Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Borgaraleg ferming haldin í tuttugasta skipti sunnudaginn 27. apríl n.k.

Hátíðar- og útskriftarathöfn borgaralegrar fermingar fer fram sunnudaginn 27. apríl í Háskólabíói. Þetta er í 20. skiptið sem borgaraleg ferming er haldin á Íslandi. Alls tóku 115 börn þátt fermingarundirbúningi Siðmenntar í ár frá öllum landshornum ásamt nokkrum búsettum erlendis sem voru í fjarnámi.

Athöfnin er útskriftarhátíð haldin í kjölfarið á þriggja mánaða námskeiði í lífsleikni og siðfræði og er hátíðleikinn hafður í fyrirrúmi. Fermingarbörnin koma fram, flytja tónlist, dans, ljóð, og ávörp, auk þess sem þjóðþekktir einstaklingar fara með stuttar ræður. Í ár munu þau Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður og Þórarinn Eldjárn, rithöfundur, ávarpa gesti.

Fyrri athöfnin hefst kl 11:00 og seinni kl 13:30 og eru þær opnar öllum. Siðmennt, félag siðrænna húmanista hvetur fólk sem vill kynna sér borgaralega fermingu til að mæta og upplifa þessa útskriftarathöfn fermingarbarnanna af eigin raun.

Nánari upplýsingar gefur Jóhann Björnsson s: 844 9211 og Hope Knútsson s: 694 7486

 


Útvarpsviðtal

Í útvarpsþættinum Stjörnkukíki var rætt um heimspekiástundun við Réttarholtsskóla. Þáttinn má finna á eftirfarandi vefslóð:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4358802

JB


Hinn grunaði er útlendingur

Athyglisverð ráðstefna föstudaginn 18. apríl.

 Ráðstefna um umfjöllun fjölmiðla um innflytjendur og afbrot verður haldin í Salnum, Kópavogi, föstudaginn 18. apríl 2008 kl. 13.00-17.45. Alþjóðahús, Félags- og tryggingamálaráðuneytið/ Fjölmenningarsetur, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Blaðamannafélag Íslands og Kópavogsbær standa að ráðstefnunni og er markmiðið að opna umræðuna meðal hlutaðeigandi. Fundarstjóri er Birgir Guðmundsson, lektor í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

 

13.00 Setning - Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss
13.05 Ávarp - Jóhanna Sigurðardóttir, Félags- og tryggingamálaráðherra
13.10 Eru afbrot útlendinga öðruvísi en Íslendinga? - Rannveig Þórisdóttir, deildarstjóri upplýsinga-og áætlanadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
13.30 Afbrot, staðalmyndir og innflytjendur - Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands
13.50 Sjónarhorn blaðamannsins - Rúnar Pálmason, blaðamaður hjá Morgunblaðinu
14.10 The media- a tool or an obstacle for integration? (Fjölmiðlar - hjálp eða hindrun í aðlögun innflytjenda?) - Arash Mokhtari, verkefnisstjóri hjá Quick response í Svíþjóð
15.00 Innflytjendur og erlent vinnuafl í fjölmiðlum 2007- Magnús Heimisson, forstöðumaðurFjölmiðlagreininga

15.20 Kaffihlé

 

15.35 Málstofa I - Umræðan á götunni/bloggið

Árni Matthíasson, verkstjóri mbl.is - Bloggið: Ábyrgðarlaust hjal? 
Joanna Dominiczak, kennari og stjórnarmaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna - Útlendingar í fjölmiðlum
Málstofustjóri: Þór Jónsson, forstöðumaður almannatengsla í Kópavogi
 
Málstofa II - Formleg upplýsingagjöf
Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu - Hvað má lögreglan segja?
Áslaug Skúladóttir, formaður Félags fréttamanna og fréttamaður á Útvarpinu - Skiptir þjóðerni fólks máli í fréttum af afbrotum?
Málstofustjóri: Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands

16.15 Kaffihlé

16.25 Samantekt frá málstofum

16.45 Pallborðsumræður
Dane Magnússon, formaður Félags Anti-rasista
Þorbjörn Broddason, prófessor við Háskóla Íslands
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins

17.15 Ráðstefnuslit - Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs
17:20 Léttar veitingar


Með lögguna á hælunum

Jæja í dag er föstudagurinn langi og þá er nú vissara að haga sér vel. Eins og allir vita er nú ekki hvað sem er leyfilegt á þessum annars ágæta degi. Löggan verður væntanlega með nokkra menn á aukavakt til að fylgjast með því að enginn brjóti svohljóðandi lög:

4. gr. Um starfsemi á helgidögum þjóðkirkjunnar gilda eftirfarandi reglur:
   1. Á helgidögum skv. 1. tölul. 2. gr. er öll almenn starfsemi heimil.
   2. Á helgidögum skv. 2. og 3. tölul. 2. gr. er eftirfarandi starfsemi óheimil:
   a. Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.
   

Það er vissara að vera ekkert að þvælast í bingó eða happdrætti. En ætli maður megi spila opinberlega ólsen ólsen, eða tefla? Eða hvað um að spila matador eða lúdó? Ætli það megi? En hvað um gæsaspilið? Eða veiðimann?

Hvað sem því líður þá er það allavega á hreinu að löggan gæti væntanlega handtekið mann og látið mann dúsa á bakvið lás og slá upp á vatn og brauð fyrir að spila bingó opinberlega. Og það er svo skrítið að fólk hér í bæ hefur ákveðið að skipulegja bingó á Austuvelli kl. 13.00. Ég bara spyr hvað er að þessu fólki eiginlega? Hvernig dettur því annað eins í hug? Þekkir það ekki lögin og veit það ekki hverjar afleiðingarnar geta orðið? Það sem mér finnst sorglegast við þetta bingó mál er að mér finnst svo svakalega gaman að spila bingó og mig langar svo mikið til að vera með á Austuvelli, en ég er ekkert of ánægður með að brjóta lög. Hvað á ég að gera? Þetta er greinilega siðferðisklemma föstudagsins langa.

Ég er að reyna að hafa hemil á bingólöngun minni en ef ég skyldi ekki ráða við hana og mæta á Austurvöll kl. 13.00 á eftir er alveg víst að ég mun vera í vel reimuðum strigaskóm til þess að geta hlaupið hratt þegar (trúar-)lögreglan kemur og stingur öllum í steininn.

Í lögunum er reyndar líka talað um bann við happdrætti. Í gær bankaði maður upp á og var að selja happdrættismiða fyrir heyrnarlausa. Ég vona bara að hann sé ekki að selja miðana í dag því þá þarf hann kanski líka að sitja á bakvið lás og slá fyrir þann skelfilega glæp. (Það er spurning hvort ég ætti að hringja í lögguna og láta vita að hugsanlega sé maður á ferðinni í borginni að selja happdrættismiða fyrir herynarlausa).

JB


Prófessorinn fellur á námsefni 9. bekkjar

Ég veit ekki hvað skal segja um þessa metnaðarfullu ákvörðun Háskóla Íslands að ætla sér að verða í hópi 100 bestu háskóla heims þegar þar innan dyra er prófessor sem nýverið féll á námsefni 9. bekkjar. Greint hefur verið frá því að Hannes nokkur Hólmsteinn hafi gert texta annarra rithöfunda að sínum eigin og gefið út. Hann semsagt gerðist sekur um að nota tölvuskipanirnar "copy" og "paste" í stað þess að beita viðurkenndum fræðilegum vinnubrögðum við skrif sín.

Þetta er ekkert óeðlilegt. Við sem erum að kenna 9. bekkingum ritun heimildaritgerða og úrvinnslu texta, heimilda, tílvísana osfrv mætum allmörgum nemendum á hverju ári sem ruglast á þessu líka. En flestir þeirra læra vinnubrögðin áður en þeir verða 16 ára og gera sér vel grein fyrir því hvenær verið er að stela texta og hvenær ekki.

Ef háskólasamfélagið vill þá getum við í Réttarholtsskóla alveg tekið fólk í tíma sem vill rifja upp góð fagleg vinnubrögð við ritun heimildaritgerða. Það flýtir kannski fyrir háskólanum að komast í hóp hinna 100 bestu í heimi.

JB


Bjóðum unglingana velkomna í predikunarstólinn en biðjumst afsökunar á orðum þeirra

Sunnudaginn 2. mars s.l. ávarpaði ungur maður, 15 ára gamall söfnuð Laugarneskirkju. Ræða hans vakti athygli og þar sagði hann m.a.:

"Góðir áheyrendur! Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Þjóðkirkjan byggir tilvistargrundvöll sinn á fáfræði og ranghugmyndum almennings um kristindóminn. Hún væri ekki lengur til nema vegna þess að starfsmenn hennar nútímavæða kristindóminn og fella hann að siðferði samtímans. Einnig virðist það í tísku hjá Þjóðkirkjuprestum að eigna kristninni allt það sem gott þykir og göfugt; telja mönnum trú um að náungakærleikurinn, nútímasiðferðið og jafnvel lýðræðið sé arfur kristninnar. Þannig erum við látin halda að við séum kristin, þótt í raun sé siðferði okkar og samviska okkur eðlislæg.

Sumir sjá kannski ekkert athugavert við þessa aðferð Þjóðkirkjunnar og finnst líka ágætt að til sé stofnun er landsmenn nota til að halda upp á merkileg tímamót í lífi sínu. En þá kemur græðgin til sögunnar. Æðsti maður þjóðkirkjunnar, biskup Íslands, hefur nefnilega ítrekað teygt sig út fyrir valdsvið sitt og látið duttlunga sína og þröngar lífsskoðanir bitna á réttindum annarra trúfélaga og þjóðfélagshópa. Nýverið kom hann í veg fyrir að öllum trúfélögum á landinu yrði veitt heimild til að gifta samkynhneigð pör. Haft var eftir honum að með slíkri heimild væri hjónabandinu kastað á sorphauga. Ég er á þeirri skoðun að athæfi biskups feli ekki einungis í sér grafalvarlega og ókristilega mannfyrirlitningu, heldur ráðist hann einnig til atlögu við sjálfa trúfrelsishugsjónina.

Þetta og fleira hefur vakið upp mikla andstöðu við Þjóðkirkjuna. Á síðasta ári skráði sig nánast heilt prósent þjóðarinnar úr henni. Samtök á borð við Siðmennt og Vantrú sækja í sig veðrið og yfirmenn Þjóðkirkjunnar verða hræddari um stöðu sína með hverjum deginum. Vinaleið Þjóðkirkjunnar í grunnskólum er ein afleiðing þessarar hræðslu, en það verkefni hefur sætt gagnrýni og þykir jafnvel stangast á við grunnskólalög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þótt yfirvöld Þjóðkirkjunnar virðist stundum gráðug og siðlaus veit ég að innan kirkjunnar fyrirfinnst fjöldi góðs og kærleiksríks fólks sem ber velferð almennings fyrir brjósti. Þetta fólk hvet ég til að standa upp og mótmæla forræðishyggju samstarfsmanna sinna!"

Nú gerðist það síðan í gær í þessari sömu kirkju að séra Hildur Eir Bolladóttir sá ástæðu til þess að biðja söfnuðinn afsökunar á orðum unga mannsins. Hún sagði m.a. að prestar safnaðarins hörmuðu það sem hann sagði um biskup Íslands og baðst síðan afsökunar á orðum hans. Það sem ekki síst vakti athygli mína er að hún sagði að of lítið væri hlustað á unglinga og að kirkjan væri kjörinn vettvangur fyrir unglinga að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að það skipti máli að að heyra í unglingum.

Hrokinn gagnvart unglingum getur varla orðið meiri að mínu viti. Vissulega er það rétt að við þurfum að gera meira af því að hlusta á sjónarmið unglinga, en hvers virði er það ef ávallt kemur einhver siðapostuli á eftir og biðst afsökunar á því sem unglingurinn segir? Skilaboðin til unglinga eru í raun þessi frá kirkjunni: "Við bjóðum unglingana velkomna í ræðustólinn en við biðjumst afsökunar á orðum þeirra."

JB

 


Grunnskólakennari rændi sjoppu, bankastjóri beit viðskiptavin, húsmóðir sparkaði í karl....osfrv.

Dv greindi frá því um helgina að ung stúlka hafi orðið fyrir árás í miðborg Reykjavíkur að því er virðist eingöngu vegna þess að hún er pólsk. Ekki kemur þetta mér á óvart í ljósi þess hvernig óvild í garð pólverja og ýmissa annarra erlendra þjóðfélagshópa hefur birst að undanförnu. Í Reykjanesbæ grasserar hatrið í félaginu Ísland fyrir íslendinga og vefsíða sem sérstaklega var beint gegn pólverjum var nýlega lokað en á hana höfðu skrifað fleiri hundruð ungmenni gegn pólverjum.

Í ljósi þessarar stöðu sem er mjög viðkvæm þá hélt ég að fjölmiðlar myndu gæta sín í fréttaflutningi, en svo er greinilega ekki. Morgunblaðið í gær greinir frá hrottalegum ofbeldisglæp sem átti sér stað í Vestmannaeyjum og er er eitt það mikilvægasta sem kemur fram í fréttinni (að mati Morgunblaðsins) að hinn seki er pólskur að uppruna. Fréttin er vissulega ekki röng en það er spurning hvaða áhrif sú staðreynd að í þessu tilviki var um pólverja að ræða hafi á fólk sem er er andsnúið útlendingum.

Er Morgunblaðið með slíkum fréttum að ýta undir andúð á pólverjum? Er alltaf nauðsynlegt að greina frá þjóðerni, kynhneigð, og störfum þeirra sem fremja glæpi? Ég varpa þessu fram til umhugsunar.

JB 


Mannlíf eða malbik er pláss fyrir hvort tveggja? Opinn fundur um borgarmál

Á næstu dögum mun borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna standa fyrir fundaherferð í öllum hverfum borgarinnar þar sem íbúum gefst kostur á að ræða við kjörna fulltrúa um það sem efst er á baugi í hverfunum. Fundirnir eru öllum opnir og kjörinn vettvangur til að koma með ábendingar eða fyrirspurnir.

Fimmtudaginn 6. mars er fundur fyrir íbúa Bústaðahverfis, Háaleitishverfis, Laugardals og Hlíða  og hefst hann kl. 20.00 í Skriðu Kennaraháskóla Íslands.

JB


Enginn vill mikla umferð en allir vilja eiga þrjá bíla (hlustað á umræður á íbúafundi í Bústaðahverfi)

Ég mætti á fund íbúasamtaka Bústaðahverfis sem haldinn var fyrir helgi um umferðarmál hverfisins. Nú stendur til að gera breytingar á aksturleiðum og íbúarnir höfðu ýmislegt um það að segja. Það sem stendur þó upp úr þessum annars ágæta fundi var afstaða margra (kannski flestra)  sem til máls tóku en með litlum ýkjum þá fólst hún í eftirfarandi hugsun:

"Ég vil ekki marga bíla í minni götu. Ég vil að umferðin fari að mestu um aðrar götur hverfisins (sem eru þá götur nágranna minna í hverfinu). Ég vil ekki mikinn umferðarnið og ég vil ekki svifrik frá bílaumferð við heimili mitt né við leik- og grunnskóla barnanna minna. Ég vil ekki mikinn umferðarhraða í hverfinu mínu og allra síst í minni eigin götu. Ég vil hinsvegar geta komist hratt og örugglega og alveg hindrunarlaust allra minna ferða á einkabíl þegar ég vil. Og síðast en ekki síst þá finnst mér sjálfsagt að á mínu heimili séu til þrír bílar eða a.m.k. alls ekki færri en tveir."

Þegar hugsunarhátturinn er á þessa leið þá getum við alveg gleymt því að umferðarmenningin verði einhvern tímann sómasamleg.

JB


Önnur veraldleg gifting á vegum Siðmenntar

Eins og eflaust margir vita stóð Siðmennt fyrir veraldlegri giftingu s.l. haust. Var það í fyrsta sinn sem félagið stóð fyrir slíkri athöfn. Nú í kvöld stóð félagið fyrir sinni annarri veraldlegu giftingarathöfn. Félagið hefur reyndar ekki lagalega heimild til að gefa fólk saman og þurfa pörin því að fara til sýslumanns áður en fulltrúi frá Siðmennt stýrir hátíðlegri athöfn þar sem pörin játast hvort öðru og setja upp hringa frammi fyrir vinum og vandamönnum. Veraldlegar athafnir sem þessar hafa lengi tíðkast í nágrannalöndum þar sem systurfélög Siðmenntar s.s. Human Etisk Forbund í Noregi og British Humanist Association hafa skipulagt. Í sumum löndum hafa félög sambærileg Siðmennt full lagaleg réttindi til að gefa fólk saman og þarf fólk þá ekki að leita til sýslumanna til þess að öllum skilyrðum giftinga sé fullnægt.

Í ljósi þess að fleiri veraldlegar giftingar á vegum félagsins eru fyrirhugaðar á þessu ári er ástæða til þess spyrja stjórnmálamenninna hvenær þeir hafi hugsað sér að gera breytingar á lögum þannig að Siðmennt fá fullgilda lagalega heimild til þess að gefa fólk sama?

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband