Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sendiboð djöfulsins

 Frá því að umræðan um trú og skólastarf hófst hefur nokkrum sinnum verið hringt í forystu Siðmenntar. Því miður hefur verið þónokkuð um hatursfull símtöl þar sem forystu félagsins eru ekki vandaðar kveðjurnar. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í nútímasamfélögum, sem maður hefði haldið að væru upplýst og lýðræðisleg ætti ekkert að vera sjálfsagðara en að skiptast á skoðunum um samfélagsmál og eðlilegt að ekki séu allir á sömu skoðun. En umburðarlyndið og viljinn til heiðarlegra skoðanaskipta er því miður takmarkaður. Og þegar umræðan fer á það plan að fólk fer að hringja með allskyns svívirðingar og jafnvel hótanir þá er manni ekki alveg sama. Í síðustu færslu hér á síðunni blandast ákveðin útlendingaandúð in í málið og síðasta uppákoman fólst í því að maður nokkur hringdi og öskraði og æpti, fór með trúarleg orð og sagði ítrekað Siðmennt vera sendiboð djöfulsins. Félagið hefur nú þurft að bregðast við með því að taka upp öll símtöl ef vera skyldi að svívirðingarnar yrðu að alvarlegum hótunum.

Sorglegt er ef fólk má ekki ræða umdeild samfélagsmál á Íslandi án þess að verða fyrir öðrum eins svívirðingum og jafnvel hótunum frá þeim sem eru ósammála.

JB

 


Snauti formaður Siðmenntar aftur til Ameríku

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur félögum í Siðmennt fjölgað um 10% undafarna daga. En ýmislegt fleira hefur gerst og er miður í okkar ágæta samfélagi. Félagi minn í stjórn Siðmenntar Sigurður Hólm lýsir á vefsíðu sinni www.skodun.is afstöðu konu nokkurrar sem skrifar undir nafni og sendi Siðmennt póst þar sem hún vill að formaður félagsins sem er bandarísk að uppruna snauti til Ameríku. Kíkið endilega á síðu Sigurðar og sjáið póstinn frá konunni, en af tillitsemi við hana er nafn hennar ekki birt.

JB


Drengurinn í bleika kjólnum

Nokkuð hefur verið rætt að undanförnu um hvaða litir hæfi nú börnunum best, blátt, bleikt, hvítt eða jafnvel einhverjir aðrir. Eftir að þessi umræða fór af stað rifjaðist upp fyrir mér atvik sem átti sér stað fyrir löngu síðan þegar sonur minn tók upp á því að klæðast bleikum kjól. En þannig atvikaðist það:

Við bjuggum í Belgíu á þeim tíma. Ég sat inni á baði í íbúðinni okkar og blés í flautuna mína fyrir son minn, þá tæplega þriggja ára sem lék sér á gólfinu (ástæðan fyrir því að við vorum inni á baði var sú að aðeins tveir ofnar voru í húsinu og á köldum dögum var hlítt í baðherbergin).

Skyndilega heyrist mikill hávaði og læti neðan úr ganginum og ég heyri strax að það er konan sem rekur saumastofuna De Knip á hæðinni fyrir neðan sem rekið hafði nefið inn í ganginn til okkar og var eitthvað að gala.  Þetta var lítil miðaldra kona, hjólbeinótt mjög og oftast óðamála en afar indæl.  Konan mín var þarna komin á vettvang og heyri ég hana svara saumakonunni hátt og snjallt á þessari líka fínu flæmsku svo eflaust mátti víða heyra:  "Maðurinn minn hugsar bara ekki!"  "Hvað voru þær að tala um mig?" hugsaði ég og dreif mig fram.  Málið var það að allir héldu að barnið væri inni á baðherbergi að hlusta á flautuleik föður sins þegar annað hafði heldur betur komið í ljós.  Án þess að ég hafi áttað mig á hafði drengurinn farið út úr baðherginu fram í stofuna og klætt sig í bleikan kjól sem móðir hans hafði keypt til þess að gefa lítilli stelpu í afmælisgjöf.  Því næst fór hann fram á gang og niður stigann og út á gangstétt.  Á gangstéttinni sem lá við mikla umferðargötu spókaði hann sig í bleika kjólnum og virtist vera afskaplega ánægður með sjálfan sig þar til saumakonan sá hann út um gluggann og dreif hann inn hið snarasta, enda lífshættulegt fyrir rúmlega tveggja ára barn að vera að leika sér við aðra eins umferðargötu.  Fyrir utan það að á þeim tíma voru barnsrán ekki óalgengur hlutur í Belgíu. 

Ef hægt er að segja að maður hafi einhverntíman sloppið með skrekkinn þá var það þarna og í ljósi þessarar reynslu mæli ég ekki með bleikum kjólum fyrir unga drengi.W00t

JB


Heiðri blaðamanna bjargað

Stjórnendur Morgunblaðsins og 24 stunda hafa í skrifum sínum að undanförnu gengið ansi langt í að gera félagsmönnum Siðmenntar upp skoðanir sem þeir ekki hafa. Þrátt fyrir að reynt hafi ítrekað að koma því á framfæri hver sjónarmið Siðmenntar eru þá hafa þeir því miður ekki haft nokkurn áhuga á að fara með rétt mál. Viljinn til rangfærslna er því miður svo sterkur á þessum bæjum að áhyggjuefni er. Áhyggjuefnið stafar fyrst og fremst af þeim völdum sem fjölmiðlar hafa og möguleikum á að móta afstöðu almennings.  Ef ritstjórar kæra sig ekki um að birta það sem satt er og rétt þá er illa komið. Almeningur hefur fullann rétt á að fá réttar upplýsingar frá fjölmiðlum. Þetta er réttlætismál í samfélagi sem vill kalla sig lýðræðislegt upplýsingasamfélag. Því miður hafa ritstjórnir Morgunblaðsins og 24 stunda ekki staðið undir þessari sjálfsögðu kröfu. Blaðamennska þeirra hefur verið í gamaldags sovét stíl þar sem ekki má segja sannleikann nema þegar hann hentar þeim sem valdið hefur. Þessir ágætu menn eiga alla mína samúð, þeim er vorkunn.

Sem betur fer eru fleiri fjölmiðlar heldur en blöðin MBL og 24 stundir. Björgvin Guðmundsson bjargaði heiðri blaðamannastéttarinnar í dag í leiðara sínum í Fréttablaðinu. Honum tókst ólíkt ritstjórum hinna blaðana að skilja og segja rétt frá sjónarmiðum Siðmenntar. Fyrir það ber að þakka.

Björgvin segir svo í leiðara sínum:

"Hvorki Siðmennt né aðrir, sem hafa bent á stöðu þjóðkirkjunnar innan menntastofnana, vilja trúna út. Trúarbragðafræðsla á rétt á sér í skólum eins og önnur fræðsla. Þannig lærum við að þekkja viðhorf og lífsgildi annarra. Dauðhreinsun á trúarbrögðunum er ekki lausnin. Þá er hægt að fræðast um jólin og páskana eins og hátíðir annarra trúarbragða en kristninnar.

Trúaruppeldi á hinsvegar að vera á höndum foreldra en ekki skólanna. Það á ekki að setja börn og forráðamenn þeirra í erfiða stöðu þegar velja skal hvort barnið taki þátt í trúarlegu starfi eða ekki. Utan skólatíma hafa foreldrar val um að sækja fjölbreytta dagskrá þjóðkirkjunnar með börnum sínum."

Hér er stefna Siðmenntar komin í grundvallaratriðum.

Það er bara vonandi að ristjórar Morgunblaðsins og 24 stunda megi framvegis bera þá gæfu að sjá hag í því að hafa það sem sannara reynist. Slíkt tókst leiðarahöfundi Fréttablaðsins og fór létt með.

JB


Menntamálaráðherra og fleiri ganga of langt í rangfærslum um afstöðu Siðmenntar

Það er ótrúlegt að horfa upp á háttsetta og virta einstaklinga fara ítrekað fram með ósannindi um Siðmennt. Í laugardagskvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi fullyrti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, að Siðmennt væri á móti trúarbragðafræði og kristinfræði og taldi félagið jafnvel vera á móti jóla- og páskafríum. Í Staksteinum Morgunblaðsins, sunnudaginn 2. desember, heldur nafnlaus ritstjórn blaðsins hinu sama fram.
Þetta er allt rangt eins og margoft hefur komið skýrt fram í málflutningi Siðmenntar.

Þessar ranghugmyndir um stefnu Siðmenntar, sem andstæðingar félagsins setja reglulega fram, hafa margoft verið leiðréttar. Margoft! Stjórn Siðmenntar hefur fundað oftar en einu sinni í Menntamálaráðuneytinu og ég bara hélt að sjónarmið félagsins hefðu komist til skila þar á bæ. Siðmennt hefur aldrei verið á móti kristinfræðikennslu í skólum, Siðmennt er ekki á móti litlu jólunum, jólaleyfum, né páskaleyfum. En stundum er erfitt að ræða við fólk sem vísvitandi vill koma af stað ágreiningi og leiðindum eins og blaðamenn 24 stunda, Staksteinahöfundur Morgunblaðsins, biskup Íslands og nú síðast Menntamálaráðherra. Það er forkastanlegt að virtir aðilar í samfélaginu geti leyft sér að haga sér með þeim hætti sem áðurnefndir aðilar hafa gert. Að gera Siðmennt og félagsmönnum þess upp skoðanir sem ekki eiga við rök að styðjast og birta opinberlega er siðleysið upp málað. Það er spurning hvort slíkt varði við lög?

Þeir lesendur sem kæra sig um að kynna sér sjónarmið Siðmenntar til mótvægis við lygavefinn sem farinn er af stað bendi ég á eftirfarandi: 

Satt og logið um stefnu Siðmenntar
http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php

Einnig skýrði Matthías Ásgeirsson sjónarmið Siðmenntar ágætlega í viðtali í Silfri Egils í dag:

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4366855

Að lokum er vert að benda þeim sem tjá sig vilja um sjónarmið Siðmenntar að hafa þá reglu gagnrýnnar hugsunar að leiðarljósi að ekki er rétt að fullyrða nema allar staðreyndir málsins liggi fyrir og séu réttar. Ef öflun staðreynda er vandkvæðum bundin má ávallt hafa samband við stjórnarmenn Siðmennt. Nánari upplýsingar má finna á vef félagsins http://sidmennt.is

JB


Vellíðanasamfélagið og Breiðavíkurdrengirnir

Um þessar mundir eru barnaverndarlög á Íslandi 75 ára. Af því tilefni hefur tímamótanna verið minnst í dag og í gær með vandaðri dagskrá. Í dag fór ég í Háskólabíó þar sem dágskráin var á þá leið að myndin Syndir feðranna var sýnd og að henni lokinni fóru fram umræður þar sem þátttakendur voru fyrrverandi félagsmálastjóri, fyrrverandi forstöðumaður heimilisins að Breiðavík, tveir fyrrverandi vistmenn og fórnarlömb ofbeldis í Breiðavík, forstjóri barnaverndarstofu og leikstjóri myndarinnar Syndir feðranna. Kannski vita það ekki allir en Syndir feðranna segir frá þeirri ófögru reynslu sem drengirnir sem vistaðir voru í Breiðavík upplifðu. Alls voru þeir 128 talsins og er það sláandi að einn fjórði þeirra er nú látinn.  

Þetta var góð dagskrá en erfið. Þarna var allnokkur hópur Breiðavíkurdrengja og tóku sumir til máls og var það á stundum átakanlegt að hlýða á þá mannvonsku sem þeir máttu þola sem börn. Aðstandendum myndarinnar ber að þakka það framtak að draga málið fram með jafn vönduðum hætti og raun  ber vitni. Það var hinsvegar sláandi þegar leikstjóri myndarinnar Ari Alexander upplýsti það að aðsóknin að henni  hafi verið dræm. Alltof fáir hafa lagt leið sína í bíó til að sjá hana.

Ég get ekki að því gert en eftir að hafa heyrt leikstjórann segja frá þessari dræmu aðsókn þá varð mér hugsað til þess að þjóðin vill víst frekar bíða tímunum saman eftir að komast í nýjar verslanir eins og Tojsarus og djustforkids heldur en að mæta í bíó, horfast í augu við miklar hörmungar íslandssögunnar og sýna drengjunum stuðning með mætingu sinni.

Þetta þarf víst ekki að koma á óvart. Hafa ekki einhverjir sálfræðingar skilgreint manneskjuna sem vellíðanadýr sem forðast sem mest það sem kann að valda óþægindum, hvort sem það er líkamlegum eða sálrænum? Í ljósi þess er kannski ekki að undra að fólk kýs frekar Tojsarus en Syndir feðranna? Satt en sorglegt og mætti ég óska þess að þar yrði breyting á.

Vek athygli á vefsíðu Breiðavíkursamtakanna:

http://breidavikursamtokin.is/

JB


Hvað á þá eiginlega að gera við kennara sem ekki ástundar kristilegt siðgæði í skólanum?

Margir hafa farið á taugum að undanförnum vegna þess eins að opinskátt hefur verið rætt um skóla-og trúmál. Blaðið 24 stundir hefur farið þar fremst í flokki með því að fullyrða m.a. í útvarpsauglýsingu þar sem blaðið var auglýst að Siðmennt vildi afnema litlu jólin. Í kjölfarið hefur víða blóðþrýstingur hækkað og biskupinn þurft að grípa til orða eins og "hatrömm" þegar rætt er um Siðmennt. 24 stundir láta svo líta út sem allir séu hræddir við að þurfa að fara í fermingarferðalög á laugardegi og sunnudegi. Blaðið er einnig skíthrætt um að nú komi Nýja testamentið ekki sjálfkrafa ofan í skólatöskur barnanna og ritstjórinn sjálfur er skíthræddur um að minnihlutinn fari að kúga og pína hann og aðra þá sem tilheyra meirihlutanum kristna. Ekki má nú heldur gleyma þeim ótuktarskap einstaka leikskóla að nenna ekki að fá til sín vælandi klerka í tíma og ótíma. Og ekki er allt búið enn því þegar lengra er lesið þá kemur rúsínan í pylsuendanum. Kolbrún nokkur blaðakona spyr rétt eins og hún væri Lísa litla í Undralandi hvort það geti virkilega verið að kærleiksboðskapur sé hættulegur. Og síðast en ekki síst ítrekar blaðið sem einu sinni hét blaðið en heitir núna 24 stundir að ráðherra hafi snúist frá tímabundinni (trú)villu sinni og hafi bara verið að djóka með kristnina og fermingarferðalögin. En hvort þetta með að skólinn skuli starfa í anda kristilegs siðgæðis er svo enn að þvælast fyrir fólki, hvað svo sem verður. Enda biskupinn nokkuð "hatrammur" í málinu og vill kristilegt siðgæði inn en út með svona orðalag eins og skólinn skuli starfa í anda umburðarlyndis, jafnréttis, lýðræðislegs samstarfs, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi svo vitnað sé í nýja frumvarpið.

Það er ekki hægt að segja annað en að það sé reglulega gaman þegar málin eru rædd hreint út. Ég er samt dálítið spældur með blaðakonuna Björgu Evu sem hefur verið að reyna ð koma því inn hjá landanum að Siðmennt sé á móti litlu jólunum. Það er félagið nefnilega alls ekki. Jólin og þar af leiðandi litlu jólin eru nú einu sinni upphaflega heiðin hátið þar sem ætlunin er að fagna því að daginn er tekið að lengja á ný. Slíku má eðlilega fagna með skreytingum, jólakortum og kveðjum, góðgæti og jólasveinum, músík og leikritum en ég held að það verði svo sem engum meint af því að slaka aðeins á helgislepjunni sem lengi hefur fylgt Jesú litla á þessum árstíma sem svo fæddist ekki einu sinni í desember!

Eins og allir vita hefur það verið bundið í lög í áratugi að í skólanum skuli kristilegt siðgæði vera upphaf alls og endir. Nú verð ég að gera smá játningu fyrir ykkur ágætu lesendur en ég hef kennt í grunnskóla í bráðum sjö ár og hef svo sannarlega lagt mig fram við að viðhafa ekki kristilegt siðgæði í störfum mínum. Ég hef meira að segja kennt siðfræði og lagt mig fram við að kenna saklausum börnunum ókristilegt siðgæði. Ja mikið hlýt ég að vera vondur maður og lögbrjótur í þokkabót. Ætti ég ekki skilið refsingu (guðs?) fyrir uppátækið?

En hvernig er þetta ókristilega siðgæði frábrugðið hinu kristilega? Jú einfalt dæmi: Vissulega kenni ég börnunum að rangt sé að stela nema brýna nauðsyn beri til, rangt sé að vera óheiðarlegur og ljúga nema brýna nauðsyn beri til og mikilvægt sé að setja sig í spor annarra osfrv. Siðfræðileg rök mín fyrir þessari góðu breytni eru bygð á mikilvægi þess að hér ríki gott samfélagi og að það sé hagur allra að allir breyti vel gagnvart hverjum öðrum því þá líði okkur miklu betur í heildina.

En hvað er þá svona smart við kristilega siðgæðið sem ég hef ekki ástundað með börnunum og sumir eru svo æstir í? Jú ef ég kenndi kristilegt siðgæði þá myndi ég líka kenna börnunum að rangt væri að stela og ljúga og vera vondur. En sem kristilegur siðgæðispostuli myndi ég segja börnunum að það væri rangt vegna þess að guð segir það. Kristilega siðgæðið er nefnilega bara spurning um að hlýða guði en ekki að sýna fram á mikilvægi þess að vera góður fyrir mannlífið í samfélaginu sem við búum í.

Þannig að nú er bara að vona að ritstjóri 24 stunda og blaðakonurnar Kolbrún og Björg Eva fari og auglýsi blaðið með upphrópunum um kennarann sem ástundar ókristilegt siðgæði með börnunum, það myndi ábyggilega selja líkt og Litlu jólin og Siðmennt.

Góðar stundir

JB  


Tatjana Latinovic fékk húmanistaviðurkenningu Siðmenntar fyrir störf að mannúðar- og mannréttindamálum

Í dag veitti Siðmennt í þriðja skipti húmanistaverðlaun sín sem veitt eru fyrir störf að mannréttinda - og mannúðarmálum. Fyrir tveimur árum hlutu Samtökin 78 viðurkenningu fyrir störf að réttindamálum samkynhneigðra og á síðasta ári hlaut Ragnar Aðalsteinsson lögmaður viðurkenninguna fyrir störf að mannréttindamálum. Í ár ákváðum við í stjórn Siðmenntar að veita Tatjönu Latinovic árlega húmanistaviðurkenningu fyrir störf sín að mannúðar- og mannréttindamálum.

Tatjana Latinovic er vel að þessari viðurkenningu komin þar sem hún hefur í mörg ár starfað að mannúðar - og mannréttindamálum t.d. sem formaður í stjórn félags kvenna af erlendum uppruna, í stjórn Kvennaathvarfsins og í stjórn Alþjóðahúss. Einnig hefur hún unnið að málefnum flóttamanna hér á landi. Hún vann einnig á vegum Rauða krossins á stríðssvæðum í Bosníu.

Athöfnin í dag sem haldin var Tatjönu til heiðurs á Kaffi Reykjavík var falleg. Formaður Siðmenntar Hope Knútsson flutti stutt ávarp og afhenti Tatjönu viðurkenninguna og tvær bókagjafir og Hörður Torfason flutti tvö lög. Tatjana er svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin.

Til hamingju Tatjana Latinovic.

Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir sem hafa lagt talsvert af mörkum í þágu mannréttinda á Íslandi eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna. Stefna húmanismans birtist m.a. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna en í stefnuskrá Siðmenntar segir m.a.:

Siðmennt reynir að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.

 JB

 


mbl.is Tatjana Latinovic fékk húmanistaviðurkenningu Siðmenntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúin, menningin og kirkjan

 Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu í dag þar sem Gunnari Jóhannessyni sóknarpresti er svarað:

Eftir að Siðmennt stóð fyrir veraldlegri athöfn fyrir brúðhjón í Fríkirkjunni í Reykjavík hefur áhugi á veraldlegum athöfnum aukist.

Margir hafa lýst ánægju sinni með framtak Siðmenntar sem mun framvegis bjóða upp á aðrar veraldegar athafnir en fermingar, en það hefur félagið gert lengi. Siðmennt hefur þegar staðið einu sinni að athöfn fyrir brúðhjón og má geta þess að önnur sambærileg athöfn hefur þegar verið ákveðin. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð hafa ekki allir verið sáttir og má þar nefna sóknarprestinn Gunnar Jóhannesson. Telur hann rangt að athafnir og uppákomur sem ekki teljast trúarlegar eigi sér stað í kirkju.

Ræðir hann sérstaklega umrædda athöfn sem Siðmennt hélt í Fríkirkjunni.
Með afstöðu sinni boðar Gunnar stefnubreytingu varðandi nýtingu kirkjuhúsnæðis. Sumir prestar hafa verið reiðubúnir að gifta fólk veraldlegri giftingu ef það kýs svo. Formaður Siðmenntar giftist t.d. veraldlega í Dómkirkjunni í Reykjavík fyrir löngu síðan af þáverandi presti kirkjunnar, sem varð við óskum um veraldlega athöfn. Gunnar fær mann til að velta því fyrir sér hvort Þjóðkirkjan sé að loka dyrum sínum fyrir öllum þeim menningarviðburðum sem ekki teljast beinlínis trúarlegir.

Sjálfur hef ég margoft mætt á atburði í kirkjum sem hafa ekkert með trú sem slíka að gera. Í kirkjum hef ég séð leikrit, farið á tónleika og tvisvar sinnum hef ég haldið heimspekifyrirlestra, annar var meira að segja um efahyggju. Enginn hefur haft út á það að setja. Þvert á móti hafa slíkar uppákomur talist jákvætt innlegg í menningarlíf landsmanna. En þegar fólk sem hefur gift sig vill opinbera veraldlegt hjónaband sitt fyrir vinum sínum í kirkju vegna aðstöðunnar sem þar er fyrir hendi þá boðar Gunnar Jóhannesson, fyrir hönd kirkjunnar stefnubreytingu. Nú á að úthýsa öllum viðburðum úr kirkjunum sem ekki lofsyngja guð. Það eru stóru fréttirnar sem boðaðar eru.

Siðmennt mun hins vegar halda áfram að bjóða upp á veraldlegar athafnir fyrir fólk sem vill halda upp á stóru stundirnar í lífi sínu. Í nágrannalöndunum hafa slíkar athafnir tíðkast í áratugi.

JB


Rök og rifrildi. Aðeins meira um rökræður, kappræður, Kastljósið að ógleymdum Sókratesi

Nokkrir einstaklingar hafa haft samband við mig vegna færslunnar sem birtist hér á undan. Hafa skoðanir verið skiptar um hana eins og eðlilegt má teljast. Hafa sumir tekið undir sjónarmið mín en aðrir segja að ég hafi verið ósanngjarn og jafnvel meiðandi í ummælum mínum. Slíkt var ekki ætlunin og ef svo reynist biðst ég afsökunar. Einn ágætur gagnrýnandi minn taldi það grín að ég skyldi hafa boðið Sókratesi að taka þátt í pistli mínum, en svo var alls ekki. Sókrates gegnir nefnilega lykilhlutverki í afstöðu minni til rökræðunnar.

Ég hef lengi haft áhuga á pólitískum umræðum í fjölmiðlum en ég hef lengi verið á þeirri skoðun að of oft skortir á að telja megi hana hafa annan tilgang en skemmtigildi. Þegar hasarinn verður mikill, frammíköllin, æsingurinn og rifrildið verða margir ansi kátir. Ég hef stundum haft þann grun að sumir þátttastjórnendur geri út á hasarinn í stað yfirvegaðrar málefnalegrar umræðu. Ef maður ætlar sér að vera yfirvegaður í samræðum þá er maður að taka á viðmælendum með silkihönskum er stundum sagt. En misskilningurinn er sá að það þarf ekki að hafa blóðþrýstinginn í botni til þess að taka megi á viðmælendunum af hörku. Og hér kemur samræðu- og spurningatækni Sókratesar til sögunnar. Yfirvegaður var hann karlinn en mjög beittur, enda náði hann árangri í rökræðum sínum. Hversvegna má ekki gera meira af því að rökræða þjóðmálin í stað endalausrar kappræðu og æsings?

Því miður virðast margir ekki gera sér grein á þeim mun sem er á kappræðu annarsvegar og rökræðu hinsvegar. Það kappræða bara allir, enda ekkert skrítið því það er eitthvað sem við höfum alist upp við. Ef ágreiningsmál eru rædd í skólum er kapprætt, þú átt að vinna andmælanda þinn en ekki komast að kjarna málsins. Ef ágreiningsmál eru rædd í fjölmiðlum er kapprætt, þú mátt ekki sýna nein merki efasemda eða umhugsunar, kaffærðu viðmælanda þinn og þú sigrar ef þú hefur hærra. Þannig alast börnin upp við samræðuhefð kappræðunnar.

Ef við færum að rökræða meira fengjum við meira svigrúm til að tjá okkur, við fengjum frekara tækifæri til þess að komast að því sem er kjarni málsins hverju sinni, við myndum ekki líta á andmælanda okkar sem "óvin"  heldur er rökræðan ákveðið tæki til þess að komast að betri og réttari niðurstöðum í því máli sem um er rætt hverju sinni. Á meðan kappræðan krefst þess að gripið sé mikið frammí, krefst upphrópana og sleggjudóma krefst rökræðan góðra raka. Og síðast en ekki síst í rökræðunni leyfist sá "skelfilegi glæpur" að hugsa málið, efast og jafnvel skipta um skoðun.

En í fjölmiðlunum verður væntanlega seint rökrætt. Hversvegna? Nú eins og fjölmiðlamenn segja svo oft: "tíminn er alveg að hlaupa frá okkur." Enginn má vera að neinu í fjölmiðlum nema helst öskra og æpa í stuttan tíma.

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband