Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Um helgina hef ég verið að undirbúa undirbúnigsnámskeið fyrir borgaralega fermingu sem hefst núna strax eftir helgi. Þetta er ellefta árið sem ég kenni þetta námskeið. Þegar ég byrjaði 1997 voru 50 þátttakendur, á síðasta ári voru þeir 130 og í ár eru þeir 114.
Borgaraleg ferming á Íslandi hófst 1989 og voru aðstandendur hennar harðlega gagnrýndir. Mjög hefur dregið úr gagnrýninni og þykir mörgum þetta vera jákvæð viðbót við líf landsmanna.
Noregur er það land þar sem borgaralegar fermingar eru vinsælastar, en frá árinu 1951 hafa borgaralegar fermingar tíðkast þar í landi. Þess má geta að fyrrverandi forsætisráðherra Noregs Gro Harlem Bruntland var í fyrsta hópnum þar í landi sem fermdist borgaralega.
Margir spyrja um orðið ferming, hversvegna það sé notað sbr. borgaraleg ferming. Því er til að svara að orðið ferming er dregið af latneska orðinu confirmare sem þýðir að styðja eða styrkjast. Ungmennin sem ákveða að fermast borgaralega eru einmitt með þátttöku sinni í borgaralegri fermingu að styrkja sjálfsmynd sína og siðvit.
Á undirbúningsnámskeiðinu er margt tekið til umfjöllunar sem eflir unga fólkið eins og gagnrýnin hugsun, að vera unglingur í auglýsinga og neyslusamfélagi, samskipti unglinga og foreldra, samskipti kynjanna, skaðsemi vímuefna, um sorg, áföll og dauða, um tilgang lífsins og hamingjuna, siðfræði, efahyggju og ýmislegt fleira.
Það sem er ekki síst ánægjulegt við þetta fyrirbæri er hversu fjölbreyttur hópur velur þessa leið. Unglingar allstaðar að af landinu með mismunandi lífsskoðanir og bakgrunn sameinast í rökræðunni um ýmis gildi og sjónarmið. Þarna skiptir trúin engu máli, sumir tilheyra trúfélögum og aðrir ekki en það sem sameinar þátttakendur er það að vera manneskja. Allar manneskjur eiga að geta sest niður og rætt saman burtséð frá trúar éða lífsskoðunum. Því miður er um þessar mundir hart sótt að grunnskólunum að fara ekki þá leið að allir sitji við sama borð í menntun sinni burtséð frá trúar eða lífsskoðunum. Ofstækisfólk heimtar aðgreiningu þeirra sem eru kristnir og þeirra sem ekki eru kristnir og er þeim kristnu gert mun hærra undir höfði í of mörgum skólum. Það er þróun sem er með öllu ólíðandi.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2007 | 13:23
Nördarnir hafa tekið völdin eða heimspeki "aulahrollsins"
Það er svo skrítið að til er upplifun eða tilfinning sem maður fær stundum en veit ekki alveg hversvegna. Fyrirbæri þetta sem kemur að manni nánast án nokkurs fyrirvara við það eitt að birtast manni er ekki svo óalgengt, en samt er svo erfitt að skilgreina hvað það er og hversvegna það kemur. Ég held samt að mjög margir finni fyrir þessari upplifun einhverntíman á ævinni.
Að undanförnu hef ég verið að upplifa þetta við það eitt að fletta dagblöðunum, enda hefur fyrirbæri þetta minnt á sig á býsna mörgum síðum. En hvað kallast þetta fyrirbæri? Jú þetta kallast "Aulahrollur".
Ef fengist væri við aulahroll í orðabók um hugtök í heimspeki þá mætti ætla að þessi hrollur væri skilgreindur eitthvað á þá leið að hér sé upplifun á ferðinni sem vekur hjá þeim sem verður fyrir honum ákveðna samúð en á sama tíma ákveðna andúð fyrir það að birtast allt í senn hallærislega, kjánalega og fíflalega á þann hátt að sá sem veldur hrollinum verður minni fyrir vikið og rýrir álit almennings á sjálfum sér. Semsagt í stuttu máli aulahrollur verður til þess að fólk fær ekki þá löngum að vilja nálgast þann sem stendur að baki því eða þeim sem veldur aulahrollinum. Á slæmri íslensku myndi maður segja að það sem veldur aulahrollinum sé "nördalegt".
Og hvað er það þá sem hefur valdið þessum aulahrolli mínum að undanförnu? Jú ætli ég sé nokkuð einn um að finna fyrir þessu, en það eru að sjálfsögðu auglýsingar Kaupþings á síðum dagblaðanna af ýmist grenjandi fólki eða brosandi fólki sem hefur misst vinnu hjá KB og er farið að vinna hjá Kaupþingi. Þessi nafna fíflagangur, annarsvegar að valta yfir Kaupfélag Borgnesinga með frekju á sínum tíma sem notuðu skammstöfunina KB yfir í það að hætta að nota skammstöfun þá sem Kaupfélagið hafði er svipað og að horfa á kettling elta skottið á sjálfum sér. Eini munurinn á kettinum og Kaupþingsgenginu er sá að kettlingurinn lætur nægja að skemmta sjálfum sér en Kaupþing hefur þörf til þess að planta nördalegum aulahrolli í alla landsmenn nær og fjær.
Svo í morgum þegar ég sá í Fréttablaðinu að einhverjir klárir eru búnir að skrumskæla þessar auglýsingar Kaupþings á þann veg að fólkið á myndunum grenjar ekki yfir því að hafa hætt hjá KB heldur vegna gríðarlegra skulda hjá bankanum með öllum þeim óheyrilegu vöxtum, okurþjónustugjöldum og færslugjöldum sem bankar innheimta verð ég að viðurkenna að mér var dálítið skemmt.
Þarna voru einhverjir á ferð sem ekki eru sáttir við það að nördarnir stjórni bankaómenningu landsins sem ekki hefur það fyrsta markmið að sinna þjónustu við viðskiptavini heldur heldur uppi egóflippi og græðgi einhverra einstaklinga.
Flott andóf hjá ykkur hver sem þið eruð.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 19:54
Gott að vita að Brad Pitt er slæmur í húðinni
Ég hélt á tímabili að blaðið blaðið væri að verða að einhverju en eftir lestur blaðsins í dag þá er ég eiginlega farinn að efast um að það sé þess virði að sóa þeim verðmætum sem fara í að halda úti blaðinu, en með tilliti til náttúrunnar er allt þetta pappírsflóð vafasamt.
Í dag var heil síða lögð undir "athyglisverðar" fréttir svo vægt sé til orða tekið. Fréttirnar tala sínu máli en þær eru t.d. þessar í stuttu máli:
Schwarzenegger jafnar sig, Brad Pitt er slæmur í húðinni, Paris Hilton fer á sjúkrahús og heimsækir veikt barn, Evangeline Lily er þreytt á athyglinni, Penelope Cruz slappaði af á ströndinni, Julia Roberts á von á sínu þriðja barni svo dæmi séu tekin.
Svo fylgja stórar litmyndir með á heilli síðu.
Ef ég fengi að ráða þá myndi ég kjósa að fjölmiðill eins og blaðið myndi rækta af einhverjum myndugleika umfjöllun um íslenskt samfélag með gagnrýnu hugarfari og minka þessar húð og strandfréttir fræga fólksins. Það vakti nefnilega athygli mín að minnsta fréttin í blaðinu, þessu sama blaði og Paris Hilton var að glenna sig utan í veiku barni á flennistórri mynd, var um tuttugu einstaklinga sem hafa hrakist úr Byrginu eftir að skandallinn kom upp þar. Það eitt hefði mátt fara í saumana á og þá að sama skapi minka myndina af Paris og kannski sleppa fréttinni (eða fresta) um Schwarzenegger.
Rífið blaðið upp úr drullunni, það er ekki þess virði (umhverfisins vegna) að eyða því í annað eins dag eftri dag.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.1.2007 kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2007 | 20:55
Að vera "betri " viðskiptavinur í banka eða tilboð um skuldaánauð
Þessi pistill gæti líka allt eins borið titilinn "Skuldir heimilanna og samfélagsleg ábyrgð banka". Ég ákvað samt að láta þetta með "betri" viðskiptavininn verða ofan á en tilefni þessa er að á milli jóla og nýárs fékk ég fallegt litprentað kort frá banka nokkrum hér í borg sem titlaði mig sem "betri viðskiptavin" bankans og bauð mér skuldir. Það er reyndar alltaf þannig að þegar bankinn er að bjóða mér að skulda þá kallast ég "betri viðskiptavinur". En að öðrum kosti kallast ég ekkert sérstaklega "betri viðskiptavinur".
En það sem bankinn bauð mér var að greiða jólaneysluna á 36 mánuðum. 36 mánuðir, er það ekki sama og þrjú ár? Jú ætli ekki, en í kortinu er þessi gengdarlausa lántaka réttlætt með eftirfarandi orðum: "Þetta er einföld leið til að dreifa jólakostnaðinum á lengra tímabil." Ég myndi nú eiginlega helst vilja kalla þetta tilboð um ánauð eða tilboð um þrælahald og hið mesta ófrelsi.
Það sem er sorglegt við þetta er að eflaust eiga margir eftir að láta blekkjast og þiggja þetta viðurstyggilega tilboð þar sem gefið er í skyn að það sé eftirsóknarvert að skulda. Hvað verður þá eftir ár? Hvað verður um jólaneysluna þá? Bætast þá þrjú ár í viðbót til að greiða þá neyslu? Og hvað með árið þar á eftir og svo framvegis út í hið óendanlega.
Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að banki sem býður slíkt neyslutilboð er ekki að huga að hagsmunum viðskiptavina sinna, enda er það bara bankinn sem græðir. Það græðir enginn á því að steypa sér í neysluskuldir.
Þar fyrir utan er það mjög athyglisvert að bankinn tilgreinir hvergi í tilboði sínu hversu mikla vexti þarf að greiða af þessu 36 mánaða láni.
Ég bara spyr, hver er samfélagsleg ábyrgð bankans í þessu máli? Er það ekki í tísku um þessar mundir að tala um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2007 kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007 | 22:41
Græna tunnan kom í dag
Síðan s.l. haust hef ég ásamt fjölskyldu minni verið að myndast við að gerast umhverfisvænni. Við erum farin að flokka sorp í síauknum mæli og í dag kom "græna" sorptunnan sem við pöntuðum hjá borginni fyrir jól. Að hafa græna tunnu þýðir að hún er tæmd hálfsmánaðarlega í stað vikulega og fyrir vikið er okkur umbunað með lægri sorphirðugjöldum eða rúmum 6000kr í stað rúmlega 12.000 sem greitt er fyrir svörtu tunnurnar.
Áður en við fórum að flokka sorpið hélt ég að það yrði meira mál en svo hefur ekki verið reyndin. Flokkunin hjá okkur er á þá leið að gosdrykkjarumbúðir fara í endurvinnsluna, dagblöð, mjólkurfernur og aðrar drykkjarumbúðir úr pappa er farið með í gáma sem finna má vítt og breytt um borgina og allur lífrænn úrgangur fer í sérstaka tunnu sem keypt var í Blómavali og er ætluð til moltugerðar. Úr því verður síðan þessi fína og næringarríka gróðurmold sem sett er í beðin í garðinum hjá okkur, auk þess sem garðaúrgangur fer í hana líka.
Eftir þessa flokkum er svo býsna lítið í raun sem eftir er til þess að setja í þessa venjulegu sorptunnu. Allt er þetta afskaplega einfalt fyrir utan að vera til fyrirmyndar fyrir náttúruna.
Svo er bara um að gera að nota bílinn enn minna.
Allar aðrar hugmyndir um það hvað maður getur gert til þess að verða enn umhverfisvænni eru vel þegnar.
JB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007 | 12:33
Nýtt ár ný síða
Nú hef ég skrif á nýrri síðu, en undafarna mánuði hef ég skrifað á síðuna http://blog.central.is/johannbj . Þar má enn finna skrif mín og myndir.
Á þessari síðu mun ég fyrst og fremst skrifa um samfélagsmál þar sem róttækni og gagnrýni í anda nýsósíalisma mun verða ríkjandi. Það er af mörgu að taka og þörf á róttækum skrifum. Megináherslurnar verða á jafnrétti og félagslegt réttlæti, umhverfis- og náttúruvernd, gegn græðgisvæðingu, neysluhyggju, sóun og óréttlæti.
Að sjálfsögðu mun ég einnig setja inn á síðuna eitt og annað sem tengist mínum áhugamálum og störfum og er þar heimspekin fyrirferðamest.
Nú verður kosið til Alþingis að vori og hefur uppstillingarnefnd Vintrihreyfingarinnar græns framboðs á höfuðborgarsvæðinu lagt til að ég skipi 5. sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þessi síða mun því þjóna sem leið til þess að koma sjónarmiðum mínum á framfæri.
Vonast ég til þess að þið lesendur njótið þessara skrifa og verðið duglegir við að koma sjónarmiðum ykkar á framfæri hvort svo sem þið eruð sammála mér eða ósammála, en skoðanaskipti eru nauðsynleg lýðræðinu í landinu.
Njótið vel.
Jóhann Björnsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)