Helgarheimspekin: Þegar gaffall verður tilefni til heimspekilegra pælinga

Fyrir löngu síðan setti ég stundum um helgar heimspekilegar pælingar á síðuna mína sem ég kallaði helgarheimspekina. Þetta var oftast eitthvað sem lesendur gátu spáð í yfir helgina og rætt við vini og kunningja. Ég held að það væri margt vitlausara en að taka upp þráðinn á ný með helgarheimspekina. Og hér kemur heimspeki helgarinnar:

Í vikunni var ég á þorrablóti í ónefndum grunnskóla hér í borg þar sem foreldrar og nemendur komu saman til borðhalds. Maturinn var afskaplega góður og ég fór tvær ferðir til þess að fá mér á diskinn. Við hlið mér sat maður sem ég þekki ekki og hafði hann farið að fá sér ábót stuttu á undan mér. Það gefur því auga leið að hann var fyrri til að setjast aftur. Nema hvað eins og gengur legg ég hnífapör mín frá mér á borðið áður en ég stend upp. Þegar ég kem síðan aftur í sæti mitt finn ég ekki hnífapörin mín. Ég áttaði mig þó fljótt á því að fyrrgreindur sessunautur minn var með gaffalinn minn uppí sér. Hafði hann óvart haldið hnífapör mín vera sín. Ég spyr: "getur ekki verið að þú sért að nota hnífapörin mín?". Jú rétt var það, þannig að ég skrepp bara og sæki önnur.

En þetta atvik vekur upp heimspekilegar spurningar og þá er komið að ykkur lesendur góðir að takast á við gaffalheimspekina. Og svari nú hver eftir bestu getu:

1) Ef þú hefðir verið í sporum þess sem tók gaffal í misgripum frá sessunaut þínum og værir farinn að nota hann myndir þú þá ljúka máltíðinni með þeim gaffli eða myndir þú snúa þér að þeim hnífapörum sem þú notaðir í upphafi og voru við hliðina á diskinum þínum?

2) Ef þú hefðir verið í mínum sporum hefðir þú þá A) Óskað eftir því að sessunautur þinn skilaði gafflinum þannig að þú gætir haldið áfram að borða þar sem frá var horfið? B) Gert eins og ég gerði, þ.e.a.s. náð í ný hnífapör eða C) óskað eftir að fá að nota hnífapörin hans sem hann notaði áður en hann fékk sér ábót og voru á borðinu?

Gangi ykkur vel með þetta.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Blessaður Jóhann.

Mín sjálfs-rýni er eftirfarandi.

1)Ég hefði sótt mér ný hnífapör - ef engin hrein hnífapör hefðu veriðtil - þá hefði ég tekið þau sem ég notaði í upphafi.Ég hefði líka tekið ný hnífapör fyrir sesunautinn.

2)B) Náð mér í hein hnífapör - og einig fyrir sessunautinn.

Skemmtilegt hjá þér.

Takk fyrir.

B.E.

Benedikta E, 14.2.2009 kl. 23:48

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ætli ég hefði ekki rifið hnífapörin út úr manninum og haldið síðan áfram að borða eins og ekkert hefði í skorist.

Í fullri alvöru samt, spurningin er hver eðlileg samskipti væru við þessar aðstæður, hvort væri skynsamlegra að þegja og sækja ný hnífapör, eða láta manninn vita og vonast eftir skynsamlegum viðbrögðum frá honum, eins og "ó, afsakið," eða eitthvað slíkt. 

Reyndar hefði mér þótt réttast að maðurinn sem tók vitlaus hnífapör biði þér að sækja ný í staðinn fyrir þau sem hann tók í misgripum. Annað er til marks um ákveðið sinnuleysi (apatíu) sem gerir engum gagn við ólíkar aðstæður.

Þannig er hægt að sjá að vandamálið sem þú sást fyrir þér er djúpstæðara en í fyrstu virðist. Hvað ef allir sýndu við allar mögulegar aðstæður slíkt sinnuleysi? Er það ekki til marks um skort á kristinni siðgæðisvitund, sem aftur á móti gæti átt ágætlega við um aðstæðurnar, sem eru tengdar þorranum og þar af leiðandi öðrum gildum en þeim kristnu.

Áhugavert.

Með bestu kveðju,

Hrannar

Hrannar Baldursson, 15.2.2009 kl. 14:06

3 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Eg hefði náð mér í ný hnífapör og ekki rætt málið við sessunaut minn. Fólk er yfirleitt ekki hrifið af að nota hnífapör sem aðrir hafa notað án þess að þvo þau áður. Þar sem sessunautur minn var byrjaður að nota mín hnífapör og skaðinn sem sagt skeður, held ég að honum hefði liðið betur án þeirra vitundar að hann væri að nota vitlaus hnífapör.

Skemmtilegar pælingar hjá þér:)

Ásta Kristín Norrman, 20.2.2009 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband