Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Glæsilegar athafnir í Háskólabíói

Í gær sunnudag fóru fram tvær athafnir borgaralegra ferminga þar sem alls 109 börn fermdust borgaralega. Talið er að um 1300-1400 manns samtals hafi verið viðstaddir athafnirnar. Þetta var 19 árið sem fermt er borgaralega hér á landi. Börnin sem fermast eiga mikinn þátt í athöfnunum þar sem þau koma fram með ýmis atriði s.s. flytja tónlist, ávörp. ljóð osfrv. Tveir utanaðkomandi ræðumenn ávörpuðu samkomurnar, en það voru þau Halla Gunnarsdóttir og Gunnar Hersveinn og voru ávörp þeirra áhugaverð.

Björn Jóhannsson fermingarbarn flutti ávarp sem birtist hér:

 

Komið þið sæl

Þegar ég ætlaði að fara að fermast fór ég að hugsa um guð.

Ég hafði nokkrum sinnum spáð í að kannski væri guð til.  Foreldrar mínir sögðu mér þá sögu að þegar ég var fimm ára þá hafi ég spurt þeirrar heimspekilegu spurningar „Hversvegna guð ætti að hjálpa okkur.”  Ég sá að pabbi varð dálítið skrítinn á svipinn og svaraði á móti “viltu ekki að guð hjálpi þér?”. “Nei” svaraði ég  og bætti svo við “ég held að ég hjálpi mér bara sjálfur. Mig grunar að hugmyndin að þessari spurningu hafi komið vegna þess að margir segja “guð hjálpi þér” þegar maður hnerrar.

 

Á svipuðum tíma leitaði ég að guði sem svo margir höfðu talað um og dag nokkurn fór ég með vini mínum í sunnudagaskóla. Við vinirnir leituðum ekki lengi að guði heldur tókum við upp á því að fara í feluleik. Við skriðum undir kirkjubekkina og gerðum fólki bylt við. Þetta þótti okkur skemmtilegt en það fannst öðrum ekki.

Leitin að guði bar ekki árangur að þessu sinni.

 

Nokkrum árum síðar fór ég aftur í kirkju en þá ekki til þess að leita að guði heldur til þess að vera í fermingu frænku minnar. Foreldrar mínir voru með í för og pössuðu upp á að ég tæki ekki upp á því að skríða undir bekki og finna felustaði. Mér fór því fljótt að leiðast og lagði mig á bekknum. Ekki komst ég hjá því að hlusta á það sem presturinn sagði og fannst mér hann segja full oft orðið “almáttugur”. Ég reisti mig því upp í sætinu og sagði hátt og snjallt “hann er með æði fyrir almáttugur”. Mér fannst þetta góð ábending hjá mér en fullorðna fólkinu fannst þessi ofnotkun á orðinu “almáttugur” greinilega í lagi því það sussaði niðri í mér.

 

Fjórum árum eftir þetta var komið að mér að ákveða hvort og þá hvernig ég vildi fermast.

Þegar ég fór að segja vinum mínum að ég ætlaði ekki að fermast kirkjulega heldur borgaralega fannst þeim það skrýtið og héldu að það væri bara fyrir pakka og gjafir. Pabbi vinar míns sagði við hann að þeir sem fermdust borgaralega fermdust  bara fyrir pakka og gjafir. Vinur minn sagði þetta við mig en ég sagði að þetta væri bara venjuleg ferming eins og allar aðrar, maður þyrfti bara ekki að fara í próf og læra heima.

Síðar kom þessi sami vinur minn og spurði “ætlar einhver í þínum bekk ekki að fermast?” og ég sagði já og þá sagði þessi vinur minn hina gullnu setningu EN ÞÁ FÆR HANN ENGA PAKKA. Og síðan segir hann að borgarleg ferming sé bara fyrir pakka.

 

Pakkar eru svo sem alveg ágætir en það er ýmislegt fleira sem fylgir borgaralegri fermingu, t.d. fermingarfræðsla. Og hvernig er svo þessi fermingarfræðsla sem við förum í?

 

Við mættum í fræðslutíma í tólf vikur og lærðum mikið um lífið og tilveruna.

Við lærðum um gagnrýna hugsun. Hvað er nú það? Það er til dæmis að ef einhver segir manni að hann hafi séð risaeðlu  á skólalóðinni. Þá getur það alveg verið satt en maður trúir því ekki fyrr en maður hefur kannað málið.

Síðan lærðum við um nauðsynlegar og ónauðsynlegar þarfir. Þar voru nú skoðanir skiptar t.d. fannst ekki öllum foreldrar vera bráðnauðsynlegir á meðan öðrum fannst þeir mjög nauðsynlegir.

Við fjölluðum um siðfræði og hvað er rangt að gera og hvað rétt.

Við fjölluðum um fordóma og mismunandi menningu. Kennarinn spurði okkur að því hvað væri það skrítnasta sem við höfðum borðað. Ætli það skrítnasta sem ég hef borðað sé ekki hestur en það er nú ekkert því kennarinn á námskeiðinu hafði bæði borðað krókódíl og hund.

 

Við fjölluðum um margt fleira en mér persónulega fannst hundurinn með liðagigtina mest spennandi á námskeiðinu. Þetta var reyndar ekki  fræðslustund um liðagigt heldur kom í heimsókn tollvörður sem hafði meðferðis einstaklega vinalegan hund sem kom sér vel fyrir undir borðum. Tollvörðurinn fjallaði um skaðsemi fíkniefna og hvernig vopn mætti flytja inn og hversu langt blað á hníf má vera. Það eru 12 cm.

   

Hvers vegna fermistu borgaralega? Maður fær þessa spurningu oft: Við sem fermumst borgaralega höfum öll mismunandi ástæður fyrir því en ég fermist borgaralega af því ég trúi ekki á guð. Ég leitaði að honum í sunnudagaskólanum þegar ég var yngri.  En þá gleymdi ég mér í feluleiknum sem ég sagði ykkur frá áðan.

 

Ég þakka fyrir fræðsluna sem ég hef fengið og þann möguleika að fermast borgaralega.

Takk fyrir mig

 

Björn Jóhannsson

 

Sjá nánar um borgaralegar fermingar á www.sidmennt.is

 


Samkynhneigðir og hjónaband

Vert er að vekja athygli á fréttatilkynningu Siðmenntar um hjónabönd samkynhneigðra:

 

Fréttatilkynning:27. apríl 2007Siðmennt vill að trúfélög fái heimild til að gefa saman samkynhneigð pör Að gefnu tilefni vill Siðmennt ítreka þá afstöðu sína að samkynhneigðir eigi að njóta sömu réttinda og aðrir í íslensku samfélagi.  Fyrir rúmu ári sendi Siðmennt Allsherjarnefnd Alþingis umsögn sína um frumvarp til laga um réttarstöðu samkynhneigðra. Í greinargerð félagsins kom skýrt fram að Siðmennt studdi eindregið þær breytingar sem lagðar voru til á réttarstöðu samkynhneigðra samkvæmt lögum. Enn fremur kom fram í umsögn Siðmenntar skýr vilji til þess að lögum um hjúskap yrði breytt: „Siðmennt hvetur Allsherjarnefnd einnig heilshugar til að gera breytingar á hjúskaparlögum þannig að skráð trúfélög öðlist rétt til að gefa saman samkynhneigða einstaklinga. Siðmennt minnir á að með slíkri breytingu yrði skráðum trúfélögum heimilt en ekki skylt að gefa saman samkynhneigða. Ekkert mælir á móti slíkri lagabreytingu enda verður trúfélögum frjálst að velja hvort þau vilja nýta sér umrædda heimild. Það besta við slík lög er að þau myndu auka réttarstöðu samkynhneigðra umtalsvert án þess að skerða rétt trúfélaga til að taka ákvörðun á eigin forsendum.  Nánari upplýsingar veitirSigurður Hólm GunnarssonVaraformaður Siðmenntar 

 


Grænn í gegn á rúntinum í Reykjavík

Ég var á fundi frambjóðenda í Breiðholtsskóla í kvöld. Ágætur fundur en fámennur. Það gafst tækifæri til þess að spyrja frambjóðendur og lék mér forvitni á að vita hvort að Ómar Ragnarsson forystumaður Íslandshreyfingarinnar væri enn á þeirri skoðun sinni að endurvekja ætti "rúntinn" í miðborg Reykjavíkur. Vakti ég athygli í spurningu minni á því að með slíkum rúnti væri hvatt til ofnotkunar á einkabílum með tilheyrandi mengun sem væri andstætt því að vilja vera umhverfisvænn.

Svar Ómars var á þá leið að hver varðar umhverfismál þá skipti endurupptaka rúntsins litlu máli. Ég gat semsagt ekki skilið svar hans öðruvísi en svo að hann væri enn á því að endurvekja rúntinn í borginni.  Það er að segja hvetja fólk til þess að keyra meira að nauðsynjalausu.

Það er því ekki furða að maður spyrji í framhaldi af þessu hversu "græn í gegn" er Íslandshreyfingin?


Stríðið í Írak og siðferðileg afstaða ríkisstjórnarinnar

Nú eru rúm fjögur ár  liðin síðan ráðist var inn í Írak með stuðningi ríkisstjórnar Íslands. Þó að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafi ekki verið vakandi fyrir mögulegum afleiðingum innrásarinnar þá var það vitað strax í upphafi að hér var um mikil mistök að ræða. Nú hefur það svo sannarlega komið enn frekar í ljós hversu afdrifarík þessi mistök voru. Fjöldi fólks hefur fallið og framtíðarvonir alltof margra hafa orðið að engu.

Sú ákvörðun að styðja stríðið í Írak án þess að þjóðin væri spurð er dæmi um þá siðlausu utanríkisstefnu sem ríkisstjórn Íslands fylgir. Í blindni er fylgt eftir því sem Bush og aðrir stríðsherrar vilja að því er virðist alveg gagnrýnislaust. Það er meginvandinn í utanríkisstefnu stefnu stjórnvalda, það að taka ákvarðanir án þess að gagnrýnin og yfirveguð hugsun komi þar nokkuð nærri. Hvað þá siðferðileg hugsun, drottinn minn dýri skyldu stjórnarherrarnir vita hvað það er?

Utanríkisráðherra Íslands, Valgerður Sverrisdóttir hefur viðurkennt að hér hafi verið um mistök að ræða sem byggðust á röngum upplýsingum. Það sem gerðist að mínu mati var einfaldlega það að hér var um að ræða afleiðingu þess að Ísland hefur ekki haft sjálfstæða utanríkisstefnu. Ef við hefðum haft sjálfstæða utanríkisstefnu hefðum við eðlilega leyft Írökum að njóta vafans og ekki stutt innrásina hugsunarlaust eins og gert var.

Vandi ríkisstjórnarinnar í þessum máli er mikill og það sem meira er þá er hann að mestu leiti siðferðilegur. Stuðningur ríkisstjórnarinnar er siðferðilega rangur og til þess að gera sér enn betur grein fyrir því hvet ég stuðningsmenn innrásarinnar að svara eftirfarandi spurningum samviskusamlega:

1) Hvort hefur það reynst almenningi í Írak betra eða verra að ráðist var inn í landið á sínum tíma?

2) Hversu mörgum óbreyttum borgurum má fórna til þess að koma illum einræðisherra frá?

3) Hver er siðferðileg ábyrgð bandaríkjaforseta gagnvart velferð lágstéttarbarnanna sem eru í herliðinu hans? Verða herstjórar á borð við Bush ekki einnig að gæta að sínum eigin hermönnum og fjölskyldum þeirra?

Við ættum að minnast afstöðu stjórnarflokkanna í Íraksmálinu þegar við göngum að kjörborðinu í vor. Ég minni jafnframt á að við Vinstri græn höfum allt aðra og mun firðsamlegri utanríkisstefnu þar sem meginstoðirnar eru sjálfstæði og hlutleysi landsins og stuðningur við friðsamlega lausn deilumála í stað hamslausra stríðsleikja.

JB


Biðlistar á BUGL og framkvæmdaáætlun félagsmálaráðuneytisins í barnaverndarmálum

Ég hef verið að leita að stefnu félagsmálaráðuneytisins í barnaverndarmálum. Í lögum um barnavernd segir meðal annars í 5.gr. að félagsmálaráðuneytið beri ábyrgð í stefnumótun í barnavernd og segir ennfremur að ráðherra eigi að leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun í barnavernd til fjögurra ára að loknum sveitarstjórnarkosningum.

Ég leitaði að framkvæmdaáætlun ráðuneytisins í barnavernd á vefsíðu ráðuneytisins en fann ekki og því hringdi ég í ráðuneytið til þess að spyrjast fyrir. Ég fékk að ræða við tvo starfsmenn sem könnuðust ekki við málið. Það varð því úr að ég ákvað að senda tölvupóst á netfang sem gefið er upp á vefsíðu ráðuneytisins til þess að fá upplýsingar um þessi mál. Tölvupósturinn var svohljóðandi:

Ég hef verið að reyna að finna á vef ráðuneytisins  framkvæmdaáætlun í barnavernd (skv 5. grein barnaverndarlaga) en hef ekki fundið. Getur þú upplýst mig um hvernig staða málsins er? Það sem kemst næst framkvæmdaáætlun í barnavernd er þá helst hluti af áætlun sem ég fann á vef ráðuneytisins og heitir Aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis. Er sú áætlun komin til framkvæmda?
Bestu kveðjur
Jóhann Björnsson

Þessi fyrirspurn var send fyrir rúmri viku síðan en enn hefur ekkert heyrst frá ráðuneytinu.

Á meðan ég bíð eftir svari frá ráðuneytinu um baranverndarmál fær maður fréttir af metbiðlistum á barna og unglingageðdeild, alls 170 börn bíða eftir plássi. Í umræddum fréttum má einnig lesa um fjölskyldur sem haldið er í "gíslingu" vegna veikinda barna sinna og svo eru einnig fregnir af væntanlegri sumarlokun deildarinnar.

Svo koma stjórnarherrarnir fram og tala um hagvöxtinn og kaupmáttaraukninguna en ekki eru þeir til svara um málefni barnanna.

Er einhver þarna úti sem getur hjálpað mér að finna stefnu og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í barnaverndarmálum (ef hún er þá til)?

JB


Sjálfbær markaður Vinstri grænna

 

Full ástæða er til að hvetja fólk til að koma á markaðinn hjá VG núna á laugardaginn. 

Sjálfbær markaður verður aftur að Suðurgötu 3, næstkomandi laugardag frá klukkan 13 - 18. Síðasta laugardag var frábær stemmning enda mættu yfir 200 manns.

Tekið verður við munum á markaðinn á meðan á honum stendur. Markaðurinn er haldinn til fjáröflunar fyrir flokksstarfið vegna komandi kosninga og er að sjálfsögðu haldinn í anda sjálfbærni og endurvinnslu. Heitt verður á könnunni og allir velkomnir.


Siv, Vinstri græn, hagkerfið blandaða og viljinn til rangfærslna

Það var athyglisvert að heyra Siv Friðleifsdóttur túlka stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á framboðsfundi á Stöð tvö í gær. Þar sagði hún að VG væri á móti blönduðu hagkerfi. Ekki var henni gert af þáttastjórnendum að rökstyðja mál sitt frekar enda kæmi það mér ekkert á óvart að þáttastjórnendur hafi vart trúað sínum eigin eyrum.

Það þarf nefnilega alveg gríðarlega mikinn vilja til misskilnings eða kannski réttara sagt vilja til  rangfærslna til að geta haldið því fram að VG sé á móti blönduðu hagkerfi á Íslandi. Hvað gerir fólk ekki í atkvæðakapphlaupinu mikla sem nú fer fram. Ögmundi Jónassyni tókst þó að skjóta inn stuttri athugasemd við þessa fullyrðinu ráðherrans og sagði eins og satt er að VG styður af heilum hug og leggur í raun mikla áherslu á blandað hagkerfi þar sem ýmis rekstarform fyritækja fái notið sín.

En í hita leiksins getur það alltaf gerst að stjórnmálamenn, jafnvel vanir stjórnmálamenn láti ýmislegt flakka gegn betri vitund, enda getur það ekki verið að Siv viti ekki betur en raun ber vitni um afstöðu VG til hagkerfisins og hin ýmsu rekstarform. En svona til fróðleiks fyrir Siv og aðra áhugasama um stefnu VG þá læt ég hér fylgja með smá texta úr stefnu VG  um samfélag og atvinnulíf:

"Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir því að atvinnulífið þróist í átt til aukinnar fjölbreytni og nýti umvherfisvæna tækni. Sérstaka áherslu ber að leggja á stuðning við fjölbreytta nýsköpun, vöxt og viðgang lítilla og meðlastórra fyrirtækja. Atvinnufyrirtæki eiga að greiða eðlilega hlutdeild af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Koma verður í veg fyrir óhóflega gróðasöfnun í skjóli einokunar eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja og skattleggja sérstaklega gróða sem sprettur af nýtingarrétti atvinnurekenda á sameiginlegum auðlindum. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir, einkum við sjávarsíðuna og í sveitum landsins, þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu. Nýta ber sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir ásamt tækni og þekkingu til að skapa landsmönnum störf í fjölbreyttu og þróuðu atvinnulífi en varast ber að einblína á allsherjarlausnir og einstaka stóriðjukosti."

JB

 


Náttúrusiðfræði

Vinstrihreyfingin grænt framboð kynnti í síðustu viku "Græna framtíð" sem er stefna flokksins um sjálfbæra þróun. Hér er um ítarlegt og vandað stefnurit að ræða sem á vissan hátt markar tímamót í stefnumótunarvinnu í íslenskum stjórnmálum. Það sem er nýtt í þessari stefnu og ég hef ekki séð annarsstaðar er að leitað er í smiðju siðfræðinnar sem fræðigreinar til þess að marka spor í stefnumótun. Sérstakur kafli er í ritinu sem heitir "Náttúrusiðfræði". En náttúrusiðfræði er sú grein siðfræðinnar sem leitast við að líta á viðfangsefni umhverfis- og náttúru út frá sjónarhóli siðfræðinnar.

Það væri óskandi að allir flokkar leituðu í ríkari mæli til siðfræðinnar þegar pólitískar stefnur eru mótaðar en líta má á alla málaflokka útfrá sjónarhóli siðfræðinnar. Ef til vill á það eftir að verða, enda má segja að siðfræðin sé tiltölulega ung grein hér á landi og ekki margir sem hafa stundað skipulegt nám í siðfræði.

En hér er kominn fyrsti vísir að því að fagleg siðferðileg sjónarmið fái eitthvað vægi í pólitískri stefnumótun og nú er bara að halda áfram og koma á framfæri sjónarhorni siðfræðinnar að í fleiri málum. Mér dettur ekki síst í huga að næstu skref Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs yrðu siðfræðileg nálgun innflytjendamála, velferðarmála og barnaverndarmála.

JB

 


Guðjón Arnar verður að svara eftirfarandi spurningu...

Guðjón Arnar formaður Frjálslyndaflokksins tók það fram í umræðum í sjónvarpinu nýverið að hann væri sammála stjórnarflokkunum um auknar stóriðjuframkvæmdir t.d. á Húsavík. Jafnframt vill hann takmarkarka flæði erlends verkafólks til landsins. Spurningin sem hann og aðrir frambjóðendur Frjálslyndaflokksins verða að svara til þess að mark sé á þeim takandi er þessi: Hvernig er hægt að halda áfram þennsluhvetjandi framkvæmdum án þess að til komi mikið af erlendu vinnuafli? Hverjir eiga eiginlega að vinna við allar þessar framkvæmdir?

Þessu verða hinir frjálslyndu að svara ef þeir eiga að vera teknir alvarlega í stjórnmálaumræðum samtímans.

JB


Frjálslyndiflokkurinn sáir fræjum haturs og tortryggni

Frambjóðandi Frjálslyndaflokksins í Reykjavík Viðar Helgi Guðjonshen skrifaði nýverið grein þar sem hann telur útlendinga sem hér búa vera rótina að öllum þeim vanda sem við okkur blasir.

Af lestri greinarinnar má klárlega álykta sem svo að útlendingar séu upp til hópa, berklasjúkir eiturlyfjasalar og skipulagðir nauðgarar sem halda laununum niðri og með öllu ómögulegt sé að kenna íslensku.

Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður Frjálslyndaflokksins sá ekki ástæðu til þess að bera á móti þessu harkalega sjónarmiði Viðars í viðtali við Egil Helgason og fram hefur komið að formaðurinn Guðjón Arnar Kristjánsson segir ummæli Viðars ekki koma sér við.

Um þessar mundir má heyra fréttir af vaxandi kynþáttahatri hér á landi þar sem m.a. er gróflega vegið að erlendum verkamönnum með slagorðum sem forysta Frjálslyndra notar, "Ísland fyrir íslendinga" auk teikninga af hakakrossi og manni sem hangir í snöru.

Forysta Frjálslyndra er klárlega að koma því til leiðar með málflutningi sínum, ákafa og tortryggni í garð útlendinga að kynþáttahatur og pirringur í garð útlendinga verði að vandamáli hér á landi. Ég hef því miður allt of oft lent í deilum við fólk sem er farið að pirra sig á þeim útlendingum sem það þarf að eiga samskipti við og iðulega er vitnað til Magnúsar Þórs og félaga hans í Frjálslynda flokknum til þess að rökstyðja það hversu skelfilegar manneskjur útlendingar eru.

Í einu tilviki spurði ég viðmælanda minn, eftir að hafa fengið langa ræðu pirrings og ofstopa að segja mér hvort það væri ekkert gott sem fylgdi þeim útlendingum sem hann ætti samskipti við. Hik kom á viðmælanda minn og átti hann erfitt með í útlendingapirringi sínum að viðurkenna að svo væri.

Það er fyrst og fremst Frjálslyndiflokkurinn með upphrópunum sínum og ofstæki sem er að koma í veg fyrir að heilbrigt fjölmenningarsamfélag þar sem allir fái notið virðingar þrífist hér á landi. Við höfum enn tækifæri til þess að byggja fjölbreytt samfélagi og læra af reynslu annarra þjóða og koma í veg fyrir að mistök sem átt hafa sér stað erlendis verði okkar hlutskipti. Því miður er Frjálslyndiflokkurinn langt komin með að eyðileggja þann möguleika með því að sá fræjum tortryggni og ofstækis.

JB

Greinin birtist í Morgunblaðinu í gær 12.apríl


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband