Í dag ætla ég að skrifa um grasið græna, sólina gulu, lömbin hvítu og reyna að vera hvorki neikvæður né kaldhæðinn. Eða pínkumeira um neytendamál og hvassar tennur leppa fyrirtækjavaldsins

Ég fékk forvitnilegar athugasemdir við færslu mína sem birtist í gær. Ákveðins pirrings gætir vegna þess hversu óþekkur ég hef verið Símanum. Ég ætlaði nú að fara að láta þetta gott heita með Símann en fyrst ég fékk svona skemmtilegar athugasemdir get ég í stráksskap mínum ekki setið á mér og ég bara verð....

En byrjum á að kíkja á skrif "aðdáenda" minna við færslu gærdagsins:

 

"Þú verður að afsaka ruddaskapinn, en rosalega er þetta óáhugavert blogg hjá þér.

Nú ert þú þeirrar gæfu aðnjótandi að fá sumar færslurnar á blogginu þínu birtar á forsíðu mest lesna vefmiðils í landinu. Samt sem áður kýstu að tjá þig um það að SJÓNVARP SÍMANS HAFI BYRJAÐ AÐ VIRKA! Áður hefurðu meira að segja birt færslu um að sjónvarpið hafi verið í ólagi!

Hverjum er ekki sama um það hvort þú náir sjónvarpsútsendingum í stafrænum gæðum eða ekki? Ég biðst aftur forláts á þessum fádæma dónaskap í mér, en mér er hreinlega ofboðið þegar ég rek augun í svona tuð á forsíðu vefútgáfu Morgunblaðsins. Það sem enn verra er, er það að þú virðist eiga kóara sem nennir virkilega að taka þátt í þessu kjökri þínu, þ.e.a.s. hann Ævar hér fyrir ofan mig.

Gerðu það gerðu það gerðu það skrifaðu um eitthvað sem auðgar andann. Ég hreinlega nenni ekki að sitja undir sama hatti og þú og tuða yfir tuði í manni sem ég þekki alls ekki neitt. Æ, ég veit það ekki, þetta er óttalega súrt eitthvað.

Með vinsemd og virðingu,

Friðrik Stefánsson." 

Þetta var ein færsla og svo kemur hin og ekki síðri:

 

"Ég er hjartanlega sammála honum Friðrik. Hann Jóhann hefur einstakt tækifæri til að láta í sér heyra um málefni sem skipta fólk máli, en hann kýs að sólunda því tækifæri í að tala um það hvort hann nái sjónvarpsútsendingum eða ekki. Ég er ekki að mæla því í mót að menn tjái sig um hvað sem þeim sýnist á eigin vefsíðu, en þegar færslur eru birtar á forsíðu mest lesna vefmiðils á landinu, þá verður maður eiginlega að segja eitthvað sem skiptir máli.

Þetta er svipað og að eiga 10 milljónir á bankareikningi hjá Kaupþingi og taka þær allar út í 1 milljón af auðkennislyklum.

Sigrún Steingrímsdóttir"

Það verður ekki annað sagt en að afskaplega ánægjulegt er að heyra að sumir verða pirraðir á að lesa skrif mín. Það segir mér aðeins eitt að skrifin hafa tilætluð áhrif sem er að hreyfa við fólki og vekja til umhugsunar. Vissulega væri gaman að skrifa ávallt um grasið græna, sólina, lömbin og allt hitt sem er svo ánægjulegt í lífinu og skiptir svo miklu máli í lífinu og reyni ég að gera það af og til. En mikið andskoti væri nú síðan innihaldsrýr ef ég væri eingöngu að horfa á heiminn í endalausu bjartsýniskasti.

Ástæðan fyrir því að ég hef tekið þetta símamál sérstaklega vel fyrir að undanförnu er að hér er um mikið hagsmunamál neytenda að ræða. Og neytendamál eru jú kjaramál. Ég veit ekki hvort ergilegir lesendur síðunnar viti hvað neytendamál eru. Kannski er þeim Stefáni og Sigrúnu slétt sama og láta fólk og fyrirtæki vaða yfir sig endalaust, borga bara þegar þeim er sagt að borga og þegja bara þegar þeim er sagt að þegja. En það er því miður það sem alltof mörg fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu eru að reyna að gera.  Ef svo er þá er hlutskipti þeirra vægast sagt sorglegt.

Afstaða þeirra er svona dæmigerð fyrirtækjavaldsundirgefni sem felst í því að trúa blint á slepjulegar glansmyndir og auglýsingar fyrirtækjanna og skeyta í engu um kjaramál eða hagsmuni alþýðunnar. Það kæmi mér ekki á óvart að þau ættu einhverra hagsmuna að gæta, beinna eða óbeinna hjá Símanum en það er þeirra vandi. Við sem erum viðskiptavinir og neytendur eigum líka ákveðinna hagsmuna að gæta og þessir hagsmunir fara ekki alltaf saman.

En ég spyr hvað er er svona ómerkilegt og ómálefnalegt við að skrifa um kjara- og neytendamál. Það þykir kannski ekki í tísku hjá þeim sem vilja helst að fyrirtækin stjórni leynt og ljóst landinu öllu og skeyti hvorki um neytendur né verkalýð.

Mætti ég kannski gerast svo djarfur að biðju um aðeins minni froðu í athugasemdir mínar framvegis þó það ríki málfrelsi í landinu.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Jóhann!

Mér finnst ég eiginlega þurfa að stinga inn orði, þar sem ég hef fylgst dálítið með skrifum þínum. Ekki er ég þó alltaf sammála, en það rýrir ekki rétt þinn til að skrifa hvaðeina sem þér liggur á hjarta.

-og þar finnst mér hundurinn liggja grafinn. Margt býr jú í bloggheimum og svo misjöfn skrifin sem þau eru mörg. Margt gáfulegt flýtur með straumnum og einnig hitt sem síðra er. Mér finnst þó steininn taka úr þegar einstakir bloggarar taka upp á því að vilja ritstýra öðrum, eða hafa á einhvern hátt áhrif á það sem menn þeim óviðkomandi, skrifa á síður sínar. Mér vitanlega hefur Mbl. ekki sett neinn gæðakvarða á þau skrif sem á blogginu birtast, enda yrðu þá fáar athugasemdirnar ritaðar við einstakar fréttir, en í þeim skrifum má sannarlega finna misjöfn gæði - svo vægt sé orðað.

Ég er raunar sannfærður um að hvatningin er óþörf, en læt hana fljóta samt: Skrifaðu það sem þér liggur á hjarta í það og það sinnið. Til þess er bloggið.

Kv. Gunnar Th. (ég hirði ekki um að setja slóð á eigin vefsíðu í hausinn)

Gunnar Th. (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband