"Illa vinstrigrænt" heimilishald virkar best í "kreppunni"

Það er mikið talað um kreppu þessa dagana. Fréttatímarnir eru fullir að sorgmæddum peningamönnum sem hafa rænt almenning hvað eftir annað og skilja ekkert hvað af peningunum hefur orðið. Ef til vill á ég eftir að finna fyrir einhverrri kreppu en ég hef ekki fundið neitt ennþá. Rafmagnið var á húsinu þegar ég vaknaði í morgun, það kom bæði heitt vatn og kalt úr krananum, það var matur í kæliskápnum, korn fyrir kisa og haframjölið var á sínum stað og ekki var nú kalt undir sænginni. Svo var keðjan enn á hjólinu þegar ég hjólaði af stað. Hvar er þá þessi kreppa? Aha kreppan er ekki alveg kominn til mín vegna þess góðir íslendingar að ég bý við "illavinstrigrænt" heimilishald og hef gert lengi, burtséð frá öllu efnahagsástandi.

Síðasta vetur kom orðalagið "illavinstrigrænt" og persónulýsingin að vera "illa vinstrigrænn" fram og þótti alveg svakalega hallærislegt að vera svona "illa vinstrigrænn" eins og ég og mín fjölskylda er. Allir voru að græða svo ógeðslega mikið og allir voru svo mikill "mannauður" og óku á svo dýrum blikkbeljum og bjuggu í svo stórum steypuklumpum og reyndu sem mest að svíkja og ræna almenning að það að vera "illa vinstri grænn" þótti bara ömurlegt. En nú er bara að koma í ljós að það að vera svona "illa vinstrigrænn" er að koma sér alveg einstaklega vel núna á þessum samdráttartímum. En hvernig þá? Hver er galdurinn á bakvið það að vera "illa vinstrigrænn"? Kíkjum á nokkur lykilatriði sem ég hef að leiðarljósi í mínu "illa vinstri græna" heimilishaldi hvort sem það er góðæri eða kreppa:

* Sama hversu góðærið er mikið, ekki fríka út. Hugsaðu að margur verður af aurum api og að peningar gera mann ekki hamingjusamann. Reyndu að gleyma því sem oftast að þú eigir einhvern auka aur.

* Keyptu aldrei hlutabréf í öðrum fyrirtækjum en þeim sem þú vilt styrkja af góðmennsku þinni. Ekki kaupa með gróðavon í huga. Sjálfur á ég lítinn hlut í fyrirtæki sem heitir Friðarhús og ætlast ég ekki til þess að sá hlutur haldi í mér lífinu.

* Ef þú eignast auka aur þá skaltu bara geyma hann á bankabók, ef þú átt einhvern smá slatta af aurum inni á banka þá mega vextirnir vera eins háir og hægt er og eins lengi og mögulegt er.

* Taktu helst aldrei lán. Safnaðu fyrir því sem þú ætlar að kaupa þér og ef þú nærð ekki að safna þá er málið einfalt, ekki kaupa hlutinn. Og alls ekki taka lán fyrir rugli eins og bifreið. Maður kemst væntanlega ekki hjá því að taka lán fyrir húsnæði en þá verður svo að vera, en ekki byrja á því að henda öllu út úr íbúðinni áður en þú flytur inn. Borgaðu eins mikið í henni og hægt er og málaðu og leggðu gólfefni einhvern tíman seinna. Það gerðum við í "illa vinstrigrænu" fjölskyldunni.

* Ekki búa í of stóru húsnæði. Hugsaðu um öll þrifin í stórum steinsteypu kassa og svo á maður eftir að deyja frá steypunni einhvern daginn fyrir utan hvað mikil steypa er dýr. Láttu ekki marmarasnobb bera þig ofurliði.

* Ekki fleiri bíla en einn á fjölskyldu. Og þó að það sé til bíll er engin skylda að nota hann daglega. Það gleður mig mjög þegar ég átta mig á að suma daga hreyfist bíllinn ekki neitt. Þá hefur reiðhjólið verið notað nú eða strætó. Á sama tíma og það gerist er verið að vinna gott starf fyri umhverfið.

* Aldrei að treysta stórum einkareknum fyrirtækjum, einkum bönkum, fjarskiptafyrirtækjum og tryggingafélögum. Þegar þessi fyrirtæki hringja og eru að bjóða manni gull og græna skóga á maður alltaf að hugsa um ævintýrið um úlfinn og kiðlingana sjö og biðja liðið vel að lifa. Þessi fyrirtæki eins og t.d. bankarnir og ekki síst svikamyllan O Vodafone vilja bara hafa af ykkur fé. Látum ekki blekkjast.

* Flokkaðu heimilissorp og láttu allt lífrænt í moltutunnu sem þú skalt síðan nota í matjurtargarð. Ég er nýbúinn að taka upp ljúfengar kartöflur og það var ekkert "kreppubragð" af þeim.

* Farðu frekar sparlega með rafmagn. Þetta lærði ég þegar ég bjó í Belgíu en ég komst að því að það skiptir líka máli á Íslandi að hafa ekki kveikt ljós að óþörfu.

* Það er algjör óþarfi og allt of dýrt að vera með Stöð 2. Ef maður vill sjá fínt myndefni er alveg eins gott að leiga sér mynd eða fá hana lánaða á næsta bókasafni að kostnaðarlausu.

* En eitt að lokum. Ef þig langar í gluggatjöld eða flatskjá og átt pening til að borga út í hönd þá skaltu fá þér slíkt, en aðeins ef þig langar en þú skalt ekki fá þér slíkt bara til að vera í samkeppni við nágrannan. Samkeppnin við nágrannana þegar efnisleg gæði eru annars vegar er eitt af því versta sem nokkur "illa vinstri græn" manneskja getur hugsað sér.

* Og svo eitt enn að lokum: Hugsaðu einstaka sinnum um fátæku börnin í Afríku, eða í Indlandi eða Brasilíu eða Mongólíu. Í ljósi þeirra verður kreppan hér á landi harla léleg og einhvernveginn getur maður ekki vorkennt peningamönnunum súru, nú nema kannski helst Bjarna Ármanns fyrir að vera svona ægilega blindur í verðmætamati sínu. Hann hlýtur að vera mjög óhamingjusamur.

Ég vona að þessir örfáu punktar hjálpi einhverjum í "kreppunni" . Við þurfum nefnilega að hafa í huga að allt er þetta pólitík. Pólitíkin er ekki bara það sem stjórnmálamenn gera og segja heldur getum við lifað okkar pólitíska lífi inni á eigin heimilum og því er vel hægt að halda "illa vinstri grænt" heimili.

Góða helgi, ég er sannfærður um að það verður frábær helgi framundan jafnvel þó það verði bensínskortur og ekki til amerískt Kókapuffs í Bónus. (það er þó í það minnsta enn fiskur í sjónum ekki satt).

JB


Frelsi og fallegar byggingar

Síðastliðin níu ár hefur Félag múslima á Íslandi beðið eftir því að borgaryfirvöld afgreiði umsókn um byggingarlóð vegna mosku og menningarmiðstöðvar. Á sama tíma hafa umsóknir allra annarra trúfélaga verið afgreiddar. Ekkert bólar á svari frá borgaryfirvöldum og hafa eftirlitsnefndir Evrópuráðsins gegn kynþáttamisrétti og bandaríska utanríkisráðuneytisins lýst áhyggjum sínum vegna málsins. Í ársskýrslu stjórnardeildar lýðræðis-, mannréttinda- og atvinnumála sem gerð var fyrir utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna er því haldið fram að fordómar gagnvart múslimum valdi því hversu langan tíma borgaryfirvöld hafa verið að afgreiða málið.

Ef það er rétt að umræddur seinagangur stafi af fordómum í garð múslima eins og segir í áðurnefndri skýrslu er það mjög alvarlegt mál og skýlaust brot á mannréttindastefnu Reykjavíkur sem samþykkt var árið 2006. Í þeirri stefnu segir að óheimilt sé að mismuna fólki vegna trúar- eða stjórnmálaskoðana og jafnframt segir að Reykjavíkurborg skuli sýna trú og skoðunum fólks virðingu og umburðarlyndi.

Fordómar í garð múslima sérstaklega byggjast á þekkingarleysi og skorti á umburðarlyndi. Sagan sýnir að innan allra trúarbragða geta ofstækishópar þrifist og vísasta leiðin til að næra þá er illa dulin andúð yfirvalda.

Borgaryfirvöldum ber að afgreiða umsóknin um lóðina sem fyrst og ef málið telst á einhvern hátt erfitt eins og haft er eftir umhverfisstjóra skipulags- og bygingarsviðs ber borgaryfirvöldum að funda með Félagi múslima og leita lausna.

Reykjavík tekur örum breytingum og fjölmenningarsamféalgið er komið til að vera. Með fjölmenningunni koma trúarlegar byggingar sem undantekningarlaust eru til prýði. Til viðbótar við kirkjubyggingar kristinna safnaða sjáum við brátt rísa hof ásatráurmanna, búddista, og glæsilega byggingu réttrúnaðarsafnaðarins og vonandi bætist í þessa flóru falleg moska á góðum stað í borginni.

Öll leggjum við mikið upp úr því að njóta frelsis í frjálsu landi. Það þýðir að við tryggjum trúfrelsi og skoðanafrelsi í reynd og virðum lýðræðislegar óskir svo fremi þær skaði ekki annað fólk. Vinnubrögð borgaryfirvalda í þessu máli virðast ekki vera í þeim anda.

Greinin birtist í 24 stundum í dag 30. september.

Jóhann Björnsson og Þorleifur Gunnlaugsson


Þarf nokkuð að prófa nemendurna?

Ég var í gær á mjög glæsilegri ráðstefnu um menntamál í íþróttahöllinni á Akureyri. Alls voru þátttakendur um 850 talsins og var fjöldi frábærra fyrirlestra og málstofa í gangi. Það var mjög ánægjulet að fá að halda eina málstofu þar sem umræðurnar urðu mjög góðar en málstofuna kallaði ég: "Þarf nokkuð að prófa nemendurna?" Það sem ég ræddi m.a. voru eftirfarandi atriði:

* Til hvers er prófað?

* Hverjar eru megináskoranir þeirra kennara sem prófa ekki eða halda prófum í lágmarki og gefa jafnvel ekki einkunnir?

* Verða nemendur latir, aga- og áhugalausir ef þeir fá ekki einkunnir?

* Hafa próf áhrif á hamingju nemenda, sjálfsmynd og tilgang lífsins?

Umræður voru mjög góðar enda málstofan vel sótt. Einn þátttakandi koma með mjög athgylisverða athugasemd þar sem hann sagði eitthvað á þessa leið: "Blóm sprettur ekkert betur þó alltaf sé verið að mæla það."

Ég bað þátttakendur einnig að hugleiða eftirfarandi og taka þessa pælingu með sér heim:

Nemendur og kennarar mæta til starfa að hausti. Þetta skólaár er alveg eins og öll önnur nema að einu leyti og það er að allir vita að þetta er síðasti veturinn sem nemendur og kennarar eiga eftir að lifa. Mynduð þið haga skólastarfi öðruvísi en vanalega vitandi þeta? Breytir þetta einhverju varðandi skólastarfið og ef svo er hverju? Nálgumst við viðfangsefni daglegs lífs öðruvísi ef við erum meðvituð um að við munum á endanum deyja frá þessu öllu saman.

JB


Páll Óskar sýnir kung fu

Ekki verður annað sagt en að Páll Óskar sé núþegar búinn að bjarga deginum. Ég las það í Fréttablaðinu í morgun að hann ætlar að bjóða upp á alvöru kung fu kvikmyndaveislu í Bæjarbíói 2. október kl. 21.00.

Allt frá því ég laumaði mér sem barn inn í Félagsbíó í Keflavík á rosa kínverska kung fu mynd bannaða börnum þar sem mannskapurinn krækti með berum höndum í augu og ýmis líffæri auk þess að sparka harkalega í punga hef ég bara ekki verið samur maður. Kung fu dellan heltók mig og hefur ekki sleppt mér síðan. Ég hef að vísu farið ansi hljótt með þessa dellu og horft á kung fu myndirnar í laumi þar sem fólk í kringum mig hefur ítrekað sagt mér hversu ógeðslega hallærislegar þessar myndir eru. Og ég hélt að ég væri eini kung fu myndadellugæinn í landinu. Þangað til Palli boðar til kvikmyndasýningarinnar góðu.

Frábært framtak.

JB


Já góðan dag, get ég fengið að tala við grafarvogsguðleysingja? Nei hann er upptekinn en þú getur fengið að tala við vesturbæjarvotta eða miðbæjarmúslima.

Á meðan lygararnir hjá Vódafóne hugsa næsta leik í því hvernig best sé að blekkja börnin (sbr. færslu mína hér á undan) þá getum við hin hringt í borgina og fengið að tala við nýja starfsmenn borgarinnar sem eru þeir félagar vesturbæjarvotti, ásatrúarárbæingur, breiðholtsbahái, miðbæjarmúslimi og grafarvogsguðleysingi að ógleymdum honum Þorvaldi Víðissyni miðbæjarpresti.

Það bárust nefnilega fréttir af því í gær að borgin ætlar að halda áfram að hafa trúboða í starfi í miðbænum til þess að leysa ófremdarástandið sem ríkir í miðbænum eins og sagt var í fréttinni. Nú ætlar borgin aðeins að greiða fyrir hálfa stöðu en hálf staða þýðir aðeins 4,6 milljónir af almannafé. Nú er ég alveg hissa á því hvers vegna ekki eru bara ráðnir margir prestar í miðbæinn fyrst þetta er lausnin á hinum margumrædda vanda miðbæjarins. Nú hvað með að leysa vanda allra hverfa með áðurnefndum vesturbæjarvotta sem myndi sérhæfa sig í vanda vesturbæjar, ásatrúarárbæingnum sem myndi passa upp á að ekki væri stolist ofan í árbæjarlaug að næturlagi, svo myndi garafarvogsguðleysinginn passa upp á Grafarvoginn og breiðholtsbahaíinn sjá til þess að breiðhyltingar færu snemma að sofa. Miðbjærmúsliminn yrði síðan Þorvaldi Víðissyni til halds og trausts í miðbænum þar sem þeir gætu passað upp á að fólk væri ekki að míga og skíta á gangstéttarnar.

Þetta er frábært og að ég held það eina góða sem borgarráð hefur gert á kjörtímabilinu. Og að lokum kærar þakkir á geðsjúklingurinn skilið sem fattaði upp á trúarbrögðunum því þau eiga eflaust eftir að leysa allan vanda borgarinnar.

Ég er svo glaður yfir þessu framtaki. Halo

JB


Vodafone brýtur á barni

  Á neytendasíðu Dr. Gunna í Fréttablaðinu 11. september s.l. segi ég frá samskiptum Vodafone við 15 ára ungling og hvernig fyrirtækið sendir frá sér villandi auglýsingu í sms skilaboði og nýtir sér þannig trúgirni og reynsluleysi unglings.

Forsaga málsins er sú að þann 3. ágúst s.l. keypti sonur minn 15 ára gamall sér símatilboð hjá Vodafone sem gekk út á það að hann gat hringt í fimm vini sína ókeypis í einn mánuð og síðan átti inneignin að gilda í sex mánuði. Um það leyti sem tilboðsmánuðurinn er að renna út og sonur minn er farinn að huga að því að hann getur ekki lengur hringt frítt í fimm vini sína berast sms skilaboð í síma hans frá Vodafone sem hljóða svo: "Skítt með sumarið! Sumartilboði okkar 5 vinum hefur verið framlengt til 31 okt. Hringdu fríkeypis í 5 vini óháð kerfi. Lifðu núna,Vodfone."

Hvað segja þessi skilaboð unglingi sem ekki hefur reynslu af markaðssetningu fyrirtækja og þeim blekkingarleikjum sem þar eru stundaðir? Honum datt ekki annað í hug en hann mætti halda áfram að hringja í fimm vini sína til 31. október, eða allavega stóð ekkert annað í skilaboðunum. Hann heldur síðan áfram að hringja í vini sína í þeirri trú að hann geri það frítt eftir að hafa fengið umrætt skeyti frá Vodafone, þar til hann tekur eftir því að inneignin er allt í einu búin. Í skilaboðinu er ekki tekið fram að hann þurfi að gera eithvað til þess að geta hringt áfram í vini sína frítt. Hinsvegar hefði hann átt að greiða 1000 kr til þess að tilboðið gilti til 31. október (og 1000 kr er ekki frítt). Ég veit ekki hver ástæðan er fyrir því að Vodafone taldi ekki ástæðu til að geta þess í skilaboðinu. Lesendur geta reynt að leysa þann leyndardóm.

Dr Gunni ber málið undir Björn Víglundsson hjá Vodafone sem sér alls ekkert athugavert við að jafn óljóst sms skilaboð sé sent til unglings auk þess sem hann reynir að bjarga eigin heiðri með því að segja drenginn hafa verið búinn að nýta tilboðið í sex mánuði. Þar leggst Björn svo lágt að ljúga upp á 15 ára visðskiptavin en tilboðið var keypt þann 3. ágúst eins og áður segir en ekki fyrir túmum sex mánuðum eins og Björn heldur fram í Fréttablaðinu.

Nú er alls ekki ætlun mín að Vodafone bæti fyrir villandi skilaboð og það fjárhagstjón sem drengurinn varð fyrir, heldur vil ég fyrst og fremst vekja athygli á þeim siðferðilegu álitamálum sem um ræðir í markaðssetningu til unglinga í þeim tilgangi að að hvetja fyrirtæki að misnota ekki reynsluleysi og trúgirni ungs fólks eins og Vodafone gerir klárlega í þessu tilviki.

Í siðareglum Sambands íslenskra auglýsingastofa segir m.a.: "Í auglýsingum skal ekki misnota hina eðlilegu trúgirni barna né reynsluskort...."(13. grein)

Það er því alveg skýrt eftir hvaða reglum á að vinna þegar auglýst er. En það er fleira sem Vodafone verður að taka afstöðu til áður en send eru óskýr tilboð til barna:

  • - Er rétt að senda tilboð til barna og unglinga án þess að forráðamenn fái af því vitneskju?
  • - Er rétt að tilgreina ekki þann kostnað sem viðskiptavinur þarf að leggja í til að taka tilboði?
  • - Ber fyrirtækjum í markaðssókn sinni siðferðileg skylda til að beita öðrum aðferðum þegar börn og unglingar eiga í hlut heldur en þegar um fullorðna er að ræða?
  • - Er rétt að gera ráð fyrir því að börn og unglingar geri sér grein fyrir öllum skilmálum samninga sem finna má einhversstaðar annarsstaðar heldur en í þeirri auglýsingu sem viðkomandi fær?

 

Ljóst er að af umræddu máli er full ástæða til að hvetja til virkrar umræðu um siðferði viðskiptalífsins, ekki síst með tilliti til hagsmuna barna og unglinga. Það er því hér með skorað á umboðsmann barna að stofna til  málþings hið fyrsta  þar sem rætt yrði um siðferði, auglýsingar og börn.

Greinin birtist einnig á Vísi.is

JB


Spennandi verkefni á Akranesi

Í þessari viku hitti ég alla nemendur í 6.-10. bekk í Brekkubæjarskóla á Akranesi, alls 11 bekki. Ástæðan er undirbúningur vegna komu flóttamannana í skólann, en þeir hefja nám eftir helgi. Í dag hitti ég 4 bekki og var mjög ánægjulegt að heyra hversu margir nemendur eru áhugasamir um komu flóttafólksins og greinilega staðráðnir í að bjóða þá velkomna. Mitt verkefni felst fyrst og fremst í því að efla með nemendum fjölmenningarlega færni með umræðum og ýmsum verkefnum. Ljóst er að Brekkubæjarskóli er að taka að sér mjög spennandi en jafnframt krefjandi verkefni sem gaman verður að fylgjast með.

JB


Hvort er betra að drekka litla kók eða stóra kók?

Ég var í strætó í dag, leið 11 frá Bústöðum niður á Hverfisgötu þegar ég sá auglýsingu í vagninum frá Glitni. Auglýsingin var um eitthvað námsmannagreiðslukort og sagði frá því að í einhverjum kvikmyndahúsum gætu námsmenn fengið stóra kók á verði litlu kókarinnar með því að nota umrætt kort. Telja forsvarsmenn Glitnis sig væntanlega vera að gera námsmönnum einhvern rosa flottann greiða en er það svo? Nú spyr ég: Í ljós þess að vesturlandabúar og þar með íslendingar eru að þyngjast og offita að aukast og í ljósi aukinna tannskemmda ungs fólks er þá tilboð Glitnis unga fólkinu í hag eða ekki?

JB


Ég veit ekki hver Egill Helga er. En ef það er karlinn í sjónvarpinu þá er hann rosa hallærislegur.

Það verður að segjast eins og er að það er dálítið gaman að þessum náunga Agli sem er svo oft í sjónvarpinu. Hann er líka með vefsíðu og félagi minn í Siðmennt Sigurður Hólm var að skiptast á skoðunum við hann á síðu þess fyrrnefnda þann 12. september s.l. og var til umræðu m.a. aðskilnaður ríkis og kirkju og kristni í skólum. Orðræðan er athyglisverð, gefum þeim orðið:  

 

Sigurður Hólm beinir orðum til Egils (umræðan komin af stað á undan): "Ef þú átt við fræðslu um kristna trú þá er ég (og Siðmennt) algerlega sammála þér. Hef alltaf verið þessarar skoðunar. Það hefur því komið mér á óvart stundum hversu neikvætt þú talar stundum um Siðmennt. Mér sýnist nefnilega baráttumál Siðmenntar vera baráttumál þín að mestu leyti
(http://skodun.is/2007/12/01/satt-og-logid-um-stefnu-sidmenntar/) ."

Egill svarar Sigurði Hólm: "Neikvætt um Siðmennt? Ég veit ekki hvað Siðmennt er. En ef það eru samtökin sem standa fyrir borgaralegum fermingum, ja, þá finnst mér þær rosa hallærislegar."

Þetta er eitt skemmtilegasta svarið sem ég hef heyrt þegar orðræða um álitamál er annarsvegar og væri tilvalið að nota það í kennslustund í heimspeki. Það sem Egill gerir svo snilldarlega er að allt í einu af einhverjum ástæðum sem eru mér ókunnar, breytir hann umræðuefninu frá því að vera um trúmál yfir í það hversu hallærislegar borgaralegar fermingar eru. Hvergi var rætt um borgaralegar fermingar á undan en allt í einu er hugtakið "hallærislegt" og borgaralegar fermingar aðalmálið í umræðunni.

Þetta er mjög þekkt taktík og hefur heimspekingurinn Martin Levander sýnt sambærileg dæmi í bók sinni "Heimspeki" sem út kom 1997. Kíkjum á tvö dæmi frá Levander í anda Egils.

"Lagafrumvarp Clintons forseta er ógnvænlegt og þar fyrir utan hefur hann haldið framhjá." (s.24)

Augljóst er að framhjáhaldið hefur ekkert með lagafrumvarpið að gera en hinsvegar er það notað til þess að gera lítið úr frumvarpinu og Clinton sem stjórnmálamanni.

Annað dæmi:

"Ofbeldisbrotum og dagheimilum hefur farið fjölgandi síðustu 20 árin. Er ekki kominn tími til að loka dagheimilum?" (s.27)

Levander tekur fram að þessi seinni röksemd hafi verið notuð  í samfélagsumræðunni í Svíþjóð vorið 1994 í fúlustu alvöru. Það er því óhætt að segja að það hafi verið einhver "Egill" í svíunum vorið 1994.

Tounge JB


Hörður Torfa langflottastur

Ég var einn af þeim fjölmörgu sem fóru á hausttónleika Harðar Torfa í Borgarleikhúsinu s.l. fimmtudag. Mjög vel heppnaðir tónleikar og Hörður sýndi svo ekki verður um villst hversu flottur karakter er þarna á ferð. Lífssýn hans og viðhorf eru mjög áhugaverð, heilbrigð og skemmtileg. Það er augljóst af textunum hans að á sínum tíma var hann langt á undan sinni samtíð. Og það besta við Hörð er án efa hversu sjálfstæður listamaður hann er. Ábyggilega er erfitt að vera listamaður á Íslandi í dag þar sem gylliboð  gráðugra fyrirtækja sem allt vilja eiga freista. En Hörður hefur staðist þær freistingar. Í viðtali við 24. stundir sagði hann þar sem hann ræddi um sjálfstæði sitt:

"Nú held ég að megi fullyrða að ég sé eini sjálfstæði maðurinn. Ég er ekki í eigu neins fyrirtækis og það eru ekki neinir bankar á bak við mig."

Kærar þakkir Hörður.

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband