Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
2.9.2007 | 17:39
Börnin borga en fullorðnir fá frítt
Ég var á Ljósanótt, bæjarhátíð Reykjanesbæjar í gær. Prýðilega var staðið að flestum hlutum en eitt vakti athygli mína og er í sjálfu sér ekki ný saga hér á landi.
Það sem vekur athygli mína er þetta: Þar sem skemmtanir eins og 17. júní hátíðahöldin, Ljósanótt eða eitthvað annað er í gangi eru skemmtiatriðin sem höfða til fullorðan fólksins ávallt ókeypis en það sem hefur mest skemmtigildi fyrir börnin þarf að greiða fyrir dýrum dómi.
Fullorðnir geta því skemmt sér hömlulaust og þurfa ekki að greiða krónu fyrir að hlusta á Halla og Ladda og Ragga Bjarna og Ómar Ragnarsson og Magna og hvað þeir heita nú allir þessir útiskemmtanaskemmtikraftar en börnin sem kæra sig kollótt um slíkt gengi og vilja skemmta sér með einhverju hoppi þurfa að rækta með sér gríðarlegan sjálfsaga og velja og hafna og hafa hemil á löngunum sínum eða kannski í sumum tilvikum að neita sér um þá skemmtun sem þau helst kysu. (Það eru nefnilega ekki allir pabbar eða allar mömmur sem fá 50 ára verkamannalaun á mánuði eins og einn ágætur maður).
Þetta er bara súrt.
JB
31.8.2007 | 14:33
"Ég grét yfir að vera ekki guð"
Nú er bæjarhátíðin Ljósanótt hafin í Reykjanesbæ og margt á dagskrá. Ég vek athygli að á morgun laugardag kl. 15.00 verður sýnt brot úr óperu eftir Sigurð Sævarsson sem gerð er eftir sögu Sigurðar Nordal sem heitir Hel. Fyrir sýningu mun ég flytja stuttan pistil um heimspekina í sögunni Hel og tilvistarvanda Álfs frá Vindhæli sem er aðalpersóna sögunnar. Pistilinn kallast "Ég grét yfir að vera ekki guð".
Þessi uppákoma verður í Duushúsum, bíósal kl. 15.00.
JB
29.8.2007 | 20:55
Að kenna á konuna sína
Ég hef áhuga á því sem oft er kallað heimspeki hversdagsleikans. Það er að segja að velta upp heimspekilegum hliðum á hversdagslegum hlutum. Í því samhengi eru fjölmiðlar mikill fjársjóður og endalaus uppspretta pælinga.
Í dag hef ég verið alveg viðþolslaus og mjög utanvið mig vegna fyrirsaganar í blaðinu þar sem rætt er við Þorgrím Þráinsson. Þorgrímur er að vinna að bók um samskipti kynjanna og er ekkert nema gott um það að segja. Hinsvegar er fyrirsögn fréttarinnar þessi:
"Kennir karlmönnum á konuna sína"
Nú hef ég í allan dag verið að reyna að skilja þessa fyrirsögn og pælt og kafað og þvælt í eigin heilabúi. Spurningin er nefnilega sú hvort Þorgrímur er að kenna öðrum karlmönnum á konuna sína? Eða með öðrum orðum, eru aðrir karlmenn að læra á konuna hans Þorgríms? Kannski er þetta spurning um slakan málskilning hjá mér enda ætla ég að ráðfæra mig við einhvern íslenskukennara í Réttó á morgun og reyna að fá íslenskuna á hreint áður en ég held áfram að fílósófera með þessa kennslustund Þorgríms og konunnar umræddu.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.8.2007 | 10:35
Heimspeki fyrir alla
19.8.2007 | 11:48
Láttu fertugasta nemandann koma í bekkinn, við reddum þessu
Það var vissulega ánægjulegt að heyra að leikskólaráð borgarinnar hafi samþykkt tímabundið bætt kjör handa leikskólakennurum vegna manneklu og álags í því skyni að auka líkur á að fleiri veljist til starfa í leikskólunum.
Þegar ég las atvinnuauglýsingar dagblaðanna í morgun og sá að víða vantar fólk til starfa í grunnskólum varð mér hugsað til þess hvað menntaráð ætli sér að gera til þess að laða fólk að grunnskólunum. Ég held að ekkert verði gert. Og ástæðan er einföld.
Eins og margir vita sögðu leikskólarnir stopp síðasta vetur og sendu börn heim ef ekki var starfsfólk til þess að sinna þeim. Þetta kom sér að sjálfsögðu afskaplega illa við marga og því kom berlega í ljós að eitthvað varð að gera. Þetta gerist aldrei í grunnskólunum. Kemur það einhverntíman fyrir að börn í grunnskólum séu send heim vegna þess að starfsfólk vanti? Nei það gerist aldrei, en það sem gerist hinsvegar er að stjórnendur óska eftir því að starfsfólkið bæti við sig nemendum og auknu álagi og ég sé ekki fyrir mér að á því verði nokkur breyting.
Þarna liggur mikil ábyrgð á herðum skólastjórnenda hvernig þeir vinna úr starfsmannaeklu í skólunum. Hvort þeir sendi nemendur heim ef ekki hefur verið ráðið í störfin eða hvort þeir "píni" þá sem fyrir er til að auka við sig vinnu.
Og nú er ástæða til þess að spyrja hvor leiðin er líklegri til þess að koma skólastarfi í lag þegar til lengri tíma er litið?
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég hef ákveðið að hlaupa hálft maraþon á í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis. Í fyrra hljóp ég 10 km og nú er komið að því að bæta aðeins við vegalengdina.
Þegar ég frétti að mögulegt væri að hlaupa til styrktar einhverjum góðum aðilum þá var það aldrei spurning í mínum huga að velja ekkert góðgerðarfélag af listanum sem var í boði heldur styrkja bara Glitni sjálfan. Ég styrki því Glitni með því að Glitnir þarf ekki að borga neitt fyrir mitt hlaup heldur getur átt peninginn sjálfur.
Ástæðan er einföld. Glitnir sem og aðrir bankar landsins eru bara alls ekkert of feitir og þurfa svo sannarlega á stuðningi að halda. Það er nú ekki tekið út með sældinni að vera banki á Íslandi. Bankarnir hafa nú ekki getað borgað stjórnendum sínum neitt sérstök laun, bankarnir hafa gengið alltof langt í að viðhafa lág þjónustugjöld, bankarnir rukka sama sem engann fit kostnað (mig minnir að það heiti fit kostnaður ef maður fer óvart eða vísvitandi umfram á tékkareikningnum), lágir sem engir vextir eru ef maður fær lán í banka, bankarnir fara mjög sparlega með fjármuni þegar auglýsingakostnaður er annarsvegar og síðast en ekki síst hafa bankarnir þurft að leggja til heilmikið fjármagn til að berjast gegnt innrás græðgisvæðingarinnar í landið.
Svona mætti eflaust lengi telja upp ástæðu þess að íslenskir bankar eru æðislegir og fara rosalega vel með peninga og eru ekkert að græða of mikið. Þeir gera svo margt geggjað fyrir viðskiptavini sína. Það dapurlega í bankamálunum er hversu margir ljótir anarkistar reyna sí og æ að sverta þessar frábæru stofnanir. Eitt dæmi heryði ég um mann sem kom í útvarpið og sagist hafa þurft að borga 2700 kr fyrir að láta bankann sinn telja peninga barns nokkur úr sparibauk. Ég segi bara "kommon" þú þarna anarkisti, bankarnir eru nú ekkert svo feitir að þeir geti verið að telja upp úr einhverjum baukum ókeypis.
Svo hafa anarkistarnir líka haldið því fram á límmiðum hér og þar um bæinn að bönkunum sé alveg sama um mann. Ég meina "kommon" þið þarna ljótu anarkistar og bankahatarar. Ég get nú bara sagt ykkur hvað bankinn minn er æðislegur. Um síðustu jól sendi bankinn minn mér bréf og sagði mér að hafa ekki áhyggjur af jólaneyslunni minni því ég gæti bara fengið að borga þá neyslu niður á þremur árum. Mér finnst það æðislegt og borga einhverja smá vexti í slíkum tilvikum með glöðu geði.
Svo eru einhverir aðrir anarkistar (eða kommúnistar ég rugla þeim alltaf saman) sem eru fúlir og öfundsjúkir bara af því að bankarnir vilja ekki bæta kjör viðskiptavina sinna heldur frekar halda tónleika, hlaup og stórar veislur með Elton John og fleirum flottum gæjum hér heima og í útlöndum. En ég segi bara þessu ljóta fólki að hætta að vera svona hallærislegt því við viðskiptavinir bankanna fáum æðisleg kjör og geggjaða þjónustu og ég meinaða veit þetta fólk ekki hvað það er "kúl" að hlusta á Elton John.
Það er því ekki af ástæðulausu sem ég hleyp 21 km með bros á vör til styrktar Glitni hinum frábæra. Ég segi bara lengi lifi Glitnir og allir hinir frábæru bankarnir á Íslandi húrra húrra húrra.
Svo er bara að vona að ég komist í mark
JB
16.8.2007 | 14:36
Trúleysi og lýðréttindi
Ánægjulegt hefur verið að sjá hve barátta samkynhneigðra fyrir sjálfsögðum réttindum og jákvæðari viðhorfum hefur skilað góðum árangri á undanförnum árum. Yfir 50.000 manns tóku átt í gleðigöngunni í miðbæ Reykjavíkur í því skyni að styðja samkynhneigða. Vissulega hafa samkynhneigðir þurft að hafa fyrir því að ná þessum árangri og enn er ýmislegt óunnið.
Þegar við fögnum árangri eins hóps í baráttunni gegn fordómum og fyrir lýðréttindum ættum við að hafa hugfast að ekki njóta allir minnihlutahópar jafnmikillar velgengi og æskilegt væri. Einn er sá hópur hér á landi sem þarf að fá aukna viðurkenningu á tilveru sinni og það eru þeir sem eru trúlausir eða af öðrum ástæðum sjá ekki ástæðu til þess að tilheyra trúfélögum. Tæplega 8000 manns standa utan trúfélaga hér á landi en þrátt fyrir þennan fjölda er mismununin sem þetta fólk þarf að búa við með öllu ólíðandi. Þeim sem ekki tilheyra neinu trúfélagi er engu að síður gert að greiða svokallað sóknargjald" til Háskóla Íslands rétt eins og Háskólinn væri trúfélag. Ekki fær þessi hópur þó þá þjónustu frá H.Í. sem fólk sem tilheyrir trúfélögum fær hjá sínum söfnuðum.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur fólki sem stendur utan trúfélaga ekki gengið neitt í að fá félagsskap sinn skráðan í líkingu við önnur trúfélög hér á landi í því skyni að fá fjárhagslegan og lagalegan grunn til þess að geta þjónustað sitt fólk t.d. með sálgæslu, útfararþjónustu, giftingum o.s.frv. Slíkt hefur hins vegar verið við lýði í Noregi í 26 ár.
Ég tel að ein af ástæðum þess að svo vel hefur gengið í réttindabaráttu samkynhneigðra er jákvætt viðhorf margra kennara. Í námsefni sem kennt er í grunnskólum er farið jákvæðum orðum um samkynhneigð og margt hefur verið gert til þess að koma í veg fyrir fordóma gagnvart samkynhneigðum. Það sama er því miður ekki hægt að segja um þátt skólanna þegar kemur að viðhorfum gagnvart þeim sem aðhyllast engin trúarbrögð. Þar hefur grunnskólinn jafnvel farið fremstur í að ala á fordómum. Námsefni í trúarbragðafræði hefur ekki verið til þess fallið að auka á umburðarlyndi í garð trúlausra. Í kennslubókinni Maðurinn og trúin fá nemendur t.d. þá spurningu hvort þeir gætu ímyndað sér heiminn án trúarbragða. Ekki er það erfitt fyrir þá sem aðhyllast engin trúarbrögð en hvergi í bókinni er greint frá því að sá möguleiki sé fyrir hendi og því síður sagt frá því að hér á landi séu tæplega 8000 manns sem kjósa að standa utan trúfélaga.
Í ljósi bókarinnar í heild sinni túlka ég þessa spurningu höfundarins sem einhvers konar hæðni í garð þeirra sem ekki aðhyllast trúarbrögð. Afstaða alþingismanna hefur einnig verið leiðbeinandi í þessu máli þar sem þeir hafa ekki sýnt því nokkurn áhuga að rétta hlut fólks utan trúfélaga. Um leið og ég óska samkynhneigðum til hamingju með árangurinn í baráttunni fyrir almennum lýðréttindum, minni ég á að enn er á brattann að sækja í baráttunni fyrir því að fleiri fái notið viðurkenningar í íslensku samfélagi.
Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.
JB
15.8.2007 | 08:33
Hefði ekki verið nær að bíða með heræfingarnar þar til skólarnir hefjast? Eða orrustuþotur í eðlisfræðitíma
Ég var í Keflavík í gær þegar ég sá eina F-15 orrustuþotu æða í loftið á ógnarhraða. Ég hnippti í son minn 14 ára og sagði "sjáðu". "Hvað er þetta?" svaraði hann á móti. "Hvað er þetta?" hugsaði ég og ætlaði að fara að verða dálítið hneykslaður á því að drengurinn áttaði sig ekki á því að þetta er F-15. En þá fattaði ég sjálfur að auðvitað er hann ólíkt sjálfum mér ekki alinn upp í Keflavík á kaldastríðsárunum þar sem þoturnar flugu látlaust allann sólarhringinn yfir okkur með gríðarlega miklum látum sem við eiginlega hættum að taka eftir.
Þessi sýn minnti því óneitanlega á gömlu kaldastríðsdagana nema hvað nú eru Sovétmenn ekki til staðar og engin veit í raun hver ógnin er. Menn fljúga bara til þess að fljúga (og eyða peningum í leiðinni sem er nú sport út af fyrir sig). Gagnsleysi heræfinganna er svo mikið að ekki er einu sinni hægt að nota þær til kennslu grunnskólabarna. Þegar ég var sjálfur 13 ára árið 1979 þá var gagnsemi orrustuflugsins ekki aðeins bundið við að fæla ljóta rússa í burtu heldur einnig í stofu 13 í Barnaskólanum í Keflavík sem í dag heitir Myllubakkaskóli (ég hef aldrei kunnað við þetta nafn Myllubakaskóli).
Það var í eðlisfræðitíma þar sem við vorum að læra um hraða og hljóð. Ég veit ekki hvort kennarinn var búin að plana þessa kennslu lengi eða hvort honum datt þetta í hug sí svona en allavega skilaði kennslan sér svo vel að ég man þetta enn. Kennarinn var að útskýra tengsl hraðans við hljóðið og til að gera það á skiljanlegri hátt sendi hann bekkinn út í glugga. Ekki þurftum við að bíða lengi eftir að sjá þotu þjóta framhjá án þess að nokkuð heyrðist í henni. Stuttu síðar kom svo hljóðið. Svona fylgdumst við með þotufluginu okkur til nokkur gagns í þá daga og drógum þá ályktun að þegar þota fer svona hratt sem raun bar vitni fer hún á undan eigin hljóði.
En gagnsleysi heræfinganna nú er svo mikið að ekki einu sinni má nýta þær í skólastafi þar sem skólarnir hefjast ekki fyrr en eftir viku. Synd því þá hefði kannski mátt réttlæta kostnaðinn sem framlag til menntamála
JB
13.8.2007 | 13:07
Mótmælum heræfingum
Samtök hernaðarandstæðinga hafa skipulagt mótmæli gegn heræfingunum sem nú standa yfir. Á vef samtakanna www.fridur.is má lesa eftirfarandi frétt:
"Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla yfirstandandi heræfingum hér á landi og þeirri stefnu íslenskra ráðamanna að gera landið að æfingasvæði fyrir herlið NATO-þjóða.
Safnast verður saman við norska sendiráðið (við Fjólugötu), þriðjudaginn 14. ágúst kl. 17. Þaðan verður gengið að sendiráðum Bandaríkjanna, Danmerkur og loks numið staðar við Stjórnarráðið og húsráðendum á hverjum stað tjáð andstaða íslenskra friðarsinna. Hernaðarandstæðingar eru hvattir til að mæta."
9.8.2007 | 09:46
Heimspeki fyrir almenning
Af og til á undanförnum árum hef ég verið spurður að því hvar sækja megi námskeið í heimspeki fyrir fullorðna. Ekki hefur verið almennt boðið upp á slíkt en nú verður breyting á. Í gær skilaði ég inn námslýsingum á tveimur heimspekinámskeiðum sem Mímir ætlar að standa fyrir í október og nóvember á máudagskvöldum. Námskeiðin verða auglýst í lok mánaðarins og mun ég að sjálfsögðu einnig fjalla um þau hér á síðunni.
JB