Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þegar alveg eins kjólar mætast

Fyrir þá sem hafa gaman af því að glíma við viðfangsefni úr heimspeki hversdagsleikans þá er hér eitt verkefni fyrir helgina:

Fréttablaðið greinir frá því í morgun að Birgitta Haukdal hafi í kveðjuhófi Bjarna Ármannssonar verið í alveg eins kjól og Unnur Birna var í í brúðkaupi Emelíu Nylonsstúlku.

Það eru gömul sannindi að ekki þykir það vita á gott að klæðast eins kjól og einhver önnur eins og fréttin ber með sér. Enn verra þykir það víst ef konurnar eru í alveg eins kjólum á sama stað á sama tíma.

Nú er verkefni hversdagsheimspekinnar að reyna að skýra, skilja og túlka þann veruleika sem við búum í og því er það heimspekilegt verkefni ykkar lesendur góðir að svara eftirfarandi spurningu:

Hvernig getum við útskýrt það ástand sem fer af stað ef tvær konur mætast í alveg eins kjólum?

Vert er að geta þess að sjálfur hef ég ekki svarið við þessu og því vísa ég þessu til ykkar ágætu lesendur til rökræðna. Öll svör eru vel þegin og engin svör verða dæmd heimskuleg án ítarlegrar skoðunar, enda eiga allar pælingar rétt á sér þegar glímt er við heimspekileg viðfangsefni hversdagsleikans.

Gangi ykkur vel

JB

 


Hvenær skyldi stóriðjan verða nauðsynleg forsenda grænna svæða?

Undanfarinn sólarhring hefur nokkuð verið rætt um mögulega árekstra vatnsframleiðslu Jóns Ólafsonar og hugsanlegs álvers í Ölfusinu. Jón sagði í kvöldfréttum í gær að hann vildi að svæðið yrði "grænt". Í kvöld var svo rætt við bæjarstjóra Þorlákshafnar og hann vill líka sjá svæðið "grænt", en hann vill sjá það "grænt" með álveri og sér enga mótsögn í stóriðju og skilgreindum "grænum" svæðum.

Eftir þetta viðtal við bæjarstjórann klórar maður sér dálítið í höfðinu og sú hugsun skýtur upp kollinum hvort stóriðjufólkið fari nú ekki bráðum að gera tilraun til þess að telja okkur trú um að hinar stærstu stóriðjur séu nauðsynlegar forsendur "grænna" svæða?

Allt er nú til.

JB


Varúð, hömlulaus markaðshyggja skerðir lífshamingju

Ísland er það land í Evrópu sem er best fallið til þess að veita þegnum sínum hamingjuríkt líf segir í niðurstöðum rannsóknar sem New Economics Foundation og Friends of Earth stóðu fyrir. Norðurlöndin komu mjög vel út í umræddri könnun en athygli vekur að þau ríki sem byggja mest á markaðshagkerfi koma verst út.

Ekki kemur það mér neitt sérstaklega á óvart að rík markaðshyggja skuli vera þáttur sem skerðir lífshamingju fólks enda er markaðshyggjan þekkt fyir að hampa streituvaldandi græðgi, eiginhagmunadýrkun og gerviþörfum og skeyta lítt um hin samfélagslegu og mannlegu gildi.

Í góðum fyrirlestri sem Magnús Skúlason hélt fyrir mögrum árum og var gefinn út af H.Í. 1988 hefur hann nokkuð að segja um þær röngu áherslur hv varðar lífsgæði sem margir aðhyllast nú á tímum og vert er að taka til athugunar:

"Það ríkir öfgakenndur áhugi á ytri efnalegri velmegun, góðri afkomu og kaupgetu. Það ríkir ágjörn og eigingjörn lífsþægindastefna með áherslu á útlit og ytra borð hlutanna og skjóta fullnægingu þarfa - og gerviþarfa. Undir yfirborðinu er tómleiki, eirðarleysi og kvíði." (Skaðsemi velmegunar bls. 9)

Við þurfum að gæta þess að ráðandi pólitíkusar hér á landi nái ekki að gegnsýra samfélagið allt af óheftri og gráðugri markaðshyggju. Þegar upp er staðið er spurningin sú hvort hamingjunni sé fórnandi á altari markaðsdýrkunarinnar með öllum þeim lífsstíls og velmegunarsjúkdómum sem henni fylgja.

JB


Ljósið sem kostaði kr.1500 á Ítalíu í fyrra kostar nú rúmar kr.17000 á Íslandi

Í um 10 ár hafði verið ljóslaust á einum stað í íbúðinni þegar konan mín sá ljós á Ítalíu í fyrra sem gæti hentað. Ljósið var afskaplega einfalt og látlaust plastljós sem kostaði litlar 1500 íslenskar krónur. Eftir að heim var komið kom í ljós að íslendingar "voru með æði" fyrir svona ljósi. Eitthvað sem við höfðum ekki hugmynd um. Þetta þótti víst ógeðslega "kúl" hjá þeim sem eru inni í ljósa og húsbúnaðarbransanum. Enda kostaði fimmtánhundruðkrónaljósið kr.10.800 s.l. sumar.

Í gær fengum við gest í heimsókn sem benti á ljósið og sagðist hafa séð nákvæmlega eins ljós (já nákvæmlega eins fimmtánhundruðkrónaljós úr plasti) til sölu á rúmar 17.000 í búð nokkurri hér í borg. Jú þetta er rétt skrifað sjautjánþúsundkrónur.

Hugsið ykkur þvílíkt rugl á verðlaginu hér á landi. En það er ekki bara verðlagið. Hvað segir þetta okkur um neysluskynsemi fólks ef hægt er að selja því fimmtánhundruðkrónaljós á rúmar 17.000? Það segir sig sjálft að ef fólk er til í að borga þennan pening þá er varan að sjálfsögðu seld á þessu verði. Í slíkum tilvikum er ekki víst að upptaka evrunnar breyti nokkru. 

JB

 


Fjögur tonn á dag!

Það má með sanni segja að við lifum á einhverskonar IKEA tímum. Tímum þar sem hægt er að fá vörur á þokkalegu verði en ekkert er sérstaklega tryggt með langa líftíma þeirra. Það þykir víst ekki skipta ýkja miklu máli því þá er bara farið aftur og keypt nýtt ef það gamla virkar ekki. Nú eða ef maður fær leið á hlutnum þá er hægt að senda hann í Góða hirðinn í þeirri von að einhver geti notað hann.

Það kom mér nokkuð á óvart að lesa í fasteignablaði Morgunblaðsins í dag að Góði hirðirinn fær um fjögur tonn á dag af allskyns hlutum. Ég hef kannski ekki forsendur til að meta hvort þetta er mikið eða lítið en einhvernveginn hallast ég á  þá skoðun að þetta sé býsna mikið og beri vott um mikla endurnýjunarþörf og einnota menningu þegar fólk losar sig við jafn mikið af dóti og raun er á. Ég hef reyndar ekki hugmynd um það hversu mikið fer út af þessum hlutum en það er vissulega fullþörf að vekja athygli á þessu umhverfisvæna starfi sem unnið er í Góða hirðinum og hvetja fólk til þess að gefa gömlu hlutunum nýtt líf, það er að segja ef það þarfnast einhvers.

Og fyrst maður er farinn að tala um neyslumenningu þá vekur Fréttablaðið athygli í dag á því að í Noregi og í New York er farið að ræða um hversu óumhverfisvænt það er að taka flöskuvatnið fram yfir kranavatnið. Sá sem drekkur sódavatn losar 80 sinnum meiri koltvísýring út í andrúmsloftið og í New York er talað um að þrjár flöskur af hverjum fjórum skili sér ekki í endurvinnslugáma heldur lenda í ruslatunnum.

Gáum að þessu.

JB

 


Hversvegna þennan ægilega hávaða?

Ég sat í morgun rétt fyrir kl. 11.00 og drakk kaffið mitt í bakgarðinum mínum um 100 metra frá bjöllum Bústaðakirkju þegar þær byrjuðu að hringja inn guðsþjónustu. Ég ætla nú ekki að vera með nein leiðindi en þegar klukkurnar voru búnar að hringja alllengi að því er mér fannst með miklum hávaða þannig að nær ómögulegt var að tala saman og þegar ung stúlka austan að landi sem er gestur á heimilinu spurði af hverju hringt væri svona lengi fór ég að velta því fyir mér hvert væri eiginlega hlutverk kirkjuklukkna í nútímasamfélagi. Væntanlega hafa þær einhvertíma þjónað mikilvægum tilgangi en ég efast um að þær geri það í dag öðrum en táknrænum.

Ég er eins og komið hefur fram í ýmsum pistlum á þessari síðu mikill áhugamaður um hugmyndafræði svokallaðrar hæglætishreyfingar og þar hafa verið þróaðar hugmyndir um hæglætisborgir/bæi og hverfi, svokallaðar citta slow. Eitt af einkennum hæglætisborganna er að leitast við að hafa allan hávaða í lágmarki. Hávaðinn í borginni er alveg nægur fyrir og ég teldi það kirkjunni vera til framdráttar ef kirkjunnar menn tækju af skarið og hvettu til minni hávaða og rólegra lífs í stað þess ærandi hávaða sem ég þurfti að takast á við í morgun.

Þess má geta að í Réttarholtsskóla sem er í sama hverfi hefur skólabjalla ekki verið notuð í mörg ár. Bæði starfsfólk og nemendur þekkja sinn tíma og ekki hefur verið þörf á að láta einhverja bjöllu æpa á mannskapinn. Og fyrst að unglingarnir í Réttó rata í stofurnar á réttum tíma þá held ég að það sé engin ástæða til að ætla annað en að kirkjugestir geri það líka.

Semsagt minkum hávaðan í hverfinu sem mest við megum og stuðlum þar með að auknum lífsgæðum íbúanna.

(Þeir sem vilja kynna sér nánar hugmyndafræði hæglætishreyfingarinnar hvet ég til að lesa bókina Lifum lífinu hægar eftir Carl Honore).

JB


Eflum atvinnuþátttöku fatlaðra

Það var ánægjulegt að lesa viðtal Blaðsins við Hörð Jónsson í gær. Hörður er faðir 16 ára fatlaðs drengs sem í sumar hefur fengið vinnu í gegnum svokallað Texasverkefni sem felst í þátttöku fatlaðra ungmenna í störfum á almennum vinnumarkaði. Í viðtalinu segir Hörður frá því hversu mikilvægt þetta er fyrir ungmennin:

"Unglingarnir eru mjög ánægðir með þetta. Þeim finnst eiginlega vera jól á hverjum degi þegar þeir fara í vinnuna. Þetta gerir svo mikið fyrir þá því með þessu geta þeir sagst hafa verið í vinnu sem margir hverjir gætu alljafna ekki stundað. Verkefnið er byrjun á nýjum hugsunarhætti."

Fyrirtæki á almennum markaði sem hafa bolmagn til mættu taka þetta framtak sér til fyrirmyndar og gefa fötluðulm tækifæri til þess að spreyta sig. Þegar ég vann við gerð hernaðarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli 1987 hjá Íslenskum aðalverktökum þá man ég alltaf að þar var allnokkuð um að fatlaðir fengju vinnu. Var þetta væntanlega það eina góða við starfsemi ÍAV á vellinum (enda var ég alla tíð andstæðingur hernaðaruppbyggingar á Íslandi). Þar fengu margir fatlaðir að spreyta sig á ýmsum verkefnum, hver á sínum hraða með sínum hætti og við sem unnum við hlið fatlaðra fengum að kynnast fötluðum og þeim möguleikum sem þeir bjuggu yfir. Ég held að við unglingarnir sem og aðrir sem unnum þarna höfum orðið víðsýnni fyrir vikið.

Það er engin spurnin að til mikils er að vinna fyrir íslenskt samfélag að efla atvinnuþátttöku fatlaðra. Slökum aðeins á ofurlaunametingnum á vinnumarkaðinum og förum frekar að verja kröftum okkar og fjármunum í að efla fjölbreytileikann í hópi starfsfólks.

JB 


Tinni í Kongó hefur verið notuð í nokkur ár í fordómafræðslu á meðal unglinga hér á landi

Það kom mér ekkert sérstaklega á óvart að sjá fréttina um fordóma Tinna í Kongó. Tinni hefur lengi verið ein af mínum uppáhaldskarakterum bókmenntanna og hefur reynst mér afskaplega vel þegar ég kenni unglingum. Tinnabækurnar geyma margt sem gaman er að taka upp í umræðum í heimspeki og siðfræði og hefur Kongóævintýri Tinna þar verið í fararbroddi.

Í nokkur ár hef ég á undirbúningsnámskeiði fyrir borgaralega fermingu lagt fyrir þátttakendur nokkrar myndir úr umræddri bók sem hafa síðan verið rökræddar. Spurt hefur verið hvort um fordóma sé að ræða eða bara góða brandara eða kannski fordómafulla brandara. Ekki hafa allir verið á einu máli, en eitt er víst að flestir hafa haft skoðun á málinu.

Hvað sem líður meintum fordómum Tinna þá hefur hann að minnsta kosti þjónað þeim tilgangi að fá unga fólkið til þess að velta vöngum.

JB


mbl.is Tinni í Kongó of fordómafullur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóðalegur Maríuhellir

Ég fór í gær með góðu fólki í hellaskoðun. Megintilgangurinn var að sýna sænskum ferðamönnum sem hér dvöldu um tíma íslenska hella. Fyrst fórum við í Hundraðmetrahelli í Hafnarfirði og síðan á leiðinni til Reykjavíkur ákváðum við að fara í Maríuhelli í Heiðmörk.

Ferðin í Hundraðmetrahelli var frábær. Greinilegt er að ekki er mikið um mannaferðir í hellinum.

Það sama verður hinsvegar ekki sagt um Maríuhelli því þegar þangað var komið tók á móti okkur afskaplega sóðalegur hellir. Kerti og kertavax, kveikjarar, sígarettupakkar, dagblöð og pappír og fleira rusl er þar um allt.

Svíarnir voru ánægðir með hellaferðina en sóðaskapurinn í Maríuhelli skyggði á þessa ánægju. Ekki veit ég hvort einhverjir ábyrgðaraðilar eru með þessum helli, en allavega er hann merktur frá veignum og því hljóta einhverjir að hafa eitthvað með hann að gera.

Því er allavega komið á framfæri að þarna þarf að taka til hendinni.

JB


Vesalings ráðamenn í Reykjanesbæ að þurfa að hafa svona fólk í bænum

Sósíalismi hefur aldrei verið til umræðu við stjórnun Reykjanesbæjar. Kannski var það árið 1986 sem bæjarbúar í Keflavík komust næst einhverskonar jafnaðarmennsku þegar Alþýðuflokkurinn gamli fékk hreinan meirihluta í bæjarstjórn. En væntanlega vegna einhvers klaufagangs töpuðu jafnaðamenn fylginu og enduðu síðan í síðustu kosningu með því að bjóða fram með Framsóknarflokki. Þvílík niðurlæging jafnaðarmanna í Reykjanesbæ.

Sjálfstæðismenn hafa í mög ár vaðið uppi og unnið sér það helst til afreka að selja eignir bæjarbúa. Meira að segja gömlu barnaskólarnir voru seldir. Íþróttahúsin hafa verið seld og sama má segja með sundlaugarnar og sitthvað fleira. Um þessar mundir er svo verið að selja hlut í Hitaveitu Suðurnesja en Reykjanesbær átti 47% hlut en kemur til með að eiga 35% eftir sölu. (Ég geri ráð fyrir að bærinn sé tilneyddur til að selja hitaveituna til þess að næla sér í fé til þess að greiða fyrir leiguna á skólunum og fleiri fyrrverrandi eigum bæjarbúa því varla er bæjarstjóranum Árna og félögum stætt á því að láta börnin læra utandyra allan veturinn).

Svo leigir bærinn bara af eigendunum. Það hlítur að vera svakalega gaman að eiga eitt stykki barnaskóla og leigja bænum sem á engan annan kost en að leigja hvort sem honum líkar betur eða verr.

Nú berast þær fréttir úr Reykjanesbæ að félagslegu íbúðirnar séu farnar að þvælast fyrir í kerfinu og því verður að selja þær líka. Hjörtur Zakaríasson framkvææmdastjóri fasteigna hjá bænum segir að það geti ekki verið markmiðið að fjölga félagslegum íbúðum því þeir vilja að fólk hjálpi sér helst sjálft.

Á meðan þessi "mannúðarstefna" sjálfstæðismanna á sér stað er fólki sem sagt er upp leigu ekki boðið neitt annað.

Í viðtali við einn íbúann koma eftirfarandi fram:

"Við erum öryrkjar, einstæðar mæður og lágtekjufólk í íbúðunum, þannig að manni finnst þetta skrýtið. Okkur var bara sagt að búast við hinu versta og vona það besta."

Ekki er von á öðru en að maður spyrji hvernig í ósköpunum eiga bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ að geta rekið félagslega þjónustu ef engar eru eignirnar til og enginn aurinn þar sem allt fer í að greiða leigu fyrir skólana og aðrar eignir sem skilyrðislaust eiga að vera í almannaeigu.

Það fer að koma að þeirri spurningu hvort íbúar Reykjanesbæjar fari ekki að þurfa að fá sinn Hugo Chavez í pólitíkinni.

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband