Vodafone blekkir börnin

Það verður ekki annað sagt en að sumum fyrirtækjum hér á landi sé vorkunn. Víða hefur mátt sjá á förnum vegi slagorð sem beint er til bankanna sbr "Bankanum þínum er sama um þig". En það eru ekki bara bankarnir sem eiga það til að begðast viðskiptavinum sínum. A.m.k. eitt fyrirtæki hefur gengið heldur lengra en að vera bara sama um viðskiptavini sína, það gengur svo langt að hreinlega blekkja börn og unglinga og ég trúi ekki öðru en það sé gert vísivitandi. Og hér kemur sagan af fyritækinu sem notfærir sér sakleysi og reynslusleysi barna sér í hag:

Í sumar fékk sonur minn 15 ára gamall að kaupa sér símatilboð hjá Vodafone sem gekk út á það að hann gat hringt í fimm vini sína ókeypis í einn mánuð óháð símakerfi og síðan átti inneignin að gilda í sex mánuði. Gott og vel, vissulega gott boð að mínu mati. En Vodafone hafði greinilega ætlað sér að gera eitthvað annað heldur en að hugsa um hag viðskiptavna sinna. Því nú kemur framhaldið og þá fer nú siðleysið og blekkingarleikurinn heldur betur að segja til sín. Og takið eftir því að Vodafone er hér í samskiptum við 15 ára gamalt barn, barn sem veit ekki betur en að fyrirtækið vilji heiðarleg
samskipti.

Um það leyti sem tilboðsmánuðurinn er að renna út og sonur minn þarf að fara að huga að því að hann getur ekki lengur hringt frítt í fimm vini sína berast sms skilaboð í síma hans frá Vodafone sem hljóða svo:

  "Skítt með sumarið! Sumartilboði okkar 5 vinum hefur verið framlengt til 31 okt. Hringdu fríkeypis í 5 vini óháð kerfi. Lifðu núna,
Vodfone."

Hvað segja þessi skilaboð okkur? Jú syni mínum datt ekki annað til hugar í barnslegu sakleysi sínu en hann mætti halda áfram að hringja í fimm vini sína til 31. október. Hann heldur síðan áfram að hringja í vini sína í þeirri trú að hann geri það frítt eftir að hafa fengið umrætt skeyti frá Vodafone, þar til hann tekur eftir því að inneignin er bara allt í einu búin.

Í skilaboðinu er ekki tekið fram að hann þurfi að gera eithvað til þess að geta hringt áfram í vini sína frítt. Ég hringi því í þjónustuver Vodafone og spyr hvernig standi á því og svörin sem ég fæ eru meira en lítið undarleg. Í fyrsta lagi fæ ég að vita það að hann hefði átt að leggja inn 1000 kr til þess að tilboðið héldi áfram. Gott og vel allt í lagi með það en þá spyr ég hversvegna kom það ekki fram
í skeytinu? Svarið sem ég fékk var að það væru takmörk fyrir því hversu löng sms skeyti gætu verið. Ok þá spyr ég hvort það hefði ekki verið nær að sleppa slagorðunum í skeytinu og koma að mikilvægustu upplýsingunum. En nei svarið varð alt í einu orðið þannig að hann (15 ára gamall) átti bara að vita öll smáatriði í samningnum. Gott og vel hér gerist Vodafone sekt um að misnota aðstöðu sína í markaðssetningu sinni. Og ég spyr Vodafone núna: Þar sem það var móðir
drengsins sem greiddi á netinu fyrir tilboðið hversvegna var henni ekki send þessi skilaboð? Er ekki rangt og kannski ólöglegt að senda börnum póst frá fyrirtækum beint? Er það ekki reglan þegar fyritæki senda börnum póst að senda hann til foreldranna eða til ábrgðamanna barnanna?

Í ljósi þessara samskipta get ég ekki gert annað en að hvetja fólk til þess að hafa varann á í samskiptum sínum við Vodafone og ekki síst þegar börn og unglingar eru annarsvegar. Við vitum það vel að unglingar nota síma mikið og því ansi hart að ekki sé hægt að treysta því símafyrirtæki sem börnin eiga viðskipti við. En ljóst er að þetta mál er langt í frá lokið og full ástæða er að gera umboðsmanni barna viðvart og að sjálfsögðu Neytendasamtökunum, neytendasíðu Dr. Gunna og kannski fleirum. Og svo er bara að fara að leyta sér að öðru símafyrirtæki þó ekkert sé tryggt með að önnur símafyrirtæki hafi betri siðferðisviðmið.
En ef Vodafone hefur einhvern snefil af sómakennd mega þeir hafa samband við mig.
JB

 


Eins og hundeltur indíáni í amerískri "kábojmynd"...eða hjólað í vinnuna

Skyndilega var strætisvagn næstum því kominn í bakið á mér. Ég fann óneitanlega fyrir honum nálgast mig á alltof miklum hraða. Ég hjólaði eins og brjálaður maður til þess að sleppa lifandi úr umferðinni. Á bremsulausu hjólinu (en ég hafði lofað sjálfum mér að láta laga bremsurnar strax í dag) sá ég enga aðra útgönguleið en að reyna að hjóla upp á grasið og vona að ég myndi ekki lenda í trjárunna sem þarna var eða ljósastaur. "Ef ég slepp lifandi undan strætisvagninum þá lofa ég sjálfum mér að láta laga bremsurnar og ég skal aldrei aftur gleyma hjálminum" sagði ég við sjálfan mig (en ég gleymi alltaf reiðhjólahjálminum þar sem svona hjálmar voru ekki til þegar ég byrjaði að hjóla).

Jú mér  tókst að beygja undan strætó og toga í stýrið og lyfta mér upp á grasblettinn og framhjá runnanum og rétt slapp við ljósastaurinn og niður með hælana til að hægja á hraðanum, skítt með það þó það fari illa með skóna. En hvað var ég að pæla....æi þarna er karl með hund í bandi, djö...er þetta langur spotti sem helv....hundurinn er í.....get ég beygt eða verð ég að hjóla yfir bandið????

Jú það er ekki nema vona að spurt sé. En ég var bara að hjóla í vinnuna, ég er bara svona hjólreiðamaður í Reykjavík, ekki hjólreiðamaður sem lætur taka myndir af sér í jakkafötum standandi við hjólið, heldur hjólreiðamaður sem hjólar í vinnuna og svitnar stundum og stefnir lífi og limum í hættu til þess að komast frá A  til B á hjóli. Það er allt og sumt. En með því að nota hjól sem samgöngutæki er maður í stórhættu ekki ósvipað og hundeltur indíáni í amerískri "kábojmynd".

Svona er nú lífið. En ég lenti í stætisvagninum þar sem ég var á leið úr Bústaðahverfinu niður á Laugaveg og sá þessa fínu forgangsakgrein fyrir strætó sem er nýbúið að gera. Ég freistaðist til þess að hjóla á henni þar sem hún var nýlögð á Miklubrautinni í rauðum lit (ég er svona eins og börnin, ég laðast að fallegum litum) svo ég stóðst ekki freistinguna og hjólaði á rauðu forgangsakgreininni sem var ekki búið að opna að fullu fyrir umferð þegar vagninn kom æðandi á eftir mér sem fyrr segir.

Það er greinilegt að átaksþjóðin er ekki lengur í átakinu hjólað í vinnuna því þegar það átak stóð yfir sá ég yfirleitt um 20 hjólreiðamenn á þessari leið minni til vinnu en núna mæti yfirleitt aldrei fleirum en þremur á hjóli á þessari sömu leið. Kannski ekki skrítið að fólk nenni að leggja  það á sig að hafa aðeins gangstéttir til að hjóla á eða stofna lífi sínu í hættu í umferðinni eins og ég gerði í dag með fiflagangi mínum á strætóakgreinini.

En það er alltaf gott að vera vitur eftirá og því spyr ég borgaryfirvöld hversvegna var ekki tækifærið notað fyrst verið var að búa til forgangsakgrein fyrir strætó að breikka aðeins akgreinina til þess að hægt væri að útbúa hjólabraut meðfram Miklubrautinni? Hefði ekki verið ráð að gera það í leiðinni fyrst farið var af stað í framkvæmdir?

JB


Athafnaþjónusta Siðmenntar fær góðar móttökur

Síðastliðið vor hóf Siðmennt að bjóða með formlegum hætti upp á þjónustu athafnarstjóra til þess að stýra húmanískum/veraldlegum útförum, giftingum og nafngjöfum. Alls eru sex athafnarstjórar starfandi hjá félaginu og er óhætt að segja að móttökurnar hafi verið góðar það sem af er. Undanfarnir dagar hafa verið viðburðaríkir í þessum efnum enda hafa á undanfarinni rúmri viku farið fram tvær giftingar, ein útför og ein nafngjöf á vegum félagsins. Nánari upplýsingar um húmanískar/veraldlegar athafnir á http://www.sidmennt.is

JB 


Kúgaðar konur með handklæði á höfðinu og kúgaðir íslenskir alþingismenn með hengingaról um hálsinn?

Athyglisvert er að lesa blogg Jóns Magnússonar alþingismanns þar sem hann ræðir ferðalýsingu Margrétar Sverrisdóttur til Íran. Þar ganga konur segir Jón með "handklæði" um höfðuðið (og eru þær þá hvorki að koma úr sturtu né sundi). Þær eru bara kúgaðar og gert að hafa svona "handklæði". Þetta er semsagt svona "dresscode" eins og það er kallað þegar manni leyfist ekki að klæðast að vild heldur ber að klæðast eftir einhverjum reglum. Þegar maður les sjónarmið fólks á þeirri menningu sem tíðkast erlendis er oft forvitnilegt að líta sér nær og skoða viðmið og reglur í eigin landi. Skyldi vera einhver "dresscode" kúgun í gangi hér á landi? Jú mér dettur eitt í hug:

Á hinu háa Alþingi ganga konur vissulega ekki með handklæði um hausinn en karlarnir hinsvegar, þeir eru kúgaðir og hafa fæstir haft kjark og þor til að berjast gegn kúguninni. Kúgun þeirra felst í því að þeir ganga með hengingaról um hálsinn sem í daglegu tali kallast bindi og fæst í herrafataverslunum og sumum stórvörumörkuðum. Mér skilst víst að ef einhver mætir án ólarinnar í þingsal þá fari allt úr böndunum. Þannig minnist ég þess að hafa séð í sjónvarpinu einn ágætan þingmann binda á sig ólina í ræðustól en hann hafði eðlilega tekið ólina af sér en var síðan kallaður fyrr í pontu en hann hafði gert ráð fyrir. Af hverju mátti hann ekki bara tala án hengingarölarinnar sem kallast þar á bæ bindi.

Og núna áskorun til Jóns. Kæri þingmaður Jón Magnússon. Nú skaltu ekki láta kúga þig meira, nú er komið að þér að berjast fyrir því að þingmenn megi klæðast því sem þeir helst kjósa. Að öðrum kosti ertu í engu skárri en konurnar góðu með handklæðin.

Konur í Íran og þingkarlar á Íslandi takið höndum saman og berjist fyrir frelsi ykkar!!!!! Angry

 


Stjörnukort fjöldamorðingjans

Ég hef verið að lesa skemmtilega bók eftir heimspekinginn Stephen Law sem heitir The outer limits, more mysteries from the philosophy files (2003). Þetta er bók fyrir ungt fólk og byrjendur í heimspeki þar sem ýmis viðfangsefni eru rökrædd. Einn kaflinn fjallar um ýmislegt sem flokka má sem dularfullt eins og geimverur, drauga, galdra osfrv.

Stjörnukort og áreiðanleiki þeirra er eitt af því sem Stephen Law ræðir. Segir hann sögu af manni sem ákvað að rannsaka stjörnukort og viðbrögð fólks við þeim. Umræddur maður auglýsti árið 1979 ókeypis stjörnukort í blaði og lét hann alla þá sem óskuðu eftir slíku fá eintak. Auk kortanna fylgdi könnun um það hvað fólki fyndist um "sitt" stjörnukort. Málið var það að allir fengu sama kortið án þess að vita af því en hann notaði kort sem gert hafði verið af stjörnuspekingi fyrir fjöldamorðingjann Dr. Petiot sem tekinn var af lífi 1947 fyrir að hafa viðurkennt að myrða alls 63 einstaklinga. Þetta var því alvöru stjörnukort en ekki gert fyrir þá sem fengu það sent.

Fólkið sem fékk umrætt stjörnukortin stóð í þeirri trú að það hefði verið gerð fyrir hvert og eitt þeirra og af þeim 150 fyrstu sem svöruðu könnuninni þá sögðu 94% að kortið sem þau fengu passaði vel við þeirra persónuleika og 90% vina þeirra og fjölskyldumeðlima voru á sömu skoðun.

Hvernig stendur á þessu?

JB


Góð án guðs (greinaflokkurinn sem enginn veit að er greinaflokkur)

  Í vikunni birtist grein eftir mig um húmanisma og siðferði í 24 stundum. Það sem er ekki almennt vitað er að hér er um grein að ræða sem tilheyrir greinaflokki sem sérstaklega var skrifuð til birtingar í 24 stundum. Forsaga málsins er sú að í vetur var "drullað" yfir Siðmennt af hálfu blaðsins með allskyns rangfærslum um félagið án þess að vilji væri til að leiðrétta þær rangfærslur. Fórum við í félaginu fram á að fá að birta nokkrar greinar í greinaflokki til að útskýra ítarlega okkar sjónarmið þannig að lesendur fengju að vita hið sanna um félagið og þyrftu ekki að reiða sig á óvönduð skrif blaðamanna. Var ætlunin að hér yrði um sérstakan flokk að ræða sbr. greinarnir í dálkinum um trú sem blaðið hefur haldið úti. Var slíkt samþykkt og hófumst við handa við að skrifa greinarnar en þegar til kom að fá birtingu var alveg út úr myndinni að fá greinarnar merktar sem sérstakan greinaflokk. Því eru greinarnar birtar rétt eins og hverjar aðrar aðsendar greinar og því ekki að sjá neitt samhengi í birtingu þeirra því miður. Gísli Gunnarsson sagnfræðingar hefur núþegar birt tvær greinar og var mín sú þriðja. Fleiri greinar eru væntanlegar eftir aðra höfunda en ekki er að vita hvernær ritstjórnin ákveður að birta þær.

Grein mín, sú þriðja í greinaflokki um húmanisma birtist hér á eftir:

 Góð án guðs, húmanismi og siðferði

Oft hefur borið á þeim misskilningi að trúabrögðin séu forsenda góðs siðferðis og að gott siðferði sé aðeins til vegna tilvist guðs. Svo er alls ekki. Siðferðilegar spurningar, hvað telja má gott og hvað slæmt, hvað rétt og hvað rangt og hvernig lifa skuli réttlátu og dyggðugu líferni leitar á alla menn burtséð frá lífsskoðunum. Sumir leita svara við siðferðisspurningum í trúarbrögðunum sbr. Boðorðunum 10 þar sem talið er að guð hafi lagt til að menn skuli ekki myrða, stela, ljúga osfrv.  Húmanistar og aðrir sem ekki aðhyllast trúarbrögð er ekki síður umhugað um gott siðferði og mikilvægi þess.  Einn er sá mælikvarða á rétt og rangt sem er til staðar í öllum mönnum þó misjafnlega þroskaður sé. Sá mælikvarði er samviskan. Samviskan kennir okkur að ánægja og hamingja er betri en óánægja og óhamingja, að réttlæti og góðvild er betri en óréttlæti og mannvonska og að samvinna skilar oft mun betri árangri en ósamvinna.

Vissulega eru manneskjur breyskar og gera undantekningar fyrir sjálfa sig. Oftar en ekki gerir þá samviskan vart við sig sem sú rödd sem greinir rétt frá röngu. Góð breytni að mati húmanista er ekki góð vegna þess að  að sé til guð sem segi okkur hvað er gott og hvað illt. Góð breytni og siðferðileg gildi eiga rætur sínar að rekja í samfélagi manna og eru órjúfanlegur hluti af þróunarsögu mannsins.

Ekki er auðvelt að gera sér grein fyrir því hvenær nákvæmlega menn fóru að gefa siðferðilegum gildum gaum. Ekki er ólíklegt að ákveðin siðferðisvitund hafi alla tíð fylgt mannshuganum og tekið þroskabreytingum í takt við samfélagsgerð hvers tíma. Menn hafa gert sér grein fyrir því að ef ég vil ekki þola sársauka og óréttlæti þá sé það ekki flókið að átta sig að aðrir kæri sig ekki um slíkt heldur.

Ýmsir hafa haft áhrif á siðferðishugmyndir húmanista. Forngríski heimspekingurinn Sókrates hefur haft mikil áhrif með áherslum sínum á gagnrýna hugsun og siðferðilega yfirvegun.  Aristóteles hefur ekki síður haft áhrif en hann leitaðist við að svara því hvað væri gott fyrir manneskjuna. Taldi hann að lykillinn að hinu góða lífi fælist í hófsemi og dyggðugu líferni.  Sá sem er dyggðugur ratar ávallt meðalhófið á milli öfga. Einkenni dyggðugrar manneskju er því góð dómgreind, þekking á því sem henni er fyrir bestu og innsæi í aðstæður. Það er þeir þættir sem ber að leggja rækt við.

Bretinn John Stuart Mill er þekktasti talsmaður svokallaðrar nytjastefnu í siðfræði. Það sem gott er að mati nytjahyggjumanna og ber að stefna að er sem mest ánægja eða hamingja sem flestra. Óhamingja, óánægja og sársauki er hinsvegar af hinu illa. Í allri okkar breytni eigum við að leitast við að stuðla að sem mestri hamingju sem flestra eins og kostur er. Ef aðeins slæmir kostir eru í stöðunni eigum við að velja þann kost sem veldur eins lítilli óhamingju og mögulegt er.

Þýski heimspekingurinn Immanúel Kant lagði áherslu á að við ættum ávallt að breyta þannig að aðrir gætu tekið sér breytni okkar til fyrirmyndar: Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú vilt að verði að almennu lögmáli.

Hvað þýðir þetta? Jú þetta þýðir að við eigum ávallt að breyta á þann hátt sem við getum hugsað okkur að allir aðrir breyti. Martin Levander útskýrir velá eftirfarandi hátt:

Kant kom sjálfur með dæmi: Það er rangt að fá peninga að láni án þess að borga þá til baka. Ef allir höguðu sér þannig myndi fljótlega koma að því að hvergi væri hægt að fá lán. Með sama hætti er hægt að sýna fram á að það sé rangt að stela. Og ef menn færu almennt að ljúga þegar það hentaði þeim myndi fólk hætta að treysta hvert öðru.[1]

 

Grundvallaratriði í siðfræði Kants felst því í spurningunni: Hvað ef allir höguðu sér eins og ég?

Jean-Paul Sartre hafði mikil áhrif á tuttugustu öldinni. Að mati Sartres eru allir eisntaklingar frjálsir og ábyrgir breytni sinnar og eru öðrum fyrirmyndir í siðferðilegum efnum: "Og hverjum manni ber að segja við sjálfan sig: er ég áreiðanlega slíkur maður að ég hafi rétt til að haga mér þannig að mannkynið taki sér athafnir mínar til fyrirmyndar."[2]  Þó sérhver einstaklingur sé frjáls að því hvernig hann breytir er síður en svo allt leyfilegt. Ef ég get ekki hugsað mér að allir aðrir breyti eins og ég þá ætti ég að hugsa minn gang áður en ég framkvæmi.  Sérhver einstaklingur er þannig mikilmikilvægur áhrifavaldur þess siðferðis sem ríkir hverju sinni. 

Mikilvægi þess að vega og meta aðstæður hverju sinni með gagnrýnu hugarfari er lykilatriði í hugmyndafræði húmanismanns. Menn standa ávallt frammi fyrir valkostum í lífinu sem snerta þá sjálfa sem og samborgara þeirra.  Húmanistar líta svo á að gott samfélag einkennist af ríkum sjálfsákvörðunarrétti auk samfélagslegrar ábyrgðar. Húmanistar leytast við að vega og meta aðstæður hverju sinni og þá lífskosti sem staðið er frammi fyrir. Í kjölfarið eru síðan þeir kostir valdir sem eru farsælastir hverju sinni fyrir sem flesta.

JB

[1] Martin Levander, Heimspeki (Mál og menning 1997), þýðandi Aðalheiður Steingrímsdóttir og Þröstur Ásmundsson, bls.105.

[2] Tilverustefnan er mannhyggja bls. 9.


Hvar er flokksaginn félagar? Um ályktun ungra vinnstri grænna

Ég vek athygli á góðri ályktun sem ung vinstri græn sendu frá sér nýlega. Það er jú til lítils fyrir flokkinn að halda fína landsfundi og senda frá sér samþykktir ef stjórnmálamennirnir fara síðan ekki eftir þeim. Hvar er flokksaginn félagar?

"Hafa skal stefnu flokksins í huga

Ung vinstri græn lýsa yfir óánægju með framgöngu þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þegar frumvörp um heildarlög grunnskóla og leikskóla voru afgreidd í annarri umræðu á Alþingi á mánudag. Þegar greidd voru atkvæði um tillögu sem fól í sér að ákvæði um að starfshættir grunnskóla og leikskóla skuli mótaðir af “kristinni arfleifð íslenskrar menningar” yrði bætt við markmið laganna greiddu fimm þingmenn atkvæði með því að ákvæðið færi inn í grunnskólalögin og sex að það færi inn í leikskólalögin. Hinir þrír þingmenn flokksins sem voru viðstaddir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Ung vinstri græn telja að þarmeð hafi þingmennirnir gengið gegn landsfundarályktun flokksins um trúfrelsi frá árinu 2007. Í henni segir meðal annars: „Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, haldinn að Grand Hótel 23-25. febrúar, ályktar að fullt trúfrelsi og jöfn staða trúar- og lífsskoðunarfélaga sé grundvallaratriði. Öll löggjöf og stjórnsýsla þarf að miðast við það. Landsfundurinn telur mikilvægt að í skólum sé gætt fyllsta hlutleysis gagnvart trúarbrögðum og afstöðu til trúar“.

Ung vinstri græn telja að ákvæðið um kristna arfleið íslenskrar menningar þjóni þeim eina tilgangi að réttlæta og auka afskipti eins trúfélags, Þjóðkirkjunnar, af skólastarfi og að það sé aðför að hlutlausu starfi grunnskólanna. Ung vinstri græn vilja minna þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að flokkurinn kennir sig við jafnrétti. Það er því skylda þeirra að vinna störf sín með hliðsjón af jafnréttisstefnu í öllum málaflokkum, þar með í trúmálum, og stuðla með verkum sínum að börn í grunnskólum fái faglega og hlutlausa kennslu í öllum greinum óháð trú.

Ung vinstri græn skora í þingmenn Vinstrihrefyingarinnar - græns framboðs að fylgja stefnu flokksins þegar lagagfrumvarpið kemur til þriðju umræðu á Alþingi.

- - -

Árétting
Stjórn Ungra vinstri grænna vill að gefnu tilefni árétta að hún er í meginatriðum ánægð með störf þingflokks Vinstri grænna. Það er fyrst og fremst í þessu afmarkaða máli þar sem Ung vinstri græn eru óánægð með framgöngu þingmanna Vinstri grænna"

JB


Þarna fóru vörubílstjórar yfir strikið

Ég vona svo innilega að fréttin sem ég las í Fréttablaðinu í gær sé ekki rétt. Fréttin er svohljóðandi:

"Mótmælendur, sem kenndir eru við atvinnubílstjóra, gerðu hróp að þingheimi í gær á meðan rætt var um hörmungar jarðskjálftanna í Kína. Var kallað að þingmönnum að þeir ættu að hugsa um hag Íslendinga áður en þeir fjölluðu um fólk í útlöndum." (bls. 2)

Kínverjar hafa óskað eftir allri þeirri aðstoð sem möguleg er, en umræddir mótmælendur óska sér þess heitast í lífinu að íslenskir stjórnmálamenn leggi umheiminn til hliðar og kannski vilja þeir að ríkisstjórnin hringi í forystumenn Kína og segi þeim frá því að þeir hafi öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa hér heima heldur en að skipta sér að einvherju "smáproblemi" þar austurfrá. Við þurfum nefnilega að lækka bensínið sem er miklu meira mál og brýnna heldur en það sem Kínverjarnir eru að takst á við, en það er "bara" þetta:

Tæplega fimm milljónir misstu heimili sín, 50.000 manns látnir, fjöldi fólks missti sitt eina barn (en eins og flestir vita hefur sú stefna verið ríkjandi í Kína að fólk eignast aðeins eitt barn). Mörg þúsund skólar eru ónýtir auk annarra mannvirkja.

Hvað á maður að halda um lífsviðhorf umræddra mótmælenda? Er sjónarmið þeirra það viðhorf sem við viljum senda umheiminum? Höfum við Íslendingar alveg misst þann hæfileika að setja okkur í spor annarra? Svari nú hver fyrir sig.

JB

 


Kreppan ógurlega er á Akranesi

Óskað hefur verið eftir því að Akraneskaupstaður taki við allt að 30 manna hópi palestínskra flóttamanna, einstæðum mæðrum og börnum þeirra. Konur þessar búa í flóttamannabúðum í Írak við eftirfarandi aðstæður skv upplýsingum frá yfirvöldum:

Fólkið býr í tjöldum þar sem hitastigið getur sveiflast frá frosti upp í 50 gráðu hita. Aðbúnaður er allur mjög slæmur þar sem fólki stafar ógn af snákum og rottum. Læknisþjónustu er aðeins hægt að fá í 400km fjarlægð frá búðunum og enginn sjúkrabíll er til þess að flytja fólkið. Þar að auki stafar mikil hætta af því að eldur brjótist út í búðunum og börnum stafar mikil hætta af stöðugri umferð flutningabíla.

En það er alveg borin von að hægt sé að taka við fólkinu að mati Magnúsar nokkurs Þórs vegna þess að ástandið á Akranesi er svo slæmt. Hann er svartsýnn á að skólinn geti tekið við börnunum, sjúkrahúsið er líklega ekki í stakk búið að taka við flóttamönnum (þó ekki sé ætlast til þess að þeir setjist að í sjúkrahúsinu), atvinnuleysið er komið og kreppan er farin að bíta. Þar fyrir utan er ekki möguleiki á því að finna nokkurn einasta mann sem kann að tala við svona fólk (þrátt fyrir þokkalegt menntunarstig þjóðarinnar). Þannig að ástandið er að komast á það stig á Akranesi að við hér í Reykjavík þyrftum að fara að skipuleggja neyðarsöfnun fljótlega.

Svo kom Heimir nokkur Karlsson útvarpsmaður með þann stórmerkilega punkt inn í umræðuna í morgun sem stjórnvöld þurfa án efa að taka mið af, en hann sagði að við íslendingar værum skuldsettasta þjóð í heimi. Já við íslendingar ættum að huga að því hvað við eigum það bágt þegar við setjumst upp í Landkrúserana okkar. Skuldugt fólk hlýtur því að vera mjög fátækt fólk ekki satt? Og fátækt fólk getur ómögulega hjálpað öðrum, ekki satt? Skarpur Heimir!

Jú ætli það sé þá ekki bara best að konurnar verði áfram með börnin sín í tjöldunum sínum í flóttamannabúðunum af því að við íslendingar erum svo ægilega fátæk. Þær munu hvort sem er eflaust hafa það miklu betra þar heldur en í kreppunni uppi á skaga.

En við erum samt kristin þjóð ekki satt? Jú jú við höfum tileinkað okkur kristilegan kærleika, en við getum bara ekki sýnt hann í verki af því að við erum svo ægilega fátæk. Við kannski gerum það ef við verðum rík, en það verður ekki nærri því strax af því að kreppan er komin.

JB 

 


Læðurnar rífast og fressið malar úti í horni og segir I love it

Þegar maður fiktar í sjónvarpsfjarstýringunni i einhverju tilgangsleysi þá bregður stundum fyrir sjónvarpsstöð sem heitir ÍNN. Ég hef ekkert spáð mikið í þessa stöð en veit þó að henni svipar mikið við fyrstu sín til sjónvarpsstöðvar sem heitir Omega. Það er eitthvað sem hefur með umgjörðina að gera sem minnir mig á Ómega. Sjónvarpsstjórinn á ÍNN kemur líka dálítið fyrir sem trúboði, hann hefur höndlað einhvern sannleika og þrumar honum illa undirbúinn í loftið í beinni af miklum sannfæringarkrafti og stundum ofsa.

Þessi sjónvarpssöð var í fréttum núna nýverið þar sem sagt var frá ýmsu athyglisverðu sem þar er að gerast innandyra (kannski ekki ósvipað og gerist innan veggja sérstakra lítilla trúarsafnaða). Það var talað um tvo þáttastjórnendur (sem stýra sama þættinum) sem læður sem rífast og tala um píkurnar á sér og sjónvarpsstjórinn var hinn kátasti og hagaði sér eins og barn á skólalóð þegar slagur brýst út: "slagur slagur slagur" hrópa börnin á skólalóðinni en sjónvarpsstjórinn hrópaði hinsvegar þetta þegar slagur kvennanna tveggja braust út: "Þær rífast svakalega I love it"... og "Já já þær ræða um píkuna á sér og mikið." Og greinilegt að sjónarpsstjórinn sem í greininni er kallaður fress var í essinu sínu, hafði fundið hamingjuna og tilgang lífsins líka (sem er nú ekki lítið). (Frbl.10.05.08)

Þetta hlýtur að vera býsna geggjað sjónvarpsefni þar sem eitt meginmarkmiðið virðist vera rifrildi rifrildissins vegna. Alla vega var málunum þannig stillt upp þegar þátturinn hóf göngu sína en þá var viðtal við einn af þáttastjórnendunum sem sagði svo um þáttinn að hann ætti að vera rifrildisþáttur. Gefum einum þáttastjórnandanum orðið:

"Það verður heldur ekki staðnað viðtalsform á þessu. Þetta verða bara konur sem hafa skoðanir og þora að segja þær upphátt. Við ætlum að vera mjög opinskáar og hispurslausar í öllu sem við fjöllum um, og þetta verður vonandi líkara rifrildi en samræðum."(Fréttablaðið 18.01.2008)

Þar sem rifrildisviljinn er mjög einbeittur er ekki að undra að soðið hafi upp úr þannig að karlremubfressið sem elskar "bitsfæt" hafi þurfta að miðla málum á sama tíma og  hann elskaði slaginn.

Fréttir af rifrildi í beinni og ósætti á fjölmiðlum er frekar súrt  fréttaefni og lyftir fjölmiðlunum sem greina frá slíku ekki upp á neitt sérstakt plan. En þetta er svona dæmigert fyrir fólk sem ekki kann að skiptast á skoðunum, getur ekki verið ósammála án þess að keyra ágreininginn í rifrildi og hin verstu leiðindi sem engu skilar nema púkum eins og sjónvarpsstjóranum sem skemmtir sér yfir bullinu. Þarna skortir greinilega inn í þáttinn listina að rökræða ágreining þar sem reynt er að komast að skynsamlegri niðurstöðu í stað þess að yfirbuga andmælandann í öskrum og leiðindum. Það er virðingarvert að halda úti þætti þar sem ágreiningsmál eru rökrædd og mjög þarft mál en að sama skapi afskaplega ómerkilegt ef rifrildið á að vera aðalmálið.

Ég hef lengi kennt unglingum lífsleikni og lagt á það sérstaka áherslu að mikilvægt sé að rökræða í stað þess að rífast. Með rökræðunum er gert ráð fyrir og þykir sjálfsagt að fólk hafi ólíkar skoðanir en geti rætt þær í góðsemi án þess að það þurfi að stofna til rifrildis þar sem einn þarf endilega að standa upp úr sem sigurvegari.  Ég nefni þetta hér vegna þess að þetta er með því mikilvægara sem nokkur lífsleiknikennari getur óskað sér að nemendurnir tileinki sér. Hið undarlega er þó að einn af þáttastjórnendunum í þættinum umrædda sem á að vera "líkara rifrildi" en nokkuð annað er aðjúnt í lífsleikni við Kennaraháskóla Íslands. Ekki veit ég hvernig lífsleikniáherslurnar eru í Kennaraháskólanum en allavega ef þær einkennast af mikilvægi rifrildisins rifrildisins vegna þá eru þær mjög ólíkar áherslum þeim sem við höfum í Réttó.

Kannski að unglingarnir í Réttarholtsskóla gætu tekið lífsleiknikennarana í Kennaraháskólanum í smá kennslustund í mun á rökræðum og rifrildi? Það gæti orðið fróðlegt (þ.e.a.s. fyrir kennarana).

JB

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband