Þar sem nemendurnir þjást af frumspekilegu hjálparleysi. Heimspeki í skólum annar hluti

Heimspeki skyldufag (nokkur atriði úr erindi mínu á málþingi heimspekistofnunar um heimspeki og skóla).

Það gerðist nú í haust að ákveðið var að heimspeki yrði skyldufag í 8. bekk við Réttarholtsskóla. Og það sem meira er að það var jafnframt ákveðið að hálfur bekkur yrði í hverjum tíma eða ýmist 14 eða 15 nemendur. Hver nemandi í 8. bekk við skólann sækir semsagt tíma í heimspeki í 40 mínútur í viku hálfan veturinn.

Það er óhætt að fullyrða að þessir tímar eru af minni hálfu tilraunastarfsemi í vetur, enda að vissu leyti ólíkt að hafa nemendur sem eru í skyldunámi eða að hafa nemendur sem sækja heimspeki sem valgrein. Í kaffihlénu á málþinginu var spjallað um það hvort það yrði heimspekinni til góðs að gera hana að skyldufagi og reyndust menn allsammála um að ekki væri það víst. En mér finnst vert að gefa þessari tilraun tækifæri og sjá hver útkoman verður í lok skólaárs.

Það sem af er vetrar hefur þetta gengið alveg prýðilega þó ég sjái það fyrir mér að þessir tímar eigi eftir að ganga enn betur þegar ég hef áttað mig á því hvar áhugasvið unglinga liggja og rúmast geta innan heimspekinnar.

Það sem ég er fyrst og fremst að leitast við að gera í þessum hópi er heimspekileg samræða þar sem gagnrýnin, frjó og  skapandi hugsun er ætlað að leika ákveðið lykilhlutverk. Vissulega hefur það gengið misjafnlega enda um byrjendur í faginu að ræða, en þessir tíma lofa bara nokkuð góðu.

Í vetur höfum við m.a. tekið fyrir spurningar af vísindavef H.Í. Nemendurnir hafa fengið að búa til sínar eigin spurningar, við ræðum ýmis mál s.s. hvort rangt sé að borða ketti, hvort draugar séu til, hvað má finna heimspekilegt í ýmsum teiknimyndasögum og hvað einkenni þá sem teljast fallegir, hvernig maður fer að við að taka erfiðar ákvarðanir, hvort maður megi smakka vínber í matvöruverslunum og ef svo er hversu mörg þá (hvenær verður smökkun að þjófnaði var spurt), svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.

Ég hef tekið eftir því að varðandi viðbrögð nemendanna í kennslustundum þá má skipta þeim í þrennt í öllum bekkjum (en um er að ræða fjóra bekki)

Í fyrsta lagi eru það áhugasömu nemendurnir sem lyftast upp í sætunum og eru greinilega að finna sig í einhverju spennandi. Þetta eru ekki endilega nemendur sem eru áhugasamir eða til fyrirmyndar í öllum greinum, þetta eru nemendur sem heimspeki höfðar til.

Í öðru lagi eru það óþolinmóðu nemendurnir. "Viltu hætta þessum umræðum og segja okkur hvað svarið er?, Má maður borða ketti eða ekki? Eru draugar til eða ekki? Hvernig varð heimurinn til?" Hér eru nemendur sem óska sér þess að heimspeki sé bara eins og landafræði, að allar spurningar eigi sér svör sem má sannreyna rétt eins og mæla má dýpt stöðuvatna.

Svo í þriðja lagi eru það þeir sem örmagnast í kennslustundum. Þetta eru nemendur sem finnst það mjög yfirþyrmandi að takast á við svona erfiðar spurningar en flokkast ekki sem óþolinmóðir. Heimspekilegar spurningar verða þeim oft um megn og þeir falla fram á borðin og gefast upp. Og yfirleitt leyfi ég þeim bara að falla fram á borðin og þjást undir þessum skelfilegu heimspekilegu samræðum. Stundum getur þjáningin haft gildi, ekki síst þegar hún felur í sér frumspekilegt hjálparleysi eins og heimspekingarnir á meginlandinu kölluðu ástandið einu sinni.

En það er gaman að þessu.

JB

 


Að vera í námi þar sem blýantur er aldrei tekinn upp. Vel heppnað málþing um heimspeki í skólum

Málþing heimspekistofnunar sem haldið var í gær heppnaðist mjög vel. Fróðlegt var að hlusta á sjónarmið heimspekinga um skólastarf og hlutverk heimspekinnar í skólum landsins, bæði í erindum málþingsins og ekki síður í óformlegu spjalli í kaffihléum. Margt í íslensku skólastarfi var rætt á gagnrýnin hátt og þar á meðal sú tilhneiging í íslensku skólastarfi að líta á að magn námsefnis sé mikilvægara heldur en gæði þess. En það er eitthvað sem ég hef svo sannarlega orðið var við.

Sjálfur ræddi ég um heimspeki og siðfræðiástundun í Réttarholtsskóla en nú er málum þannig háttað þar að allir nemendur í 8. bekk sækja tíma í heimspeki í eina önn, allir nemendur í 9. bekk sækja tíma í siðfræði í eina önn og þar að auki er 9. og 10. bekk boðið upp á heimspeki sem valgrein.

Allnokkra athygli fékk ég fyrir lýsingu mína á heimspekivalinu sem ég býð upp á við skólann og þótti það allróttækt að hafa hvorki námsmat né verkefnaskil og var ekki laust við að sumir málþingsþátttakendur hefðu af því áhyggjur hvort að ég hefði fengið leyfi skólayfirvalda til að skipuleggja námið þannig en ég hef aldrei fundið fyrir öðru en fullu trausti til að skipuleggja heimspekinámið á þann hátt sem ég tel að gagnist nemendum sem best. 

Hér á eftir fer brot úr erindi mínu á málþinginu þar sem ég útskýri heimspekivalið: 

"Undanfarin sex ár hefur heimspeki verið kennd sem valgrein í 9. og 10. bekk. Hver hópur sækir tíma í 80. mín á viku í eina önn. Í fyrstu var um tiltölulega fámenna hópa að ræða. Þessi valgrein hefur hinsvegar orðið vinsælli og núna er 28 nemenda heimspekihópur og eftir áramót verður annar álíka fjölmennur ef ekki aðeins fjölmennari. Í þessa tíma eru allir velkomnir svo lengi sem húsrúm leyfir.

Það segir sig sjálft að eiginlegar heimspekilegar samræður eru ekki ástundað í svo stórum hópi svo að einhverju gagni megi verða. Þó eigum við til með að taka oft nokkuð góða spretti í skoðanaskiptum og er það fyrst og fremst vegna þess að hér er um valgrein að ræða og því sjaldan sem nemdur velja fagið sem ekki sýna því neinn áhuga. Agavandamál hafa því yfirleitt ekki verið fyrir hendi.

Eftir að fjöldinn í þessu fagi fór að verða þetta mikill þá hefur fyrirkomulagið verið á þá leið hér sé um að ræða vettvang þar sem varpað er fram fróðleik og pælingum um heimspeki í sinni víðustu merkinu, heimspekisöguna, persónur heimspekinnar og viðfangsefni auk tengina við hversdagslegt líf nemenda og annars almennings. Þetta er fyrst og fremst vettvangur til þess að velta vöngum, upplifa, njóta og fræðast í afslöppuðu andrúsmlofti.

Það þýðir að allar mælingar hafa verið aflagðar. Það eru engin próf, það eru engin heimaverkefni, blýntur er mjög sjaldan tekinn upp í þessum tímum.

Þetta hefur orðið til þess að sá hópur nemenda (ekki síst drengir) sem eiga erfitt með að fóta sig í hefbundu námi þar sem mikið er lesið og skrifað og mikið prófað og mælt hafa verið að koma í heimspeki, fundið sig þar og staðið sig nokkuð vel.

Ekki er heldur óalgengt að aðrir nemendur en þeir sem valið hafa heimspeki óski eftir að fá að koma í einn og einn tíma sem gestir t.d. ef einhver önnur kennslustund í skólanum fellur niður. Einnig er til í myndinni að þeir nemendur sem eru mikið fjarverandi í ýmsum kennslustundum t.d. vegna þess að þeir standast ekki þær kröfur sem gerðar eru, þola ekki kennarann sinn eða af einhverjum öðrum ástæðum koma og óska eftir því að vera gestir í heimspeki í stað þess að þvælast einir um ganga skólans. Þeir óska semsagt eftir tímabundnu athvarfi frá "illsku" skólalífsins.

Sú reynsla hefur verið mér enn frekari hvatning um að það sé réttlætanlegt að í skólum sé hægt að læra og þroskast án þess að allt sé mælt og án þess að allt sé njörvað niður í streð, stress og "heimavinnuþrældóm." Það má kannski segja sem svo að yfirmarkmiðið í þessum tímum sé sú að í tímunum ríki hamingjan ein.

Þegar ég hóf að bjóða upp á heimspeki sem valgrein lagði ég fyrir skrifleg verkefni og gaf einkunnir en mér fannst það ekki skila þeim áhuga og þeirri gleði af því að stunda heimspeki sem ég finn núna. Nemendur voru of uppteknir af því að standa sig, of uppteknir af því að fá einkunnir og urðu fyrir vikið alveg hundleiðinlegir.  Og þeir urðu mjög uppteknir að frammistöðumati og  aðalspurningarnar voru eitthvað á þessa leið: "af hverju fékk ég þessa einkunn en hinn fékk hina einkunina?" Í dag þegar við erum laus við frammistöðumatið getum við einbeitt okkur að heimspekinni og ef einhver nemandi spyr mig einhvers eru spurningarnar undantekningarlaust heimspekilegs eðlis.

Skólinn er nefnilega fyrir fleiri heldur en þá sem passa inn í þennan hefðbundna ramma sem flestir grunnskólar starfa eftir og heimspekin getur að mínu mati tekið við öllum sem á annað borð geta hugsað. Það er eina skilyrðið sem ég set til þess að fá að sitja tímana og það er að geta hugsað.

Ég mæli oft með heimspekibókum sem ég segi nemendum að þeir geti fengið lánaðar eða keypt og lesið sér til skemmtunar og ég veit, sumir hafa sagt mér það að þeir hafi farið og útvegað sér þær bækur sem ég mæli með. Slíkt frumkvæði nemenda, þó ekki sé það mjög oft er mjög ánægjulegt."

Margt fleira ræddi ég á málþingi sem ég set e.t.v. síðar á síðuna.

JB

 


Svartstakkarnir mega þakka guði sínum

Það hefur ekki farið framhjá neinum hasarinn í kringum réttmæta kröfu samkynhneigðra um giftingar. Svartstakkarnir svonefndu hafa farið þar fremstir í flokki gegn samkynhneigðum. Mér varð hugsað til þess hversu þakklátir guði sínum þeir svörtu  mega vera að þurfa ekki að takast á við giftingarmálið sem 24 stundir greindu frá í dag. Þar segir frá indverja nokkrum sem gerði sér lítið fyrir og giftist hundi. Athöfnin átti sér stað í hindúahofi og var hundurinn klæddur appelsínugulum sari og blómsveig og fékk brauðsnúð að éta til að halda upp á giftinguna.

Giftingarmál samkynhneigðra er einhvernveginn bara barnaleikur í samanburði við giftingarmálið indverska.

JB


Heimspeki í skólum

Ég vek athygli á málþingi um heimspeki í skólum sem verður haldið á laugardaginn. Allir velkomnir.

Heimspekistofnun stendur fyrir málþingi um heimspeki í skólum laugardaginn 17. nóvember kl. 10-16 í stofu 101 í Lögbergi. Á málþinginu verður rætt um heimspekilegt samræðusamfélag, heimspeki í leik- og grunnskóla og heimspekikennslu í framhaldsskólum.

Dagskrá

10:00 Hreinn Pálsson, Hvernig myndast heimspekilegt samræðufélag á meðal nemenda og hver eru helstu einkenni þess?

10:40 Geir Sigurðsson, Samfélags- eða samkeppnishæfni? Erindi barna-heimspekinnar við íslenskan samtíma.

11:20 Ólafur Páll Jónsson, Skóli og menntastefna

12:00 Hlé

13:00 Brynhildur Sigurðardóttir, Heimspekival í unglingaskóla

13:40 Jóhann Björnsson, Siðferðilegt sjálfræði - Þróunarverkefni í Réttarholtsskóla

14:20 Róbert Jack, Heimspekitilraunir í framhaldsskólanum

15:00 Hlé

15:20 Ármann Halldórsson, Heimspeki og framsækin kennslufræði: Aðferðir úr heimspekipraktík og efling lýðræðislegs framhaldsskóla

16:00 Kristín H. Sætran, Tími heimspekinnar í framhaldsskólanum.

