Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvernig á grunnskóli í fjölmenningarlegu samfélagi að vera?

Fyrsta tölublað þessa árs af bandaríska tímaritinu Free Inquiry barst mér í gær. Tímarit þetta fjallar um þjóðfélagsmál, heimspeki, trúarbrögð og siðfræði svo fátt eitt sé nefnt. Þeir sem skrifa reglulega greinar eru færir á sínu sviði og má þar t.d. nefna ritstjórann Paul Kurts prófessor í heimspeki, Peter Singer sem einnig er heimspekiprófessor og Richard Dawkins prófessor í náttúruvísindum. Sá síðast nefndi hélt reyndar fyrirlestur hér á landi s.l. sumar.

Í þessu hefti er mikið rætt um vísindasiðfræði en það sem ég ætla að gera að umtalsefni í þessum pistli er nokkuð sem ritstjórinn Paul Kurtz ræðir í grein og við íslendingar þurfum nauðsynlega að huga að, en það hefur með fjölmenningarlegt samfélag að gera og þann siðferðilega grunn sem slíkt samfélag þarf að byggja á.

Eitt af því sem er mest um vert þegar byggja skal siðferðilegan grunn undir fjölmenningarlegt samfélag er hvernig skólarnir og yfirvöld menntamála hugsa þessa hluti. Skólinn á m.a. að undirbúa nemendur undir að verða að ábyrgum borgurum í lýðræðislegu samfélagi sem geta umborið fjölbreytileika mannlífsins. Kurtz ræðir í grein sinni þann skóla sem hann gekk í sem barn og segir hann að þar hafi verið samankomnir m.a. írskir kaþólikkar, enskir mótmælendur, gyðingar, ítalir, þjóðverjar osfrv.  "Við lærðum að búa saman, virða það að við vorum ólík og deila sameiginlegum gildum." segir Kurtz.

En Kurtz heldur áfram og segir að í nútíma bandarísku samfélagi sé mjög hart sótt að þessum fjölmenningarlegu gildum sem felast í umburðarlyndinu og er í síauknum mæli farið að bera á skiptingu samfélagsins í einhverskonar "við" og "hinir" móral þar sem einn hópur reynir að yfirgnæfa annan og troða sínum lífsgildum á hann í stað þess að ákveðið hlutleysi sé virt í samskiptum.

 Þessi reynsla sem Kurtz ræðir úr bandarísku samfélagi þurfum við að hafa í huga ekki síst núna þegar unnið er að endurskoðun Aðalnámsskrár grunnskólans. Hvaða þætti á að leggja áherslu á þegar samskipti ólíkra hópa er annarsvegar? Hvaða nafni á að nefna það siðferði sem leggja skal rækt við, eigum við að kalla það kristilegt siðferði eins og nú er, almennt siðferði eða einfaldlega bara gott siðferði? Þetta er eitt af því sem þeir sem vinna að endurskoðuninni þurfa að ákveða.

Það sem er að mínu mati eitt vandasamasta verkefni þeirra sem eru að endurskoða Aðalnámskrá grunnskóla er það hvernig skuli málum þannig háttað að allir geti vel við unað. Hvernig tekst til við að halda í hávegum ákveðinni virðingu hinna ýmsu hópa sín á milli, fólks af ólíkum uppruna, fólks með mismunandi trúar og lífsskoðanir.

Hvað finnst ykkur? Hvernig á grunnskóli í fjölmenningarlegu samfélagi framtíðarinnar að vera?

Öll sjónarmið vel þegin.

JB


Höfuðið fór af bróður Saddams og fjölskyldunni svelgdist á súpunni.

Eftir að sjónvarpið ákvað að hafa sjónvarpsfréttatíma sinn kl. 19.00 hafa margar fjölskyldur sem vilja fylgjast með fréttum ákveðið að fylgjast með um leið og matast er. Er þetta að mörgu leyti afskaplega óheppilegt og ég tala nú ekki um afskaplega ófjölskylduvænt og á köflum ógeðfellt svona rétt þegar matast er ef fréttirnar eru þess eðlis.

Í kvöldfréttum í gærkvöldi 14. jan. yfir súpuskálinni fékk maður að heyra m.a. af aftöku bróður Saddams Hussein og komst maður ekki hjá því að heyra sitthvað meira en að maðurinn hafi verið tekinn af lífi með hengingu. Það fylgdi nefnilega sögunni að höfuðið hafi farið af manninum við aftökuna.

Nú mætti ætla að ég væri svona svakalega klígjugjarn og viðkvæmur en ég get svo sem alveg þraukað svona tal yfir súpunni minni en ég hef eiginlega meiri áhyggjur af öllum börnunum sem þurfa að heyra þetta þar sem kveikt er á sjónvarpinu. Rétt eins og yfirleitt er varað við þegar myndefni er ekki við hæfi barna þá finnst mér að annaðhvort ættu fréttamenn að vara við lesnum textum þegar því er að skipta eða bara gæta orða sinna, barnanna vegna. Hefði t.d. ekki verið nóg að segja manninn hafa verið tekinn af lífi með hengingu. Þurfti nauðsynlega að tiltaka það sérstaklega að höfuðið hafi farið af sem hugsanlega hefur orðið tilefni til umræðna við matarborðið um rúllandi höfuð út um allar trissur með fremur ógeðfelldum tilhugsunum og kannski martröðum sem slíku fylgir.

Fréttamenn spáið í þetta þar sem þið hafið nú þröngvað ykkur ofan í matardiskana okkar með því að sjónvarpa fréttum kl. 19.00. (og ekki segja að við getum bara slökkt, við viljum fylgjast með því sem er að gerast).

JB


Félagsmálayfirvöld færa starfsemi Byrgisins frá einum ofsatrúarhópnum til þess næsta

Þá er það komið í ljós. Færðar voru fréttir af verulegri fjármálaóreiðu í starfsemi meðferðarheimilisins Byrgisins í kvöldfréttum. En félagsmálayfirvöld ætla ekki að læra af þessari reynslu. Þau láta starfsemina fara úr höndunum á einum trúarofstækishópnum í hendurnar á þeim næsta. Fyrrverandi forstöðumaður gerði að sögn ýmissa ekki greinarmun á sjálfum sér og guði og nú á Samhjálp að taka við. Enn einn guðshópurinn fær málaflokkinn.

Það er með öllu óþolandi hversu langt stjórnvöld ganga í að koma samfélagslegri ábyrgð á okkar smæstu systkinum úr sínum höndum yfir á herðar einhverra félagasamtaka. Þessi stefna kallast útboðsstefnan og má segja að litið sé á fólk sem þarf á stuðningi og aðstoð að halda eins og hvert annað smíðaútboð. Sá sem vill verkið og væntanlega bíður lægst hann fær það.

Jafnframt má gera ráð fyrir því að yfirvöld félagsmála fylgist ekkert með því sem fram fer eða hvort fjármunirnir verða nýttir í þágu fólksins sem á þeim þarf að halda. Reynsla okkar af Byrginu sýnir að yfirvöld sendu peninginn og skeyttu svo í engu um hvað var gert við aurinn.

Félagsleg þjónusta á borð við þá sem Byrgið hefur rekið á skilyrðislaust að vera í höndum ríkis eða sveitarfélaga, þetta á að vera hluti af sjálfsagðri grunnþjónustu sem á að standa öllum þeim sem á þurfa að halda til boða. Við getum ekki treyst einhverjum hópum sem svo kannski eru fyrst og fremst á sálna- og auraveiðum um málið. Fyrir utan það að fólk sem þarf á meðferð að halda á að geta fengið aðstoð án þess að þurfa að búa við trúarlegt ofstæki á meðan á meðferðinni stendur.

JB


2% þjóðarinnar fundu hamingjuna og sumir keyrðu hana heim í bílförmum

Í Fréttablaðinu í morgun birtist mjög athyglisverð frétt á forsíðu sem jafnframt var myndskreytt. Þar mátti sjá fullt af fólki í hörku vinnu við að höndla hamingjuna, geri ég ráð fyrir. Hinsvegar vildi blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina ekki kannast við það að fólk væri þarna í hamingjuleit heldur talaði hann um kaupæði, en fréttin greindi frá úsölu IKEA á útlitsgölluðum vörum. Í fréttinni segir m.a.:

"Tæplega 6000 manns bitust um útlitsgölluð húsgögn og útstillingar og að sögn verslunarstjóra þurftu stórtækustu viðskiptavinir hans vörubíl undir feng sinn."

Það kom einnig fram í fréttinni að þrátt fyrir þessa útsölu sem fram fór í Holtagörðum hafi aðsóknin að IKEA í Garðabænum ekkert minkað.

Það hefur löngu sýnt sig og sannast enn frekar nú að íslendingar eru afskaplega þurfandi þjóð og skortir mikið. Getur það verið að þeir sem versla í bílförmum eigi eitthvað heima hjá sér? Það mætti ætla að svo væri ekki en margt hefur bent til þess að blaðamaðurinn áðurnefndi hafi haft rétt fyrir sér þegar hann talaði um kaupæði þar sem í blaðinu þann 28. ágúst 2005 birtist frétt sem bar yfirskriftina "Kaupæði er vaxandi sjúkdómur".

Í þeirri grein segir m.a.: "Kaupæði er nýr sjúkdómur í samfélaginu....Kaupæði er velmegunarsjúkdómur og tilfelli hans hafa aukist í takt við aukna velmegun...Talið er að um 17 milljónir ameríkana þjáist af kaupæði en engar tölur eru til um kaupæði íslendinga. Þó er talið líklegt að talan sé há hér á Íslandi þar sem íslendingar eru þekktir fyrir lífsgæðakapphlaup og eyðslu. Þeir sem þjást af kaupæði versla vegna einmanaleika, spennu, þunglyndis, skorts á sjálfstrausti...kaupfíklarnir fá samviskubit og sektarkennd."´

Við getum því velt því fyrir okkur hvernig þeim líður sem sitja núna heima með bílfarmana af útlitsgölluðu góssi úr IKEA, samkvæmt þessu ættu þeir að vera þjakaðir af samviskubiti og sektarkennd.

 Neyslumenningin og hraðinn sem henni fylgir er orðið að ákveðnu samfélagsmeini sem að mínu mati á bara eftir að auka á óhamingju fólks fyrir utan skaðleg áhrif á umhverfi og náttúru. En sem betur fer eru ýmsir farnir að snúa  vörn í sókn og andæfa þessari óheftu græðgi bæði hér á landi sem og úti í hinum stóra heimi.

 

Ég las um jólin athyglisverða bók sem tengist þessu sem heitir “Lifum lífinu hægar” eftir breska blaðamanninn Carl Honore. Í bókinni tekur hann saman þá gagnrýni sem komið hefur fram um ýmis einkenni nútímasamfélags s.s. mikinn hraða og tímaskort, neysluhyggju, græðgi, skyndibitamenningu, farsímafíkn, ófhóflega langa vinnudaga og allt það stress og óhamingju sem fylgir í slíku samfélagi.

 

 Tekur hann saman hvernig þessi þættir hafa slæm áhrif á ýmsum sviðum samfélagsins, eins og í mannlegum samskiptum, í skipulagi bæja og borga, í heilsugæslu, uppeldi, vinnumarkaði og matarmenningu svo fátt eitt sé nefnt.

 

 Of fáir gefa sér tíma til þess að staldra við og njóta. Það hefur of lengi þótt flott og bera merki um gott líf ef fólk segir: “Það er brjálað að gera, maður hefur bara ekki tíma til neins.”Síðan keyrir fólk of hratt, borðar óhollan skyndibita og fer illa með heilsuna af stressi.

 

 Dæmi um afleiðingar hraðasamfélagsins nefnir Carl Honore nokkrar í bókinni sem ég læt fylgja hér til umhugsunar:

 

 “Í matvörubúð í Los Angeles kemur til handalögmála við kassann vegna þess að viðskiptavinurinn sem er á undan í röðinni er of lengi að setja í pokana.”

 

 “Kona í London skrapar með lykli vélarhlíf á bíl sem varð á undan henni í laust stæði.”

 

 “Háttsettur maður í stórfyrirtæki rýkur á flugþjón þegar vélin neyðist til að hringsóla í heilar tuttugu mínútur yfir Heatrow fyrir lendingu. “Ég heimta að við lendum strax á stundinni.” Hrópar hann eins og spilltur krakki.”

 

 Í þessari bók er mikið af hápólitískum málum sem stjórnmálamenn ættu að fara að gefa gaum. Samfélag hraðans er að mínu mati undirrót margs af því slæma sem samfélög þurfa að takast og er nærtækt að nefna mengun, græðgi, ofbeldi og fíkn.

 

 Við þurfum að fara að “gíra” samfélag okkar niður, það er ekki á réttri leið

ef við setjum hvert neysluæðið á fætur öðru ár eftir ár, en eins og frægt er orðið var sett íslandsmet í innkaupum þann 23. desember s.l.

Fyrir þá sem eru áhugasamir bendi ég auk bókarinnar eftir Carl Honore á fyrirlestur sem Háskóli Íslands gaf út eftir Magnús Skúlason og heitir "Skaðsemi velmegunar, hugliðing um stöðu mannsins í tæknivæddri veröld".

 

 Jóhann Björnsson

 


Sigurður Kári er ekki af baki dottinn og fer svo í bréfaskóla í siðfræði

Það var vitað strax í upphafi að það voru mikil mistök að ráðast inn í Írak og nú hefur það svo sannarlega komið enn frekar í ljós hversu afdrifarík þessi mistök voru. Fjöldi óbreyttra borgara hafa fallið, fyrir utan alla þá hermenn infæddra sem og alla lágstéttarkrakkana frá Bandaríkjunum sem Bush sendir á vígvöllin til þess að fá útrás fyrir stríðsæði sitt.

Utanríkisráðherra Íslands Valgerður Sverrisdóttir viðurkennir það í blaðinu í dag að hér hafi verið um mistök að ræða sem byggðust á röngum upplýsingum. Það sem gerðist að mínu mati var einfaldlega það að hér var um að ræða afleiðingu þess að Ísland hefur ekki haft sjálfstæða utanríkisstefnu. Ef við hefðum verið með sjálfstæða utanríkisstefnu hefðum við eðlilega leyft Írökum að njóta vafans og ekki stutt innrásina.

En einn er sá kúreki í fylkingu Bush bandaríkjaforseta sem tjáir sig um málið í blaðinu í dag og heitir Sigurður Kári Kristjánsson og er þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann ætlar sér greinilega að fylgja Bush hvað svo sem Bush gerir og segir hann í blaðinu í dag:

"Ég tel að það hafi ekki verið mistök að lýsa yfir stuðningi við Bandaríkjamenn í þessu máli miðað við þær forsendur sem lágu fyrir þegar sú ákvörðun var tekin....Hvort sem þessi geryrðingarvopn hafa verið til staðar eða ekki er ég á þeirri skoðun að það haf verið þjóðþrifamál að koma Saddam frá völdum."

Greinilegt er að mati Sigurðar Kára að það eitt að koma Saddam frá mátti kosta hvað sem er. En ég held að Sigurður hefði gott af því að fara í smá bréfaskóla í Siðfræði og fá eftirfarandi spurningar í pósti til að rækta siðferðilega mælikvarða sína:

Kæri Sigurður  1) Hvort hefur það reynst almenningi í Írak betra eða verra að ráðist var ínn í landið á sínum tíma?

2) Hversu mörgum óbreyttum borgurum má fórna til þess að koma illum einræðisherra frá?

3) Hver er siðferðileg ábyrgð bandaríkjaforseta gagnvart lágstéttarkrökkunum sem eru í herliðinu hans. Verða herstjórar á borð við Bush ekki einnig að gæta að sínum eigin hermönnum og fjölskyldum þeirra?

Svarið við þessari spurningu í siðfræðibréfaskólanum máttu senda mér í athugasemd við þennan pistil

Bestu kveðjur

Jóhann Björnsson

 


Hvar eru allar bækurnar? Smá pæling um heimsins besta háskóla

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðunni um metnaðarfull áform háskólafólks um að koma Háskóla Íslands í röð 100 bestu háskóla heims. Ég yrði að sjálfsögðu eins og eflaust allir landsmenn afskaplega ánægður ef HÍ yrði í þeim hópi. Þrátt fyrir að vera ekki í hópi þeirra bestu getum við að mörgu leyti vel við unað því við erum að keppa við mjög öfluga skóla úti í heimi sem hafa margra alda sögu.

Fyrir um 11 árum kom ég heim úr MA námi úr skóla í Belgíu sem var stofnaður árið 1425. Sá skóli er síður en svo sá eini í heiminum sem er svo gamall. Við getum því auðveldlega séð í hendi okkar að skólar sem hafa svo langa sögu hafa mjög mikið forskot á okkur sem við náum kannski ekki endilega á svipstundu. Því yrðum við nokkuð góð ef við kæmumst í hóp 500 bestu á næstunni.

Forskot svona gamalla skóla felst ekki síst í rita og gagnakosti. Ég man þegar ég var nýkomin úr námi að utan og fór í fyrsta sinn í Þjóðarbókhlöðuna, en hún hafði verið tekin í notkun meðan ég var úti við nám. Ég gekk inn og á milli hæða og sá nokkra hálftóma bókarekka hér og þar og mér fannst þetta eitthvað skrítið svo ég vatt mér að starfsmanni og spurði hvar bækurnar væru geymdar. Mér var bent á það sem ég hafði séð. Í sambanburði við bókakost Leuvenháskóla í Belgíu fannst mér þetta afskaplega rýrt. Mér sýndist í fljótu bragði allur sýnilegur bókakostur Þjóðabókhlöðunnar vera svipaður að magni og allur bókakostur bókasafns heimspekiskorar Leuvenháskóla. Eru þá bókasöfn allra annarra deilda þar úti ótalin.

En varðandi það að meta skóla í heild sinni að gæðum og raða upp þá verð ég að viðurkenna að ég skil þetta ekki alveg til fulls. Vissulega eru einhverjir staðlar notaðir en ég held að háskólar sem hafa margar deildir og margar skorir sem eru ólíkar hljóta að vera misjafnar að gæðum. Sérhæfing háskólanna innan greinanna er líka mikil og sem dæmi get ég nefnt heimspeki sem er mín grein. Heimspekin greininst í ýmsar undirgreinar og það er eflaust erfitt að meta hvaða deild er sú besta. Ein kann að vera í hópi 10 bestu deilda í fyrirbæraræði á meðan önnur er á meðal 10 bestu í stjórnmálaheimspeki og sú þriðja best á sviði fornaldarheimspeki og svona mætti áfram telja.

Spurningin sem eftir stendur varðandi Háskóla Íslands er því sú hvort skólinn ætlar sér að verða í hópi 100 bestu skóla í tannlæknakennslu, sagnfræðikennslu, dönskukennslu og öllum hinum greinunum sem kenndar eru auk rannsókna eða ætlar skólinn að einbeita sér að einhverjum ákveðnum sviðum til að ná þessum markmiði þar?

Stundum verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti og taki eitt skref í einu.

JB


Skólaþrældómurinn

Eftir að hafa kennt í unglingadeild grunnskóla í bráðum sex ár og ekki síst eftir að sonur minn byrjaði í 8. bekk er ég á því að vinnuálag unglinga er mjög oft langt umfram það sem góðu hófi gegnir. Sérstaklega á þetta við um unglinga sem eiga sér eitthvað líf fyrir utan skóla og eru í íþróttum eða tónlistarnámi eða einhverju þessháttar.

Dæmigerð viðvera unglings í 8. bekk grunnskóla svo tekið sé mið af einni stundatöflu er þrjá daga í viku frá kl. 08.05 -14.40, einn dag í viku frá kl. 08.05 - 14.00 og einn dag frá kl.08.05 - 13.10. Síðan er heimavinna og því miður virðast sumir kennarar vera haldnir þeirri röngu hugmynd að gæði kennslu felist í því að leggja sem mest á börnin; það á að lesa stór bókmenntaverk á ýmsum tungumálum, það á að skrifa ritgerðir, vinna vinnubækur, læra málfræðireglur, reikna dæmi ofl ofl og mikið af þessu er gert heima. Að sjálfsögðu eru stífir skilafrestir á þessu öllu saman svo að kennarar hafi nú eitthvað að segja við foreldra í foreldraviðtölunum því ekkert er verra að mati sumra kennarar en að þögnin ein ríki í foreldraviðtölum. Nú svo eru gefna einkunnir fyrir þetta allt saman og sjálfsmynd nemenda mótast síðan smátt og smátt í ljósi þessarar vinnu sem oft þarf að vinna á kvöldin og um helgar nema viðkomandi hætti í tónlistinni eða íþróttunum eða fermingarfræðslunni. Ég læt nú eiginlega vera að tala um kaflaprófin, skyndiprófin, annarprófin, jólaprófin, vorprófin, samræmduprófin og hvað nú þær heita allar þessar mælistikur.

Þegar ég spái í þessa löngu vinnudaga unglinganna þá velti ég því stundum fyrir mér hvaða kennarar það voru í minni skólagöngu sem höfðu mest áhrif á mig. Voru það málfræðifasistarnir sem ætluðust til þess að maður lægi daginn út og daginn inn yfir þurrum málfræðiæfingum eða aðrir álíka verkefnamiðaðir kennarar. Nei, ég satt að segja man afskaplega lítið eftir svoleiðis kennurum. Þeir kennarar sem ég man eftir og hugsa hlýlega til voru þeir sem gáfu mér eitthvað, kenndu mér eitthvað sem hefur gagnast mér án þess að ég eigi auðvelt með að festa hendur á því hvað það var nákvæmlega sem þeir kenndu. Þetta voru þeir kennarar (þeir voru því miður of fáir) sem kenndu "sjálfa sig". Þetta voru þeir sem gáfu af sér með því að gefa sér tíma til þess að staldra við, leggja stundum bækurnar til hliðar og ræða við okkur. 

Samræðan er stórlega vanmetin í grunnskólastarfi þar sem ég þekki til, en spyrja má hvernig verða einstaklingar sem aldrei er talað við?

Annað sem ég vil einnig varpa til umhugsunar er hlutur hamingjunnar í skólastarfi. Hversu háan sess fær hamingjan í aðalnámskrá grunnskóla? Ég hef margoft lesið aðalnámskrá gunnskóla og eflaust er einhversstaðar talað um að skólinn eigi að stuðla að hamingju nemenda, en málið er bara það að það fer svo lítið fyrir henni og ef hún er þar þá man ég ekki eftir henni.

Ég hef því verkefni handa ykkur lesendur góðir að fletta upp í aðalnámskrá grunnskóla og finna hvar talað er um að skólinn skuli stuðla að hamingju nemenda. Ljóst er að útúrstressaðir nemendur af vinnuálagi verða seint hamingjusamir. Þvert á móti er því miður of oft verið að ala börnin upp í því að dyggð sé að vera útúrstressaður vinnualki.

En við skulum hinsvegar gá að því að hamingja er það besta sem við sem störfum í skólum getum gefið unglingunum okkar.

JB


Spilakassar í Örfirisey,eða vill einhver spila við þá sem aldrei geta tapað?

Borgarstjórinn okkar er ábyggilega voða góður karl (gamli góði Villi) en hann má eiga það þrátt fyrir alla sína gæsku að vera oft frekar klaufalegur. Í baráttu sinni gegn spilakössum lagði hann það til í sjónvarpsviðtali hvort ekki væri ráð að setja spilakassana út í Örfirisey. Og hvað er svona klaufalegt við þessa hugmynd?

Jú andstaða borgarstjóra gegn spilakössum í Mjóddinni er flott, en það sem mér finnst ekki eins flott er að færa spilaruglið til í bænum þó svo að staðurinn sé ekki beint í alfaraleið. Ég er á þeirri skoðun að spilakassar eigi ekki að líðast í landinu, en nú eru starfræktir 970 spilakassar í landinu.

Ég komst að þessari skoðun þegar ég var í framhaldsskóla  og málið var rætt í sálfræðitíma. Þar sagði kennarinn að spilakassarnir væru þannig úr garði gerðir að þeir geta aldrei tapað spili. Er einhver sem vill spila við þá sem aldrei geta tapað? Eftir að ég fór að hugsa spilakassana á þann hátt varð ég mjög andsnúainn þeim, enda fjölmargir sem ánetjast þeim og tapa aleigunni.

Því miður eru ýmsir sem fjármagna starfsemi sína að hluta a.m.k. með rekstri spilakassa og er það mjög vafasöm leið til fjármögnunar. Ég hef t.d. aldrei heyrt um nokkurn mann sem fer í spilakassa eingöngu til þess að styrkja gott málefni.

Háskólinn er ansi öflugur í að efla spilafíkn landsmanna og það er svo merkilegt hversu vafasöm fjármögnun Háskólans er, því skólinn fjármagnar sig ekki bara með eflingu spilafíknar heldur er okkur vesalingunum sem stöndum utan allra trúfélaga gert að greiða okkar "sóknargjöld" til skólans án þess að fá nokkra þjónustu fyrir vikið.

Svo heyrði ég einhverntíman um að SÁÁ sem berst gegn fíkn starfrækti spilakassa. Ég vona að svo sé ekki lengur því ef svo er hver er þá munurinn að reka spilakassa sem gerir út á spilafíkn eða selja brennivín sem gerir út á áfengisfíkn?

En málið verður rætt á laugardaginn kl. 11-13 á fundi hjá vinstri grænum  að Suðurgötu 3. Frummælandi verður Ögmundur Jónasson. Allir hvattir til að mæta og taka þátt í skoðanaskiptum um þetta mál.

JB


Velferðarstefna borgarstjórnarmeirihlutans í verki

Í kvöldfréttum gat að líta eitt afrek borgarstjórarmeirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í velferðarmálum í verki, en þá var greint frá því að loka þurfti gistiskýlinu við Þingholtsstræti s.l. sunnudag vegna manneklu. Starfsmönnum skýlisins var sagt upp í haust og ekki hefur verið gengið til samninga að nýju.

Þrátt fyrir að sextán einstaklingar sem öllu jöfnu sækja skýlið þurfi að sofa úti á þessum kaldasta árstíma þá segir sviðsstjóri velferðarsviðs málið í eðlilegum farvegi. Já í eðlilegum farvegi og á meðan sofa menn úti í frostinu. Ég teldi nær að kalla þennan "eðlilega" farveg neyðarástand.

Mér sýnist borgaryfirvöld vera komin á býsna hættulega braut með því að bjóða þegnum sínum sem hvergi hafa höfði að halla ekkert annað en götuna, ekki síst eins og tíðin er um þessar mundir. Má ekki segja að hér sé í raun verið að brjóta mannréttindi í ljósi þess að ekki er ljóst hvort menn geti lifað af úti í þessum kulda sem nú er í borginni.

JB


Hefur meirihlutinn alltaf rétt fyrir sér og leyfist honum hvað sem er?

Það var athyglisvert að horfa á þáttastjórnendur Íslands í býtið þau Heimi Karlsson og Sirrý ræða í morgun við Reyni Harðarson um Vinaleiðina svokölluðu. Vinaleiðin er hluti af kærleiksþjónustu krikjunnar og er sumstaðar kostuð af sveitarfélögum og sumsstaðar af einkaaðilum og henni stýra ýmist djáknar eða prestar Þjóðkirkjunnar. Reynir hefur gagnrýnt það að þessi trúarlega þjónusta sem klárlega flokkast sem trúboð skuli fara fram í almennum grunnskólum á þeirri forsendu að trúboð eigi ekki að eiga sér stað í skólum landsins eins og klárlega er kveðið á um í Aðalnámskrá grunnskóla.

Og svo tóku Sirrý og Heimir til við að spyrja Reyni og voru það heldur kostulegar spurningar sem hann fékk og alloft frekar einfaldar og sjálfsmiðaðar. Það eina sem þessum færu fjölmiðlamönnum datt í huga að koma á framfæri var í raun þetta:

1) Sirrý er hvorki skírð né fermd og varð aldrei fyrir aðkasti fyrir það að skera sig þannig úr í skóla. Þar af leiðandi getur það að hennar mati ekki verið satt ef því er haldið fram einhverjir aðrir verði fyrir aðskasti fyrir það að fara aðrir leiðir í trúmálum. Þetta fyrirbæri kallast að sjá ekki út fyrir eigin nafla.

2) Að mati þáttastjórnenda getur ekkert verið rangt við það að bjóða upp á þjónustu í skólum ef það er ekki skylda að þiggja hana hvaða nafni sem hún nefnist. Ég spyr: Eigum við að bjóða upp á hvað sem er í skólum landsins svo fremi sem nemendur geti valið hvort þeir þiggi þjónustuna eða ekki? Svari nú hver fyrir sig, en ég segi að slíkt gengur ekki upp og hversvegna geta nemendur og fjölskyldurnar ekki sótt þessa sálgæslu í kirkjurnar og safnaðarheimilin sem eru í hverju hverfi. Er ekki tími til að söfnuðirnir nýti sitt eigið húsnæði?

3) Meirihluti landsmanna játar kristna trú og skírir börnin sín er þá ekki bara sjálfsagt að trúarleg starfsemi fari fram innan skólanna spurðu þessir eldkláru þáttastjórnendur. Við eigum að halda okkur við það sem stendur í Aðalnámskrá grunnskóla að skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun. Það er ekki gott fyri samfélag okkar að nemendur séu aðgreindir eftir trúar- og lífsskoðunum, við erum öll manneskjur og í skólunum sem öllum er gert að sækja er það samfélagi okkar ekki til framdráttar að flokka nemendur í flokkarna "okkur" og "hina". Burt með aðgreiningarstefnuna sem líðst í skólunum.

Á morgun verður viðtal við séra Jónu Hrönn Bolladóttur um Vinaleið kirkjunnar í skólum og þá er bara að sjá hvort þáttastjórnendurnir verði eins beittir og fúlir og þeir voru við Reyni í morgun. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir myndu strjúka henni með silkihönskum. Við bíðum og sjáum.

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband