23.1.2007 | 19:46
Smá hugmynd fyrir auðjöfra í hamslausri "pissukeppni"
Á sama tíma og biðröðin hjá Mæðrastyrksnefnd hefur aldrei verið lengri en núna fyrir jólin hefur samkeppni ýmissa íslenskra auðjöfra eða "pissukeppni" eins og sumir kjósa að kalla samkeppnina aldrei verið meiri í veisluhöldum. Einn reynir að toppa annan í að greiða misgóðum skemmtikröftum sem mest þeir mega. Markmiðið með þessum nýársveislum virðist fyrst og fremst felast í því að eyða sem mest af peningum, burtséð frá því hvort eitthvað vit sé í því sem fengið er fyrir aurana. Og ekki hvarflar að neinum að setja fólkið í biðröðinni hjá Mæðrastyrksnefnd á gestalistann.
En nú er komin fram ágæt hugmynd sem auðjöfrarnir gætu pælt í. Þetta vandamál, þegar samkeppnin fer úr böndunum er ekkert ný. Í Fréttablaðinu í dag var nefnilega greint frá því að vestur í Bandaríkjunum hefur samkeppnin í barnaafmælum gjörsamlega farið úr böndunum hve íburð varðar. Foreldrar þar vestra hafa því tekið sig saman og ætla að "afvopnast" í metingi sínum um íburðamestu afmælisveisluna. Stinga samtökin upp á því að foreldrar fylgi ákveðnum reglum til þess að stuðla að hógværari og streituminni veislum.
Er þetta ekki eitthvað sem veisluglaðir íslenskir auðmenn gætu gert, bundist samtökum um hógværar og streitulitlar hátíðir og kannski látið eitthvað í staðinn af aurunum sem þeir vilja losna við í góð málefni nú eða bara lækkað þjónustugjöld bankanna fyrir almenna viðskiptavini?
Þetta var nú bara svona smá pæling, vonandi getur einhver nýtt hana.
JB
22.1.2007 | 12:12
Þegar manndráp er ekki glæpur
Í síðustu viku var greint frá því að Ellen Bergman fyrrverandi eiginkona Ingmars Bergman vilji fá aðstoð til þess að deyja. Ellen er 87 ára gömul og hefur verið sjúklingur frá árinu 1999. Hefur heilbrigðisráðherra Svíþjóðar fengið bréf frá Ellen þar sem hún hvetur ráðherrann til þess að setja lög sem kveða á um að fólk geti fengið aðstoð við að deyja. Ráðherran ætlar sér ekki að verða við þessari ósk.
Í sömu frétt er greint frá konu nokkurri á Spáni Madeleine Z sem þjáðist af banvænum lömunarsjúkdómi en hún svipti sig lífi nýverið þar sem hún vildi ekki verða algerlega lömuð og ósjálfbjarga. Með henni voru meðlimir samtaka sem kallast "Rétturinn til að deyja með reisn".
Krafan um að fólk fái aðstoð við að binda endi á líf sitt er ekki ný og starfa samtök og hópar víða um heim sem berjast fyrir rétti einstaklinga til þess að fá aðstoð við að deyja. Einna þekktust eru án efa samtökin The Hemlock Society sem stofnuð voru 1980 af blaðamanninum Derek Humphrey. Meginkrafa þessara samtaka er sú að læknar verði ekki sóttir til saka við að aðstoða þá sem óska eftir að deyja, eða með öðrum orðum er krafist lögleiðingu líknardrápa.
Derek þessi Humphrey vakti heimsathygli árið 1991 þegar hann skrifaði bókina Final Exit sem er leiðbeiningabók fyrir þá sem vilja svipta sig lífi þar sem líknardráp er ólöglegt. Sagði hann í viðtali í Time skömmu eftir að bókin kom út að það væri hluti af góðri læknislist að að aðstoða fólk við að komast burt frá lífinu rétt eins og að komast til lífsins.
Tilvist samtaka eins og The Hemlock Society og það sjónarmið að hver og einn skuli fá að ráða endalokum lífs síns vekur upp áleitnar spurningar, enda má telja á fingrum annarrar handar þau ríki þar sem líknardráp er lögleitt. Holland er án efa einna þekktast fyrir frjálslynda afstöðu sína í þessum efnum.
Þau sjónarmið sem einna helst togast hér á eru spurning um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinganna. Á maður eigið líf í þeim skilningi að maður megi gera það sem maður vill svo fremi sem maður geti talist ábyrgur fyrir gjörðum sínum og svo hinsvegar er sú hætta fyrir hendi að heimild lækna til þess að fremja líknardráp kunni að verða misnotuð?
Siðfræðingurinn Peter Singer gerir málið að umtalsefni í tímaritinu Free Inquiry, hausthefti 2005 og er hann á því að reynslan frá Hollandi hafi sýnt að meint misnotkun á heimildum til líknardráps hafi ekki átt sér stað, enda þarf að fara eftir ströngum skilyrðum til þess að heimild sé fyrir líknardrápi. Hann segir jafnframt að ef reynslan frá Hollandi hefði verið slæm hefðu nágrannarnir í Belgíu ekki kosið að fara sömu leið.
Ein helsta ástæðan fyrir því að þetta mál er sjaldan rætt er væntanalega vegna þess hve fáir einstaklingar bera þann vilja fram að vilja aðstoð við að deyja. Það útilokar samt sem áður ekki að umræðan þarf að fara fram enda meginspurningin sú hver réttur einstaklinga er sem þurfa að takast á við langvinna og jafnvel sársaukafulla sjúkdóma sem smátt og smátt leiða til þess að fólk verður með öllu ósjálfbjarga. Eigum við að leyfa þeim sem geta tekið rökréttar ákvarðarnir að gera það þegar um líf eða dauða er að tefla og fá aðstoð við það?
Það er spurning sem heilbrigðisstarfsmenn og stjórnmálamenn þurfa að velta fyrir sér.
JB
Heimspeki | Breytt 28.12.2009 kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.1.2007 | 12:57
Róttæka jafnaðarstefna eða nýsósíalismi í mikilli sókn
Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að samkvæmt könnun blaðsins bætir Vinstrihreyfingin grænt framboð verulega við sig fylgi sé tekið mið af gengi flokksins í síðustu kosnngum. Nú fengi flokkurinn á landsvísu 12 þingmenn en hefur 5. 19,4% svarenda segjast ætla að kjósa flokkinn.
Vissulega ber að taka skoðanakannanir með fyrirvara en hér er ótvíræð vísbending um að flokkurinn er á réttri leið. Það vekur hinsvegar athygli að Samfylkingin sem átti að vera stóri jafnaðarmannaflokkurinn hér á landi er litlu stærri en VG.
Mjög góð málefnastaða flokksins er greinilega að skila sér í góðu gengi, en þær áherslur sem flokkurinn hefur eru vel til þess fallnar að æ fleiri ganga til lið við flokkinn. Má þar nefna örfá mál:
* Atvinnustefnan. Að horfið verði frá stóriðjustefnunni og lögð áhersla á fjölbreytt atvinnulíf þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki verði vaxtarbroddurinn. Hugvitið virkjað.
* Sjálfstæð utanríkisstefna er lykill að velferð þjóðarinnar þar sem við eigum gott samstarf við aðrar þjóðir en grenjum okkur ekki inn í Evrópusambandið og klifum sí og æ á því að krónan sé ónýt eins og formaður Samfylkingarinnar gerir.
* Velferðarstefna. Við höfum verið að horfa upp á það gerast að við erum að hverfa frá hinni svokölluðu norrænu velferðarstefnu sem ríkt hefur og skilað okkur jöfnuði og velferð. Launamunur, græðgisvæðing og óréttlæti er að aukast og við því þarf að bregðast með róttækri jafnaðarstefnu eða nýsósíalisma að vopni.
* Náttúruvernd og umhverfismál. VG hefur sýnt það og sannað að flokksmenn eru einhuga um róttæka og framsýna náttúrverndar og umhverfisstefnu þar sem áhersla er lögð á að skila afkomendum okkar góðu búi með tilliti til umhverfis og náttúru. Hér skiptast flokksmenn ekki í fleiri en eina fylkingu eins og tíðkast í öðrum flokkum. Hér er einn mikilvægasti málaflokkurinn á ferðinni og VG hefur einn flokka sýnt það að honum er treystandi til þess að láta náttúruna njóta vafans af brölti mannfólksins.
* Jafnrétti og kvenfrelsi. VG hefur á að skipa frábærum einstaklingum, konum og körlum sem vinna saman og telja mjög brýnt að allir fái notið sín í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Hér er ekki um orðin tóm að ræða heldur hafa félagar í VG sýnt í verki að jafnréttismálin eru alvöru málaflokkur.
Margt annað mætti nefna sem gerir það að verkum að fylgi VG eykst. En ég minni á að hér er aðeins um skoðanakönnun að ræða og því brýnt að sem flestir gangi til liðs við flokkinn og tryggi honum góða kosningu í vor.
Við sem stöndum að Reykjavíkurfélagi VG hvetjum sem flesta að koma og vera með. Á hverjum laugardegi erum við með svokallaða laugardagsfundi kl. 11-13 að Suðurgötu 3 þar sem ýmis mál eru rædd í hópi góðra félaga.
JB
Ég verð að játa það að mér finnst unglingar sem hafa skoðanir og eru óhræddir við að láta þær í ljós vera til fyrirmyndar. Í ljósi þess fannst mér fréttin sem birtist í Fréttablaðinu núna föstudaginn 19.janúar af barnauppreisninni á Seltjarnarnesi fyrir jólin vera frábær.
Ungum stúlkum í Valhúsaskóla var nóg boðið þegar þeim var af gert skylt að mæta í kirkju á skólatíma skömmu fyrir jól og mótmæltu. Fyrir þetta fengu þær bágt fyrir frá kennara. Þær létu þennan fávísa kennara um almenn mannréttindi ekki á sig fá heldur tóku til við að safna undirskriftum málstað sínum til stuðnings sem þær fóru með til framkvæmdarstjóra fræðslu og menningarsviðs. Í kjölfar þess boðaði skólastjóri til kennarafundar og varð úr að kenararnir og þá væntanlega sá sem gaf stúlkunum bágt fyrir lögðu niður vopn og játuðu sig sigraða. Framvegis mun sá háttur verða á að nemendur fá val um það hvort þeir fari í kirkju eða verði í skólanum í einhverju öðru.
Faðir einnar stúlkunnar Ólafur Darri Andrason komst að kjarna málsins í viðtali við Fréttablaðið þar sem hann sagði: "Þær voru þarna nokkrar valkyrjur sem voru ósáttar við að kirkjuferðin væri skylda en ekki valkostur. En þetta gekk ekki út á neina herferð gegn kristinni trú. Þetta gekk út á að börnin hefðu leyfi til að vera öðruvísi. Í fjölmenningarsamfélagi þarf jú að taka tillit til allra."
Það sem vekur athygli í þessu máli er að allan tímann var rétturinn hjá stúlkunum. Það fer ekkert á milli mála að í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um það að þegar trúarleg málefni eru til umfjöllunar skuli boðið upp á valkost handa þeim sem kjósa að taka ekki þátt. Það er því með ólíkindum hversu fáfróður skólastjórinn Sigfús Grétarsson er um málið þar sem hann segir að fyrst núna í kjölfar þessa máls verði boðið upp á valkost. Ég dreg í efa að menn sem hafa ekki haft hugmynd um almenn trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasamþykkta eigi erindi í starf skólastjóra. Sama má segja um kennarann sem í frekju sinni gefur stúlkunum bágt fyrir það að fara fram á að almenn mannréttindi séu virt.
Fólk sem hagar sér á þennan hátt getur ekki talist fyrirmyndir unga fólksins því miður.
En stúlkurnar eiga mikið hrós skilið. Flott hjá ykkur stelpur.
