Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Heimsmet í flokkaflakki?

Nú er það nýjasta í pólitíkinni að Kristinn H. Gunnarsson er kominn í Frjálslyndaflokkinn. Er hann semsagt búinn að prófa Alþýðubandalagið og svo er hann búinn að prófa Framsóknarflokkin og núna er það Frjálslyndiflokkurinn. Þá á hann bara eftir að prófa Samfylkingu, Sjálfstæðisflokk og svo Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Ef við byggjum við tveggja flokka kerfi væri hann kominn til baka aftur til þess flokks sem hann byrjaði í, en hringurinn hér á landi er öllu lengri. Kannski er Kristinn búinn að setja heimsmet í flokkaflakki, hver veit. Og ef svo er þá bara til hamingju Kristinn.

Ég man þegar ég var unglingur í Keflavík fyrir mörgum árum og var að aðstoða við framboð Ólafs Ragnar til Alþingis fyrir Alþýðubandalagið. Þá var alloft skotið á Ólaf fyrir að vera flokkaflækingur þar sem hann hafði ekki alla sína tíð verið í sama flokknum. Ólafur svaraði því alltaf til að hann hefði nú ekki skipt um skoðanir, það væru hinsvegar flokkarnir sem hefði breyst og sjónarmið þau sem þar væru ríkjandi.

Ekki veit ég hvort þetta var að öllu leiti satt og rétt hjá Ólafi enda skiptir það kannski ekki öllu máli. Ég hef lengi kennt nemendum mínum í heimspeki það að ekki sé ástæða til þess að skammast sín fyrir það að skipta um skoðun svo fremi sem maður kemst að einhverju sem maður telur réttara og betra en maður taldi áður. Það er bara eðlilegur farvegur í sannleiksleitinni að ný þekking og viska taki við af þeirri sem eldri er.

En aftur að Kristni. Ekki veit ég hvernig hlutirnir snúa að hans heilabúi.  En það er býsna grunsamlegt að hann skuli reyna fyrir sér í prófkjöri Framsóknarflokksins og þar sem niðurstaðan er honum ekki í hag fer hann í Frjálslyndaflokkinn. Mig grunar því að hér sé því fullkominn atvinnupólitíkus á ferðinni, þ.e.a.s. maður sem ekki kann orðið neitt annað en að vera pólitíkus eða vill ekki vera neitt annað og því eru stefnuskrár flokkanna aukaatriði en sætið aðalatriðið.

Kristinn er ekkert einn um að vekja þessar grunsemdir hjá mér. Það hafa fleiri gengið til liðs við Frjálslyndaflokkin sem ekki hafa náð frama innan sinna gömlu flokka og má þar t.d. nefna Valdimar Leó og ekki má gleyma að Frjálslyndiflokkurinn var upphaflega stofnaður utan um óánægju stjórnmálamanns sem starfað hafði í Sjálfstæðisflokknum. Það væri því kannski nær að segja að Frjálslyndiflokkurinn sé fyrst og fremst einhverskonar endurvinnsla frekar en stjórnmálaflokkur. Þetta er vettvangur sem hefur þann tilgang að blása lífi í það sem aðrir flokkar telja búið að vera.

 

Það má því kannski segja að í framboði í vor séu þrír stjórnmálaflokkar þ.e.a.s Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð, ein endurvinnsla þ.e. Frjálslyndiflokkurinn og svo ein atvinnumiðlun þ.e. Framsóknarflokkurinn en eins og frægt er orðið hefur hann það eina markmið með framboði að koma sínu fólki að í launuð störf á vegum ríkis og sveitarfélaga. En allt saman kallast þetta pólitík, svo skrítið er það.

JB


Óhugnaðurinn í Breiðavík

Fyrir tæpum tveimur árum gisti ég á gistiheimilinu sem nú er rekið í Breiðavík. Í sama húsi og nú berast óhugnanlegar fregnir af grófum mannréttindabrotum. Í spjalli við annað fólk sem þar var barst það til tals að á heimilinu sem rekið var til ársins 1972 hafi illa verið búið að þeim drengjum sem þar var gert að dvelja.  Síðan les ég það í morgun í Fréttablaðinu að Bergsteinn Björgúlfsson kvikmyndagerðarmaður sé að gera mynd um mál barnanna en hann fékk fyrst fregnir af þessu máli frá vini sínum sem gisti á gistiheimilinu á Breiðavík.

Í kjölfar þessa spyr ég mig að því hvort að mál þessara drengja hefði kannski alveg gleymst ef ekki hefði verið farið af stað með rekstur gistiheimilis? Hvað ef húsnæðið hefði farið í eyði, hefði þessi hörmulega saga barnanna þá aldrei komið fram?

Sem betur fer hefur verið vakin athygli á þessu máli og virðist svo vera sem víðtæk sátt sé um að reyna að bæta fórnarlömbum það sem í raun verður aldrei bætt. Það verður þó að segjast eins og er að drengirnir sem enn eru á lífi eru orðnir fullorðnir menn eiga samúð þjóðarinnar allrar. Það er von mín að stjórnvöld beri gæfu til þess að halda á þessu máli af myndarleik. Í viðtali við eitt fórnarlambið í Kastljósi sagði hann að hann óskaði eftir opinberri afsökunarbeiðni frá fulltrúum ríkisins. Mér finnst það sjálfsagt mál og það allra minnsta sem hægt er að gera. 

Að sama skapi verðum við að sjá til þess að svona nokkuð muni aldrei aftur gerast.

En það sem mér finnst óhugnanlegast í þessu máli öllu er að fyrst núna, öllum þessum árum síðar er þetta mál að koma upp. Hvað segir það okkur um siðvit þjóðarinnar? Það skal enginn segja mér það að ekki hafi fjöldi fólks vitað af því hvað átti sér stað þarna. Því er ekki undarlegt að maður spyrji sig að því hversvegna gerði enginn neitt á sínum tíma?

Það er spurning sem ég hef ekki svar við.

JB


Börnin læra að í Moldovíu eru ræktaðar rósir, í Ástralíu eru kindur, í Bandaríkjunum eru bændur tæknivæddir og í Kasakstan er ræktað hveiti en aldrei taka þau tíma í siðfræði

Í vikunni sem leið komu yfir 100 unglingar 14-15 ára hvaðanæva að af landinu í tíma til mín í siðfræði. Flest þeirra ætla sér að fermast borgaralega í vor en einnig tók ég nokkra 9. bekkinga við Réttarholtsskóla í smá siðfræðitíma. Semsagt alls rúmlega 100 unglingar á einni viku í sex hópum.  Ég spurði börnin öll að því hvort þau hafi einhverntíman farið í siðfræðitíma eða hvort þau vissu yfirhöfuð hvað siðfræði væri. Enginn, já ég endurtek enginn af þessum rúmlega 100 einstaklingum hafði nokkurn tíman fengið skipulega leiðsögn í siðfræði á sinni skólagöngu og fæst vissu um hvað siðfræði snýst. Samt eru meira en 4500 ár síðan Aristóteles lagði grunn að siðfræðinni sem skipulegri fræðigrein (jú alveg satt siðfræðin varð ekki til í guðfræðideild Háskóla íslands) 

Nú er alls ekki við börnin að sakast í þessu efni enda geta þau ekki borið ábyrgð á þeirri fræðslu og menntun  sem þau fá í skólunum. En þessi staðreynd segir manni ýmislegt um á hvað er lögð áhersla í  grunnskólum landsins. Til er námsskrá í siðfræði fyrir grunnskóla sem heitir Aðalnámskrá grunnskóla, kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði og er þetta eitt það allra dapurlegasta lesefni sem ég hef nokkurntíman augum litið ekki síst fyrir siðfræðina sem fræðigrein. Í þessu plaggi víða gefið í skyn að maður verði rosalega siðvitur af því einu að að liggja á bæn sem er nú mikill misskilningur.

Í þessu plaggi kemur fram að kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði er allt sjálfstæðar námsgreinar en þær þurfa að deila ráðstöfunartíma með samfélagsgreinum í stundarskrá. Þannig má í hverjum skóla ráðstafa ákveðnum tíma ýmist í samfélagsfræðina eða trúarbrögðin eða siðfræðina. En eins og áður kom fram í máli barnanna er hvergi tíma ráðstafað í siðfræði. Þess í stað er, allavega þar sem ég þekki til miklum tíma af samfélagsfræðikennslunni varið í að undibúa að því er virðist börnin undir nám í alþjóðlegum landbúnaðarháskólum. 

Hin sænska kennslubók Landafræði handa unglingum 2. hefti er kennd af kappi í grunnskólum landsins.  Meira að segja er bókin tekin til samræmdra prófa.  Einkum lögð áhersla á umfjöllun um lönd eins og Moldóvíu, Georgíu, Perú, Ástralíu, Bandaríkin, Kína, Indland og fleiri ágæt lönd og af lestri bókarinnar kemur glöggt fram að mikilvægast er að vita hvað er ræktað í hverju landi.

Börnin verða því "sérfróð" um ræktun og frjósemi moldarinnar víðsvegar um heiminn en enginn fær að sama skapi þjálfun í að styrkja siðvit sitt. Ég ætla nú ekki að segja að það sé alveg glatað að læra um hrísgrjónarækt í Kína og fleiri sniðugt í landbúnaði en öllu má nú ofgera.

En það sem við gerðum í vikunni í siðfræðinni var að styrkja siðvit okkar með því að rökræða með gagnrýnu hugarfari fyrirbæri eins og svindl og svik, hnupl, sanngirni og heiðarleika, samskipti við foreldra og fjölskyldur, aðstoð við nauðstadda og margt fleira sem mikilvægt er að skoða til þess að verða ábyrgur og heiðarlegur borgari. Unglingarnar fengu  að velta því fyrir sér hvernig heimurinn væri ef allir breyttu eins og þau og einnig fengu þau tækifæri til þess að setja sig í spor ýmissa einstaklinga sem takast hafa þurft á við siðferðileg álitamál.

Þetta var því fyrst og fremst þjálfun siðvitsins en breski siðfræðingurinn John Stuart Mill hélt því einmitt fram að siðferðilegur styrkur væri eins og vöðvastrykur eitthvað sem styrktist aðeins við þjálfun.

Eins og fram hefur komið leggja yfirvöld menntamála ekki áherslu á þjálfun siðvits.  Ætli ástæðan sé ekki m.a. sú að landbúnaðarfræði fjarlægra landa er svo mikilvæg að ekki gefst  tími til að rökræða siðferðið. En "skólaanarkistar" eins og ég teljum það  mikilvægt að rökræða siðferðið og því geri ég það bara ef mér sýnist þó svo að nemendurnir missi af því að vita allt um kúasmalana í Keníu. Og lái mér hver sem vill.

JB

 


Hvernig getur Vinaleiðin bæði verið kynnt inni í bekkjum og ekki kynnt inni í bekkjum sama daginn?

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá nokkrum manni að svokölluð Vinaleið sem stunduð er í ýmsum skólum er mjög umdeilt fyrirbæri. Vinaleiðin er samstarfsverkefni kirkju og skóla og felst í sálgæslu kirkjunnar manna við skólabörn. Menntamálaráðuneytið er að skoða réttmæti þess að fólk frá trúfélögum starfi innan almennra grunnskóla og er þess beðið með eftirvæntingu að úrskurður komi frá ráðuneytinu um þessi samskipti krikju og skóla. Á meðan er starfsemi Vinaleiðar í fullum gangi en fulltrúar hennar hafa samt sem áður viljað telja almenningi trú um að ekki sé með neinum hætti verið að troða henni ofan í kokið á börnunum án samþykkis eða vitneskju foreldranna. Fram kom í Frétablaðinu í dag að Séra Jóna Hrönn Bolladóttir sagði á Stöð tvö að þeir sem starfa að Vinaleiðinni séu einungis til staðar en séu ekki að koma inn í bekki. Eða með hennar eigin orðum: "Sko, það er náttúrulega einfaldlea þannig, þessir fulltrúar eru ekki að koma inn í bekkina, tíma og bekkina. Þetta fólk kemur og er þarna í hverjum skóla einn dag í viku og þetta er tilboð um að koma til þeirra."

Síðan kemur fram í Fréttablaðinu að sama dag hafi Hans Guðberg Alfreðsson sóknarprestur verið inni í bekkjum í Hofstaðaskóla og boðaði þar ágæti Vinaleiðarinnar.   Og þá kemur  Jóna Hrönn með yfirlýsingu sem er að mörgu leyti frekar óskýr en ef ég skil hana rétt endurtekur hún að starfsemi vinaleiðar sé ekki starfrækt í bekkjum en hún gefur í skyn að það sé rétt að fulltrúi Vinaleiðar hafi farið í bekki og endar svo á þessari óskiljanlegu setningu: "Prestur og djákni voru ráðin í verkefnið en ekki huldufólk."

Ég satt að segja vona að Menntamálaráðuneytið fari nú að bera gæfu til þess að flýta vinnu sinni að þessu máli og komi með skýrar verklagsreglur um samskipti trúfélaga og skóla. Það er alveg ómögulegt fyrir fólk að vita ekki hvað er satt og hvað ósatt þegar einn fulltrúi krikjunnar segir í fjölmiðli að fulltrúarnir séu ekki inni í bekkjum á meðan annar fulltrúi er sama daginn inni í bekkjum að kynna börnunum Vinaleiðina. Það er því ekkert skrítið að maður nokkur hafi spurt: "Hvort var Jóna Hrönn að segja ósatt í sjónvarpinu eða vissi hún ekki betur?"

JB


Hvað ef 63 "Árnar Johnsenar" ættu sæti á þingi? Pæling um siðferðilega ábyrgð í pólitík

Um helgina sá blaðið ástæðu til þess að leggja Árna nokkrum Johnsen lið í kosningabaráttu hans en nokkurrar óánægju hefur gætt um framboð hans meðal annars á meðal samflokksmanna hans. Fékk Árni þriggja síðna viðtal þar sem ekki var mikið stuggað við honum. Þegar ég las viðtalið við hann kom mér í hug setning sem Þorsteinn Gylfason lét falla í fyrirlestri fyrir löngu síðan, en hann sagði: "Samfélag eintómra nytjastefnumanna, eintómra stjórnmálamanna, er siðlaust samfélag. Eina vonin um siðferði samfélagsins er sú að á meðal þegna þess séu margir menn sem ekki eru stjórnmálamenn." Fyrirlestur Þorsteins má lesa í heild sinni í Hug tímariti Félags áhugamanna um heimspeki. (ég man ekki hvaða ár en fljótlegt ætti að vera að finna þetta).

Ástæðan fyrir því að fyrrnefnd orð Þorsteins komu upp í hugann er væntanlega sú blinda sem Árni er haldinn á eigin "tæknilegu mistök", persónulega ábyrgð og áhrif breytni hans á samborgarana. Það hvarflar ekki að honum að óánægja með að hann skuli stefna á þing sé því um að kenna að hafa brotið af sér sem alþingismaður og formaður bygginganefndar Þjóðleikhússins. Hann telur þvert á móti að þeir óánægðu séu óánægðir vegna þess að hann er beinskeyttur og fylginn sér eða eins og hann orðar það sjálfur: "Ég er sennilega nokkuð beinskeyttur og fylginn mér og kannski er það einmitt það sem sumir þola ekki. Þegar menn eru tilbúnir að taka af skarið, hafa ákveðnar skoðanir og skila árangri, verða þeir umdeildir."

Menn verða umdeildir vegna skoðana sinna segir Árni en það hvarflar ekki að honum að hann sé núna fyrst og fremstu umdeildur fyrir þau brot sem hann framdi.

Málið er hið vandræðalegasta. Margir sjálstæðismenn eru óhressir með framboð hans en það vekur hinsvegar athygli hversu margir sitja hljóðir hjá og taka ekki afstöðu, tjá sig ekki um málið. Það er súrt. Þegar stjórnmálamenn hafa gerst sekir um brot sem hvorttveggja eru siðferðilega sem og lagalega ámælisverð þarf að ræða málið opinskátt. Það hefur ekki verið gert. Það þarf að nálgast málið öðruvísi en gert hefur verið. Kjósendur eiga að spyrja sig að því hvort þeir gætu sætt sig við það að 63 "Árnar Johnsenar" á þingi væru góður kostur fyrir landsmenn. Ef allir alþingismenn, ef allir ráðherrar hefðu þann brotaferlil á bakinu sem Árni hefur væri það góður kostur fyrir þjóðina?

Ég hef lengi staðið í þeirri trú að best sé að meta kosti fólks ekki út frá því sem það segir heldur út frá því sem það gerir og hefur gert. Þessa afstöðu tók ég fyrir löngu síðan eftir að ég tók til við að lesa franska heimspekinginn Jean Paul Sartre af kappi. Hann kenndi mér að sérhver einstaklingur væri sífellt að skapa sjálfan sig með breytni sinni og enginn væri í raun betri né verri en það sem hegðun og breytni viðkomandi segði til um.  Og það sem meira er; sérhver einstaklingur er fullkomlega frjáls að því hvernig hann breytir og á ávallt að spyrja sig að því hvernig heimurinn væri ef allir höguðu sér eins og maður sjálfur. T.d hvað ef allir tækju ýmislegt sem þeim langaði í ófrjálsri hendi? Hvernig væri samfélag okkar þá? Samkvæmt þessari hugsun er ekki hægt að skýla sér á bakvið eitthvað sem kallast "tæknileg mistök". Sartre orðaði þessa hugsun sjálfur svohljóðandi: "

"Og hverjum manni ber að segja við sjálfan sig: er ég áreiðanlega slíkur maður að ég hafi rétt  til að haga mér þannig að mannkynið taki sér athafnir mínar til fyrirmyndar?" (Existentialism est un  humanisme)

Mætti ég biðja stjórnmálamenn um að spyrja sig oftar þessarar spurningar.

JB

 


Eldri borgarar og öryrkjar vinna gegn eigin hagsmunum

Eldri borgarar og öryrkjar hafa nú um nokkurt skeið gefið sterklega í skyn áhuga á þingframboði. Svo er það núna í morgun sem Fréttablaðið greinir frá því að líklega megi búast við framboði og það sem meira er að e.t.v. verða framboðin tvö frekar en eitt. Rætt var við þau Arnþór Helgason og Arndísi H. Björnsdóttur og segir Arndís það ekki koma til greina að bjóða fram tvo lista þessara hópa, en hún bætir því svo við að hinn hópurinn sem Arnþór Helgason fer fyrir ásamt öðrum sé velkomin að ganga til liðs við hennar hóp. Á móti segir Arnþór að hann vænti þess að fólkið sem er í liði Arndísar muni ganga til liðs við þann hóp sem hann starfar í . Þannig eru öryrkjar og eldri borgarar nú klofnir í tvær fylkingar. Spyrja má hvort það séu hagsmunir öryrkja og eldri borgara að bjóða fram sér hvort sem um verði að ræða eitt framboð eða tvö. Ég tel það alveg augljóst að hagmunum þeirra verður ekki þokað í rétta átt með tveimur framboðum, það er alveg ljóst. Ég dreg það líka í efa að eitt framboð komi til með að vera til hagsbóta fyrir eldri boragar og öryrkja nema kannski helst sem leið til þess að vekja athygli á málstað sínum.

Sú leið sem þessir hópar eiga að fara að mínu mati er að vinna af krafti innan stjórnmálaflokkanna. Það eru flokkar sem starfa innan þings sem hafa áhuga á að rétta hlut öryrkja og eldri borgara og nefni ég Vinstrihreyfinguna- grænt framboð sem dæmi. Sérframboð öryrkja og eldri borgara myndi að öllum líkindum taka fylgi frá þeim flokkum sem vilja vinna að málefnum þessara hópa. Og spyrja má hvað væri unnið með því? Það er hægt að komst að innan a.m.k. VG og hafa áhrif.

Síðastliðið vor vakti athygli þegar Paul Nikolov sagðist stefna að stofnun innflytjendaflokks sem ætti að bjóða fram til Alþingis og sveitarstjórna. Paul gaf því tækifæri að ganga til liðs við Vinstrihreyfinguna grænt framboð í stað þess að stofna flokkinn og freista þess að koma sínum hugðarefnum að þar og viti menn hvað hefur gerst? Jú nú mun Paul skipa 3. sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík norður, öflugt málefnastarf og stefnumótun um málefni innflytjenda fer nú fram innan VG sem stýrt er af honum ásamt Toshiki Toma presti innflytjenda og fleiri góðra einstaklinga. Þarna hefur klárlega verið sýnt að sérframboð þarf ekki alltaf til til þess að koma góðum málum á framfæri í stjórnmálum.

JB


Smá hugmynd fyrir auðjöfra í hamslausri "pissukeppni"

Á sama tíma og biðröðin hjá Mæðrastyrksnefnd hefur aldrei verið lengri en núna fyrir jólin hefur samkeppni ýmissa íslenskra auðjöfra eða "pissukeppni" eins og sumir kjósa að kalla samkeppnina aldrei verið meiri í veisluhöldum. Einn reynir að toppa annan í að greiða misgóðum skemmtikröftum sem mest þeir mega. Markmiðið með þessum nýársveislum virðist fyrst og fremst felast í því að eyða sem mest af peningum, burtséð frá því hvort eitthvað vit sé í því sem fengið er fyrir aurana. Og ekki hvarflar að neinum að setja fólkið í biðröðinni hjá Mæðrastyrksnefnd á gestalistann.

En nú er komin fram ágæt hugmynd sem auðjöfrarnir gætu pælt í. Þetta vandamál, þegar samkeppnin fer úr böndunum er ekkert ný. Í Fréttablaðinu í dag var nefnilega greint frá því að vestur í Bandaríkjunum hefur samkeppnin í barnaafmælum gjörsamlega farið úr böndunum hve íburð varðar. Foreldrar þar vestra hafa því tekið sig saman og ætla að "afvopnast" í metingi sínum um íburðamestu afmælisveisluna. Stinga samtökin upp á því að foreldrar fylgi ákveðnum reglum til þess að stuðla að hógværari og streituminni veislum.

Er þetta ekki eitthvað sem veisluglaðir íslenskir auðmenn gætu gert, bundist samtökum um hógværar og streitulitlar hátíðir og kannski látið eitthvað í staðinn af aurunum sem þeir vilja losna við í góð málefni nú eða bara lækkað þjónustugjöld bankanna fyrir almenna viðskiptavini?

Þetta var nú bara svona smá pæling, vonandi getur einhver nýtt hana.

JB

 


Róttæka jafnaðarstefna eða nýsósíalismi í mikilli sókn

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að samkvæmt könnun blaðsins bætir Vinstrihreyfingin grænt framboð verulega við sig fylgi sé tekið mið af gengi flokksins í síðustu kosnngum. Nú fengi flokkurinn á landsvísu 12 þingmenn en hefur 5. 19,4% svarenda segjast ætla að kjósa flokkinn.

Vissulega ber að taka skoðanakannanir með fyrirvara en hér er ótvíræð vísbending um að flokkurinn er á réttri leið. Það vekur hinsvegar athygli að Samfylkingin sem átti að vera stóri jafnaðarmannaflokkurinn hér á landi er litlu stærri en VG.

Mjög góð málefnastaða flokksins er greinilega að skila sér í góðu gengi, en þær áherslur sem flokkurinn hefur eru vel til þess fallnar að æ fleiri ganga til lið við flokkinn. Má þar nefna örfá mál:

* Atvinnustefnan. Að horfið verði frá stóriðjustefnunni og lögð áhersla á fjölbreytt atvinnulíf þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki verði vaxtarbroddurinn. Hugvitið virkjað.

* Sjálfstæð utanríkisstefna er lykill að velferð þjóðarinnar þar sem við eigum gott samstarf við aðrar þjóðir en grenjum okkur ekki inn í Evrópusambandið og klifum sí og æ á því að krónan sé ónýt eins og formaður Samfylkingarinnar gerir.

* Velferðarstefna. Við höfum verið að horfa upp á það gerast að við erum að hverfa frá hinni svokölluðu norrænu velferðarstefnu sem ríkt hefur og skilað okkur jöfnuði og velferð. Launamunur, græðgisvæðing og óréttlæti er að aukast og við því þarf að bregðast með róttækri jafnaðarstefnu eða  nýsósíalisma að vopni.

* Náttúruvernd og umhverfismál. VG hefur sýnt það og sannað að flokksmenn eru einhuga um róttæka og framsýna náttúrverndar og umhverfisstefnu þar sem áhersla er lögð á að skila afkomendum okkar góðu búi með tilliti til umhverfis og náttúru. Hér skiptast flokksmenn ekki í fleiri en eina fylkingu eins og tíðkast í öðrum flokkum. Hér er einn mikilvægasti málaflokkurinn á ferðinni og VG hefur einn flokka sýnt það að honum er treystandi til þess að láta náttúruna njóta vafans af brölti mannfólksins.

* Jafnrétti og kvenfrelsi. VG hefur á að skipa frábærum einstaklingum, konum og körlum sem vinna saman og telja mjög brýnt að allir fái notið sín í samfélaginu á  jafnréttisgrundvelli. Hér er ekki um orðin tóm að ræða heldur hafa félagar í VG sýnt í verki að jafnréttismálin eru alvöru málaflokkur.

Margt annað mætti nefna sem gerir það að verkum að fylgi VG eykst. En ég minni á að hér er aðeins um skoðanakönnun að ræða og því brýnt að sem flestir gangi til liðs við flokkinn og tryggi honum góða kosningu í vor.

Við sem stöndum að Reykjavíkurfélagi VG hvetjum sem flesta að koma og vera með. Á hverjum laugardegi erum við með svokallaða laugardagsfundi kl. 11-13 að Suðurgötu 3 þar sem ýmis mál eru rædd í hópi góðra félaga.

JB

 


Vel heppnuð barnauppreisn á Seltjarnarnesi og fíflaleg viðbrögð kennarans

Ég verð að játa það að mér finnst unglingar sem hafa skoðanir og eru óhræddir við að láta þær í ljós vera til fyrirmyndar. Í ljósi þess fannst mér fréttin sem birtist í Fréttablaðinu núna föstudaginn 19.janúar af barnauppreisninni á Seltjarnarnesi fyrir jólin vera frábær.

Ungum stúlkum í Valhúsaskóla var nóg boðið þegar þeim var af gert skylt að mæta í kirkju á skólatíma skömmu fyrir jól og mótmæltu. Fyrir þetta fengu þær bágt fyrir frá kennara. Þær létu þennan fávísa kennara um almenn mannréttindi ekki á sig fá heldur tóku til við að safna undirskriftum málstað sínum til stuðnings sem þær fóru með til framkvæmdarstjóra fræðslu og menningarsviðs. Í kjölfar þess boðaði skólastjóri til kennarafundar og varð úr að kenararnir og þá væntanlega sá sem gaf stúlkunum bágt fyrir lögðu niður vopn og játuðu sig sigraða. Framvegis mun sá háttur verða á að nemendur fá val um það hvort þeir fari í kirkju eða verði í skólanum í einhverju öðru.

Faðir einnar stúlkunnar Ólafur Darri Andrason  komst að kjarna málsins í viðtali við Fréttablaðið þar sem hann sagði: "Þær voru þarna nokkrar valkyrjur sem voru ósáttar við að kirkjuferðin væri skylda en ekki valkostur. En þetta gekk ekki út á neina herferð gegn kristinni trú. Þetta gekk út á að  börnin hefðu leyfi til að vera öðruvísi. Í fjölmenningarsamfélagi þarf jú að taka tillit til allra."

Það sem vekur athygli í þessu máli er að allan tímann var rétturinn hjá stúlkunum. Það fer ekkert á milli mála að í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um það að þegar trúarleg málefni eru til umfjöllunar skuli boðið upp á valkost handa þeim sem kjósa að taka ekki þátt. Það er því með ólíkindum  hversu fáfróður skólastjórinn Sigfús Grétarsson er um málið þar sem hann segir að fyrst núna í kjölfar þessa máls verði boðið upp á valkost. Ég dreg í efa að menn sem hafa ekki haft hugmynd um almenn trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasamþykkta eigi erindi í starf skólastjóra. Sama má segja um kennarann sem í frekju sinni gefur stúlkunum bágt fyrir það að fara fram á að almenn mannréttindi séu virt.

Fólk sem hagar sér á þennan hátt getur ekki talist fyrirmyndir unga fólksins því miður.

En stúlkurnar eiga mikið hrós skilið. Flott hjá ykkur stelpur.

Í ljósi þessa hrikalega misskilnings skólastjóra og kennara í Valhúsaskóla læt ég fylgja með valdar tilvitnanir úr Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna:

"Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska."

"Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar."

Gáum að þessu.

JB


Hversvegna eiga þeir sem standa utan trúfélaga að leggja fé til Háskóla Íslands umfram aðra?

Í blaðinu í dag er fjallað um frétt frá Hagstofunni um stöðu þjóðarinnar í trúar - og lífsskoðanamálum. Fram kemur að í landinu eru skráð 27 trúfélög og eru flest þeirra smá og aðeins sex trúfélög telja fleiri meðlimi en 1000. Þetta er í sjálfu sér gott mál og sjálfsagt í lýðræðisríki að fólk geti stofnað félag og fengið það skráð utan um trú sína. Eins og alkunna er tekur hið opinbera að sér að rukka inn lögbundin sóknargjöld fyrir söfnuðina sem notuð eru til þess að reka umrædda söfnuði og veita  meðlimum sínum ýmsa þjónustu og stuðning.

Einn hópur er þó hér á landi sem ekki á kost á því að njóta þessara svokölluðu sóknargjalda. Þetta er hópur sem greiðir þessa lögbundu greiðslu en fær ekkert fyrir þá greiðslu. Þetta eru þeir sem standa utan trúfélaga og eru alls 2,6% þjóðarinnar. Þessu fólki er gert skylt að greiða sín gjöld til Háskóla Íslands í sjóð sem kallast Háskólasjóður og er ekki notaður í þágu þeirra sem í hann greiða.

Hér er freklega brotið á þeim sem kjósa að standa utan trúfélaga og hefur  stjórnmálamönnum ítrekað verið bent á óréttmæti þess að þessi hópur fái ekki notið þessara fjámuna. Þingmennirnir okkar hafa hinsvegar klárlega sýnt þessum hópi mikla lítilsvirðingu og vilja ekki rétta hlut hans enda kannski ekki skrítið þar sem þeir fá iðulega línuna frá biskupi 82% landsmanna áður en þeir ganga til vinnu sinnar.

Norðmenn hafa hinsvegar viðurkennt rétt þeirra sem standa utan trúfélaga og fá þeir sem það gera og eru aðilar að félagsskap sem heitir Human Etisk Forbund að greiða sín gjöld í það félag. Félagið var stofnað árið 1956 og nú hefur það fulla réttarstöðu á við hvert annað trúfélag í Noregi. Það hefur leyfi til þessa að sjá um útfarir og giftingar. Meðlimir þess eru 69.000 og er þetta annað stærsta lífsskoðunarfélagið þar í landi á eftir norsku þjóðkirkjunni. Hjá þessu félagi getur fólk fengið eitthvað fyrir þau gjöld sem það greiðir sem er nú eitthvað annað en það sem við hér á Íslandi fáum. En okkur sem stöndum utan trúfélaga er gert að koma HÍ í hóp 100 bestu háskóla heims með fjármunum okkar.

Hér á landi hefur frá árinu 1989 verið starfrækt félag sem er sambærilegt við hið norska Human Etisk Forbund og heitir Siðmennt. Siðmennt hefur í mörg ár staðið fyrir borgaralegum fermingum og er í bígerð á þessu ári að fara að þjálfa fólk sem getur tekið að sér borgaralegar útfarir. Mun það verða gert í samstarfi við Human Etisk Forbund. Siðmennt hefur lengi barist fyrir því að fá sömu réttarstöðu og trúfélög hafa en stjórnmálamenn hafa verið ófáanlegir til þess að vilja taka undir það réttlætissjónarmið. Vitað er um einstaka stjórnmálamenn sem  styðja málstað Siðmenntar í hjarta sínu en eru of kjarklausir og ofurseldir flokksaganum að þeir láta kjurt liggja.

Þessvegna er lögsókn næsta skrefið.

JB


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband