Sátt um hvað?

 Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs spyr: Sátt um hvað?:

"Ljóst er að sáttaniðurstaða Sjálfstæðismanna er sátt um áframhaldandi völd í Ráðhúsinu í Reykjavík. Hún er ekki sátt um vinnubrögð, ekki sátt um heiðarleika, ekki sátt um skilning á lýðræði og ekki sátt um samráð. Hún er sátt um að selja fyrirtækið hið fyrsta án þess að lykilspurningum hafi verið svarað. Jafnframt er hún sátt um að viðhalda völdum Framsóknarflokksins í borginni.

Hvað er Reykjavík Energy Invest? Hvað á þetta fyrirtæki? Enn hefur ekki verið lagður fram listi yfir eignir þess. Á að einkavæða hlut fyrirtækisins í Hitaveitu Suðurnesja? Á að einkavæða sérþekkingu Orkuveitu Reykjavíkur? Á að einkavæða fyrirtækið á grundvelli verðmats Hannesar og Bjarna? Hverjir munu kaupa aðrir en þeir sem þegar hafa eignast umtalsverðan hlut í fyrirtækinu? Var samruni fyrirtækjanna löglegur yfir höfuð? Þessum spurningum hefur ekki verið svarað.

Ljóst er að borgarstjóri hefur teflt mjög alvarlega af sér í þessu máli. Hann hefur farið á bak við borgarbúa, samflokksmenn sína innan og utan borgarstjórnar sem og aðra kjörna fulltrúa í borgarstjórn. Hann hefur farið á svig við lög og tekið þátt í ósiðlegu atferli sem ofbýður fólki um allt land. Fólk vill ekki slíka stjórnendur. Borgarbúar treysta ekki slíkum borgarstjóra þótt borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðist greinlega ekki gera sömu kröfur."


Brjálæðingar í umferðinni eða hvenær ætla vélhjólamenn að læra umferðareglurnar?

Ég fór í sunnudagsbíltúr til Þingvalla í dag. Kjörið að nýta góða veðrið og skoða haustlitina í náttúrunni. Fjöldi fólks gerði slíkt hið sama og var gaman að sjá hversu margir voru á þingvöllum.

Það eina sem skyggði á góðan dag var hópur vélhjólamanna sem með einbeittum brotavilja sínum stefni fjölda fólks í stórhættu. Á leiðinni til Þingvalla, skömmu eftir að hafa ekið framhjá Gljúfrasteini brá mér allnokkuð þegar vélhjól þeysti frammúr á gríðarlegum hraða. Ég leit á hraðamælinn og var ég sjálfur á 93.km hraða en gæti vel ímyndað mér að umrætt vélhjól hafi ekki verið á minni hraða en 160km.

En þetta var nú bara sá fyrsti því í kjölfarið fylgdu fleiri hjól á svipuðum hraða, æddu frammúr og svínuðu fyrir bíla, óku glannalega á móti umferð og létu almennt öllum illum látum þarna á veginum.

Ég hef keyrt í mörg ár og lengi vann ég í Keflavík og fór nær daglega um Reykjanesbrautina en hvorki þar né annarsstaðar hef ég orðið vitni að eins miklum glannaskap.

Nú má vissulega færa fyrir því rök að einstaklingar megi reyna að stúta sjálfum sér á eigin vélhjólum, en það er sorglegt þegar dómgreindarleysi fólks er svo mikið að það fer að stofna lífi annarra vegfarenda í hættu.

Þegar að Þingvöllum var komið og við renndum inn að þjónustumiðstöðinni var umrætt vélhjólagengi sem taldi um 10 hjól að tygja sig af stað, enda komið þangað löngu á undan okkur.

Ég steig út úr bílnum og var eitthvað að skoða mig um og njóta veðurblíðunnar þegar maður nokkur sem þarna var spurði hvort gengið hafi ætt frammúr mér líka á leiðinni. Jú rétt var það og var augljóst að fleirum hafði blöskrað en mér. Sagði hann mér síðan eftir að að við tókum tal saman að hann hafi dundað sér við það að skrá niður númer umræddra vélhjóla og ætlaði að senda upplýsingar um málið til lögreglu.

Já glæislegt framtak. Vissulega er ekkert hægt að gera varðandi umræddan hjólatúr vélhjólagengisins en allavega er ekki verra fyrir lögregluna að vita hverjir dólgarnir eru. Þeir gætu þá kannski lagt saman tvo plús tvo þótt síðar verði, eða kannski sent almennt orðaða ábendingu til vélhjólaklúbba sem sumir hverjir segjast vilja vera í samstarfi um bætta umferðamenningu.

Hvað annað getum við almennir vegfarendur gert þegar við verðum vitni að öðru eins? Er ekki ráð  að safna saman sem mestum upplýsingum um þessa brjálæðinga?

Rétt er þó að taka það fram að margir voru á ferð á vélhjólum í dag og voru allir aðrir til fyrirmyndar en umrætt vélhjólagengi.

JB

 


Kettir eru þá matreiddir eftir allt saman

Þegar ég skrifaði um síðustu helgi pistil um ímyndaða fjölskyldu sem át köttinn sinn hvarflaði ekki að mér að aðeins örfáum dögum síðar ætti ég eftir að lesa leiðbeiningar um hvernig matreiða skuli ketti. Þetta gerðist samt í gær þegar ég fletti Blaðinu, en á bls. tvö er sagt frá því að í tímaritinu INN eru leiðbeiningar um það hvernig skuli verka og matreiða ketti.

Verkunin og eldamennskan sem slík vekur ekkert sérstakan áhuga minn enda færi ég seint að borða hana Doppu mína sem grunlaus um skrif mín núna sefur í sófanum á móti mér. Það sem hinsvegar vekur sérstakan áhuga minn á þessari kattaáts og kattaeldamennskuumræðu eru viðbrögð fólks. Fyrir okkur sem höfum áhuga á manneskjunni sem slíkri eru pælingar í viðbrögðum fólks afar skemmtilegt viðfangsefni. Um síðustu helgi mátti lesa í athugasemdum við færslu mína mjög mörg og áhugaverð viðbrögð, þar mátti finna sannar geðshræringar og þar mátti finna kaldhæðni og nánast allt þar á milli. Þar mátti meðal annars finna efasemdir um að ég gæti talist hæfur kennari unglinga.

Í Frétt Blaðsins um eldamennskuna mátti einnig finna athyglisverð viðbrögð fólks sem Blaðið leitaði til um álit á málinu. Rætt var við Áslaugu Jónsdóttur og Sigurborgu Daðadóttur. Viðbrögð  Áslaugar voru á þessa leið:

"Þetta er algjör viðbjóður. Ég er með þrjá hunda og ég hélt að ég myndi alveg brjálast þegar ég las þetta. Þetta er bara ofbeldi gegn dýrum. Kannski á þetta að vera eitthvað grín, en mér finnst þetta ekki grín."

Síðan er tekið fram að Áslaug hefur sérstakar áhyggjur af því ef börn komist yfir þessar leiðbeiningar um verkun og eldun katta "því þeim getur dottið allt í hug þessum börnum."

Þessi viðbrögð Áslaugar eru einstaklega áhugaverð og sýna okkur klárlega hvernig umhverfi okkar og annað fólk hefur áhrif á líf okkar, tilfinningar og líðan sbr. orð hennar "ég hélt ég myndi brjálast". Og ekki síst hvernig hún óttast áhrifin af uppskirftinni í blaðinu INN á börn, en hún hefur af því sérstakar áhyggjur að börn geti komist í uppskriftina "því þeim getur dottið allt í hug þessum börnum." Ef börn með sérstakan áhuga á eldamennsku færu að matreiða sína eigin heimilisketti þá bæri það án efa vott um mikla áhrifagirni en að sama skapi gríðarlegan frumleika. Uppskriftin hefði þá áhrif og hvetti til eldamennsku og frumleikinn fælist í því að hér á landi hefur það aldrei tíðkast að elda ketti og því væri um eitthvað nýtt að ræða.

En í ljósi þessara orða Áslaugar um börnin þá geta lesendur velt því fyrir sér hvort ástæða sé til að banna þetta hefti tímaritsins INN börnum vegna hættu á að heimiliskettirnir enduðu inni í ofni? Það væri gaman að fá viðbrögð við þeirri pælingu.

Svo eru einnig fengin viðbrögð frá Sigurborgu Daðadóttur dýralækni sem hélt að umrædd uppskrift væri spaug. Þau viðbrögð fá mann til þess að velta fyrir sér eftirfarandi spurningu: Hvernig veit maður hvenær verið er að grínast og hvenær ekki?

Ég man sjálfur eftir því að hafa lengi fylgst með gríni sem ég hélt að væri alvara. Ég var nýfluttur til landsins frá Belgíu og hafði ekki hugmynd um hverjir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson voru. Þeir félagar voru með stutta grínþætti sem fjölluðu um hegðun, atferli og framkomu í sjónvarpinu. Í allnokkurn tíma hélt í alvöru að þeir væru sálfræðingar að ræða í alvöru um hegðun og atferli. Mér þótti þeir nokkuð undarlegir sálfræðingar en um tíma hvarflaði ekki  að mér að um grín væri að ræða.

En Sigurborg ræðir kattamatseldina ekki lengi á forsendum grínsins heldur skellir sér í blákalda alvöruna og minnir á að ef það er ekki til þess bær maður sem aflífir köttin þá er um lögbrot að ræða. Þannig að hún minnir okkur á að fá þó allavega mann með tilskilin réttindi til að aflífa dýrið ef við ætlum okkur að taka mataruppskriftina í tímaritinu INN alvarlega.

JB

 


Góð grein prests Fríkirkjunnar

Hjörtur Magni Jóhannsson prestur Fríkirkjunnar skrifaði mjög góða grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Þar útskýrir hann veraldlegar athafnir í kirkju og lífsafstöðu húmanista.

Hvet ég ykkur ágætu lesendur til að lesa greinina.

Sjá: http://visir.is/article/20071005/SKODANIR03/110050122/-1/SKODANIR05

JB


Er það þá ekki líka bara í góðu lagi þó það taki konur fimmtíu ár að vinna sér inn mánaðarlaun karla?

Það var einhver Bergsteinn blaðamaður við Fréttablaðið sem var að segja okkur lesendum hversu ógeðslega púkó hún Álfheiður Ingadóttir þingmaður VG er. Ástæðan fyrir þessum púkalegheitum Álfheiðar er sú að hún er ekki sátt við þá misskiptingu veraldlegra gæða sem á sér stað hér á landi þar sem það tekur verkamanninn fimmtíu og bráðum sextíu ár að vinna sér inn fyrir mánaðarlaunum einstakra forstjóra.

Bergsteinn orðar þetta svona: "...brýnt er að allir hafi í sig og á og helst gott betur. En til þess þarf þó ekki nema brotabrot af forstjóralaunum. Hvaða máli skiptir þá hversu lengi verkamaðurinn er að vinna sér inn stjarnfræðilega háar upphæðir?"

Það er bara flott hjá Álfheiði að gagnrýna þetta launarugl sem viðgengst í landinu. Það mælir ekkert með því að í samfélaginu skuli misskipting gæðanna vera svo mikil sem raun ber vitni. Veraldleg gæði eru takmörkuð og það er mjög víða sem skortir fjármagn. Allavega skortir það ekki hjá umræddum forstjórum sem hafa eins á áður sagði 50-60 sinnum meira en verkamaðurinn hefur.

Ég veit eiginlega ekki hvað er með margt af þessu fjölmiðlafólki sem starfar hér á landi. Það er eins og það geti ekki klórað sig út úr yfirborðsmennskunni og gagnrýnisleysinu. Það þykir einhvernveginn allt svo sjálfsagt sem teljast má siðferðilega ámælisvert. Í framhaldi af þessu má nefna þann mannlega harmleik sem átti sér stað hjá þeim vinkonum í þættinum Ísland í dag á Stöð tvö þegar einu viðbrögð þeirra við slagsmálum fullorðinna kvenna í Grænlandi sem sýnt var frá var að flissa og fíflast. Mikið var rætt um það á sínum tíma sem ekki verður endurtekið hér en vart mátti á milli sjá hvort harmleikurinn hafi verið meiri í stúdíóinu á Stöð tvö eða á götu í Grænlandi.

Og nú er það Bergsteinn blaðamaður sem sýnir af sér þessa dásamlegu snilld með launakjörin. Því þykir mér viðeigandi að fá svar frá Bergsteini við eftirfarandi spurningu:

Kæri Bergsteinn, vissulega er brýnt að allir hafi ofan í sig og á og helst gott betur. Væri það því ekki bara gott mál ef launamunur kynjanna yrði svo mikið meiri en hann er í dag eða svo mikill að það tæki konu 50-60 ár að vinna sér inn fyrir mánaðarlaunum karls svo fremi sem hún hefði eitthvað ofan í sig og á og pínulítið betur en það?

Pælið í því.

JB


Víkingur féll

Ég fylgist ekkert mjög mikið með fótboltanum. Samt veit ég alltaf nokkurn veginn hvernig mínu liði gengur hverju sinni. Og nú er Víkingur fallinn. Það er svo sem í lagi ef við lítum á íþróttir sem skemmtilegt "hobbí" og holla hreyfingu. En ég hef nú grun um að fólk hér í hverfinu hefði almennt óskað félaginu annars en að falla. Nú var í fréttum að þjálfari meistaraflokksins í fótbolta væri hættur og væntanlega ætlar stjórnin að bretta upp ermarnar. En áður en það er gert beinlínis í þágu fullorðinsflokksins þá geri ég það að tillögu minni að Víkingur leggi allt sitt púður í barna og unglingastarf. Hvernig væri að nota þessi tímamót í að gera metnaðarfulla fimm ára áætlun þar sem ofuráhersla er lögð á barna og unglingastarfið. Ef allt gengur sinn vanagang í veröldinni munu börnin verða fullorðin og komast í umræddann meistaraflokk og þá ræðst gengið af því hvernig sáð hafði verið í upphafi.

Fyrir utan það að íþróttafélag sem leggur mjög mikinn metnað í barna og unglingastarf er náttúrulega til fyrirmyndar.

Höfum við Víkingar nokkru að tapa? Allavega er ég viss um að börnin yrðu ánægð.

JB


Að borða hund. Óbeint framhald af kattaátinu frá því í gær

Það er virkilega ánægjulegt hversu margar skemmtilegar athugasemdir komu við pælingunni um kattaátið sem ég skrifaði í gær. Margt af því sem kom fram varpaði nýju sjónarhorni á málið og ef það gerist þá er markmiði mínu með svona "helgarheimspeki" náð.

Ég hef frá því í sumar verið að lesa bækur eftir breska alþýðuheimspekinga sem eru að varpa fram allskyns pælingum í þeim anda sem birtist í gær og segja þeir að ákveðinn hópur fólks taki svona pælingar með sér á mannamót og í sumarfríið rétt eins og aðrir taka með sér krossgátur, spil og Sudoku þrautir. Kannski kem ég með fleira til umhugsunar um næstu helgi.

En í kjölfar umræðunnar um kattaátið þá rifjaðist upp nokkuð athyglisvert sem ég upplifði 1989 í Pyongyang í Norður Kóreu. Ég var þar staddur ásamt nokkrum öðrum íslendingum í boði þarlendra stjórnvalda. Vorum við í fæði á vegum infæddra og borðuðum af hlaðborði í mötuneyti. Var þetta allt saman afskaplega huggulegt og fínt, en við vissum í sjálfu sér ekki nákvæmlega hvað var í matinn hverju sinni. Maturinn hinsvegar bragðaðist mjög vel í alla staði.

Síðan þegar fer að líða að lokum dvalarinnar í Kóreu ákváðum við að fara á veitingastað til þess að fá nú að bragða á hundakjöti sem við vissum að var vinsæll matur þar í landi. Hundakjötið kom með beini og hndakjötsúpa með. Þetta var smekklega fram borið með víni og grænmeti og bragðaðist alveg prýðilega.

En þegar maturinn var kominn á borðið uppgötvuðum við það að við hefðum í sjálfu sér alveg geta sleppt því að gera okkur sér ferð til þess að bragða á hundinum góða, því við höfðum verið að borða hundakjöt af hlaðborðinu án þess að hafa haft hugmynd um það allan tímann á meðan á dvöl okkar stóð.

En hvað sem því leið nutum við flest matarins á veitingastaðnum þó maður hafi líka heyrt þá setningu að maður ætti ekki að borða vini sína. Blush

JB


Að borða kött

Hér kemur smá heimspeki til þess að takast á við um helgina. Nemendur mínir veltu eftirfarandi sögu fyrir sér í gær í umfjöllun okkar um rétt og rangt:

Lítill krúttlegur heimilisköttur varð svo ólánsamur að verða fyrir bíl og deyja. Eigendur kattarins tóku þetta að sjálfsögðu nærri sér en fengu af einhverjum ástæðum þá hugmynd hvort ekki væri í lagi fyrst svona fór fyrir kisa að hafa hann í kvöldmat. Vitandi þess að kisi væri þegar dáinn og enginn yrði fyrir skaða töldu fjölskyldumeðlimir þetta í lagi. Þeir elduðu því kisa og borðuðu.

Og nú felst helgarheimspekin í því að svara eftirfarandi spurningum:

1) Hvort er það rétt eða rangt að borða köttinn? Og hversvegna?

2) Ef þér yrði boðið í kvöldmat til fjölskyldu sem væri að elda umræddan kisa hvernig myndir þú bregðast við?

JB

 

 

 


Mikill áhugi á veraldlegum athöfnum á vegum Siðmenntar

Eftir fréttir af veraldlegu brúðkaupi sem Siðmennt hélt á laugardaginn hefur áhuginn á málinu verið mikill. Fyrir þau ykkar sem eruð að spá í svona athafnir bendi ég á eftirfarandi vefsíður sem gefa góðar hugmyndir að veraldlegum athöfnum:

British Humanist Association í Bretlandi http://www.humanism.org.uk/site/cms/contentChapterView.asp?chapter=310

Human Etisk Forbund í Noregi http://www.human.no/templates/Page____170.aspx

Secular Celebrations í Bandaríkjunum http://www.secular-celebrations.com/

Eftir vel heppnaða athöfn á laugardaginn mun Siðmennt halda áfram að þróa veraldlegar giftingarathafnir, útfarir og nafngiftir hér á landi. Það er löngu kominn tími á slíkar athafnir hér á landi. Nágrannalönd okkar hafa staðið fyrir svona athöfnum í áratugi.

JB


Hvernig væri Illugi Gunnarsson að greiða alþingismönnum laun eftir frammistöðu?

Illugi Gunnarsson er einn þeirra sem vill mæta í skólana og flokka kennara líkt og kjötskrokkar eru flokkaðir í úrvalsflokk, fyrsta flokk, annan osfrv. Vill hann greiða laun í samræmi við flokkun sína og gangi honum vel. Í Fréttablaðinu í dag kemur þetta sjónarhorn hans berlega í ljós. Hann vill kennara metna þannig að úrvalskennarar fái góð laun og kennarar í lakari flokkum fái slakari laun. Hvernig meta skal gæðin er ekki ljóst, enda er maðurinn duglegur að þykjast hafa vit á ýmsum hlutum án þess að hafa nokkurt vit á þeim.

Ég er, kæri Illugi alveg til í það að athuga þessa hugmynd þína um flokkun kennara og raða þeim í ýmsa launaflokka ef þú ert til í að byrja á annari stétt í landinu, nefnilega alþingismönnum. Alþingismenn standa sig mismunadi vel, hversvegna ekki að flokka þá eftir frammistöðu og greiða þeim laun í samræmi við það. Byrjaðu á þinni eigin stétt og reyndu síðan að hafa vit á skólamálum.

Jóhann Björnsson kennari

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband