15.2.2007 | 20:22
Ef maður skuldar þá er maður góður viðskiptavinur en ef ekki þá getur maður étið það sem úti frýs
Umræðan í dag sem þau Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson hafa haldið upp fyrir hönd almennings með gagnrýni á græðgisvæðingu bankanna fékk mig til þess að rifja upp póst sem ég fékk nýverið. Það var kort frá fjölskylduþjónustu banka nokkurs sem ég hef átt viðskipti við í áratugi. Bankinn var bara að láta mig vita að ég ætti ekki rétt á neinum glaðningi frá þjónustunni s.s. í formi endurgreiðslna á debetkortafærslun né öðru þar sem ég hefði ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett eru af hálfu bankans.
Þetta koma mér að sjálfsögðu ekkert sérstaklega á óvart og þó. Ég fékk svo "gamaldags" uppeldi í peningamálum að mér var kennt að skulda helst aldrei neinum neitt, kaupa bara það sem ég ætti fyrir og ef ég ætlaði að kaupa eitthvað dýrt að leggja þá fyrir þar til ég hefði safnað fyrir því sem ég vildi kaupa. Að sjálfsögðu var lögð rík áhersla á að greiða alla reikninga á tilsettum tíma. Þetta hef ég gert alla ævi og einu skuldirnar sem ég hef átt er af íbúð og námslán.
En svona viðskiptavinir sem haga sér eins og ég eru greinilega slæmir viðskiptavinir að mati bankans míns, enda eins og fyrr segir fæ ég enga umbun fyrir viðskipti mín. Málið er að bankinn getur lítið sem ekkert grætt á mér. Ég var líka ekki titlaður "betri viðskiptavinur" í þessu bréfi. En mjög oft fæ ég samt bréf frá bankanum þar sem ég er titlaður "betri viðskiptavinur" en ég hef tekið eftir því að sá titill á eingöngu við þegar bankinn er að bjóða mér skuldir. Semsagt, ef maður vill skulda þá er maður betri viðskiptavinur en ef maður vill hvorki skuldir né yfirdrátt þá er maður eiginlega bara einhverskonar olnbogabarn í íslenska bankakerfinu.
Hvernig væri nú eins og Ögmundur hvatti til í Kastljósinu í kvöld að bankarnir færu að skoða sjálfa sig með augum almennings? Þeir gætu orðið margs vísari um eigið "ágæti".
JB
Manni finnst nú eins og það sé að bera í bakkafullann lækinn að fara að nefna bullið í Byrginu eina ferðina enn. En reyndin er nú sú að það virðist ekkert lát vera á subbuganginum sem fram er að koma og í ljósi aðstæðna þá get ég ekki komist hjá að nefna örfá atriði.
Fram hefur komið að starfsmenn misnotuðu aðstöðu sína grimmt og stunduðu kynferðislega misbeitingu af miklu kappi með vistmönnum Byrgisins. Það er eitt. Annað er að þeim konum sem urðu barnshafandi var bannað að fara í fóstureyðingu ef þær svo vildu, enda talið brjóta gegn kærleiksboðskap trúarinnar sem þarna átti að vera unnið eftir. Maður deyðir ekki fóstur segja þeir en hinsvegar má maður samkvæmt öllu misnota skjólstæðinga kynferðislega.
Í þriðja lagi voru viðbrögð við þungunum þau að þau sem í hlut áttu urðu að trúlofa sig eða eins og segir orðrét í frétt DV: "Yfirleitt var fólk látið trúlofa sig þegar þetta gerðist (þungun innsk JB) því annað væri synd, það væri synd að búa saman ólofuð. Þá var fólki skaffaður bústaður eða það gat búið saman."
Ég tek eftir orðalaginu hér að sögnin að láta er notuð í samhenginu að fólk var látið búa saman. Skyldi það hafa verið spurt? Ég bara spyr í ljósi nauðungarhjónabanda sem tíðkast víst víðsvegar um heiminn.
Mál þetta er eiginlega of fjarstæðukennt allt saman til þess að ég geti áttað mig á þessu og eru hugmyndirnar um syndina ekki til þess að auðvelda skilning minn á því. En ætli þetta mál sé ekki bara til vitnis um það að vitsmunalíf manneskjunnar er ekki eins langt komið og við höfum viljað halda fram ? Hver veit?
JB
8.2.2007 | 23:18
Heimsmet í flokkaflakki?
Nú er það nýjasta í pólitíkinni að Kristinn H. Gunnarsson er kominn í Frjálslyndaflokkinn. Er hann semsagt búinn að prófa Alþýðubandalagið og svo er hann búinn að prófa Framsóknarflokkin og núna er það Frjálslyndiflokkurinn. Þá á hann bara eftir að prófa Samfylkingu, Sjálfstæðisflokk og svo Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Ef við byggjum við tveggja flokka kerfi væri hann kominn til baka aftur til þess flokks sem hann byrjaði í, en hringurinn hér á landi er öllu lengri. Kannski er Kristinn búinn að setja heimsmet í flokkaflakki, hver veit. Og ef svo er þá bara til hamingju Kristinn.
Ég man þegar ég var unglingur í Keflavík fyrir mörgum árum og var að aðstoða við framboð Ólafs Ragnar til Alþingis fyrir Alþýðubandalagið. Þá var alloft skotið á Ólaf fyrir að vera flokkaflækingur þar sem hann hafði ekki alla sína tíð verið í sama flokknum. Ólafur svaraði því alltaf til að hann hefði nú ekki skipt um skoðanir, það væru hinsvegar flokkarnir sem hefði breyst og sjónarmið þau sem þar væru ríkjandi.
Ekki veit ég hvort þetta var að öllu leiti satt og rétt hjá Ólafi enda skiptir það kannski ekki öllu máli. Ég hef lengi kennt nemendum mínum í heimspeki það að ekki sé ástæða til þess að skammast sín fyrir það að skipta um skoðun svo fremi sem maður kemst að einhverju sem maður telur réttara og betra en maður taldi áður. Það er bara eðlilegur farvegur í sannleiksleitinni að ný þekking og viska taki við af þeirri sem eldri er.
En aftur að Kristni. Ekki veit ég hvernig hlutirnir snúa að hans heilabúi. En það er býsna grunsamlegt að hann skuli reyna fyrir sér í prófkjöri Framsóknarflokksins og þar sem niðurstaðan er honum ekki í hag fer hann í Frjálslyndaflokkinn. Mig grunar því að hér sé því fullkominn atvinnupólitíkus á ferðinni, þ.e.a.s. maður sem ekki kann orðið neitt annað en að vera pólitíkus eða vill ekki vera neitt annað og því eru stefnuskrár flokkanna aukaatriði en sætið aðalatriðið.
Kristinn er ekkert einn um að vekja þessar grunsemdir hjá mér. Það hafa fleiri gengið til liðs við Frjálslyndaflokkin sem ekki hafa náð frama innan sinna gömlu flokka og má þar t.d. nefna Valdimar Leó og ekki má gleyma að Frjálslyndiflokkurinn var upphaflega stofnaður utan um óánægju stjórnmálamanns sem starfað hafði í Sjálfstæðisflokknum. Það væri því kannski nær að segja að Frjálslyndiflokkurinn sé fyrst og fremst einhverskonar endurvinnsla frekar en stjórnmálaflokkur. Þetta er vettvangur sem hefur þann tilgang að blása lífi í það sem aðrir flokkar telja búið að vera.
Það má því kannski segja að í framboði í vor séu þrír stjórnmálaflokkar þ.e.a.s Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð, ein endurvinnsla þ.e. Frjálslyndiflokkurinn og svo ein atvinnumiðlun þ.e. Framsóknarflokkurinn en eins og frægt er orðið hefur hann það eina markmið með framboði að koma sínu fólki að í launuð störf á vegum ríkis og sveitarfélaga. En allt saman kallast þetta pólitík, svo skrítið er það.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.2.2007 | 22:52
Óhugnaðurinn í Breiðavík
Fyrir tæpum tveimur árum gisti ég á gistiheimilinu sem nú er rekið í Breiðavík. Í sama húsi og nú berast óhugnanlegar fregnir af grófum mannréttindabrotum. Í spjalli við annað fólk sem þar var barst það til tals að á heimilinu sem rekið var til ársins 1972 hafi illa verið búið að þeim drengjum sem þar var gert að dvelja. Síðan les ég það í morgun í Fréttablaðinu að Bergsteinn Björgúlfsson kvikmyndagerðarmaður sé að gera mynd um mál barnanna en hann fékk fyrst fregnir af þessu máli frá vini sínum sem gisti á gistiheimilinu á Breiðavík.
Í kjölfar þessa spyr ég mig að því hvort að mál þessara drengja hefði kannski alveg gleymst ef ekki hefði verið farið af stað með rekstur gistiheimilis? Hvað ef húsnæðið hefði farið í eyði, hefði þessi hörmulega saga barnanna þá aldrei komið fram?
Sem betur fer hefur verið vakin athygli á þessu máli og virðist svo vera sem víðtæk sátt sé um að reyna að bæta fórnarlömbum það sem í raun verður aldrei bætt. Það verður þó að segjast eins og er að drengirnir sem enn eru á lífi eru orðnir fullorðnir menn eiga samúð þjóðarinnar allrar. Það er von mín að stjórnvöld beri gæfu til þess að halda á þessu máli af myndarleik. Í viðtali við eitt fórnarlambið í Kastljósi sagði hann að hann óskaði eftir opinberri afsökunarbeiðni frá fulltrúum ríkisins. Mér finnst það sjálfsagt mál og það allra minnsta sem hægt er að gera.
Að sama skapi verðum við að sjá til þess að svona nokkuð muni aldrei aftur gerast.
En það sem mér finnst óhugnanlegast í þessu máli öllu er að fyrst núna, öllum þessum árum síðar er þetta mál að koma upp. Hvað segir það okkur um siðvit þjóðarinnar? Það skal enginn segja mér það að ekki hafi fjöldi fólks vitað af því hvað átti sér stað þarna. Því er ekki undarlegt að maður spyrji sig að því hversvegna gerði enginn neitt á sínum tíma?
Það er spurning sem ég hef ekki svar við.
JB
Í vikunni sem leið komu yfir 100 unglingar 14-15 ára hvaðanæva að af landinu í tíma til mín í siðfræði. Flest þeirra ætla sér að fermast borgaralega í vor en einnig tók ég nokkra 9. bekkinga við Réttarholtsskóla í smá siðfræðitíma. Semsagt alls rúmlega 100 unglingar á einni viku í sex hópum. Ég spurði börnin öll að því hvort þau hafi einhverntíman farið í siðfræðitíma eða hvort þau vissu yfirhöfuð hvað siðfræði væri. Enginn, já ég endurtek enginn af þessum rúmlega 100 einstaklingum hafði nokkurn tíman fengið skipulega leiðsögn í siðfræði á sinni skólagöngu og fæst vissu um hvað siðfræði snýst. Samt eru meira en 4500 ár síðan Aristóteles lagði grunn að siðfræðinni sem skipulegri fræðigrein (jú alveg satt siðfræðin varð ekki til í guðfræðideild Háskóla íslands)
Nú er alls ekki við börnin að sakast í þessu efni enda geta þau ekki borið ábyrgð á þeirri fræðslu og menntun sem þau fá í skólunum. En þessi staðreynd segir manni ýmislegt um á hvað er lögð áhersla í grunnskólum landsins. Til er námsskrá í siðfræði fyrir grunnskóla sem heitir Aðalnámskrá grunnskóla, kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði og er þetta eitt það allra dapurlegasta lesefni sem ég hef nokkurntíman augum litið ekki síst fyrir siðfræðina sem fræðigrein. Í þessu plaggi víða gefið í skyn að maður verði rosalega siðvitur af því einu að að liggja á bæn sem er nú mikill misskilningur.
Í þessu plaggi kemur fram að kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði er allt sjálfstæðar námsgreinar en þær þurfa að deila ráðstöfunartíma með samfélagsgreinum í stundarskrá. Þannig má í hverjum skóla ráðstafa ákveðnum tíma ýmist í samfélagsfræðina eða trúarbrögðin eða siðfræðina. En eins og áður kom fram í máli barnanna er hvergi tíma ráðstafað í siðfræði. Þess í stað er, allavega þar sem ég þekki til miklum tíma af samfélagsfræðikennslunni varið í að undibúa að því er virðist börnin undir nám í alþjóðlegum landbúnaðarháskólum.
Hin sænska kennslubók Landafræði handa unglingum 2. hefti er kennd af kappi í grunnskólum landsins. Meira að segja er bókin tekin til samræmdra prófa. Einkum lögð áhersla á umfjöllun um lönd eins og Moldóvíu, Georgíu, Perú, Ástralíu, Bandaríkin, Kína, Indland og fleiri ágæt lönd og af lestri bókarinnar kemur glöggt fram að mikilvægast er að vita hvað er ræktað í hverju landi.
Börnin verða því "sérfróð" um ræktun og frjósemi moldarinnar víðsvegar um heiminn en enginn fær að sama skapi þjálfun í að styrkja siðvit sitt. Ég ætla nú ekki að segja að það sé alveg glatað að læra um hrísgrjónarækt í Kína og fleiri sniðugt í landbúnaði en öllu má nú ofgera.
En það sem við gerðum í vikunni í siðfræðinni var að styrkja siðvit okkar með því að rökræða með gagnrýnu hugarfari fyrirbæri eins og svindl og svik, hnupl, sanngirni og heiðarleika, samskipti við foreldra og fjölskyldur, aðstoð við nauðstadda og margt fleira sem mikilvægt er að skoða til þess að verða ábyrgur og heiðarlegur borgari. Unglingarnar fengu að velta því fyrir sér hvernig heimurinn væri ef allir breyttu eins og þau og einnig fengu þau tækifæri til þess að setja sig í spor ýmissa einstaklinga sem takast hafa þurft á við siðferðileg álitamál.
Þetta var því fyrst og fremst þjálfun siðvitsins en breski siðfræðingurinn John Stuart Mill hélt því einmitt fram að siðferðilegur styrkur væri eins og vöðvastrykur eitthvað sem styrktist aðeins við þjálfun.
Eins og fram hefur komið leggja yfirvöld menntamála ekki áherslu á þjálfun siðvits. Ætli ástæðan sé ekki m.a. sú að landbúnaðarfræði fjarlægra landa er svo mikilvæg að ekki gefst tími til að rökræða siðferðið. En "skólaanarkistar" eins og ég teljum það mikilvægt að rökræða siðferðið og því geri ég það bara ef mér sýnist þó svo að nemendurnir missi af því að vita allt um kúasmalana í Keníu. Og lái mér hver sem vill.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.1.2007 | 23:22
Baráttan um Súpermann og vandinn með girndina
Mikið hefur verið rætt í dag og í gær um svokallaða supergirl keppni sem fram fór á skemmtistaðnum Pravda nýverið. Keppnin fólst víst í því að stúlkur áttu að heilla náunga nokkurn sem kallast Súpermann. Þeirri sem tækist það ætlunarverk átti að fá utanlandsferð að launum. Þetta er býsna athyglisvert mál. Það má kannski segja að eðlilega hefur ýmsum orðið heitt í hamsi af tiltækinu og velt fyrir sér siðferðilegu réttmæti athæfisins og spurt hvort að hér sé ekki á ferðinni nauðgunarhvati fyrir karlmenn og hvort að konurnar sem þarna láta keppnisskapið bera sig ofurliði séu ekki bara að láta í ljós hversu aumar manneskjur þær eru.
Allt er þetta svo sem ágætis umræða en til er annar flötur á málinu sem svokallaðir tilvistarheimspekingar eða existensíalistar hafa tekið til skoðunar og kemur fram í þessu máli. Ef við látum um stund liggja á milli hluta siðfræðiumræðuna þá stendur annað eftir og það er umræðan um vandann með girndina. Hver er sá vandi.
Vandi sá sem keppendur um hylli Súperman þurftu að takast á við er í hnotskurn þessi: Hvernig má fá Súpermann til þess að girnast sig? Svo má skoða þennan vanda keppenda í víðara samhengi:
Hvað fær stúlku til að taka þátt í svona keppni? Ætla mætti í fljótu bragði að ástæðurnar gætu verið tvær.
1) Annarsvegar að leggja hvað sem er á sig til þess að vinna ferðavinninginn. Samt finnst mér það frekar sérstakt að leggja það á sig að ganga um nakin á almannafæri til að komast til útlanda á tímum lækkandi flugfargjalda. En þó veit maður aldrei.
2) Í öðru lagi. Ef til vill er Súpermann að mati keppenda svo ómótstæðilegur að allt er gert til þess að fanga hug hans og hjarta til þess að geta deilt með honum ókomnum stundum hvort sem það er hér á landi eða erlendis. Hver kannast ekki við það að telja sig hafa fundið þann eina rétta eða þá einu réttu?
Rót þess vanda sem keppendur eru í felst í því hvernig má fá Súpermann til þess að girnast þá stúlku sem girnist hann? Hver hefur ekki lent í þessari klemmu þó það hafi ekki verið gert að íþróttakappleik? Og aldrei skilið hversvegna sú eða sá sem reynt var að höfða til leit frekar við einhverjum eða einhverri annarri eða öðrum.
Franski tilvistarheimspekingurinn Sartre spyr einmitt þessarar spurningar í höfuðriti sínu sem í enskri þýðingu kallast Being and Nothingess. Þar spyr hann í umfjöllun sinni um ástríðurnar hvernig maður getur fangað athygli þess sem maður girnist þannig að viðkomandi taki að girnast mann á móti. Það er raunverulega þetta sem keppnin gekk út á.
Sartre gat ekki gefið upp neitt algilt svar við þessari spurningu í bók sinni og því hefðu stúlkurnar ekki í raun getað leitað til hans að neinu gagni þó öll umfjöllun hefði þó hugsanlega getað aðstoðað þær við að auka hugmyndaflug sitt. En hvernig svöruðu þær þessari spurningu Sartre um að fá einhvern (í þessu tilviki Súperman) til að girnast sig? Jú svarið fólst í því að vera sem glyðrulegust ef marka má myndirnar sem fylgdu af keppninni. Rífa af sér fötin og vappa um einhvern pall allsnakin. Það var svar stúlknanna við þessari mjög svo heimspekilegu spurningu, að fá einhvern til að girnast sig.
Ein stúlkan sem rætt var við í Fréttablaðinu í dag hélt þó að hún hefði farið yfir strikið í þessum girndarhug, en hún taldi það hið besta ráð til þess að láta Súpermann girnast sig að fara bara hreinlega úr öllu. En ekki reyndist það nægjanlegt til þess að vekja girnd Súmermannsins því hann vildi eitthvað annað hvað svo sem það nú var.
Ég verð nú eiginlega að segja að girndin er skemmtilegt heimspekilegt viðfangsefni en mér finnst það ekki góð hugmynd að gera hana að einhverri keppnisíþrótt. Við ættum frekar hvert um sig að eiga hana með okkur í okkar hversdagslega lífi í stað þess að láta hana verða keppnisskapinu að bráð. Sá sem er í girndarhug getur verið ansi flottur á velli í sínu náttúrulega umhverfi en þegar keppni í girnd er farin að bera keppendur ofurliði er orðið ansi stutt í að aulahrollurinn hrýslist niður eftir manni öllum. Það getur nefnilega stundum verið stutt á milli þess að vera flottur eða fáránlegur. Og fátt er verra að verða vitni að en þegar fáránleikinn hefur tekið völdin...... Við skulum bara segja að vegir girndarinnar séu órannsakanlegir og í henni verður ekki keppt svo vel sé.
JB
Heimspeki | Breytt 28.12.2009 kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2007 | 22:22
Getur heimsþekkti afhommarinn líka hommað ef þess er óskað, eða getur Alan Chambers hommað mig?
Sonur minn tæplega fjórtán ára gamall spurði mig í dag hvað það væri að afhomma. Hafði hann lesið fyrirsögn í Fréttablaðinu þar sem sagt var frá því að heimsþekktur afhommari hafi verið í heimsókn hjá Hvítasunnufólki í Keflavík. Ég gat ekki svarað öðru en því að það að afhomma þýddi væntanlega að gera homma að ekki hommum eða m.ö.o. að fá homma til þess að hætta að vera homma. "Nú" svaraði stráksi "og er það hægt?" Tja, mér varð fátt um svör en sagði honum að sumir teldu svo vera en ég væri nú heldur efins um að hommi myndi hætta að vera hommi þó svo að guð og heimsins færustu afhommarar leggðu saman.
Fregn þessi af heimsókn afhommarans vekur mann vissulega til umhugsunar og kveikir með manni fjölda býsna heimspekilegra spurninga sem gaman væri að fá svör við.
* Hversvegna ættu hommar yfirhöfuð að vilja afhommast? Er það ekki eingöngu vegna fjandsamlegs umhverfis sem hommi óskar sér að vera ekki hommi. Ef allir tækju hommanum á sínum eigin forsendum og létu náungakærleikann ráða myndi þá ekki hommin vera sáttur og sæll með líf sitt?
* Ef afhommarinn getur afhommað homma getur hann þá líka unnið í gagnstæða átt? Þ.e.a.s. getur afhommarinn líka hommað einstaklinga þ.e.a.s. gert þá sem ekki eru hommar að hommum? Gæti hann t.d. hommað mig eða gert mig að homma ef ég óskaði þess?
Rithöfundurinn Albert Camus hélt því fram að allir vilji vera eitthvað annað en þeir eru. Þetta er eitthvað sem einkennir manneskjur almennt að hans mati. Ég held að það sem er að gerast hjá hvítasunnumönnum í Keflavík sé það að þeir eru að yfirfæra óánægju sína á sjálfum sér yfir á að vera óánægðir með náungann. Í þessu tilviki eru það hommar sem þeir vilja tutka til og breyta og verða þeir fyrir barðinu á umburðarleysi þeirra og fordómum. Hommar eiga að þeirra mati að vera eitthvað annað en þeir eru.
En ég spyr bara um þann hæfileikaríka afhommara sem um er rætt, getur hann líka aflesbíað? Eða hvers eiga annars lesbíur að gjalda þegar svo mikill maður kemur í heimsókn?
JB
Heimspeki | Breytt 28.12.2009 kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.1.2007 | 23:05
Hvernig getur Vinaleiðin bæði verið kynnt inni í bekkjum og ekki kynnt inni í bekkjum sama daginn?
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá nokkrum manni að svokölluð Vinaleið sem stunduð er í ýmsum skólum er mjög umdeilt fyrirbæri. Vinaleiðin er samstarfsverkefni kirkju og skóla og felst í sálgæslu kirkjunnar manna við skólabörn. Menntamálaráðuneytið er að skoða réttmæti þess að fólk frá trúfélögum starfi innan almennra grunnskóla og er þess beðið með eftirvæntingu að úrskurður komi frá ráðuneytinu um þessi samskipti krikju og skóla. Á meðan er starfsemi Vinaleiðar í fullum gangi en fulltrúar hennar hafa samt sem áður viljað telja almenningi trú um að ekki sé með neinum hætti verið að troða henni ofan í kokið á börnunum án samþykkis eða vitneskju foreldranna. Fram kom í Frétablaðinu í dag að Séra Jóna Hrönn Bolladóttir sagði á Stöð tvö að þeir sem starfa að Vinaleiðinni séu einungis til staðar en séu ekki að koma inn í bekki. Eða með hennar eigin orðum: "Sko, það er náttúrulega einfaldlea þannig, þessir fulltrúar eru ekki að koma inn í bekkina, tíma og bekkina. Þetta fólk kemur og er þarna í hverjum skóla einn dag í viku og þetta er tilboð um að koma til þeirra."
Síðan kemur fram í Fréttablaðinu að sama dag hafi Hans Guðberg Alfreðsson sóknarprestur verið inni í bekkjum í Hofstaðaskóla og boðaði þar ágæti Vinaleiðarinnar. Og þá kemur Jóna Hrönn með yfirlýsingu sem er að mörgu leyti frekar óskýr en ef ég skil hana rétt endurtekur hún að starfsemi vinaleiðar sé ekki starfrækt í bekkjum en hún gefur í skyn að það sé rétt að fulltrúi Vinaleiðar hafi farið í bekki og endar svo á þessari óskiljanlegu setningu: "Prestur og djákni voru ráðin í verkefnið en ekki huldufólk."
Ég satt að segja vona að Menntamálaráðuneytið fari nú að bera gæfu til þess að flýta vinnu sinni að þessu máli og komi með skýrar verklagsreglur um samskipti trúfélaga og skóla. Það er alveg ómögulegt fyrir fólk að vita ekki hvað er satt og hvað ósatt þegar einn fulltrúi krikjunnar segir í fjölmiðli að fulltrúarnir séu ekki inni í bekkjum á meðan annar fulltrúi er sama daginn inni í bekkjum að kynna börnunum Vinaleiðina. Það er því ekkert skrítið að maður nokkur hafi spurt: "Hvort var Jóna Hrönn að segja ósatt í sjónvarpinu eða vissi hún ekki betur?"
JB
28.1.2007 | 22:09
Hvað ef 63 "Árnar Johnsenar" ættu sæti á þingi? Pæling um siðferðilega ábyrgð í pólitík
Um helgina sá blaðið ástæðu til þess að leggja Árna nokkrum Johnsen lið í kosningabaráttu hans en nokkurrar óánægju hefur gætt um framboð hans meðal annars á meðal samflokksmanna hans. Fékk Árni þriggja síðna viðtal þar sem ekki var mikið stuggað við honum. Þegar ég las viðtalið við hann kom mér í hug setning sem Þorsteinn Gylfason lét falla í fyrirlestri fyrir löngu síðan, en hann sagði: "Samfélag eintómra nytjastefnumanna, eintómra stjórnmálamanna, er siðlaust samfélag. Eina vonin um siðferði samfélagsins er sú að á meðal þegna þess séu margir menn sem ekki eru stjórnmálamenn." Fyrirlestur Þorsteins má lesa í heild sinni í Hug tímariti Félags áhugamanna um heimspeki. (ég man ekki hvaða ár en fljótlegt ætti að vera að finna þetta).
Ástæðan fyrir því að fyrrnefnd orð Þorsteins komu upp í hugann er væntanlega sú blinda sem Árni er haldinn á eigin "tæknilegu mistök", persónulega ábyrgð og áhrif breytni hans á samborgarana. Það hvarflar ekki að honum að óánægja með að hann skuli stefna á þing sé því um að kenna að hafa brotið af sér sem alþingismaður og formaður bygginganefndar Þjóðleikhússins. Hann telur þvert á móti að þeir óánægðu séu óánægðir vegna þess að hann er beinskeyttur og fylginn sér eða eins og hann orðar það sjálfur: "Ég er sennilega nokkuð beinskeyttur og fylginn mér og kannski er það einmitt það sem sumir þola ekki. Þegar menn eru tilbúnir að taka af skarið, hafa ákveðnar skoðanir og skila árangri, verða þeir umdeildir."
Menn verða umdeildir vegna skoðana sinna segir Árni en það hvarflar ekki að honum að hann sé núna fyrst og fremstu umdeildur fyrir þau brot sem hann framdi.
Málið er hið vandræðalegasta. Margir sjálstæðismenn eru óhressir með framboð hans en það vekur hinsvegar athygli hversu margir sitja hljóðir hjá og taka ekki afstöðu, tjá sig ekki um málið. Það er súrt. Þegar stjórnmálamenn hafa gerst sekir um brot sem hvorttveggja eru siðferðilega sem og lagalega ámælisverð þarf að ræða málið opinskátt. Það hefur ekki verið gert. Það þarf að nálgast málið öðruvísi en gert hefur verið. Kjósendur eiga að spyrja sig að því hvort þeir gætu sætt sig við það að 63 "Árnar Johnsenar" á þingi væru góður kostur fyrir landsmenn. Ef allir alþingismenn, ef allir ráðherrar hefðu þann brotaferlil á bakinu sem Árni hefur væri það góður kostur fyrir þjóðina?
Ég hef lengi staðið í þeirri trú að best sé að meta kosti fólks ekki út frá því sem það segir heldur út frá því sem það gerir og hefur gert. Þessa afstöðu tók ég fyrir löngu síðan eftir að ég tók til við að lesa franska heimspekinginn Jean Paul Sartre af kappi. Hann kenndi mér að sérhver einstaklingur væri sífellt að skapa sjálfan sig með breytni sinni og enginn væri í raun betri né verri en það sem hegðun og breytni viðkomandi segði til um. Og það sem meira er; sérhver einstaklingur er fullkomlega frjáls að því hvernig hann breytir og á ávallt að spyrja sig að því hvernig heimurinn væri ef allir höguðu sér eins og maður sjálfur. T.d hvað ef allir tækju ýmislegt sem þeim langaði í ófrjálsri hendi? Hvernig væri samfélag okkar þá? Samkvæmt þessari hugsun er ekki hægt að skýla sér á bakvið eitthvað sem kallast "tæknileg mistök". Sartre orðaði þessa hugsun sjálfur svohljóðandi: "
"Og hverjum manni ber að segja við sjálfan sig: er ég áreiðanlega slíkur maður að ég hafi rétt til að haga mér þannig að mannkynið taki sér athafnir mínar til fyrirmyndar?" (Existentialism est un humanisme)
Mætti ég biðja stjórnmálamenn um að spyrja sig oftar þessarar spurningar.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.1.2007 | 09:04
Eldri borgarar og öryrkjar vinna gegn eigin hagsmunum
Eldri borgarar og öryrkjar hafa nú um nokkurt skeið gefið sterklega í skyn áhuga á þingframboði. Svo er það núna í morgun sem Fréttablaðið greinir frá því að líklega megi búast við framboði og það sem meira er að e.t.v. verða framboðin tvö frekar en eitt. Rætt var við þau Arnþór Helgason og Arndísi H. Björnsdóttur og segir Arndís það ekki koma til greina að bjóða fram tvo lista þessara hópa, en hún bætir því svo við að hinn hópurinn sem Arnþór Helgason fer fyrir ásamt öðrum sé velkomin að ganga til liðs við hennar hóp. Á móti segir Arnþór að hann vænti þess að fólkið sem er í liði Arndísar muni ganga til liðs við þann hóp sem hann starfar í . Þannig eru öryrkjar og eldri borgarar nú klofnir í tvær fylkingar. Spyrja má hvort það séu hagsmunir öryrkja og eldri borgara að bjóða fram sér hvort sem um verði að ræða eitt framboð eða tvö. Ég tel það alveg augljóst að hagmunum þeirra verður ekki þokað í rétta átt með tveimur framboðum, það er alveg ljóst. Ég dreg það líka í efa að eitt framboð komi til með að vera til hagsbóta fyrir eldri boragar og öryrkja nema kannski helst sem leið til þess að vekja athygli á málstað sínum.
Sú leið sem þessir hópar eiga að fara að mínu mati er að vinna af krafti innan stjórnmálaflokkanna. Það eru flokkar sem starfa innan þings sem hafa áhuga á að rétta hlut öryrkja og eldri borgara og nefni ég Vinstrihreyfinguna- grænt framboð sem dæmi. Sérframboð öryrkja og eldri borgara myndi að öllum líkindum taka fylgi frá þeim flokkum sem vilja vinna að málefnum þessara hópa. Og spyrja má hvað væri unnið með því? Það er hægt að komst að innan a.m.k. VG og hafa áhrif.
Síðastliðið vor vakti athygli þegar Paul Nikolov sagðist stefna að stofnun innflytjendaflokks sem ætti að bjóða fram til Alþingis og sveitarstjórna. Paul gaf því tækifæri að ganga til liðs við Vinstrihreyfinguna grænt framboð í stað þess að stofna flokkinn og freista þess að koma sínum hugðarefnum að þar og viti menn hvað hefur gerst? Jú nú mun Paul skipa 3. sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík norður, öflugt málefnastarf og stefnumótun um málefni innflytjenda fer nú fram innan VG sem stýrt er af honum ásamt Toshiki Toma presti innflytjenda og fleiri góðra einstaklinga. Þarna hefur klárlega verið sýnt að sérframboð þarf ekki alltaf til til þess að koma góðum málum á framfæri í stjórnmálum.
JB