Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.7.2007 | 10:01
Baráttusveit gegn öfund
Ég var að lesa ágæta grein Stefáns Snævarr sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 30. júní s.l. Þar sem hann svarar gagnrýni Hannesar Hólmsteins Gisurarsonar á jafnaðarstefnuna.
Frjálshyggjan varð að tískupólitík á sínum tíma þegar ég var í framhaldsskóla og háskóla og fór frjálshyggjumaðurinn og ríkisstarfsmaðurinn Hannes þar fremstur með miklum hávaða.
Það sem hefur vakið athygli mína að undanförnu er að það sem einna helst hefur einkennt málflutning frjálshyggjumanna er að álíta allt og alla sem vilja meira réttlæti, jöfnuð og umhverfisvernd, minni sóun, græðgi og neysluæði vera öfundsjúka. Frjálshyggjufólkið er því orðið að einskonar baráttusveit gegn öfundsýki.
Stefán vitnar í Hannes þar sem hann lýsir þessari pólitík frjálshygjunnar með eftirfarandi orðum: "Ekkert er gegn því að sumir búi við betri kjör en aðrir og vandséð er annað en að öfund valdi því að menn sjái ofsjónum yfir auðsöfnun vellríkra manna."
Það er því ekki undarlegt að maður spyrji fylgismenn frjálshyggjunnar hvort ekki sé til eitthvað sem telst réttlætiskennd og andúð á yfirgangi, græðgi, sóun og ójöfnuði? Eða með öðrum orðum hvort ekki sé mögulegt að gagnrýna óhóflegan lífskjaramun af öðrum hvötum en vegna öfundsýki?
JB
9.7.2007 | 20:52
Er meistaraflokkur karla eitthvað merkilegri?
Tímarit knattspyrnudeildar Víkings er nýkomið í hús. Ágætt rit þar sem gerð er grein fyrir starfi deildarinnar og birtar myndir af öllum liðum Víkings. Eitt vekur samt sem áður athygli mína og það er að í augum forráðamanna knattspyrnunnar hér í Fossvoginum eru ekki allir iðkendur félagsins taldir jafn merkilegir. Aðeins eitt lið fær stærri mynd en önnur og það er meistaraflokkur karla. Hann fær miðopnu á meðan öll önnur lið fá hálfa síðu. Ég fann blaðið frá því í fyrra og þá er sami háttur hafður á. Meistaraflokkur karla var líka þar í miðopnu á meðan önnur lið fengu hálfa síðu. Það sem meira er að á forsíðu blaðsins í fyrra var einnig mynd af meistaraflokki karla og í ár er mynd úr leik meistaraflokksins á forsíðu blaðsins.
Nú spyr ég nokkurra spurninga:
Er meistaraflokkur karla eitthvað merkilegri heldur en önnur lið sem Víkingur teflir fram? Ef svo er að hvaða leiti?
Hversvegna má ekki t.d. hafa 8.flokk drengja eða kannski 3. flokk kvenna í miðopnu eða eitthvað annað lið?
Væri ekki sniðugt að skipta miðopnunni á milli liða á milli ára þannig að það væri aldrei sami flokkur sem fengi flennistóra mynd af sér í miðopnu í þessu blaði knattspyrnudeildar Víkings.
Og síðast en ekki síst: Hversvegna er menningin í kringum fótboltann svona ægilega gamaldags (og hallærisleg)?
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kíkið á þetta:
Fréttatilkynning Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli fimm norskra foreldra gegn norska ríkinu þann 29. júní 2007.
Mannréttindadómstóll Evrópu (ME) í Strasbourg kvað upp sögulegan dóm í máli nokkurra norskra foreldra gegn norska ríkinu þann 29. júní s.l. Um var að ræða fimm foreldra sem eru meðlimir í félagi húmanista í Noregi (Human-Etisk Forbund) og börn þeirra sem öll höfðu verið talin beitt misrétti vegna fyrirkomulags kennslu í kristinfræði, trúfræði og lífsskoðunum (KRL kristendomskunnskap med religions- og livsynsorientering) í norska skólakerfinu að mati foreldrana.
Norska ríkið braut á rétti foreldra
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að norska ríkið hefði brotið á rétti barna til að fá tilhlýðilega menntun. Dómurinn komst jafnframt að því að brotið hefði verið gegn trú- og samviskufrelsi kærenda. Þessi dómur er í samræmi við niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna frá 25. mars 2002.
Niðurstaða dómsins er í stuttu máli þessi:
1) Fyrirkomulag kennslu í Kristinfræði, öðrum trúarbrögðum og heimspeki er þess eðlis að verulega er hallað á önnur trúarbrögð og aðrar lífsskoðanir en Kristni.
2) Illfært er fyrir foreldra að nýta sér rétt til undanþágu frá trúarbragðakennslu þar sem erfitt sé að fylgjast með hvenær námsefnið er við hæfi að þeirra mati.
3) Erfitt er fyrir börn og foreldra að forðast iðkun bæna, sálmasöngva, kirkjuþjónustu og trúarleg skólaleikrit á skólatíma. Því sé ekki viðeigandi að slík starfsemi fari fram í opinberum skólum.
4) Dómurinn kemst að því að yfirvöld í Noregi hafi ekki gætt þess nægjanlega að námsefni sé borið fram á hlutlausan, gagnrýninn og fjölmenningarlegan máta.
Niðurstöður ættu að hafa áhrif á Íslandi
Siðmennt og fleiri aðilar hérlendis hafa bent á sams konar galla í íslenskum skólum og skort á hlutleysi í Námsskrá Grunnskóla. Þá hefur Siðmennt bent á að trúarlegar athafnir eins og bænir, kirkjuferðir og trúarleg leikrit og söngvar séu óviðeigandi í opinberum skólum sem eiga að vera fyrir alla. Það er ljóst að dómur rennur stoðum undir gagnrýni Siðmenntar hér á landi. Það er von Siðmenntar að íslensk stjórnvöld kynni sér dóminn og beiti sér umsvifalaust fyrir því að tryggja hlutleysi í íslenskum skólum.
Sjá nánar www.sidmennt.is
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.7.2007 | 00:54
Getur verið að minningarathöfn um hund sé líka eitthvað annað en minningarathöfn um hund?
Illugi Jökulsson gerir að umtalsefni þann ömurlega verknað þegar ungir menn settu hund í tösku og spörkuðu á milli sín þar til hann dó í Blaðinu 30. júní s.l. Illugi er hissa á því að fólk skuli hafa haldið minningarathöfn um hundinn og að fólk sem ekkert þekkti hundinn hafi tekið þátt. Hann segir m.a.:
"Já, ég varð sem sagt gapandi af undrun þar sem ég las þetta í blöðunum í gærmorgun. Ég var svo mikið kvikindi að ég hugsaði strax með sjálfum mér: Skortir kannski harm í líf þess fólks sem kemur saman og býr sér til grátbólgna sorgarstund út af hundi sem það þekkti ekki neitt? Ég held ég sé ekkert verri maður en hvur annar en - og nú fer mig að bresta íslensk orð af einskærri undrun - þetta var HUNDUR, for crying out loud!
Og nóg í mannheimum sem harma má áður en maður fer að kveikja á kertum fyrir ókunnugan hund. Eða hvað?
Og svo fór maður náttúrulega að hugsa - eins og alltaf - á þetta virkilega eitthvert erindi í blöðin?!"
Þetta er athygliserðar athugasemdir hjá Illuga og vel skiljanlegar ef maður lítur á þetta mál frá þröngu sjónarhorni. Sjálfur er ég sammála Illuga að líklega er ekki ástæða til þess að gera mikið mál þó að ókunnugur hundur gefi upp öndina. Hinsvegar verður ekki litið framhjá því að hér er um mun stærra mál að ræða en bara það eitt að einn ókunnugur hundur hafi dáið. Hér eru samborgarar okkar að sýna af sér fádæma hrottaskap og siðleysi sem full ástæða er að vekja athygli á og gefa þau skilaboð að eiga ekki að líðast í samfélagi okkar.
Það eru þessi skilaboð sem ég lít á að minningarathöfnin hafi fyrst og fremst verið að undirstrika. Við eigum ekki að líða það að fólk fari með dýr eins og hverja aðra dauða hluti. Og er einhverskonar samkoma hvort sem við köllum hana minningaratöfn eða eitthað annað ekki bara fín leið til þess að láta í ljós andúð á hegðun sem þessari?
Þannig lít ég því á að umrædd minningarathöfn hafi ekki síst verið leið til þess að andæfa siðlausri breytni og slíku framtaki ber að fagna.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.7.2007 kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.7.2007 | 11:56
Parísarfréttir (kannski nýtt heiti á Fréttablaðinu?)
Ekki veit ég nákvæmlega hversu margir hausar ganga um á jörðinni. Ætla mætti þó á Fréttablaðinu að þeir séu ekki svo ýkja margir. Ég er nýkominn heim eftir um viku ferð um óbyggðir landsins og hef sest niður til þess að fletta í gegnum þau dagblöð sem hafa borist á meðan. Ég er búinn að fara lauslega í gegnum Fréttablaðið og það sem vekur athygli mína er þessi óbilandi áhugi ritstjórnarinnar á konu nokkurri sem heitir Paris Hilton og þykir víst fræg fyrir helst ekki neitt.
Af sjö tölublöðum Fréttablaðsins birtast fréttir og myndir af umræddri konu í fimm. Það sem ristjórninni þótti markvert var þetta:
29. júní. Sagt var frá því í einni grein að Paris hafi lesið Biblíuna. Annarsstaðr í blaðinu var síðan heilsíðuúttekt á lífi hennar í máli og myndum.
30. júní. Ekkert sagt frá Paris Hilton.
1. júlí. Paris sökuð um lygar í sjónarpsviðtali.
2. júlí. Sagt frá hversu margir horfðu á sjónvarpsviðtal við Paris Hilton.
3. júlí. Paris ætlar að flytja frá Hollywood.
4. júlí. Engar fréttir af Paris Hilton og ritstjórnin gefur enga skýringu á þessu fréttaleysi þennan dag.
5. júlí. Paris á góðu róli og blússandi hamingjusöm. Einnig birtist mynd af henni þar sem sagt er frá kaupum Blackstone á Hiltonhótlekeðjunni.
Semsagt þegar allt er tekið saman þá gat ég lesið sjö fréttir af Paris Hilton eftir þessa sjö daga útilegu.
Er þetta ekki dásamleg og metnaðarfull blaðamennska? Nú verður spennandi að sjá frá hverju sagt verður í blaðinu á morgun af þessari uppáhaldsmanneskju ritstjórnarinnar.
JB
25.6.2007 | 20:07
Best er að fara ekki á taugum þótt einhver sé lengi að tala eða hugsa
Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson var í skemmtilegu viðtali í Lesbókinni á laugardag. Þar kom hann með býsna gott ráð handa þeim sem stýra umræðuþáttum í fjölmiðlum. Eins og allir vita einkennast margir umræðuþáttanna af innihaldslausu hanaati og upphrópunum og þegar rætt var um það að Egill Helgason muni stýra bókmenntaþætti í sjónvarpinu næsta vetur hafði Jón þetta um málið að segja:
"Egill er fjandi góður sjónvarpsmaður, en ég er ekki viss um að hann sé jafn slyngur bókmenntamaður, og hann þarf heldur ekki að vera það til þess að stýra góðum bókmenntaþætti. Þar gildir að kunna á miðilinn og fá rétta fólkið til þess að tala um hlutina, og ekki fara á taugum þótt einhver viðmælandi sé lengi að hugsa eða tala. Ég held að fólk horfi ekki á bókmenntaþætti til að heyra glitrandi frasa sem síðan er hægt að nota í auglýsingar."
Þar hafið þið það stjórnendur umræðuþátta: Ekki fara á taugum þótt einhver sé lengi að hugsa eða tala.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2007 | 22:45
Meira hæglæti
Vert er að vekja athygli á viðtali Mogunblaðsins í dag 24. júní við Ósk Vilhjálmsdóttur þar sem hún skipuleggur ferðalög í anda hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar. Hæglætishreyfingin er ört vaxandi hreyfing í heiminum sem hefur það að markmiði sínu að fólk finni lífsgæðin í lífi sem lifað er hægar á stresslausari hátt en nú tíðkst víða. Ósk útskýrir svona ferðalög með eftirfarandi hætti: "Þetta er leit að lífsgæðum sem við missum af í stressinu. Kílómetrafjöldinn skiptir ekki öllu máli heldur að ferðalögin feli í sér andríki og innihald." Síðan segir í viðtalinu: "Skyndibitaferðir þar sem heimsóttar eru tíu borgir á tíu dögum eru því á undanhaldi og fólk kýs í auknum mæli að líta sér nær."
Hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar nær til flestra þátta mannlífsins s.s. matarmenningar, borgarskipulags, samgangna, ferðalaga, frístunda, uppeldis og læknisfræði svo fátt eitt sé nefnt.
Víða í samfélagi okkar er þörf á hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar. Ekki síst tel ég fulla ástæðu til þess að innleiða þessa hugmyndafræði í skólastarf. Það er því miður orðinn mikill þrýstingur í skólastarfi að nemendur ljúki sem mestu á sem skemmstum tíma. Að taka sér tíma í námi þykir nú ekki par fínt. Ekki hef ég þó heyrt nein almennileg rök fyrir þessum skólaflýti sem felst t.d. í því að nú á að bjóða nemendum sem lokið hafa 9. bekk að taka ekki 10. bekk heldur fara beint í framhaldsskóla. Helstu rökin hafa verið þau að nemendur geta þá farið fyrr út á vinnumarkað. Gott og vel en hver eru þá rökin fyrir því að fara fyrr á vinnumarkað? Er það eftirsóknarvert fyrir unga fólkið? Ég er ekkert of viss um það.
Í bókinni Lifum lífinu hægar eftir Carl Honoré er heimspeki hæglætishreyfingarinnar útlistuð. Þar er núverandi asakerfi í skólum þar sem reynt er að troða sem mestu í höfuð nemenda á sem skemmstum tíma líkt við næringargildi þess að gleypa í sig hamborgara. Hætt er við að margir fari á mis við ákveðið þroskaferli sem verður að fá að taka tíma.
Núna í sumar undirbý ég kennslu mína næsta vetur við Réttarholtsskóla með hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar í huga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig nemendur mínir eiga eftir að spjara sig í hæglætinu.
JB
22.6.2007 | 14:36
Hvar ætlar maðurinn að lenda?
Spurning mín hvar ætlar maðurinn að lenda? er kannski aukaatriði en mér fannst samt ástæða til þess að varpa henni fram þegar ég las fréttina af auðmanninum sem hefur fest kaup á tveggja hæða risaþotu af gerðinni Airbus 380 á kr. 19 milljarðar.
Umræddur auðmaður hyggst nota þotuna persónulga fyrir sig og fylgdarlið sitt en málið með svona þotu er sú að hún þarf séþjálfaða flugmenn og hún getur aðeins lent á sumum flugvöllum eins og segir í fréttinni.
Það er athyglisvert að spá í svona neyslumenningu og þá skynsemi eða óskynsemi sem í henni felst. Ekki er það beint af hagvæmnisástæðum sem svona þota er keypt því ekki getur það talist beint hagkvæmt að geta ekki lent á öllum meðalflugvöllum.
Það er þá væntanlega einhverskonar dóta eða leikfangaþörf sem hér hefur einhver áhrif á kaupin. En eins og allir vita eru býsna margir fullorðnir haldnir ríkri dótaþörf rétt eins og börnin, nema hvað dótið hjá fullorðna fólkinu er orðið aðeins dýrara.
JB
21.6.2007 | 18:34
Guði sé lof að Egill Skallagrímsson er ekki í Vinnuskóla Kópavogs
Þær fregnir bárust núna í morgun að allt ætlar um koll að keyra í agaleysi, kvenfyrilitningu, klámbröndurum, óhlíðni og einhverju enn verra í Vinnuskóla Kópavogs. Þetta er síður en svo eitthvert gamanmál að mati Sigurðar Grétars Ólafssonar hjá Vinnuskólanum en hann segir meðal annars: "Fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að ég þyrfti líka að setja reglur varðandi bann við nauðgunarbröndurum, grófum klám athugasemdum og niðrandi útlendingabröndurum.......Þær reglur endurtek ég fyrir einstaklingum í vinnuhópnum nánast daglega." Og Sigurður heldur áfram og segir síðar: " Orðaval, hlýðni og hvernig krakkarnir taka skipunum eru skýrustu dæmin og hafa versnað til muna í þau tíu ár sem ég hef starfað í Vinnuskólanum."
Ekki er þetta fallegt að heyra. En einhvernveginn finnst mér eins og ég hafi heyrt svona "allteraðfaratilfandans" umræðu áður þegar rætt er um unglinga.
Ég man þegar ég var sjálfur unglingur suður í Keflavík þá tóku Víkurfréttir skapvonskukast sem stóð í nokkrar vikur og beindist fyrst og fremst að unglingum í Grindavík. Blessuðum unglingum var allt fundið til foráttu og varð úr að við nokkrir krakkar tókum okkur til og buðum til opins borgarafundar þar sem ritstjórar blaðsins voru boðaðir til þess að svara fyrir skrif sín. Fullt var út úr dyrum, fulltrúar unglinga höfðu framsögur, reifuðu sjónarmið sín og beindu spurningum til ritstjóra. Í ljós kom að skrif þeirra reyndust heldur ýkt þó vissulega leyndust þar sannleikskorn. En í kjölfar þessa fundar breyttust skrif þeirra um unglinga til hins betra og það var farið að taka líka eftir því jákvæða sem krakkarnir voru að gera.
Málið er nefnilga það að það er afskaplega auðvelt að falla í þá vitleysu að blása upp tilvik sem gerast hjá miklum minnihluta unglinga og horfa framhjá því sem vel er gert. Vissulega haga unglingar sér misjafnlega en ég get alls ekki verið sammála því að hegðun unglinga almennt fari versnandi með hverju ári eins og haldið er fram í frétt Blaðsins. Og hef ég nú starfað með unglingum í 11 ár.
En svona fréttir eins og fram koma hjá þeim í Vinnuskólanum eru svo sem ekkert nýjar. Sókrates á að hafa verið með svipuð tíðindi af unga fólkinu fyrir rúmum 2000 árum þegar hann á að hafa sagt:
"Unglingar nú á dögum vilja bara lifa í vellystingum. Þeir kunna ekki mannasiði, neita að láta skipa sér fyrir, bera enga virðingu fyrir þeim fullorðnu og nota tímann til að kjafta saman þegar þeir ættu að vera að vinna. Ungt fólk stendur ekki lengur upp þegar eldra fólk kemur inn í herbergið. Þeir andmæla foreldrum sínum, gorta í veislum, úða í sig sætindum þegar þeir sitja við matarborðið, krossleggja fætur og rífa kjaft við kennarana sína."
Nú er bara að treysta á að Blaðið fari og finni líka hvað unglingar gera sem talist getur jákvætt. Ég er sannfærður um að dæmi þess eru margfalt fleiri. Og hversvegna ekki að leyfa þeim að birtast líka á prenti?
JB
19.6.2007 | 20:36
Hversu lengi þarf launamunur kynjanna að líðast?
Það er með ólíkindum að 19. júní árið 2007 fáum við að heyra eftirfarandi frétt í sjónvarpinu:
"Konur bjóða körlum hærri laun en konum, en karlar bjóða kynbræðrum sínum enn hærri laun. Þetta kemur fram í viðamikilli rannsókn sem gerð var á launamun kynjanna. Niðurstöðurnar voru kynntar í Háskólanum Reykjavík í dag, undir fyrirsögninni Kvennafn lækkar launin."
Hér er geinilega um ákveðið viðhorfsvandamál í samfélaginu að ræða, vandamál sem við öll þurfum að takast á við. Það er því vel við hæfi að á þessum degi skuli tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um að setja á fót jafnréttisskóla hafa verið samþykkt.
En frétt þessi um launamismuninn segir okkur það líka að við sem störfum innan grunnskólanna þurfum svo sannarlega að efla hjá okkur jafnréttisfræðsluna.
JB