Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
18.6.2007 | 13:37
Belgískur stinningarvandi, "ánægjuleg" líknardráp og tafla og krít
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2007 | 09:04
"Tilvistarstefnan er mannhyggja" loksins komin út á bók
Á tuttugustu öldinni létu heimspekingar sem leituðust við að greina mannlega tilvist í sínu hversdagslega umhverfi allmikið á sér bera í frönsku samfélagi. Þeirra á meðal voru Maurice Merleau Ponty, Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre án efa þekktust. Þau voru óðfús í að beita hugmyndum sínum á öllum sviðum mannlegrar reynslu. Fátt ef eitthvað var þeim óviðkomandi þar sem þau beittu svokallaðri tilvistarlegri fyrirbærafræði til að varpa ljósi á mannlegan veruleika í sinni margbreytilegustu mynd.
Merleau-Ponty sem dó aðeins fimmtíu og þriggja ára gamall hefur án efa reynst sá þeirra sem helst hefur þótt skara framúr í fræðunum, Simone de Beauvoir var áhrifavaldur í kvenréttindamálum auk þess að vera góður rithöfundur. Heimspekingurinn og rithöfundurinn Jean Paul Sartre sem hafnaði Nóbelsverðlaununum 1964 er ekki síst þekktur fyrir tilvistarstefnuna svokölluðu sem hann hélt mjög á lofti og hefur allar götur frá tímum seinni heimstyrjaldarinnar reynst umdeild. Í október 1945 hélt Sartre fyrirlestur í París sem bar heitið Tilvistarstefnan er mannhyggja, þar sem hann útskýrði heimspeki sína á alþýðlegan hátt. Uppákoma þessi reyndist Sartre mikill menningarlegur sigur enda fékk hann verulega athygli í kjölfarið. Mikinn mannfjölda dreif að til að hlýða á en ekki nóg með það, heldur brutust út ólæti með tilheyrandi fyrirgangi; handalögmálum, brotnum stólum og öðrum skemmdarverkum svo ekki reyndist unnt að selja aðgang eins og til stóð. Klukkustund á eftir áætlun gat fyrirlesarinn hafið mál sitt í yfirfullum sal af fólki, blaðalaus og oftast með hendur í vösum.
Tveimur árum áður hafði höfuðrit Sartres Vera og Neind komið út. Þar setti hann fram fyrirbærafræðilega greiningu á veru mannsins í heiminum. Rit þetta fékk ekki mikla athygli í fyrstu, en þegar gagnrýnendur fóru að tjá sig reyndist bókin mjög umdeild. Félagi Sartres, Maurice Merleau-Ponty var ósáttur við viðbrögð gagnrýnenda. Í stað þess að líta á heimspeki Sartres sem gott viðfangsefni til rökræðna töldu gagnrýnendur að hér væri á ferðinni heimspeki sem bæri að forðast og hefði slæm áhrif á líf fólks, sérstaklega voru menntaskólastúlkur varaðar við.
Nú hefur Hið Íslenska Bókmenntafélag gefið þýðingu Páls Skúlasonar á fyrirlestri Sartres út á bók og er það fagnaðarefni. Ekki síst í ljósi þess að drög að þýðingunni hafa legið fyrir í áratugi og hafa væntanlega flestir nemendur Páls ef ekki allir lesið drög hans að þýðingunni í ljósriti.
6.6.2007 | 09:55
Skólaslit í Réttarholtsskóla
Réttarholtsskóli hefur útskrifað 10. bekkinga sína á þessu ári. Athöfnin var glæsileg að vanda. Hér að neðan má lesa ræðu þá sem ég flutti fyrrum nemendum skólans og aðstandendum þeirra á þessum tímamótum.
Komið þið sæl og til hamingju með daginn
Ágætu nemendur,
Ég man alltaf þann tíma þegar ég var sjálfur að ljúka grunnskóla, þá var ég staðráðinn í að verða sjómaður. Einhvernveginn höguðu örlögin því þó þannig að ég var skelfilega sjóveikur og varð því afskaplega lítið úr einhverri sjómennsku. Með viðkomu á ýmsum stöðum varð úr að fara að kenna í Réttó nema hvað.
Það mætti kannski orða þetta þannig að ef maður fer ekki á sjóinn þá fer maður í Réttó. Jú ég held að þetta hljómi bara ekkert svo illa. Að minnsta kosti þarf maður að vera býsna kröftugur og sterkur á taugum til þess að vinna á þessum stöðum, á sjónum annarsvegar og í Réttó hinsvegar. Sjórinn geymir hættur hafsins en réttó...? Jú í réttó má vissulega finna ýmsa óvissuþætti sem kunna að mæta manni á hverjum gangi og í hverri stofu og á öllum tímum.
Sumir þessara óvissuþátta sem mæta manni hér eru jafnvel eitthvað meira heldur en einfaldir óvissuþættir, þeir eru hreint og beint afskaplega dularfullir.
- Maður getur t.d. lent í því að verða læstur inni í kennslustofu án þess að nokkur mennsk hönd hafi komið þar nærri.
- Maður getur lent í því að heyra fótatak á þakinu án þess að nokkur maður finnist þar uppi þrátt fyrir mikla leit.
- Maður getur lent í því að nemandi sofni í kennslustund og sofi svo fast að maður fer að hafa verulegar áhyggjur hvort viðkomandi sé lífs eða liðinn. Þetta kallar maður að takast á við lífsháskann og það gera menn ekki í hvaða starfi sem er.
- Maður getur lent í því að einkunnir nemenda, verkefni og vinnubækur hverfa skyndilega. Og þá eru nú góð ráð dýr. Og þá er annaðhvort að hringja í alla nemendur og spyrja hvað maður gaf þeim í einkunn eða gefa bara 10 á línuna sem eru nú misjafnlega vinsælar aðgerðir.
- Maður getur lent í því að fá hressilega hellu fyrir eyrun, einkum og sér í lagi í janúarmánuði ef einhverjir flugeldar hafa ekki sprungið á tilsettum tíma.
- Jafnvel getur maður þegar maður í sakleysi fer á snyrtinguna fundið heilu veiðidýrin í vaskinum, eða a.m.k. eitt stykki hreindýrafót.
Fyrir utan þessar dularfullu ráðgátur þarf maður líka að geta svarað all athyglisverðum spurningum frá nemendum. Spurningum sem eru mjög djúpar og aðeins heimspekingar á heimsmælikvarða sem sérhæfa sig í að fást við tilgang lífsins glíma við. Þessar spurningar eru t.d.:
- Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu verkefni?
- Af hverju gerum við aldrei neitt skemmtilegt í þessum tímum?
- Hversvegna förum við aldrei út í fótbolta?
Hver getur eiginlega svarað svona spurningum nema helst Sókrates ef hans nyti enn við?
Síðan fær maður stundum tilboð frá nemendum sem eru býsna freistandi og er ætlað að auka lífsgæði manns. Eins og allir vita eru nemendur yfirleitt mjög umhyggjusamir gagnvart kennurum sínum. Hér er eitt dæmi svo vitnað sé i ónefndan nemanda:
Jóhann. Ef þú gefur okkur frí í þessum tíma þá færð þú frí sjálfur, hafðirðu hugsað út í það? Nei það hafði ég aldrei hugsað út í, en þú segir nokkuð.
Og ekki nóg með þetta. Ævintýrin eru rétt að hefjast því hvergi eru þau meiri en í skólaferðalögunum.
En skólaferðalögin í Réttó eru öðruvísi en tíðkast í öðrum skólum er mér sagt. Við sem höfum ferðast með þessu ágæta fólki sem nú er að útskrifast erum á þeirri skoðun að eitt aðal einkenni hópsins í heild sinni er hversu góðir ferðafélagar eru þar á ferð.
Eftir að einn af umsjónarkennurunum dró nokkra ágæta nemendur upp úr polli á Úlffljótsvatni í 8. bekk þar sem þeir töldu sig geta sloppið við stutta gönguferð ef þeir bleyttu sig þá hafa þau bara verið alveg eins og ljós í öllum ferðum
. Ég verð nú bara að játa það að ég held að ég hafi bara aldrei verið eins vel útsofinn og eftir gott skólaferðalag með hópnum. Maður sofnar snemma og svo vaknar maður seint og allir eru eins og englar. Þegar maður lokar augunum eru allir eins og englar og þegar maður opnar þau aftur eru allir ennþá nákvæmlega eins og englar.
Eða hvað? ..... Nú er reyndar nýútkomin skólabók um árganginn og þar er nú ýmislegt að finna sem kemur mér á óvart. Þetta er athyglisverð lesning en kemur heldur seint. Þar ljóstra nemendur upp prakkarastrikum sem átt hafa sér stað í ferðalögum og ég bara hafði ekki hugmynd um.
Þar kemur t.d. fram að heilu hóparnir hafi stolist í sundlaugina að næturlagi í 9. bekk. Ekki hafði ég hugmynd um þetta og það eru bráðum komin tvö ár síðan.
Svona má segja að skólalífið kenni manni að ekki er allt sem sýnist og að á degi hverjum kemur lífið manni á óvart.
Þó að það sé nú fínt að hafa ykkur hér í skólanum þá væru það vissulega dapurleg örlög ef þið yrðuð ævilangt í Réttó. Ég myndi ekki vilja hugsa þá hugsun til enda. Og þó Aristóteles hafi verið nemandi í skóla Platons í 20 ár þá mæli ég ekki með því að við leikum þann leik.
En nú haldið þið áfram með líf ykkar og e.t.v. eigið þið einhvertíman, kannski eftir 20 ár eða 30 ár eftir að spyrja ykkur að því hvað það er sem situr eftir eftir dvöl ykkar hér. Og án efa verða svör ykkar jafnmisjöfn og þið erum mörg.
Fyrir sumum ykkar hefur dýrmætasta námið farið fram í bóklegri vinnu, hjá öðrum í verklegri vinnu eða listum, hjá enn öðrum kann það að vera félagsskapur sem þið eignuðust hér í skólanum, upplifanir af lífinu, skrítnir og skrautlegar persónur sem þið kynntust, uppákomur eða keppnir sem þið tókuð þátt í eða eitthvað allt annað.
En gleymum því ekki að í öllu því sem þið hafið tekið ykkur fyrir hendur hér í skólanum felst nám. Nám er síður en svo bara það sem þið fáið einkunnir fyrir. Einkunnablaðið sem þið fáið hér á eftir er aðeins vitnisburður um lítið brot af því námi sem þið hafið stundað hér við skólann. Mikilvægasta námið sem þið hafið stundað felst í því þroskaferli sem átt hefur sér stað hér í skólanum.
Þegar ég sjálfur lít til baka og velti því fyrir mér hvað það var á mínum grunn og framhaldsskólaárum sem stendur upp úr og gefið hefur lífi mínu gildi þá leikur enginn vafi á því að það eru fyrst og fremst þeir kennarar sem kenndu sjálfa sig sem standa upp úr. Það eru upplifanir og ýmsar uppákomur sem áttu sér stað og fjölbreytt mannlíf sem mætti manni.
Og síðast en ekki síst er ég mjög feginn núna að hafa ekki flýtt mér með framhaldsskólann. Það að gefa sér þann tíma sem maður þarf og vill taka í hlutina kann að skipta máli.
Þið hafið mörg spurt mig í hvaða framhaldsskóla ég hafi verið í og hvað ég hafi fengið í samræmdu prófunum. Enginn hefur hinsvegar spurt mig að því hversu langur tími leið frá því ég innritaðist í framhaldsskóla og þar til ég útskrifaðist en það eru tæp sex ár. Tæp sex ár með því að taka frí frá námi til þess að ferðast, til þess að sinna áhugamálum og til þess að upplifa. Þetta er meðal þess sem stendur upp úr þegar ég lít til baka. Og jú við vitum vel að hamingjan felst meðal annars í góðum minningum, og góðar minningar skapar maður sjálfur.
Af hverju nefni ég þetta hér? Jú vegna þess að tímapressan og hraðinn sem nútíma samfélagið elur á er fæstum hollt. Að undanförnu hafa nemendur oft fengið þau skilaboð að flýta sér með allt sem þeir taka sér fyrir hendur. Það þykir víða dyggð að klára framhaldsskóla á svo skömmum tíma að það taki því varla að hefja námið.. kláraðu stúdentspróf á tveimur áru er auglýst, farðu fyrr á vinnumarkaðinn, lifðu hraðar það vantar bara að þið séuð hvött til þess að fara líka fyrr á elliheimilið. En það kemur kannski síðar.
Ef ég má gefa ykkur ráð þá segi ég: gefið ykkur þann tíma sem þið þurfið. Sumum hentar vissulega að fara hratt yfir sögu en öðrum hentar að taka sér tíma. Báðar leiðir kunna að vera réttar en það er ykkar að dæma hvert um sig.
Og hvaðeina sem þið takið ykkur fyrir hendur getur vel verið mjög merkilegt þó að kannski einhverjum öðrum finnist það ekki. Jafnvel hlutir sem kunna að virðast afar ómerkilegir geta skipt máli fyrir hamingju ykkar.
Ég hef regluleg samband við fyrrum samnemanda minn úr belgískum háskóla sem býr í suður afríku og er afkomandi hollenskra innflytjenda. Eitt sinn spurði ég hann að því hvað hann væri að gera, þá ekki löngu eftir að hann lauk háskólanámi. Ég er að rækta grænmeti sagði hann. Vinnur þú við það spurði ég nei ég rækta það bara heima í garðinum mínum. Ertu ekki að meikaða eftir skólann spurði ég síðna og hann svaraði jú það má eiginlega orða það þannig því ég er að rækta grænmeti og það er það sem ég vil gera núna. Svo fæ ég mér bara vinnu þegar mig vantar pening.
Það er nefnilega undir ykkar eigin viðhorfi komið hvernig gengi ykkar í lífinu er. Við erum það sem við hugsum sagði Sigurður Nordal eitt sinn og hélt áfram:
Við smækkum á því að hugsa um tóma smámuni verðum nærsýnar skepnur á því að horfa aldrei lengra frá okkur en til þess, sem við rekum nefið í .En við vöxum á hinu, að glíma við vandamál lífsins og tilverunnar þótt við aldrei getum ráðið þau til neinnar hlítar Listin að lifa, hin erfiðasta, nauðsynlegasta og æðsta list allra lista er framar öllu listin að hugsa, að hugsa frjálslega, af einlægni, djörfung og alvöru.
Ágætu nemendur og aðstandendur. Fyrir hönd okkar sem hér störfum við Réttarholtsskóla þakka ég ykkur fyrir samfylgdina á undanförnum árum og óska ykkur all hins besta.
Jóhann Björnsson
12.5.2007 | 13:31
Góður dagur til þess að fella ríkisstjórnina
Ég held að dagurinn í dag sé bara ágætur til þess að fella ríkisstjórnina. Munum X-V.
JB
10.5.2007 | 16:10
Bankastjórarnir sjá sér ekki fært að þiggja siðfræðinámskeiðið
Í kvöld var fyrirhugað að halda námskeiðið Hversu mikið er nóg, siðfræðinámskeið fyrir bankastjóra og forstöðumenn fjármálastofnana. Ekki verður námskeiðið haldið að þessu sinni þar sem enginn hefur skráð sig.
Þess ber þó að geta að ef fimm bankastjórar eða forystumenn fjármálastofnana taka sig saman geta þeir haft samband við mig og get ég þá haldið umrætt námskeið. (johannbj@hotmail.com)
JB
4.5.2007 | 15:06
Hversu mikið er nóg? Siðfræðinámskeið fyrir bankastjóra og forystumenn fjármálafyrirtækja (fréttatilkynning)
Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að ýmsar starfsstéttir hafi sótt námskeið í siðfræði til þess að efla hæfni sína til að takast á við álitamál í starfi. Heilbrigðis- og uppeldisstéttir hafa þar verið í farabroddi.
Fimmtudaginn 10. maí n.k. kl. 20.00-22.00 mun bankastjórum og öðrum forystumönnum fjármálafyrirtækja standa til boða siðfræðinámskeiðið Hversu mikið er nóg?Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um grundvallarhugmyndir siðfræðinga um hið góða líf og fá bankamennirnir tækifæri til þess að rökræða siðferðilegar spurningar hve varðar lífsgæði og lífsstíl, samfélagslega ábyrgð, launamun í landinu, fátækt og ríkidæmi, þarfir og gerviþarfir og hvað sé siðferðilega rétt og siðferðilega rangt í heimi þar sem veraldleg gæði eru takmörkuð.
Þátttakendur á námskeiðinu fá jafnframt tækifæri til þess að tengja hugmyndir sínar um lífstíl og lífsgæði við hamingjuna og tilgang lífsins.
Leiðbeinandi á námskeiðinu er Jóhann Björnsson sem lokið hefur BA prófi í heimspeki frá HÍ og MA prófi í sömu grein frá Katholieke Universiteit Leuven í Belgíu.
Skráningar á námskeiðið skuli berast í tölvupósti á netfangið johannbj@hotmail.com og rennur skráningarfrestur út miðvikudaginn 9. maí næstkomandi.
Námskeiðið er forystumönnum banka og fjármálafyritækja ókeypis
Jóhann Björnsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2007 | 22:35
Framsóknarflokkurinn hættir við að gera falskar tennur að vinsælustu fermingargjöfinni
Svei mér þá, ég hélt að með framsóknarmenn í heilbrigðisráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu ætluðu þeir að fara að gera falskar tennur að vinsælli fermingargjöf. En ég hef heyrt að í eina tíð í sögu þjóðarinnar hafi tannskemmdir verið svo miklar að fermingarbörnin voru illa stödd í þeim efnum að brýn þörf var á fölskum tönnum.
Ekki hefur tannvernd barna og unglinga verið sinnt af hinu opinbera í lengri tíma, ekki hrösum við sem störfum við skólana um skólatannlækna. Hinsvegar mætir maður of oft unglingum með óheyrilegt magn af sykri sem varla getur talist heppilegt fyrir heilsu og tannvernd.
En nú bar svo við að Framsóknarflokkurinn, þessi öflugasta atvinnumiðlun landsins auglýsir ókeypis tannvernd til 18 ára aldurs og auknar niðurgreiðslur á tannviðgerðum.
Hvernig er þetta með framsóknarmenn, duttu þeir á hausinn, eða er að koma kosningar?
Þeir hjá Nóa Síríusi voru svo ósmekklegir í gær á baráttudegi verkalýðsins að þeir sendu hóp af fólki gagngert til þess að hæðast að verkafólki og kjarabaráttu þess. Sjá mátti Nóafólkið í kröfugöngunni með einstaklega fíflaleg "kröfuspjöld" þar sem á stóð "Frjálst tópasland", "Tópas er framtíðin", "Lifi tópasbyltingin" og annað misgáfulegt.
Uppákoma þessi sýnir glöggt á hversu lágu plani við erum í þessu neyslu - og auglýsingasamfélagi okkar. Hversvegna datt þessu fólki sem stýrir Nóafyritækinu ekki í hug að hampa verkafólki sínu á þessum degi í stað þess að gera lítið úr kjarabaráttu þess? Þetta eru greinilega fulltrúar ósmekklegheitanna.
Og ég mun væntanlega hugsa mig tvisvar um áður en ég kaupi vörur frá Nóa Síríusi framvegis og hvet aðra til að gera slíkt hið sama. Nóg er víst vöruúrvalið og því um að gera að velja og hafna.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
1.5.2007 | 22:21
Ætli Bjarni verði hamingjusamari?
Í fréttum var greint frá starfslokasamningi Bjarna Ármannssonar hjá Glitni og kom fram að um er að ræða nálægt 900 milljónum sem hann hefur upp úr krafsinu. Ég verð eiginlega að viðurkenna að af einhverjum ástæðum þá held ég bara að ég hafi vorkennt honum. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sæmilega heil manneskja líði vel að þiggja 900 milljónir á meðan fjöldi fólks í heiminum sveltur, fjöldi barna á Íslandi er skilgreind sem fátæk og að vita til þess að það tæki einstakling sem er á meðallaunum á Íslandi 300 ár að vinna sér inn 900 milljónir. Já ég endurtek 300 ár.
Enn og aftur spyr ég Bjarna og bankagæjana: Strákar hversu mikið er nóg?
JB
1.5.2007 | 10:25
Tökum þátt í baráttudegi verkafólks, bætum kjörin burt með fátækt
Til hamingju með daginn.
Mætum öll í kröfugöngu verkalýðsfélaganna og sýnum verkafólki stuðning til bættra kjara. Safnast verður saman við Hlemm kl. 13.00 og síðan gegnið að Ingólfstorgi þar sem haldinn verður baráttufundur.
Allir eru síðan velkomnir í kaffiboð Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á NASA við Austurvöll kl. 15.00 eða Hamraborg 1-3 á sama tíma.
Minni einnig á baráttutónleikana á NASA kl. 21.00 í kvöld.
JB