Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
31.5.2008 | 11:35
Hvar er flokksaginn félagar? Um ályktun ungra vinnstri grænna
Ég vek athygli á góðri ályktun sem ung vinstri græn sendu frá sér nýlega. Það er jú til lítils fyrir flokkinn að halda fína landsfundi og senda frá sér samþykktir ef stjórnmálamennirnir fara síðan ekki eftir þeim. Hvar er flokksaginn félagar?
"Hafa skal stefnu flokksins í huga
Ung vinstri græn lýsa yfir óánægju með framgöngu þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þegar frumvörp um heildarlög grunnskóla og leikskóla voru afgreidd í annarri umræðu á Alþingi á mánudag. Þegar greidd voru atkvæði um tillögu sem fól í sér að ákvæði um að starfshættir grunnskóla og leikskóla skuli mótaðir af kristinni arfleifð íslenskrar menningar yrði bætt við markmið laganna greiddu fimm þingmenn atkvæði með því að ákvæðið færi inn í grunnskólalögin og sex að það færi inn í leikskólalögin. Hinir þrír þingmenn flokksins sem voru viðstaddir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Ung vinstri græn telja að þarmeð hafi þingmennirnir gengið gegn landsfundarályktun flokksins um trúfrelsi frá árinu 2007. Í henni segir meðal annars: Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, haldinn að Grand Hótel 23-25. febrúar, ályktar að fullt trúfrelsi og jöfn staða trúar- og lífsskoðunarfélaga sé grundvallaratriði. Öll löggjöf og stjórnsýsla þarf að miðast við það. Landsfundurinn telur mikilvægt að í skólum sé gætt fyllsta hlutleysis gagnvart trúarbrögðum og afstöðu til trúar.
Ung vinstri græn telja að ákvæðið um kristna arfleið íslenskrar menningar þjóni þeim eina tilgangi að réttlæta og auka afskipti eins trúfélags, Þjóðkirkjunnar, af skólastarfi og að það sé aðför að hlutlausu starfi grunnskólanna. Ung vinstri græn vilja minna þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að flokkurinn kennir sig við jafnrétti. Það er því skylda þeirra að vinna störf sín með hliðsjón af jafnréttisstefnu í öllum málaflokkum, þar með í trúmálum, og stuðla með verkum sínum að börn í grunnskólum fái faglega og hlutlausa kennslu í öllum greinum óháð trú.
Ung vinstri græn skora í þingmenn Vinstrihrefyingarinnar - græns framboðs að fylgja stefnu flokksins þegar lagagfrumvarpið kemur til þriðju umræðu á Alþingi.
- - -
Árétting
Stjórn Ungra vinstri grænna vill að gefnu tilefni árétta að hún er í meginatriðum ánægð með störf þingflokks Vinstri grænna. Það er fyrst og fremst í þessu afmarkaða máli þar sem Ung vinstri græn eru óánægð með framgöngu þingmanna Vinstri grænna"
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.5.2008 | 10:40
Þarna fóru vörubílstjórar yfir strikið
Ég vona svo innilega að fréttin sem ég las í Fréttablaðinu í gær sé ekki rétt. Fréttin er svohljóðandi:
"Mótmælendur, sem kenndir eru við atvinnubílstjóra, gerðu hróp að þingheimi í gær á meðan rætt var um hörmungar jarðskjálftanna í Kína. Var kallað að þingmönnum að þeir ættu að hugsa um hag Íslendinga áður en þeir fjölluðu um fólk í útlöndum." (bls. 2)
Kínverjar hafa óskað eftir allri þeirri aðstoð sem möguleg er, en umræddir mótmælendur óska sér þess heitast í lífinu að íslenskir stjórnmálamenn leggi umheiminn til hliðar og kannski vilja þeir að ríkisstjórnin hringi í forystumenn Kína og segi þeim frá því að þeir hafi öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa hér heima heldur en að skipta sér að einvherju "smáproblemi" þar austurfrá. Við þurfum nefnilega að lækka bensínið sem er miklu meira mál og brýnna heldur en það sem Kínverjarnir eru að takst á við, en það er "bara" þetta:
Tæplega fimm milljónir misstu heimili sín, 50.000 manns látnir, fjöldi fólks missti sitt eina barn (en eins og flestir vita hefur sú stefna verið ríkjandi í Kína að fólk eignast aðeins eitt barn). Mörg þúsund skólar eru ónýtir auk annarra mannvirkja.
Hvað á maður að halda um lífsviðhorf umræddra mótmælenda? Er sjónarmið þeirra það viðhorf sem við viljum senda umheiminum? Höfum við Íslendingar alveg misst þann hæfileika að setja okkur í spor annarra? Svari nú hver fyrir sig.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.5.2008 | 15:43
Kreppan ógurlega er á Akranesi
Óskað hefur verið eftir því að Akraneskaupstaður taki við allt að 30 manna hópi palestínskra flóttamanna, einstæðum mæðrum og börnum þeirra. Konur þessar búa í flóttamannabúðum í Írak við eftirfarandi aðstæður skv upplýsingum frá yfirvöldum:
Fólkið býr í tjöldum þar sem hitastigið getur sveiflast frá frosti upp í 50 gráðu hita. Aðbúnaður er allur mjög slæmur þar sem fólki stafar ógn af snákum og rottum. Læknisþjónustu er aðeins hægt að fá í 400km fjarlægð frá búðunum og enginn sjúkrabíll er til þess að flytja fólkið. Þar að auki stafar mikil hætta af því að eldur brjótist út í búðunum og börnum stafar mikil hætta af stöðugri umferð flutningabíla.
En það er alveg borin von að hægt sé að taka við fólkinu að mati Magnúsar nokkurs Þórs vegna þess að ástandið á Akranesi er svo slæmt. Hann er svartsýnn á að skólinn geti tekið við börnunum, sjúkrahúsið er líklega ekki í stakk búið að taka við flóttamönnum (þó ekki sé ætlast til þess að þeir setjist að í sjúkrahúsinu), atvinnuleysið er komið og kreppan er farin að bíta. Þar fyrir utan er ekki möguleiki á því að finna nokkurn einasta mann sem kann að tala við svona fólk (þrátt fyrir þokkalegt menntunarstig þjóðarinnar). Þannig að ástandið er að komast á það stig á Akranesi að við hér í Reykjavík þyrftum að fara að skipuleggja neyðarsöfnun fljótlega.
Svo kom Heimir nokkur Karlsson útvarpsmaður með þann stórmerkilega punkt inn í umræðuna í morgun sem stjórnvöld þurfa án efa að taka mið af, en hann sagði að við íslendingar værum skuldsettasta þjóð í heimi. Já við íslendingar ættum að huga að því hvað við eigum það bágt þegar við setjumst upp í Landkrúserana okkar. Skuldugt fólk hlýtur því að vera mjög fátækt fólk ekki satt? Og fátækt fólk getur ómögulega hjálpað öðrum, ekki satt? Skarpur Heimir!
Jú ætli það sé þá ekki bara best að konurnar verði áfram með börnin sín í tjöldunum sínum í flóttamannabúðunum af því að við íslendingar erum svo ægilega fátæk. Þær munu hvort sem er eflaust hafa það miklu betra þar heldur en í kreppunni uppi á skaga.
En við erum samt kristin þjóð ekki satt? Jú jú við höfum tileinkað okkur kristilegan kærleika, en við getum bara ekki sýnt hann í verki af því að við erum svo ægilega fátæk. Við kannski gerum það ef við verðum rík, en það verður ekki nærri því strax af því að kreppan er komin.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.5.2008 | 13:31
Læðurnar rífast og fressið malar úti í horni og segir I love it
Þegar maður fiktar í sjónvarpsfjarstýringunni i einhverju tilgangsleysi þá bregður stundum fyrir sjónvarpsstöð sem heitir ÍNN. Ég hef ekkert spáð mikið í þessa stöð en veit þó að henni svipar mikið við fyrstu sín til sjónvarpsstöðvar sem heitir Omega. Það er eitthvað sem hefur með umgjörðina að gera sem minnir mig á Ómega. Sjónvarpsstjórinn á ÍNN kemur líka dálítið fyrir sem trúboði, hann hefur höndlað einhvern sannleika og þrumar honum illa undirbúinn í loftið í beinni af miklum sannfæringarkrafti og stundum ofsa.
Þessi sjónvarpssöð var í fréttum núna nýverið þar sem sagt var frá ýmsu athyglisverðu sem þar er að gerast innandyra (kannski ekki ósvipað og gerist innan veggja sérstakra lítilla trúarsafnaða). Það var talað um tvo þáttastjórnendur (sem stýra sama þættinum) sem læður sem rífast og tala um píkurnar á sér og sjónvarpsstjórinn var hinn kátasti og hagaði sér eins og barn á skólalóð þegar slagur brýst út: "slagur slagur slagur" hrópa börnin á skólalóðinni en sjónvarpsstjórinn hrópaði hinsvegar þetta þegar slagur kvennanna tveggja braust út: "Þær rífast svakalega I love it"... og "Já já þær ræða um píkuna á sér og mikið." Og greinilegt að sjónarpsstjórinn sem í greininni er kallaður fress var í essinu sínu, hafði fundið hamingjuna og tilgang lífsins líka (sem er nú ekki lítið). (Frbl.10.05.08)
Þetta hlýtur að vera býsna geggjað sjónvarpsefni þar sem eitt meginmarkmiðið virðist vera rifrildi rifrildissins vegna. Alla vega var málunum þannig stillt upp þegar þátturinn hóf göngu sína en þá var viðtal við einn af þáttastjórnendunum sem sagði svo um þáttinn að hann ætti að vera rifrildisþáttur. Gefum einum þáttastjórnandanum orðið:
"Það verður heldur ekki staðnað viðtalsform á þessu. Þetta verða bara konur sem hafa skoðanir og þora að segja þær upphátt. Við ætlum að vera mjög opinskáar og hispurslausar í öllu sem við fjöllum um, og þetta verður vonandi líkara rifrildi en samræðum."(Fréttablaðið 18.01.2008)
Þar sem rifrildisviljinn er mjög einbeittur er ekki að undra að soðið hafi upp úr þannig að karlremubfressið sem elskar "bitsfæt" hafi þurfta að miðla málum á sama tíma og hann elskaði slaginn.
Fréttir af rifrildi í beinni og ósætti á fjölmiðlum er frekar súrt fréttaefni og lyftir fjölmiðlunum sem greina frá slíku ekki upp á neitt sérstakt plan. En þetta er svona dæmigert fyrir fólk sem ekki kann að skiptast á skoðunum, getur ekki verið ósammála án þess að keyra ágreininginn í rifrildi og hin verstu leiðindi sem engu skilar nema púkum eins og sjónvarpsstjóranum sem skemmtir sér yfir bullinu. Þarna skortir greinilega inn í þáttinn listina að rökræða ágreining þar sem reynt er að komast að skynsamlegri niðurstöðu í stað þess að yfirbuga andmælandann í öskrum og leiðindum. Það er virðingarvert að halda úti þætti þar sem ágreiningsmál eru rökrædd og mjög þarft mál en að sama skapi afskaplega ómerkilegt ef rifrildið á að vera aðalmálið.
Ég hef lengi kennt unglingum lífsleikni og lagt á það sérstaka áherslu að mikilvægt sé að rökræða í stað þess að rífast. Með rökræðunum er gert ráð fyrir og þykir sjálfsagt að fólk hafi ólíkar skoðanir en geti rætt þær í góðsemi án þess að það þurfi að stofna til rifrildis þar sem einn þarf endilega að standa upp úr sem sigurvegari. Ég nefni þetta hér vegna þess að þetta er með því mikilvægara sem nokkur lífsleiknikennari getur óskað sér að nemendurnir tileinki sér. Hið undarlega er þó að einn af þáttastjórnendunum í þættinum umrædda sem á að vera "líkara rifrildi" en nokkuð annað er aðjúnt í lífsleikni við Kennaraháskóla Íslands. Ekki veit ég hvernig lífsleikniáherslurnar eru í Kennaraháskólanum en allavega ef þær einkennast af mikilvægi rifrildisins rifrildisins vegna þá eru þær mjög ólíkar áherslum þeim sem við höfum í Réttó.
Kannski að unglingarnir í Réttarholtsskóla gætu tekið lífsleiknikennarana í Kennaraháskólanum í smá kennslustund í mun á rökræðum og rifrildi? Það gæti orðið fróðlegt (þ.e.a.s. fyrir kennarana).
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2008 | 12:31
Fyrsta útför Siðmenntar
Síðastliðinn föstudag stóð Siðmennt félag siðrænna húmanista fyrir sinni fyrstu útför. Eins og kunnugt er hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum s.l. tuttugu ár og á síðasta ári hóf félagið að bjóða upp á giftingarathafnir. Nú þegar hafa tvö pör gift sig á vegum Siðmenntar og tvö önnur hafa þegar ákveðið að gera slíkt nú í sumar.
Fyrir um ári síðan sótti hópur félaga í Siðmennt námskeið í að stýra veraldlegum útförum. Hefur sá hópur sem samanstendur af um tíu einstaklingum unnið að undirbúningi á því að bjóða upp á veraldlegar athafnir við hverskyns tilefni. Það var svo s.l. föstudag eins og áður segir sem Svanur Sigurbjörnsson sem er einn af athafnastjórum Siðmenntar stýrði útför. Þótti útförin takast afskaplega vel og því ánægjulegt að segja frá því að nú hefur fólk frekara val um það hvernig það vill að útför sinni eða sinna nánunstu ættingja er háttað.
Frekari upplýsingar um húmanískar eða veraldlegar athafnir á vegum Siðmenntar má lesa á vef félagsins http://www.sidmennt.is
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.5.2008 | 16:45
Nýra til sölu
Eins og kunnugt er hafa fjölmiðlar gríðarleg áhrif á verðmætamat fólks, ekki síst ungs fólks sem er í mótun. Fréttablaðið kom með athyglisvert innlegg inn í umræðu líðandi stundar um verðmætamat þegar fjallað var um einhverjar töskur sem kallast Burberry (takið eftir að töskur eru svona hlutir til að geyma ýmislegt í og henta ágætlega þegar farið er frá einum stað til annars og hafa þarf eitthvað dót meðferðis). Í Fréttablaðinu birtist eftirfarandi setning um þessar töskur á bls. 10 í sérblaði sem heitir Föstudagur:
"Hver myndi ekki vera til í að selja úr sér annað nýrað fyrir þessa Burberry-tösku?" (Og svo birtist mynd af umræddri tösku sem er að mati Fréttablaðsins mikilvægari en nokkurt nýra).
Ég bara spyr eins og Fréttablaðið, jú hver væri ekki til í að missa eins og eitt stykki nýra fyrir svona poka?
JB
6.5.2008 | 18:18
Saga kommúnismans sögð í borgarstjórn eða úlfar í kanínuskinnum
Ég fór að hlusta á borgarstjórnarfund í dag þar sem mannréttindamál voru rædd vel og lengi. Eins og frægt er orðið hefur mannréttindastjóri sagt upp og meiririhlutinn í borgarstjórn hefur ekkert verið að hafa miklar áhyggjur af málunum. Væntanlega engin ástæða til enda mannréttindamálin í Írak og Afganistan í miklu mun verra standi. Þó hefur meirihlutinn loksins auglýst starf mannréttindastjóra og var það gert í bílablaði 24 stunda í dag. Geri ég ráð fyrir að auglýsingunni sé beint til trukkabílstjóra sem þekkja gasið með eigin augum og vilja komast í annað djobb.
Svo bar það við í umræðum í borgarstjórn að formaður mannréttindaráðs sá ástæðu til þess að sýna borgarbúum það í eitt skipti fyrir öll hversu ægilega vondar manneskjur borgarfulltrúar Vinstri grænna eru. Til þess að gera það rakti formaðurinn blóði drifna sögu kommúnismans frá upphafi allt til dagsins í dag. Í snilldarlegri söguskýringu sinni gat formaðurinn rakið ferilinn frá því löngu fyrir daga Stalíns og endaði sagan í sal borgarstjórnar á borðum VG sem hinum eina sanna arftaka heimskommúnismans sem var alltaf svo mikið á móti mannréttindum. Sú ályktun sem draga má af þessari athyglisverðu söguskýringu er sú að borgarfulltrúar VG eru ekki bara úlfar í sauðagærum heldur öllu heldur úlfar í kanínuskinnum. Þeir þykjast trúa á mannréttindin en eru þegar sagan er skoðuð vondir og ljótir kommar sem vilja sem minnst af mannréttindum vita.
En þar með málið ekki alveg búið. Formaður mannréttindaráðs vakti einnig máls á því í einni af sínum málefnalegu ræðum að fulltrúar minnihlutans hafi nú ekki sýnt málaflokknum áhuga þar sem enginn þeirra mætti á ráðsetefnu um innflytjendur sem haldin var nýlega um útlendinga og glæpi. Mér þykir það afskaplega leitt þó þetta skipti ekki öllu máli en þá sat ég umrædda ráðstefnu bæði fyrir sjálfan mig og ekki síður sem fulltrúi VG í mannréttindaráði. Það er bara leitt að ég skuli ekki hafa haft tækifæri til að vekja meiri athygli á sjálfum mér þarna á ráðstefnunni á meðan ég hlustaði á áhugaverð erindi.
JB
2.5.2008 | 17:22
Laugardagsfundur um mannréttindamál
29.4.2008 | 16:50
Á nýjum skóm
112 ungmenni tóku þátt í borgaralegri fermingarathöfn Siðmenntar á sunnudaginn. Athöfnin fór vel fram. Þau Eva María Jónsdóttir og Þórarinn Eldjárn rithöfundur fluttu ávörp. Ávarp þórarins er komið á vef Siðmenntar og finnst á eftirfarandi vefslóð:
http://www.sidmennt.is
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.4.2008 | 16:17
Hætti að prófa nemendurna
Í dag birtist í 24 stundum stutt grein sem byggð er á spjalli okkar Ingibjargar B Sveinsdóttur um skólamál. Hafði hún hlustað á viðtal við mig á Rás eitt um heimspeki í skólastarfi og tók hún eftir afstöðu minni til prófa og námsmats og vildi hún heyra meira. Ekki skírir greinin að fullu sjónarmið mín enda þyrfti mun meira pláss í blaðinu til að koma því öllu til skila. Miðað við þann áhuga sem fólk hefur sýnt skoðunum mínum á skólamálum væri full ástæða til að skrifa sérstaka grein og birta á öðrum vettvangi. Ekki er ólíklegt að ég geri það. En grein 24 stunda er svohljóðandi:
"Nemendur í Réttarholtsskóla sem sækja valfrjálst heimspekinámskeið hjá Jóhanni Björnssyni, heimspekingi og kennara, eru ekki þjakaðir af prófkvíða vegna námsins eins og svo margir aðrir nemendur á þessum árstíma. Jóhann hætti nefnilega að prófa nemendurna fyrir nokkrum árum. "Mér blöskraði þegar ég hóf störf hér fyrir 6 árum yfir því hversu gríðarlega uppteknir nemendur voru af einkunnunum. Mér fannst það há kennslunni. Nemendur spurðu mig á göngunum um hvers vegna þeir hefðu fengið þessa tölu í einkunn en ekki einhverja aðra. Núna eiga þeir hins vegar til að velta upp einhverjum spurningum varðandi námsefnið þegar þeir mæta mér á göngunum," greinir Jóhann frá.
Hann gerir heldur ekki kröfu um að nemendur tjái sig í heimspekitímunum. "Í sumum skólum er ætlast til að allir taki til máls og tjái sig og svo eru nemendur metnir í framhaldi af því. Ég hef aldrei krafist þess. Hlustun og umhugsun er einnig þátttaka. Ég sannfærðist enn betur um þetta eftir að hafa verið með nemanda sem var málhaltur. Það hefði verið óréttlátt gagnvart honum að meta hann með tilliti til þátttökur í umræðu. Ég sá hinsvegar á látbragði hans að hann var virkur."
Jóhann kveðst reyna að halda prófafjölda í öðrum greinum sem hann kennir, landafræði og frönsku, í lágmarki. Og hann lætur nemendur taka þátt í gerð prófanna. "Í landafræði hef ég stundum látið nemendur búa til eins margar spurningar og þeir geta úr námsefninu. Þeir læra um leið og þeir semja spurningarnar sem þeir skila undir nafni. Ég vel síðan hluta af spurningum þeirra og nota sem grunn í prófinu."
Það er mat Jóhanns að kennarar noti í mörgum tilfellum próf sem agastýringu og hann kveðst sakna vitrænnar umræðu um námsmat. "Þegar fjöldi prófa er mikill hætta sumir nemendur að taka þau alvarlega en aðrir fyllast af streitu. Þegar lestur fyrir mörg skyndipróf í sömu viku bætist ofan á fullan vinnudag nemenda verður þessu ekki öllu sinnt. Kennarar þurfa að spyrja sig hversvegna þeir prófa og hversu oft þeir eigi að prófa."
Jóhann saknar þess einnig að skólastarf skuli ekki miða að því að stuðla að hamingju nemenda. "Það má leggja meiri rækt við það á meðvitaðari hátt. Þetta markmið vantar í námskrána. Með því að fækka prófum reyni ég að leggja mitt af mörkum.""
JB