Í ljósi þessa hrikalega misskilnings skólastjóra og kennara í Valhúsaskóla læt ég fylgja með valdar tilvitnanir úr Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna:
"Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska."
"Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar."
Gáum að þessu.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.1.2007 | 09:25
Hversvegna eiga þeir sem standa utan trúfélaga að leggja fé til Háskóla Íslands umfram aðra?
Í blaðinu í dag er fjallað um frétt frá Hagstofunni um stöðu þjóðarinnar í trúar - og lífsskoðanamálum. Fram kemur að í landinu eru skráð 27 trúfélög og eru flest þeirra smá og aðeins sex trúfélög telja fleiri meðlimi en 1000. Þetta er í sjálfu sér gott mál og sjálfsagt í lýðræðisríki að fólk geti stofnað félag og fengið það skráð utan um trú sína. Eins og alkunna er tekur hið opinbera að sér að rukka inn lögbundin sóknargjöld fyrir söfnuðina sem notuð eru til þess að reka umrædda söfnuði og veita meðlimum sínum ýmsa þjónustu og stuðning.
Einn hópur er þó hér á landi sem ekki á kost á því að njóta þessara svokölluðu sóknargjalda. Þetta er hópur sem greiðir þessa lögbundu greiðslu en fær ekkert fyrir þá greiðslu. Þetta eru þeir sem standa utan trúfélaga og eru alls 2,6% þjóðarinnar. Þessu fólki er gert skylt að greiða sín gjöld til Háskóla Íslands í sjóð sem kallast Háskólasjóður og er ekki notaður í þágu þeirra sem í hann greiða.
Hér er freklega brotið á þeim sem kjósa að standa utan trúfélaga og hefur stjórnmálamönnum ítrekað verið bent á óréttmæti þess að þessi hópur fái ekki notið þessara fjámuna. Þingmennirnir okkar hafa hinsvegar klárlega sýnt þessum hópi mikla lítilsvirðingu og vilja ekki rétta hlut hans enda kannski ekki skrítið þar sem þeir fá iðulega línuna frá biskupi 82% landsmanna áður en þeir ganga til vinnu sinnar.
Norðmenn hafa hinsvegar viðurkennt rétt þeirra sem standa utan trúfélaga og fá þeir sem það gera og eru aðilar að félagsskap sem heitir Human Etisk Forbund að greiða sín gjöld í það félag. Félagið var stofnað árið 1956 og nú hefur það fulla réttarstöðu á við hvert annað trúfélag í Noregi. Það hefur leyfi til þessa að sjá um útfarir og giftingar. Meðlimir þess eru 69.000 og er þetta annað stærsta lífsskoðunarfélagið þar í landi á eftir norsku þjóðkirkjunni. Hjá þessu félagi getur fólk fengið eitthvað fyrir þau gjöld sem það greiðir sem er nú eitthvað annað en það sem við hér á Íslandi fáum. En okkur sem stöndum utan trúfélaga er gert að koma HÍ í hóp 100 bestu háskóla heims með fjármunum okkar.
Hér á landi hefur frá árinu 1989 verið starfrækt félag sem er sambærilegt við hið norska Human Etisk Forbund og heitir Siðmennt. Siðmennt hefur í mörg ár staðið fyrir borgaralegum fermingum og er í bígerð á þessu ári að fara að þjálfa fólk sem getur tekið að sér borgaralegar útfarir. Mun það verða gert í samstarfi við Human Etisk Forbund. Siðmennt hefur lengi barist fyrir því að fá sömu réttarstöðu og trúfélög hafa en stjórnmálamenn hafa verið ófáanlegir til þess að vilja taka undir það réttlætissjónarmið. Vitað er um einstaka stjórnmálamenn sem styðja málstað Siðmenntar í hjarta sínu en eru of kjarklausir og ofurseldir flokksaganum að þeir láta kjurt liggja.
Þessvegna er lögsókn næsta skrefið.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.1.2007 | 23:20
Hvernig á grunnskóli í fjölmenningarlegu samfélagi að vera?
Fyrsta tölublað þessa árs af bandaríska tímaritinu Free Inquiry barst mér í gær. Tímarit þetta fjallar um þjóðfélagsmál, heimspeki, trúarbrögð og siðfræði svo fátt eitt sé nefnt. Þeir sem skrifa reglulega greinar eru færir á sínu sviði og má þar t.d. nefna ritstjórann Paul Kurts prófessor í heimspeki, Peter Singer sem einnig er heimspekiprófessor og Richard Dawkins prófessor í náttúruvísindum. Sá síðast nefndi hélt reyndar fyrirlestur hér á landi s.l. sumar.
Í þessu hefti er mikið rætt um vísindasiðfræði en það sem ég ætla að gera að umtalsefni í þessum pistli er nokkuð sem ritstjórinn Paul Kurtz ræðir í grein og við íslendingar þurfum nauðsynlega að huga að, en það hefur með fjölmenningarlegt samfélag að gera og þann siðferðilega grunn sem slíkt samfélag þarf að byggja á.
Eitt af því sem er mest um vert þegar byggja skal siðferðilegan grunn undir fjölmenningarlegt samfélag er hvernig skólarnir og yfirvöld menntamála hugsa þessa hluti. Skólinn á m.a. að undirbúa nemendur undir að verða að ábyrgum borgurum í lýðræðislegu samfélagi sem geta umborið fjölbreytileika mannlífsins. Kurtz ræðir í grein sinni þann skóla sem hann gekk í sem barn og segir hann að þar hafi verið samankomnir m.a. írskir kaþólikkar, enskir mótmælendur, gyðingar, ítalir, þjóðverjar osfrv. "Við lærðum að búa saman, virða það að við vorum ólík og deila sameiginlegum gildum." segir Kurtz.
En Kurtz heldur áfram og segir að í nútíma bandarísku samfélagi sé mjög hart sótt að þessum fjölmenningarlegu gildum sem felast í umburðarlyndinu og er í síauknum mæli farið að bera á skiptingu samfélagsins í einhverskonar "við" og "hinir" móral þar sem einn hópur reynir að yfirgnæfa annan og troða sínum lífsgildum á hann í stað þess að ákveðið hlutleysi sé virt í samskiptum.
Þessi reynsla sem Kurtz ræðir úr bandarísku samfélagi þurfum við að hafa í huga ekki síst núna þegar unnið er að endurskoðun Aðalnámsskrár grunnskólans. Hvaða þætti á að leggja áherslu á þegar samskipti ólíkra hópa er annarsvegar? Hvaða nafni á að nefna það siðferði sem leggja skal rækt við, eigum við að kalla það kristilegt siðferði eins og nú er, almennt siðferði eða einfaldlega bara gott siðferði? Þetta er eitt af því sem þeir sem vinna að endurskoðuninni þurfa að ákveða.
Það sem er að mínu mati eitt vandasamasta verkefni þeirra sem eru að endurskoða Aðalnámskrá grunnskóla er það hvernig skuli málum þannig háttað að allir geti vel við unað. Hvernig tekst til við að halda í hávegum ákveðinni virðingu hinna ýmsu hópa sín á milli, fólks af ólíkum uppruna, fólks með mismunandi trúar og lífsskoðanir.
Hvað finnst ykkur? Hvernig á grunnskóli í fjölmenningarlegu samfélagi framtíðarinnar að vera?
Öll sjónarmið vel þegin.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2007 | 23:10
Höfuðið fór af bróður Saddams og fjölskyldunni svelgdist á súpunni.
Eftir að sjónvarpið ákvað að hafa sjónvarpsfréttatíma sinn kl. 19.00 hafa margar fjölskyldur sem vilja fylgjast með fréttum ákveðið að fylgjast með um leið og matast er. Er þetta að mörgu leyti afskaplega óheppilegt og ég tala nú ekki um afskaplega ófjölskylduvænt og á köflum ógeðfellt svona rétt þegar matast er ef fréttirnar eru þess eðlis.
Í kvöldfréttum í gærkvöldi 14. jan. yfir súpuskálinni fékk maður að heyra m.a. af aftöku bróður Saddams Hussein og komst maður ekki hjá því að heyra sitthvað meira en að maðurinn hafi verið tekinn af lífi með hengingu. Það fylgdi nefnilega sögunni að höfuðið hafi farið af manninum við aftökuna.
Nú mætti ætla að ég væri svona svakalega klígjugjarn og viðkvæmur en ég get svo sem alveg þraukað svona tal yfir súpunni minni en ég hef eiginlega meiri áhyggjur af öllum börnunum sem þurfa að heyra þetta þar sem kveikt er á sjónvarpinu. Rétt eins og yfirleitt er varað við þegar myndefni er ekki við hæfi barna þá finnst mér að annaðhvort ættu fréttamenn að vara við lesnum textum þegar því er að skipta eða bara gæta orða sinna, barnanna vegna. Hefði t.d. ekki verið nóg að segja manninn hafa verið tekinn af lífi með hengingu. Þurfti nauðsynlega að tiltaka það sérstaklega að höfuðið hafi farið af sem hugsanlega hefur orðið tilefni til umræðna við matarborðið um rúllandi höfuð út um allar trissur með fremur ógeðfelldum tilhugsunum og kannski martröðum sem slíku fylgir.
Fréttamenn spáið í þetta þar sem þið hafið nú þröngvað ykkur ofan í matardiskana okkar með því að sjónvarpa fréttum kl. 19.00. (og ekki segja að við getum bara slökkt, við viljum fylgjast með því sem er að gerast).
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.1.2007 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.1.2007 | 22:47
Félagsmálayfirvöld færa starfsemi Byrgisins frá einum ofsatrúarhópnum til þess næsta
Þá er það komið í ljós. Færðar voru fréttir af verulegri fjármálaóreiðu í starfsemi meðferðarheimilisins Byrgisins í kvöldfréttum. En félagsmálayfirvöld ætla ekki að læra af þessari reynslu. Þau láta starfsemina fara úr höndunum á einum trúarofstækishópnum í hendurnar á þeim næsta. Fyrrverandi forstöðumaður gerði að sögn ýmissa ekki greinarmun á sjálfum sér og guði og nú á Samhjálp að taka við. Enn einn guðshópurinn fær málaflokkinn.
Það er með öllu óþolandi hversu langt stjórnvöld ganga í að koma samfélagslegri ábyrgð á okkar smæstu systkinum úr sínum höndum yfir á herðar einhverra félagasamtaka. Þessi stefna kallast útboðsstefnan og má segja að litið sé á fólk sem þarf á stuðningi og aðstoð að halda eins og hvert annað smíðaútboð. Sá sem vill verkið og væntanlega bíður lægst hann fær það.
Jafnframt má gera ráð fyrir því að yfirvöld félagsmála fylgist ekkert með því sem fram fer eða hvort fjármunirnir verða nýttir í þágu fólksins sem á þeim þarf að halda. Reynsla okkar af Byrginu sýnir að yfirvöld sendu peninginn og skeyttu svo í engu um hvað var gert við aurinn.
Félagsleg þjónusta á borð við þá sem Byrgið hefur rekið á skilyrðislaust að vera í höndum ríkis eða sveitarfélaga, þetta á að vera hluti af sjálfsagðri grunnþjónustu sem á að standa öllum þeim sem á þurfa að halda til boða. Við getum ekki treyst einhverjum hópum sem svo kannski eru fyrst og fremst á sálna- og auraveiðum um málið. Fyrir utan það að fólk sem þarf á meðferð að halda á að geta fengið aðstoð án þess að þurfa að búa við trúarlegt ofstæki á meðan á meðferðinni stendur.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
14.1.2007 | 20:37
2% þjóðarinnar fundu hamingjuna og sumir keyrðu hana heim í bílförmum
Í Fréttablaðinu í morgun birtist mjög athyglisverð frétt á forsíðu sem jafnframt var myndskreytt. Þar mátti sjá fullt af fólki í hörku vinnu við að höndla hamingjuna, geri ég ráð fyrir. Hinsvegar vildi blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina ekki kannast við það að fólk væri þarna í hamingjuleit heldur talaði hann um kaupæði, en fréttin greindi frá úsölu IKEA á útlitsgölluðum vörum. Í fréttinni segir m.a.:
"Tæplega 6000 manns bitust um útlitsgölluð húsgögn og útstillingar og að sögn verslunarstjóra þurftu stórtækustu viðskiptavinir hans vörubíl undir feng sinn."
Það kom einnig fram í fréttinni að þrátt fyrir þessa útsölu sem fram fór í Holtagörðum hafi aðsóknin að IKEA í Garðabænum ekkert minkað.
Það hefur löngu sýnt sig og sannast enn frekar nú að íslendingar eru afskaplega þurfandi þjóð og skortir mikið. Getur það verið að þeir sem versla í bílförmum eigi eitthvað heima hjá sér? Það mætti ætla að svo væri ekki en margt hefur bent til þess að blaðamaðurinn áðurnefndi hafi haft rétt fyrir sér þegar hann talaði um kaupæði þar sem í blaðinu þann 28. ágúst 2005 birtist frétt sem bar yfirskriftina "Kaupæði er vaxandi sjúkdómur".
Í þeirri grein segir m.a.: "Kaupæði er nýr sjúkdómur í samfélaginu....Kaupæði er velmegunarsjúkdómur og tilfelli hans hafa aukist í takt við aukna velmegun...Talið er að um 17 milljónir ameríkana þjáist af kaupæði en engar tölur eru til um kaupæði íslendinga. Þó er talið líklegt að talan sé há hér á Íslandi þar sem íslendingar eru þekktir fyrir lífsgæðakapphlaup og eyðslu. Þeir sem þjást af kaupæði versla vegna einmanaleika, spennu, þunglyndis, skorts á sjálfstrausti...kaupfíklarnir fá samviskubit og sektarkennd."´
Við getum því velt því fyrir okkur hvernig þeim líður sem sitja núna heima með bílfarmana af útlitsgölluðu góssi úr IKEA, samkvæmt þessu ættu þeir að vera þjakaðir af samviskubiti og sektarkennd.
Neyslumenningin og hraðinn sem henni fylgir er orðið að ákveðnu samfélagsmeini sem að mínu mati á bara eftir að auka á óhamingju fólks fyrir utan skaðleg áhrif á umhverfi og náttúru. En sem betur fer eru ýmsir farnir að snúa vörn í sókn og andæfa þessari óheftu græðgi bæði hér á landi sem og úti í hinum stóra heimi.
Ég las um jólin athyglisverða bók sem tengist þessu sem heitir Lifum lífinu hægar eftir breska blaðamanninn Carl Honore. Í bókinni tekur hann saman þá gagnrýni sem komið hefur fram um ýmis einkenni nútímasamfélags s.s. mikinn hraða og tímaskort, neysluhyggju, græðgi, skyndibitamenningu, farsímafíkn, ófhóflega langa vinnudaga og allt það stress og óhamingju sem fylgir í slíku samfélagi.
Tekur hann saman hvernig þessi þættir hafa slæm áhrif á ýmsum sviðum samfélagsins, eins og í mannlegum samskiptum, í skipulagi bæja og borga, í heilsugæslu, uppeldi, vinnumarkaði og matarmenningu svo fátt eitt sé nefnt.
Of fáir gefa sér tíma til þess að staldra við og njóta. Það hefur of lengi þótt flott og bera merki um gott líf ef fólk segir: Það er brjálað að gera, maður hefur bara ekki tíma til neins.Síðan keyrir fólk of hratt, borðar óhollan skyndibita og fer illa með heilsuna af stressi.
Dæmi um afleiðingar hraðasamfélagsins nefnir Carl Honore nokkrar í bókinni sem ég læt fylgja hér til umhugsunar:
Í matvörubúð í Los Angeles kemur til handalögmála við kassann vegna þess að viðskiptavinurinn sem er á undan í röðinni er of lengi að setja í pokana.
Kona í London skrapar með lykli vélarhlíf á bíl sem varð á undan henni í laust stæði.
Háttsettur maður í stórfyrirtæki rýkur á flugþjón þegar vélin neyðist til að hringsóla í heilar tuttugu mínútur yfir Heatrow fyrir lendingu. Ég heimta að við lendum strax á stundinni. Hrópar hann eins og spilltur krakki.
Í þessari bók er mikið af hápólitískum málum sem stjórnmálamenn ættu að fara að gefa gaum. Samfélag hraðans er að mínu mati undirrót margs af því slæma sem samfélög þurfa að takast og er nærtækt að nefna mengun, græðgi, ofbeldi og fíkn.
Við þurfum að fara að gíra samfélag okkar niður, það er ekki á réttri leið
ef við setjum hvert neysluæðið á fætur öðru ár eftir ár, en eins og frægt er orðið var sett íslandsmet í innkaupum þann 23. desember s.l. Fyrir þá sem eru áhugasamir bendi ég auk bókarinnar eftir Carl Honore á fyrirlestur sem Háskóli Íslands gaf út eftir Magnús Skúlason og heitir "Skaðsemi velmegunar, hugliðing um stöðu mannsins í tæknivæddri veröld".
Jóhann Björnsson | ||
» Enginn sagt sína skoðun |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2007 | 17:26
Sigurður Kári er ekki af baki dottinn og fer svo í bréfaskóla í siðfræði
Það var vitað strax í upphafi að það voru mikil mistök að ráðast inn í Írak og nú hefur það svo sannarlega komið enn frekar í ljós hversu afdrifarík þessi mistök voru. Fjöldi óbreyttra borgara hafa fallið, fyrir utan alla þá hermenn infæddra sem og alla lágstéttarkrakkana frá Bandaríkjunum sem Bush sendir á vígvöllin til þess að fá útrás fyrir stríðsæði sitt.
Utanríkisráðherra Íslands Valgerður Sverrisdóttir viðurkennir það í blaðinu í dag að hér hafi verið um mistök að ræða sem byggðust á röngum upplýsingum. Það sem gerðist að mínu mati var einfaldlega það að hér var um að ræða afleiðingu þess að Ísland hefur ekki haft sjálfstæða utanríkisstefnu. Ef við hefðum verið með sjálfstæða utanríkisstefnu hefðum við eðlilega leyft Írökum að njóta vafans og ekki stutt innrásina.
En einn er sá kúreki í fylkingu Bush bandaríkjaforseta sem tjáir sig um málið í blaðinu í dag og heitir Sigurður Kári Kristjánsson og er þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann ætlar sér greinilega að fylgja Bush hvað svo sem Bush gerir og segir hann í blaðinu í dag:
"Ég tel að það hafi ekki verið mistök að lýsa yfir stuðningi við Bandaríkjamenn í þessu máli miðað við þær forsendur sem lágu fyrir þegar sú ákvörðun var tekin....Hvort sem þessi geryrðingarvopn hafa verið til staðar eða ekki er ég á þeirri skoðun að það haf verið þjóðþrifamál að koma Saddam frá völdum."
Greinilegt er að mati Sigurðar Kára að það eitt að koma Saddam frá mátti kosta hvað sem er. En ég held að Sigurður hefði gott af því að fara í smá bréfaskóla í Siðfræði og fá eftirfarandi spurningar í pósti til að rækta siðferðilega mælikvarða sína:
Kæri Sigurður 1) Hvort hefur það reynst almenningi í Írak betra eða verra að ráðist var ínn í landið á sínum tíma?
2) Hversu mörgum óbreyttum borgurum má fórna til þess að koma illum einræðisherra frá?
3) Hver er siðferðileg ábyrgð bandaríkjaforseta gagnvart lágstéttarkrökkunum sem eru í herliðinu hans. Verða herstjórar á borð við Bush ekki einnig að gæta að sínum eigin hermönnum og fjölskyldum þeirra?
Svarið við þessari spurningu í siðfræðibréfaskólanum máttu senda mér í athugasemd við þennan pistil
Bestu kveðjur
Jóhann Björnsson