Þar sem nemendurnir þjást af frumspekilegu hjálparleysi. Heimspeki í skólum annar hluti

Heimspeki skyldufag (nokkur atriði úr erindi mínu á málþingi heimspekistofnunar um heimspeki og skóla).

Það gerðist nú í haust að ákveðið var að heimspeki yrði skyldufag í 8. bekk við Réttarholtsskóla. Og það sem meira er að það var jafnframt ákveðið að hálfur bekkur yrði í hverjum tíma eða ýmist 14 eða 15 nemendur. Hver nemandi í 8. bekk við skólann sækir semsagt tíma í heimspeki í 40 mínútur í viku hálfan veturinn.

Það er óhætt að fullyrða að þessir tímar eru af minni hálfu tilraunastarfsemi í vetur, enda að vissu leyti ólíkt að hafa nemendur sem eru í skyldunámi eða að hafa nemendur sem sækja heimspeki sem valgrein. Í kaffihlénu á málþinginu var spjallað um það hvort það yrði heimspekinni til góðs að gera hana að skyldufagi og reyndust menn allsammála um að ekki væri það víst. En mér finnst vert að gefa þessari tilraun tækifæri og sjá hver útkoman verður í lok skólaárs.

Það sem af er vetrar hefur þetta gengið alveg prýðilega þó ég sjái það fyrir mér að þessir tímar eigi eftir að ganga enn betur þegar ég hef áttað mig á því hvar áhugasvið unglinga liggja og rúmast geta innan heimspekinnar.

Það sem ég er fyrst og fremst að leitast við að gera í þessum hópi er heimspekileg samræða þar sem gagnrýnin, frjó og  skapandi hugsun er ætlað að leika ákveðið lykilhlutverk. Vissulega hefur það gengið misjafnlega enda um byrjendur í faginu að ræða, en þessir tíma lofa bara nokkuð góðu.

Í vetur höfum við m.a. tekið fyrir spurningar af vísindavef H.Í. Nemendurnir hafa fengið að búa til sínar eigin spurningar, við ræðum ýmis mál s.s. hvort rangt sé að borða ketti, hvort draugar séu til, hvað má finna heimspekilegt í ýmsum teiknimyndasögum og hvað einkenni þá sem teljast fallegir, hvernig maður fer að við að taka erfiðar ákvarðanir, hvort maður megi smakka vínber í matvöruverslunum og ef svo er hversu mörg þá (hvenær verður smökkun að þjófnaði var spurt), svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.

Ég hef tekið eftir því að varðandi viðbrögð nemendanna í kennslustundum þá má skipta þeim í þrennt í öllum bekkjum (en um er að ræða fjóra bekki)

Í fyrsta lagi eru það áhugasömu nemendurnir sem lyftast upp í sætunum og eru greinilega að finna sig í einhverju spennandi. Þetta eru ekki endilega nemendur sem eru áhugasamir eða til fyrirmyndar í öllum greinum, þetta eru nemendur sem heimspeki höfðar til.

Í öðru lagi eru það óþolinmóðu nemendurnir. "Viltu hætta þessum umræðum og segja okkur hvað svarið er?, Má maður borða ketti eða ekki? Eru draugar til eða ekki? Hvernig varð heimurinn til?" Hér eru nemendur sem óska sér þess að heimspeki sé bara eins og landafræði, að allar spurningar eigi sér svör sem má sannreyna rétt eins og mæla má dýpt stöðuvatna.

Svo í þriðja lagi eru það þeir sem örmagnast í kennslustundum. Þetta eru nemendur sem finnst það mjög yfirþyrmandi að takast á við svona erfiðar spurningar en flokkast ekki sem óþolinmóðir. Heimspekilegar spurningar verða þeim oft um megn og þeir falla fram á borðin og gefast upp. Og yfirleitt leyfi ég þeim bara að falla fram á borðin og þjást undir þessum skelfilegu heimspekilegu samræðum. Stundum getur þjáningin haft gildi, ekki síst þegar hún felur í sér frumspekilegt hjálparleysi eins og heimspekingarnir á meginlandinu kölluðu ástandið einu sinni.

En það er gaman að þessu.

JB

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

40 mínútur í viku hverri ekki satt?

Ingibjörg Friðriksdóttir, 20.11.2007 kl. 14:50

2 identicon

Ein heimsspekileg spurning til þín, Jóhann: Telur þú að ástand mála í veröldinni sé með þeim hætti, að vogandi sé fyrir ungt fólk, að eignast börn? Vonskan, græðgin, umhverfisógnin, hryðjuverk og svo framvegis - er virkilega vogandi fyrir fólk að bera ábyrgð á litlum börnum þegar allt er svona skelfilegt?

Kveðja,

Sigurður Bogi Sævarsson

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 15:10

3 identicon

Sæll Jóhann!

Áhugaverður pistill og einlægni við mat á nemendum!  Ég vil nú segja við Sigurð sem commentaði hér að ofan að sennilega fyllir hann þriðja hópinn, örmögnun, varðandi ástandið í heiminum í dag. En betur skal ef duga má, við gefumst ekki upp, heldur reynum frekar að hjálpa ungviðinu og nemendum að takast á við samtímann sinn með því að ala á skapani hugsun og gagnrýninni eins og þú ert að gera Jói.  Hver veit nema við leysum eitthvað af þessum vandamálum sem Sigurður nefnir, og svo koma ný og krefjandi verkefni að leysa ...

Kveðja, Hrefna Guðmundsdóttir 

Hrefna Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband