna anarkisti, bankarnir eru nú ekkert svo feitir að þeir geti verið að telja upp úr einhverjum baukum ókeypis.
Svo hafa anarkistarnir líka haldið því fram á límmiðum hér og þar um bæinn að bönkunum sé alveg sama um mann. Ég meina "kommon" þið þarna ljótu anarkistar og bankahatarar. Ég get nú bara sagt ykkur hvað bankinn minn er æðislegur. Um síðustu jól sendi bankinn minn mér bréf og sagði mér að hafa ekki áhyggjur af jólaneyslunni minni því ég gæti bara fengið að borga þá neyslu niður á þremur árum. Mér finnst það æðislegt og borga einhverja smá vexti í slíkum tilvikum með glöðu geði.
Svo eru einhverir aðrir anarkistar (eða kommúnistar ég rugla þeim alltaf saman) sem eru fúlir og öfundsjúkir bara af því að bankarnir vilja ekki bæta kjör viðskiptavina sinna heldur frekar halda tónleika, hlaup og stórar veislur með Elton John og fleirum flottum gæjum hér heima og í útlöndum. En ég segi bara þessu ljóta fólki að hætta að vera svona hallærislegt því við viðskiptavinir bankanna fáum æðisleg kjör og geggjaða þjónustu og ég meinaða veit þetta fólk ekki hvað það er "kúl" að hlusta á Elton John.
Það er því ekki af ástæðulausu sem ég hleyp 21 km með bros á vör til styrktar Glitni hinum frábæra. Ég segi bara lengi lifi Glitnir og allir hinir frábæru bankarnir á Íslandi húrra húrra húrra.
Svo er bara að vona að ég komist í mark "
Þannig var nú sú færsla
JB
7.10.2008 | 20:33
Verða íslensk menntayfirvöld að hlíta mannréttindadómstólnum?
Fimmtudaginn 9. október kl. 16:00 heldur Siðmennt opinn fund um dóm Mannréttindadómstólsins í Strassborg frá 29. júní 2007. Hann verður haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins og mun Lorentz Stavrum hæstaréttarlögmaður rekja sögu hans en málið tapaðist fyrir öllum dómstigum Noregs þ.m.t. hæstarétti en fékk meðbyr hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og eftir 12 ára baráttu fyrir dómstólum fékkst jákvæð niðurstaða hjá Mannréttindadómstólnum. Stavrum mun m.a lýsa hvaða áhrif dómurinn hafði á lög og námsskrá í kristnum fræðum í Noregi. Eftir erindi sitt mun hann svara fyrirspurnum. Erindi hans verður á ensku.
Vegna sambærilegrar stöðu á Íslandi og Noregi varðandi lög um grunnskóla og námsskrá í kristinfræðum er spurning hvort yfirvöld menntamála á Íslandi verði að taka tillit til dómsins og breyta námsskrá og þ.a.l. námsefni. Spurt er hvort Íslendingar þurfi að taka tillit til dómsins eða ekki? Menntamálaráðherra hefur, í samtali við stjórnamenn Siðmenntar, lýst yfir að engar breytingar verði gerðar - þrátt fyrir dóminn. Stjórn Siðmenntar hefur ítrekað bent yfirvöldum á að hlíta beri dómnum.
Forsaga málsins
Foreldrar nokkurra barna í Noregi ákváðu að lögsækja Norsk menntafyrirvöld vegna kristinfræðikennslu í almennum skólum. Foreldrarnir, sem eru húmanistar, töldu stjórnvöld brjóta á mannréttindum sínum og þó sérstaklega á rétti þeirra að ala börn sín í þeirri lífsskoðun sem þau aðhylltust. Forsögu málsins má rekja til laga um grunnskóla sem kvað sterklega á um kristni en ekki síður með vísun í námsskrár í kristinfræðum. Foreldrarnir gagnrýndu ofur áherslu á kristni og töldu það stangast á við lífsskoðanir sínar og að það væri ekki hlutverk ríkisvaldsins að ala börn þeirra upp í annarri lífsskoðun. Eftir dóminn ákváðu norsk menntayfirvöld að breyta kristinfræði kennslu og innihaldi hennar með meiri áherslu á trúarbragðafræði, siðfræði og kennslu um aðrar lífsskoðanir.
LORENTZ STAVRUM
Fæddur 1949 og er hæstaréttardómari og rekur eigin lögfræðistofu með áherslu á mannréttindi. Hann er dósent í alþjóðalögum við Háskólann í Lillehammer. Hann var áður lagalegur ráðgjafi dómara og lögmanna í Afganistan og hefur nokkrum sinnum verði valin í kosningaeftirlitsnefndir á vegum Evrópusambandsins og Öryggisnefndar Evrópu (ÖSE). Hann var forseti Human-Etisk Forbund, samtaka húmanista í Noregi, félagi í Alþjóðanefnd um viðbrögð við áföllum á vegum Norska dómsmálaráðuneytisins og félagi í Alþjóðlegri nefnd um lögfræðiaðstoð á vegum Norsku lögmannasamtakanna.
Nánari upplýsingar veitir Bjarni Jónsson í síma 896 8101 eða í netfanginu bja@lausnir.net
4.10.2008 | 20:37
Aðalhagfræðingurinn Guð er kominn í málið
Í dag hafa borist fregnir af því að fullt var út úr dyrum í nýrri verslunarmiðstöð á Korputorgi. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en sagan segir að fólk hafi aðallega verið á höttunum eftir hnéhlífum sem þykja ómissandi í "kreppunni". Ástæðan fyrir þessari auknu ásókn í hnéhlífar er sú að nú er aðeins einn hagfræðingur eftir sem getur bjargað okkur og sá heitir hvorki meira né minna en guð. Já guð sjálfur er kominn í málið. En til hvers hnéhlífar í þessu samhengi. Það eina sem á eftir að gera og er hægt að gera í efnahagasmálunum er að leggjast á hnéin og biðja daginn út og daginn inn og þar reynast hnéhlífar vel.
En Gunnar nokkur áhugamaður um hagfræðinginn guð segir í Fréttablaðinu í dag að í núverandi efnahagsástandi leggi hann allt sitt traust á guð og svo leggst hann á bæn með fullt af öðru fólki sem biður til guðs um að efnahagsmálin verði öðruvísi en þau eru (sjá bls.54)
Ja hérna hvað skyldi "kreppan" koma með næst?
JB
3.10.2008 | 22:04
"Illa vinstrigrænt" heimilishald virkar best í "kreppunni"
Það er mikið talað um kreppu þessa dagana. Fréttatímarnir eru fullir að sorgmæddum peningamönnum sem hafa rænt almenning hvað eftir annað og skilja ekkert hvað af peningunum hefur orðið. Ef til vill á ég eftir að finna fyrir einhverrri kreppu en ég hef ekki fundið neitt ennþá. Rafmagnið var á húsinu þegar ég vaknaði í morgun, það kom bæði heitt vatn og kalt úr krananum, það var matur í kæliskápnum, korn fyrir kisa og haframjölið var á sínum stað og ekki var nú kalt undir sænginni. Svo var keðjan enn á hjólinu þegar ég hjólaði af stað. Hvar er þá þessi kreppa? Aha kreppan er ekki alveg kominn til mín vegna þess góðir íslendingar að ég bý við "illavinstrigrænt" heimilishald og hef gert lengi, burtséð frá öllu efnahagsástandi.
Síðasta vetur kom orðalagið "illavinstrigrænt" og persónulýsingin að vera "illa vinstrigrænn" fram og þótti alveg svakalega hallærislegt að vera svona "illa vinstrigrænn" eins og ég og mín fjölskylda er. Allir voru að græða svo ógeðslega mikið og allir voru svo mikill "mannauður" og óku á svo dýrum blikkbeljum og bjuggu í svo stórum steypuklumpum og reyndu sem mest að svíkja og ræna almenning að það að vera "illa vinstri grænn" þótti bara ömurlegt. En nú er bara að koma í ljós að það að vera svona "illa vinstrigrænn" er að koma sér alveg einstaklega vel núna á þessum samdráttartímum. En hvernig þá? Hver er galdurinn á bakvið það að vera "illa vinstrigrænn"? Kíkjum á nokkur lykilatriði sem ég hef að leiðarljósi í mínu "illa vinstri græna" heimilishaldi hvort sem það er góðæri eða kreppa:
* Sama hversu góðærið er mikið, ekki fríka út. Hugsaðu að margur verður af aurum api og að peningar gera mann ekki hamingjusamann. Reyndu að gleyma því sem oftast að þú eigir einhvern auka aur.
* Keyptu aldrei hlutabréf í öðrum fyrirtækjum en þeim sem þú vilt styrkja af góðmennsku þinni. Ekki kaupa með gróðavon í huga. Sjálfur á ég lítinn hlut í fyrirtæki sem heitir Friðarhús og ætlast ég ekki til þess að sá hlutur haldi í mér lífinu.
* Ef þú eignast auka aur þá skaltu bara geyma hann á bankabók, ef þú átt einhvern smá slatta af aurum inni á banka þá mega vextirnir vera eins háir og hægt er og eins lengi og mögulegt er.
* Taktu helst aldrei lán. Safnaðu fyrir því sem þú ætlar að kaupa þér og ef þú nærð ekki að safna þá er málið einfalt, ekki kaupa hlutinn. Og alls ekki taka lán fyrir rugli eins og bifreið. Maður kemst væntanlega ekki hjá því að taka lán fyrir húsnæði en þá verður svo að vera, en ekki byrja á því að henda öllu út úr íbúðinni áður en þú flytur inn. Borgaðu eins mikið í henni og hægt er og málaðu og leggðu gólfefni einhvern tíman seinna. Það gerðum við í "illa vinstrigrænu" fjölskyldunni.
* Ekki búa í of stóru húsnæði. Hugsaðu um öll þrifin í stórum steinsteypu kassa og svo á maður eftir að deyja frá steypunni einhvern daginn fyrir utan hvað mikil steypa er dýr. Láttu ekki marmarasnobb bera þig ofurliði.
* Ekki fleiri bíla en einn á fjölskyldu. Og þó að það sé til bíll er engin skylda að nota hann daglega. Það gleður mig mjög þegar ég átta mig á að suma daga hreyfist bíllinn ekki neitt. Þá hefur reiðhjólið verið notað nú eða strætó. Á sama tíma og það gerist er verið að vinna gott starf fyri umhverfið.
* Aldrei að treysta stórum einkareknum fyrirtækjum, einkum bönkum, fjarskiptafyrirtækjum og tryggingafélögum. Þegar þessi fyrirtæki hringja og eru að bjóða manni gull og græna skóga á maður alltaf að hugsa um ævintýrið um úlfinn og kiðlingana sjö og biðja liðið vel að lifa. Þessi fyrirtæki eins og t.d. bankarnir og ekki síst svikamyllan O Vodafone vilja bara hafa af ykkur fé. Látum ekki blekkjast.
* Flokkaðu heimilissorp og láttu allt lífrænt í moltutunnu sem þú skalt síðan nota í matjurtargarð. Ég er nýbúinn að taka upp ljúfengar kartöflur og það var ekkert "kreppubragð" af þeim.
* Farðu frekar sparlega með rafmagn. Þetta lærði ég þegar ég bjó í Belgíu en ég komst að því að það skiptir líka máli á Íslandi að hafa ekki kveikt ljós að óþörfu.
* Það er algjör óþarfi og allt of dýrt að vera með Stöð 2. Ef maður vill sjá fínt myndefni er alveg eins gott að leiga sér mynd eða fá hana lánaða á næsta bókasafni að kostnaðarlausu.
* En eitt að lokum. Ef þig langar í gluggatjöld eða flatskjá og átt pening til að borga út í hönd þá skaltu fá þér slíkt, en aðeins ef þig langar en þú skalt ekki fá þér slíkt bara til að vera í samkeppni við nágrannan. Samkeppnin við nágrannana þegar efnisleg gæði eru annars vegar er eitt af því versta sem nokkur "illa vinstri græn" manneskja getur hugsað sér.
* Og svo eitt enn að lokum: Hugsaðu einstaka sinnum um fátæku börnin í Afríku, eða í Indlandi eða Brasilíu eða Mongólíu. Í ljósi þeirra verður kreppan hér á landi harla léleg og einhvernveginn getur maður ekki vorkennt peningamönnunum súru, nú nema kannski helst Bjarna Ármanns fyrir að vera svona ægilega blindur í verðmætamati sínu. Hann hlýtur að vera mjög óhamingjusamur.
Ég vona að þessir örfáu punktar hjálpi einhverjum í "kreppunni" . Við þurfum nefnilega að hafa í huga að allt er þetta pólitík. Pólitíkin er ekki bara það sem stjórnmálamenn gera og segja heldur getum við lifað okkar pólitíska lífi inni á eigin heimilum og því er vel hægt að halda "illa vinstri grænt" heimili.
Góða helgi, ég er sannfærður um að það verður frábær helgi framundan jafnvel þó það verði bensínskortur og ekki til amerískt Kókapuffs í Bónus. (það er þó í það minnsta enn fiskur í sjónum ekki satt).
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.9.2008 | 16:29
Frelsi og fallegar byggingar
Síðastliðin níu ár hefur Félag múslima á Íslandi beðið eftir því að borgaryfirvöld afgreiði umsókn um byggingarlóð vegna mosku og menningarmiðstöðvar. Á sama tíma hafa umsóknir allra annarra trúfélaga verið afgreiddar. Ekkert bólar á svari frá borgaryfirvöldum og hafa eftirlitsnefndir Evrópuráðsins gegn kynþáttamisrétti og bandaríska utanríkisráðuneytisins lýst áhyggjum sínum vegna málsins. Í ársskýrslu stjórnardeildar lýðræðis-, mannréttinda- og atvinnumála sem gerð var fyrir utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna er því haldið fram að fordómar gagnvart múslimum valdi því hversu langan tíma borgaryfirvöld hafa verið að afgreiða málið.
Ef það er rétt að umræddur seinagangur stafi af fordómum í garð múslima eins og segir í áðurnefndri skýrslu er það mjög alvarlegt mál og skýlaust brot á mannréttindastefnu Reykjavíkur sem samþykkt var árið 2006. Í þeirri stefnu segir að óheimilt sé að mismuna fólki vegna trúar- eða stjórnmálaskoðana og jafnframt segir að Reykjavíkurborg skuli sýna trú og skoðunum fólks virðingu og umburðarlyndi.
Fordómar í garð múslima sérstaklega byggjast á þekkingarleysi og skorti á umburðarlyndi. Sagan sýnir að innan allra trúarbragða geta ofstækishópar þrifist og vísasta leiðin til að næra þá er illa dulin andúð yfirvalda.
Borgaryfirvöldum ber að afgreiða umsóknin um lóðina sem fyrst og ef málið telst á einhvern hátt erfitt eins og haft er eftir umhverfisstjóra skipulags- og bygingarsviðs ber borgaryfirvöldum að funda með Félagi múslima og leita lausna.
Reykjavík tekur örum breytingum og fjölmenningarsamféalgið er komið til að vera. Með fjölmenningunni koma trúarlegar byggingar sem undantekningarlaust eru til prýði. Til viðbótar við kirkjubyggingar kristinna safnaða sjáum við brátt rísa hof ásatráurmanna, búddista, og glæsilega byggingu réttrúnaðarsafnaðarins og vonandi bætist í þessa flóru falleg moska á góðum stað í borginni.
Öll leggjum við mikið upp úr því að njóta frelsis í frjálsu landi. Það þýðir að við tryggjum trúfrelsi og skoðanafrelsi í reynd og virðum lýðræðislegar óskir svo fremi þær skaði ekki annað fólk. Vinnubrögð borgaryfirvalda í þessu máli virðast ekki vera í þeim anda.
Greinin birtist í 24 stundum í dag 30. september.
Jóhann Björnsson og Þorleifur Gunnlaugsson
27.9.2008 | 10:55
Þarf nokkuð að prófa nemendurna?
Ég var í gær á mjög glæsilegri ráðstefnu um menntamál í íþróttahöllinni á Akureyri. Alls voru þátttakendur um 850 talsins og var fjöldi frábærra fyrirlestra og málstofa í gangi. Það var mjög ánægjulet að fá að halda eina málstofu þar sem umræðurnar urðu mjög góðar en málstofuna kallaði ég: "Þarf nokkuð að prófa nemendurna?" Það sem ég ræddi m.a. voru eftirfarandi atriði:
* Til hvers er prófað?
* Hverjar eru megináskoranir þeirra kennara sem prófa ekki eða halda prófum í lágmarki og gefa jafnvel ekki einkunnir?
* Verða nemendur latir, aga- og áhugalausir ef þeir fá ekki einkunnir?
* Hafa próf áhrif á hamingju nemenda, sjálfsmynd og tilgang lífsins?
Umræður voru mjög góðar enda málstofan vel sótt. Einn þátttakandi koma með mjög athgylisverða athugasemd þar sem hann sagði eitthvað á þessa leið: "Blóm sprettur ekkert betur þó alltaf sé verið að mæla það."
Ég bað þátttakendur einnig að hugleiða eftirfarandi og taka þessa pælingu með sér heim:
Nemendur og kennarar mæta til starfa að hausti. Þetta skólaár er alveg eins og öll önnur nema að einu leyti og það er að allir vita að þetta er síðasti veturinn sem nemendur og kennarar eiga eftir að lifa. Mynduð þið haga skólastarfi öðruvísi en vanalega vitandi þeta? Breytir þetta einhverju varðandi skólastarfið og ef svo er hverju? Nálgumst við viðfangsefni daglegs lífs öðruvísi ef við erum meðvituð um að við munum á endanum deyja frá þessu öllu saman.
JB
25.9.2008 | 08:44
Páll Óskar sýnir kung fu
Ekki verður annað sagt en að Páll Óskar sé núþegar búinn að bjarga deginum. Ég las það í Fréttablaðinu í morgun að hann ætlar að bjóða upp á alvöru kung fu kvikmyndaveislu í Bæjarbíói 2. október kl. 21.00.
Allt frá því ég laumaði mér sem barn inn í Félagsbíó í Keflavík á rosa kínverska kung fu mynd bannaða börnum þar sem mannskapurinn krækti með berum höndum í augu og ýmis líffæri auk þess að sparka harkalega í punga hef ég bara ekki verið samur maður. Kung fu dellan heltók mig og hefur ekki sleppt mér síðan. Ég hef að vísu farið ansi hljótt með þessa dellu og horft á kung fu myndirnar í laumi þar sem fólk í kringum mig hefur ítrekað sagt mér hversu ógeðslega hallærislegar þessar myndir eru. Og ég hélt að ég væri eini kung fu myndadellugæinn í landinu. Þangað til Palli boðar til kvikmyndasýningarinnar góðu.
Frábært framtak.
JB