Með lögguna á hælunum

Jæja í dag er föstudagurinn langi og þá er nú vissara að haga sér vel. Eins og allir vita er nú ekki hvað sem er leyfilegt á þessum annars ágæta degi. Löggan verður væntanlega með nokkra menn á aukavakt til að fylgjast með því að enginn brjóti svohljóðandi lög:

4. gr. Um starfsemi á helgidögum þjóðkirkjunnar gilda eftirfarandi reglur:
   1. Á helgidögum skv. 1. tölul. 2. gr. er öll almenn starfsemi heimil.
   2. Á helgidögum skv. 2. og 3. tölul. 2. gr. er eftirfarandi starfsemi óheimil:
   a. Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.
   

Það er vissara að vera ekkert að þvælast í bingó eða happdrætti. En ætli maður megi spila opinberlega ólsen ólsen, eða tefla? Eða hvað um að spila matador eða lúdó? Ætli það megi? En hvað um gæsaspilið? Eða veiðimann?

Hvað sem því líður þá er það allavega á hreinu að löggan gæti væntanlega handtekið mann og látið mann dúsa á bakvið lás og slá upp á vatn og brauð fyrir að spila bingó opinberlega. Og það er svo skrítið að fólk hér í bæ hefur ákveðið að skipulegja bingó á Austuvelli kl. 13.00. Ég bara spyr hvað er að þessu fólki eiginlega? Hvernig dettur því annað eins í hug? Þekkir það ekki lögin og veit það ekki hverjar afleiðingarnar geta orðið? Það sem mér finnst sorglegast við þetta bingó mál er að mér finnst svo svakalega gaman að spila bingó og mig langar svo mikið til að vera með á Austuvelli, en ég er ekkert of ánægður með að brjóta lög. Hvað á ég að gera? Þetta er greinilega siðferðisklemma föstudagsins langa.

Ég er að reyna að hafa hemil á bingólöngun minni en ef ég skyldi ekki ráða við hana og mæta á Austurvöll kl. 13.00 á eftir er alveg víst að ég mun vera í vel reimuðum strigaskóm til þess að geta hlaupið hratt þegar (trúar-)lögreglan kemur og stingur öllum í steininn.

Í lögunum er reyndar líka talað um bann við happdrætti. Í gær bankaði maður upp á og var að selja happdrættismiða fyrir heyrnarlausa. Ég vona bara að hann sé ekki að selja miðana í dag því þá þarf hann kanski líka að sitja á bakvið lás og slá fyrir þann skelfilega glæp. (Það er spurning hvort ég ætti að hringja í lögguna og láta vita að hugsanlega sé maður á ferðinni í borginni að selja happdrættismiða fyrir herynarlausa).

JB


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Íslamd í dag ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 11:25

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ég kveiki á kertum mínum.

Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.
Í gegnum móðu' og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.

Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.-
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.

Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.

Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.

Davíð Stefánsson
.

Það er bara gaman að ykkur.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 21.3.2008 kl. 19:20

3 Smámynd: Stefanía

Æ ,krakkar.... af hverju ekki að halda í þessar hefðir, þetta eru ekki nema 3 eða 4 dagar á ári sem við þurfum að halda okkur á mottunni !  Hljótum að halda það út.

Stefanía, 28.3.2008 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband