24.2.2009 | 18:33
Heimspeki með börnum og unglingum
Ég vek athygli á ráðstefnu sem fer fram næstu daga um heimspeki með börnum og unglingum
PROGRAM
Place: Neskirkja - Meeting house (Safnaðarheimili) (See Neskirkja on the map)
Wednesday, February 25th, 15:00-18:00:
Workshop on teaching philosophy to children
Teachers:
Ólafur Páll Jónsson
Hannu Jusso
Thursday, February 26th, 15:00-19:00:
Workshop on teaching philosophy to children
Teachers:
Oscar Brenifier
Brynhildur Sigurðardóttir
Friday, February 27th: 9:00-16:40
Conference
9:00-9:15 Registration and coffee
9:20-10:00 Keynote Speaker
Páll Skúlason: The Role of the Philosopher in Public Life
10:00-10:20 Coffee break
10:20-10:50 Kristín H. Sætran: Facing Insecurity: The Value of Philosophy for Adolescents
10:50-11:20 Ferdinand Garoff and Marianne Airisniemi: Thinking together - Children and Adolescents in Philosophical Dialogue
11:20-11:50 Róbert Jack: Experiments in living
11:50-12:20 Ármann Halldórsson: Action Research on the Socratic Dialogue
12:20-13:00 Lunch break
13:00-14:00 Discussion / students
14:10-14:40 Oscar Brenifier: Teaching philosophy as a cross-curriculum practice
14:40-15:10 Ariane Schjelderup: How can we make ordinary schoolbooks philosophical"?
15:10-15:40 Coffee break
15:40-16:10 Guro Hansen Helskog: Practical philosophy as relationship education
16:10-16:40 Ieva Rocena: Philosophy in School. Reality and Possibilities
Saturday, February 28th: 9:00-16:30
Conference
9:00-9:30 Øyvind Olsholt: Philosophy - work or play?
9:30-10:00 Rósa Kristín Júlíusdóttir: Art-making and doing philosophy
10:00-10:30 Elín Þóra Böðvarsdóttir and Guðbjörg Guðjónsdóttir: Foldaborg
10:30-11:00 Coffee break
11:00-11:30 Even Næss: Religion, philosophy of life and ethics
11:30-12:00 Dorete Kallesøe: Philosophy, Religious Education and Citizenship education
12:00-13:10 Lunch break
13:20-14:00 Keynote Speaker:
Lakshmi Sigurdsson: Plurality, Thinking and Citizenship in Relation to Teacher Education
14:00-14:30 Ylva Backman: Ethics in school. From moral development to children's conceptions of justice
14:30-15:00 Coffee break
15:00-15:30 Viktor Gardelli: Ethics in School. A study of the foundation and methods for value communication
15:30-16:00 Diego Di Masi: Educate to citizenship: a dialogical approach in community of inquiry
16:00-16:30 Panel session
Heimspeki | Breytt 15.3.2009 kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2009 | 16:30
En hvað um hamingju barna?
Fyrir viku síðan var ég með erindi á fundi sem bar heitið "En hvað um hamingju barna? Þar var rætt um stöðu barna í nútímasamfélagi með tilliti til hamingjunnar. Erindi þetta mun ég væntanlega birta síðar en í kjölfar fundarins var rætt við mig um málið í útvarpsþættinum Stjörnukíki. Hlusta má á þáttinn á meðfylgjandi slóð:
http://dagskra.ruv.is/ras1/4417985/2009/02/21/
JB
Fyrir löngu síðan setti ég stundum um helgar heimspekilegar pælingar á síðuna mína sem ég kallaði helgarheimspekina. Þetta var oftast eitthvað sem lesendur gátu spáð í yfir helgina og rætt við vini og kunningja. Ég held að það væri margt vitlausara en að taka upp þráðinn á ný með helgarheimspekina. Og hér kemur heimspeki helgarinnar:
Í vikunni var ég á þorrablóti í ónefndum grunnskóla hér í borg þar sem foreldrar og nemendur komu saman til borðhalds. Maturinn var afskaplega góður og ég fór tvær ferðir til þess að fá mér á diskinn. Við hlið mér sat maður sem ég þekki ekki og hafði hann farið að fá sér ábót stuttu á undan mér. Það gefur því auga leið að hann var fyrri til að setjast aftur. Nema hvað eins og gengur legg ég hnífapör mín frá mér á borðið áður en ég stend upp. Þegar ég kem síðan aftur í sæti mitt finn ég ekki hnífapörin mín. Ég áttaði mig þó fljótt á því að fyrrgreindur sessunautur minn var með gaffalinn minn uppí sér. Hafði hann óvart haldið hnífapör mín vera sín. Ég spyr: "getur ekki verið að þú sért að nota hnífapörin mín?". Jú rétt var það, þannig að ég skrepp bara og sæki önnur.
En þetta atvik vekur upp heimspekilegar spurningar og þá er komið að ykkur lesendur góðir að takast á við gaffalheimspekina. Og svari nú hver eftir bestu getu:
1) Ef þú hefðir verið í sporum þess sem tók gaffal í misgripum frá sessunaut þínum og værir farinn að nota hann myndir þú þá ljúka máltíðinni með þeim gaffli eða myndir þú snúa þér að þeim hnífapörum sem þú notaðir í upphafi og voru við hliðina á diskinum þínum?
2) Ef þú hefðir verið í mínum sporum hefðir þú þá A) Óskað eftir því að sessunautur þinn skilaði gafflinum þannig að þú gætir haldið áfram að borða þar sem frá var horfið? B) Gert eins og ég gerði, þ.e.a.s. náð í ný hnífapör eða C) óskað eftir að fá að nota hnífapörin hans sem hann notaði áður en hann fékk sér ábót og voru á borðinu?
Gangi ykkur vel með þetta.
JB
Heimspeki | Breytt 15.3.2009 kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.2.2009 | 21:28
Hvað vita heimspekingar um þroskaþjálfun?
Undanfarnar vikur hef ég haft í nógu að snúast við að ræða um möguleg hlutverk heimspekinnar innan hinna ýmissu starfsgreina. Fyrir jólin kenndi ég siðfræðinámskeið fyrir starfsfólk leikskóla og núna fyrir ekki svo löngu síðan, á starfsdegi Þroskaþjálfafélags Íslands ræddi ég hlutverk heimspekinnar í störfum þroskaþjálfa.
Í auknum mæli er farið að skoða störf ýmissa starfsstétta út frá sjónarhóli heimspekinnar. Það kann að vera gagnlegt, það getur stundum verið skemmtilegt (burtséð frá allri gagnsemi) og stundum getur það beinlínis verið bráðnauðsynlegt (samanber fjölmög siðferðileg álitamál sem fólk þarf að takast á við í störfum sínum)
Það sem ég ræddi meðal annars og tengist störfum þroskaþjálfa hafði m.a. með afstöðu heimspekinga að gera til fagmennsku, um það að vera manneskja, um rétt og rangt og erfiðleika við ákvarðanatökur og einnig var þeirri spurningu varpað fram á hvern hátt hamingjan kynni að skipta máli, bæði fyrir fagfólk og skjólstæðinga þeirra.
Stefni ég að því að erindi mitt verði síðar fullskrifað sem grein til birtingar en það verður að bíða betri tíma.
En næsta verkefni er þegar komið á dagskrá um næstu helgi þar sem ég verð með innlegg inn í umræður starfsfólks við menntavísindasvið H.Í. Innlegg mitt kalla ég "En hvað um hamingju barna?" og fjallar um stöðu barna og unglinga í efnahagsþrengingum.
JB
Heimspeki | Breytt 15.3.2009 kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2008 | 17:43
Þvílíkur draumur, nú lætur maður vekjaraklukkuna hringja kl. 3 að nóttu og skellir sér í Hagkaup
Forsvarsmenn Hagkaupa haga sér eins og þeir hafi himnasendingu handa almenningi. Jú nú geta allir komið í Hagkaup í náttfötunum alla nóttina og keypt skyr og brauð og nammi í poka. þvílíkur lúxus, þvílík velmegun.
En hafa þeir svarað því hvað lengri opnunartími kostar og hver muni borga hann? Nei ég á ekki von á því enda hef ég grun um að það séu neytendurnir sem munu þurfa að borga fyrir lúxusinn með hærra verðlagi.
Ekki fer maður ótilneyddur að borga fyrir óþarfalega langan opnunartíma með hærra verðlagi. Ætli maður fari þá ekki bara sjaldnar í Hagkaup? Jú ég hugsa að ég reyni svona eins og hægt er að gera það.
JB
30.11.2008 | 13:45
"Er hægt að mótmæla án þess að hafa lausn?" Fréttamaður rúv mætir á Austurvöll með spurningalista frá Davíð og ríkisstjórninni
"Er hægt að mótmæla án þess að hafa lausn?" spurði fréttakona ríkisútvarpsins þátttakendur á mótmælafundinum á Austuvelli í gær. Klárlega hefur hún leitað til þeirra um spurnarefni sem óttast orðið um sinn hag en stýra landinu, enn að minnsta kosti.
En hvað heldur fréttakonan? Má maður ekki láta í ljós afstöðu sína, má maður ekki tjá óánægju sína með bullið sem viðgengst hefur í mörg ár án þess að maður setjist niður og ákveði í smæstu smáatriðum hver "eina sanna lausnin er"? Mótmæli er ekki endilega fundur um lausnir, fólk mótmælir því sem það er ekki sátt með, með mótmælum lætur maður í ljós þá skoðun að maður er ekki sammála því sem reynt hefur verið að troða ofan í kokið á manni. Ég mæti í mótmælin á Austurvelli til að sýna það í verki að sú stefna sem viðgengst hefur í mörg ár, að auðmannadekrið, að einkavæðing bankanna var rangt og ég mæti líka til að mótmæla því að bankastjórar nýju bankanna séu með tæpar tvær milljónir í laun á mánuði, það er of mikið.
Það er því einhver misskilningur, eða réttara sagt það er ríkisstjórnarundirlægjuháttur ríkjandi hjá umræddri fréttakonu þegar hún gengur á mannskapinn á Austurvelli og heimtar að fólki hristi lausnir upp úr vasanum eða sitji að öðrum kosti heima.
Ágæta fréttakona, bíddu bara það kemur kannski að því að þér verði sagt upp líka, en ef svo fer þá ertu bara velkomin í hóp okkar mótmælenda án þess að vera með lausnir í 10 liðum.
Með mótmælum bendum við á það sem er rangt og illa gert. Það má gera það.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
29.11.2008 | 20:09
Kommúnistaflokkur Íslands stofnaður 29. nóvember 1930. Fátt breyst í 78 ár og erindið enn brýnt
Það var rifjað upp í dag í Fréttablaðinu að þennan dag, 29. nóvember 1930 hafi Kommúnistaflokkur Íslands (KFÍ) verið stofnaður. Ég á stefnuskrá flokksins sem samþykkt var á stofnþinginu og heitir Hvað vill Kommúnistaflokkur Íslands. Til íslenzkrar alþýðu frá stofnþingi K.F.Í. Var stefnuskráin gefin út í lítilli bók árið 1931 í 2000 eintökum sem voru prentuð í prentsmiðjunni Bergstaðasrtæti 19. Brynjólfur Bjarnason var formaður flokksins en Brynjólfur hefur ávallt verið talinn með fremstu heimspekingum landsins.
Það er vel við hæfi að kíkja í stefnuskrána sem að mörgu leiti á enn erindi við íslenska alþýðu sem nú 78 árum síðar þarf að takast á við kreppuna í okkar spillta kapítalíska þjóðfélagi. Kíkjum á boðskap flokksins frá 1930 og könnum hvað kann að eiga við í dag:
"Íslenzka borgarastéttin hefir komið á sérstakri verkaskiftingu í stjórnmálastarfsemi sinni. Hún beitir þessari aðferð með fullum stuðningi og samhjálp sósíaldemókrata, sem eru gegnsýrðir af pólitískri spillingu og hreinræktaðir borgarar." (bls. 17)
Minnir þetta ekki á gamla Alþýðuflokkinn, hækju íhaldsins, siglingu Jóns Baldvins og Davíðs út í Viðey (já það var nefnilega Jón Baldvin sem kom Davíð til valda) og svo hlutverki Samfylkingarinnar í dag sem heldur íhaldinu við völd og jafnframt Davíð Oddssyni í Seðlabankanum. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Stöðugt færist arðrán íslenzkra og erlendra auðmanna í vöxt," (bls. 38)
Bíðið nú við, er þetta að gerast 1930 eða er þetta það sem hefur verið að gerast árið 2008? - Ekkert breyst í 78 ár.
"Vinna verður ötullega að því, að stjórnir verkalýðssamtakann séu skipaðar sönnum verkamönnum og að allir auðmenn, atvinnurekendur og umboðsmenn þeirra séu útilokaðir frá verkalýðsfélögunum." (bls.41).
Einhvernveginn dettur mér formaður VR í hug þegar ég les þetta. Hálaunamaðurinn sem heldur að stéttarfélagið sé bara svo hann einn geti makað krókinn. Auðmannadaðrarinn sem ekki veit hvað orðin virðing og réttlæti þýða. - Ekkert breyst í 78 ár.
"...enda er það ekki hlutverk alþýðunnar, að viðhalda ríkisvaldi auðdrottnanna, heldur hitt, að ráða niðurlögum þess.........
.......Kommúnistar berjast gegn sköttum, eignaskatti, tekjuskatti og útsvörum á verkamenn og efnalitla bændur." (bls. 47-48)
Jú jú minnir á skattamál yfirvalda í nútímanum, ekki má leggja á almennilegan hátekjuskatt heldur skal fólk með lágar- og meðaltekjur borga og halda ríkinu gangandi. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Flokkurinn... berst gegn öllum skólagjöldum í skólum fyrir almenning..." (bls.49)
Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn sem vill skólagjöld er í menntamálaráðuneytinu (neitar skólagjöldum kannski opinberlega en við þekkjum öll úlfinn í sauðagærunni). - Ekkert breyst í 78 ár.
Kommúnistaflokkur Íslands var án efa með framsæknustu stefnu í trúmálum sem fram hefur komið í íslenskum stjórnmálum fyrr og síðar:
"Flokkurinn berst fyrir afnámi allrar trúarbragðafræðslu í skólum og aðskilnaði ríkis og kirkju. Í fræðslustarfi sínu leggur flokkurinn áherzlu á, að uppræta alla trúarhleypidóma úr hugum alþýðu og gera henni ljóst, að trúarbrögðin eru notuð í þjónustu ríkjandi stéttar." (bls. 50)
Sýnt hefur verið að þó öll fræðsla sé af hinu góða einnig trúarbragaðfræðsla þá hafa of margir skólar ekki skilið út að hvað fræðsla gengur og hafa verið alveg á fullu í hörku trúboði og innrætingu. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Flokkurinn safnar alþýðunni til baráttu gegn erlendu auðvaldi og erlendri yfirdrottnunarstefnu og innlendum erindrekum hennar." (bls. 50-51)
Vorum við ekki að fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og því verður ríkisstjórnin að vera eins og hlýðinn hvolpur sem þarf að sitja og standa eins og sjóðurinn vill. - Ekkert breyst í 78 ár.
"Kommúnistar munu safna verkalýðnum um allt land...til baráttu fyrir hærri launum og betri kjörum undir kjörorðinu: Sömu laun fyrir sömu vinnu. Kommúnistaflokkurinn mun standa í broddi fylkingar í baráttu vinnandi kvenna....(bls. 60).
Enn er langt í land árið 2008 að jafnrétti náist í kjara-og launamálum kvenna og karla. - Ekkert breyst í 78 ár.
Það verður ekki annað sagt en að þetta er bara allrar athygli vert árið 2008.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.11.2008 | 08:18
Er hægt að kenna umburðarlyndi?
Sveitarfélagið Garður hélt mjög áhugavert málþing um fjölmenningu og fræðslu gegn fordómu s.l. föstudag. Þar hélt ég erindi um reynslu mína af kennslu fjölmenningarlegrar færni með unglingum. Erindið kallaði ég "Er hægt að kenna umburðarlyndi?" Hér birti ég byrjunina á þessu erindi en ekki er ólíklegt að það muni birtast í heild sinni síðar:
Áskorunin
Fyrir nokkrum árum las ég grein í dagblaði þar sem kona nokkur var að ræða siðferðisbresti stjórnmálamanna. Í lok umfjöllunarinnar sagði hún að stjórnmálmenn þyrftu að fara á námskeið í siðfræði. Það var eiginlega hennar niðurstaða og lausn við siðferðisvanda í stjórnmálum. Allar götur síðan hafa þessi ummæli rifjast upp fyrir mér og ég velt því fyrir mér hvort hægt sé að kenna fólki að breyta siðferðilega rétt? Er hægt að kenna fólki að breyta siðferðilega rétt ef það sér ekkert athugavert við hegðun sína og lífsviðhorf? Er hægt að kenna fólki að breyta öðruvísi ef það sér enga ástæðu til þess eða jafnvel ef það hreinlega vill það ekki? Er nóg að skylda fólk til þess að fara á siðfræðinámskeið til þess að það taki að breyta á siðferðilega lofsverðan hátt? Og virka siðræðinámskeið?
Páll Skúlason spurði sambærilegrar spurningar í bók sinni Pælingum þar sem hann spurði hvort hægt væri að kenna gagnrýna hugsun. Framhaldsskólanemi varð fyrir svörum og sagði: "Já, það er eflaust hægt að kenna gagnrýna hugsun..." ... "...ef maður finnur einhvern sem hefur áhuga á að læra hana." (Pælingar 1987)
Hér hefur framhaldsskólaneminn nokkuð til síns máls. Ef einhver vill læra eitthvað eru býsna miklar líkur á að það takist. Áskorunin sem ég hef hinsvegar ætlað mér að ræða hér felst fyrst og fremst í því hvort hægt sé að fá þá sem ekki eru umburðarlyndir til þess að verða umburðarlynda. Með öðrum orðum hvernig fær maður þá sem eru haldnir útlendingafælni, þá sem eru fordómafullir, þá sem eru þjóðhverfir og þá sem hafa tileinkað sér rasískan hugsunarhátt til þess að verða umburðarlyndir? Er mögulegt fá slíka einstaklinga til að tileikna sér fjölmenningarlega færni af fúsum og frjálsum vilja? Það er stóra spurningin.
Reynsla mín af ungu fólki er sú að yfirgnæfandi meirihluti þess er umburðarlyndur gagnvart fólki af erlendum uppruna. Síðastliðið sumar hitti ég milli 600 og 700 14 ára ungmenni í Vinnuskóla Reykjavíkur í um þrjár klukkustundir í senn, ég hitti á Akranesi alla nemendur Brekkubæjarskóla í 6.-10 bekk og var með 80 mínútna stundir sem miðuðu að því að efla umburðarlyndi og fjölmenningarlega færni þar sem í skólann voru að koma flóttamenn frá Palestínu. Og eins og áður segir kom yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda fram sem afskaplega umburðarlyndur hópur þegar koma að málefnum fólks af erlendum uppruna. Það var aðeins einn einstaklingur sem hafði í frammi rasískar athugasemdir af þessum tæplega 1000 manns sem ég hitti.
En talandi um umburðarlyndi. Getur umburðarlyndi ekki verið mismunandi mikið eða lítið? Jú óhætt er að fullyrða að umburðarlyndi getur verið mismunandi mikið og kann að vera mismunandi eftir aðstæðum hverju sinni og gagnvart mismunandi hópum.
Af og til hafa borist fregnir af ungu fólki sem er afskaplega umburðarlaust gagnvart útlendingum sem hér búa. Dæmin eru umhugsunarverð og áskorunin mikil í ljósi spurningarinnar sem hér er lögð til grundvallar. Skoðum nokkur þeirra:
Frá árinu 2001:
"....Það þarf engan snilling eða erfðavísindamann til aðsýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi. Vestrænar þjóðir vorkenna Afríkubúum mjög mikið en þeir búa þarna í gróðusælustu álfu heims og gætu framleitt sex sinnum meira af mat en þeir þurfa ef þeir nenntu því. Við búum hér á grjóthnullungi, höfum ekkert nema fiskinn og klakann og höfum það bara stórfínt á meðan þeir nenna ekki að berja af sér flugurnar...." (DV 17. febrúar 2001)
Fyrir þessi ummæli var viðkomandi dæmdur til að greiða sekt eða sitja í fangelsi í 6 daga.
Og önnur ummæli frá árinu 2008:
"Pólverjar og Ítalir koma hingað og hirða alla byggingarvinnu frá okkur og fólk kemur hingað og hirðir alla fiskvinnu. Síðan er það svarta fólkið sem vinnur ekki einu sinni, það kemur bara hingað og týnist einhversstaðar á vappinu, þetta er ógeðslegt. Síðan dirfist þetta fólk að ráðast á okkur. Hér segi ég stopp og ekki lengra, nú er nóg komið,"...."Við erum nú þegar í vandræðum með okkar eigin þjóð og því alls ekki gáfulegt að fara að bæta við vandamálum annarra þjóða. Við höfum ekki efni á því." (DV 11. janúar 2008 bls. 14)
Og unglingar stofnuðu síðan félag gegn Pólverjum í ársbyrjun 2008 og var vefsíða jafnframt sett upp þar sem einn forsparkki félagsins, fjórtán ára unglingur sagði að Íslendingar þyrftu að losna við Póvlerja áður en það væri um seinan. Hann sagði þá skemma hluti og þykjast eiga Ísland. (Fréttablaðið feb.2008)
Útlensku starfsfólki í verslun og þjónustu hefur orðið fyrir dónaskap og hafði austurrísk afgreiðslustúlka í bakaríi í Reykjavík þetta um reynslu sína að segja árið 2007:
"Ég hef orðið fyrir dónaskap frá viðskiptavinum fyrir að tala ekki íslensku hér í bakaríinu,",...."Tvisvar hefur það komið fyrir að fólk hefur gegnið út út þegar það kemst að því að ég tala ekki íslensku. Mér leið mjög illa yfir því og fannst það niðurlægjandi." (Fréttablaðið 25. september 2007)
Þetta var í stuttu máli lýsing á þeirri áskorun sem staðið er frammi fyrir í fræðslu um umburðarlyndi. Síðan ræddi ég markmið þjálfunar í fjölmenningarlegri færni og lýsti þeim aðferðum sem ég nota í kennslustundum og gengið hafa vel. Mjög góðar og áhugaverða umræður urðu og þakka ég þátttakendum fyrir þær.
JB
Heimspeki | Breytt 15.3.2009 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2008 | 14:55
Ótrúverðugur kjölturakki í fangi dómsmálaráðherra
Hann er undarlegt eintak í flóru mannlífsins þessi Stefán. Hér í eina tíð gekk hann borðum skrýddur upp að öxlum í nýpressuðum buxum um Laugarveginn að næturlagi og handtók og sektaði þá sem migu og skitu utan í ljósastaura og húsgafla. Það var flott hjá honum, þar var hann á réttri hillu. Svo nennti hann því ekki meir og fór í önnur verkefni. Það var að eltast við unglinga sem stela bónusfánum, rétt eins og hann væri öryggisvörður í matvöruverslun. Og þar er hann að fara illa að ráði sínu.
Í kjölfar uppákomunnar sem átti sér stað í gær kom umræddur Stefán fram á einstaklega ótrúverðugan hátt. Einhvernveginn held ég að maðurinn sem ég hef grunaðan um að vilja verða Pinochet Íslands sé að kippa í spotta á bakvið Stefán, því umræddur Stefán virkar svona á mig eins og ótrúverðugur kjölturakki í fangi dómsmálaráðherra sem mjög er farinn að óttast um sinn hag sem ráðherra í óvinsælli ríkisstjórn.
Tímasetningin á handtöku unga "Bónufánamannsins" var útpæld af dómsmálaráðherra og kjölturakkanum hans, hinum ótrúverðuga Stefáni til þess eins að ögra mótmælendum og sýna valdið. Ef Stefán þessi hefði eitthvert sjálfstæði í starfi og ég tala nú ekki um ef hann hefði einhverja þekkingu í siðfræði Aristótelesar þá hefði hann ekki handtekið unga manninn daginn fyrir fjölmenn mótmæli. í Siðfræði Aristótelesar er nefnilega lykilatriði að beita dómgreind sinni og hafa innsýn inn í aðstæðurnar. Ef Stefán hefði haft innsýn í aðstæðurnar hefði hann handtekið unga manninn á sunnudagsmorgni, degi þar sem allir sofa út og enginn mótmælir. Þá hefðu engin læti orðið. En þar sem farið er að bera á fasískum viðbrögðum hjá laganna vörðum þá varð að sjálfsögðu að skvetta sem mestri olíu á eldinn og handtaka manninn þegar vitað var að allt færi í bál og brand.
Þetta var alveg svakalega klaufalegt hjá Stefáni og félögum og stórt skref í þá átt að Stefán á eftir að missa tökin á mótmælendum ef hann heldur svona áfram. Best væri fyrir hann að snúa sér aftur að störfum í "þvagdeildinni" sem áður var getið, þar er hann flottur. Hann þarf að átta sig á sínu hlutverki, hann sem og aðrir lögregluþjónar eiga að vera þjónar fólksins en ekki kjölturakkar stjórnmálamanna sem eru á útleið.
JB
![]() |
Fráleitt ólögmæt handtaka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.11.2008 | 17:12
Hvernig væri að beina athyglinni að alvöru glæpamönnum?
Ég varð á sínum tíma vitni að Bónusfánaævintýrinu á Alþingishúsinu, þessum "skelfilega glæp" sem þar átti sér stað. Ég hef heyrt að verri glæpir hafi verið framdir í landinu og ég spyr yfirvöld löggæslumála hvernig væri að beina athyglinni að alvöru glæpamönnum í stað þess að eltast við góða húmorista?
JB
![]() |
Mótmæli við lögreglustöðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)