Hvað komast margar ruslatunnur fyrir í íbúð nágrannans?

Brjálað veður á föstudaginn fór væntanlega ekki framhjá mörgum. Ruslatunnur og ýmislegt smálegt fauk um hverfið og því kom það mér ekki á óvart þegar ég fór á fætur umræddan dag að þrjár ruslatunnur af níu í húsalengjunni voru horfnar. Greinilega horfnar út í veður og vind. Mikill assgoti. Maður hefði átt að binda þær niður hugsaði ég. Þegar tók að líða á morgunin fór konan mín í leiðangur til að leita að tunnunum þremur sem horfnar voru og fann strax eina. Sú var merkt húsi númer 46 og hafði fokið heim að dyrum eigenda sinna. En okkar tunna og tunna næsta nágranna sáust hvergi þrátt fyrir nokkra leit. Jæja það hlítur að vera hægt að fá aðra tunnu þegar veðrið lagast hugsaði ég.

Nema hvað, kannski um einni klukkustund eftir að við höfuðum gefist upp á að finna tunnuna er bankað á dyrnar. Jú það er nágranninn, sá sem hafði líka tapað sinni tunnu. Hann vildi bara segja okkur að ruslatunnan okkar væri inni í íbúðinni hjá sér. Hafði hann verið svo vinsamlegur þegar hann sá i hvað stefndi að hann kippti okkar tunnu og sinni eigin inn í íbúð til sín og setti tunnu sameiginlegs nágranna í skjól við húsvegginn vegna þess að hann kom ekki nema tveimur tunnum fyrir í ganginum hjá sér. Ætli það hafi ekki ráðið úrslitum að okkar tunna fékk skjól innandyra að við höfðum gefið honum síld og síginn fisk  nýlega.

Svo þegar veðrið lagaðist var tunnan komin á sinn stað.  Já það er ómetanlegt að eiga góða nágranna, ekki síst þegar hvessir og ýmislegt lauslegt fer á flug.

JB


Sendiboð djöfulsins

 Frá því að umræðan um trú og skólastarf hófst hefur nokkrum sinnum verið hringt í forystu Siðmenntar. Því miður hefur verið þónokkuð um hatursfull símtöl þar sem forystu félagsins eru ekki vandaðar kveðjurnar. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í nútímasamfélögum, sem maður hefði haldið að væru upplýst og lýðræðisleg ætti ekkert að vera sjálfsagðara en að skiptast á skoðunum um samfélagsmál og eðlilegt að ekki séu allir á sömu skoðun. En umburðarlyndið og viljinn til heiðarlegra skoðanaskipta er því miður takmarkaður. Og þegar umræðan fer á það plan að fólk fer að hringja með allskyns svívirðingar og jafnvel hótanir þá er manni ekki alveg sama. Í síðustu færslu hér á síðunni blandast ákveðin útlendingaandúð in í málið og síðasta uppákoman fólst í því að maður nokkur hringdi og öskraði og æpti, fór með trúarleg orð og sagði ítrekað Siðmennt vera sendiboð djöfulsins. Félagið hefur nú þurft að bregðast við með því að taka upp öll símtöl ef vera skyldi að svívirðingarnar yrðu að alvarlegum hótunum.

Sorglegt er ef fólk má ekki ræða umdeild samfélagsmál á Íslandi án þess að verða fyrir öðrum eins svívirðingum og jafnvel hótunum frá þeim sem eru ósammála.

JB

 


Snauti formaður Siðmenntar aftur til Ameríku

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur félögum í Siðmennt fjölgað um 10% undafarna daga. En ýmislegt fleira hefur gerst og er miður í okkar ágæta samfélagi. Félagi minn í stjórn Siðmenntar Sigurður Hólm lýsir á vefsíðu sinni www.skodun.is afstöðu konu nokkurrar sem skrifar undir nafni og sendi Siðmennt póst þar sem hún vill að formaður félagsins sem er bandarísk að uppruna snauti til Ameríku. Kíkið endilega á síðu Sigurðar og sjáið póstinn frá konunni, en af tillitsemi við hana er nafn hennar ekki birt.

JB


Drengurinn í bleika kjólnum

Nokkuð hefur verið rætt að undanförnu um hvaða litir hæfi nú börnunum best, blátt, bleikt, hvítt eða jafnvel einhverjir aðrir. Eftir að þessi umræða fór af stað rifjaðist upp fyrir mér atvik sem átti sér stað fyrir löngu síðan þegar sonur minn tók upp á því að klæðast bleikum kjól. En þannig atvikaðist það:

Við bjuggum í Belgíu á þeim tíma. Ég sat inni á baði í íbúðinni okkar og blés í flautuna mína fyrir son minn, þá tæplega þriggja ára sem lék sér á gólfinu (ástæðan fyrir því að við vorum inni á baði var sú að aðeins tveir ofnar voru í húsinu og á köldum dögum var hlítt í baðherbergin).

Skyndilega heyrist mikill hávaði og læti neðan úr ganginum og ég heyri strax að það er konan sem rekur saumastofuna De Knip á hæðinni fyrir neðan sem rekið hafði nefið inn í ganginn til okkar og var eitthvað að gala.  Þetta var lítil miðaldra kona, hjólbeinótt mjög og oftast óðamála en afar indæl.  Konan mín var þarna komin á vettvang og heyri ég hana svara saumakonunni hátt og snjallt á þessari líka fínu flæmsku svo eflaust mátti víða heyra:  "Maðurinn minn hugsar bara ekki!"  "Hvað voru þær að tala um mig?" hugsaði ég og dreif mig fram.  Málið var það að allir héldu að barnið væri inni á baðherbergi að hlusta á flautuleik föður sins þegar annað hafði heldur betur komið í ljós.  Án þess að ég hafi áttað mig á hafði drengurinn farið út úr baðherginu fram í stofuna og klætt sig í bleikan kjól sem móðir hans hafði keypt til þess að gefa lítilli stelpu í afmælisgjöf.  Því næst fór hann fram á gang og niður stigann og út á gangstétt.  Á gangstéttinni sem lá við mikla umferðargötu spókaði hann sig í bleika kjólnum og virtist vera afskaplega ánægður með sjálfan sig þar til saumakonan sá hann út um gluggann og dreif hann inn hið snarasta, enda lífshættulegt fyrir rúmlega tveggja ára barn að vera að leika sér við aðra eins umferðargötu.  Fyrir utan það að á þeim tíma voru barnsrán ekki óalgengur hlutur í Belgíu. 

Ef hægt er að segja að maður hafi einhverntíman sloppið með skrekkinn þá var það þarna og í ljósi þessarar reynslu mæli ég ekki með bleikum kjólum fyrir unga drengi.W00t

JB


Er allt leyfilegt í skólum sem ekki er beinlínis skaðlegt eða hættulegt?

Í þeirri umræðu sem fram hefur farið að undanförnu varðandi trúboð og skólastarf hafa ýmsir haldið því fram að trúboð sé nú í lagi þar sem enginn skaðist af slíku. Athyglisvert. Þessi röksemd leiðir hugann að almennari spurningu sem er all heimspekileg og gaman væri að fá viðbrögð við og er þessi:

Er allt leyfilegt í skólum og leikskólum sem ekki er beinlínis skaðlegt eða hættulegt?

Vinsamlegast skráið niðurstöður heilabrota ykkar í athugasemdir.

JB

 


Heiðri blaðamanna bjargað

Stjórnendur Morgunblaðsins og 24 stunda hafa í skrifum sínum að undanförnu gengið ansi langt í að gera félagsmönnum Siðmenntar upp skoðanir sem þeir ekki hafa. Þrátt fyrir að reynt hafi ítrekað að koma því á framfæri hver sjónarmið Siðmenntar eru þá hafa þeir því miður ekki haft nokkurn áhuga á að fara með rétt mál. Viljinn til rangfærslna er því miður svo sterkur á þessum bæjum að áhyggjuefni er. Áhyggjuefnið stafar fyrst og fremst af þeim völdum sem fjölmiðlar hafa og möguleikum á að móta afstöðu almennings.  Ef ritstjórar kæra sig ekki um að birta það sem satt er og rétt þá er illa komið. Almeningur hefur fullann rétt á að fá réttar upplýsingar frá fjölmiðlum. Þetta er réttlætismál í samfélagi sem vill kalla sig lýðræðislegt upplýsingasamfélag. Því miður hafa ritstjórnir Morgunblaðsins og 24 stunda ekki staðið undir þessari sjálfsögðu kröfu. Blaðamennska þeirra hefur verið í gamaldags sovét stíl þar sem ekki má segja sannleikann nema þegar hann hentar þeim sem valdið hefur. Þessir ágætu menn eiga alla mína samúð, þeim er vorkunn.

Sem betur fer eru fleiri fjölmiðlar heldur en blöðin MBL og 24 stundir. Björgvin Guðmundsson bjargaði heiðri blaðamannastéttarinnar í dag í leiðara sínum í Fréttablaðinu. Honum tókst ólíkt ritstjórum hinna blaðana að skilja og segja rétt frá sjónarmiðum Siðmenntar. Fyrir það ber að þakka.

Björgvin segir svo í leiðara sínum:

"Hvorki Siðmennt né aðrir, sem hafa bent á stöðu þjóðkirkjunnar innan menntastofnana, vilja trúna út. Trúarbragðafræðsla á rétt á sér í skólum eins og önnur fræðsla. Þannig lærum við að þekkja viðhorf og lífsgildi annarra. Dauðhreinsun á trúarbrögðunum er ekki lausnin. Þá er hægt að fræðast um jólin og páskana eins og hátíðir annarra trúarbragða en kristninnar.

Trúaruppeldi á hinsvegar að vera á höndum foreldra en ekki skólanna. Það á ekki að setja börn og forráðamenn þeirra í erfiða stöðu þegar velja skal hvort barnið taki þátt í trúarlegu starfi eða ekki. Utan skólatíma hafa foreldrar val um að sækja fjölbreytta dagskrá þjóðkirkjunnar með börnum sínum."

Hér er stefna Siðmenntar komin í grundvallaratriðum.

Það er bara vonandi að ristjórar Morgunblaðsins og 24 stunda megi framvegis bera þá gæfu að sjá hag í því að hafa það sem sannara reynist. Slíkt tókst leiðarahöfundi Fréttablaðsins og fór létt með.

JB


Menntamálaráðherra og fleiri ganga of langt í rangfærslum um afstöðu Siðmenntar

Það er ótrúlegt að horfa upp á háttsetta og virta einstaklinga fara ítrekað fram með ósannindi um Siðmennt. Í laugardagskvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi fullyrti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, að Siðmennt væri á móti trúarbragðafræði og kristinfræði og taldi félagið jafnvel vera á móti jóla- og páskafríum. Í Staksteinum Morgunblaðsins, sunnudaginn 2. desember, heldur nafnlaus ritstjórn blaðsins hinu sama fram.
Þetta er allt rangt eins og margoft hefur komið skýrt fram í málflutningi Siðmenntar.

Þessar ranghugmyndir um stefnu Siðmenntar, sem andstæðingar félagsins setja reglulega fram, hafa margoft verið leiðréttar. Margoft! Stjórn Siðmenntar hefur fundað oftar en einu sinni í Menntamálaráðuneytinu og ég bara hélt að sjónarmið félagsins hefðu komist til skila þar á bæ. Siðmennt hefur aldrei verið á móti kristinfræðikennslu í skólum, Siðmennt er ekki á móti litlu jólunum, jólaleyfum, né páskaleyfum. En stundum er erfitt að ræða við fólk sem vísvitandi vill koma af stað ágreiningi og leiðindum eins og blaðamenn 24 stunda, Staksteinahöfundur Morgunblaðsins, biskup Íslands og nú síðast Menntamálaráðherra. Það er forkastanlegt að virtir aðilar í samfélaginu geti leyft sér að haga sér með þeim hætti sem áðurnefndir aðilar hafa gert. Að gera Siðmennt og félagsmönnum þess upp skoðanir sem ekki eiga við rök að styðjast og birta opinberlega er siðleysið upp málað. Það er spurning hvort slíkt varði við lög?

Þeir lesendur sem kæra sig um að kynna sér sjónarmið Siðmenntar til mótvægis við lygavefinn sem farinn er af stað bendi ég á eftirfarandi: 

Satt og logið um stefnu Siðmenntar
http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php

Einnig skýrði Matthías Ásgeirsson sjónarmið Siðmenntar ágætlega í viðtali í Silfri Egils í dag:

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4366855

Að lokum er vert að benda þeim sem tjá sig vilja um sjónarmið Siðmenntar að hafa þá reglu gagnrýnnar hugsunar að leiðarljósi að ekki er rétt að fullyrða nema allar staðreyndir málsins liggi fyrir og séu réttar. Ef öflun staðreynda er vandkvæðum bundin má ávallt hafa samband við stjórnarmenn Siðmennt. Nánari upplýsingar má finna á vef félagsins http://sidmennt.is

JB


Vellíðanasamfélagið og Breiðavíkurdrengirnir

Um þessar mundir eru barnaverndarlög á Íslandi 75 ára. Af því tilefni hefur tímamótanna verið minnst í dag og í gær með vandaðri dagskrá. Í dag fór ég í Háskólabíó þar sem dágskráin var á þá leið að myndin Syndir feðranna var sýnd og að henni lokinni fóru fram umræður þar sem þátttakendur voru fyrrverandi félagsmálastjóri, fyrrverandi forstöðumaður heimilisins að Breiðavík, tveir fyrrverandi vistmenn og fórnarlömb ofbeldis í Breiðavík, forstjóri barnaverndarstofu og leikstjóri myndarinnar Syndir feðranna. Kannski vita það ekki allir en Syndir feðranna segir frá þeirri ófögru reynslu sem drengirnir sem vistaðir voru í Breiðavík upplifðu. Alls voru þeir 128 talsins og er það sláandi að einn fjórði þeirra er nú látinn.  

Þetta var góð dagskrá en erfið. Þarna var allnokkur hópur Breiðavíkurdrengja og tóku sumir til máls og var það á stundum átakanlegt að hlýða á þá mannvonsku sem þeir máttu þola sem börn. Aðstandendum myndarinnar ber að þakka það framtak að draga málið fram með jafn vönduðum hætti og raun  ber vitni. Það var hinsvegar sláandi þegar leikstjóri myndarinnar Ari Alexander upplýsti það að aðsóknin að henni  hafi verið dræm. Alltof fáir hafa lagt leið sína í bíó til að sjá hana.

Ég get ekki að því gert en eftir að hafa heyrt leikstjórann segja frá þessari dræmu aðsókn þá varð mér hugsað til þess að þjóðin vill víst frekar bíða tímunum saman eftir að komast í nýjar verslanir eins og Tojsarus og djustforkids heldur en að mæta í bíó, horfast í augu við miklar hörmungar íslandssögunnar og sýna drengjunum stuðning með mætingu sinni.

Þetta þarf víst ekki að koma á óvart. Hafa ekki einhverjir sálfræðingar skilgreint manneskjuna sem vellíðanadýr sem forðast sem mest það sem kann að valda óþægindum, hvort sem það er líkamlegum eða sálrænum? Í ljósi þess er kannski ekki að undra að fólk kýs frekar Tojsarus en Syndir feðranna? Satt en sorglegt og mætti ég óska þess að þar yrði breyting á.

Vek athygli á vefsíðu Breiðavíkursamtakanna:

http://breidavikursamtokin.is/

JB


Hvað á þá eiginlega að gera við kennara sem ekki ástundar kristilegt siðgæði í skólanum?

Margir hafa farið á taugum að undanförnum vegna þess eins að opinskátt hefur verið rætt um skóla-og trúmál. Blaðið 24 stundir hefur farið þar fremst í flokki með því að fullyrða m.a. í útvarpsauglýsingu þar sem blaðið var auglýst að Siðmennt vildi afnema litlu jólin. Í kjölfarið hefur víða blóðþrýstingur hækkað og biskupinn þurft að grípa til orða eins og "hatrömm" þegar rætt er um Siðmennt. 24 stundir láta svo líta út sem allir séu hræddir við að þurfa að fara í fermingarferðalög á laugardegi og sunnudegi. Blaðið er einnig skíthrætt um að nú komi Nýja testamentið ekki sjálfkrafa ofan í skólatöskur barnanna og ritstjórinn sjálfur er skíthræddur um að minnihlutinn fari að kúga og pína hann og aðra þá sem tilheyra meirihlutanum kristna. Ekki má nú heldur gleyma þeim ótuktarskap einstaka leikskóla að nenna ekki að fá til sín vælandi klerka í tíma og ótíma. Og ekki er allt búið enn því þegar lengra er lesið þá kemur rúsínan í pylsuendanum. Kolbrún nokkur blaðakona spyr rétt eins og hún væri Lísa litla í Undralandi hvort það geti virkilega verið að kærleiksboðskapur sé hættulegur. Og síðast en ekki síst ítrekar blaðið sem einu sinni hét blaðið en heitir núna 24 stundir að ráðherra hafi snúist frá tímabundinni (trú)villu sinni og hafi bara verið að djóka með kristnina og fermingarferðalögin. En hvort þetta með að skólinn skuli starfa í anda kristilegs siðgæðis er svo enn að þvælast fyrir fólki, hvað svo sem verður. Enda biskupinn nokkuð "hatrammur" í málinu og vill kristilegt siðgæði inn en út með svona orðalag eins og skólinn skuli starfa í anda umburðarlyndis, jafnréttis, lýðræðislegs samstarfs, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi svo vitnað sé í nýja frumvarpið.

Það er ekki hægt að segja annað en að það sé reglulega gaman þegar málin eru rædd hreint út. Ég er samt dálítið spældur með blaðakonuna Björgu Evu sem hefur verið að reyna ð koma því inn hjá landanum að Siðmennt sé á móti litlu jólunum. Það er félagið nefnilega alls ekki. Jólin og þar af leiðandi litlu jólin eru nú einu sinni upphaflega heiðin hátið þar sem ætlunin er að fagna því að daginn er tekið að lengja á ný. Slíku má eðlilega fagna með skreytingum, jólakortum og kveðjum, góðgæti og jólasveinum, músík og leikritum en ég held að það verði svo sem engum meint af því að slaka aðeins á helgislepjunni sem lengi hefur fylgt Jesú litla á þessum árstíma sem svo fæddist ekki einu sinni í desember!

Eins og allir vita hefur það verið bundið í lög í áratugi að í skólanum skuli kristilegt siðgæði vera upphaf alls og endir. Nú verð ég að gera smá játningu fyrir ykkur ágætu lesendur en ég hef kennt í grunnskóla í bráðum sjö ár og hef svo sannarlega lagt mig fram við að viðhafa ekki kristilegt siðgæði í störfum mínum. Ég hef meira að segja kennt siðfræði og lagt mig fram við að kenna saklausum börnunum ókristilegt siðgæði. Ja mikið hlýt ég að vera vondur maður og lögbrjótur í þokkabót. Ætti ég ekki skilið refsingu (guðs?) fyrir uppátækið?

En hvernig er þetta ókristilega siðgæði frábrugðið hinu kristilega? Jú einfalt dæmi: Vissulega kenni ég börnunum að rangt sé að stela nema brýna nauðsyn beri til, rangt sé að vera óheiðarlegur og ljúga nema brýna nauðsyn beri til og mikilvægt sé að setja sig í spor annarra osfrv. Siðfræðileg rök mín fyrir þessari góðu breytni eru bygð á mikilvægi þess að hér ríki gott samfélagi og að það sé hagur allra að allir breyti vel gagnvart hverjum öðrum því þá líði okkur miklu betur í heildina.

En hvað er þá svona smart við kristilega siðgæðið sem ég hef ekki ástundað með börnunum og sumir eru svo æstir í? Jú ef ég kenndi kristilegt siðgæði þá myndi ég líka kenna börnunum að rangt væri að stela og ljúga og vera vondur. En sem kristilegur siðgæðispostuli myndi ég segja börnunum að það væri rangt vegna þess að guð segir það. Kristilega siðgæðið er nefnilega bara spurning um að hlýða guði en ekki að sýna fram á mikilvægi þess að vera góður fyrir mannlífið í samfélaginu sem við búum í.

Þannig að nú er bara að vona að ritstjóri 24 stunda og blaðakonurnar Kolbrún og Björg Eva fari og auglýsi blaðið með upphrópunum um kennarann sem ástundar ókristilegt siðgæði með börnunum, það myndi ábyggilega selja líkt og Litlu jólin og Siðmennt.

Góðar stundir

JB  


Er hægt að lifa það af í einn dag að fara ekki í búð? Gerið athyglisverða lífstilraun.

Ég man haustið 1993 þegar ég var nýfluttur til Belgíu hvað mér fannst skrítið hversu illa belgar fóru með laugardagana. Hér á landi höfðu laugardagar verið nokkuð rólegir dagar og almennt var búðarmenningin ekki búin að hertaka þá. Belgarnir hinsvegar vildu verja laugardögunum í búðum. Allar verslanir voru opnar til klukkan sex og voru yfirfullar af fólki. Hvað er að þessu fólki hugsaði ég á þeim tíma. Þvílík sóun á góðum degi. Reyndar komst ég fljótt að því að flestir verslunareigendur þar í landi höfðu búðir sínar lokaðar í staðinn á öðrum degi, ýmist mánudegi eða miðvikudegi. Jú það var svo sem glóra í því. Dögum vikunnar var því bara víxlað.

Ekki löngu síðar uppgötvuðu íslendingar "dásemd" þess að verja laugardögunum í búðum. En ekki hefur það tíðkast hér á landi að loka á öðrum degi í staðinn. Nei hér skal búðarápið stundað helst 7 daga vikunnar af miklu kappi. Maður veltir fyrir sér tilgangi þess að hafa þennan langa opnunartíma verslana alla daga vikunnar.

En í dag er tækifærið til að brjóta upp þann lífsstíl sem litast af daglegum verslunarferðum því í dag er alþjóðlegi "kaupum ekkert dagurinn". Hvatt er til þess að fólk geri lífstilraun á sjálfu sér og brjóti upp þann vana að fara umhugsunarlaust í búð hvenær sem er. Neytendasamtökin hvetja fólk til að kaupa ekkert í dag en þess í stað ígrunda hvaða áhrif innkaup hafa á líf okkar og umhverfi.

Ef ég þekki okkar fólk rétt þá eiga ekki margir eftir að taka þessari hvatningu en ég vil hinsvegar hvetja Neytendasamtökin til þess að gera meira úr þessum degi næst, fá fleiri í lið með sér og kynna uppátækið sem víðast og fá samstarfsaðila, halda málþing um málið sama dag og jafnvel eitthvað fleira.

Þessi áskorun um að kaupa ekkert er of skemmtileg til þess að við höfum efni á að hún fái aðeins örfáar línur í Fréttablaðinu sem sína kynningu.

Nánar má lesa um uppátækið á vef Neytendasamtakanna.:

http://www.ns.is/ns/frettir/?cat_id=6413&ew_0_a_id=294368

JB

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband