25.3.2009 | 19:44
Á maður þá ekki að leggja allt traust sitt á guð?
Hér kemur smá pæling fyrir þau ykkar sem hafið áhuga á trúarheimspeki.
Á mbl.is birtist eftirfarandi frétt:
"Túnískur flugmaður hefur verið dæmdur til tíu ára fangelsisvistar eftir að hann lét neyðaráætlun flugfélags síns lönd og leið er flugvél sem hann stjórnaði hóf að missa hæð árið 2005.
Í stað þess að senda út hjálparbeiðni til flugturnsins lagðist flugmaðurinn á bæn. Atvikið átti sér stað um borð í vél flugfélagsins Tuninter úti fyrir strönd Sikileyjar og er rakið til þess að vélin hafi verið við það að verða bensínlaus.
Flugmaðurinn lenti síðan vélinni á hafi úti fyrir Sikiley en í nauðlendingunni létu 16 af 39 farþegum og áhafnarmeðlimum um borð lífið.
Í dómi yfir manninum segir að hann hafi bæði brotið reglur um viðbrögð í neyð með því að senda ekki út hjálparbeiðni og tekið ranga ákvörðun er hann ákvað að lenda á hafi fremur en að reyna að komast til næsta flugvallar."
Þetta atvik vekur óneitanlega upp þá spurningu hvort rangt sé að leggja allt traust sitt á guð þegar maður er staddur í vanda? Ef ekki í svona tilvikum hvenær þá í ósköpunum er ástæða til þess að treysta á guð. Það er spurning dagsins.
Gangi ykkur vel að svara.
JB
![]() |
Snéri sér til Guðs en ekki flugturnsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.3.2009 | 17:45
Dapurt í landi skoðanafrelsis?
Kjartan nokkur Jónsson prestur flutti pistil í Hafnarfjarðarkirkju þann 22. mars s.l. þar sem hann greindi frá sorg sinni yfir félaginu Siðmennt.
"Það er því dapurt hve mikinn hljómgrunn lítil samtök eins og Siðmennt hafa meðal þjóðarinnar sem reyna allt sem þau geta til að grafa undan trúverðugleika kirkjunnar og iðkunar kristinnar trúar á opinberum vettvangi þjóðfélagsins. Þeirra æðsta viðmið er maðurinn og skynsemi hans, sem er mjög brigðul eins og sagan sýnir."
Sjá ræðuna í heild sinni á slóðinni http://tru.is/postilla/2009/3/lifid-fra-odru-sjonarhorni
Ég spyr hvort það sé ekki bara gott í lýðræðislegu samfélagi að ekki séu allir sammála og að við skiptumst á skoðunum? Ég get ekki séð neitt dapurt við það.
Hvað finnst ykkur kæru lesendur?
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.3.2009 | 21:01
Ung vinstri græn fá fullt hús stiga
Vel heppnuðum landsfundi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs lauk síðdegis í dag. Mörg góð mál voru tekin á dagskrá og var að fjöldi þeirra samþykktur. Ef svo fer að VG verður í ríkisstjórn eftir kosningar munum við sjá mikla breytingu til batnaðar á ýmsum sviðum þjóðfélagsins.
Eins og gengur og gerist í stórum og öflugum stjórnmálaflokki takast einstaklingar og hópar á málefnalega. Sjálfur hef ég aldrei samsamað mig einni "klíku" innan flokksins annarri fremur, en ég held að ég verði að viðurkenna að helst höfðaði kröftugur og málefnalegur málflutningur ungra vinstri grænna til mína á þessum landsfundi. Það er því full ástæða til þess að vekja athygli á síðunni þeirra www.vinstri.is
Ekki slæmt að vera ungur vinstri grænn í anda.
JB
21.3.2009 | 13:27
Góð tillaga að ályktun frá UVG á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
Ung vinstri græn koma með nokkrar metnaðarfullar og góðar tillögur að ályktunum á landsfundi VG sem nú stendur yfir. Ein er sú tillaga sem ég vil sérstaklega vekja athygli á og er hún þessi:
"Veraldleg lífsskoðunarfélög öðlist sömu lagalegu réttindi og trúarleg lífsskoðunarfélög."
Rökstuðningurinn sem fylgir tillögunni er þessi:
"Með núverandi löggjöf er lífsskoðunarfélögum gróflega mismunað eftir því hvort meðlimir þeirra trúa á yfirnáttúruleg fyrirbæri eður ei. Slíkt stenst ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, en þar segir: "Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.""
Nú er það líklega svo að ekki vita allir hvað lífskoðunarfélag er og hvert hlutverk slíks félags er. Hér á landi er starfandi eitt félag sem telst lífskoðunarfélag og heitir Siðmennt og verður það 20 ára á næsta ári. Hlutverk þess er m.a. að veita þá þjónustu og ráðgjöf til fólks sem ekki tilheyrir trúfélögum og er sambærileg þeirri þjónustu sem trúfélög veita sóknarbörnum sínum. Hér er um að ræða ýmsar athafnir s.s. giftingar, útfarir og nafngjafir auk þess að koma að félagslegum og tilfinningalegum stuðningi s.s. að bregðast við áföllum og sorg .
Nú hefur það staðið í vegi fyrir því að félagið nái að sinna öllu því fólki sem kýs að standa utan trúfélagi að það hefur að mestu leyti verið rekið í sjálfboðavinnu. Fólk sem stendur utan trúfélaga hefur því ekki átt kost á sambærilegri þjónustu og þeir sem tilheyra trúfélögum. Hér er því um grófa mismunun að ræða sem ber að leiðrétta sem fyrst.
Nú ber að hafa það í huga að til þess að fá skráningu sem lífskoðunarfélag þarf að uppfylla ákveðin skilyrði um starfsemi og þjónustu til félagsmanna. Það er ekki hvaða félag sem er sem ætti að geta fengið slíka skráningu. Það sem skráning myndi breyta frá því sem nú er, er að félagsmenn myndu greiða sóknargjöld sín til félagsins í stað þess að greiða þau til Háskóla Íslands og þar með fælist sú skylda á herðum félagsins að veita þeim ákveðna þjónustu sem trúfélög veita safnaðarmeðlimum sínum.
Við höfum fyrirmynd að slíku fyrirkomulagi frá Noregi en frá árinu 1981 hefur norska félagið Human etisk forbund verið skráð sem lífskoðunarfélag og haft sömu réttindi og sömu skyldur og önnur trúfélög þar í landi. Árið 2008 voru meðlimir Human etisk forbund 75.000 talsins.
Eru einhver haldbær rök sem mæla gegn því að að lífskoðunarfélög fái skráningu til jafns á við trúfélög?
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.3.2009 | 17:19
séra Gunnar tekur til starfa við sérverkefni á biskupsstofu
Ég hef aldrei verið mikið fyrir spádóma og aldrei talið mig hafa spádómsgáfu. En einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að ég gæti kannski orðið ágætur spámaður og gaman gæti verið að spá fyrir fólki og atburðum. Ég ætla því að skella mér í spádómsmálin og fyrsti spádómur minn á vonandi löngum spádómsferli er sá að innan ekki svo margra vikna mun sóknarpresturinn Gunnar sem verið hefur í fréttum að undanförnu hætta að stýra söfnuði sínum á suðurlandi og taka til við störf að ýmsum "sérverkefnum" á biskupsstofu. Mér sýnist líka þegar ég rýni betur í spádóminn að þetta starf að "sérverkefnum" verði í boði íslenskra skattgreiðenda þrátt fyrir kreppuna.
Og nú er bara að bíða og sjá hvort að ég hafi í raun spámannshæfileika.
JB
19.3.2009 | 22:36
Strokið, faðmað, þuklað og kysst. Er það framlag ríkiskirkjunnar til æskulýðsmála?
Hvers eiga börnin að gjalda? Ég er orðlaus.
JB
![]() |
Sóknarprestur sýknaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Núna spyr ég ykkur kæru lesendur. Hversvegna er það siðlaust að greiða um hundruð milljón króna arð til eigenda HB Granda?
Vonast ég eftir að sem flestir sjái sér fært að svara í "athugasemdir".
Síðan mun "HB Grandi seinni hluti" birtast á morgun eða í síðasta lagi á föstudaginn.
Góða skemmtun við að svara spurningunni.
JB
![]() |
Hreinlega siðlaust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.3.2009 | 12:02
Hvað ef allir starfsmenn leikskóla myndu slá börnin?
Fréttin um starfsmanninn á leikskólanum sem uppvís hefur orðið að því að slá barn vekur mann til umhugsunar um það fyrir hverja leikskólar eru. Barninu hefur verið boðin vist á öðrum leikskóla en ómögulegt þykir að vísa umræddum starfsmanni frá.
Þetta mál vekur upp eftirfarandi spurningu: Hvað ef allir starfsmenn á tilteknum leikskóla yrðu uppvísir að því að slá börnin? Yrðu þá öllum börnum boðin vist á öðrum leikskólum og eftir sætu starfsmennirnir einir með sjálfum sér? Eða hvað?
Það gleymist of oft þegar upp koma siðferðileg álitamál að spyrja "hvað ef allir...."
JB
![]() |
Sló barn utan undir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2009 | 17:59
Eru sigurvegarar í "fegurðarkeppnum" meira fallegir en þeir sem tapa eða minna ljótir?
Nú er nýbúið að krýna ungfrú Reykjavík. Ekki veit ég nákvæmlega út hvað samkeppnin gengur en sumir kalla þessa keppni fegurðarsamkeppni. Athyglisvert að keppa í fegurð ef það er rétt og þá má eflaust færa rök fyrir því að fegurðarkeppnir séu stórmerkilegur heimspekilegur viðburður, enda fagurfræðin ein af greinum heimspekinnar.
Mér verður hugsað til heimspekingsins Plótínosar þegar rætt er um fegurð en hann hefði eflaust verið fenginn til að dæma í nýafstaðinni keppni væri hann á meðal vor. En um fegurðina segir hann m.a.:
"Fegurðin býr einkum í sjóninni....... Og fyrir þeim sem eru að fikra sig frá skynjuninni upp á við eru lífshættir, athafnir, lundarlag og vísindi líka fögur og einnig fegurð dygðanna......Hvað skyldi nú valda því að við ímyndum okkur að líkamar séu fagrir.......Hvað er nú þetta sem er til staðar í líkömum og gerir þá fagra?......Hvað er það sem hrífur sjónir þeirra sem horfa á eitthvað, snýr þeim og dregur þá að sér og lætur þá njóta sjónarinnar?" (Plótínos Um fegurðina þý. Eyjólfur Kjalar Emilsson Hið íslenzka bókmenntafélag 1999)
Eflaust er fólk mismunandi fallegt en spyrja má hvað er fallegra við ungfrúna góðu sem kjörin var en annað fólk? Eða er hún kannski ekkert fallegri? Eða er keppnin Ungfrú Reykjavík ekki keppni í fegurð, í hverju felst þá keppnin?
Svo eitt í viðbót. Ég hef heyrt þá lýsingu á Sókratesi að hann hafi verið afskaplega ljótur: "Hann var lítill og feitur með útstæð augu og kartöflunef. En sagt var að hans innri maður væri fullkomlega dýrlegur." (Jóstein Gaarder)
Það er ekki annað hægt en að undrast yfir þessu öllu saman, en eftir stendur samt spurningin: Hvað einkennir fallegar manneskjur?
JB
![]() |
Magdalena Dubik kjörin ungfrú Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimspeki | Breytt 15.3.2009 kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.2.2009 | 21:50
Er einhver sem skilur hvað er verið að meina?
Í desember s.l. kom fram reglugerð frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt. En eins og margir vita er núna nýjasta tískan sú að áður en fólk fær íslenskan ríkisborgararétt þarf það að taka próf í íslensku.
Gott og vel. Þar með er ekki öll sagan sögð. Í umræddri reglugerð um prófin er málsgrein í 5. grein sem ég bara botna ekkert í, og hef ég nú ekki fengið greininguna seinfær og því síður tregur eða þroskaheftur þó ég sé kannski ekki sá "sleipasti" í heimi heldur. Ég held að ég sé bara svona meðalmaður. Nema hvað málsgreinin sem ég skil ekki er undir kafla sem fjallar um aðstoð við próftöku og hljómar svo:
"Ekki er gert ráð fyrir sérstakri aðstoð í próftökunni við þá sem eru óskrifandi eða ólæsir á latneskt letur ef ætla má að þeir gætu náð þeirri færni með hefðbundnu lestrar- og skriftarnámi."
Og nú spyr ég: A) Hvað er verið að meina með þessu? Og B) Ef þú ágæti lesandi setur þig í spor þess sem er hvorki læs né skrifandi á latneskt letur hvert er þá þitt hlutskipti varðandi umrætt próf og hvað tekur við að prófi loknu?
Hvet ég sem flesta til að skrifa svör sín niður í athugasemdir hér á síðunni.
JB