Trúin, menningin og kirkjan

 Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu í dag þar sem Gunnari Jóhannessyni sóknarpresti er svarað:

Eftir að Siðmennt stóð fyrir veraldlegri athöfn fyrir brúðhjón í Fríkirkjunni í Reykjavík hefur áhugi á veraldlegum athöfnum aukist.

Margir hafa lýst ánægju sinni með framtak Siðmenntar sem mun framvegis bjóða upp á aðrar veraldegar athafnir en fermingar, en það hefur félagið gert lengi. Siðmennt hefur þegar staðið einu sinni að athöfn fyrir brúðhjón og má geta þess að önnur sambærileg athöfn hefur þegar verið ákveðin. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð hafa ekki allir verið sáttir og má þar nefna sóknarprestinn Gunnar Jóhannesson. Telur hann rangt að athafnir og uppákomur sem ekki teljast trúarlegar eigi sér stað í kirkju.

Ræðir hann sérstaklega umrædda athöfn sem Siðmennt hélt í Fríkirkjunni.
Með afstöðu sinni boðar Gunnar stefnubreytingu varðandi nýtingu kirkjuhúsnæðis. Sumir prestar hafa verið reiðubúnir að gifta fólk veraldlegri giftingu ef það kýs svo. Formaður Siðmenntar giftist t.d. veraldlega í Dómkirkjunni í Reykjavík fyrir löngu síðan af þáverandi presti kirkjunnar, sem varð við óskum um veraldlega athöfn. Gunnar fær mann til að velta því fyrir sér hvort Þjóðkirkjan sé að loka dyrum sínum fyrir öllum þeim menningarviðburðum sem ekki teljast beinlínis trúarlegir.

Sjálfur hef ég margoft mætt á atburði í kirkjum sem hafa ekkert með trú sem slíka að gera. Í kirkjum hef ég séð leikrit, farið á tónleika og tvisvar sinnum hef ég haldið heimspekifyrirlestra, annar var meira að segja um efahyggju. Enginn hefur haft út á það að setja. Þvert á móti hafa slíkar uppákomur talist jákvætt innlegg í menningarlíf landsmanna. En þegar fólk sem hefur gift sig vill opinbera veraldlegt hjónaband sitt fyrir vinum sínum í kirkju vegna aðstöðunnar sem þar er fyrir hendi þá boðar Gunnar Jóhannesson, fyrir hönd kirkjunnar stefnubreytingu. Nú á að úthýsa öllum viðburðum úr kirkjunum sem ekki lofsyngja guð. Það eru stóru fréttirnar sem boðaðar eru.

Siðmennt mun hins vegar halda áfram að bjóða upp á veraldlegar athafnir fyrir fólk sem vill halda upp á stóru stundirnar í lífi sínu. Í nágrannalöndunum hafa slíkar athafnir tíðkast í áratugi.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Undra mig alltaf á þessu orði "veraldlegt" í tengslum við heitstrengingar húmanista.  Er þetta andhverfa við "andlegt" eða "geistlegt" kannsi frekar?  Er veraldlegt fólk það sem fólk, sem eingöngu lifir fyrir holdlegt og hlutlægt mat á tilverunni og hrærist ekki í tilfinningum og andlegri rækt?  

Mér finnst það líka skrítið af ykkar hópi að hneygjast til hálfgildings ritúals með formlegum athöfnum við sambúðarsáttmála, sem vel má gera á ískaldann lögfræðimáta.  Einnig eru borgaralegar fermingar einkennilegar hjá fólki, sem hafnar kirkjusiðum og trúarbrögðum.  Er það svo krakkarnir verði ekki af peningum?  Er hugtakið "veraldlegt" slíku til vitnisburðar? Efnishyggju?

Jón Steinar Ragnarsson, 19.10.2007 kl. 00:13

2 identicon

Sælt veri fólkið

Mig undrar ef kirkjan ætli að úthýsa húmanistum en leyfa listasýningar, tónleikahald og aðra atburði sem eru "veraldlegir". Til að kirkjan verði samkvæm sjálfri sér þá þarf hún að vera kirkja Krists og það eiga húmanistar að virða. Mér finnst ekki óeðlilegt að kirkjunnar þjónar vilji taka til í stofnuninni - reyndar bara gott.

Mig undrar líka fátækt  húmanista að sjá ekki aðra möguleika en að koma sér inní kirkju til að framkvæma athafnir. Kirkjan er byggð sem bænahús og húmanistar ættu að virða það.

En lýsir þetta samt ekki því sem við mennirnir erum að glíma við að hvort sem við trúum á Guð eða ekki þá ræður trúin eða vantrúin því ekki hvort hann er til. Við erum nefnilega öll að glíma við sömu gátuna og trúum því að við höfum svarið.

En er ekki sannur húmanismi fólginn í því að virða trú hinna og efna til friðar?

kær kveðja

Snorri í Betel

snorri í betel (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 10:21

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sælir

Ég er í stjórn Siðmenntar og vil útskýra þessi hugtök sem hér er um rætt.  Ég hef kynnt mér þetta ítarlega.

Orðið "veraldlegt" er hér í merkingunni "án trúar á guð" og er þýðing á enska orðinu "secular" sem var fyrst notað í þessari merkingu á miðri 19. öld af Englending sem vildi greina á milli trúarlegs og óguðlegs (veraldlegs) húmanisma.  Allmennt talið í dag er talað um húmanisma í merkingunni veraldlegur eða siðrænn húmanismi og því ekki endilega þörf á lýsingarorði nema talað sé um trúarlegan húmanisma.   Siðmennt, félag um siðrænan húmanisma, notar lýsinguna "siðrænn" þó til áréttingar.

Veraldarhyggja (secularism) er ekki það sama og efnishyggja (materialism).   Veraldarhyggjan stefnir á aðskilnað trúar frá opinberum vettvangi og að hinn stóri sameignlegi grunnur (ríkið)þjóða sé óháður trúarbrögðum.   Efnishyggju er hægt að skilgreina á tvo vegu.  Annars vegar sú skoðun að skýringa á lífinu og eðli þess sé aðeins að finna í náttúrunni og hinum efnislega heimi (þ.e. hin heimspekilega efnishyggja) og svo hins vegar sem lífsstefna þ.e. notað um fólk sem sækist eftir því að fá lífsfyllingu með því að auðgast fjárhagslega og eignast hluti.  Það að vera veraldlegur þarf því ekki að þýða að manneskja einblíni á peninga, heldur bara að manneskjan er frjáls af trú á yfirnáttúru.

Sannur húmanismi felst í því að sýna mannvirðingu og umburðarlyndi gagnvart fólki sem hefur ekki sömu skoðanir en aðeins að því marki að hvers kyns ofbeldi, kúgun og valdníðsla verður ekki liðið.  Í húmanismanum felst ekki virðing fyrir trúarbrögðum og hindurvitnum en vissulega umburðarlyndi, mannvirðing og vilji til að lifa í sátt við allt fólk.

Svanur Sigurbjörnsson, 1.11.2007 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband