Í fréttum sjónvarpsins í gær var greint frá tillögu ungmennaráðs borgarinnar þar sem lagt er til að ungmenni í grunnskólum borgarinnar fái fjármálafræðslu. Í grundvallaratriðum þarf fjármálafræðsla fyrir ungt fólk fyrst og fremst að felast í því að efla með sér gagnrýna hugsun og heilbrigt verðmætamat, þ.e.a.s. átta sig á þörfum og gerviþörfum og skaðsemi velmegunar. Svo þegar það er komið er svosem allt í lagi að segja þeim hvað debet er og kredit og vextir og lán og allt það, en semsagt gagnrýnin hugsun er lykilatriðið.
Í því samhengi er sagan um úlfinn og kiðlingana sjö mjög gagnlegt námsefni. Mín reynsla af bönkunum er sambærileg og reynsla kiðlinganna af úlfinum nema ólíkt þeim þá hef ég aldrei verið étinn þó bankinn minn hafi margoft gert tilraunir til þess með fáránlegum tilboðum. Tökum dæmi:
Úr sögunni: Úlfurinn er búinn að gera ítrekaðar tilraunir til að komast inn og í einni þeirra segir hann: "Þetta er mamma ykkar, kæru börn, ég er komin aftur. Lítið þið bara á alllt góðgætið sem ég færi ykkur!"
Úr veruleika bankanna: Ég fékk oft upphringingar frá bankanum mínum SPRON sem nú er týndur og tröllum gefinn og þar voru samskiptin nákvæmlega eins og hjá úlfinum: "Góðan dag við erum að hringja í okkar betri viðskiptavini (mjög smeðjulega sagt og greinilegt að búið er að mýkja röddina eins og úlfurinn gerði) við erum með svo hagstæð lánatilboð má ekki bjóða þér." Og ég segi (og var álitinn kjánalegur í viðskiptum fyrir vikið): "Ha ertu að meina að þið séuð að bjóða mér skuldir?" Og bankinn: "Nei við erum að bjóða þér mjög gott tilboð sem óvíst er að bjóðist aftur, þú getur farið til útlanda, keypt þér nýjan bíl, endurnýjað allt innbú og þarf ekki að hafa neinar áhyggjur." Ég: "Nei takk bæ."
Og bankinn (úlfurinn) gafst ekki upp og svo leið að jólum: ""Góðan dag við erum að hringja í okkar betri viðskiptavini "mjög smeðjulega sagt og greinilegt að búið er að mýkja röddina eins og úlfurinn gerði) nú bjóðum við þér að hafa engar áhyggjur af jólainnkaupunum . Þú getur greitt jólaverslunina með afborgunum næstu þrjú árin." (ég er ekki að plata ég fékk svona tilboð frá SPRON).
Og svona hefur þetta verið og ég sem "betri viðskiptavinur" hef ekki fengið frið fyrir tilboðum um að skulda. Ég hef hinsvegar aðeins tekið lán tvisvar sinnum á ævinni, annað skiptið var vegna húsnæðiskaupa til 25 ára og verður það uppgreitt eftir um 13 ár og hitt lánið var tekið til tveggja mánaða vegn bifreiðakaupa, en ég mæli ekki með að taka lán til að kaupa bíla. Ég átti inni laun og voru tveir mánuðir þar til ég fengi þau greidd og gamli bíllinn var orðinn 17 ára og búinn að fara rúmlega 200.000 km og brann út þannig að ég ákvað að taka lánið fyrst ég átti inni pening fyrir því og greiða það upp um leið og ég fengi launin sem ég átti inni.
Það eru tvær meginreglur í samskiptum mínum við fjármálastofnanir sem ég get miðlað til unga fólksins og hafa reynst mér mjög vel og þær eru:
1) Bankanum þínum er sama um þig og vill helst að þú skuldir sem mest til að græða á þér og 2) Ekki gera bankanum sem er sama um þig þann greiða að taka lán sem hækkar síðan og hækkar þannig að þú verður að fjárhagslegum aumingja, það er þá betra að neyta sér um hlutina þar til maður hefur safnað sér fyrir þeim.
Semsagt eflum gagnrýna hugsun sem lykilatriði í fjármálafræðslu unga fólksins.
JB
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Facebook
Athugasemdir
Góður Jóhannes .
Margrét (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 09:36
Gott að þú varst á varðbergi.Almenn lífsleikni.
hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 14:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.