Á ég að panta tíma hjá sænsku ríkisstjórninni? Eða læstur inni á hótelherbergi og kastað öfugum út úr lest (þó ekki á fullri ferð). Seinni hluti.

Þá er komið að seinni hluta ævintýrisins frá Svíþjóð (fyrri hlutann má lesa í  næstu færslu á undan).

Eftir að mér tókst að komast hindrunarlaust inn og út úr herberginu á hótelinu var dvölin öll hin ánægjulegasta. Líður síðan að því að dvölinni lýkur og er tími kominn til að koma sér niður á lestarstöð til að taka lestina til Kaupmannahafnar. Eins og segir frá í fyrri hlutanum höfðum við keypt miða báðar leiðir og taldi ég það bara ansi snjallt að þurfa ekki að hanga í miðasölu til að kaupa miða. Þannig var bara hægt að koma sér út á brautarpall og bíða eftir að lestin kæmi. Ekki leið langur tími þar til hún kom og fengum við ferðafélagarnir okkur sæti og svo rann hún af stað.

Eftir dágóða stund kemur lestarvörðurinn, stór og stæðileg kona sem hefur væntanlega reynt ýmislegt í lestarbransanum, biður um miðana og setur upp leiðinlegan svip (ef kalla má svip leiðinlegan). Kona þessi kom mér fyrir sjónir sem manneskja sem lengi hefur unnið í miðatékkinu og hefur kynnst öllum lélegustu bröndurum farþeganna sem hugsast getur, öllum svikahröppunum og brögðum þeirra og var ekki skemmt yfir nokkrum einasta farþega. Hér var alvarleikinn mættur holdi klæddur. 

"Af hverju var manneskjan svona alvarleg" hugsaði ég. "Þið eruð ekki í réttri lest" sagði hún. "Er þetta ekki lestin sem er að fara til Kaupmannahafnar?" "Jú", "já við erum að fara þangað, hvernig getur þetta ekki verið rétt lest?" "Þetta er bara ekki rétta lestin" sagði hún. "Ja nú skil ég ekki" svaraði ég, "ég er að fara til Kaupmannahafnar og þessi lest er að fara þangað líka, málið getur ekki verið einfaldara." "Þið keyptuð miða með annarri lest þangað" svaraði hún. "Og hvað eigum við að gera?" spurði ég. "Þið verðið að fara út", "ha fara út, eigum við að fara út hérna?" spurði ég og benti á þéttann skóginn fyrir utan. Ég sá hana fyrir mér stöðva lestina og vísa okkur út í skóg en þá sagði hún hvasst "þið farið út í Malmö". "En þá erum við næstum því komin til Kaupmannahafnar" sagði ég og var ekki alveg búinn að gefast upp. "Þið farið út í Malmö" endurtók hún og svo rukkaði hún okkur um fargjald frá Halmstad til Malmö. Að sjálfsögðu byrjaði ég að tuða yfir því hvað þetta væri allt saman ömurlegt og óréttlátt og ótúristavænt. En þá sagði mín kona bara: "Ef þú ert eitthvað óánægður þá skaltu bara tala við ríkisstjórnina."

Þar með var ég mát og endaði á að fara út í Malmö.

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband