Getur heimsþekkti afhommarinn líka hommað ef þess er óskað, eða getur Alan Chambers hommað mig?

Sonur minn tæplega fjórtán ára gamall spurði mig í dag hvað það væri að afhomma. Hafði hann lesið fyrirsögn í Fréttablaðinu þar sem sagt var frá því að heimsþekktur afhommari hafi verið í heimsókn hjá Hvítasunnufólki í Keflavík. Ég gat ekki svarað öðru en því að það að afhomma þýddi væntanlega að gera homma að ekki hommum eða m.ö.o. að fá homma til þess að hætta að vera homma. "Nú" svaraði stráksi "og er það hægt?" Tja, mér varð fátt um svör en sagði honum að sumir teldu svo vera en ég væri nú heldur efins um að hommi myndi hætta að vera hommi þó svo að guð og heimsins færustu afhommarar leggðu saman.

Fregn þessi af heimsókn afhommarans vekur mann vissulega til umhugsunar og kveikir með manni fjölda býsna heimspekilegra spurninga sem gaman væri að fá svör við.

* Hversvegna ættu hommar yfirhöfuð að vilja afhommast? Er það ekki eingöngu vegna fjandsamlegs umhverfis sem hommi óskar sér að vera ekki hommi. Ef allir tækju hommanum á sínum eigin forsendum og létu náungakærleikann ráða myndi þá ekki hommin vera sáttur og sæll með líf sitt?

* Ef afhommarinn getur afhommað homma getur hann þá líka unnið í gagnstæða átt? Þ.e.a.s. getur afhommarinn líka hommað einstaklinga þ.e.a.s. gert þá sem ekki eru hommar að hommum? Gæti hann t.d. hommað mig eða gert mig að homma ef ég óskaði þess?

Rithöfundurinn Albert Camus hélt því fram að allir vilji vera eitthvað annað en þeir eru. Þetta er eitthvað sem einkennir manneskjur almennt að hans mati. Ég held að það sem er að gerast hjá hvítasunnumönnum í Keflavík sé það að þeir eru að yfirfæra óánægju sína á sjálfum sér yfir á að vera óánægðir með náungann. Í þessu tilviki eru það hommar sem þeir vilja tutka til og breyta og verða þeir fyrir barðinu á umburðarleysi þeirra og fordómum. Hommar eiga að þeirra mati að vera eitthvað annað en þeir eru.

En ég spyr bara um þann hæfileikaríka afhommara sem um er rætt, getur hann líka aflesbíað? Eða hvers eiga annars lesbíur að gjalda þegar svo mikill maður kemur í heimsókn?

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Heyr, heyr. Frábær lesning

Guðríður Haraldsdóttir, 30.1.2007 kl. 23:08

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Óþokkaleg hugsun sem sprettur upp í minum haus. Þeir sem helst hafa verið kenndir við það að "afhomma" eins og t.d kaþólska kirkjan hefur einna mest verið uppvís að því að misnota unga drengi. Maður bara spyr sig..hvað er undirliggjandi ótti eða afneitun sem þarna virðist vera í gangi? Bentu sem lengst í burtu frá sjálfum þér með það sem ekki má sjást í þér.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 31.1.2007 kl. 00:09

3 identicon

Takk fyrir góðar greinar Jóhann, hef haft virkilega mikla ánægju af að lesa þessar greinar þína. Enda er ég áhugamaður um heimspeki.

Hvenær verður hægt að læra heimspeki í kvöldskóla? Það er hægt að læra allskonar viðskipti, og rekstur bæði í kvöldskóla og dagskóla í háskólum. En ekki félagsfræði, sögu, heimspeki, stjórnmálfræði í kvöldskóla fyrir vinnandi fólk.

Er ekki þörf fyrir heimspekimenntuðum iðnaðarmönnum? 

Sigurður H. Einarsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 00:41

4 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Skyldi vera hægt að „afhvítasunnumanna“ fólk? Í sumum tilvikum væri það a.m.k. óskandi ...

Hlynur Þór Magnússon, 31.1.2007 kl. 02:04

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Takk fyrir mjög góða grein.

Svava frá Strandbergi , 31.1.2007 kl. 03:23

6 identicon

Ég held að öll homma- og lesbíufóbía stafi af því að fólk er að einblína á það hvað fram fari í svefnherbergjum samkynhneigðra og þyki það ógeðfellt.  Það kemur fólki hins vegar ekkert við frekar en kynlíf mitt eða þitt.  Hvenær ætlar fólk að átta sig á að þetta snýst um hina dásamlegu tilfinningu sem ást er?  Sem allir þrá og vilja öðlast og eiga fullan rétt á því!  Ég skal viðurkenna að viðhorf mitt til samkynhneigðra gjörbreyttist þegar ég fór að horfa á samkynhneigð í þessu ljósi.  Hvað er yndislegra en tvær ástfangnar manneskjur, sálufélagar, óháð því af hvaða kyni þær eru!

anna j. (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 09:04

7 Smámynd: Jóhann Björnsson

Sigurður spyr í athugasemdum hér að framan hvenær hægt verði að læra heimspeki í kvöldskóla fyrir fullorðna sem eru á vinnumarkaði. Ég hef lengi spáð í þetta sama enda á heimspekin mikið erindi til alemennings og það er beinlínis rangt að loka þessa grein af innan veggja skólastofnana. Fyrir rúmum 10 árum síðan þegar ég kom heim úr námi frá Belgíu þar sem ég hafði stúderað allnokkuð heimspeki daglegs lífs bauð ég upp á nokkur námskeið fyrir almenning á kvöldin. Námskeiðin voru ágætlega sótt, það voru svona frá 8-15 manns sem komu og ræddum við ýmis dægurmál útfrá vissum heimspekilegum sjónarhornum. Hafði ég mjög gaman af þessum tímum en þar sem þetta var allnokkuð fyrirtæki og kostnaðarsamt að standa einn í þessu leitaði ég til aðila sem halda námskeið eins og Námsflokkana og fleiri en rauninn varð sú að enginn sýndi því áhuga á að bæta þessu við námsskrárnar sínar.

En það er kannski ráð að prófa aftur að kanna hvort aðilar eins og Mímir eða aðrir sem eru með námskeið vilji setja þetta á prógrammið hjá sér.

Jóhann

Jóhann Björnsson, 31.1.2007 kl. 13:40

8 identicon

Auðvitað er ekki hægt að afhomma.

Enda snýst afhommun um það að fá viðkomandi til þess að bæla tilfinningarnar, en það gerir hann ekkert frekar gagnkynhneigðan. Í raun á betur við að nota hugtakið "óvirkur hommi".

Geir Jónsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 13:53

9 Smámynd: Hlynur Sigurðsson

Góð pæling!!!!

Hlynur Sigurðsson, 31.1.2007 kl. 15:45

10 Smámynd: Guðlaugur Kristmundsson

Snillingur! Mikið rosalega þykir mér vænt um þessi skrif.

Guðlaugur Kristmundsson, 31.1.2007 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband