Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Siðmennt stendur fyrir veraldlegu brúðkaupi

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur starfað í tæp tuttugu ár og jafnlengi staðið fyrir borgaralegum fermingum. Smátt og smátt hefur óskum um aðrar veraldlegar athafnir farið fjölgandi s.s. útförum og giftingum og hafa nokkrir einstaklingar núþegar tekið námskeið í veraldlegri útfarastjórn.

Á morgun 22. september mun Siðmennt í fyrsta sinn standa fyrir veraldlegu brúðkaupi. Leitað var til félagsins með ósk um slíkt og varð stjórn félagsins við því. Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík var svo vingjarnlegur að leyfa okkur að nota kirkju sína undir athöfnina þrátt fyrir að um veraldlega athöfn sé að ræða og ber að þakka fyrir slíkt umburðarlyndi.

Siðmennt hefur notið leiðsagnar systurfélaganna í Noregi Human Etisk Forbund og í Bretlandi British Humanist Association við undirbúning veraldlegra athafna auk ómetanlegrar aðstoðar prests og meðhjálpara Fríkirkjunnar í Reykjavík. Þess má geta að á árinu 2006 voru haldnar 602 veraldleg brúðkaup í Noregi þ.e.a.s. athafnir eins og sú sem haldin verður hér á landi á morgun.

Nánar verður skrifað um þessa nýbreytni í íslensku menningarlífi síðar en að sinni bendi ég á viðtal við Svan Sigurbjörnsson verkefnastjóra athafna hjá Siðmennt sem flutt var á Rás 1 í morgun:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4304606


Þegar heiminum er snúið á hvolf. Eða hvernig er hægt að vilja ekki vinna besta starf í heimi?

Auglýsingar frá ÍTR hafa vakið athygli mína að undanförnu. Besta starf í heimi er auglýst laust. Besta starf í heimi að mati auglýsenda er starf í frístundaheimilum ÍTR. Óneitanlega er hér viðfangsefni heimspekinnar að fást við. Því eðlilegt er að spyrja hvað það þýði fyrir starf að vera best. Hvernig störf eru ömurleg, slæm, góð osfrv? Og hvernig veit maður hvaða starf er besta starf í heimi eins og það er orðað í auglýsingunni? Einnig má varpa fram þeirri spurningu hvort það sem er gott og ég tala nú ekki um það sem er best í heimi, sé ekki mjög eftirsóknarvert? Getur verið að manneskjurnar séu þannig úr garði gerðar að þær forðist það sem er best og sækist frekari í það sem er síðra og jafnvel sækist í það sem er verst? Ef mark er takandi á auglýsingum ÍTR má auðveldlega álykta sem svo.  Ef mannfólkið teldi það sem er best í heimi vera eftirsóknarvert þá þyrfti væntanlega ekki að auglýsa besta starf í heimi eins mikið og gert er.

Þetta var nú bara svona pæling. Annars hef ég ekki mikið vit á svona málum hvenær störf eru best eða ekki best.

JB

 


Í dag ætla ég að skrifa um grasið græna, sólina gulu, lömbin hvítu og reyna að vera hvorki neikvæður né kaldhæðinn. Eða pínkumeira um neytendamál og hvassar tennur leppa fyrirtækjavaldsins

Ég fékk forvitnilegar athugasemdir við færslu mína sem birtist í gær. Ákveðins pirrings gætir vegna þess hversu óþekkur ég hef verið Símanum. Ég ætlaði nú að fara að láta þetta gott heita með Símann en fyrst ég fékk svona skemmtilegar athugasemdir get ég í stráksskap mínum ekki setið á mér og ég bara verð....

En byrjum á að kíkja á skrif "aðdáenda" minna við færslu gærdagsins:

 

"Þú verður að afsaka ruddaskapinn, en rosalega er þetta óáhugavert blogg hjá þér.

Nú ert þú þeirrar gæfu aðnjótandi að fá sumar færslurnar á blogginu þínu birtar á forsíðu mest lesna vefmiðils í landinu. Samt sem áður kýstu að tjá þig um það að SJÓNVARP SÍMANS HAFI BYRJAÐ AÐ VIRKA! Áður hefurðu meira að segja birt færslu um að sjónvarpið hafi verið í ólagi!

Hverjum er ekki sama um það hvort þú náir sjónvarpsútsendingum í stafrænum gæðum eða ekki? Ég biðst aftur forláts á þessum fádæma dónaskap í mér, en mér er hreinlega ofboðið þegar ég rek augun í svona tuð á forsíðu vefútgáfu Morgunblaðsins. Það sem enn verra er, er það að þú virðist eiga kóara sem nennir virkilega að taka þátt í þessu kjökri þínu, þ.e.a.s. hann Ævar hér fyrir ofan mig.

Gerðu það gerðu það gerðu það skrifaðu um eitthvað sem auðgar andann. Ég hreinlega nenni ekki að sitja undir sama hatti og þú og tuða yfir tuði í manni sem ég þekki alls ekki neitt. Æ, ég veit það ekki, þetta er óttalega súrt eitthvað.

Með vinsemd og virðingu,

Friðrik Stefánsson." 

Þetta var ein færsla og svo kemur hin og ekki síðri:

 

"Ég er hjartanlega sammála honum Friðrik. Hann Jóhann hefur einstakt tækifæri til að láta í sér heyra um málefni sem skipta fólk máli, en hann kýs að sólunda því tækifæri í að tala um það hvort hann nái sjónvarpsútsendingum eða ekki. Ég er ekki að mæla því í mót að menn tjái sig um hvað sem þeim sýnist á eigin vefsíðu, en þegar færslur eru birtar á forsíðu mest lesna vefmiðils á landinu, þá verður maður eiginlega að segja eitthvað sem skiptir máli.

Þetta er svipað og að eiga 10 milljónir á bankareikningi hjá Kaupþingi og taka þær allar út í 1 milljón af auðkennislyklum.

Sigrún Steingrímsdóttir"

Það verður ekki annað sagt en að afskaplega ánægjulegt er að heyra að sumir verða pirraðir á að lesa skrif mín. Það segir mér aðeins eitt að skrifin hafa tilætluð áhrif sem er að hreyfa við fólki og vekja til umhugsunar. Vissulega væri gaman að skrifa ávallt um grasið græna, sólina, lömbin og allt hitt sem er svo ánægjulegt í lífinu og skiptir svo miklu máli í lífinu og reyni ég að gera það af og til. En mikið andskoti væri nú síðan innihaldsrýr ef ég væri eingöngu að horfa á heiminn í endalausu bjartsýniskasti.

Ástæðan fyrir því að ég hef tekið þetta símamál sérstaklega vel fyrir að undanförnu er að hér er um mikið hagsmunamál neytenda að ræða. Og neytendamál eru jú kjaramál. Ég veit ekki hvort ergilegir lesendur síðunnar viti hvað neytendamál eru. Kannski er þeim Stefáni og Sigrúnu slétt sama og láta fólk og fyrirtæki vaða yfir sig endalaust, borga bara þegar þeim er sagt að borga og þegja bara þegar þeim er sagt að þegja. En það er því miður það sem alltof mörg fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu eru að reyna að gera.  Ef svo er þá er hlutskipti þeirra vægast sagt sorglegt.

Afstaða þeirra er svona dæmigerð fyrirtækjavaldsundirgefni sem felst í því að trúa blint á slepjulegar glansmyndir og auglýsingar fyrirtækjanna og skeyta í engu um kjaramál eða hagsmuni alþýðunnar. Það kæmi mér ekki á óvart að þau ættu einhverra hagsmuna að gæta, beinna eða óbeinna hjá Símanum en það er þeirra vandi. Við sem erum viðskiptavinir og neytendur eigum líka ákveðinna hagsmuna að gæta og þessir hagsmunir fara ekki alltaf saman.

En ég spyr hvað er er svona ómerkilegt og ómálefnalegt við að skrifa um kjara- og neytendamál. Það þykir kannski ekki í tísku hjá þeim sem vilja helst að fyrirtækin stjórni leynt og ljóst landinu öllu og skeyti hvorki um neytendur né verkalýð.

Mætti ég kannski gerast svo djarfur að biðju um aðeins minni froðu í athugasemdir mínar framvegis þó það ríki málfrelsi í landinu.

JB


Sjónvarp Símanns virðist vera komið í lag eftir fimm mánaða rugl. Framhald frá 8. og 9. september

Eins og fram kemur í síðustu tveimur færslum hefur ýmislegt gengið á í að fá Sjónvarp Símanns til að virka. S.l. sunnudag sendi ég færslu mína frá 8. september til Símanns og óskaði eftir úrbótum eftir miður góða þjónustu s.l. fimm mánuði. Og viti menn tæpum þremur dögum seinna eða s.l. miðvikudag gat ég ekki séð annað en að útsendingarnar hjá Sjónvarpi Símanns hér heima hjá mér hafi verið komnar í lag.

Ekki hef ég hugmynd um hvað þeir hjá Símanum gerðu, ekki voru símalínurnar ónýtar og ekki reyndist sjónarpið mitt ónýtt eins og tveir tæknimenn þeirra höfðu reynt að telja mér trú um.

Það sem ég held að ég hafi gerst var það að þeir hjá Símanum urðu skíthræddir. Það er ekki beint gaman að vera í "bisness" og fá síðan birta opinberlega færslu eins og ég birti þann 8. september s.l. Það er hreint og beint bara neyðarlegt. En þeir verða að horfast í augu við það að þetta var það eina sem dugði til þess að fólkið þarna hjá Símanum færi að vinna vinnuna sína. Ég hafði engin önnur ráð, það er þeirra stærsti vandi.

En því miður Síminn er ekki eina fyrirtækið sem selur þjónustu sem og veitir hana ekki nema neytendurnir fari að vera með leiðindi, hótanir og birti drulluna sem boðið er upp á opinberlega.

Neytendamál og þjónusta hér á landi er almennt dapurleg. Við neytendur þurfum að vera mun grimmari gagnvart þessum fyrirtækjum eins og Símanum sem eru að rembast við að mála einhverja slepjulega glansmynd af sjálfum sér en eru síðan ekkert nema lúðagangurinn, svikin og prettirnir þar til maður verður grimmur. Það er óþolandi að við neytendur skulum þurfa að vera með leiðindi til þess að fá sjálfsagða þjónustu sem fyritækin segjast bjóða upp á.

Ég vona að þeir hjá Símanum hafi lært eitthvað af þessari reynslu.

JB

 


Síminn brettir upp ermar og veður í "djobbið". Framhald frá 8. september

Ég man þegar ég var unglingur þá vann ég á sumrin í mikilli slorvinnu í fiskhúsi í Keflavík. Stundum var hráefnið ekki eins og best verður á kosið og man ég sérstaklega eftir einu fullu kari af skötu sem var orðin allgömul, en ég tók að mér að verka hana með þeirri slor og ammoníakfýlu sem henni fylgdi í þeirri von að mega bjarga þessum verðmætum. En stundum varð maður í þessari vinnu að bretta upp ermar og láta vaða í "djobbið" þó ekki væri það girnilegt.

Mér varð hugsað til þessa skötukars í fiskhúsinu í Keflavík forðum daga og hvernig ég lét vaða þrátt fyfir erfitt verkefni þegar ég svaraði í símann í dag. Viti menn, var það ekki starfsmaður hjá Símanum sem var á línunni. Hafði hann fengið færsluna mína frá í gær um sjónvarpsvandræði mín hjá sjónvarpi Símanns og viritist hann vera nokkuð áhyggjufullur fyrir mína hönd.

Allavega þá hefur Síminn brugðist við færslunni frá í gær og vill gera allt sem hægt er til að koma málunum í lag. Ég hef fengið tengilið við einn ákveðinn einstakling (einhverskonar þjónustufulltrúa) sem mun hafa yfirumsjón með mínum málum þannig að því sé ekki kastað á milli fólks.

Hvað sem gerist þá er það jákvætt hvernig brugðist hefur verið við þó vissulega eigi eftir að koma í ljós hvort þetta sé raunverulegt eða bara úlfurinn, krítinn og kiðlingaævintýrið enn á ný. Við sjáum til en ég leyfi ykkur að fylgjast með hvernig mér gengur að fá sjónvarpið í lag.

Nema hvað til þess að enda söguna af skötunni í Keflavík þá fór hún svona: Ég tók hverja einustu skötu upp úr karinu og skar hana og henti því sem ekki átit að nýta og var næstum því að kafna úr fýlu. Þegar ég var um það bil að verða búinn að skera alla skötuna þá kom verkstjórinn og sagði að það væru allir sammála um að þessi skata væri orðin of gömul, hún væri í raun farin að úldna og því væri henni ekki viðbjargandi og því ætti að henda henni. En hvað sem því líður þá náði ég allavega að verða rosa flinkur við að skera skötu fyrir vikið. Þetta var þá ekki alveg unnið til einskis. En þessi skötusaga var nú útúrdúr frá ævintýrum Símanns.

JB


Síminn og sjónvarpið ónýta. Enn frekari fregnir af óborganlegum neytendamálum. Eða starfsfólk Símanns er eins og úlfurinn í ævintýrinu um kiðlingana sjö

Það er óhætt að fullyrða að neytendamál hafi átt hug minn allan að undanförnu samanber færslur liðinna daga. Það er af mörgu að taka í þeim efnum og ég held að það sé óhætt að fullyrða að ævintýrið í Office one sé nú bara barnaleikur í samburði við samskipti mín við Símann, það æðislega fyrirtæki sem hefur frelsarann sjálfann á launaskrá. En það kemur þessu máli í sjálfu sér ekki við.

En nú er um að gera að koma sér vel fyrir því sagan um Símann er ekki auðmelt, en ég ákvað að skrifa hana eftir að ég sá auglýsingu þar sem her manns fer "agresíft" um borgir og bæi til þess eins að saga niður loftnet og ryðja um koll gervihnattadiskum (hugarástand fólksins í auglýsingunni er ekki ósvipað íslendingum sem skemmta sér í miðborginni um helgar en það er líka önnur saga.)

Og hefst nú sagan.

Það er árið 1992. Ég keypti 14 tommu sjónvarpstæki í fríhöfninni á tæpar 14.000 kr. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega upptekinn af sjónvörpum né öðrum álíka hlutum en þar sem við höfðum verið um tíma sjónvarpslaus þá ákváðum við að kaupa eitt stykki. Þetta litla 14" tæki hefur verið mikil stofuprýði allar götur síðan og orðið tilefni að frjóum og skemmtilegum samræðum, ekki síst á meðal vina barnanna minna sem hefur þótt þetta tæki heldur "nördalegt".

Svo gerist það í vor, nánar tiltekið í apríl 2007 að fulltrúi tengdafjölskyldunnar hefur samband og segir að þetta gangi ekki lengur með 14" tækið. Við verðum að endurnýja (þar sem stórfjölskyldan kemur ávallt saman yfir 14" tækinu á gamlárskvöld og horfir á áramótaskaupið). Fulltrúinn sagði að það  væri geggjað tilboð á flatskjám og við yrðum að fá okkur alla vega fyrir næsta gamlárskvöld.

Nú jæja veiklundaður eins og ég er lét ég tilleiðast og dröslaðist heim með risa risastórann flatskjá. Svo stórann að Bogi Ágústsson lítur út eins og ofurhetjan Hulk the incredible þar sem hann hangir á skjánum.

"Ertu hættur að vera kommúnisti" spurði kunningi minn mig eftir að hann sá skjáinn. "Nei" sagði ég, "þetta er bara svona óheppilegt hliðarskref til að friða stórfjölskylduna sem þolir ekki lengur að horfa á áramótaskaupið í 14" tæki." En það er önnur saga.

Eftir að tækið ógnarstóra var komið á vegginn var haft samband við Sjónvarp Símanns (þetta sem þeir eru alltaf að auglýsa) og óskað eftir að taka sjónvarpið inn í gegnum netið. Ekkert mál. Tæknimaður kemur og tengir og græjar hlutina, en að því loknu kemur smá babb í bátinn og það er þar sem ævintýrin fara að byrja. Það koma alltaf einhverja truflanir í útsendingunum. Tæknimaðurinn hrærir og græjar hlutina en endar síðan á að segja að þessar truflanir séu vegna þess að símalínurnar í húsinu séu orðnar gamlar. Gott og vel segi ég og er ánægður með að fá skýringu á hlutunum því ég vil einmitt laga það sem hægt er að laga í húsinu. Síðan legg ég saman tvo og tvo þeas símalínur plús tæknimaður frá Símanum inni í stofu hjá mér og ég spyr "Er þá nokkuð annað að gera en að endurnýja símalínurnar, ég er alveg til í að leggja í þann kostnað?" Þá mér að óvörum mátti sjá einhverskonar flóttaviðbrögð í andlitsdráttum tæknimannsins. Hann fer að skima eftir útgönguleið og leita að skónum sínum með augunum svo lítið beri á og segir síðan, "tja það þarf sko að tala við nágrannana um svona mál". "Já ekkert mál" segi ég, "ég skal spjalla við nágrannana og athuga hvort þeir séu ekki til í smá endurnýjun á símalínum". "Tja þetta er soldið mál" segir hann og ég svara,"ekkert mál ég er til í hvað sem er svo stórfjölskyldan geti horft á áramótaskaupið ótruflað." Ég hafði varla lokið við þessa setningu fyrr en ég heyrði orðið bless og síðan sá ég undir iljarnar á þessum tæknimanni Símanns.

Hann semsagt brást við eins og ég hefði dregið fram keðjusög og ætlað að brytja hann niður með köldu blóði. En þetta var bara fyrsti hluti sögunnar.

Og er nú komið að næsta hluta.

Þegar þarna er komið við sögu og kominn nokkurra daga reynsla á Sjónvarp Símanns þar sem ríkjandi eru miklar truflanir á mynd, hljóð dettur út í tíma og ótíma, myndin frýs og fjarstíringar virka ekki osfrv ákveð ég að hafa aftur samband við Símann til að athuga hvort ekki sé hægt að kippa þessu í lag. Það er ekki að spyrja að svöruninni í símann hjá Símanum. Silkimjúkar raddir tala þar í tólin, kurteisar, lofa öllu fögru þannig að ég upplifi mig eins og ég sé í bleiku freiðibaði þegar ég hlusta á þessar elskur (en þegar upp er staðið er kannski aðeins of mikið af froðu eins og ég mun koma að).

Jú það stóð ekki á því að fá annan tæknimann. Sá virtist við fyrstu sýn vera hugrakkari en sá fyrri sem áleit mig kaldrifjaðann keðjusagamorðingja. En hvað var að, já þessi var ekki í vanda með að útskýra það. "Þetta eru ekkert símalínurnar, það má nú vel nota gamlar símalínur" sagði hann og hélt áfram: "veistu hvað þetta er?" "Nei" sagði ég "þess vegna fékk ég þig hingað". "Þetta er sjónvarpið þitt, það er í lagi með allt frá okkur en sjónvarpið þitt er bara í rúst". "Ha" sagði ég " en þetta er nýtt sjónvarp beint úr kassanum." "Allt í lagi bless" og síðan var hann rokinn á dyr þessi öðlingur frá Símanum.

Og þá kemur næsti kafli.

Ég var þó í það minnsta ánægður með að fá eitthvert svar þó mér þætti það ótrúlegt. Þetta seinna flóttadýr Símanns hafði þá allavega látið mig fá verkefni til að vinna úr. Ég hringi þá í verslunina þar sem ég keypti tækið og sagði eins og var að Símamaðurinn hafi sagt mér að ég hafi fengið ónýtt sjónvarpstæki.

Og til að gera langa sögu stutta varð verslunarstjóranum svo mikið um þessar fréttir að hann brunaði heim til mín til að ganga úr skugga um hvað amaði að tækinu. Í ljós kom að tækið var í hinu besta standi enda vel þekkt gæðamerki. "Það er nú bara sorglegt" sagði búðamaðurinn " ef Síminn er með menn í vinnu sem hafa ekkert vit á því sem þeir vinna við". Og við það hvarf hann.

Síðan kemur sumar og ég verð latur á þessum eltingaleik við Símann enda afskaplega hvimleitt að eiga samskipti við Símann (nema kannski helst froðurnar silkimjúku sem svara í símann og lofa öllu fögru þar til maður áttar sig á að þær eru eins og úlfurinn sem hafði gleypt krítina til að þykjast vera geitamamma í ævintýrinu um kiðlingana sjö).

En ekki batnar ástandið á sjónvarpsútsendingu Símanns. Síðan á miðju sumri hringir síminn minn og þar segist viðmælandinn vera frá Símanum. Ég ætlaði næstum því að gráta af gleði, mér leið eins og mér hafi verið bjargað úr eyðimörk þar sem ég hélt að þeir hjá Símanum væru að athuga hvort þeir gætu ekki lagað útsendinguna hjá mér. En svo var ekki og ég varð heldur daufur þegar þeir spurðu mig að því hversvegna ég hafi hætt viðskiptum við Símann og hvort ekki mætti gera mér tilboð um að færa öll mín viðskipti aftur til Símanns. Ég ákvað að taka vel í mál viðmælandans og bað um að mér yrði sent tilboð um viðskipti við Símann síðan ákvað ég að reyna að þrýsta mínu máli að og sagði farir mínar ekki sléttar varðandi Sjónvarp Símanns og að ég væri fúll yfir þessu en ef viðkomandi gæti orðið til þess að sjónvarpsútsendingarnar á vegum Símans kæmust í lag þá myndi ég glaður færa öll mín viðskipti yfir til Símanns þó ég þyrfti að borga meira heldur en ég geri hjá O Vodafone.

Ekkert hefur heyrst frá þessari manneskju síðan. Ekki fékk ég tilboðið sent eins og talað var um.

Síðan gerist það að annar símasölumaður á vegum Símanns hringir nokkru síðar með alveg eins símtal og sá fyrri. Ég bregst við á nákvæmlga sama hátt og bið um tilboð plús lagfæringu á Sjónvarpi Símanns. En það er útlit fyrir að báðum þessum einstaklingum hafi verið byrlað eitur því ekkert hefur til þeirra spurst né heldur hef ég fengið umrædd tilboð send eins og lofað var. Dularfullt. Og spurning hvort það sé siðferðileg skylda mín að hafa samband við morðdeild lögreglunnar.

Síðan líður og bíður og er ég orðinn býsna boginn og það styttist í áramótaskaupið og heimsókn stórfjölskyldunnar þannig að í síðustu viku ákveð ég að prófa að hringja í Símann og freista þess að fá tæknimann, þann þriðja til að kanna hvort ekki megi laga útsendingu sjónvarps Símanns.

Og þá kemur lokakaflinn að sinni og er málið búið að vera í gangi síðan í apríl.

Silkimjúkur úlfurinn nýbúinn að borða krít svarar í símann hjá Símanum og lofar öllu fögru. "Við sendum beiðni til tæknideildar og þeir hafa samband við þig og laga þetta". "Hversu langan tíma heldur þú að það taki?" spyr ég. "Það verður innan þriggja daga" var svarað.

Síðan eru næstum því liðnar tvær vikur og ekkert hefur heyrst frá Símanum.

Það skyldi þó ekki ganga einhver bráðdrepandi farsótt innan Símanns sem virkar þannig að fólk deyr umvörpum eftir að það er búið að tala við mig. 

Þannig að það er spurning hvort að Síminn ætti ekki bara að fara að halda sína eigin síðustu kvöldmáltíð og hætta síðan þessu öllu saman.

Annars beini ég því til þeirra Símamanna ef einhver er þarna enn á lífi og hefur einhvern lágmarksvilja til að aðstoða mig með Sjónvarp Símanns þá er netfangið mitt johannbjo@gmail.com og síminn minn er 8449211.

Með símakveðju

JB

 


Mátti hvorki kaupa nýjar né notaðar bækur. Frétt blaðsins af ævintýrinu um Office one lagfærð

Á bls. 11 í blaðinu í dag er frétt um ævintýri mín í Office one sem rakin eru í færslu dagsettri 5. september s.l. Í blaðinu segir svo í fyrirsögn fréttarinnar: "Mátti ekki kaupa tíu notaðar frönskubækur".

Rétt er að bæta aðeins við frétt blaðsins að ég mátti hvorki kaupa notaðar bækur né nýjar. En eftir að mér hafði verið neitað um kaup á 10 bókum spurði ég sérstaklega hvort það skipti máli hvort keyptar væru notaðar bækur eða nýjar og var svarið hjá starfsmanna að það skipti engu máli.Ég ætlaði nefnilega bara að kaupa þá nýjar bækur ef það hefði mátt.

Ég vildi bara koma þessu á hreint að málið snýst ekki aðeins um notaðar bækur heldur allar bækur.

Svo er bara að muna eftir að kynna sig í hvert sinn sem maður fer inn í Office one sbr. ósk verslunarstjórans sem orðar þetta óborganlega í blaðinu í dag: "...hefði Jóhann kynnt sig strax við komuna í búðina hefði aldrei orðið nein rekistefna út af innkaupunum."

Núna er bara að æfa sig áður en maður fer næst í Office one: "Góðan dag ég heiti Jóhann og ég er kennari, hér hefur þú uppáskrifað vottorð frá skóla um að þar starfa ég í 100% starfi með mynd og ég ætla að kaupa tvo blýanta."

Gerum skemmtilega heimspekitilraun út úr þessu og fjölmennumí Office one og kynnum okkur öll við komuna og segjum hvað við ætlum að kaupa. Áfram nú, gerum lífið skemmtilegra.

JB (bókadólgurinn eins og vinnufélagar mínir hafa kallað mig í dag)

 

 


Fyrst er það Office one superstore og síðan Síminn. Fylgist með frá byrjun.

Færsla mín hér á undan um búðina Office one superstore sem selur vörur sem ekki má kaupa hefur fengið mikla athygli og umræðu. En sem áhugamaður um neytendamál þá er þetta ekki eina fyrirtækið sem kemur vægast sagt undarlega fram við viðskiptavini sína. Ég hef verið að reyna að eiga einhver samskipti við Símann síðan í apríl með vægast sagt dapurlegum árangri. Sú raunasaga gæti komið út í mörgum bindum og er að mörgu leyti mun skrautlegri en sérviskulegar móttökur Office one superstore.

Ég reikna jafnvel með að segja ykkur söguna af Símanum mjög fljótlega (nema Síminn hafi samband og kippi málunum í lag og sannfæri mig um að birta ekki söguna).

Það er gaman að þessum neytendamálum.

JB


Hvaða búð er það sem selur hluti en samt má ekki kaupa þá?

Neytendamál eru áhugaverð. Hér kemur smá um neytendamál.

Ég fór í Office one superstore og ætlaði að kaupa tíu eintök af frönskukennskubókinni Cafe Creme til þess að nota í Réttarholtsskóla. Eins og gengur gekk ég inn í verslunina og náði í eintökin tíu. Ég byrjaði á því að velja notaðar bækur sem voru vel brúklegar, enda ódýrari og svo nýjar þar á eftir.

Þegar kom að því að greiða bækurnar var ég stoppaður af. Ungur maður gerði sig líklegan til þess að fara að leggja saman kostnaðinn þegar ung afgreiðslustúlka sem greinilega var með vakandi augu yfir öllu sá hvað í ósköpunum gekk á. Aha hugsaði hún, þarna er einhver sem ætlar að kaupa tíu stykki af sömu vörunni. Enda sagði hún án allra málalenginga að það mætti ekki kaupa svona margar bækur.

Ég var af einhverjum ástæðum ekkert í neitt sérstaklega góðu skapi og var því alveg til í smá þras þannig að í stað þess að biðjast afsökunar á þessari frekju í mér spurði hvort bækurnar væru ekki til sölu. Jú jú þær voru alveg til sölu. Þið hljótið að vera að grínast svaraði ég og bætti við, eruð þið með falda myndavél hérna inni

Farðu og spurðu Magga sagði stúlkan við samstafsmann sinn og svo sagði hún við mig að Maggi yrði spurður sem er rekstarstjórinn.

Síðan leið og beið og ég var um það bil farinn að taka þá ákvörðun að gefast upp þegar ég hitti kunningja minn sem fékk að heyra raunasögu mína. Já sagði hann, þetta er bara eins og þegar sykurinn var skammtaður vegna þess að menn voru svo hræddir um að einhverjir færu að brugga. Jú ætli ég gæti ekki framið annan eins glæp með þessum bókum.

Síðan kom ungi afgreiðslumaðurinn aftur með nýjustu fréttir af Magga verslunarstjóra sem einhversstaðar var falinn á bakvið reglustikur og stílabækur en sást hvergi sjálfur. Maggi hafði gefið þá skipun að ég mætti kaupa tvær bækur en ekki fleiri.

Ég varð undrandi og útskýrði mál mitt á þann veg að ég þyrfti fleiri en tvær bækur þar sem ég væri að kaupa þetta fyrir skóla. Hvaða skóla var þá spurt og var ekki laust við að það mætti heyra yfirheirslutón í röddinni. Réttarholtsskóla svaraði ég. Heyrðu þá verðum við að spyrja Magga var svarað.

Já já svaraði ég, ég ætla að sleppa þessu en þið skuluð endilega fara að spjalla enn frekar við Magga, ég ætla hinsvegar að fara í Griffil og kaupa bækurnar þar. Bless.

Síðan skokkaði ég yfir í Griffil og vatt mér í hillurnar og valdi 10 bækur, sex notaðar og fjórar nýjar, fór að afgreiðsluborðinu, greiddi, fékk nótu og poka, þakkaði fyrir mig og hélt heim á leið. Allir ánægðir með þau viðskipti.

Á meðan híma bækurnar í Office one superstore enn í hillunum, væntanlega sorgmæddar yfir að verða engum að gagni í nánustu framtíð.

En nemendur mínir verða án efa glaðir þegar ég kem færandi hendi með kennslubækurnar góðu.

JB


Getur einhver sagt það kinnroðalaust að það sé 9 ára barni fyrir bestu að fæða barn?

Hörmulegar fregnir berast nú frá Nigaragua  af 9 ára gamalli stúlku sem var nauðgað og er nú komin fimm mánuði á leið. Fóstureyðingar eru með öllu bannaðar í Nigaragúa og kemur það ekki á óvart að kaþólsku "kærleikspostularnir" ráða þar öllu þegar að fóstureyðingum kemur. Réttleysi fólks til þess að hafa einhver áhrif á eigið líf er þarna algjört þar sem kirkjan hefur of mikil áhrif og hefur lagst alfarið gegn fóstureyðingum.

Ég er svo lánsamur að þekkja mjög vel til kaþólskrar trúar og þeirra lífsgilda sem hún heldur fram. Ég var í ár á sínum tíma skiptinemi á heimili strangtúaðra kaþólikka og gekk í klausturskóla. Og á háskólaárunum stundaði ég nám við einn stærsta kaþólska háskóla heims, Katholieke universiteit Leuven í Belgíu.

Og því miður verð ég að segja það að þrátt fyrir að hafa kynnst mörgum yndislegum kaþólikkum er reynsla mín sú að það hugarfar sem ríkir hjá mjög mörgum þeirra afskaplega sjúkt, eins og best kemur í ljós varðandi afstöðun til barnsins í Nigaragúa. Fyrir utan það að hafa á köflum mjög mannfjandsamlega afstöðu til lífsins þá eru þeir margir hverjir í því að blekkja sjálfa sig og aðra. Kaþólskir prestar þykjast lifa skírlífi en svo er nú alls ekki alltaf. Margir þeirra búa í raun með konum sem þeir afneita þrátt fyrir allt alla ævi. Einnig eru þeir því miður þekktir fyrir að níðast kynferðislega á kórdrengjunum eins og fregnir frá Bandaríkjunum hafa ítrekað greint frá. Og svo má níu ára gamalt barn ekki vera barn lengur.

Og það hlýtur í framhaldi af þessari fregn einhver vinur kaþólikkanna í Nigaragúa að standa upp og reyna að sannfæra mig og aðra lesendur þessarar síður um að þegar upp sé staðið sé það best fyrir barnið að ganga með og ala barnið. Og ef það verði ekki gert mun barnið búa við ævarandi samviskubit og sektarkennd.

En áður en þið vinir kaþólikkanna gerið það skulið þið anda tíu sinnum inn um nefið og spyrja eftirfarandi spurninga:

1) Hvernig yrðu viðbrögð ykkar ef þið ættuð níu ára gamla dóttur í sömu sporum?

2) Getið þið hugsað til baka og velt því fyrir ykkur hvernig viðbrögð ykkar hefðu orðið ef eitthvað þessu líkt hefði hent ykkur 9 ára gömul?

Dæmið frá Nigaragúa sýnir okkur bara eitt að við hér uppi á Íslandi þurfum að standa vaktina og gæta þess að slík mannfjandsemi nái aldrei að þrífast hér á landi.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338415/4


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband