Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ég held bara að þetta minni mann á umhverfisstefnu borgarstjórnarmeirihlutans

Ég hef verið að lesa bók Einars Más Jónssonar Bréf til Maríu. Margt áhugavert ræðir Einar Már í bók sinni eins og þetta hérna sem óneitanlega minnir mann á umhverfisstefnu borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík sem hefur haldið því fram að mislæg gatnamót séu nú með því umhverfisvænna í borgum sem hægt er að hugsa sér. Gefum Einari Má orðið:

"Allir vilja berjast á móti mengun, alveg til síðasta blóðdropa, en ef á að setja einhverjar takmarkanir við bílaakstri kemur annað hljóð í strokkinn. Það vilja menn ekki, menn vilja hafa sína bíla eins og þeim þóknast og gera við þá hvað sem þeir vilja. Raunverulegt áhyggjuefni manna er aðeins eitt, umferðaröngþveitið og til að bæta úr því vilja þeir breiðari bílvegi og enn fleiri hraðbrautir. Í þessu sambandi gera menn aftur og aftur sömu rökvilluna. Þeir halda að bílaumferð sé einhver föst stærð, með því að tvöfalda vegi megi minnka um helming umferðina á þeim sem voru fyrir. En eins og reynslan hefur margsinnis sýnt er þetta rangt, nýir vegir kalla á enn meiri bílaakstur, ef vegir eru tvöfaldaðir tvöfaldast umferðin og öngþveitið er óbreytt." (bls.230)


Á maður á dánarbeðinu kannski eftir að sjá eftir því að hafa ekki varið meiri tíma í vinnunni?

Mikill fagnaðarboðskapur gengur nú yfir land og þjóð. Boðskapur sem væntanlega á eftir að gera okkur öll frjáls og leiða okkar til hamingjunnar. Þetta er skattalækkunarhamingjuboðskapurinn sem enginn virðist þora að draga í efa.

Ég hef verið að reyna að hlusta eftir því hvernig skattalækkunartrúboðarnir ætla sér að láta hið opinbera halda óskertum tekjum sínum ef skattar lækka og eru svörin öll á eina leið: Með lækkun skatta mun fólk vinna meira, eða með orðalagi Höllu Tómasdóttur í viðskiptablaði Fréttablaðsins í morgun: "Lægri skattheimta hvetur fólk til vinnu."

Sama sagði skattagúrúinn Edward C. Prescott og allir migu í sig af hrifningu þegar hann kom til landsins. Í viðtali í Kastljósinu fékk hann hinsvegar þá spurningu hversvegna íslendingar ættu að vinna meira en raunin er og reyndi ég að hlusta eins vel og ég gat en því miður fann ég engin bitastæð rök fyrir auknu vinnuálagi íslendinga. Hann hafði það eitt til málana að leggja að fólk myndi vinna meira. (Og þá væntanlega kaupa fleiri bráðnauðsynlega hluti eins og hjólhýsi, flatskjái, bíla osfrv.)

Þeir sem boða okkur fagnaðarerindið um að verja meiri tíma á vinnustaðnum mættu svara eftirfarandi spurningu:

Þegar maður liggur fyrir dauðanum og fer að velta því upp hvernig lífi maður hefði viljað lifa, hvað maður hefði viljað gera öðruvísi getur þá verið að maður eigi eftir að sjá eftir því að hafa ekki varið meiri tíma á vinnustaðnum fjarri fjölskyldu, vinum og áhugamálum?

Og eitt að lokum að sinni. Kíkið á myndirnar af því sem kallast "salaryman" á World press photo sýningunni en þær sýna vinnualka af verstu gerð sem eru þrælar atvinnunnar.

Stundum eru önnur gildi þess virði að lifa fyrir en þau sem beinlínis eru vinnutengd.

http://www.worldpressphoto.org/index.php?option=com_photogallery&task=view&id=866&Itemid=146


Gefum finnanum orðið

Það getur oft verið athyglisvert  og jafnframt lærdómsríkt að heyra útlendinga tjá sig um íslendinga og íslenskt samfélag. Í Morgunblaðinu í dag er rætt við nokkra erlenda námsmenn sem hér dvelja. Gefum finnanum Ella Kalliokoski orðið:

"Mér  finnst skrítið að allir eigi bíl. Ef maður fylgist með umferðinni sér maður að það eru eiginlega alltaf bara einn eða tveir í hverjum bíl. Það finnst mér ekki rétt. Strætisvagnakerfið er heldur ekki nógu gott. Ég tek strætó frekar oft, og hann kemur svo óreglulega að það skiptir varla nokkru máli hvenær ég fer út í strætóskýli. Iðulega þarf að bíða í fimmtán til tuttugu mínútur, þótt maður fari út á réttum tíma, samkvæmt stundatöflu. Auk þess finnst mér skrítið hversu lítið er endurunnið hérna."(bls.29)

En við þetta má bæta að allt horfir þetta væntanlega til betri vegar með strætisvagnana þar sem Gísli Marteinn er farinn að merkja stöðvarnar með frumlegum og skemmtilegum nöfnum, það hlýtur að bæta stundvísina og fjölga farþegum.

JB


Ekki er nú gott að vera í félagsskap manna sem eru blóðugir upp fyrir axlir

Eftirfarandi ályktun er frá Samtökum hernaðarandstæðinga.

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fyrirhuguðum heræfingum NATO-ríkjanna Noregs, Danmerkur, Bandaríkjanna, Lettlands og Íslands sem ætlunin er að halda dagana 13. til 16. ágúst næstkomandi. Ekkert réttlætir misnotkun á íslensku landi og íslenskri land- og lofthelgi til æfinga í meðferð drápstóla. Ekkert réttlætir heldur misnotkun á íslensku almannafé – 45 milljónum króna - til að borga undir slíkt.

Ísland, sem menn vilja á tyllidögum kalla herlaust land, ætti að sjá sóma sinn í því að hafna hvers kyns hernaðarbrölti. Því er það grátlegt að Ísland skuli þess í stað ýta undir það með því að bjóða hingað til æfinga herjum erlendra ríkja, þar á meðal Bandaríkjaher sem er blóðugur upp fyrir axlir vegna þátttöku sinnar í hverju siðlausu stríðinu á fætur öðru.

Æfingar af þessum toga eru ekki aðeins aðferð herveldanna til að þjálfa herlið sitt heldur einnig til að staðfesta áhrifasvæði sitt, berast á gagnvart hugsanlegum andstæðingum og jafnvel ögra þeim. Þeim fylgir mengun, ónæði og hætta. Þær staðfesta hlutverk Íslands sem lítils NATO-peðs sem Bandaríkjamenn geta treyst á að styðji allt hernaðarbrölt
sem þeir taka sér fyrir hendur.

Sjá nánar http://fridur.is


Legið á Lækjartorgi og fjölskyldan sem át köttinn sinn

Ég fór í gærkvöldi í skemmtilegan göngutúr sem myndlistarkonan Ilmur Stefánsdóttir leiddi um miðbæinn. Markmið göngunnar var að upplifa borgina á nýjan og spennandi hátt. Þetta er eitthvað sem maður gerir ekki dags daglega. Ein upplifunin fólst í því að skynja borgina liggjandi á Lækjartorgi. Það var eiginlega með því betra sem ég hef gert í sumar og hef ég nú gert margt skemmtilegt í sumar.

Ég tók eftir því í þessari ferð minni að myndlistarfólk og ákveðinn hópur heimspekinga deila sama áhugamáli og það er að upplifa veröldina á annan hátt en þann hefðbundna. Og nú fyrst það er að koma helgi er ekki úr vegi að fólk fái smá verkefni til þess að glíma við um helgina. Þetta er verkefni sem ég fékk lánað hjá heimspekingunum Julian Baggini og Jeremy Stangroom og felst í því sem þeir kalla á ensku "testing your taboos". Ég veit eiginlega ekki hvernig á að þýða þetta á íslensku en það merkir að maður athugar hvernig "tabúin" sem maður kann að vera haldinn virka. En hér kemur umhugsunarefnið:

Ekið var á heimiliskött og hann dó. Eigendur kattarins höfðu einhversstaðar heyrt að kattakjöt væri ekki sem verst svo þeir elduðu köttinn og borðuðu hann í kvöldmat. Kötturinn reyndist ágætis matur og enginn hlaut skaða af átinu.

Hér er ljóst að ekki er það vanalegt að legja ketti sér til munns hér á landi, en enginn skaði á sér stað eins og títt er þegar fengist er við siðferðileg álitamál og því ástæða til að spyrja eftirfarandi spurningar:

Var það rangt af fjölskyldunni að borða köttinn eða var það ekki rangt?

Verið ekki feimin við að skrifa allar hugleiðingar um málið í athugasemdir.

Gangi ykkur vel.

JB

 


750 kr. bjór

Smá um neytendamál:

Ég fór með kunningja mínum sem ég hef ekki hitt lengi á bar í miðbænum í gærkvöldi. Það er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema hvað. Á börum fær maður sér stundum einn kaldann úr krana og það var það sem við gerðum. Ég held að ég sé nú ekkert svakalega nískur en við vorum rukkaðir um kr. 750 á hvorn bjór og þótti okkur eiginlega nóg um.

Bíðið nú við er ekki ástæða til að spyrja í framhaldi af þessu hverjir hafa verið við stjórn landsins undanfarna áratugi?

Svör skrifist í athugasemdir.

JB


Hola Presidente

Ég þekki ekki vel til í íslenskri blaðamannstétt, en einhvernveginn þá virðist ekki liggja mikill áhugi á að kafa of djúpt ofan í hlutina og kanna ýmsar hliðar þeirra. Kannski er viljinn til staðar en bara ekki tími þar sem það er komið að útgáfutíma og allt þarf að gerast svo hratt annars brjálast neytendur sem vilja fá blöðin sín strax.

Ég hef tekið eftir því að þegar blöðin hér á landi fjalla um nokkra valda pólitíkusa útan úr heimi (og hef ég einkum þrjá í huga að sinni þá Hugo Chavez í Venezuela, Evo Morales í Bólivíu og Fidel Castro á Kúbu) þá eru fréttirnar litlar og afskaplega einfaldar. Dæmi um umfjallanir "vel upplýstra" íslenskra fjölmiðla um þá þremenninga er einatt á þessa lund:

* Fidel Castro er elliært gamalmenni sem ratar ekki frá völdum og getur þar að auki ekki dáið, en hann hlýtur að fara að deyja.

* Evo Morales er forfallinn kókalaufatyggjandi sem býr einhversstaðar hátt uppi í fjöllum.

* Hugo Chavez er valdasjúkur skapofsahundur sem er á móti sjónvarpi og útlendingum sem segja skoðanir sínar.

Þetta er dæmi um hvernig íslensku fjölmiðlarnir mennta lesendur í alþjóðamálunum á Íslandi og síðast í Blaðinu í dag á bls. 8.

En fyrir þá sem þora að skoða hlutina nánar þá vek ég athygli á ágætri bók sem ég hef nýverið lesið um þessa þremenninga sem gefur aðeins aðra mynd af þeim og setur hlutina í víðara og sögulegt samhengi en hún heitir "Pirates of the Caribbean, Axis of Hope" og er eftir Tariq Ali:

Einnig má benda blaðamönnum og öðrum áhugasömum á að kíkja á frekari og fjölbreyttari umfjallanir á vefnum

http://www.venezuelanalysis.com/

Það skaðar allavega ekki að skoða fleiri hliðar.  Cool

JB

 


Umbúðirnar eru flottar en ekkert er tryggt með innihaldið

Mér var hugsað til þeirrar mismunandi menningar sem fyrirfinnst á íþrótta- og líkmamsræktarstöðvum þegar ég las viðtal við Hafdísi Jónsdóttur aðstoðarframkvæmdastjóra World Class í Blaðinu í morgun. Á nýju stöðvunum sem eru í byggingu á vegum World Class skortir ekkert á umbúðirnar: "Útsýnið í líkamsræktarstöð World Class í Smáranum verður heldur ekki amalegt enda verður stöðin á 15. hæð......Þarna verður tækjastöð með fullkomnasta búnaði sem í boði er. Það verða gufuböð inni í búninsherbergjunum......"  Og fleira var týnt til af fíneríi.

Því er ekki að neita að aðstandendur World Class hafa gert góða hluti til heilsueflingar en einhvernveginn fór ég að bera saman í huganum þessar gljáfægðu stöðvar við æfingaaðstöður sem hafa einhvernveginn meiri "sál" (hvað svo sem það þýðir). Ástæðan fyrir þessum hugleiðingum mínum er án efa ljósmyndasýningin World Press Photo sem er í Kringlunni núna en þar er ein myndasyrpa úr æfingaaðstöðu hnefaleikamanna í Sao Paulo í Brasílíu sem er utandyra en undir brú í hverfi þar sem einna flestir heilmilausir í borginni búa.

Þrátt fyrir gömul æfingatæki og ekkert útsýni og væntanlega ekki mjög hreint loft í miðju umferðaröngþveiti æfa þar öflugir hnefaleikamenn og fylgir mynd af Joao Kehl  brasilískum meistara sem stefnir á Suður Ameríska titilinn.

Það er æðislegt að bera saman World Class og Garrido´s boxing gym í Brasilíu. Einhvernveginn finnst mér stemmningin yfir Garrido´s boxing gym vera meira "alvöru", en World Class einhvernveginn svona "sykursæt" og "áreynslulaus" (svo ég nota gildishlaðin orð sem ómögulegt er að útskýra).

Sjálfur hef ég prófað fjölda íþrótta- og líkamsræktarstöðva bæði hérlendis og erlendis og þegar ég lít til baka er það einn staður sem stendur upp úr í minningunni. Það var staður í Belgíu sem rekinn var af Kung Fu klúbbi sem hafði komið sér fyrir í gamalli kirkju sem breytt hafði verið í íþróttahús. Breytingarnar höfðu svo sem ekki verið neitt rosalegar, kirkjubekkirnir höfðu verið fjarlægðir og svo var bara byrjað að æfa. Ekki einu sinni var haft fyrir því að koma fyrir sturtuaðstöðu. Enginn var í neitt sérstaklega smart íþróttafötum heldur, en samt voru öll þessi "ósmartheit" pínu smart þarna inni. Það var heldur ekkert verið að fjasa þó að þjálfarinn kveikti sér í einni og einni sígarettu í miðjum klíðum.

En samt sem áður varð árangurinn af æfingunum mjög góður og þarna æfði fólk sem var ekki að spá í útsýni og eitthvað svona útlitspjatt, heldur átök, svita og árangur. Og það smitaði út frá sér og það er það sem er eftirminnilegast: Grimmdin í að ná árangri.

Ég hef tekið eftir því að þessi aðstöðudýrkun sem ríkir innan líkamsræktargeirans mótar huga unga fólksins. Ég tók að mér fyrir nokkrum árum að kenna hópi 10. bekkinga sund. Við fengum aðstöðu í 12,5 metra laug og það leið ekki á löngu að nær ósynd ungmennin fóru að kenna aðstöðunni um. Þetta var svo lítil laug að það átti víst ekkert að vera hægt að kenna sund í svona polli héldu sum þeirra fram.

Ég var nú ekki lengi að svara því og segja þeim að margir af helstu afreksmönnum íslenkrar sundsögu hafi æft mestallann sinn feril í 12,5 metra laug og nefndi ég sem dæmi njarðvíkinginn Eðvarð Þór sem æfði lengi í slíkri laug en komst í heimsklassa og átti um tíma norðurlandamet.

Þannig að þegar líkamsræktin er annarsvegar er ekki allt fengið með nýjungum, ajax sápulykt, strauuðum göllum (helst bleikum) og fægðum speglum að ógleymdu útsýninu (það er spurning hvort að það geti ekki stundum jafnvel spillt fyrir árangrinum?)

(Myndir af Garrido's boxing gym má sjá á vefnum:

http://www.worldpressphoto.org/index.php?option=com_photogallery&task=view&id=854&Itemid=146&type=&selectedIndex=2&bandwidth=high 

 

 


Það er bara eðlilegasti hlutur í heimi að tiltrú almennings á stjórnmálaflokkunum fari minnkandi

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að almenningur hefur síður en svo minnkandi áhuga á stjórnmálum og sínu nánasta umhverfi. Hinsvegar kemur fram að fólk hefur síður áhuga á starfi og lausnum hefðbundinna stjórnálaflokka sem minni kjörsókn og minni þátttaka í starfi flokkanna ber með sér.

Þetta kemur mér ekki á óvart. Of margir stjórnmálaflokkar eru komnir á þá braut að útiloka þátttöku "venjulegs" fólks frá því að geta komist til einhverra verulegra áhrifa innan stjórnsýslunnar. Félagi Evo Morales, okkar maður í Bólivíu lýsti þessu í ræðu sem hann hélt í Mexíkó 2003 á þann veg að flestir sem þátt tækju í stjórnmálum væru farnir að lifa af þeim í stað þess að lifa fyrir þau. Átti hann þá við að fólk tæki þátt í stjórnmálum rétt eins óg það tekur þátt í atvinnulífinu í stað þess að líta á stjórnmálin og flokkana sem vettvang fyrir hugsjónir og tækifæri til að breyta nánasta umhverfi. (Þetta er samhljóma því sem ég hef lengi sagt þégar ég tala um Framsóknarflokkin sem atvinnumiðlun).

Þessi þróun er komin vel af stað hér á landi eins og eftirfarandi dæmi sannar:

Hvernig fær maður sæti á framboðslistum flokkanna? Nú með því að fara í prófkjör/foval og heyja þar kostnaðarsama kosningabaráttu upp á hundruði þúsunda. En ef maður vill ekki eyða of miklum peningum? Fær maður þá ekki sæti á lista? Það er hæpið. Og ef maður er ekki framarlega á framboðslista, verður maður þá nokkurntíman ráðherra eða borgarstjóri? Það er hæpið.

Sem betur fer eru enn til þeir flokkar sem ekki krefjast þess að fólk eigi mikið af aurum til að fá sæti á framboðslistum. Einn þessara flokka er Vinstrihreyfingin grænt framboð. Sjálfur tók ég þátt í forvali flokksins fyrir kosningarnar í vor og kostaði það mig ekki neitt. Enda var samkomulag á milli frambjóðenda að eyða helst engu.

Ef ég hefði hinsvegar tekið þátt í prófkjörum Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins og lagt mig allan fram þá væri ég hugsanlega, ef árangurinn hefði ekki orðið nógu góður að reyna að bjarga sjálfum mér frá gjaldþroti og svæfi ásamt fjölskyldunni undir dagblöðum á Miklatúni.

Nefna mætti fleiri dæmi um það hvernig flokkarnir eru að þróast og mála sig út í horn en ég læt þetta eina dæmi duga að sinni.

JB


Höfum við nokkuð betra að gera en að mótmæla dálítið? (Eða finnið sjö atriði sem betra er að gera en að mótmæla)

Ég get ekki annað sagt en að það er mikið fagnaðarefni að virk mótmæli skuli eiga sér stað hér á landi. Ætli þetta sé ekki einhverskonar heilbrigðisvottorð að fólk skuli hafa skoðanir á hlutunum og vilja láta að sér kveða þó vissulega megi alltaf deila um hvernig mótmælin fara fram.

Allavega myndi ég ekki vilja eiga börn sem sem kysu frekar að verja mestu tíma sínum í Smáralindinni, eða Kringlunni eða á Mc Dónalds, Subway eða lepjandi Coca Cola daginn út og inn í einhverju neyslumeðvitundarleysi og láta mata sig af einhverju bulli búnu til að fyrirtækjum sem vilja aðeins mala gull fyrir eigendur sína hvað sem það kostar. Það er ávísun á heilaleysi af verstu gerð.

Nei þá er nú heilsusamlegra fyrir sálartetrið að mótmæla dálítið nútíma samfélagsháttum og ruglaðri pólitík sem telur okkur trú um að kreppan sé handan við hornið og þessvegna þurfum við að færa allar þessar fórnir á náttúrunni og oft á samborgurum okkar einnig.

Margir hafa skoðun á mótmælum en það hefur vakið athygli mína núna í sumar í tengslum við mótmæli Saving Iceland að fjöldi þeirra sem tjá sig um mótmæli spyrja sömu spurningarinnar sem er þessi:

"Hefur þetta fólk ekkert betra að gera en að mótmæla?"

Þetta er athyglisverð spurning en ég held að þeir sem varpa henni fram þyrftu sjálfir að spyrja sig að því hvernig skuli forgangsraða lífskostunum sem okkur eru búnir. Hvað felst í því að eitt sé betra að gera en annað? Hvernig og hver metur hvað er betra að gera og hvað sé jafnvel best að gera.

Nú gæti verkefni dagsins falist í því að finna sjö atriði sem betra er að gera en að mótmæla.

Vinsamlegast skrifið þessi atriði sem þið finnið og er betra að gera en að mótmæla í athugasemdir.

Gangi ykkur vel.

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband