Um fyrsta og eina skiptið sem ég hef reynt að múta....eða kannski fer maður að geta farið með gömlu rafmagnstækin í viðgerð

Ég tók þátt í 7 vikna verkfalli grunnskólakennara haustið 2004. Þetta var mjög athyglisverður tími og á vissan hátt afskaplega góður tími. Sumir sem tóku þátt í verkfallinu létu örvæntingu, angist, reiði, pirring og allsherjar svekkelsi ná tökum á sér á meðan aðrir voru ákveðnir í að nota þennan tíma til þess að endurmeta lífsgildi og viðhorf. Ég var einn af þeim sem ákvað að nýta tímann í stað þess að sofa fram yfir hádegi og vakna fúll og fara seint að sofa og sofna fúll og svekktur. Það hlaut að vera hægt að gera eitthvað uppbyggilegt í ástandi sem verkfall er.

Eitt af því sem ég gerði í verkfallinu var að fara niður í kjallara og hugsa, pæla, skoða og gramsa í gömlu dóti (sem kannski hefði mátt vera búið að henda) og leyfa því að gefa lífi mínu jákvæða merkingu. Eitt af því sem var í kjallaranum var plötuspilari og allgóður slatti af vínilplötum. "Því ekki að koma þessum græjum í gang fyrst ég hef tíma" hugsaði ég. Nálin var ónýt og ekki snérist plötuspilarinn. En hvað um það þarna var komið skemmtilegt verkefni. Það var ekki svo flókið að fá nýja nál, að vísu þurfti ég að kaupa aðeins meira en nálina en ég lét mig hafa það. Og þegar nálin var komin á sinn stað var að reyna að fá tækið til að snúast og þá fóru nú ævintýrin að gerast.

Ég fór inn á fyrsta raftækjaverkstæðið með plötuspilarann undir hendinni. Nei Nei við gerum ekki við svona þú verður að fara á hinn staðinn og ég fór á hinn staðinn og nei nei við gerum ekki við svona þú getur prófað á einhvern annan stað. Og áfram hélt sagan þar til á einu verkstæðinu var mér hreinlega sagt að það geri enginn við plötuspilara, það bara borgar sig ekki eins og maðurinn sagði. Hva, borgar það sig ekki sagði ég. Nei það borgar sig ekki. En ef mér tekst að spila allar gömlu plöturnar með Utangarðsmönnum, Þey, Baraflokknum osfrv ertu þá að halda því fram að það sé ekki eitthvað sem borgi sig? Nei vinur það borgar sig ekki að gera við gömul rafmagnstæki, þú bara kaupir þér nýtt. Já en svona plötuspilarar fást bara ekki hvar sem er. Þú bara kaupir þér geislaspilara. Já en ég vil hlusta á vínilinn, ég get ekki farið að kaupa allt upp á nýtt á cd og þar fyrir utan hefur ekki allt verið gefið út á diskum. Já en samt þetta bara borgar sig ekki sagði rafmagnstækjamaðurinn.

En þá datt mér snjallræði í hug. Best að reyna að múta honum. Fyrsta og eina skiptið á ævinni sem ég hef reynt að múta einhverjum og takið eftir að ég var í verkfalli. Ég sagði við hann nefndu einhverja upphæð fyrir að gera við plötuspilarann og ég skal borga þér hvað sem það kostaði. Nei nei viðskiptavitið var akkúrat ekkert. Því miður við bara gerum ekki við svona tæki. ok þú um það bless.

Ég var nú ekki alveg að baki dottinn og mér tókst að fá fjölskyldumeðlim til að kíkja á spilarann og viti menn hann komst í lag á eldhúsborðinu hér heima á Tunguveginum. Og það sem meira er að hann er í þónokkurri notkun og var hann bara notaður síðast núna á laugardaginn þegar við spiluðu Leonard Cohen á vínil og líka Stevie Ray Vaughan.

Þannig vorum við íslendingar á þeim tíma  niðursokkin í samfélagi sóunar og neysluhyggju. Nú er sá tími í samfélaginu að við ættum að koma okkur upp úr neysluhyggju og sóun og vonandi mun "kreppan" verða til þess að við getum farið að láta gera við gömlu rafmagnstækin. Það fer betur með auðlindir og umhverfi og svo sparar það líka innflutninginn.

Og að lokum. Er einhver þarna úti sem á gamalt vasadiskó sem ég gæti fengið fyrir ekkert. Ég á nefnilega örfáar snældur sem ég væri alveg til í að hlusta á (ein er meira að segja frá Norður Kóreu).

JB

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband