Fyrsta útför Siðmenntar

Síðastliðinn föstudag stóð Siðmennt félag siðrænna húmanista fyrir sinni fyrstu útför. Eins og kunnugt er hefur Siðmennt staðið fyrir borgaralegum fermingum s.l. tuttugu ár og á síðasta ári hóf félagið að bjóða upp á giftingarathafnir. Nú þegar hafa tvö pör gift sig á vegum Siðmenntar og tvö önnur hafa þegar ákveðið að gera slíkt nú í sumar.

Fyrir um ári síðan sótti hópur félaga í Siðmennt námskeið í að stýra veraldlegum útförum. Hefur sá hópur sem samanstendur af um tíu einstaklingum unnið að undirbúningi á því að bjóða upp á veraldlegar athafnir við hverskyns tilefni. Það var svo s.l. föstudag eins og áður segir sem Svanur Sigurbjörnsson sem er einn af athafnastjórum Siðmenntar stýrði útför. Þótti útförin takast afskaplega vel og því ánægjulegt að segja frá því að nú hefur fólk frekara val um það hvernig það vill að útför sinni eða sinna nánunstu ættingja er háttað.

Frekari upplýsingar um húmanískar eða veraldlegar athafnir á vegum Siðmenntar má lesa á vef félagsins http://www.sidmennt.is

JB


Nýra til sölu

Eins og kunnugt er hafa fjölmiðlar gríðarleg áhrif á verðmætamat fólks, ekki síst ungs fólks sem er í mótun. Fréttablaðið kom með athyglisvert innlegg inn í umræðu líðandi stundar um verðmætamat þegar fjallað var um einhverjar töskur sem kallast Burberry (takið eftir að töskur eru svona hlutir til að geyma ýmislegt í og henta ágætlega þegar farið er frá einum stað til annars og hafa þarf eitthvað dót meðferðis). Í Fréttablaðinu birtist eftirfarandi setning um þessar töskur á bls. 10  í sérblaði sem heitir Föstudagur:

"Hver myndi ekki vera til í að selja úr sér annað nýrað fyrir þessa Burberry-tösku?" (Og svo birtist mynd af umræddri tösku sem er að mati Fréttablaðsins mikilvægari en nokkurt nýra).

Ég bara spyr eins og Fréttablaðið, jú hver væri ekki til í að missa eins og eitt stykki nýra fyrir svona poka?

JB


Ef einhver hefur rænt úr búð er ég þá í fullum rétti til að ræna líka?

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur ráðið miðborgarstjóra á hæstu mögulegu launum með mestu mögulega yfirvinnu eins og fram hefur komið. Réttlætir hann kjörin með því einu að vísa til þess að miðborgarstjóri R listans hafi verið á sömu kjörum á sínum tíma. Nú spyr ég:

Ef einhver hefur gert einhverja vitleysu, réttlætir það þá að sömu vitleysunni skuli haldið áfram endalaust? Er þá ekki ráð að snúa til betri vegar af þeirri villu sem einhvern tíman tíðkaðist?

Bætum siðferðið í pólitíkinni.

JB

 

 


Saga kommúnismans sögð í borgarstjórn eða úlfar í kanínuskinnum

Ég fór að hlusta á borgarstjórnarfund í dag þar sem mannréttindamál voru rædd vel og lengi. Eins og frægt er orðið hefur mannréttindastjóri sagt upp og meiririhlutinn í borgarstjórn hefur ekkert verið að hafa miklar áhyggjur af málunum. Væntanlega engin ástæða til enda mannréttindamálin í Írak og Afganistan í miklu mun verra standi. Þó hefur meirihlutinn loksins auglýst starf mannréttindastjóra og var það gert í bílablaði 24 stunda í dag. Geri ég ráð fyrir að auglýsingunni sé beint til trukkabílstjóra sem þekkja gasið með eigin augum og vilja komast í annað djobb.

Svo bar það við í umræðum í borgarstjórn að formaður mannréttindaráðs sá ástæðu til þess að sýna borgarbúum það í eitt skipti fyrir öll hversu ægilega vondar manneskjur borgarfulltrúar Vinstri grænna eru. Til þess að gera það rakti formaðurinn blóði drifna sögu kommúnismans frá upphafi allt til dagsins í dag. Í snilldarlegri söguskýringu sinni gat formaðurinn rakið ferilinn frá því löngu fyrir daga Stalíns og endaði sagan í sal borgarstjórnar á borðum VG sem hinum eina sanna arftaka heimskommúnismans sem var alltaf svo mikið á móti mannréttindum. Sú ályktun sem draga má af þessari athyglisverðu söguskýringu er sú að borgarfulltrúar VG eru ekki bara úlfar í sauðagærum heldur öllu heldur úlfar í kanínuskinnum. Þeir þykjast trúa á mannréttindin en eru þegar sagan er skoðuð vondir og ljótir kommar sem vilja sem minnst af mannréttindum vita.

En þar með málið ekki alveg búið. Formaður mannréttindaráðs vakti einnig máls á því í einni af sínum málefnalegu ræðum að fulltrúar minnihlutans hafi nú ekki sýnt málaflokknum áhuga þar sem enginn þeirra mætti á ráðsetefnu um innflytjendur sem haldin var nýlega um útlendinga og glæpi. Mér þykir það afskaplega leitt þó þetta skipti ekki öllu máli en þá sat ég umrædda ráðstefnu bæði fyrir sjálfan mig og ekki síður sem fulltrúi VG í mannréttindaráði. Það er bara leitt að ég skuli ekki hafa haft tækifæri til að vekja meiri athygli á sjálfum mér þarna á ráðstefnunni á meðan ég hlustaði á áhugaverð erindi.

JB Halo


Laugardagsfundur um mannréttindamál

Laugardagsfundur Vinstri Grænna í Reykjavík 3. maí mun taka fyrir stöðu mannréttindamála hjá Reykjavíkurborg. Gestir fundarins verða Jóhann Björnsson fulltrúi VG í mannréttindaráði og Sóley Tómasdóttir vararborgarfulltrúi og fyrrv. formaður mannréttindaráðs. Fundurinn er haldinn í Suðurgötu 3 og hefst klukkan 11.

Á nýjum skóm

112 ungmenni tóku þátt í borgaralegri fermingarathöfn Siðmenntar á sunnudaginn. Athöfnin fór vel fram. Þau Eva María Jónsdóttir og Þórarinn Eldjárn rithöfundur fluttu ávörp. Ávarp þórarins er komið á vef Siðmenntar og finnst á eftirfarandi vefslóð:

http://www.sidmennt.is

 

JB 


Hætti að prófa nemendurna

Í dag birtist í 24 stundum stutt grein sem byggð er á spjalli okkar Ingibjargar B Sveinsdóttur um skólamál. Hafði hún hlustað á viðtal við mig á Rás eitt um heimspeki í skólastarfi og tók hún eftir afstöðu minni til prófa og námsmats og vildi hún heyra meira. Ekki skírir greinin að fullu sjónarmið mín enda þyrfti mun meira pláss í blaðinu til að koma því öllu til skila. Miðað við þann áhuga sem fólk hefur sýnt skoðunum mínum á skólamálum væri full ástæða til að skrifa sérstaka grein og birta á öðrum vettvangi. Ekki er ólíklegt að ég geri það. En grein 24 stunda er svohljóðandi:

"Nemendur í Réttarholtsskóla sem sækja valfrjálst heimspekinámskeið hjá Jóhanni Björnssyni, heimspekingi og kennara, eru  ekki þjakaðir af prófkvíða vegna námsins eins og svo margir aðrir nemendur á þessum árstíma. Jóhann hætti nefnilega að prófa nemendurna fyrir nokkrum árum. "Mér blöskraði þegar ég hóf störf hér fyrir 6 árum yfir því hversu gríðarlega uppteknir nemendur voru af einkunnunum. Mér fannst það há kennslunni. Nemendur spurðu mig á göngunum um hvers vegna þeir hefðu fengið þessa tölu í einkunn en ekki einhverja aðra. Núna eiga þeir hins vegar til að velta upp einhverjum spurningum varðandi námsefnið þegar þeir mæta mér á göngunum," greinir Jóhann frá.

Hann gerir heldur ekki kröfu um að nemendur tjái sig í heimspekitímunum. "Í sumum skólum er ætlast til að allir taki til máls og tjái sig og svo eru nemendur metnir í framhaldi af því. Ég hef aldrei krafist þess. Hlustun og umhugsun er einnig þátttaka. Ég sannfærðist enn betur um þetta eftir að hafa verið með nemanda sem var málhaltur. Það hefði verið óréttlátt gagnvart honum að meta hann með tilliti til þátttökur í umræðu. Ég sá hinsvegar á látbragði hans að hann var virkur."

Jóhann kveðst reyna að halda prófafjölda í öðrum greinum sem hann kennir, landafræði og frönsku, í lágmarki. Og hann lætur nemendur taka þátt í gerð prófanna. "Í landafræði hef ég stundum látið nemendur búa til eins margar spurningar og þeir geta úr námsefninu. Þeir læra um leið og þeir semja spurningarnar sem þeir skila undir nafni. Ég vel síðan hluta af spurningum þeirra og nota sem grunn í prófinu."

Það er mat Jóhanns að kennarar noti í mörgum tilfellum próf sem agastýringu og hann kveðst sakna vitrænnar umræðu um námsmat. "Þegar fjöldi prófa er mikill hætta sumir nemendur að taka þau alvarlega en aðrir fyllast af streitu. Þegar lestur fyrir mörg skyndipróf í sömu viku bætist ofan á fullan vinnudag nemenda verður þessu ekki öllu sinnt. Kennarar þurfa að spyrja sig hversvegna þeir prófa og hversu oft þeir eigi að prófa."

Jóhann saknar þess einnig að skólastarf skuli ekki miða að því að stuðla að hamingju nemenda. "Það má leggja meiri rækt við það á meðvitaðari hátt. Þetta markmið vantar í námskrána. Með því að fækka prófum reyni ég að leggja mitt af mörkum.""

JB


Borgaraleg ferming haldin í tuttugasta skipti sunnudaginn 27. apríl n.k.

Hátíðar- og útskriftarathöfn borgaralegrar fermingar fer fram sunnudaginn 27. apríl í Háskólabíói. Þetta er í 20. skiptið sem borgaraleg ferming er haldin á Íslandi. Alls tóku 115 börn þátt fermingarundirbúningi Siðmenntar í ár frá öllum landshornum ásamt nokkrum búsettum erlendis sem voru í fjarnámi.

Athöfnin er útskriftarhátíð haldin í kjölfarið á þriggja mánaða námskeiði í lífsleikni og siðfræði og er hátíðleikinn hafður í fyrirrúmi. Fermingarbörnin koma fram, flytja tónlist, dans, ljóð, og ávörp, auk þess sem þjóðþekktir einstaklingar fara með stuttar ræður. Í ár munu þau Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður og Þórarinn Eldjárn, rithöfundur, ávarpa gesti.

Fyrri athöfnin hefst kl 11:00 og seinni kl 13:30 og eru þær opnar öllum. Siðmennt, félag siðrænna húmanista hvetur fólk sem vill kynna sér borgaralega fermingu til að mæta og upplifa þessa útskriftarathöfn fermingarbarnanna af eigin raun.

Nánari upplýsingar gefur Jóhann Björnsson s: 844 9211 og Hope Knútsson s: 694 7486

 


Útvarpsviðtal

Í útvarpsþættinum Stjörnkukíki var rætt um heimspekiástundun við Réttarholtsskóla. Þáttinn má finna á eftirfarandi vefslóð:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4358802

JB


Hinn grunaði er útlendingur

Athyglisverð ráðstefna föstudaginn 18. apríl.

 Ráðstefna um umfjöllun fjölmiðla um innflytjendur og afbrot verður haldin í Salnum, Kópavogi, föstudaginn 18. apríl 2008 kl. 13.00-17.45. Alþjóðahús, Félags- og tryggingamálaráðuneytið/ Fjölmenningarsetur, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Blaðamannafélag Íslands og Kópavogsbær standa að ráðstefnunni og er markmiðið að opna umræðuna meðal hlutaðeigandi. Fundarstjóri er Birgir Guðmundsson, lektor í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

 

13.00 Setning - Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss
13.05 Ávarp - Jóhanna Sigurðardóttir, Félags- og tryggingamálaráðherra
13.10 Eru afbrot útlendinga öðruvísi en Íslendinga? - Rannveig Þórisdóttir, deildarstjóri upplýsinga-og áætlanadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
13.30 Afbrot, staðalmyndir og innflytjendur - Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands
13.50 Sjónarhorn blaðamannsins - Rúnar Pálmason, blaðamaður hjá Morgunblaðinu
14.10 The media- a tool or an obstacle for integration? (Fjölmiðlar - hjálp eða hindrun í aðlögun innflytjenda?) - Arash Mokhtari, verkefnisstjóri hjá Quick response í Svíþjóð
15.00 Innflytjendur og erlent vinnuafl í fjölmiðlum 2007- Magnús Heimisson, forstöðumaðurFjölmiðlagreininga

15.20 Kaffihlé

 

15.35 Málstofa I - Umræðan á götunni/bloggið

Árni Matthíasson, verkstjóri mbl.is - Bloggið: Ábyrgðarlaust hjal? 
Joanna Dominiczak, kennari og stjórnarmaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna - Útlendingar í fjölmiðlum
Málstofustjóri: Þór Jónsson, forstöðumaður almannatengsla í Kópavogi
 
Málstofa II - Formleg upplýsingagjöf
Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu - Hvað má lögreglan segja?
Áslaug Skúladóttir, formaður Félags fréttamanna og fréttamaður á Útvarpinu - Skiptir þjóðerni fólks máli í fréttum af afbrotum?
Málstofustjóri: Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands

16.15 Kaffihlé

16.25 Samantekt frá málstofum

16.45 Pallborðsumræður
Dane Magnússon, formaður Félags Anti-rasista
Þorbjörn Broddason, prófessor við Háskóla Íslands
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins

17.15 Ráðstefnuslit - Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs
17:20 Léttar veitingar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband