Rök og rifrildi. Aðeins meira um rökræður, kappræður, Kastljósið að ógleymdum Sókratesi

Nokkrir einstaklingar hafa haft samband við mig vegna færslunnar sem birtist hér á undan. Hafa skoðanir verið skiptar um hana eins og eðlilegt má teljast. Hafa sumir tekið undir sjónarmið mín en aðrir segja að ég hafi verið ósanngjarn og jafnvel meiðandi í ummælum mínum. Slíkt var ekki ætlunin og ef svo reynist biðst ég afsökunar. Einn ágætur gagnrýnandi minn taldi það grín að ég skyldi hafa boðið Sókratesi að taka þátt í pistli mínum, en svo var alls ekki. Sókrates gegnir nefnilega lykilhlutverki í afstöðu minni til rökræðunnar.

Ég hef lengi haft áhuga á pólitískum umræðum í fjölmiðlum en ég hef lengi verið á þeirri skoðun að of oft skortir á að telja megi hana hafa annan tilgang en skemmtigildi. Þegar hasarinn verður mikill, frammíköllin, æsingurinn og rifrildið verða margir ansi kátir. Ég hef stundum haft þann grun að sumir þátttastjórnendur geri út á hasarinn í stað yfirvegaðrar málefnalegrar umræðu. Ef maður ætlar sér að vera yfirvegaður í samræðum þá er maður að taka á viðmælendum með silkihönskum er stundum sagt. En misskilningurinn er sá að það þarf ekki að hafa blóðþrýstinginn í botni til þess að taka megi á viðmælendunum af hörku. Og hér kemur samræðu- og spurningatækni Sókratesar til sögunnar. Yfirvegaður var hann karlinn en mjög beittur, enda náði hann árangri í rökræðum sínum. Hversvegna má ekki gera meira af því að rökræða þjóðmálin í stað endalausrar kappræðu og æsings?

Því miður virðast margir ekki gera sér grein á þeim mun sem er á kappræðu annarsvegar og rökræðu hinsvegar. Það kappræða bara allir, enda ekkert skrítið því það er eitthvað sem við höfum alist upp við. Ef ágreiningsmál eru rædd í skólum er kapprætt, þú átt að vinna andmælanda þinn en ekki komast að kjarna málsins. Ef ágreiningsmál eru rædd í fjölmiðlum er kapprætt, þú mátt ekki sýna nein merki efasemda eða umhugsunar, kaffærðu viðmælanda þinn og þú sigrar ef þú hefur hærra. Þannig alast börnin upp við samræðuhefð kappræðunnar.

Ef við færum að rökræða meira fengjum við meira svigrúm til að tjá okkur, við fengjum frekara tækifæri til þess að komast að því sem er kjarni málsins hverju sinni, við myndum ekki líta á andmælanda okkar sem "óvin"  heldur er rökræðan ákveðið tæki til þess að komast að betri og réttari niðurstöðum í því máli sem um er rætt hverju sinni. Á meðan kappræðan krefst þess að gripið sé mikið frammí, krefst upphrópana og sleggjudóma krefst rökræðan góðra raka. Og síðast en ekki síst í rökræðunni leyfist sá "skelfilegi glæpur" að hugsa málið, efast og jafnvel skipta um skoðun.

En í fjölmiðlunum verður væntanlega seint rökrætt. Hversvegna? Nú eins og fjölmiðlamenn segja svo oft: "tíminn er alveg að hlaupa frá okkur." Enginn má vera að neinu í fjölmiðlum nema helst öskra og æpa í stuttan tíma.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Hef líka bloggað um spyrla í Kastljósi.  Það er því miður þannig að Sigmar og fleiri virðast telja sjálfsagt að þeirra flokkspólitíska afstaða eigi heima í vinnunni þeirra.  Fátt er hinsvegar leiðinlegra hjá spyrlum, en einmitt þegar þeir eru með prívatskoðanir sínar á lofti og hitt, þegar fáfræði þeirra hamlar því að þeir geti tekið vitrænt viðtal.  Annars er Egill Helgason í sama vanda og Simmi.  Í þáttanum hans grípur hann sífellt fram í til að koma sínum skoðunum á framfæri.  Einsog einhver hafi nú áhuga á þeim aðrir en hann sjálfur. Þátttakendur í þáttunum má afsaka.  Þeir eru frekar í kappræðu  Ekki að ófyrirsynju að þátturinn er uppnefndur "Í hænsnakofanum hjá Agli".

Auðun Gíslason, 13.10.2007 kl. 20:53

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Persónulega var ég mjög ánægð með Sigmar í þessum þætti. Hann kom í veg fyrir að viðmælendurnir kæmu sér hjá því að svara eða væru að gjamma fram í.
Auk þess get ég ekki séð hvernig hægt er að kalla svona viðtalsþætti rökræður. Spyrillinn er ekki að reyna að koma sjónarhorni á framfæri... hann bara spyr beinna spurninga og maður skyldi ætla að það ætti að vera hægt að svara þeim án þess að fara út í ræðuhöld

Rökræður eru þegar er verið að ræða réttmæti tveggja/margra skoðanna. Þetta er barasta allt annað

Heiða B. Heiðars, 13.10.2007 kl. 21:51

3 Smámynd: Gunnhildur Hauksdóttir

Neeiiii það er ekki hægt að vera ánægð/ur með Sigmar í þessum þætti.

Jú jú, það er hlutverk hans að spyrja gagnrýnna spurninga, en líka að hlusta á svörin og taka næsta skref útfrá þeim.

Það er einsog hann sé spólandi í einhverju fari sem hann er búin að gefa sér fyrirfram... það er varla góð... hvorki kappræða, rökræða né fjölmiðlamennska...

Gunnhildur Hauksdóttir, 13.10.2007 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband