14.11.2008 | 17:33
kynningarfundur vegna borgaralegrar fermingar
Eftirfarandi tilkynningu um kynningarfund vegna borgaralegrar fermingar má finna á vef Siðmenntar www.sidmennt.is
Kynningarfundur fyrir unglinga sem áhuga hafa á borgaralegri fermingu 2009 og aðstandendur þeirra verður haldinn Laugardaginn 15. nóvember 2008 kl. 11:00 - 12:00 í Háskólabíói sal 1.
Á kynningarfundinum verður næsta námskeið Siðmenntar til undirbúnings Borgaralegri fermingu kynnt, gerð grein fyrir einstökum efnisþáttum og umsjónarmönnum þeirra. Skráningarblöðum verður dreift og fólk velur hvaða námskeið hentar því best. Munið að koma með penna.
Ennfremur verður greint frá tilhögun væntanlegrar athafnar næsta vor og sýnt verður kynningarmyndband frá athöfnunum sem haldnar voru vorið 2008.
Það er þegar búið að manna nefnd foreldra og forráðamanna til að hafa umsjón með athöfninni.
Mikilvægt er að flestir mæti sem ætla að taka þátt í Borgaralegri fermingu 2009, a.m.k. þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Landsbyggðarfólk og aðrir sem komast ekki á kynningarfundinn eiga að hafa samband við Hope. hope@sidmennt.is
10.11.2008 | 16:04
Siðfræði handa Gunnari - siðfræðinámskeið fyrir forystufólk verkalýðshreyfingarinnar
Hér birtist auglýsing um siðfræðinámseiðið Siðfræði handa Gunnari - siðfræðinámskeið fyrir forystufólk verkalýðshreyfingarinnar sem haldið verður síðar í nóvember. Endilega látið berast til verkalýðsforingjanna þið sem þá þekkið en athugið að forysta VR gengur fyrir að þessu sinni, en ekki er útilokað að fleiri námskeið verði haldin.
Fimmtudaginn 20. nóvember n.k. kl. 19.30-22.00 mun forystufólki verkalýðshreyfingarinnar standa til boða siðfræðinámskeiðið Siðfræði handa Gunnari um réttlæti og samfélagslega ábyrgð.Forystufólk verkalýðsheyfingarinnar þarf að takast á við margvísleg siðferðileg álitamál í störfum sínum. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um grundvallarhugmyndir og kenningar ýmissa siðfræðinga og fá verkalýðsforingjarnir tækifæri til þess að rökræða lífsgildi sín, traust og trúverðugleika, siðferðilegar spurningar hve varðar lífsgæði og lífsstíl, samfélagslega ábyrgð, launamun, fátækt og ríkidæmi, þarfir og gerviþarfir og hvað sé siðferðilega rétt og siðferðilega rangt í heimi þar sem veraldleg gæði eru takmörkuð. Á meðal fjölmargra spurninga sem leitað verður svara við eru:Er eitthvað rangt við það að duglegir verkalýðsforingjar séu á ofurlaunum?Hversu mikill launamunur á að vera á milli verkalýðsforystunnar og almennra félagsmanna?Hvað felst í réttlæti og samfélagslegri ábyrgð?Hvað einkennir trúverðugan verkalýðsleiðtoga?Félagar í VR hafa forgang á námskeiðið að þessu sinni en hámarksfjöldi þátttakenda er 25 og lágmarksfjöldi 8.Leiðbeinandi á námskeiðinu er Jóhann Björnsson MA í heimspeki sem hefur áralanga reynslu af kennslu í siðfræði. Hefur hann kennt ýmsum starfsstéttum siðfræði eins og starfsfólki á leikskólum og geðdeildum á vegum Mímis símenntunar. Vorið 2007 bauð hann upp á siðfræðinámskeiðið Hversu mikið er nóg? - siðfræði handa forystufólki í bönkum og fjármálafyrirtækjum.Nánari upplýsingar og skráning í síma 8449211 og með tölvupósti johannbjo@gmail.com eigi síðar en 18. nóvember. Þátttökugjald er kr. 1000-
Heimspeki | Breytt 15.3.2009 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.11.2008 | 11:42
Lögreglan er hættulegasta "púðurtunnan"
Ég var staddur á Austuvelli í gær og tók þátt í mótmælunum sem fóru bara vel fram þrátt fyrir einstaka óþekktarorma sem þó voru þegar öllu er á botninn hvolft frekar húmoristar en nokkuð annað. Ég fór að hugsa það eftirá að það sem varð til þess mótmælin fóru þetta vel fram var án efa vegna þess hversu lögreglumenn á vakt voru fáir. Einn mótmælendanna sem hafði húmorinn í lagi dró Bónusfánann að húni á Alþingishúsinu sem er afskaplega saklaust en það munaði ekki miklu að lögreglunni tækist að klúðra deginum fyrir 4000 manns með viðbrögðum sínum. Jú það varð að hlaupa á eftir honum, handtaka, refsa, sína valdið vera með læti hávaða og ofbeldi ef tækifæri gæfist. Þetta eru kolröng viðbrögð lögreglunnar við því sem er saklaust í þeim skilningi að ekki er um skemmdarverk að ræða né lífi og limum fólks stefnt í hættu.
Ég segi þetta vegna þess að í mörg ár kenndi ég unglingum sem áttu í hegðunar- og tilfinningavanda. Og drottinn mínn dýri (ef hann er til) uppákomurnar sem maður þurfti að takast á við voru oft ansi skrautlegar. En maður hefði líka geta klúðrað margoft skólastarfi ef maður hefði alltaf brugðist við eins og lögrelgan brást við fánamanninum í gær. Það sem reyndist okkur í skólanum best þegar erfiðar uppákomur áttu sér stað var að meta þau tilvik þar sem möguelgt var að hundsa hegðunina. Með því að hundsa óæskilega hegðun sem ekki er beinlínis skaðleg leysast málin mun fyrr og betur og allir verða bara nokkuð ánægðir með sig (nema kannski kennarinn sem lætur sem hann hafi ekki tekið eftir þessu). Ef lögreglan hefði nú bara hundsað fánamanninn þá hefði ekki komið til þessarar spennu sem fór af stað og hefði getað ollið miklum skaða og skemmdum.
Lögreglan hefði átt að hundsa hegðunina, starfsmaður þingsins tekur niður fánann og fánamaðurinn sjálfur fer niður og kannski í mesta lagi hefði lögreglan getað aðstoðað hann við að komast niður en þá bara undir því yfirskyni að halda að fánamaðurinn hafi verið iðnaðarmaður að störfum.
Semsagt áskorun til lögreglunnar: Ekki stefna fjölda fólks í hættu næsta laugardag með testósteroni og töffarastælum. Verið mjúkir menn, upp með húmorinn og hundsið það sem hvorki skaðar né eyðileggur.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Það bar helst til tíðinda úr pólitíkinni að þingmenn grenjuðu hátt í vikunni. Nú var grenjað yfir verkefnaskorti. Þingmenn sögðust ekki fá neitt að gera niðri á þingi. Í þessari sömu viku fengum við líka frétt af því að enn einn þingmaðurinn var að ráða til sín aðstoðarmann.
Það er því kannski ekkert skrítið að maður spyrji: Hversvegna eru alþingismenn með aðstoðarmenn ef ekkert er að gera hjá þeim?
JB
15.10.2008 | 22:04
Duo
Ég fór í kvöld og sá sýningu Íslenska dansflokksins Duo í Borgarleikhúsinu. Frábær sýning sem samanstendur af fjórum verkum þar sem tveir dansa í hverju verki. Þarna sá maður metnaðarfulla sýningu ólíkra verka þar sem dansararnir sýndu hreyfingar sem maður hreinlega vissi ekki að væru til. Þar að auki var þónokkuð af óvæntum uppákomum sem svo sannarlega juku á gæði sýningarinnar. Verkin fjögur eru eftir þau Gunnlaug Egilsson, Láru Stefánsdóttur, Peter Anderson og Sveinbjörgu Þórhallsdóttur. Mér finnst það samt miður að hvergi finn ég í kynningu Borgarleikhússins nöfn dansaranna sem áttu frábært kvöld (ég vona samt að nafnanna sé getið einhversstaðar, ég þarf kannski bara að athuga betur).
Kærar þakkir á Íslenski dansflokkurinn fyrir þetta.
JB
13.10.2008 | 22:01
Um fyrsta og eina skiptið sem ég hef reynt að múta....eða kannski fer maður að geta farið með gömlu rafmagnstækin í viðgerð
Ég tók þátt í 7 vikna verkfalli grunnskólakennara haustið 2004. Þetta var mjög athyglisverður tími og á vissan hátt afskaplega góður tími. Sumir sem tóku þátt í verkfallinu létu örvæntingu, angist, reiði, pirring og allsherjar svekkelsi ná tökum á sér á meðan aðrir voru ákveðnir í að nota þennan tíma til þess að endurmeta lífsgildi og viðhorf. Ég var einn af þeim sem ákvað að nýta tímann í stað þess að sofa fram yfir hádegi og vakna fúll og fara seint að sofa og sofna fúll og svekktur. Það hlaut að vera hægt að gera eitthvað uppbyggilegt í ástandi sem verkfall er.
Eitt af því sem ég gerði í verkfallinu var að fara niður í kjallara og hugsa, pæla, skoða og gramsa í gömlu dóti (sem kannski hefði mátt vera búið að henda) og leyfa því að gefa lífi mínu jákvæða merkingu. Eitt af því sem var í kjallaranum var plötuspilari og allgóður slatti af vínilplötum. "Því ekki að koma þessum græjum í gang fyrst ég hef tíma" hugsaði ég. Nálin var ónýt og ekki snérist plötuspilarinn. En hvað um það þarna var komið skemmtilegt verkefni. Það var ekki svo flókið að fá nýja nál, að vísu þurfti ég að kaupa aðeins meira en nálina en ég lét mig hafa það. Og þegar nálin var komin á sinn stað var að reyna að fá tækið til að snúast og þá fóru nú ævintýrin að gerast.
Ég fór inn á fyrsta raftækjaverkstæðið með plötuspilarann undir hendinni. Nei Nei við gerum ekki við svona þú verður að fara á hinn staðinn og ég fór á hinn staðinn og nei nei við gerum ekki við svona þú getur prófað á einhvern annan stað. Og áfram hélt sagan þar til á einu verkstæðinu var mér hreinlega sagt að það geri enginn við plötuspilara, það bara borgar sig ekki eins og maðurinn sagði. Hva, borgar það sig ekki sagði ég. Nei það borgar sig ekki. En ef mér tekst að spila allar gömlu plöturnar með Utangarðsmönnum, Þey, Baraflokknum osfrv ertu þá að halda því fram að það sé ekki eitthvað sem borgi sig? Nei vinur það borgar sig ekki að gera við gömul rafmagnstæki, þú bara kaupir þér nýtt. Já en svona plötuspilarar fást bara ekki hvar sem er. Þú bara kaupir þér geislaspilara. Já en ég vil hlusta á vínilinn, ég get ekki farið að kaupa allt upp á nýtt á cd og þar fyrir utan hefur ekki allt verið gefið út á diskum. Já en samt þetta bara borgar sig ekki sagði rafmagnstækjamaðurinn.
En þá datt mér snjallræði í hug. Best að reyna að múta honum. Fyrsta og eina skiptið á ævinni sem ég hef reynt að múta einhverjum og takið eftir að ég var í verkfalli. Ég sagði við hann nefndu einhverja upphæð fyrir að gera við plötuspilarann og ég skal borga þér hvað sem það kostaði. Nei nei viðskiptavitið var akkúrat ekkert. Því miður við bara gerum ekki við svona tæki. ok þú um það bless.
Ég var nú ekki alveg að baki dottinn og mér tókst að fá fjölskyldumeðlim til að kíkja á spilarann og viti menn hann komst í lag á eldhúsborðinu hér heima á Tunguveginum. Og það sem meira er að hann er í þónokkurri notkun og var hann bara notaður síðast núna á laugardaginn þegar við spiluðu Leonard Cohen á vínil og líka Stevie Ray Vaughan.
Þannig vorum við íslendingar á þeim tíma niðursokkin í samfélagi sóunar og neysluhyggju. Nú er sá tími í samfélaginu að við ættum að koma okkur upp úr neysluhyggju og sóun og vonandi mun "kreppan" verða til þess að við getum farið að láta gera við gömlu rafmagnstækin. Það fer betur með auðlindir og umhverfi og svo sparar það líka innflutninginn.
Og að lokum. Er einhver þarna úti sem á gamalt vasadiskó sem ég gæti fengið fyrir ekkert. Ég á nefnilega örfáar snældur sem ég væri alveg til í að hlusta á (ein er meira að segja frá Norður Kóreu).
JB
JB
12.10.2008 | 19:10
Ég er svo glaður yfir að hafa lagt mitt af mörkum til að styrkja Glitni (aðeins meiri upprifjun)
Haustið 2007 þegar bankapartíið stóð sem hæst og Glitnir átti Reykjavíkurmaraþonið þá bauð bankinn hlaupurunum það að velja sér eitthvað góðgerðarfélag sem bankinn myndi síðan styrkja fjárhagslega. Ég er ekki flinkur í efnahagsmálum en þá strax sá ég að ekki var allt með felldu í bankanum svo ég ákvað að láta bankann ekki greiða mín vegna í eitthvað góðgerðarfélag heldur bara greiða sjálfum sér. Ég semsagt studdi Glitni í Reykjavíkurmaraþoninu. Sumum fannst þetta vera rugluð ákvörðun en nú í dag hefur það komið í ljós að hún var rétt. Glitnir þurfti á öllum mínum stuðningi að halda og reyndar miklu meira en það. En til að halda áfram með upprifjunina um afstöðu mína til bankapartísins skulum við kíkja á færsluna sem skrifuð var í lok ágúst 2007. Fyrirsögn hennar var: "Ég hleyp til góðs í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Ég styrki Glitni með stolti."
Og svona skrifaði ég um bankann "góða":
Ég hef ákveðið að hlaupa hálft maraþon á í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Í fyrra hljóp ég 10 km og nú er komið að því að bæta aðeins við vegalengdina.
Þegar ég frétti að mögulegt væri að hlaupa til styrktar einhverjum góðum aðilum þá var það aldrei spurning í mínum huga að velja ekkert góðgerðarfélag af listanum sem var í boði heldur styrkja bara Glitni sjálfan. Ég styrki því Glitni með því að Glitnir þarf ekki að borga neitt fyrir mitt hlaup heldur getur átt peninginn sjálfur.
Ástæðan er einföld. Glitnir sem og aðrir bankar landsins eru bara alls ekkert of feitir og þurfa svo sannarlega á stuðningi að halda. Það er nú ekki tekið út með sældinni að vera banki á Íslandi. Bankarnir hafa nú ekki getað borgað stjórnendum sínum neitt sérstök laun, bankarnir hafa gengið alltof langt í að viðhafa lág þjónustugjöld, bankarnir rukka sama sem engann fit kostnað (mig minnir að það heiti fit kostnaður ef maður fer óvart eða vísvitandi umfram á tékkareikningnum), lágir sem engir vextir eru ef maður fær lán í banka, bankarnir fara mjög sparlega með fjármuni þegar auglýsingakostnaður er annarsvegar og síðast en ekki síst hafa bankarnir þurft að leggja til heilmikið fjármagn til að berjast gegnt innrás græðgisvæðingarinnar í landið.
Svona mætti eflaust lengi telja upp ástæðu þess að íslenskir bankar eru æðislegir og fara rosalega vel með peninga og eru ekkert að græða of mikið. Þeir gera svo margt geggjað fyrir viðskiptavini sína. Það dapurlega í bankamálunum er hversu margir ljótir anarkistar reyna sí og æ að sverta þessar frábæru stofnanir. Eitt dæmi heryði ég um mann sem kom í útvarpið og sagist hafa þurft að borga 2700 kr fyrir að láta bankann sinn telja peninga barns nokkur úr sparibauk. Ég segi bara "kommon" þú þarna anarkisti, bankarnir eru nú ekkert svo feitir að þeir geti verið að telja upp úr einhverjum baukum ókeypis.
Svo hafa anarkistarnir líka haldið því fram á límmiðum hér og þar um bæinn að bönkunum sé alveg sama um mann. Ég meina "kommon" þið þarna ljótu anarkistar og bankahatarar. Ég get nú bara sagt ykkur hvað bankinn minn er æðislegur. Um síðustu jól sendi bankinn minn mér bréf og sagði mér að hafa ekki áhyggjur af jólaneyslunni minni því ég gæti bara fengið að borga þá neyslu niður á þremur árum. Mér finnst það æðislegt og borga einhverja smá vexti í slíkum tilvikum með glöðu geði.
Svo eru einhverir aðrir anarkistar (eða kommúnistar ég rugla þeim alltaf saman) sem eru fúlir og öfundsjúkir bara af því að bankarnir vilja ekki bæta kjör viðskiptavina sinna heldur frekar halda tónleika, hlaup og stórar veislur með Elton John og fleirum flottum gæjum hér heima og í útlöndum. En ég segi bara þessu ljóta fólki að hætta að vera svona hallærislegt því við viðskiptavinir bankanna fáum æðisleg kjör og geggjaða þjónustu og ég meinaða veit þetta fólk ekki hvað það er "kúl" að hlusta á Elton John.
Það er því ekki af ástæðulausu sem ég hleyp 21 km með bros á vör til styrktar Glitni hinum frábæra. Ég segi bara lengi lifi Glitnir og allir hinir frábæru bankarnir á Íslandi húrra húrra húrra.
Svo er bara að vona að ég komist í mark "
Þannig var nú sú færsla
JB
9.10.2008 | 22:42
Aðdáendaklúbbur Eltons Johns fékk tækifæri til að læra siðfræði
Í byrjun maí 2007 þegar mér var farið að blöskra græðgi forystumanna bankanna á Íslandi eða aðdáendaklúbbs Eltons Johns eins og hópurinn kallast stundum bauð ég þeim öllum á siðfræðinámskeið. Margir héldu annaðhvort að ég væri að grínast eða galinn. Ég var alla vega ekki að grínast en hvort ég var galinn ætla ég ekki að leggja mat á. Þetta var á þeim tíma þar sem allir vildu taka þátt í gullgreftrinum og engar siðferðisspurningar þóttu fínar. Ég var bara álitinn púkó. Enda fór svo að enginn skráði sig á námskeiðið. En til að rifja upp þá var bréf mitt til bankamannana svohljóðandi:
"Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að ýmsar starfsstéttir hafi sótt námskeið í siðfræði til þess að efla hæfni sína til að takast á við álitamál í starfi. Heilbrigðis- og uppeldisstéttir hafa þar verið í farabroddi.
Fimmtudaginn 10. maí 2007 kl. 20.00-22.00 mun bankastjórum og öðrum forystumönnum fjármálafyrirtækja standa til boða siðfræðinámskeiðið Hversu mikið er nóg?
Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um grundvallarhugmyndir siðfræðinga um hið góða líf og fá bankamennirnir tækifæri til þess að rökræða siðferðilegar spurningar hve varðar lífsgæði og lífsstíl, samfélagslega ábyrgð, launamun í landinu, fátækt og ríkidæmi, þarfir og gerviþarfir og hvað sé siðferðilega rétt og siðferðilega rangt í heimi þar sem veraldleg gæði eru takmörkuð.
Þátttakendur á námskeiðinu fá jafnframt tækifæri til þess að tengja hugmyndir sínar um lífstíl og lífsgæði við hamingjuna og tilgang lífsins.
Leiðbeinandi á námskeiðinu er Jóhann Björnsson sem lokið hefur BA prófi í heimspeki frá HÍ og MA prófi í sömu grein frá Katholieke Universiteit Leuven í Belgíu.
Skráningar á námskeiðið skuli berast í tölvupósti á netfangið johannbj@hotmail.com og rennur skráningarfrestur út miðvikudaginn 9. maí næstkomandi.
Námskeiðið er forystumönnum banka og fjármálafyritækja ókeypis."
Því miður sá enginn bankamaður ástæðu til þess að mæta, en ég held að það hefði ekki gert þeim neitt verra að koma á námskeiðið. Þeir hefðu þá kannski öðlast pínulítinn skilning á því að það er eitthvað rangt við það að ræna ævisparnaði almennings eins og eldra fólks og einstæðra foreldra.
Þetta var svona smá söguleg upprifjun um tilboð sem bankamenn fengu og gátu svo sannarlega auðveldlega hafnað.
JB
Heimspeki | Breytt 15.3.2009 kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2008 | 20:33
Verða íslensk menntayfirvöld að hlíta mannréttindadómstólnum?
Fimmtudaginn 9. október kl. 16:00 heldur Siðmennt opinn fund um dóm Mannréttindadómstólsins í Strassborg frá 29. júní 2007. Hann verður haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins og mun Lorentz Stavrum hæstaréttarlögmaður rekja sögu hans en málið tapaðist fyrir öllum dómstigum Noregs þ.m.t. hæstarétti en fékk meðbyr hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og eftir 12 ára baráttu fyrir dómstólum fékkst jákvæð niðurstaða hjá Mannréttindadómstólnum. Stavrum mun m.a lýsa hvaða áhrif dómurinn hafði á lög og námsskrá í kristnum fræðum í Noregi. Eftir erindi sitt mun hann svara fyrirspurnum. Erindi hans verður á ensku.
Vegna sambærilegrar stöðu á Íslandi og Noregi varðandi lög um grunnskóla og námsskrá í kristinfræðum er spurning hvort yfirvöld menntamála á Íslandi verði að taka tillit til dómsins og breyta námsskrá og þ.a.l. námsefni. Spurt er hvort Íslendingar þurfi að taka tillit til dómsins eða ekki? Menntamálaráðherra hefur, í samtali við stjórnamenn Siðmenntar, lýst yfir að engar breytingar verði gerðar - þrátt fyrir dóminn. Stjórn Siðmenntar hefur ítrekað bent yfirvöldum á að hlíta beri dómnum.
Forsaga málsins
Foreldrar nokkurra barna í Noregi ákváðu að lögsækja Norsk menntafyrirvöld vegna kristinfræðikennslu í almennum skólum. Foreldrarnir, sem eru húmanistar, töldu stjórnvöld brjóta á mannréttindum sínum og þó sérstaklega á rétti þeirra að ala börn sín í þeirri lífsskoðun sem þau aðhylltust. Forsögu málsins má rekja til laga um grunnskóla sem kvað sterklega á um kristni en ekki síður með vísun í námsskrár í kristinfræðum. Foreldrarnir gagnrýndu ofur áherslu á kristni og töldu það stangast á við lífsskoðanir sínar og að það væri ekki hlutverk ríkisvaldsins að ala börn þeirra upp í annarri lífsskoðun. Eftir dóminn ákváðu norsk menntayfirvöld að breyta kristinfræði kennslu og innihaldi hennar með meiri áherslu á trúarbragðafræði, siðfræði og kennslu um aðrar lífsskoðanir.
LORENTZ STAVRUM
Fæddur 1949 og er hæstaréttardómari og rekur eigin lögfræðistofu með áherslu á mannréttindi. Hann er dósent í alþjóðalögum við Háskólann í Lillehammer. Hann var áður lagalegur ráðgjafi dómara og lögmanna í Afganistan og hefur nokkrum sinnum verði valin í kosningaeftirlitsnefndir á vegum Evrópusambandsins og Öryggisnefndar Evrópu (ÖSE). Hann var forseti Human-Etisk Forbund, samtaka húmanista í Noregi, félagi í Alþjóðanefnd um viðbrögð við áföllum á vegum Norska dómsmálaráðuneytisins og félagi í Alþjóðlegri nefnd um lögfræðiaðstoð á vegum Norsku lögmannasamtakanna.
Nánari upplýsingar veitir Bjarni Jónsson í síma 896 8101 eða í netfanginu bja@lausnir.net
4.10.2008 | 20:37
Aðalhagfræðingurinn Guð er kominn í málið
Í dag hafa borist fregnir af því að fullt var út úr dyrum í nýrri verslunarmiðstöð á Korputorgi. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en sagan segir að fólk hafi aðallega verið á höttunum eftir hnéhlífum sem þykja ómissandi í "kreppunni". Ástæðan fyrir þessari auknu ásókn í hnéhlífar er sú að nú er aðeins einn hagfræðingur eftir sem getur bjargað okkur og sá heitir hvorki meira né minna en guð. Já guð sjálfur er kominn í málið. En til hvers hnéhlífar í þessu samhengi. Það eina sem á eftir að gera og er hægt að gera í efnahagasmálunum er að leggjast á hnéin og biðja daginn út og daginn inn og þar reynast hnéhlífar vel.
En Gunnar nokkur áhugamaður um hagfræðinginn guð segir í Fréttablaðinu í dag að í núverandi efnahagsástandi leggi hann allt sitt traust á guð og svo leggst hann á bæn með fullt af öðru fólki sem biður til guðs um að efnahagsmálin verði öðruvísi en þau eru (sjá bls.54)
Ja hérna hvað skyldi "kreppan" koma með næst?
JB