Staður: Lögberg 101


Tatjana Latinovic fékk húmanistaviðurkenningu Siðmenntar fyrir störf að mannúðar- og mannréttindamálum

Í dag veitti Siðmennt í þriðja skipti húmanistaverðlaun sín sem veitt eru fyrir störf að mannréttinda - og mannúðarmálum. Fyrir tveimur árum hlutu Samtökin 78 viðurkenningu fyrir störf að réttindamálum samkynhneigðra og á síðasta ári hlaut Ragnar Aðalsteinsson lögmaður viðurkenninguna fyrir störf að mannréttindamálum. Í ár ákváðum við í stjórn Siðmenntar að veita Tatjönu Latinovic árlega húmanistaviðurkenningu fyrir störf sín að mannúðar- og mannréttindamálum.

Tatjana Latinovic er vel að þessari viðurkenningu komin þar sem hún hefur í mörg ár starfað að mannúðar - og mannréttindamálum t.d. sem formaður í stjórn félags kvenna af erlendum uppruna, í stjórn Kvennaathvarfsins og í stjórn Alþjóðahúss. Einnig hefur hún unnið að málefnum flóttamanna hér á landi. Hún vann einnig á vegum Rauða krossins á stríðssvæðum í Bosníu.

Athöfnin í dag sem haldin var Tatjönu til heiðurs á Kaffi Reykjavík var falleg. Formaður Siðmenntar Hope Knútsson flutti stutt ávarp og afhenti Tatjönu viðurkenninguna og tvær bókagjafir og Hörður Torfason flutti tvö lög. Tatjana er svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin.

Til hamingju Tatjana Latinovic.

Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir sem hafa lagt talsvert af mörkum í þágu mannréttinda á Íslandi eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna. Stefna húmanismans birtist m.a. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna en í stefnuskrá Siðmenntar segir m.a.:

Siðmennt reynir að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.

 JB

 


mbl.is Tatjana Latinovic fékk húmanistaviðurkenningu Siðmenntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúin, menningin og kirkjan

 Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu í dag þar sem Gunnari Jóhannessyni sóknarpresti er svarað:

Eftir að Siðmennt stóð fyrir veraldlegri athöfn fyrir brúðhjón í Fríkirkjunni í Reykjavík hefur áhugi á veraldlegum athöfnum aukist.

Margir hafa lýst ánægju sinni með framtak Siðmenntar sem mun framvegis bjóða upp á aðrar veraldegar athafnir en fermingar, en það hefur félagið gert lengi. Siðmennt hefur þegar staðið einu sinni að athöfn fyrir brúðhjón og má geta þess að önnur sambærileg athöfn hefur þegar verið ákveðin. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð hafa ekki allir verið sáttir og má þar nefna sóknarprestinn Gunnar Jóhannesson. Telur hann rangt að athafnir og uppákomur sem ekki teljast trúarlegar eigi sér stað í kirkju.

Ræðir hann sérstaklega umrædda athöfn sem Siðmennt hélt í Fríkirkjunni.
Með afstöðu sinni boðar Gunnar stefnubreytingu varðandi nýtingu kirkjuhúsnæðis. Sumir prestar hafa verið reiðubúnir að gifta fólk veraldlegri giftingu ef það kýs svo. Formaður Siðmenntar giftist t.d. veraldlega í Dómkirkjunni í Reykjavík fyrir löngu síðan af þáverandi presti kirkjunnar, sem varð við óskum um veraldlega athöfn. Gunnar fær mann til að velta því fyrir sér hvort Þjóðkirkjan sé að loka dyrum sínum fyrir öllum þeim menningarviðburðum sem ekki teljast beinlínis trúarlegir.

Sjálfur hef ég margoft mætt á atburði í kirkjum sem hafa ekkert með trú sem slíka að gera. Í kirkjum hef ég séð leikrit, farið á tónleika og tvisvar sinnum hef ég haldið heimspekifyrirlestra, annar var meira að segja um efahyggju. Enginn hefur haft út á það að setja. Þvert á móti hafa slíkar uppákomur talist jákvætt innlegg í menningarlíf landsmanna. En þegar fólk sem hefur gift sig vill opinbera veraldlegt hjónaband sitt fyrir vinum sínum í kirkju vegna aðstöðunnar sem þar er fyrir hendi þá boðar Gunnar Jóhannesson, fyrir hönd kirkjunnar stefnubreytingu. Nú á að úthýsa öllum viðburðum úr kirkjunum sem ekki lofsyngja guð. Það eru stóru fréttirnar sem boðaðar eru.

Siðmennt mun hins vegar halda áfram að bjóða upp á veraldlegar athafnir fyrir fólk sem vill halda upp á stóru stundirnar í lífi sínu. Í nágrannalöndunum hafa slíkar athafnir tíðkast í áratugi.

JB


Rök og rifrildi. Aðeins meira um rökræður, kappræður, Kastljósið að ógleymdum Sókratesi

Nokkrir einstaklingar hafa haft samband við mig vegna færslunnar sem birtist hér á undan. Hafa skoðanir verið skiptar um hana eins og eðlilegt má teljast. Hafa sumir tekið undir sjónarmið mín en aðrir segja að ég hafi verið ósanngjarn og jafnvel meiðandi í ummælum mínum. Slíkt var ekki ætlunin og ef svo reynist biðst ég afsökunar. Einn ágætur gagnrýnandi minn taldi það grín að ég skyldi hafa boðið Sókratesi að taka þátt í pistli mínum, en svo var alls ekki. Sókrates gegnir nefnilega lykilhlutverki í afstöðu minni til rökræðunnar.

Ég hef lengi haft áhuga á pólitískum umræðum í fjölmiðlum en ég hef lengi verið á þeirri skoðun að of oft skortir á að telja megi hana hafa annan tilgang en skemmtigildi. Þegar hasarinn verður mikill, frammíköllin, æsingurinn og rifrildið verða margir ansi kátir. Ég hef stundum haft þann grun að sumir þátttastjórnendur geri út á hasarinn í stað yfirvegaðrar málefnalegrar umræðu. Ef maður ætlar sér að vera yfirvegaður í samræðum þá er maður að taka á viðmælendum með silkihönskum er stundum sagt. En misskilningurinn er sá að það þarf ekki að hafa blóðþrýstinginn í botni til þess að taka megi á viðmælendunum af hörku. Og hér kemur samræðu- og spurningatækni Sókratesar til sögunnar. Yfirvegaður var hann karlinn en mjög beittur, enda náði hann árangri í rökræðum sínum. Hversvegna má ekki gera meira af því að rökræða þjóðmálin í stað endalausrar kappræðu og æsings?

Því miður virðast margir ekki gera sér grein á þeim mun sem er á kappræðu annarsvegar og rökræðu hinsvegar. Það kappræða bara allir, enda ekkert skrítið því það er eitthvað sem við höfum alist upp við. Ef ágreiningsmál eru rædd í skólum er kapprætt, þú átt að vinna andmælanda þinn en ekki komast að kjarna málsins. Ef ágreiningsmál eru rædd í fjölmiðlum er kapprætt, þú mátt ekki sýna nein merki efasemda eða umhugsunar, kaffærðu viðmælanda þinn og þú sigrar ef þú hefur hærra. Þannig alast börnin upp við samræðuhefð kappræðunnar.

Ef við færum að rökræða meira fengjum við meira svigrúm til að tjá okkur, við fengjum frekara tækifæri til þess að komast að því sem er kjarni málsins hverju sinni, við myndum ekki líta á andmælanda okkar sem "óvin"  heldur er rökræðan ákveðið tæki til þess að komast að betri og réttari niðurstöðum í því máli sem um er rætt hverju sinni. Á meðan kappræðan krefst þess að gripið sé mikið frammí, krefst upphrópana og sleggjudóma krefst rökræðan góðra raka. Og síðast en ekki síst í rökræðunni leyfist sá "skelfilegi glæpur" að hugsa málið, efast og jafnvel skipta um skoðun.

En í fjölmiðlunum verður væntanlega seint rökrætt. Hversvegna? Nú eins og fjölmiðlamenn segja svo oft: "tíminn er alveg að hlaupa frá okkur." Enginn má vera að neinu í fjölmiðlum nema helst öskra og æpa í stuttan tíma.

JB


Svakalega hefði Sókrates verið þreyttur á Sigmari í Kastljósinu

Ég hef lengi verið að kenna unglingum heimspeki þar sem grundvallaratriðið er að ræða saman af yfirvegun þannig að eitthvað gangi í samræðunum, þannig að ákveðin virðing eigi sér stað gagnvart samræðunni sem samskiptaformi.

Nú hlustaði ég fyrr í kvöld á Kastljósið þar sem Sigmar Guðmundsson ræddi við forystumenn nýja meirihlutans í borginni og guð minn góður hversu meistari samræðunnar Sókrates sjálfur hefði verið þreyttur á Sigmari ef hann hefði verið uppi um 400 árum fyrir okkar tímatal og verið þátttakandi í samræðum í Aþenu til forna.

Karl greyið (þeas Sigmar) spurði og spurði en leyfði varla nokkrum manni að svara, hann greip frammí og hvessti sig og var frekar æstur og ég veit ekki hvað. Þetta var eiginlega æðislegt sýnishorn í því hvernig góð samræða á ekki að fara fram. Það er spurning hvort ekki megi nota þennan þátt í heimspekikennslu um það hvernig samræður eiga ekki að fara fram.

Þarna skorti gjörsamlega alla yfirvegun umræðustjórnandans sem nauðsynleg er öllum þeim sem vilja komast til botns í spennandi málum.

Það skyldi þó ekki vera að Sigmar sé sjálfstæðismaður sem hugsanlega hefur haft áhrif á frammistöðu hans í umræðunum?

Sjá þetta óborganlega kennslumyndband í því hvernig ekki á að ræða saman:

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4365523

JB


Ætli gamli góði Villi eigi góða ferðatösku?

Eftir að hafa fylgst með atburðarrás dagsins er útlit fyrir það að best sé fyrir gamla góða Villa að fara að pakka og koma sér af stað út úr ráðhúsinu. Skyldi hann eiga góða ferðatösku? Ekki væri úr vegi að hann tæki Björn Inga með sér.

Til frekari fróðleiks um þann gamla góða má lesa á Vísi.is:

http://www.visir.is/article/20071009/FRETTIR01/71009028

JB


Fjörtíu ár frá morðinu á Che Guevara. Baráttan gegn sjálftökuliðinu heldur áfram

Í dag er þess minnst að fjörtíu ár eru liðin frá því að leppar bandarísku leyniþjónustunnar CIA myrtu byltingarmanninn Ernesto Che Guevara í Bólivíu. Maður efast ekki um það við þessi tímamót að full ástæða sé til þess að dusta rykið af gömlu góðu siðferðishugmyndunum sem Che fyldi í pólitík þar sem maður horfir upp á endalausa spillingu íslenskra pólitíkusa.  Pólitíkusa sem hugsa ekkert um annað en að reyna að hafa af almenningi sem mest fé fyrir sig og sína og ljúga og svíkja til þess að ná markmiðum sínum ef þeim svo sýnist. Við horfum upp á pólitíkusa sem finnst allt í lagi að sinna ekki störfum sínum fyrir almenning vegna þess að þeir þurfa að sýnast og baða sig í seðlum á meðal auðmanna.

Þó vissulega megi deila um Che þá má hann eiga það að hafa haft heilbrigða afstöðu til vinnunnar, þeirrar verðmætasköpunar sem hún gefur af sér og réttlátrar skiptingar veraldlegra gæða. Virðingin fyrir launavinnu almennings og réttlát skipting lífsins gæða hefur verið að lúta í lægra haldi fyrir græðgisvæðingunni og hrokanum sem forystumenn í atvinnulífinu og stjórnmálamenn standa fyrir og sýna launafólki á degi hverjum. Fjölmiðlamenn dansa síðan æ oftar í kringum þetta sjálftökulið í gagnrýnisleysi sínu og hneykslast á þeim sem voga sér að gera athugasemdir við að það skuli taka verkamann 50 ár að vinna sér inn fyrir mánaðarlaunum forstjóra.

Che má eiga það að hafa barist gegn ægivaldi fjármagnsins og græðginnar. Fyrir það er pólitíkin hans í fullu gildi.

Hasta la victoria siempre!

JB

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband